Hæstiréttur íslands
Mál nr. 745/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 17. desember 2012. |
|
Nr. 745/2012.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum daginn eftir. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2012 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. janúar 2013 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2012.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, frá og með fimmtudeginum 13. desember 2102 allt til fimmtudagsins 10. janúar. 2013 kl. 16:00, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í nótt grunaður um alvarlega líkamsárás á hendur A kt. [...] á gistiheimilinu [...] að [...] í Reykjavík. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi kærði verið blóðugur á líkama og höndum og á rúmi herbergisins hafi brotþolinn A setið og grátið, en hún hafi verið stokkbólgin og blóðug í andliti og í miklu uppnámi. Greinileg ummerki hafi verið um átök í herberginu, blóð á veggjum, gólfi, rúmi og húsgögn og munir herbergisins legið á víð og dreif.
Brotaþoli hafi lýst því að hún hafi verið sofandi í herberginu þegar kærði hafi komið inn í herbergið brjálaður og ásakað að hana um að hafa verið að fikta í símanum hans. Hann hafi gengið að rúminu og byrjað að lemja hana með hnefum og hent stól í hana. Þá hafi hann dregið hana um á hárinu og sparkað í andlit hennar og bak. Þegar lögreglan hafi komið á svæðið hafi hann skipað henni að fara upp í rúm og undir sæng, hætta að grenja og fela sig. Brotþoli segi kærða einnig hafa tekið hníf og lagt hann upp að hálsinum á henni og sagt “Ég drep þig og veistu hvernig ég geri það?” Þá hafi kærði haft í líflátshótunum við hana er hún hafi reynt að koma sér út úr herberginu.
Við komu á slysadeild hafi brotþoli reynst mikið slösuð en hún hafi verið verulega bólgin og marin á höfði og öllum útlimum og þá hafi vinstra auga hennar verið sokkið. Vitni og tilkynnandi málsins, starfsmaður gistiheimilisins, hafi sagst hafa heyrt þegar kærði hafi hótaði því að drepa brotaþola. Þá hafi fundist hnífur á vettvangi sem talið sé að kærði hafi notað gegn brotaþola umrætt sinn, en hnífurinn hafi verið falinn undir kodda í rúmi herbergisins. Hafi kærði viðurkennt sök í málinu en neiti að hafa ógnað brotaþola með hnífi.
Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu og liggi nú undir sterkum grun um mjög alvarlega líkamsárás síðastliðna nótt. Kærði sé með langan sakaferill, frá árinu 2002, og hafi ítrekað hlotið dóma og gengist undir sáttir vegna auðgunarbrota, fíkniefnalagabrota, umferðarlagabrota og þá hafi kærði hlotið 7 ára fangelsisdóm fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr., 211. sbr. 20. gr. og 1. mgr. 106. gr. hgl. í lok árs 2003.
Þyki að mati lögreglu ljóst að kærði hafi einbeittan brotavilja og að undanförnu hafi ekkert lát verið á brotum hans sem séu ósvífin og tengist oft ofbeldi gegn ungum konum.
Eftirfarandi mál séu til rannsóknar hjá embættinu þar sem kærði sé undir sterkum rökstuddum grun:
Hinn 29. október 2012 sé kærði grunaður um eignarspjöll og húsbrot með því að hafa brotist inn til fyrrum unnustu sinnar B og tekið þaðan bifreið, fartölvu og fatnað. Vitni, tvær stúlkur, sem keyrt hafi kærða að heimili B, staðfesti að kærði hafi brotist þar inn. Háttsemi kærða sé talin varða við 231. og 257. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði sé einnig grunaður um að hafa hinn 29. október 2012 ráðist á C kt. [...], starfsmann N-1 við [...], eftir að C hafi sett útá að kærði væri að hrækja á gólf verslunarinnar. Atvikið sjáist vel á myndbandsupptöku. Háttsemin sé talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga.
Þá sé kærði grunaður um að hafa 29. október 2012 slegið D kt. [...] í höfuðið svo hún hafi fallið í gólf og misst meðvitund eftir að hún hafi beðið hann að biðja sig afsökunar á því að hafa kallað hana helvítis tussu. Stúlkan hafi síðan reynt að fá kærða út en hann hafi þá ýtt henni inn á baðherbergi og ofaní sturtubotn þar sem hann hafi tekið hana hálstaki. Stúlkan hafi hlotið rispur á hálsi og mar á kjálka. Háttsemin sé talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði hafi verið stöðvaður hinn 26. október 2012 á bifreið á gatnamótum Snorrabrautar og Bergþórugötu en hann hafi bæði verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna (mælt hafi verið í blóði 20 ng/ml af Amfetamíni og 2,6 ng/ml af tetrahydrókannabínól) og ekið bifreiðinni réttindalaus. Háttsemin sé talin varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a og 48. gr. sbr. 100. gr. umferðarlaga.
Þá sé kærða gefið að sök að hafa að kvöldi mánudagsins 15. október 2012, ráðist á B, á heimili hennar að [...], slegið hana nokkrum höggum í andlit, sparkað í síðu hennar þar sem hún hafi legið á gólfinu og hoppað á maga hennar og á höfði, með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið blóðnasir og bólgur á vinstri og hægri kinn og hægra auga, marblett á vinstri síðu, auk eymsla. Háttsemin sé talin varða við 217. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði sé einnig grunaður um eignarspjöll að [...] í Reykjavík, hinn 12. september 2012, þar sem hann hafi reynt að komast inn í íbúðina með því að sparka í útidyrahurð og við það hafi gler í hurðinni brotnað. Háttsemin sé talin varða við 257. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði sé grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna á Bústaðarvegi í Reykjavík, hinn 12. september 2012 þar sem ákærði hafi ekið bifreiðinni [...] ófær um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði hafi mælst 45 ng/ml af amfetamín, 80 ng/ml af kókaín og 0,7 ng/ml af tetrahýdrókannabínól). Kærði hafi játað að hafa neytt fíkniefna. Háttsemin sé talin varða 45. gr. a. sbr. 100. gr. umferðarlaga.
Kærði sé grunaður um fíkniefnalagabrot að [...] í Reykjavík hinn 30. ágúst 2012 með því að hafa í vörslum sínum 1,41 g af maríhúana. Kærði hafi játað brotið. Háttsemin sé talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Þá sé kærði undir sterkum grun um að hafa þriðjudaginn 21. ágúst 2012, þröngvað E, kt. [...], til samræðis með því að rífa utan af henni fötin og ýta henni í sófa þar sem þau hafi verið stödd á heimili hennar að [...], [...], hrækt á rass hennar og haft við hana kynferðismök bæði í leggöng og í endaþarm. Ætluð háttsemi kærða sé talin varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hafi neitað sök í málinu. Rannsókn málsins sé lokið og hafi málið verið sent ríkissaksóknara, þar sem það bíði ákvörðunar um saksókn.
Kærði sé grunaður um gripdeild og fíkniefnalagabrot í verslun 10-11 [...], hinn 1. apríl 2012, þar sem kærði hafi náð sér í mat og borðað hann inni í versluninni og gengið svo út án þess að greiða fyrir og í sama skipti haft í vörslum sínum 0,74 g af maríhúana. Háttsemin sé talin varða við 245. gr. almennra hegningarlaga og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Þá hafi kærði verið úrskurðaður í nálgunarbann í 6 mánuði hinn 15. október sl., þar sem honum hafi verið bannað að koma á eða í námunda við heimili F kt. [...], fyrrum unnustu sinnar, að [...] í Reykjavík, veita henni eftirför, nálgast hana á almannafæri, og setja sig í samband við hana. Kærði sé grunaður um að hafa hinn 10. janúar 2012 ráðist á F með því að slá hana í andlitið með krepptum hnefa með þeim afleiðingum að hún hafi fengið áverka á vinstri auga, slegið hana með olnbogum, lamið höfði hennar utan í vegg svo hún hafi misst áttir og fallið í gólfið og sparkað í ítrekað í hana með hægri fæti. Hinn 10. febrúar 2012 hafi hún óskað eftir að kærði yrði fjarlægður af heimili hennar en hann hafi neitað að fara. Kærði hafi verið handtekinn á heimili brotaþola hinn 22. febrúar þar sem hann hafi verið að skemma húsgögn og tæki í íbúðinni og hafi verið lögð fram kæra vegna eignarspjalla. Hinn 9. ágúst hafi kærði aftur verið grunaður um að hafa eyðilagt sjónvarp, stofuborð, spegil og rúðu í stofu húsnæðis F og hinn 20. ágúst hafi verið tilkynnt um að kærði væri mættur óboðinn að heimili F.
Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að hann muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæti rannsókn lögreglu og eftir atvikum dómsmeðferð.
Það sé og mat lögreglustjóra að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, enda sé kærði nú undir sterkum grun um að hafa framið fjölda afbrota, þ. á m. afbrot sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi. Séu brot kærða í eðli sínu svo svívirðileg að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Það myndi valda mikilli hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi kærði frjáls ferða sinna.
Samkvæmt framangreindu hafi kærði ítrekað orðið uppvís að alvarlegum ofbeldisbrotum og hótunum og þá hafi hann ítrekað verið undir áhrifum fíkniefna er lögreglan hafi haft afskipti af honum. Kærði verði að teljast mjög hættulegur umhverfi sínu og því afar brýnt að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi með tillit til almannahagsmuna.
Sakarefni málanna séu talin varða við 194, 217., 218, 231, 233, 245, 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og umferðarlögum, en framangreind brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannist. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til c - liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Eins og að framan er rakið var kærði handtekinn í nótt vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot og líflátshótanir í garð ungrar stúlku.
Samkvæmt gögnum málsins er kærði einnig undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot, fjögur ofbeldisbrot, nauðgun, eignaspjöll og brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Gögn málsins bera með sér að kærði á að baki nokkuð langan sakaferil og hefur margsinnis hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot. Samkvæmt sakavottorði kærða hefur hann frá því í ágúst 2002 fimmtán sinnum hlotið dóm. Hinn 9. desember 2003 hlaut kærði sjö ára fangelsisdóm m.a. fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Framlögð gögn benda og til þess að hann hafi verið í samfelldri brotastarfsemi frá því í ágúst á þessu ári. Í greinargerð lögreglustjóra er rakin brotastarfsemi kærða frá því í ágúst sl. og fram til dagsins í dag. Þau brot eru talin varðavið 194. gr., 217. gr., 218. gr., 231. gr., 233., 245. gr. og 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing sannist sök. Með vísan til greinargerðar lögreglu og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við og að ætla megi að kærði muni halda áfram brotastarfsemi, fari hann frjáls ferða sinna. Því er fallist á með lögreglustjóra að skilyrði c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 séu uppfyllt. Er krafa um gæsluvarðahald því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma en krafist er.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 10. janúar. 2013 kl. 16:00.