Hæstiréttur íslands

Mál nr. 465/2003


Lykilorð

  • Samkeppni


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. apríl 2004.

Nr. 465/2003.

Íslenskur markaður hf.

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og

(Kristján Þorbergsson hrl.)

samkeppnisráði

(Karl Axelsson hrl.)

 

Samkeppni.

Með lögum nr. 76/2000 var F gert að hlutafélagi og í tengslum við breytinguna var rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli felldur undir félagið. Í sem rak verslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar kvartaði meðal annars undan því við samkeppnisyfirvöld að F hefði áður en til forvals kom um reksturs verslunar í flugstöðinni valið til sölu í eigin verslun arðvænlegustu vöruflokkana og þar að auki tekið frá besta húsnæðið fyrir starfsemi sína. Í ákvörðun samkeppnisráðs 29. janúar 2003 var fallist á að háttsemi F fæli í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og hefði skaðleg áhrif á samkeppni í skilningi 17. gr. laganna. F bar ákvörðunina undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem staðfesti niðurstöðuna en með breyttum rökstuðningi. Taldi nefndin að 7. gr. laga nr. 76/2000 gengi framar ákvæðum samkeppnislaga að því leyti að F væri í sjálfsvald sett hvaða húsnæði það tæki undir verslunarrekstur sinn og hvaða vörur það tæki til sölumeðferðar. Að öðru leyti taldi nefndin að ákvæði samkeppnislaga ættu við um verslunarrekstur á flugstöðvarsvæðinu. Í dómi var fallist á þessi sjónarmið áfrýjunarnefndar samkeppnismála og voru F og S sýknuð af kröfu Í um ógildingu úrskurðarins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. desember 2003. Hann krefst þess, að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 7. apríl 2003 í málinu nr. 1/2003: Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. gegn samkeppnisráði. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.

Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslenskur markaður hf., greiði stefndu, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og samkeppnisráði, 250.000 krónur hvorum um sig í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2003.

          Mál þetta, sem tekið var til dóms 29. október síðastliðinn, er höfðað 25. júní 2003 af Íslenskum markaði hf., Leifsstöð, Keflavíkurflugvelli, gegn Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., Keflavíkurflugvelli, og samkeppnisráði.

          Stefnandi gerir þær dómkröfur að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 7. apríl 2003 í málinu nr. 1/2003, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. gegn samkeppnisráði. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.

          Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

          Að beiðni stefnanda féllst dómstjóri á, 20. júní síðastliðinn, að málið sætti flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

          Með bréfi, dagsettu 5. september 2002, kvartaði stefnandi til Samkeppnisstofnunar yfir forvali um aðgang og afnot af verslunar- og þjónusturými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem kynnt var 15. ágúst 2002 með forvalsgögnum stefnda, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE hf.). Í erindinu kom fram að stefnandi ræki verslun með íslenskar vörur í flugstöðinni og leigði þar húsnæði af stefnda, FLE hf., en stefndi rekur þar verslun (Fríhöfnina). Kvartaði stefnandi yfir því að stefndi væri viðsemjandi stefnanda um verslunarrými jafnframt því að vera keppinautur stefnanda í verslunarrekstri í flugstöðinni. Áður en til forvals hafi komið hafi stefndi valið til sölu í eigin verslun arðvænlegustu vöruflokkana og þar að auki tekið frá besta húsnæðið fyrir starfsemina. Þá vísaði stefnandi til þess að samkvæmt forvali muni stefndi stýra bæði vöru- og þjónustuframboði annarra rekstraraðila á fríhafnarsvæðinu og enn fremur verði þeim aðilum skylt að veita stefnda daglega upplýsingar um rekstur sinn.

          Á fundi stefnda, samkeppnisráðs, 29. janúar 2003, var tekin sú ákvörðun að háttsemi stefnda, FLE hf., sem tengist forvali í ágúst 2002 á viðskiptatækifærum í flugstöðinni, bryti í bága við 11. gr. samkeppnislaga og hefði skaðleg áhrif á samkeppni í skilningi 17. gr. laganna.

          Málið fór fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem kvað upp úrskurð 7. apríl síðastliðinn. Var ofangreind ákvörðun samkeppnisráðs staðfest en á breyttum forsendum. Í úrskurðinum segir meðal annars að í máli áfrýjunarnefndarinnar nr. 4/1997, sbr. einnig mál nr. 2/1994 og 24/1995, að sérlög gangi framar ákvæðum samkeppnislaga ef þær réttarheimildir hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 76/2000 um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sé tilgangur félagsins að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þar með talið rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist. Samkvæmt því sé það undir FLE hf. sjálfu komið hvort og að hvaða marki hún feli öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega í flugstöðinni. Af þessu leiði að félaginu sé heimilt að ákveða sjálft það húsnæði í fríhöfninni sem það tekur til notkunar undir verslunarrekstur eða þjónustu svo og að ákveða hvaða vörur eða þjónustu það tekur til sölumeðferðar.

          Áfrýjunarnefndin liti hins vegar svo á að hvorki lög nr. 76/2000 né reglugerð nr. 766/2000 hafi að geyma nein ákvæði sem lúta að öðru fyrirkomulagi verslunarreksturs og tengdri starfsemi, sem fela í sér frávik frá reglum samkeppnislaga. Því verði að telja að samkeppnislög eigi við í öðrum tilvikum en áður greindi. Taldi áfrýjunarnefndin að tilgangi nefndra laga yrði einnig náð þótt starfsemin færi fram innan ramma samkeppnislaga að þessu leyti. Var niðurstaða nefndarinnar því sú að líta bæri svo á að umrædd starfsemi teldist háð ákvæðum samkeppnislaga nema varðandi val FLE hf. á húsnæði til eigin verslunar- eða þjónusturekstrar og vöru- og þjónustuúrvali þar.

          Stefnandi sættir sig ekki við framangreinda niðurstöðu og röksemdafærslu áfrýjunarnefndarinnar og hefur því höfðað mál þetta til ógildingar á úrskurði hennar.

          Stefnandi hafði uppi vara- og þrautavarakröfu í máli þessu sem stefndu kröfðust að vísað yrði frá dómi. Með úrskurði dómsins 5. ágúst síðastliðinn voru frávísunarkröfurnar teknar til greina. Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 1. september síðastliðinn.

          Í þinghaldi 19. ágúst síðastliðinn var ákveðið að aðalmeðferð yrði í málinu 6. október  síðastliðinn en að ósk stefnanda og með samþykki stefndu var þinghaldinu frestað til 29. sama mánaðar.

II.

          Stefnandi mótmælir ekki þeirri röksemd áfrýjunarnefndar samkeppnismála að sérlög gangi framar ákvæðum almennra laga ef þær réttarheimildir hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna en byggir á því að niðurstaðan þar um hljóti hins vegar að ráðast af efnislegri greiningu þeirra lagaákvæða sem málið varðar, svo ráða megi hvort um ósamrýmanleg ákvæði sé að ræða.

          Að mati stefnanda er það nauðsynlegt skilyrði þess að leggja megi til grundvallar að lagaákvæði verði talin sérlög gagnvart samkeppnislögum að unnt sé að ráða með skýrum hætti af ákvæðum laganna eða lögskýringar­gögnum að það hafi verið ætlun löggjafans að víkja beinlínis frá þeim lögum. Sé þessu ekki svo farið með ákvæði 7. gr. laga nr. 76/2000. Feli þau lög samkvæmt beinni textaskýringu aðeins í sér almennt orðaðan lagaramma um starfsemi stefnda FLE hf. Skuli starfsemi stefnanda vera rekstur, viðhald og uppbygging á flugstöðinni, sbr. 7. gr. laganna. Í lögunum sé á hinn bóginn ekki rakið hvernig stefndi FLE hf. skuli skipuleggja eða annast verslunarrekstur eða skylda starfsemi í flugstöðinni og aðeins sé veitt almenn heimild til að reka verslun með tollfrjálsar vörur og aðra tengda starfsemi. Feli lögin ekki í sér nein útfærsluatriði sem gætu talist bindandi fyrir starfsemi stefnda FLE hf. og gert þau að sérreglum gagnvart ákvæðum samkeppnislaga. Efnis- og lagatæknilega feli 7. gr. laga nr. 76/2000 þannig einvörðungu í sér almennt orðað tilgangsákvæði. Nánari útfærsla á tilgangi laganna væri að mati stefnanda nauðsynleg til að unnt yrði að líta svo á að um sérreglu væri að ræða er viki til hliðar almennum reglum samkeppnislaga.

          Hvorki í lögum nr. 76/2000 né lögskýringargögnum sé að því vikið að lögin beri að túlka sem sérlög gagnvart samkeppnislögum. Á hinn bóginn komi skýrt fram í gr. 2.4 í rekstrarleyfi stefnda FLE hf., dags. 1. nóvember 2000, að stefndi FLE hf. skuli virða þær reglur sem gilda um starfsemi félagsins, svo sem ákvæði samkeppnislaga nr. 8/1993. Þessi tilvísun sé sett fram án nokkurs fyrirvara að því er varðar þá einstöku þætti í starfsemi stefnda FLE hf. sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafi undanþegið gildissviði samkeppnislaga. Þá sé engar sérreglur, tilvísanir eða undanþágur, sem máli gætu skipt, að finna í reglugerð nr. 766/2000 um starfsemi, skyldur og eftirlit með Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli en reglugerðin hafi verið sett með stoð í lögum nr. 76/2000.

          Samkvæmt öllu framangreindu eigi samkeppnislög fullum fetum við um rekstur stefnda FLE hf. Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem undanskilji úthlutun húsnæðis og vöruflokka til stefnda FLE hf. ákvæðum samkeppnislaga, sé því reistur á röngum og ólögmætum forsendum.

          Stefndi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. (FLE hf.), mótmælir að forsendur þær, sem áfrýjunarnefnd byggi á, séu efnislega rangar og að þær takmarki markaðsaðgang stefnanda verði þeim ekki hnekkt. Áfrýjunarnefndin hafi engar athugsemdir gert við að stefndi viðhefði forval til þess að veita aðilum aðgang að markaði á fríhafnarsvæðinu en gert þær kröfur til forvalsins og eftirfarandi athafna að allar aðgerðir tengdar útleigu og skipulagningu verslunarrýmis skuli byggja á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem alls jafnræðis sé gætt miðað við þær aðstæður sem þar eru. Tilgangur stefnda með forvali um viðskiptatækifæri í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé að opna frekar fyrir aðgang að markaði fyrir verslun og þjónustu á fríhafnarsvæði flugstöðvarinnar. Með forvali sé öllum þeim, sem uppfylla skilyrði forvalsins, gert kleift að bjóða í rekstur verslunar- og þjónustu á grundvelli hlutlægra skilyrða, á jafnræðisgrundvelli og án mismununar. Eigi stefnandi jafna möguleika við aðra til þátttöku í forvali og til að fá rekstrarleyfi að gengnu forvali og samningum við væntanlega rekstrarleyfishafa. Sé röng sú fullyrðing hans að markaðsaðgangur hans takmarkist vegna rangra forsendna.

          Ekki sé sjálfgefið að samkeppni eigi sér stað í verslunarrekstri innan flugstöðvarinnar í skilningi samkeppnislaga. Sé samkeppnismarkaðurinn þar til staðar vegna þess að stefndi hafi sjálfur tekið ákvörðun um að veita öðrum aðgang að aðstöðu á fríhafnarsvæði flugstöðvarinnar. Gæti stefndi allt eins ákveðið að reka alla verslunarstarfsemi og þjónustu innan fríhafnarsvæðisins sjálfur. Hafi áfrýjunarnefndin staðfest það með úrskurði sínum.

           Grundvallarregla um lex specialis, sem áfrýjunarnefndin reisi úrskurð sinn á, sé margdæmd og viðurkennd í íslenskum rétti. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 76/2000 sé tilgangur hins stefnda félags að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli. Í orðalaginu felist hið minnsta tvennt af rökbundinni nauðsyn: annars vegar heimild til þess að velja versluninni stað og hins vegar hvaða vörur verslað er með eða hvaða þjónusta er boðin. Verði þessar ályktanir ekki dregnar að lágmarki af orðalaginu einu saman hafi það enga merkingu.

          Þá sé fullljóst af lögskýringargögnum með frumvarpi til laganna hver sé vilji löggjafans.  Með lögunum hafi verið lagðar viðurhlutamiklar skuldbindingar á herðar stefnda um fjárfestingu, uppbyggingu, greiðslu skulda og þjónustu og rekstur flugstöðvarinnar sem sé lykilmannvirki í vöru- og farþegaflutningum til og frá landinu. Til að hlutafélagið geti staðið undir framangreindum skuldbindingum skyldi tryggja stefnda tekjugrunn sem felist m.a.í yfirtöku á rekstri Fríhafnarverslunar á Keflavíkurflugvallar, yfirtöku á leigusamningum og leigutekjum af húsnæði í flugstöðinni svo og hvers konar annarri starfsemi, sem þessu tengist. Í greinargerð með frumvarpi til laganna komi fram að frá árinu 2001 til 2005 hafi löggjafinn gert ráð fyrir að 77 - 80% af tekjum stefnda kæmu frá vörusölu í fríhafnarverslun flugstöðvarinnar. Sé þannig fullljóst að löggjafinn ætlaðist beinlínis til þess að stefnda yrði gert kleift að standa undir skyldum sínum með tekjum af fríhöfninni. Til þess þurfi stefndi að hafa fullt forræði á fríhafnarversluninni. Þá sé ítrekað í inngangi í greinargerð með lögunum að rekstur fríhafnarinnar hafi beinlínis verið fellur undir stefnda til þess að styrkja fjárhagslegan grundvöll hans. Við setningu laga nr. 76/2000 hafi Fríhöfnin á Keflavíkurflugvelli verslað með þá vöruflokka sem stefndi hafi undanskilið úr forvalinu og því ljóst að löggjafinn ætlaði stefnda að taka við þeim og selja þá með því að fella fríhafnarverslunina undir starfsemi hans með 7. gr. laganna. Séu þær skyldur og byrðar sem lagðar eru á stefnda, meðal annars í 13. og 14. gr. laga nr. 76/2000, reglugerð nr. 766/2000 og rekstrarleyfi stefnda frá 1. nóvember 2000, allar enn til staðar og hafi ekkert breyst og heldur aukist, ef eitthvað er, þrátt fyrir að stefndi hafi ákveðið að opna samkeppnismarkaði innan fríhafnarsvæðis flugstöðvarinnar. Af þeim sökum standi allar forsendur 7. gr. fullum fetum. 

          Samkeppnislög nr. 8/1993 hafi verið samþykkt 25. febrúar 1993 en lög nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hafi verið sett 23. maí 2000. Sé fráleitt að halda fram að löggjafanum hafi ekki verið fullkunnugt um áhrif laga nr. 76/2000 á samkeppnislög þegar efni og tilgangur 7. gr. laga nr. 76/2000 var ákveðinn. Sjáist þess glögg merki í meðferð Alþingis á frumvarpi til laga nr. 76/2000 að áhrif samkeppnislaga hafi m.a.  verið rædd í utanríkismálanefnd Alþingis.

          Þá fái ekki staðist hugmyndir stefnanda um hvernig sérlagaákvæði þurfi að vera úr garði gert til að það gangi framar almennu lagaákvæði. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi  til laganna hafi löggjafinn haft að leiðarljósi að með 7. gr. yrði tryggður sveigjanleiki gagnvart breytingum í framtíðinni sem stefndi þurfi að bregðast við.  Með orðalagi ákvæðisins hafi  löggjafinn viljað tryggja sem mestan sveigjanleika fyrir stefnda til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem lögin lögðu honum á herðar, meðal annars með því að gera hann að hlutafélagi samkvæmt lögum nr. 2/1995. Hafi hlutafélaginu síðan verið sett tilgangsákvæði í lögunum með það í huga að hluthafafundur hefði hæfilegt svigrúm til að breyta tilgangi félagsins væri tilefni til þess vegna breyttra aðstæðna. Eigi sú fullyrðing stefnanda, að í sérlagaákvæði þurfi að taka sérstaklega fram að túlka eigi það sem sérlagaákvæði gagnvart almennum lögum, sér enga stoð í dómaframkvæmd eða lögskýringakenningum.

           Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2003 sé á allan hátt reistur á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og engir annmarkar séu á formi úrskurðarins eða efni sem leitt geti til ógildingar hans, hvorki í heild né að hluta. Sé sýknukrafan byggð á þeim sjónarmiðum sem fram koma í úrskurðinum.

          Sýknukrafa stefnda, samkeppnisráðs, er á því reist að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2003 sé á allan hátt reistur á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og að engir annmarkar séu á formi úrskurðarins eða efni sem leitt geti til ógildingar hans, hvorki í heild né að hluta. Sé sýknukrafan byggð á þeim sjónarmiðum sem fram koma í úrskurðinum sjálfum. Þá sé einnig byggt á ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993 og ákvæðum laga nr. 76/2000 auk reglugerðar nr. 766/2000. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála sé heimilt að lögum að leggja til grundvallar að tiltekin lög mæli fyrir um ákveðið fyrirkomulag, sem samkeppnislög fái ekki hnekkt. Úrskurðurinn sé því ekki byggður á ólögmætri forsendu. Að auki telji stefndi álit áfrýjunarnefndarinnar um þetta efnislega rétt.

 

III.

          Í máli þessu deila aðilar ekki um að sérlög gangi framar ákvæðum almennra laga ef þær réttarheimildir hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Stefnandi byggir hins vegar á því að það sé nauðsynlegt skilyrði þess að leggja megi til grundvallar að lagaákvæði verði talin sérlög gagnvart samkeppnislögum að unnt sé að ráða með skýrum hætti af ákvæðum laganna eða lögskýringar­gögnum að það hafi verið ætlun löggjafans að víkja beinlínis frá þeim lögum. Sé þessu svo ekki farið með ákvæði 7. gr. laga nr. 76/2000.

          Niðurstaða málsins ræðst því af hvort unnt sé að skilgreina reglu 7. gr. laganna um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem sérreglu gagnvart samkeppnislögum varðandi forval um aðgang og afnot af verslunar- og þjónusturými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem kynnt var 15. ágúst 2002 með forvalsgögnum stefnda, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf.

          Samkvæmt 1. gr. laga nr. 7/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar er ríkisstjórninni heimilað að leggja félaginu til flugstöðina sjálfa, ásamt öllu því sem henni fylgir, eignum, réttindum, skuldum og skuldbindingum. Um tilgang félagsins er mælt fyrir um í 7. gr. laganna en þar segir að hann sé annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugstöðvarinnar þar með talinn rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist.

          Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að ofangreindum lögum, kemur fram að frá því Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun árið 1987 og allt þar til í október 1998 hafi hún heyrt undir embætti flugvallarstjórans á Keflavíkurflugvelli en frá þeim tíma hafi verið litið á hana sem sérstaka ríkisstofnun í B-hluta ríkisreiknings. Árið 1997 hafi verið gert verulegt átak í því að styrkja fjárhag stöðvarinnar. Hafi þær ráðstafanir falist í að fá einkaaðila til umsvifameiri verslunar- og veitingarekstrar en áður hafði tíðkast þar. Hafi í þessu skyni verið boðin út þjónusturými til leigu og leigugjaldið veltutengt samkvæmt útboðsskilmálum. Hafi þetta skilað þeim árangri að flugstöðinni hafi í fyrsta skipti verið unnt að standa í skilum með vexti og afborganir af þeim lánum sem enn séu í skuld vegna byggingarkostnaðar hennar. Þá er rakið að rétt í þann mund er þetta hafði unnist hafi verið ákveðið að stækka flugstöðina og þar með fyrirséð að framangreindar ráðstafanir myndu ekki duga.

          Síðan segir svo:

          „Stefnt er að því að tekjur flugstöðvarinnar standi undir fjárfestingum hennar og rekstri. Stofnun hlutafélags um reksturinn, sem í eðli sínu er á sviði einkarekstrar og viðskipta fremur en opinberrar stjórnsýslu, er ætlað að stuðla að því að markmiði þessu verði náð. Hlutafélag á þess kost í ríkari mæli en ríkisstofnun að laga sig að breytingum á aðstæðum enda býður rekstrarformið upp á meiri sveigjanleika en við verður komið í hefðbundnum stofnanarekstri. Þar sem ekki gilda sjálfstæð lög um um flugstöðina er henni með frumvarpi þessu mörkuð skýr staða bæði í stjórnunarlegu og rekstrarlegu tilliti.”

          Þá segir þar einnig:

          „Til að styrkja enn frekar fjárhagslegan grundvöll þeirrar uppbyggingar á aðstöðu til farþegaflugs sem nú fer fram á Keflavíkurflugvelli hefur utanríkisráðherra tekið þá ákvörðun að fella rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli undir starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hlutafélagið mun yfirtaka starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eins og hún verður eftir þá breytingu.”

          Í athugasemdum með 7. gr. frumvarpsins segir að félagið yfirtaki alla starfsemi flugstöðvarinnar eins og hún sé rekin eftir að rekstur Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli hafi verið felldur undir starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Um rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli vísist til 79. gr. tollalaga. Síðan segir að félagið hafi „heimildir til að stunda hvers konar aðra starfsemi sem rekstri flugstöðvarinnar tengist eða tengjast kann. Til að tryggja sveigjanleika gagnvart breytingum sem framtíðarþarfir kunna að kalla á er útilokað að binda tilgangslýsingu félagsins til allrar framtíðar og verður því tekið fram í stofnsamningi að breyta megi henni með breytingum á samþykktum félagsins á hluthafafundi.”

          Að mati dómsins er ljóst af framangreindum athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 76/200, hver vilji löggjafans hafi verið. Með lögunum voru lagðar miklar skuldbindingar á herðar stefnda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. um fjárfestingu, uppbyggingu, greiðslu skulda og þjónustu og rekstur flugstöðvarinnar. Varð því að tryggja hlutafélaginu tekjugrunn sem fólst meðal annars í yfirtöku á rekstri Fríhafnarverslunar Keflavíkurflugvallar. Kemur, auk þess sem að framan greinir, fram í greinargerð með frumvarpi til laganna að frá árinu 2001 til 2005 hafi löggjafinn gert ráð fyrir að 77 - 80% af tekjum stefnda kæmu frá vörusölu í fríhafnarverslun flugstöðvarinnar. Hefur löggjafinn þannig ætlast til þess að stefnda yrði gert kleift að standa undir skyldum sínum með tekjum af fríhöfninni. Til að því markmiði yrði náð varð að tryggja stefnda forræði á fríhafnarversluninni. Þá kemur skýrt fram í greinargerð með lögunum að rekstur fríhafnarinnar hafi beinlínis verið felldur undir stefnda til þess að styrkja fjárhagslegan grundvöll hans.

          Fram er komið í málinu að ástæða forvals þess, sem hér um ræðir, var sú að samningar um verslunarrekstur, veitingasölu og ýmsa aðra þjónustu í flugstöðinni runnu út 31. desember 2002. Var talið að eitt af því, sem aukið gæti enn frekar þjónustu við farþega, væri að stefndi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., fæli öðrum aðilum að annast afmarkaða þætti hennar. Hugðist stefndi síðan velja úr þeim viðskiptahugmyndum, sem kæmu fram við forvalið, þannig að markmiðum flugstöðvarinnar um þjónustu við farþega og hagnaði fyrir fríhafnarsvæðið yrði sem best náð.

          Samkvæmt öllu því, sem að framan greinir, er fallist á með áfrýjunarnefnd samkeppnismála að það sé undir stefnda, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., komið hvort og að hvaða marki félagið felur öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega í flugstöðinni og jafnframt að af því leiði að félaginu sé heimilt að ákveða sjálft það húsnæði í fríhöfninni sem það tekur til notkunar undir verslunarrekstur eða þjónustu, svo og að ákvæða hvaða vörur eða þjónustu það tekur til sölumeðferðar.

          Það er því niðurstaða dómsins að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir mega ákveða að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

          Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Dómsorð:

          Stefndu, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og samkeppnisráð, eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Íslensks markaðar hf., í máli þessu.

          Málskostnaður fellur niður.