Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-23
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Forsjársvipting
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 4. mars 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. febrúar 2022 í máli nr. 566/2021: A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó ekki að sérstök rök standi til að verða við henni önnur en eðli hagsmuna leyfisbeiðanda.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að leyfisbeiðandi verði sviptur forsjá dóttur sinnar á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að margháttuð stuðningsúrræði hefðu verið reynd til að styrkja leyfisbeiðanda í því að rækja forsjárskyldur sínar. Litið hefði verið til þriggja forsjárhæfnismata sem lágu fyrir í málinu þar á meðal til matsgerðar dómkvadds matsmanns. Niðurstöður þeirra hafi verið á einn veg um að leyfisbeiðandi byggi ekki yfir nauðsynlegri hæfni til að fara með forsjá dóttur sinnar. Við mat á því hvort skilyrðum barnaverndarlaga fyrir forsjársviptingu væri fullnægt hefði verið tekið tillit til þeirra takmarkana sem leyfisbeiðandi byggi við og reynslu af þeim víðtæku stuðningsúrræðum sem hann hefði notið. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að svipta leyfisbeiðanda forsjá dóttur sinnar.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Þannig varði málið réttindi fatlaðs foreldris til sérhæfðs stuðnings við uppeldi barns síns samkvæmt lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tengsl þeirra réttinda við meginreglur barnaverndarlaga. Vísar leyfisbeiðandi til þess að ekki liggi fyrir skýrt fordæmi um inntak þeirra réttinda sem fatlaðir foreldrar skuli njóta. Þá vísar hann til þess að með ákvörðun Landsréttar um gjafsóknarkostnað hafi verið brotið gegn lögbundnum rétti hans til að njóta gjafsóknar í málinu. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem um sé að ræða rétt hans til að halda forsjá dóttur sinnar. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur þar sem niðurstöður matsgerða séu rangtúlkaðar og stuðningsúrræði ekki fullreynd.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að forsjá barna. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.