Hæstiréttur íslands

Mál nr. 215/2000


Lykilorð

  • Verkfallsvarsla
  • Skaðabótamál
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000.

Nr. 215/2000.

Samtök atvinnulífsins

(Jakob R. Möller hrl.

Hrafnhildur Stefánsdóttir hdl.)

gegn

Verkalýðsfélaginu Baldri og

Aðalheiði Steinsdóttur

(Björn L. Bergsson hrl.

Jóhann Halldórsson hdl.)

                                     

Verkfallsvarsla. Skaðabótamál. Sératkvæði.

Samtök atvinnulífsins (SA) stefndu verkalýðsfélaginu B og A, félagsmanni þess, til greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem SA töldu stefndu hafa valdið með ólögmætum hætti við verkfallsvörslu, þegar félagsmenn úr B undir forystu A hefðu komið í veg fyrir að fram færi löndun í Reykjavíkurhöfn úr togara í eigu atvinnurekanda á Ísafirði. Aðgerðir þeirra voru þáttur í verkfallsvörslu á vegum B, sem lýst hafði yfir verkfalli á félagssvæði sínu. Áhöfnin var hins vegar óháð verkfallinu, sem ekki náði til sjómanna. Talið var að útgerð togarans og rekstur vinnslustöðvar eigandans á Ísafirði væru samþættur atvinnurekstur, og hefðu áform atvinnurekandans um löndun í Reykjavík verið ætluð til að sneiða hjá áhrifum verkfallsins og falið í sér brot gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 og réttmætum hagsmunum B og A. Þá var það talið tilheyra verkfallsrétti að landslögum að fólki og félögum í lögmætu verkfalli væri rétt að verjast því með friðsamlegum aðgerðum, að reynt væri að draga úr áhrifum verkfallsins af hálfu þeirra, sem það beindist gegn, með því að fá aðra til að leysa af hendi vinnu að þeim störfum, sem lögð hefðu verið niður. Við komu togarans höfðu verkfallsverðir tekið sér stöðu á bryggjunni og lagt bifreiðum sínum við skipshlið. Engin átök urðu á staðnum og beinar hótanir um valdbeitingu voru ekki hafðar uppi, að því er séð varð. Uppskipunarmenn úr verkalýðsfélaginu D í Reykjavík virtust hafa látið athafnir aðkomufólksins afskiptalausar og ekki var leitt í ljós hvort stjórnendur togarans hefðu leitað eftir atbeina þeirra um löndun. Kunnugt mátti telja, að D hefði fyrir nokkru samþykkt að beina því til félagsmanna sinna að ganga ekki í störf verkfallsmanna á Vestfjörðum. Að öllu athuguðu var talið ósannað að ákvörðun stjórnenda skipsins um að sigla á brott hafi ráðist af beinum hindrunum frá hendi verkfallsvarða. Hefðu verkfallsverðir ekki kallað yfir sig og stéttarfélag sitt ábyrgð á þeim aukna kostnaði, sem af því hlytist að ráðstafa afla skipsins í annarri höfn. Voru B og A sýknuð af kröfu SA í málinu og héraðsdómur staðfestur.

 

Dómur hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi hefur skotið málinu til Hæstaréttar með stefnu 31. maí 2000. Hann krefst þess, að stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 920.276 krónur, með vöxtum eins og lýst er í héraðsdómi, ásamt málskostnaði í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Meðal þeirra er skrá yfir allar landanir togarans Stefnis ÍS 28 hér innanlands frá 19. febrúar 1995 til 8. febrúar 2000.

I.

Í héraði gerðu stefndu þá kröfu, að máli þessu yrði vísað frá dómi, einkum vegna þess, að sakarefnið ætti að lúta lögsögu Félagsdóms, en ekki almennra dómstóla. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé það verkefni Félagsdóms að dæma í málum, sem rísi út af kærum um brot á umræddum lögum og tjóni, sem orðið hafi vegna ólögmætra vinnustöðvana. Með úrskurði héraðsdómara 21. janúar sl. var kröfunni hafnað, að þessu leyti með þeim rökum, að lögmæti vinnustöðvunar stefnda Verkalýðsfélagsins Baldurs, sem málið varðar, hafi ekki verið vefengt, né heldur sé deilt um brot á vinnusamningi eða ágreiningur uppi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans, sbr. 2. tl. 1. mgr. 44. gr. Endurskoðunar á úrskurði þessum var ekki beiðst við áfrýjun málsins í samræmi við 1. mgr. 151. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 5. gr. laga nr. 38/1994. Með hliðsjón af forsendum úrskurðarins og dómi Hæstaréttar 21. febrúar sl. í máli nr. 48/2000 er ekki ástæða til að raska niðurstöðu hans.

II.

Í málinu krefur áfrýjandi stefndu um skaðabætur fyrir tjón, sem Íshúsfélag Ísfirðinga hf., eigandi og útgerðarmaður togarans Stefnis, hafi beðið af þeim sökum, að hópur félagsmanna úr Verkalýðsfélaginu Baldri, undir forustu stefndu Aðalheiðar Steinsdóttur, hafi með aðgerðum á Faxagarði í Reykjavíkurhöfn að kvöldi 20. maí 1997 og næsta dag komið í veg fyrir, að fram færi þar löndun á fiskafla úr togaranum, sem fyrirtækinu Löndun hf. og starfsmönnum þess, er flestir voru félagsmenn Verkamannafélagins Dagsbrúnar í Reykjavík, hafi verið ætlað að annast. Aðgerðirnar hafi verið þáttur í verkfallsvörslu á vegum Baldurs, sem lýst hafði yfir verkfalli á félagssvæði sínu frá miðnætti 21. apríl 1997. Togarinn hafi hins vegar verið að koma úr veiðiferð fyrir sunnan land og útgerð hans verið óháð verkfallinu, sem ekki hafi náð til sjómanna.

Aðdragandanum að umræddu verkfalli, sem stóð yfir til 6. júní 1997, er stuttlega lýst í héraðsdómi. Það var bundið við kjarasamninga landverkafólks í tilteknum félögum innan Alþýðusambands Vestfjarða, en nýir samningar um kjör verkafólks víðast hvar utan Vestfjarða höfðu tekist nokkru áður. Beindist verkfallið meðal annars að Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. sem aðila að Vinnuveitendafélagi Vestfjarða. Hlutafélag þetta stundaði bæði útgerð og fiskvinnslu og rak vinnslustöð á Ísafirði til hraðfrystingar og annarrar verkunar. Var hráefnis til vinnslunnar að miklu leyti aflað með veiðum fiskiskipa á vegum þess sjálfs, og var togarinn Stefnir meðal þeirra. Er fram komið í málinu, að honum hafði verið haldið til veiða á botnfiski í þágu þessarar vinnslu um langt skeið, þegar verkfallið brast á, þannig að landað var á Ísafirði á um 6-10 daga fresti. Samkvæmt löndunarskýrslum voru þessar veiðar samfelldar frá miðjum febrúar 1995 til miðs marsmánaðar 1997, að frátöldu tímabilinu frá 6. mars til 1. apríl 1996, en þá fór skipið þrjár veiðiferðir, þar sem landað var í Reykjavík og afli mun hafa verið seldur á fiskmarkaði.

Á tímabilinu frá 24. mars til 7. maí 1997 virðist skipið hafa farið fjórar veiðiferðir, þar sem landað var í Reykjavík, og var hin umdeilda ferð farin í framhaldi af þeim. Áfrýjandi hefur ekki skýrt til hlítar, hver tilgangurinn var, en segir aðallega, að um hafi verið að ræða sams konar veiðar og í marsmánuði árið áður. Er því eindregið mótmælt af hálfu stefndu, sem kveða ferðirnar til sölu á markaði 1996 hafa verið farnar í þágu áhafnar skipsins öðrum þræði. Telja þau tímann til sambærilegra ferða árið eftir hafa verið liðinn, áður en verkfallið kom til.

Ljóst er eftir gögnum málsins, að líta verði á útgerð togarans til ísfiskveiða og starfrækslu vinnslustöðvar eigandans á Vestfjörðum sem samþættan atvinnurekstur, er verða hlyti fyrir beinum áhrifum af verkfallinu. Hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á, að löndun á botnfiski úr þeirri veiðiferð skipsins, sem ljúka átti í Reykjavík 20. maí 1997, hafi verið til annars ætluð en að sneiða hjá þessum áhrifum. Þegar þetta er virt ásamt öðrum atvikum málsins verður að fallast á það með héraðsdómara, að áform atvinnurekandans um þessa löndun hafi falið í sér brot gegn 18. gr. laga nr. 80/1938 og réttmætum hagsmunum stefndu af verkfallinu.

III.

Í Reykjavík var aðstaðan þannig við komu togarans, að stjórn Verkamannafélagsins Dagsbrúnar hafði samþykkt fyrr í mánuðinum, að félagsmenn þess mættu ekki ganga í störf verkfallsmanna á Vestfjörðum, meðan verkfall stæði yfir, og þannig ekki vinna við afgreiðslu skipa, sem að öðrum kosti hefðu landað á Vestfjörðum. Í bréfi 8. maí 1997 um þessa samþykkt til Alþýðusambands Vestfjarða var einnig svo um mælt, að leitað yrði eftir afstöðu félagsmanna í atkvæðagreiðslu hjá starfsmönnum Eimskipa, Samskipa og Löndunar um boðun samúðarvinnustöðvunar við Reykjavíkurhöfn. Ekki er ljóst, hvernig þessu var framfylgt, og lýstu aðilar því við málflutning hér fyrir dómi, að til boðunar á samúðarvinnustöðvun hefði ekki komið.

Áður hafði Verkamannasamband Íslands beint því til aðildarfélaga sinna með skriflegum erindum, að séð yrði til þess, að félagsmenn þeirra gengju ekki í störf stéttarsystkina sinna á Vestfjörðum. Hins vegar hafði Vinnuveitendasamband Íslands borið fram mótmæli þessa vegna og lýst þeirri skoðun í bréfi til Verkamannasambandsins 6. maí 1997, að aðgerðir til að hindra þjónustu við fiskiskip frá Vestfjörðum annars staðar á landinu gætu ekki talist lögmætar, nema lýst hefði verið samúðarvinnustöðvun eftir sömu reglum og við ættu um boðun verkfalls.

IV.

Það tilheyrir verkfallsrétti að landslögum, að fólki og félögum í lögmætu verkfalli sé heimilt að verjast því með friðsamlegum aðgerðum, að reynt sé að eyða eða draga úr áhrifum verkfallsins af hálfu þeirra, sem það beinist gegn, með því að fá aðra til að leysa af hendi vinnu að þeim störfum, sem lögð hafa verið niður, enda samrýmist þær aðgerðir hinum sameiginlegu markmiðum, sem að er stefnt með verkfallinu, og gangi ekki úr hófi fram miðað við þau og þær aðstæður, sem þörf er talin að bregðast við. Eru ákvæði 18. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur meðal annars á þessu reist. Getur rétturinn til verkfallsvörslu eftir atvikum náð til þess að hafa uppi aðgerðir utan svæðisins, sem verkfall nær yfir, að virtum hagsmunum launþega og stéttarfélaga eða annarra, sem þar er fyrir að hitta.

Fram er komið, að stefnda Aðalheiður og stallsystkin hennar hafi tekið sér stöðu á Faxagarði í Reykjavíkurhöfn, þegar togarinn lagðist þar við bryggju, til að láta þar í ljós mótmæli við löndun á afla úr skipinu og sýna um leið samtakamátt sinn og félaga sinna vestur á fjörðum. Hafi þau ekki látið þar við sitja, heldur einnig lagt bifreiðum sínum á bryggjunni, þannig að löndunartæki kæmust ekki að skipshlið. Viðurkennt er, að þau hafi gefið til kynna, að þau væru komin á staðinn til að reyna að koma í veg fyrir löndun, og fram hefur komið, að formaður verkalýðsfélagsins hafi tjáð útgerðarmanni heima fyrir, að ekki yrði landað úr skipinu í Reykjavík í þetta sinn. Upplýsingar um nánari atvik að skiptum þeirra við skipverja og aðra eru þó nokkuð af skornum skammti, en starfsmenn Löndunar á vettvangi virðast hafa látið athafnir þeirra afskiptalausar. Engin átök eða heitingar manna í milli urðu á staðnum, og ekki er leitt í ljós, að verkfallsverðirnir hafi haft uppi beinar hótanir um valdbeitingu til að koma í veg fyrir uppskipun.

Þess er jafnframt að gæta, að löndun aflans í Reykjavík hlaut að vera undir því komin öðru fremur, að uppskipunarmenn úr hópi félagsmanna Dagsbrúnar fengjust til vinnu að verkinu. Ekki er leitt í ljós, að stjórnendum skipsins hafi verið heitið því fyrirfram, að svo yrði, né heldur verður séð, hvort þeir hafi leitað eftir atbeina þessara manna um löndun, þegar komið var að bryggju. Ætla verður hins vegar, að bæði stjórnendum skipsins og starfsmönnum og fyrirsvarsmönnum Löndunar hafi verið kunnugt um áðurgreinda stjórnarsamþykkt Dagsbrúnar.

Að athuguðu öllu þessu er það ósannað, að ákvörðun stjórnenda skipsins um að sigla því til annarrar hafnar hafi ráðist af beinum hindrunum frá hendi verkfallsvarða. Verður ekki á það fallist, að verkfallsverðirnir hafi kallað yfir sig og stéttarfélag sitt ábyrgð á þeim aukna kostnaði, sem af því hlytist að ráðstafa afla skipsins í annarri höfn.

Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur, með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem um er mælt í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Áfrýjandi, Samtök atvinnulífsins, greiði stefndu, Verkalýðsfélaginu Baldri og Aðalheiði Steinsdóttur, sameiginlega 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

Ég er sammála meirihluta dómara um upphaf atkvæðis þeirra og einnig kafla I. og II. aftur að síðustu setningunni. Í stað hennar komi: Hér var um félagslega aðgerð að ræða af hálfu Verkalýðsfélagsins Baldurs og ósannað að Aðalheiður Steinsdóttir hafi sérstaklega staðið fyrir henni. Ber þegar af þeim ástæðum að sýkna hana af kröfum áfrýjanda. Þar sem fyrir liggur að Verkamannafélagið Dagsbrún og Verkamannasamband Íslands studdu aðgerðir verkfallsmanna er ósannað að til uppskipunar hefði komið í Reykjavík, sbr. og 13. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Með því sem að framan er rakið og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann. Með þessari athugasemd er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómara.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, þingfestri 24. júní 1999.

Stefnandi er Vinnuveitendasamband Íslands, kt. 700269-3209, Garðastræti 41, Reykjavík.

Stefndu eru Verkalýðsfélagið Baldur, kt. 490272-4299, Pólgötu 2, Ísafirði 2, og Aðalheiður Steinsdóttir, kt. 150452-2609, Tangagötu 15, Ísafirði. Málið var jafnframt höfðað á hendur Trausta Magnúsi Ágústssyni, kt. 180961-5429, Tangagötu 22, Ísafirði, og Þóru Baldursdóttur, kt. 160765-3139, Tangagötu 22, Ísafirði, en fallið var frá kröfum á hendur þeim við aðalmeðferð þess.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd óskipt til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 920.276 krónur með ársvöxtum samkvæmt 7. grein vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá 30. maí 1997, það er 1% vöxtum frá 30. maí 1997 til 1. júní 1999, en með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá þeim degi til þingfestingardags málsins, 24. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Af hálfu stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Kröfu stefndu um frávísun málsins var hafnað með úrskurði 21. janúar síðastliðinn.

I.

Málavextir

Hinn 24. mars 1997 voru gerðir kjarasamningar á milli Vinnuveitendasambands Íslands, hér á eftir nefnt stefnandi, og Verkamannasambands Íslands (VMSÍ), en örfá félög innan VMSÍ felldu annað hvort  samninginn eða stóðu ekki að honum.  Þann 21. apríl 1997 hófu verkalýðsfélög innan Alþýðusambands Vestfjarða, þar á meðal Verkalýðs- og sjómannafélag Álftfirðinga og Verkalýðsfélagið Baldur, verkfall til að knýja á um kröfur sínar gagnvart Vinnuveitendafélagi Vestfjarða, sem er staðbundið félag aðildarfyrirtækja stefnanda. Fljótlega eftir að verkfallið hófst komu upp deilur um löndun vestfirskra skipa utan Vestfjarða. Hélt hið stefnda verkalýðsfélag því fram, að landanir skipanna utan Vestfjarða væru verkfallsbrot, þar sem löndunarmenn annars staðar gengju í störf verkfallsmanna. Þriðjudagskvöldið 20. maí 1997 kom Stefnir - ÍS 28 til Reykjavíkur, þar sem fyrirhuguð hafði verið löndun úr skipinu. Ætlaði fyrirtækið Löndun hf. að annast verkið. Eftir að skipið lagðist að bryggju í Reykjavíkurhöfn tóku verkfallsverðir á vegum hins stefnda verkalýðsfélags sér stöðu við skipið. Var þá ákveðið að fresta löndun til næsta dags, en þá lögðu verkfallsverðir frá verkalýðsfélaginu bifreiðum sínum við skipshlið og komu þannig í veg fyrir að unnt væri að landa úr togaranum. Við svo búið var togaranum siglt til Vestmannaeyja, þar sem aflanum var landað 22. maí 1997.

Undir rekstri málsins var Vinnuveitendasamband Íslands lagt niður og stofnuð Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919. Tóku samtökin við sóknaraðild málsins 15. september 1999.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt, að þann 21. maí 1998 hafi verkfallsverðir á vegum hins stefnda verkalýðsfélags, þ. á m. stefnda, Aðalheiður Steinsdóttir, hindrað með valdi löndun úr umræddum togara. Hafi stefndu valdið stefnanda tjóni með ólögmætum verkfalls­aðgerðum, sem þeir beri skaðabótaábyrgð á. Hvorki áhöfn togarans né aðrir, sem unnu að löndun, hafi verið í verkfalli eða bundnir af verkfallsboðun á nokkurn hátt. Hafi hvorki ákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur né aðrar réttarreglur staðið í vegi fyrir því, að heimilt væri að landa úr togaranum greint sinn. Þar sem skipverjar hafi ekki verið í verkfalli hafi skipið haft frjálsa för á hvaða höfn á landinu sem var og löndun úr því verið heimil utan verkfallssvæðis hverjum þeim, sem ekki var í verkfalli. Hafi aðgerðir stefndu því verið ólögleg ofbeldisverk, sem engan stuðning eigi í 18. gr. laga nr. 80/1938 eða öðrum réttarheimildum.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína og rökstyður sem hér segir:

a. Útlagður kostnaður.

Hafnargjöld í Vestmannaeyjum samkvæmt reikningi kr. 6.662

b. Töf.

Töf er reiknuð út miðað við 8% fyrningu vátryggingar-

verðmætis skipsins, sbr. 32. gr. og 1. tl. 1. mgr. 38. gr.

laga nr. 75/1981. Skv. upplýsingum frá iðgjaldaskrá

fiskiskipa fyrir árið 1997 var vátryggingarverðmæti

Stefnis – ÍS 28 kr. 230.100.000. Miðað er við 28 klst. töf kr. 58.838

c. Olíukostnaður.

Kostnaðurinn er miðaður við 2000 lítra eyðslu á klst.

Verð olíulítra er kr. 16,21. Sigling frá Reykjavík til

Vestm.eyja og til Reykjav. (28 klst. x 200 x 16,21) kr. 90.776

d. Kostnaður á siglingu.

Kostnaður vegna skips á siglingu er miðaður við

taxta vátryggingarfélags eiganda skipsins, sem metur

slíkt tjón á kr. 28.450. Sú fjárhæð er lækkuð með

tilliti til þess, að einnig er krafist bóta vegna fyrningar

og olíukostnaðar kr. 560.000

e. Kostnaður í bið.

Kostnaður vegna skips í bið, 12 klst. x 17.000 kr. 204.000

Samtals kr. 920.276

 

Stefnandi reisir kröfur sínar um skaðabætur á ólögfestum skaðabótareglum íslensks réttar, einkum almennu skaðabótareglunni. Þá vísar hann einnig til ákvæða laga nr. 80/1938 og annarra reglna vinnuréttar.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndu krefjast sýknu með þeim rökum, að aðgerðir stefndu hafi verið fullkomlega lögmætar. Í 14. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur sé lögfest heimild til handa stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum til verkfalla og verkbanna í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum. Á sama hátt sé þeim, sem vinnustöðvun beinist gegn, óheimilt að brjóta gegn henni, sbr. 18. gr. laga nr. 80/1938. Með því að ætla félagsmönnum í Verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík að landa úr Stefni ÍS-28 hafi Íshúsfélag Ísfirðinga hf. ætlað sér að brjóta gegn fortakslausu banni 18. gr. laga nr. 80/1938, en Dagsbrún eigi aðild að Alþýðusambandi Íslands, sem staðið hafi að vinnustöðvuninni í þessum skilningi, sbr. 4. gr. laga Alþýðusambands Íslands, sbr. og 13. gr. laga nr. 80/1938. Löng venja sé fyrir því, að þeim aðila, sem stendur að lögmætum verkfallsaðgerðum, sé heimilt að verja aðgerðir sínar gegn því að gagnaðilinn brjóti þær á bak aftur með ólögmætum hætti. Sé stéttarfélögum heimilt að tryggja, að starfsemin, sem verkfall beinist gegn, sé hætt og atvinnurekendum í verkbanni sömuleiðis heimilt að koma í veg fyrir að starfsmenn þeirra sæki vinnu annað. Togarinn Stefnir ÍS-28 sé nánast einvörðungu gerður út frá Vestfjörðum og landi þar nánast undantekningalaust. Einu undantekningarnar séu fáeinar landanir að vorlagi, þar sem afli skipsins sé að líkindum seldur á uppboðsmarkaði til að afla fyrirtækinu skotsilfurs og áhöfninni hærri aflahlutar. Hafi útgerð skipsins þannig verið grandsöm um, að hún væri að komast hjá áhrifum verkfallsins með því að flytja verkefni verkfallsmanna annað. Þá sé það eitt megineinkenni verkfalls, að það eigi ekki að leiða til aukinna verkefna hjá aðilum, sem standa utan við það og sinna vinnu af sama tagi og verkfallið beinist að. Væri slíkt heimilt myndi verkfall, sem sé lögmætt þvingunarúrræði skv. 14. gr. laga nr. 80/1938, missa marks og hætta jafnframt skapast á, að kjaradeila dragist óhóflega á langinn í andstöðu við tilgang II. og III. kafla laga nr. 80/1938. Þá sé til þess að líta, að Verkamannafélagið Dagsbrún hafi þegar verið búið að taka ákvörðun um, að félagsmenn þess gengju ekki í störf verkfallsmanna. Kjarni þessa máls sé, að stefndu hafi beitt sér einungis innan leyfilegra marka neyðarvarnar, sbr. 12. gr. alm. hgl. nr. 19/1940, við lögmæta verkfallsvörslu og hvergi farið offari, en slíkt sé heimilt og bæði refsi- og bótalaust. Með vísan til þess sé ótvírætt, að stefndu hafi haft fulla heimild til að verja rétt sinn til að vera í verkfalli í þeim tilgangi að knýja á um kjarakröfur sínar í deilu við atvinnurekendur.

Í annan stað sé það ófrávíkjanlegt skilyrði skaðabótaskyldu, að tjónþoli hafi orðið fyrir sannanlegu tjóni, en svo sé ekki í þeim tilvikum, er varða þá liði, sem krafist er bóta fyrir. Þá hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum fyrir tómlætis sakir, hafi hann átt á einhverju tímamarki réttmæta kröfu á hendur stefndu. Stefnandi hafi, um leið og aðgerðin átti sér stað, látið í ljós þá skoðun, að hún væri ólögmæt. Þrátt fyrir þetta hafi hann látið undir höfuð leggjast að gera nokkurn reka að ætluðum kröfum sínum á meðan verkfallið stóð eða strax að því loknu. Það sé fyrst þegar líður að lokum gildistíma kjarasamningsins, sem gerður var 1997, að stefnandi hefjist handa. Verði aðgerðarleysi stefnanda ekki metið á annan hátt en sem viðurkenning á réttmæti aðgerðar stefndu.

Um einstaka kröfuliði.

Útlagður kostnaður vegna hafnargjalda í Vestmannaeyjahöfn. Það hafi verið algerlega á ábyrgð Íshúsfélags Ísfirðinga hf. að halda frystiskipinu Stefni ÍS­ - 28 til Vestmannaeyja eftir að útgerðinni hafði verið synjað um löndun í Reykjavík. Í annan stað hafi verið landað úr skipinu í Vestmannaeyjum, þannig að ekki verði séð á hvern hátt hafnargjöld þar geti talist tjón að skaðabótarétti. Þar sem ekkert tjón hafi orðið beri að sýkna af þessum kröfulið.

Töf. Engin grein sé gerð fyrir því í stefnu hvenær eða hvar togarinn Stefnir ÍS-28 varð fyrir töf og sé stefndu því í raun ekki unnt að taka afstöðu til þessa kröfuliðar. Í annan stað sé  stefndu ekki kunnugt um, að skipið hafi rýrnað af þeirra völdum. Fyrning skipsins samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 sé stefndu algerlega óviðkomandi og skapi ekki bótagrundvöll að skaðabótarétti. Verði þessi liður viðurkenndur væri stefnandi, sem ekki öðlist betri rétt en Íshúsfélag Ísfirðinga hf., að fá ,,tjón” vegna fyrningar tvíbætt, fyrst úr hendi skattayfirvalda og síðan úr hendi stefndu. Beri því að sýkna stefndu af þessum lið.

Olíukostnaður. Sigling togarans frá Reykjavík til Vestmannaeyja hafi alfarið verið á vegum Íshúsfélags Ísfirðinga hf. og stefndu óviðkomandi. Sé því mótmælt sem ósönnuðu, að olíukostnaður skipsins hafi verið sá, sem hann er sagður vera.

Kostnaður á siglingu. Mótmælt er, að unnt sé að miða við ákvæði tilgreinds vátryggingasamnings um siglingakostnað. Þá er jafnframt mótmælt, að fjárhæð sú, sem vátryggingasamningurinn gerir ráð fyrir, sé bætur fyrir tjón í skilningi skaðabótaréttar. Ennfremur hafi sigling skipsins alfarið verið á ábyrgð Íshúsfélags Ísfirðinga hf., sem stefnandi leiðir rétt sinn af.

Kostnaður vegna skips í bið. Kröfuliður þessi sé ekkert útskýrður eða rökstuddur og þá er því mótmælt, að um tjón í skilningi skaðabótaréttar sé að ræða.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Íshúsfélag Ísfirðinga hf., eigandi Stefnis - ÍS 28, fékk greiðslur úr vinnudeilusjóði stefnanda. Gegn þeim greiðslum framseldi fyrirtækið stefnanda allar ódæmdar bótakröfur, sem það kynni að eiga á hendur bótaskyldum aðila vegna áðurnefndrar vinnustöðvunar á Vestfjörðum. Er því stefnandi kominn að kröfunum fyrir framsal frá þeim aðila, sem ætlað brot beindist gegn. Er hann því að lögum réttur sóknaraðili málsins.

Lögmæti vinnustöðvunar Verkalýðsfélagsins Baldurs, sem hófst 21. apríl 1997, er ekki vefengt af hálfu stefnanda, heldur byggir hann á því, að stefndu hafi valdið honum tjóni með ólögmætum verkfallsaðgerðum, sem þeir beri bótaábyrgð á.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 80/1938 er stéttarfélögum heimilt að gera verkföll í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum með þeim skilyrðum og takmörkunum, sem sett eru í lögum.  Þá kemur fram í  18. gr. sömu laga, að þeim, er vinnustöðvun beinist gegn, sé óheimilt að stuðla að því að afstýra henni með aðstoð einstakra meðlima þeirra félaga eða sambanda, sem að vinnustöðvuninni standa.

Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir landanir Stefnis ÍS - 28 á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 31. desember 1997, en þær voru samtals 85. Þar af voru 69 þeirra á Ísafirði og 7 í Súðavík, eða alls 76 umræddu verkfallssvæði, en 9 í öðrum höfnum landsins, nánar tiltekið 7 í Reykjavík og 2 í Vestmannaeyjum. Af yfirlitinu verður sú ályktun dregin, að til algjörra undantekninga heyrði, að afla togarans væri landað annars staðar en á verkfallssvæðinu, áður en  vinnustöðvunin hófst.

Framkvæmdastjóri stefnanda greinir frá því í bréfi til Alþýðusambands Vestfjarða frá 21. maí 1997, að Stefnir ÍS – 28 hafi stundað veiðar ,,fyrir sunnan land frá því fyrir upphaf verkfalls á Vestfjörðum” og hafi frá upphafi átt að landa í Reykjavík. Sami háttur hafi verið viðhafður á svipuðum tíma árið áður, en þá hafi aflanum einnig verið landað í Reykjavík.

Í tilefni af því, sem fram kemur í bréfi framkvæmdastjórans, ber að geta þess, að samkvæmt áðurnefndum löndunarlista landaði skipið í Reykjavíkurhöfn 20. og 27. mars 1996 og 1. apríl sama ár og 10., 17. og 27. apríl og 7. maí árið 1997. Eftir að verkfalli lauk og út árið 1997 var afla úr skipinu ekki landað annars staðar en á Ísafirði og í Súðavík.

Fram kemur í bréfi formanns hins stefnda verkalýðsfélags til framkvæmdastjóra Íshússfélags Ísfirðinga hf., dagsettu 19. mars 1997,  að dagana 10. – 12. mars 1997 hafi farið fram allsherjaratkvæðagreiðsla hjá félaginu um boðun verkfalls á félagssvæði þess. Hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verið sú, að samþykkt hafi verið að boða vinnustöðvun frá og með 2. apríl 1997. Lögmæt vinnustöðvun stéttarfélaganna á Vestfjörðum hófst hins vegar ekki fyrr en 21. apríl, svo sem áður greinir. Þá segir í bréfi Verkamannafélagsins Dagsbrúnar til Alþýðusambands Vestfjarða, dagsettu 8. maí 1997, að stjórn félagsins hafi samþykkt, að félagsmenn þess mættu ekki, meðan verkfall ,,stéttarfélaganna á Vestfjörðum” stæði yfir, ganga í störf verkfallsmanna. Í þessu fælist, að félagsmenni mættu ekki vinna við afgreiðslu skipa, sem að öðrum kosti hefðu landað á Vestfjörðum. Taki bannið gildi frá og með þeim degi, sem það er ritað og verði leitað eftir afstöðu félagsmanna í atkvæðagreiðslu um boðun samúðarvinnustöðvunar á athafnasvæði Reykjavíkurhafnar. Ennfremur er þess að geta, að Verkamannasamband Íslands beindi þeim tilmælum til aðildarfélaga sinna í bréfi 25. apríl 1997, að félagsmenn þeirra gengju ekki í störf félaga sinna á Vestfjörðum, sem stæðu í verkfallsaðgerðum. Ætti þetta til dæmis við um landanir úr bátum og skipum, sem landað hefðu á Vestfjörðum, hefðu verkfallsaðgerðir ekki staðið yfir.

Svo sem að framan greinir, heyrði til algjörra undantekninga fyrir vinnustöðvun þá, sem mál þetta er sprottið af, að landað væri úr Stefni ÍS – 28 annars staðar en á Ísafirði. Þá verður að virða áðurnefndar landanir skipsins í apríl 1997 í ljósi bréfs Alþýðusambands Vestfjarða til framkvæmdastjóra Íshússfélags Ísfirðinga hf. um, að verkfall hæfist 2. þess mánaðar.

Með vísan til ofanritaðs er það mat dómsins, að löndunarstaður Stefnis ÍS - 28 og þar með sú starfsemi félagsins, er að skipinu laut, hafi verið flutt frá Ísafirði í apríl 1997, gagngert til að komast hjá áhrifum fyrirsjáanlegrar vinnustöðvunar á Vestfjörðum. Hinu sama gegnir um löndun úr skipinu 2. maí og löndun þá, er fyrirhuguð var 20. og 21. sama mánaðar og mál þetta á rætur sínar að rekja til. Samkvæmt því áttu félagsmenn í Verkamannafélaginu Dagsbrún, sem studdi aðgerðir hins stefnda verkalýðsfélags samkvæmt framansögðu, að vinna verk í Reykjavíkurhöfn, sem yfirgnæfandi líkur eru á samkvæmt framansögðu, að félagsmenn hins stefnda verkalýðsfélags hefðu unnið við venjulegar aðstæður. Braut atvinnurekandinn þannig gegn ákvæðum 18. gr. ofangreindra laga um stéttarfélög og vinnudeilur, er gerði það að verkum, að réttmætt var af hálfu stefndu við þær aðstæður að grípa til þess úrræðis, sem mál þetta er risið af. Ber því að sýkna ber stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum úrslitum og samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað óskipt, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndu, Verkalýðsfélagið Baldur og Aðalheiður Steinsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Samtaka atvinnulífsins, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu óskipt 400.000 krónur í málskostnað.