Hæstiréttur íslands
Mál nr. 466/2006
Lykilorð
- Höfundarréttur
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 22. mars 2007. |
|
Nr. 466/2006. |
Attachmate WRQ(Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Reiknistofu lífeyrissjóðanna ehf. (Erla S. Árnadóttir hrl.) og gagnsök |
Höfundaréttur. Skaðabætur.
A og R gerðu með sér samning í desember 1990 um kaup á nytjaleyfi forrits fyrir 30 einkatölvur á vegum R. Var þar kveðið á um skyldu R til að hafa samband við A eða söluaðila ef hann vildi fjölga leyfum og keypti félagið síðar tíu leyfi til viðbótar. A byggði á því að R hefði brotið gegn höfundarétti hans með því að hafa afritað og dreift umræddu forriti heimildarlaust og að hann bæri bótaábyrgð samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972. R viðurkenndi að fleiri hefðu notað forritið en um hefði verið samið og greiddi fyrir viðurkenndan fjölda undir rekstri málsins. Talið var að R hefði brotið gegn skyldu sinni samkvæmt samningnum til að leita leyfis fyrir fleiri notendum og að hann bæri skaðabótaábyrgð á þeim grunni. Þar sem R hefði ekki sýnt fram á að tengdir notendur hefðu verið færri en þeir 150 sem A hélt fram, var talið að honum bæri að greiða fyrir þann fjölda að frádregnum þeim, sem um hefði verið samið, og þeim sem þegar hefði verið greitt fyrir. Fjárhæð bótanna var ákveðin eftir samningi aðila og gjaldskrá A með magnafslætti. Krafa A var jafnframt reist á viðhaldssamningi sem gerður hafði verið á milli B og R, en R var sýknað af þeirri kröfu vegna aðildarskorts A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 24. ágúst 2006. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér 34.677.517 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2001 til 18. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.855.200 krónum, sem gagnáfrýjandi greiddi 27. mars 2006 og 911.280 krónum sem hann greiddi 22. desember 2006. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 8. nóvember 2006. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en að aðaláfrýjandi greiði sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Aðilaskipti hafa orðið að málinu þar sem Reiknistofa lífeyrissjóðanna ehf. hefur tekið við aðildinni af Landsteinum Streng hf. Þá hefur gagnáfrýjandi greitt inn á kröfu aðaláfrýjanda, svo sem fram kemur í kröfugerð hans.
I.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Svo sem þar kemur fram gerðu félög, sem aðilar þessa máls leiða rétt sinn frá, með sér samning í desember 1990 á staðlað samningseyðublað aðaláfrýjanda um kaup á nytjaleyfi forrits fyrir 30 einkatölvur á vegum gagnáfrýjanda. Forrit þetta kallast Reflection 1+ og er skjáhermisforrit sem gerir það kleift að tengjast miðlægu tölvukerfi í gegnum útstöð. Gagnáfrýjandi er í eigu nokkurra lífeyrissjóða, sem reka sameiginlega tölvumiðstöð, og var skjáhermirinn notaður til þess að veita starfsmönnum þeirra fjaraðgang að kerfum hans. Aðaláfrýjandi lét gagnáfrýjanda í té tölvudisk til að setja hugbúnaðinn í leyfilegan fjölda tölva. Í samningnum er kveðið á um að vilji gagnáfrýjandi fjölga leyfum skuli hann hafa samband við aðaláfrýjanda eða söluaðila varðandi verð og útgáfu forritsins, en að lágmarki skuli bæta við fimm leyfum. Gagnáfrýjandi keypti síðar 10 leyfi til viðbótar í sama skyni, þar af fimm svokölluð IBM leyfi. Í samningnum er sérstaklega kveðið á um bann við afritun, sölu og framsali á eintökum sem samningurinn tekur til. Þá er í samningnum kveðið á um að leyfishafi geti keypt nýjar uppfærslur forritsins með tilteknum skilmálum. Efni samningsins er nánar rakið í héraðsdómi. Þá liggur frammi í málinu svokallaður viðhaldssamningur milli Boðeindar sf. og gagnáfrýjanda frá 27. febrúar 1996. Þar er kveðið á um að fyrir greiðslu samkvæmt fylgiskjali fái gagnáfrýjandi allar nýjar aðalútgáfur af Reflection hugbúnaði sem þar greini.
Aðaláfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að gagnáfrýjandi hafi með ólögmætri hagnýtingu á tölvuforritinu brotið gegn höfundarétti sínum með því að hafa afritað og dreift því heimildarlaust og beri gagnáfrýjandi bótaábyrgð á tjóni sínu samkvæmt 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Reisir hann kröfu sína á því að svokallaðir samtímanotendur á vegum gagnáfrýjanda hafi ekki verið færri en 150 talsins.
Gagnáfrýjandi hefur viðurkennt að fleiri hafi notið hugbúnaðarins en um hafði verið samið og hefur undir rekstri málsins og eftir uppkvaðningu héraðsdóms greitt fyrir viðurkenndan fjölda og krefst því sýknu af frekari kröfu. Hann reisir málatilbúnað sinn á því að eftir samningi aðila hafi hann átt rétt á að semja um fleiri notendur og beri því að líta á greiddar bætur til aðaláfrýjanda sem skaðabætur innan samninga. Að öðru leyti má vísa til héraðsdóms um málsástæður aðila.
II.
Eins og að framan greinir sömdu aðilar sín á milli um nýtingu gagnáfrýjanda á tölvuforriti og uppfærslum þess og jafnframt um rétt hans til þess að semja um fleiri notendur á sínum vegum. Gagnáfrýjanda var því heimil notkun hugbúnaðarins og braut hún ekki í bága við höfundalög svo lengi sem fjöldi notenda á hans vegum var innan marka samningsins. Gagnáfrýjandi hefur viðurkennt að hafa brotið gegn ákvæði samningsins um að leitað skuli leyfis fyrir fleiri notendum á hans vegum á forritinu en upphaflega var samið um. Með þessu braut hann gegn skyldum sínum samkvæmt samningnum og ber skaðabótaskyldu á þeim grunni. Hann hefur ekki sýnt fram á að tengdir notendur hafi alls verið færri en þeir 150, sem aðaláfrýjandi heldur fram, og ber honum því samkvæmt samningnum að greiða fyrir þann fjölda að frádregnum þeim, sem um var samið, og þeim sem nú hefur verið greitt fyrir. Fjárhæð bótanna verður að ákveða eftir samningi aðila og gjaldskrá aðaláfrýjanda með magnafslætti eða 35.910 krónur fyrir hvert leyfi og miðast við útsöluverð á stökum leyfum, en annað verð verður ekki ráðið af gjaldskránni. Gagnáfrýjandi hafði greitt fyrir alls 40 leyfi og bar honum því að greiða fyrir 110 leyfi til viðbótar eða samtals 3.950.100 krónur.
Viðhaldssamningurinn, sem aðaláfrýjandi reisir kröfu sína einnig á, var gerður af Boðeind sf. og gagnáfrýjanda. Fyrir héraðsdómi fullyrti fyrirsvarsmaður Boðeindar sf. að samningurinn hafi verið gerður í umboði aðaláfrýjanda sem eiganda hugbúnaðarins. Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing Boðeindar sf. 3. október 2006, þar sem þetta er áréttað og jafnframt lýst yfir að krafa félagsins á grundvelli samningsins væri framseld aðaláfrýjanda. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt þessu sem of seint fram komnu. Aðaláfrýjandi bar ekki fyrir sig í héraði að hann væri kominn að kröfunni fyrir framsal og er málsástæða hans á þeim grunni of seint fram komin. Ber með skírskotun til forsendna héraðsdóms að staðfesta niðurstöðu hans um sýknu gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda um bætur vegna brota á þessum samningi.
Fallist verður á með héraðsdómi að ekki séu skilyrði til að dæma aðaláfrýjanda miskabætur. Þá verður staðfest ákvæði héraðsdóms um vexti og málskostnað.
Niðurstaða málsins verður því sú að gagnáfrýjanda ber að greiða aðaláfrýjanda 3.950.100 krónur með vöxtum eins og í héraðsdómi greinir, en að frádregnum innborgunum að fjárhæð 1.855.200 krónur, sem fram fór 27. mars 2006, og 911.280 krónur 22. desember sama ár.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber gagnáfrýjanda að greiða aðaláfrýjanda upp í málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Þingmálið er íslenska. Það athugast að samningur aðila er lagður fram á enskri tungu og tekinn þannig upp í héraðsdóm.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Reiknistofa lífeyrissjóðanna ehf., greiði aðaláfrýjanda, Attachmate WRQ, 3.950.100 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2001 til 18. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.855.200 krónum, sem greiddar voru 27. mars 2006, og 911.280 krónum, sem greiddust 22. desember sama ár.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. mars sl., en endurupptekið og flutt að nýju hinn 31. maí sl., var höfðað fyrir dómþinginu af WRQ, Inc., nú Attachmate WRQ, Dexter Avenue North, Seattle,WA 98109 USA á hendur Landsteinum Streng hf., Ármúla 7, 108 Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 16. september 2005.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda 34.677.517 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. febrúar 2005 til greiðsludags. Þá krafðist stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi yrði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Til vara krafðist stefndi þess, að dómkröfur stefnanda yrðu lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
II
Stefnandi er bandarískt hugbúnaðarfyrirtæki með höfuðstöðvar í Seattle í Bandaríkjunum. Meðal forrita sem stefnandi framleiðir er „Reflection HP“, sem er skjáhermisforrit sem gerir það kleift að tengjast miðlægu tölvukerfi í gegnum útstöð sem staðsett er utan hins miðlæga tölvukerfis.
Á árinu 1985 stofnuðu nokkrir lífeyrissjóðir Reiknistofu lífeyrissjóða sem almenn félagasamtök í þeim tilgangi að annast gagnavinnslu fyrir lífeyrissjóðina.
Stefndi kveður, að á fundi hinn 6. desember 1990 hafi stjórn Reiknistofunnar samþykkt tilboð Boðeindar sf. um kaup á 30 samtímaleyfum á svokölluðum Reflection 1+ hugbúnaði sem er skjáhermir fyrir HP 3000 móðurtölvur. Umsamið verð var 400.000 krónur. Í kjölfar þessa var útbúinn samningur á staðlað samningsform fyrirtækisins Walker Richer & Quinn, Inc., sem undirritaður var af hálfu Jakobs H. Ólafssonar f.h. Reiknistofu lífeyrissjóðanna en af hálfu Bjarna Sigurðssonar f.h. Boðeindar sf. og einnig af hálfu Walker Richer & Quinn, Inc.
Stefnandi kveður, að árið 1990 hafi hann selt óskráðu sameignarfélagi, Reiknistofu Lífeyrissjóðanna, nytjaleyfi fyrir 30 notendur á hans vegum eða, eins og greini í samningnum, „...for use on personal computers owned and controlled by the Licensee...“. Reiknistofan var í eigu 15 lífeyrissjóða og var sameiginleg tölvumiðstöð fyrir þessa lífeyrissjóði.
Stefnandi heldur því fram að með samningnum hafi Reiknistofunni verið heimilt að setja hugbúnaðinn inn á 30 tölvur í eigu og undir stjórn leyfishafa. Hafi stefnandi látið Reiknistofunni í té „master“ diskettu til að setja upp hugbúnaðinn á leyfilegan fjölda tölva. Í samningnum sé kveðið á um að ef Reiknistofan vildi fjölga leyfum skyldi haft samband við stefnanda eða söluaðila varðandi verð og útgáfu forritsins. Viðbótarfjöldi skyldi vera 5 að lágmarki. Síðar keypti Reiknistofan alls 10 leyfi til viðbótar af umboðsmanni stefnda hérlendis sem er Boðeind ehf. Alls keypti Reiknistofan því 40 leyfi, 5 svokölluð IBM leyfi, þ.e. sem tengdust AS 400 tölvum og svo 35 svokölluð HP leyfi sem eru til miðlægrar notkunar á HP 3000 tölvur.
Í samningnum sé kveðið á um bann við afritun, sölu og framsali á eintökum sem samningur tekur til, sbr. þar sem segir: „...no copy created under the terms of this agreement may be sold or transferred and this license may not be assigned, sublicensed or otherwise transferred by the Licensee without prior consent of WRQ...“ Í samningnum sé kveðið á um að viðhaldssamning/uppfærslur megi leyfishafi kaupa með tilteknum skilyrðum á 15% af söluverði.
Stefndi kveður, að á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi tveir eða þrír starfsmenn starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Hafi ætlunin með framangreindum hugbúnaðarkaupum verið að veita starfsmönnum þeirra lífeyrissjóða sem aðild áttu að Reiknistofunni fjaraðgang að kerfum hennar. Skjáhermirinn hafi verið notaður til að tengjast með serial tengingu við Jóakim, iðgjalda- og réttindakerfi lífeyrissjóðanna, sem þróað hafði verið af Reiknistofunni og keyrt var á HP 3000 vél hennar. Um þetta hafi Boðeind sf. verið kunnugt. Fleiri leyfi hafi verið keypt af stefnanda, en ekki gerðir sérstakir samningar um þau viðskipti, enda geri samningurinn ráð fyrir því að hægt sé að bæta við notendaleyfum. Þau leyfi sem keypt voru til viðbótar hafi a.m.k. verið leyfi til notkunar á IBM tölvur auk 35 leyfa til að tengjast HP 3000 vélinni með nettengingu vegna vinnslu á innra neti sjóðanna. Búnaði þessum hafi síðar verið bætt inn í búnaðinn er upphaflegu leyfin tóku til.
Árið 1996 gerði umboðsaðili stefnanda viðhaldssamning við Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Skyldi hann gilda í eitt ár í senn en endurnýjast væri honum ekki sagt upp með þriggja mánaða fresti fyrir lokadag. Gegn greiðslu á árgjaldi skyldi Reiknistofan fá allar nýjar útgáfur af Reflection hugbúnaði til uppfærslu á forritið á þeim fjölda tölva sem nytjaleyfissamningurinn kvað á um. Um var að ræða viðhald á 68 nytjaleyfum og var umsamið verð USD 3.944,04. Hér sé um að ræða eftirfarandi fjölda leyfa:
30 leyfi Reflection 1+ hugbúnaður (samkvæmt upphaflegum samningi)
5 leyfi Reflection fyrir IBM vélar
33 leyfi Reflection fyrir HP 3000 vélar með nettengingu
Stefndi kveður að búnaður fyrir nettenginguna hafi verið sameinaður búnaðinum er upphaflega hafði verið keyptur. Samkvæmt reikningi Boðeindar fyrir viðhaldsgjöld árin 2002 og 2003 var greitt fyrir 40 leyfi.
Stefnandi kveður að allnokkru eftir gerð viðhaldssamningsins hafi umboðsmaður stefnanda fengið ábendingu um að notkun Reiknistofunnar á forritinu kynni að vera verulega umfram keyptan leyfisfjölda. Hafi honum verið tjáð að fjölmargir starfsmenn lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga hefðu aðgang að miðlægu tölvukerfi Reiknistofunnar með því að nota Reflection HP forritið, fengið frá Reiknistofunni. Umboðsmaður stefnanda hérlendis hafi árlega óskað eftir upplýsingum um notkun Reiknistofunnar á forritinu og því verið svarað af hennar hálfu, af Jakobi Ólafssyni, þeim sem undirritaði bæði leyfissamninginn 1990 og viðhaldssamninginn 1996, að notkun Reiknistofunnar væri í samræmi við samninginn og ekki væri þörf á viðbótarleyfum. Hafi ekki verið talin ástæða á þessum tíma til þess að véfengja staðhæfingar Reiknistofunnar um að notkun væri í samræmi við leyfissamning.
Árið 2000 stofnuðu áðurgreindir lífeyrissjóðir einkahlutafélagið Reiknistofu lífeyrissjóðanna ehf., utan um starfsemi Reiknistofunnar. Í ársbyrjun 2001 tók Reiknistofa lífeyrissjóða ehf., við rekstri Reiknistofunnar. Félagið sameinaðist Streng hf. á árinu 2001 en það félag sameinaðist síðan Landsteinum Ísland ehf. undir nafninu Landsteinar Strengur hf. og er það hið stefnda félag. Á árinu 2002 stofnaði stefndi Reiknistofu lífeyrissjóðanna ehf., sem nú er rétthafi að hugbúnaðarkerfinu Jóakim.
Síðla árs 2003 kveðst stefnandi hafa fengið áreiðanlegar upplýsingar um að fjöldi notenda á vegum Reiknistofunnar væri mun meiri en bæði leyfissamningur og upplýsingar Reiknistofunnar um notkun sögðu til um. Hafi stefnandi fengið staðfestingu þess að Reiknistofan veitti fjölmörgum lífeyrissjóðum, verkalýðsfélögum og skyldum aðilum aðgang að miðlægri tölvumiðstöð sinni með því að fjölfalda Reflection HP forritið og láta þessum aðilum eintak þess í té til aðgangs að kerfinu. Af því tilefni hafi stefnandi skoðað heimasíðu Reiknistofunnar og hafi þar verið skráðir yfir 50 lífeyrissjóðir, verkalýðsfélög og aðrir lögaðilar undir merkjum Reiknistofunnar auk þess sem nafngreindir einstaklingar hjá téðum aðilum með aðgang að kerfi Reiknistofunnar væru a.m.k. 220 talsins.
Stefndi mótmælir því að umboðsmaður stefnanda hafi árlega óskað eftir upplýsingum um notkun á þeim hugbúnaði sem mál þetta varðar.
Hinn 17. mars 2004 ritaði lögmaður stefnanda Reiknistofunni bréf, þar sem lýst var grunsemdum um brot Reiknistofunnar á höfundarrétti stefnanda og henni boðið að upplýsa um raunverulega notkun forritsins á vegum Reiknistofunnar. Gaf hann jafnframt kost á því að endursamið yrði um leyfisafnotin og sanngjarnt endurgjald greitt fyrir þau. Krafðist stefnandi þess að hann fengi að mæla notkun forritsins milliliðalaust svo sannreyna mætti notin.
Í framhaldi af þessu áttu lögmenn aðila, svo og forráðamenn stefnda, fundi þar sem aðilar voru sammála um að stefndi myndi láta stefnanda í té fullnægjandi upplýsingar um notin og tillögu að uppgjöri.
Með tölvupósti, dagsettum 12. maí 2004, svaraði Jakob Ólafsson umræddu bréfi f.h. stefnda. Tók hann fram að á árinu 1991 hafi Reiknistofa lífeyrissjóðanna gert samning við Boðeind um kaup á Site License leyfum, þ.e. samtímaleyfum fyrir Reflection hugbúnaðinn.
Með tölvupósti, dagsettum 24. maí 2004, frá Jakobi Ólafssyni til lögmanns stefnanda var þess getið að WRQ eða fulltrúum þeirra væri velkomið að mæla notkun á Reflection og ef upplýsinga væri óskað frá viðskiptavinum stefnda þá væri réttast að snúa sér til þeirra. Stefnandi nýtti sér ekki þetta tilboð stefnda og mældi aldrei notkun hugbúnaðarins.
Í kjölfarið var haldinn fundur með lögmönnum aðila hinn 8. júlí 2004 þar sem varð að samkomulagi að lögmaður stefnanda myndi afla ákveðinna gagna áður en samningaviðræðum yrði haldið áfram. Með tölvupósti, dags. 14. september 2004, frá lögmanni stefnanda var lögmanni stefnda send m.a. verðskrá í íslenskum krónum fyrir hugbúnaðinn en verðskráin tók ekki til mismunandi verðlagningar miðað við annars vegar samtímaleyfi og hins vegar nefnda notendur. Kom fram í tölvupóstinum að stefnandi væri reiðubúinn að ljúka málinu með samkomulagi þar sem notkun stefnda á hugbúnaðinum yrði áætluð.
Hófust nú bréfaskipti og símtöl lögmannanna um fjárhæð er greiða skyldi. Í bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 17. desember 2004, var bent á að samningur aðila hafi kveðið á um samtímanotendur, en ekki nefnda notendur, og bauðst stefndi til að greiða fyrir þau 60 samtímaleyfi er upp á vantaði. Var því hafnað að Reiknistofan hefði staðið fyrir heimildarlausri fjölföldun og dreifingu hugbúnaðarins til notenda hans. Þá sagði í bréfinu að stefndi hefði reynt að áætla fjölda mögulegra notenda hugbúnaðarins en notkun hefði ekki verið mæld sérstaklega. Sé nú verið að skipta búnaðinum út fyrir annan og því ekki mögulegt að gera nákvmar mlingar á notkun á fyrri tíma.
Hinn 18. janúar 2005 svaraði lögmaður stefnanda ofangreindu bréfi stefnda. Þar var því sjónarmiði stefnda hafnað að nytjaleyfissamningurinn heimilaði stefnda að dreifa hugbúnaðinum til þriðja aðila án samráðs við stefnanda og án þess að greiða leyfisgjöld fyrir. Þá var því enn fremur hafnað að skilja mætti samninginn sem samtímanotkunarheimild og enn síður að stefnda hafi verið heimilt að veita þriðja manni afnot af hugbúnaðinum undir samtímanotkunarskilmálum með þeim afleiðingum að fleiri hundruð notendur hafi mátt nýta hugbúnaðinn án frekari greiðslu en fyrir þau 40 leyfi sem Reiknistofan greiddi fyrir. Um fjölda notenda var bent á að samkvæmt samtölum lögmanns stefnanda við starfsmann stefnda hefði komið fram það mat starfsmannsins að notendur að hugbúnaðinum væru á bilinu 160-180 talsins, sem væri nokkru lægri tala en heimildir stefnanda segðu til um. Var stefnda boðið að ljúka málinu með því að greiða fyrir 130 leyfi til viðbótar auk viðhaldsgjalds í 4 ár sem nam 20% af leyfisgjaldinu, eins og viðhaldssamningur stefnda og Boðeindar ehf., umboðsaðila stefnanda, segði til um.
Hinn 24. janúar 2005 ritaði lögmaður stefnda svarbréf og bar fyrir sig, í fyrsta lagi, að viðhaldsamningurinn um forritið væri ekki við stefnanda heldur Boðeind ehf. Var af hálfu stefnda fallist á að greiða fyrir 95 leyfi til viðbótar hinum 40 leyfum. Var boðið að greiða fyrir viðbótarleyfin, eins og um magnkaup væri að ræða, og talið til réttlætingar slíkri verðlagningu að notkun hugbúnaðarins hefði, eins og stefnanda ætti að vera kunnugt, aðeins að mjög takmörkuðu leyti verið hjá honum sjálfum. Hinn 14. febrúar 2005 svaraði lögmaður stefnanda og kom á framfæri þeim sjónarmiðum stefnanda að ástæðulaust væri að þrátta um fjölda notenda að forritinu á vegum stefnda og að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hann upplýsti um notkunina á umliðnum árum. Var ítrekað að stefnandi vildi miða við þann fjölda sem tilgreindur var í upphaflega bréfinu nema því aðeins að stefndi sýndi fram á færri notendur á sínum vegum. Að því er verðlagningu varðaði var því til svarað að ekki væru efni til að miða við leyfismagnkaup, eins og tíðkast þegar nytjaleyfissamningar komast á við löghlýðna viðsemjendur en þó væri það ekki útilokað ef stefndi sýndi fram á fullnægjandi gögn um notkunina. Að því er snerti þá mótbáru stefnda að viðhaldssamningurinn væri milli Boðeindar og stefnda og stefnanda því óviðkomandi var á það bent að stefnandi ætti þessi réttindi og misnotkun þeirra veitti honum rétt til úrræða til verndar sínum hagsmunum, óháð téðum viðhaldssamningi. Þá var því hafnað að þriðja aðili bæri ábyrgð á dreifingu forritsins og áréttað að stefndi hefði dreift forritinu til þeirra aðila sem tengdir voru tölvukerfi hans, án þess að tilkynna það umboðsaðila og greiða fyrir. Var ítrekað tilboð um greiðslu viðbótar leyfisgjalda auk viðhaldsgjalda í fjögur ár. Var tilkynnt að ef tilboðinu yrði hafnað myndi málinu vísað til dómstóla og gerðar yrðu ýtrustu skaða- og miskabótakröfur.
Hinn 18. febrúar 2005 svaraði lögmaður stefnda og lýsti því að hann væri reiðubúinn að hækka viðbótarleyfisfjöldann í 110. Var því lýst yfir að stefndi hefði ekki undir höndum upplýsingar um nákvman fjölda leyfa en teldi afar ólíklegt að notendur hefðu verið fleiri en 150 á árinu 2004. Varðandi leyfisgjöldin, kvað stefndi í bréfinu að forsenda fyrir því að til greiðslu slíkra gjalda gæti komið væri að stefnandi sýndi fram á rétta aðild sína að slíkri kröfu og að tryggt yrði að krafa um greiðslu viðhaldsgjalda kæmi ekki fram frá öðrum aðila. Stefndi kveður að þar sem stefnandi hafi sífellt mótmælt að um hefði verið að ræða samtímaleyfi hafi hann lýst sig reiðubúinn til samkomulags og til að greiða það verð er stefnandi setti upp fyrir leyfi, þ.e. 35.910 krónur, og greiða þannig fyrir 110 nefnda notendur til viðbótar þeim 40 notendum er greitt hafði verið fyrir. Var boðin fram greiðsla á téðum 110 viðbótarleyfum á grundvelli magnkaupa sem að mati stefnda nam 3.950.100 krónum og svo viðhaldsgjöld í 2 ár,790.000 krónur.
Hinn 15. mars 2005 hafnaði lögmaður stefnanda framangreindu tilboði stefnda og ítrekaði tilboðið frá 18. janúar 2005 en þó þannig að miðað yrði við magnkaup samkvæmt verðlagningu umboðsaðila stefnanda á Íslandi.
Kveður stefndi að hann hafi talið sig hafa náð samkomulagi um greiðslu, í símtali 1. mars, á 110 leyfum en með bréfi 15. mars hafi stefnandi gert honum ljóst, án þess að gefa á því nokkrar skýringar, að um samkomulag á þeim grundvelli yrði ekki að ræða.
Í kjölfar þessa hafi stefndi aflað sér upplýsinga af heimasíðu stefnanda þar sem fram kom að uppgefið verð fyrir Reflection hugbúnað er EUR 378 eða ISK 30.920 á þáverandi gengi, en án þess að tilgreint væri hvort um væri að ræða nefnda notendur eða samtímaleyfi. Stefndi aflaði einnig tilboðs frá EDAS Computers Ltd., sem nam 17.400 krónum fyrir hvern nefndan notanda að umræddum hugbúnaði. Hann sé hægt að nota á Íslandi og sé því ljóst að fullyrðing stefnda um svæðisskiptingu hugbúnaðarins standist ekki hvað þetta varði. Virðist af þessu ljóst að markaðsverð hugbúnaðarins í Evrópu sé ekki hærra en ISK 30.920, jafnvel þó um samtímanotendur sé að ræða. Hugbúnaðurinn sé víða auglýstur á netinu á mun lægra verði, m.a. hjá Attachmate WRQ á USD 151 (ISK 9.362) og hjá vefverslun á USD 128 (ISK 7.936).
Hinn 19. apríl 2005 hafnaði lögmaður stefnda tilboði stefnanda en ítrekaði tilboð sitt um greiðslu á 110 viðbótarleyfum á 4.761.480 krónur. Kvað hann útilokað að fleiri en 150 notendur hefðu nokkurn tíma notað búnaðinn samtímis og að rétt væri að miða við verðskrá í magninnkaupum, sem stefndi, að mati stefnanda, hafi bersýnilega tekið af öðru markaðssvæði en Íslandi og gilti því ekki hérlendis. Var enn haldið við það að viðhaldssamningur væri ekki við stefnanda og þjónusta hafi verið lítil sem engin. Stefnandi hafnaði þessu boði stefnda.
Stefndi kveður að með ódagsettu dreifibréfi frá Boðeind, komi fram að leyfum sem keypt voru samkvæmt fyrra fyrirkomulagi, Limited Site License (LSL), hefði verið breytt í VPA samninga. Kom þar jafnframt fram að öll skráð leyfi, sem voru í gildi 31. desember 1997 sem LSL samningar, hafi verið skráðir á VPA vottorð. Í bréfinu sé jafnframt bent á að „þegar nýju VPA samningarnir tóku gildi var ekki lengur um samtímaleyfi að ræða heldur eru leyfin jafnmörg þeim útstöðvum sem hugbúnaðurinn er settur upp á“. Af þessu megi leiða að um hafi verið að ræða LSL samninga fram að þeim tíma og leyfin hafi verið samtímaleyfi og að forveri stefnda hafi gert slíkan samning við stefnanda. Þessi tilkynning barst aldrei til stefnda, að hans sögn, og hafi fyrst komið fram við upphaf máls þessa.
Stefndi kveður að síðla árs 2003 hafi verið tekið upp Windows umhverfi hjá þeim lögaðilum er mynduðu Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Hafi þá verið hætt að nota hugbúnað stefnanda en gerður samningur við Four J´s um afnot af hugbúnaðinum Genero til að tengjast Jóakimkerfinu. Einstakir notendur Jóakimkerfisins hafi þá skipt um kerfi á mismunandi tímum en fyrstu notendurnir hafið að nota Genero í október 2003.
Stefndi hefur tekið saman skrá um notendur að Jóakim kerfinu á síðustu árum en þar komi m.a. fram að nokkrir lífeyrissjóðir hafi bæst við sem notendur Jóakim kerfisins frá því hætt var notkun Reflection hugbúnaðarins og notendum hafi fjölgað hjá öðrum. Skráðir notendur á þessu ári séu 207. Stefndi kveður að af þeim 180 notendum sem skráðir séu 2004 hafi að minnsta kosti 12 aldrei notað Reflection heldur farið beint í Genero hugbúnaðinn. Nokkrir þeirra 167 sem skráðir séu á árinu 2003 hafi einnig farið beint í Genero. Við mælingar sem stefndi lét framkvæma meðan verið var að undirbúa rekstur þessa máls hafi komið í ljós að samtímanotendur á núverandi hugbúnaði séu að jafnaði um 115 og aldrei fleiri en 127 á tímabilinu 22. september til 4. október sl. Samkvæmt því séu aldrei fleiri en 60% notenda að nota hugbúnaðinn samtímis. Þetta hlutfall sé þó í raun lægra því sami nefndi notandi geti verið skráður fyrir fleiri en einni vinnslu ef um er að ræða runuvinnslur. Sé miðað við sama hlutfall notkunar af 168 notendum sjáist að samtímanotendur hafi alls ekki verið fleiri en 100 að hugbúnaði stefnanda meðan hann var enn í notkun. Tilboð stefnda um greiðslu fyrir 60 samtímaleyfi til viðbótar þeim er greitt hafði verið fyrir hafi því verið allsendis fullnægjandi. Stefndi hafi nú greitt leyfisgjald fyrir þessa notendur á fjárvörslureikning Lex Nestor lögmannsstofu ehf. og tilkynnt stefnanda um það, en síðar hafi þessari fjárhæð verið deponerað.
III
Stefnandi byggir á þeim málsástæðum að stefndi hafi með ólögmætri hagnýtingu á tölvuforritinu Reflection HP brotið gegn höfundarrétti stefnanda og valdið stefnanda fjártjóni og beri stefndi því lögum samkvæmt skaða- og miskabótaábyrgð gagnvart stefnanda.
Stefnandi byggir á því, í fyrsta lagi, að óumdeilt sé að stefnandi sé höfundarrétthafi að tölvuforritinu Reflection HP og njóti því þeirrar réttarverndar sem höfundarlög, nr. 73/1972, með síðari breytingum, kveði á um.
Í öðru lagi telur stefnandi fullsannað, með viðurkenningu lögmanns stefnda í fjölmörgum bréfum, að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta afritun og dreifingu á forritinu Reflection HP, til þeirra fjölmörgu aðila sem aðgang hafi eða hafi haft að miðlægu tölvukerfi stefnda í þágu lífeyrissjóða og skyldra aðila. Hafi Reiknistofa Lífeyrissjóðanna, fyrst sem sameignarfélag og síðar sem hlutafélagið Landsteinar-Strengur hf., vísvitandi afritað forritið og dreift til fjölmarga viðskiptamanna sinna, án þess að afla til þess leyfis stefnanda, og vísvitandi gefið umboðsmanni stefnanda rangar upplýsingar um fjölda notenda og þannig brotið gróflega á höfundarréttindum stefnanda og valdið honum fjártjóni. Af framvindu mála eftir að athugasemdir voru gerðar af hálfu lögmanns stefnanda megi ráða að stefndi og fyrirrennari hans hafi vísvitandi brotið á höfundarréttindum stefnanda frá upphafi leyfissamnings og a.m.k. frá stofnun viðhaldssamnings við umboðsmann stefnanda á árinu 1996.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að stefndi hafi viðurkennt að hafa alla tíð notað leyfin sem „samtímaleyfi 1“, einnig þau 40 leyfi sem stefndi greiddi fyrir, sem hafi verið óheimilt samkvæmt téðum nytjaleyfissamningi. Þá telur stefnandi sannað með yfirlýsingum stefnda að samtímanotendur á vegum stefnda hafi verið a.m.k 150 talsins.
Af framangreindum ástæðum sé hafið yfir vafa að stefndi hafi brotið gegn höfundarréttindum stefnanda og beri, á grundvelli l. mgr. og 2. mgr. 56. gr. 1aga 73/1972, sbr. 7. gr. 1aga nr. 78/1984, fébótaábyrgð á fjártjóni og miska stefnanda vegna þessara höfundarréttarbrota stefnda.
Stefnandi hefur sundurliðað kröfur sínar með eftirgreindum hætti:
Samtímaleyfi sé þegar leyfishafa sé heimilt að setja forritið upp á fleiri tölvur en leyfafjöldinn kveði á um en þó þannig að ekki séu fleiri að nota forritið en tilgreindur leyfisfjöldi. Við sölu samtímaleyfa sé gerð krafa um að leyfishafi kaupi forrit sem mæli samtímanotkunina og skili mælingum reglulega til stefnanda eða umboðsmanns hans, sem sé grundvöllur undir rétt leyfisgjöld. Einnotaleyfi séu þau leyfi sem veiti heimild til þess að setja forritið upp á aðeins eina tölvu.
Stefnandi byggir kröfugerð sína á því að stefndi hafi í starfsemi sinni nýtt sér að minnsta kosti 150 samtímaleyfi, sbr. fullyrðingar stefnda um að samanlagður fjöldi samtímanotenda á hans vegum hefði ekki farið fram úr þeirri tölu. Ágreiningslaust sé í málinu að stefndi, eða forveri hans, hafi aðeins greitt fyrir 40 einnotenda leyfi og hagnýting hinna 150 samtímaleyfa því án heimilda frá stefnanda.
Kröfugerðin að þessu leyti grundvallist því á þeim verðmun sem sé á samtímaleyfum stefnanda, annars vegar, og einnotaleyfum hans, hins vegar. Á Íslandi sé þessi verðmunur 100 %. Mismunur í verði á nýttum samtímaleyfum sé þá 150 x kaupverð slíkra leyfa að frádregnu kaupverði 40 einnotenda leyfa.
Fjártjón vegna missis söluverðs:
110 x 99.560,- =10.951.600 kr.
35 x 99.560,-/2 = 1.742.300 kr.
5 x 59.850,-/2 = 149.625kr.
Leyfisgjald alls = 12.843.525 kr.
Frá árinu 1996 hafi stefndi fengið allar uppfærsluútgáfur af forritinu Reflection HP og hagnýtt sér til ársins 2004. Árleg uppfærsla sé 20% af leyfigjaldi/söluverði. Reiknistofa lífeyrissjóðanna ehf. hafi verið stofnuð í desember 2000 og frá þeim tíma hafi hún árlega fengið nýja uppfærslu af forritinu.
Árlegt uppfærslugjald miðað við notkun stefnda sé sem hér segir:
110 leyfi x 19.912 uppfærslugjald af samtímaleyfi = 2.190.320 kr.
351eyfi x 9.956 = 348.460 kr.
51eyfi x 5.985³ = 29.925 kr.
Samtals =2.568.705 kr.
Fjártjón vegna ólögmætrar uppfærslu 2001-2004, eða frá stofnun Reiknistofu lífeyrissjóðanna ehf.
2.568.705,- x 4 = 10.274.820 kr.
Hér er um að ræða 5 IBM leyfi sem eru notuð til að tengjast AS 4000 tölvu en önnur leyfi varða tengingu við HP 3000 tölvu.
Skaðabætur alls =23.118.345 kr.
Miskabætur:
Krafist er miskabóta sem nema 50% af hinu
eiginlega fjártjóni. = 11.559.172 kr.
Stefnukrafa alls =34.677.517 kr.
Upphafstími vaxta sé 18. febrúar 2005 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að formleg fjárkrafa var gerð á hendur stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til 1. gr. höfundalaga nr.73/1972.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um vexti og dráttarvexti byggir stefnandi á vaxtalögum nr. 25/1987, svo og lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
IV
Í munnlegum málflutningi féll stefndi frá kröfu um sýknu vegna aðildarskorts stefnanda að kröfu vegna skaðabóta á grundvelli samnings um kaup á tölvuforriti. Eftir stendur hins vegar krafa stefnda um sýknu vegna aðildarskorts vegna kröfu um brot á viðhaldssamningi sem og sýknukrafa á grundvelli þess að stefndi hafi ekki brotið höfundarlög, þar sem hann hafi gert nytjaleyfissamning við stefnanda sem hafi heimilað honum að veita eigendum og viðskiptamönnum Reiknistofu lífeyrissjóðanna aðgang að kerfum Reiknistofunnar með því að nýta hugbúnað stefnanda. Í því felist að ekki hafi verið brot á samningi að eigendurnir og viðskiptamennirnir notuðu hugbúnaðinn sjálfir, enda hafi markmiðið með samningi aðila verið að gera slíkt. Hugbúnaðurinn sé skjáhermisforrit sem geri það kleift að tengjast miðlægu tölvukerfi í gegnum útstöð sem staðsett sé utan hins miðlæga tölvukerfis. Reiknistofa lífeyrissjóðanna reki miðlægt tölvukerfi og veiti viðskiptamönnum sínum utan Reiknistofunnar, aðgang að kerfinu með hugbúnaði stefnanda, en flestir þeirra séu jafnframt eigendur Reiknistofunnar. Þetta hafi umboðsaðila stefnanda verið ljóst. Starfsmenn stefnda hafi verið tveir eða þrír þegar kaup gerðust og fjarri lagi að bera því við að stefnandi hafi talið að Reiknistofan hafi sjálf keypt öll leyfin.
Notkun hugbúnaðarins hafi verið á vegum þeirra aðila er stofnað hafi Reiknistofuna og annarra er noti Jóakimhugbúnaðinn. Notkun búnaðarins innan stefnda sjálfs eða félaga í samstæðu hans hafi aldrei verið umfram upphaflegan leyfafjölda. Stefndi hafi því ekki brotið gegn höfundarréttindum stefnanda og beri enga skaðabótaábyrgð gagnvart honum. Með vísan til þessa beri að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.
Með vísan til þess sem að framan greinir um notkun hugbúnaðar stefnanda á vegum aðila Reiknistofunnar sé ekki neinn grundvöllur fyrir skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefnda.
Vegna starfsmannaskipta, sameininga og flutninga hafi glatast yfirsýn yfir fjölda nytjaleyfa. Fjöldi leyfa hafi undir lokin verið meiri en samningur aðila gerði ráð fyrir, án þess að stefnda hafi verið um það kunnugt fyrr en á það hafi verið bent. Eftir að bréf barst frá lögmanni stefnanda vorið 2004 hafi stefndi strax verið reiðubúinn að hafa milligöngu um greiðslu fyrir þann fjölda leyfa er ekki hefðu verið greidd. Þrátt fyrir mótmæli á skaðabótaskyldu sinni gagnvart stefnanda hafi stefnandi kosið að greiða, án nokkurrar viðurkenningar á greiðsluskyldu sinni, leyfisgjöld í samræmi við þær upplýsingar er hann hafi undir höndum.
Stefndi byggir á því að upphaflegur samningur aðila sé um samtímanotkunarheimild að hugbúnaðinum. Samningurinn sjálfur beri titilinn „site license agreement“, en slíkir samningar séu um samtímanotkunarheimildir. Umboðsaðili stefnanda hefur upplýst, að svokallaðir LSL, Limited Site License samningar, hafi verið samningar um samtímanotkun. Þeim verði ekki síðar breytt með einhliða yfirlýsingum, enda hafði verið greitt fyrir samtímaleyfi. Jakob Ólafsson, sem annaðist samningagerð fyrir forvera stefnda, bæði við kaup á leyfum og viðhaldssamningum, tók fram í tölvupósti, að um hafi verið að ræða samtímaleyfi.
Stefndi byggir á því að samtímanotkun á hugbúnaði stefnda hafi aldrei verið meiri en sem nemi 100 samtímanotendum. Sé það á því byggt, eins og að framan greini, að samtímanotkun núverandi búnaðar á árinu 2005 hafi aldrei verið umfram 127 notendur og yfirleitt ekki umfram 115 notendur, þar sem skráðir notendur séu 207. Í þessu sambandi bendir stefndi á, að í Genero kerfinu sé hver runuvinnsla skráð sem sérstök notkun gagnstætt því sem hafi verið í Reflection.
Stefnandi hafi kosið að miða greiðslu fyrir hvert leyfi við gjaldskrá stefnanda sjálfs er birt hafi verið á vefsetri hans sl. vor, þ.e. 30.920 krónur. Í þessu sambandi sé bent á að framreiknað leyfisgjald sem stefndi greiddi á árinu 1991 nemi, miðað við vísitölu neysluverðs, 20.338 krónum. Leyfisgjald nú fyrir Reflection hugbúnað sem auglýstur sé á netinu sé allt niður í USD 151 (9.362) og USD 128 (ISK 7.936). Stefndi kjósi að greiða, að því er hann telur, umfram skyldu, 30.920 krónur fyrir hvert umframleyfi, eða samtals 1.855.200 krónur. Hafi hann greitt þessa fjárhæð til stefnanda, inn á vörslureikning lögmanns stefnda, og með því staðið stefnanda skil á greiðslum fyrir nytjaleyfi. Eigi stefnandi því ekki neinar bótakröfur vegna leyfisgjalda fyrir hugbúnaðinn.
Stefnandi geri kröfu um skaðabætur sem nemi þeirri fjárhæð sem hann tilgreinir sem taxtaverð fyrir hvert leyfi. Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. höfundalaga nr. 73/1972 gildi almennar reglur fébótaréttar um skaðabætur vegna brota á höfundarrétti. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón vegna tapaðra tekna af sölu þeirra leyfa sem um ræðir. Hefðbundin aðferð við sönnun tjóns vegna brota á höfundarrétti sé að sýna fram á tapað rekstrarframlag (d.: dækningsbidrag, e.: contribution margin), þ.e. söluverð að frádregnum breytilegum kostnaði. Í stað þess hafi stefnandi kosið að gera kröfu um verð samkvæmt gjaldskrá. Þar sem stefnandi hefur ekki sannað tjón sitt beri að sýkna stefnda.
Verði af einhverjum ástæðum talið sannað að miða beri tjón stefnanda við framlagða gjaldskrá mótmælir stefndi framlagðri gjaldskrá stefnanda, sem rangri í heild sinni. Í málinu hafi stefnandi aðeins lagt fram gjaldskrá er gefi upp eitt verð og verði ekki ráðið af henni að verðlagning sé önnur annars vegar fyrir nefnda notendur en fyrir samtímanotkun. Sá skilningur sem stefnandi byggi á framlagðri gjaldskrá sé úr öllu samræmi við fullyrðingar hans fyrir málshöfðun, þar sem hann hafi framvísað gjaldskránni fyrir leyfi fyrir nefndan notanda. Því sé mótmælt sérstaklega að stefnandi áskilji sér fyrir samtímaleyfi gjald sem sé tvöfalt verð leyfis fyrir nefndan notanda.
Verði þrátt fyrir allt þetta talið að stefnandi geti rökstutt greiðslu fyrir hvert leyfi á 99.560 krónur með vísun til gjaldskrár, byggir stefndi á því að hækkun frá því sem umsamið var í leyfissamningi sé verulega ósanngjörn og stangist á við allar venjur í viðskiptum sem þessum, þróun á markaðnum og verðlagningu annarra á leyfum frá stefnanda. Með vísun til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 sé ekki unnt að líta til samnings aðila sem viðmiðunar í þessu sambandi.
Því er mótmælt sérstaklega að leyfi stefnanda séu svæðisbundin með þeim afleiðingum að notendur á Íslandi geti ekki keypt leyfi beint frá Evrópu.
Framlagður viðhaldssamningur sé milli Boðeindar sf. og Reiknistofu lífeyrissjóðanna. Dótturfélag stefnda hafi nú tekið við réttindum og skyldum Reiknistofunnar samkvæmt samningnum. Samkvæmt ákvæðum hans geti hvorugur aðili, án skriflegs leyfis hins, afhent eða framselt réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum í hendur þriðja aðila. Stefnandi sé ekki aðili að umræddum samningi og hafi ekki fengið réttindi og skyldur Boðeindar sf. framseldar og ekki leitað eftir heimild stefnda til þess. Getur stefnandi ekki í máli þessu krafist greiðslna samkvæmt samningi sem hann sé ekki aðili að og beri af þeim sökum óhjákvæmilega að sýkna stefnda af kröfum samkvæmt viðhaldssamningi.
Verði ekki fallist á sýknu vegna aðildarskorts vegna viðhaldssamningsins byggir stefndi á því að ekki hafi verið samið um tiltekna fjárhæð viðhaldsgjalds eða reikningsgrundvöll þess. Fjárhæð gjaldsins sé ekki tiltekin í viðhaldssamningi. Ekki sé tiltekið í samningi að fjárhæð viðhaldsgjalds skuli vera hlutfall af leyfisgjöldum samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma. Hljóti stefnandi að bera hallann af skorti á samningsákvæðum hér að lútandi.
Stefndi telur að krafa sem hugsanlega kynni að vera fyrir hendi sé ekki rétt tilgreind. Samkvæmt samningi séu viðhaldsgjöld í USD og skuli þau reiknuð yfir í ISK á tollgengi þess mánaðar þegar gjöld séu reikningsfærð. Kröfugerð stefnda samrýmist ekki þessu ákvæði.
Verði þrátt fyrir allt talið að stefnda beri að greiða viðhaldsgjald telur hann að stefnukrafan sé allt of há. Vísast þar til óeðlilegrar hækkunar leyfisgjalds, auk þess sem stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann hafi afhent stefnda allar nýjar aðalútgáfur af hugbúnaðinum en það sé forsenda þess að stefnandi eigi rétt til viðhaldsgjalda.
Verði stefndi talinn skaðabótaskyldur við stefnanda sé ljóst að notkun umræddra leyfa hafi verið í grandleysi. Nemi bætur til stefnanda því aðeins hugsanlegum ávinningi stefnda, sbr. 3. mgr. 56. gr. höfundalaga. Með greiðslu á 1.855.200 krónum hafi stefndi því að fullu staðið skil á skaðabótum er stefnandi ætti rétt til og raunar greitt umfram skyldu.
Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. höfundalaga skuli dæma höfundi miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti hans með ólögmætri háttsemi. Það liggi fyrir að stefnandi sé ekki höfundur umrædds hugbúnaðar, heldur hafi hann fengið fjárhagsleg réttindi til hans framseldan frá höfundum hans, væntanlega forriturum. Höfundur eða höfundar forritsins séu ekki aðilar að þessu máli. Auk þess hafi ekki verið sýnt fram á neitt miskatjón. Af þessum sökum beri að sýkna stefnda af miskabótakröfu stefnanda.
Varakröfu um verulega lækkun skaðabóta byggir stefndi á þeim málsástæðum sem getið er hér að ofan til stuðnings aðalkröfu, eftir því sem við eigi. Kröfur stefnanda gangi fram úr öllu hófi og nemi mun hærri fjárhæð en stefnda beri að greiða í leyfisgjöld samkvæmt samningi aðila. Stefndi hafi allan tímann verið fús til samninga við stefnanda og þegar boðið fram greiðslur langt umfram skyldu.
Dráttarvaxtakröfum stefnanda er mótmælt sérstaklega. Krafa stefnanda sé sett fram sem skaðabótakrafa. Krafan hafi fyrst verið sett fram tölulega með bréfi 18. janúar 2005 og gæti því, væri hún fyrir hendi, einungis borið dráttarvexti frá 18. febrúar 2005, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Um lagarök vísar stefndi einkum til grundvallarreglna samningaréttarins, m.a. reglunnar um að óskýrleika samningsskuldbindinga skuli skýra þeim í óhag er samdi ákvæðin.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um skaðabætur, bæði fyrir fjártjón og miska, vegna ólögmætrar notkunar á tölvuforritinu Reflection. Bótakrafa stefnanda á hendur stefnda byggir annars vegar á samningi aðila um kaup stefnda á tölvuforriti og hins vegar á viðhaldssamningi, sem gerður var milli Reiknistofu lífeyrissjóðanna og Boðeindar sf.
Óumdeilt er að stefnandi er höfundarrétthafi að tölvuforritinu og í munnlegum málflutningi féll stefndi frá kröfu um sýknu vegna aðildarskorts stefnanda að kröfu vegna skaðabóta á grundvelli samnings um kaup á tölvuforriti. Eftir stendur hins vegar krafa stefnda um sýknu annars vegar vegna aðildarskorts vegna kröfu um brot á viðhaldssamningi, sem og vegna aðildar stefnda að meintu höfundarlagabroti. Stefndi byggir aðallega á því, að umræddur samningur aðila hafi verið nytjaleyfissamningur, sem hann kallar svo, sem hafi heimilað stefnda að veita eigendum og viðskiptamönnum Reiknistofu lífeyrissjóðanna, sem jafnframt hafi verið eigendur hennar, aðgang að miðlægu tölvukerfi Reiknistofunnar með því að nýta hugbúnað stefnanda. Það hafi því ekki verið brot á samningi að eigendurnir og viðskiptamennirnir notuðu hugbúnaðinn sjálfir, enda hafi það verið markmið samningsins. Um þetta hafi stefnanda verið kunnugt. En notkun hugbúnaðarins innan stefnda hafi verið innan upphaflegs leyfafjölda auk þess sem stefnandi hafi vitað hverjir ætluðu að nota hugbúnaðinn.
Við aðalmeðferð gaf Bjarni Sigurðsson, umboðsmaður stefnanda á Íslandi, skýrslu. Kvaðst hann hafa verið umboðsmaður fyrirtækisins í rúman áratug og hafa gert umdeilda samninga, f.h. stefnanda, við stefnda. Stefndi hafi verið samningsaðili af hálfu lífeyrissjóðanna, en hugbúnaðurinn hafi verið ætlaður til nota fyrir marga lífeyrissjóði og Reiknistofan skyldi halda utan um þá notkun. Aðspurður kvað hann það ekki hafa verið rætt sérstaklega hvort Reiknistofan skyldi koma fram f.h. sjóðanna, en hann hafi litið svo á. Samningurinn hafi verið um kaup stefnda á 30 einstökum leyfum, eða eins og segir í samningnum „total number of individual copies authorized by this agreement is 30“. Aðspurður kvað hann þann mun vera á svokölluðu stöku leyfi og samtímaleyfi, að stakt leyfi væri til að setja upp á staka PC tölvu, en samtímaleyfi væri til að setja upp á margar vélar, en þá mætti einungis nota þann fjölda sem keyptur væri. Stefndi hafi greitt fyrir einstakt leyfi. Kvað hann samtímaleyfi vera selt á tvöfalt hærra verði en einstakt leyfi. Stefndi hafi síðar bætt við 5 leyfum árið 2002, eftir að hann hefði gengið hart á eftir Jakobi Ólafssyni, starfsmanni stefnda, um að fara yfir leyfismálin hjá stefnda. Stefndi hafi keypt svokölluð Reflection 1+, en áður hafi hann keypt 5 Reflection fyrir IBM, sem geri það mögulegt að tengjast AS 400 við IBM-stórtölvu. Kvaðst hann hafa haldið að sá hugbúnaður hafi verið keyptur í því skyni að tengjast Reiknistofu bankanna. Í allt hafi stefndi því keypti 40 leyfi. Þegar Reflection 1 hugbúnaður hafi fyrst komið á markað hafi ekkert verið byggt inn í hann til að gera það kleift að tengjast neti og því hafi Reflection conn. verið notaður. Hann kvað alltaf vera gerða kröfu um mælingu á notkun þegar samtímaleyfi væru keypt. Notandi verði þá að keyra viðurkenndan hugbúnað, þar sem aðalhugbúnaðurinn liggi á netþjóni með gagnagrunni og á hverri útstöð keyri lítill hugbúnaðarbútur sem safni upplýsingum af netinu um það hvernig hugbúnaður sé notaður. Mælingin sé stöðug. Kerfisstjórar hjá viðkomandi fyrirtæki skili síðan reglulega þessum skýrslum, en greitt sé fyrir hæsta gildi, eða flesta notendur sem mælist á tímabilinu. Aðspurður kvað hann umdeildan viðhaldssamning vera gerðan á grunni leyfissamningsins. Hafi hann við gerð þess samnings komið fram sem umboðsmaður stefnanda. Viðhaldssamningur feli í sér að viðkomandi fái allar nýjar útgáfur af þeim hugbúnaði sem nefndur sé í samningnum og einnig þjónustu yfir netið í tölvupósti, ef einhverjar spurningar séu frá notanda. Slíkar uppfærslur séu að jafnaði afhentar einu sinni á ári. Hann kvað fyrirtæki sitt, Boðeind, ekki sjá um uppsetninguna en það hafi alltaf gefið út reikninga vegna viðhaldssamningsins. Leyfisgjöldin vegna þessa samnings hafi verið prósenta af einstöku leyfi, nú síðast 20% af leyfinu. Hann kvaðst hafa haft samband við Reiknistofuna í tengslum við endurnýjun á viðhaldinu og óskað eftir upplýsingum um notkun hugbúnaðarins. Árið 2001 hafi hann gengið sérstaklega hart fram í þessu, eftir að hafa horft á heimasíðu stefnda. Hann hafi alltaf verið ósáttur við fjölda leyfa hjá stefnda, en ekki haft neitt í höndunum til að benda á. Í byrjun árs 2002 hafi hann fengið stefnda til að kaupa fimm viðbótarleyfi. Í framhaldi af því hafi hann leitað aðstoðar lögmanns. Aðspurður kvað hann hafa verið gagnslaust að mæla notkunina í maí 2004, eins og stefndi hafi boðið, þar sem slík mæling verði að fara fram yfir notkunartímann allan. Hefði slík mæling því ekki gefið rétta mynd af notkuninni.
Jakob Ólafsson, fyrrverandi tölvurekstrarstjóri hjá Reiknistofu lífeyrissjóðanna, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann kvað starfsmenn Reiknistofunnar hafa verið þrjá er samningurinn var gerður. Er stefndi tók við rekstri Reiknistofunnar, árið 2001, hafi starfsmenn verið tíu. Hann kvað 20-25 lífeyrissjóði hafa verið aðila að Reiknistofunni er samningurinn var gerður. Síðan hafi þeim fækkað verulega. Hann kvaðst hafa komið fram fyrir hönd Reiknistofunnar við samningsgerðina. Kvaðst hann hafa haldið að um samtímaleyfi væri að ræða, en ekki hafi verið rætt um það þá að leyfin væru bundin við einstaka útstöðvar. Við samningsgerðina hafi ekki verið rætt hvernig skyldi mæla notkunina og Reiknistofan hafi ekki farið fram á skýrslur frá viðkomandi aðildarfélögum um notkunina, en þau hafi bara keypt þjónustu af Reiknistofunni. Hann kvað það ekki hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá Reiknistofunni hvort fjöldi leyfa samrýmdist samningnum, en Bjarni hjá Boðeind hafi spurt hann um leyfin og hvort Reiknistofan ætlaði að halda áfram með viðhaldssamninginn og hvort vantaði ekki viðbótarleyfi. Hann kvað Reflection hugbúnaðinn hafa verið notaðan til þess að aðildarfélög Reiknistofunnar, lífeyrissjóðir og fleiri, gætu tengst tölvum Reiknistofunnar og komist þannig inn í Jóakimkerfið. Eftirlauna- og réttindakerfi lífeyrissjóða og aðildarfélaga hafi verið inni í kerfinu auk þess sem þar hafi verið haldið utan um réttindi sjóðfélaga og viðskiptabókhald gagnvart launagreiðendum. Í upphafi hafi þeir sem voru aðilar að Reiknistofunni haft aðgang að þessum gögnum, fyrst og fremst lífeyrissjóðir og verkalýðsfélög. Aðspurður kvað hann IBM-leyfin hafa verið notuð til að tengjast tölvukerfi Reiknistofu bankanna, en örfáir aðilar hafi óskað eftir því að geta tengst Reiknistofu bankanna beint og því hafi þessi leyfi verið keypt. Á dskj. nr. 17 og 18, sem sé útskrift af heimasíðu Reiknistofu lífeyrissjóðanna 2004, sé safnað saman í gagnagrunni lífeyrissjóðum og aðildarfélögum, en þeir hafi ekki allir verið notendur að Reiknistofunni, og listi gerður yfir einstaklinga, en þeir hafi ekki haft aðgang að kerfinu. Hann kvaðst hafa aðstoðað við gerð skjalsins, sem merkt er dskj. nr. 26. Þar sem talað sé um skráða notendur þýði það fjölda uppsettra tölva sem hafi haft aðgang eða nöfn einstaklinga sem hafi haft aðgang. Viðkomandi sé þá skráður sem notandi að Jóakimkerfinu, en það þýði ekki það sama og útstöð, þar sem fleiri en einn geti deilt útstöð. Meginreglan hafi verið að hver og einn hefði sitt auðkenni inn í Jóakimkerfið, en það segi ekki til um útstöðvar og endurspegli ekki uppsetningar að hugbúnaðinum heldur bara notendur að kerfinu. Aðspurður kvaðst hann hafa fengið hugbúnaðinn á diskettum og hafi hann verið settur upp á tölvur notenda af starfsmönnum Reiknistofunnar. Uppfærslunum hafi ekki verið dreift jafnóðum heldur eftir þörfum.
Samkvæmt framburði umboðsmanns stefnanda og fyrrverandi tölvurekstrarstjóra stefnda, lá fyrir, er umræddur samningur var gerður, að stefndi væri að kaupa hugbúnað til að veita viðskiptamönnum sínum aðgang að tölvukerfi Reiknistofunnar. Var aðilum því báðum ljóst að stefndi var að kaupa umræddan búnað til uppsetningar hjá aðildarfélögum sínum. Með því tók stefndi, við samningsgerðina, að sér samningsskyldur og þar með að sjá til þess að uppfylla samninginn gagnvart stefnanda. Með vísan til þess er ekki fallist á að sýkna stefnda vegna aðildarskorts hvað varðar sakarefnið að þessu leyti.
Stefnandi heldur því fram að notendur forritsins á vegum stefnda hafi orðið mun fleiri en bæði leyfissamningurinn og upplýsingar sem stefndi hafi veitt stefnanda segðu til um. Telur hann að Reiknistofan hafi veitt mörgum lífeyrissjóðum, verkalýðsfélögum og skyldum aðilum aðgang að tölvumiðstöð sinni með því að fjölfalda umrætt forrit og látið þessum aðilum í té til aðgangs að miðlægri tölvumiðstöð sinni.
Samkvæmt 1. gr. höfundarlaga eiga höfundar að listaverkum eignarrétt að þeim og samkvæmt 3. mgr. sömu laga hafa höfundar einkarétt til að gera eintök af verkum sínum og birta þau.
Tölvuforrit það sem ágreiningur máls þessa lýtur að nýtur verndar höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 3. mgr. 1. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga og er stefnandi handhafi þess réttar.
Í 11. gr. 2. mgr. 4. tl. segir að heimild 1. tl. ákvæðisins til þess að gera allt að þrjú eintök af birtu verki til einkanota gildi ekki um eftirgerð tölvuforrita.
Í 24 gr. segir að sala, lán, leiga eða önnur dreifing til almennings á tölvuforritum sé óheimil nema með samþykki rétthafa.
Eins og að framan greinir gerðu aðilar málsins með sér skriflegan samning um kaup á 30 áðurnefndum tölvuforritum og óumdeilt er að stefndi keypti af stefnanda 40 slík forrit. Hins vegar greinir aðila á um hvort um svokallað einstakt leyfi hafi verið að ræða eða samtímaleyfi.
Framlagður samningur er ritaður á enskri tungu á staðlað eyðublað stefnanda. Er yfirskrift samningsins: „International Limited Site License Agreement“ Í texta samningsins segir hins vegar: Licensee reseives from Walker Richer & Quinn, Inc. (WRQ) a license to duplicate or install REFLECTION 1+ (Product) for use on personal computers owned and controlled by the Licensee. The total number of individual copies authorized by this agreement is 30. No copy created under the terms of this agreement may be sold or transferred and this license may not be assigned, sublicensed, or otherwise transferred. by the Licensee without prior consent of WRQ.
WRQ will provide the Licensee with master diskettes from which copies will be made, labels for each machine on which Product is to be installed and one manual for every ten (10) copies of product ordered. Licensee will notify WRQ or Distributor when all copies allowed under this agreement have been made. Should Licensee wish to make additional copies under this agreement, he must call WRQ or Distributor for current pricing and version. A minimum of five (5) copies per add-on is required. Additional copies or products added to this agreement must be listed on Attachment A.
Free major version upgrades will be provided to licensee for 90 days from the effective date listed on this license. Maintenance may be purchased for a period of one year. This year will begin after the initial 90-day period expires. Maintenance can be purshased at 15% of the purchase price ONLY at the time of the initial LSL sale, and then may be renewed annually.
All terms and conditions states on the attached License Agreement apply to this agreement. Additions to this Agreement as listed on Attachment A are subject to the same terms and conditions.“
Þegar texti þessi er virtur kemur hvergi fram með óyggjandi hætti hvort er verið að selja stök leyfi eða samtímaleyfi. Fyrir liggur að samningur þessi var skrifaður af stefnanda, á staðlað eyðublað hans. Í samningnum er hvorki kveðið á um hvernig mæla skuli eða fylgjast með, hvort heldur er fjölgun á stökum leyfum eða notkun á samtímaleyfum. Þá kom fram, hjá fyrirsvarsmönnum aðila við samningsgerðina, að hvorki hafi við samningsgerðina né síðar verið um það rætt hvernig fylgjast ætti með notkuninni. Þegar allt þetta er virt verður stefnandi látinn bera hallann af óskýrum samningi og við það miðað, eins og stefndi heldur fram, að samningurinn hafi verið um kaup á samtímaleyfum.
Krafa stefnanda um fébætur er byggð á 1. mgr. 56. gr. höfundarlaga nr. 73/1972. Samkvæmt þeirri grein skal, þegar saknæmt brot á lögunum hefur haft fétjón í för með sér, bæta það eftir almennum reglum fébótaréttar.
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið um bréfaskipti lögmanna aðila sem og yfirheyrslum hér fyrir dómi, er ljóst að mun fleiri notendur voru að forriti stefnanda á vegum Reiknistofunnar en samningur aðila kveður á um. Samkvæmt hinum skriflega samningi bar stefnda að upplýsa stefnanda ef þörf var á fleiri forritum. Stefndi hefur viðurkennt að notkun á tölvuforriti því sem mál þetta snýst um hafi orðið meira en samningurinn kveður á um, án þess að leyfi til þess væri fengið hjá stefnanda eða greitt fyrir notin. Þetta er saknæmt brot á ákvæðum höfundalaga um eignar- og einkarétt höfundar og er stefndi fébótaskyldur samkvæmt 1. mgr. 56. gr. þeirra laga.
Af hálfu stefnanda hefur verið lagður fram af heimasíðu stefnda listi yfir netföng þeirra sem eru aðilar að tölvumiðstöð stefnda, bæði lögaðila og einstaklinga. Hefur stefndi haldið því fram að ekki séu allir þeir sem þar eru skráðir með aðgang að kerfi stefnda. Samkvæmt framlögðu skjali stefnda eru skráðir notendur að Jóakim, miðlægu tölvukerfi stefnda, 207 árið 2005, 180 árið 2004, 167 árið 2003, 157 árið 2002, 147 árið 2001. Stefndi hefur og haldið því fram, að ekki séu allir þessir aðilar með Reflection 1 búnaðinn, þar sem stefndi hafi tekið upp Windows-umhverfi síðla árs 2003. Þá hafi verið hætt að nota hugbúnað stefnanda, en gerður samningur við annað fyrirtæki um afnot af hugbúnaðinum Genero til að tengjast Jóakimkerfinu og hafi verið byrjað að nota það í október 2003. Þá heldur stefndi því fram að a.m.k. 12 þeirra 180 skráðra notenda að Jóakimkerfinu árið 2004 hafi aldrei notað Reflection heldur farið beint í Genero-hugbúnaðinn. Þegar það er virt, að stefnda bar að láta stefnanda í té upplýsingar um notendur umdeilds kerfis, verður við það að miða að fjöldi þeirra samtímanotenda hafi verið eins og stefndi heldur fram, aldrei fleiri en 100 talsins, enda hefur stefnandi ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti, að fjöldi þeirra hafi verið annar og meiri.
Samkvæmt öllu framansögðu ber því að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda fyrir hvert leyfi sem er umfram það sem hann hefur þegar greitt fyrir, eða 60 leyfi.
Stefnandi hefur lagt fram gjaldskrá sína, þar sem fram kemur verð fyrir hvert stakt leyfi, en ekki samtímaleyfi. Hefur umboðsmaður stefnanda fullyrt að verð fyrir samtímaleyfi sé tvöfalt verð staks leyfis. Þar sem gjaldskrá segir ekki til um annað verður við ákvörðun bóta miðað við það verð sem gjaldskrá stefnanda gefur upp sem verð fyrir hvert stakt leyfi, eða 49.780 krónur fyrir hvert leyfi. Við ákvörðun bóta til handa stefnanda vegna fjártjóns hans, er fallist á það sjónarmið stefnanda, að tjón hans nemi þeirri fjárhæð, sem leyfi er selt á hér á landi, af umboðsmanni stefnanda, og eðli máls samkvæmt er ekki ástæða til að lækka þá fjárhæð vegna fjölda leyfa, eins og hér stendur á, enda er um að ræða ólögmæta notkun á hugbúnaði stefnanda, sem stefnda átti að vera ljóst.
Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á 2. mgr. sömu greinar. Samkvæmt þeirri grein skal dæma höfundi og listflytjanda miskabætur úr hendi þess sem raskað hefur rétti þeirra með ólögmætri háttsemi. Krafa stefnanda um miskabætur byggir á því að stefndi hafi með heimildarlausri og ólögmætri notkun á fyrrgreindu tölvuforriti valdið honum miska. Eins og krafan er rökstudd hefur stefnandi ekki sýnt fram á í hverju miskinn er fólginn og verða miskabætur því ekki dæmdar sérstaklega.
Þá gerðu Boðeind, umboðsmaður stefnanda á Íslandi, og stefndi með sér svokallaðan viðhaldssamning, sem fólst m.a. í því að stefndi fékk afhentar nýjar aðalútgáfur af Reflection-hugbúnaði. Hefur fyrirsvarsmaður stefnanda fullyrt að samningurinn hafi verið gerður í umboði stefnanda, sem eiganda hugbúnaðarins. Viðhaldssamningurinn sem liggur frammi ber ekki með sér annað en að hann sé milli stefnda og Boðeindar sf. og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um bætur vegna brota á þeim samningi.
Með vísan til alls framanritaðs er niðurstaða dómsins um fébætur sú, að bætur verða ákveðnar 2.986.800 krónur.
Stefnandi krefst og vaxta, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af stefnufjárhæð frá 27. september 2001 til 18. febrúar 2005, en frá þeim degi dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þar sem vaxtakröfu er ekki mótmælt sérstaklega verður hún tekin til greina eins og krafist er, en dráttarvextir reiknast frá 18. febrúar 2005, eða mánuði frá því að krafan var tölulega sett fram.
Ekki verður tekið tillit til innborgunar stefnda inna á vörslureikning lögmanns stefnda, að fjárhæð 1.855.200 krónur, enda ekki unnt að líta á þá greiðslu sem greiðslu til stefnanda, en þeirri fjárhæð var síðan deponerað 27. mars 2006, og kemur greiðslan því til frádráttar frá þeim degi.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn, eins og atvikum er háttað, 300.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Landsteinar Strengur hf., greiði stefnanda, Attachmate WRQ, 1.131.600 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. september 2001 af 2.986.800 krónum til 18. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá þeim degi til 27. mars 2006, en af 1.131.600 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.