Hæstiréttur íslands

Mál nr. 395/2004


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Uppsögn
  • Uppgjör


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. mars 2005.

Nr. 395/2004.

Skeljahöllin ehf.

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Birni Kristjánssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Uppsögn. Uppgjör.

B, sem var stýrimaður á skipi í eigu S ehf., sleit ráðningu sinni hjá félaginu þar sem ekki var orðið við beiðni hans um greiðslu á vangreiddum launum. S ehf. viðurkenndi rétt B til þessara launa en hélt því fram að B hefði rift ráðningarsamningnum og með því fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti. Talið var að B hefði slitið ráðningu sinni með lögmætum hætti. Var S ehf. því gert að greiða B laun í þrjá mánuði í uppsagnarfresti auk fjárhæðar sem eftirstóð af launakröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. september 2004. Hann krefst aðallega að honum verði gert að greiða stefnda 55.693 krónur en til vara að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í forsendum héraðsdóms er meðal annars vísað til 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til stuðnings rétti stefnda til launa úr hendi áfrýjanda í uppsagnarfresti. Þessi réttur styðst við 2. mgr. 27. gr. laganna. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Skeljahöllin ehf., greiði stefnda, Birni Kristjánssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2004.

 

Mál þetta sem dómtekið var 9. júní síðastliðinn höfðar Björn Kristjánsson til heimilis að Austurbergi 18, Reykjavík þann 9. desember 2003 á hendur Skelja­höllinni ehf., Eyjavöllum 8, Keflavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.171.892 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu frá 16. nóvember 2003 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Ennfremur er krafist viðurkenningar á sjóveðrétti í m.s. Kristbjörgu II H - 75, skipaskrárnúmer 127 til tryggingar öllum dæmdum kröfum.

Af hálfu stefnda eru endanlegar dómkröfur þær að stefnda verði heimilað að skuldajafna bótum samkvæmt lokaákvæði 1.21 greinar kjarasamnings milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna við kröfur stefnanda. Stefndi verði því dæmdur til þess að greiða stefnanda 55.693 krónur ásamt löglegum vöxtum frá gjalddaga. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 351.778 krónur ásamt vöxtum. Auk þess er krafist málskostnaðar að mati dómsins en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Málavextir eru þeir að stefnandi réð sig til starfa hjá stefnda þann 1. apríl 2003 sem 1. stýrimann á m.s. Kristbjörgu II HF - 75 (127) í eigu stefnda.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. Ráðning stefnanda var ótímabundin og hún markaðist ekki af ákveðnum verkefnum eða veiði­ferðum.

Stefnandi vann í fyrstu við búnað skipsins, en verið var að búa skipið til lúðu­veiða.

Þann 21. maí 2003 var lögskráð á skipið og því haldið til lúðuveiða á línu og landað fyrstu veiðiferðinni þann 29. sama mánaðar. Stundaði skipið þessar línuveiðar um sumarið og fram á haustið, en ekki fiskaðist fyrir hlut og skyldi því greiða skipverjum lágmarkslaun, þ.e. kauptryggingu á ráðningartíma stefnanda.

Stefndi gaf enga launaseðla út, en greiddi skipverjum einhver laun eftir hendinni upp í laun þeirra. Stefnandi heldur því fram að honum hafi borið að fá 1.616.000 krónur í laun en hafi fengið 1.260.000 krónur greiddar í laun. Vangreidd laun hafi því numið 356.000 krónur þann 25. október 2003. Stefndi heldur því hins vegar fram að hann hafi greitt stefnanda fyrir tímabilið 1. apríl - 25. október 1.275.000 krónur í laun og vangreidd laun því verið að fjárhæð 341.000 krónur þann 25. október 2003.

Í byrjun októbermánaðar 2003 fór forsvarsmaður stefnda, Helgi Friðgeirsson, sem var jafnframt skipstjóri á m.s. Kristbjörgu í leyfi til útlanda í rúman hálfan mánuð. Hann fól stefnanda skipstjórn og sagði honum að halda skipinu til veiða. Stefnandi bar fyrir dómi að ekki hafi verið búið að ráða mannskap á skipið áður en forsvarsmaður stefnda fór. Ennfremur bar hann fyrir dómi að sér hefði ekki tekist að ráða mannskap þar sem óljóst var hvernig yrði farið með launagreiðslur í fjarveru forsvarsmanns stefnda. Ennfremur hefði ekki gefið til lúðu­veiða þennan tíma. Stefnandi hélt því skipinu ekki til veiða í fjarveru forsvarsmann stefnda. Stefnandi bar fyrir dómi að forsvarsmaður stefnda hafi fundið aðeins við sig þegar heim var komið en hafi síðan látið það gott heita.

Árla morguns laugardaginn 25. október 2003 var landað í Grindavík. Forsvars­maður stefnda, Helgi, ók stefnanda heim til sín í Reykjavík ásamt öðrum skipverja. Eiginkona stefnanda var fimmtug þennan dag og af því tilefni mæltist stefnandi til þess við forsvarsmann stefnda að hann legði aukapeningagreiðslu inn á reikning hans. Um hádegi lagði forsvarsmaður stefnda 30.000 krónur inn á reikning stefnanda. Stefnandi reiddist og hringdi í forsvarsmann stefnda og sagði honum að það tæki því ekki að vinna fyrir svona fífl.

Forsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að hann hefði gefið skipverjum frí yfir helgina þegar þeir komu í land, en hafi sagt þeim að mæta til vinnu á mánudeginum. Stefnandi lét hvorki sjá sig þann dag né síðar. Ekki hafði forsvarsmaður stefnda samband við stefnanda til þess að ganga úr skugga um það að hann hefði með þessum orðum á laugardeginum slitið ráðningarsamningi. Forsvarsmaður stefnda kvaðst alveg eins hafa átt von á því að stefnandi myndi mæta til vinnu á mánudeginum. Forsvars­maður stefnda kvaðst þekkja stefnanda að því að vera orðhák. Hann bar fyrir dómi að hann hafi haldið að það myndi brá af stefnanda, sem svo varð ekki.

Stefnandi kvaðst hafa setið heima og beðið eftir kalli frá stefnda. Hann kvað róðrana hafa verið óreglulega, það gefi ekki alltaf til lúðuveiða. Að auki hafi ýmisleg annað komið uppá sem hafði áhrif á róðrana. Þegar hann hafi ekkert heyrt frá stefnda hafi hann skrifað forsvarsmanni stefnda innheimtubréf þann 4. nóvember 2003 fyrir tilstilli lögmanns síns þar sem krafist var greiðslu á ógreiddum launum. Var stefnda gefinn frestur til 15. nóvember 2003 til að standa stefnanda full skil að vangreiddum launum. Tekið var fram í bréfinu að hafi stefndi ekki gert full skil á vangreiddum launum stefnanda fyrir þann tíma teljist ráðning stefnanda rift án frekari viðvörunar og tekið jafnframt fram að krafist yrði launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Viðbrögð stefnda við þessu innheimtubréfi voru engin. Leit stefnandi því svo á að ráðningu sinni væri rift frá og með 16. nóvember 2003.

 

II.

Málsástæður stefnanda eru þær að hann hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu á m.s. Kristbjörgu II HF - 75 (127)  hjá stefnda Skeljahöllinni ehf., þann 1. apríl 2003. Ekki hafi verið gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur, sbr. 6. sjómannalaga nr. 35/1985. Ráðningin hafi ekki verið tímabundin eða til ákveðins tíma, sbr. 9. gr. sömu laga. Uppsagnarfrestur yfirmanna, þ.m.t. stýrimanna er þrír mánuðir, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga, sbr. 3. mgr. 1.21. kjarasamnings F.F.S.Í og L.Í.Ú.

Stefnanda átti inni hjá stefnda vangreidd laun. Með bréfi dagsettu 4. nóvember 2003 gerði stefnandi kröfu til þess að laun hans yrðu greidd og gaf stefnda frest til þess í 12 daga að öðrum kosti rifti hann ráðningarsamningi og kræfist launa í 3ja mánaða uppsagnarfresti. Á því er byggt að stefnanda var lögmætt að rifta ráðningu sinni fyrirvaralaust eins og hann gerði. Verulegar vanefndir voru orðnar á launa­greiðslum stefnda til stefnanda. 

Ráðningu stefnanda lauk þann 16. nóvember 2003 í samræmi við bréf lög­manns stefnanda. En auk þess er á því byggt að veruleg vanskil voru á launa­greiðslum til stefnanda, sem réttlættu ein og sér fyrirvaralausa riftun hans á ráðningarsamningi vegna brostinna forsendna.

Á því er byggt af hálfu stefnanda að ekki verði litið svo á að þau orð sem stefnandi lét falla þann 25. október 2003 sem fyrirvaralausa uppsögn af hálfu stefnanda. Forsvarsmanni stefnda bar að hafa frumkvæði að ganga úr skugga um það hvort stefnandi væri með þessum orðum sínum að segja fyrirvaralaust upp starfi sínu. Það gerði hann ekki og á að bera hallann af því.

Þá er ennfremur á því byggt að stefnda bar að boða stefnanda til vinnu skv. 27. gr. sbr. 59. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, en það hafi stefndi ekki gert, hvorki dagana á eftir eða í uppsagnarfresti og beri hallann af  því.

Af hálfu stefnda er byggt á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi sjálfur rift ráðningu sinni. Þeirri málsástæðu er mótmælt af hálfu stefnanda og á því byggt að stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni og honum hafi ekki tekist sú sönnun.

Ennfremur er gerð krafa til óskertra launa í uppsagnarfesti og krafan reist á þeirri málsástæðu að frádráttur vegna launa stýrirmanns á uppsagnarfesti vegna riftunar sé óheimill.

Við aðalmeðferð mótmælti stefnandi breyttri aðaldómkröfu stefnda sem of seint fram­kominni.

Ennfremur var því mótmælt af hálfu stefnanda að draga beri frá 4% framlag stefnanda í lífeyrissjóð og á því byggt að margdæmt sé að undir þessum kringumstæðum hafi krafan verið viðurkennd sem bætur til handa stefnanda.  

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar með eftirfarandi hætti:

Laun á ráðningatíma :       01.04.03 – 16.11.03=195 dagar

Kauptrygging  á mánuði  kr. 190.564 (190.564 : 30 x 195 = 1.238.666 sjá gr. 1.09)

Fast kaup á mánuði kr. 3.015 (3.015 : 30 x 195 = 19.598  sjá gr. 1.11)

Starfsaldursálag á mánuði kr. 3.811 (3.811 : 30 x 195 = 24.711 sjá gr. 1.12)

Fatapeningar á mánuði kr. 2.833 (2.833 : 30 x 195 =  18.414 sjá gr. 1.16)

Fæðispeningar á dag kr. 945 ( 21.05.03 – 15.11.03 =175 dagar 945 x 175 = 165.375 sjá gr. 1.17 )

Alls kr. 1.466.824 + 10.17% orlof kr. 149.176 samtals kr. 1.616.000

 

Vangreidd laun 1.616.000 krónur að frádreginni uppígreiðslu launa 1.260.000 krónur.

Samtals vangreidd laun kr. 356.000.

 

Laun í uppsagnarfresti:

Kröfu sína um laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga sundurliðar stefnandi með eftirfarandi hætti:

Kauptrygging  á mánuði kr. 190.564 x 3 = kr. 571.692

Fast kaup á mánuði kr. 3.015 x 3 =  kr. 9.045

Fatapeningar kr. 2.833 x 3 = kr. 8.499

Starfsaldursálag kr. 3.811 x 3 = kr. 11.433

Fæðispeningar á dag kr. 945 x 3 = kr. 85. 050

Alls kr. 685.719 + 10.17% = 69.737 samtals kr. 755.456 fyrir 90 daga í uppsagnarfresti auk 6% + 2% framlags atvinnurekanda í lífeyrissjóð kr. 755.456 x  8% = 60.436

Samtals 755.456 + 60.436 =  kr. 815.892

Heildarkrafa stefnanda vegna vangreiddra launa og launa í uppsagnarfresti er því samtals kr. 356.000 + 815.892 = kr. 1.172.892 ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði.

 

IV.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að hann hafi greitt stefnanda laun að fjárhæð 1.275.000  krónur en ekki  1.260.000 krónur eins og stefnandi heldur fram.

Því er ekki mótmælt að stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda 1. apríl 2003 og lét af störfum þann 25. október sama ár. Stefnandi hafi unnið hjá stefnda í 205 daga. Kauptrygging hafi verið að fjárhæð 190.564 krónur á mánuði og hafi því kaup­trygging numið 1.302.187 krónur ( 190.564 : 30 x 205 = 1.302.187 ) Aðar greiðslur sundurliðar stefndi með eftirfarandi hætti:

 

Fast kaup 3.015 : 30 = 100.5 x

kr.

    20.602

Starfsaldurálag 127.033 x 205

     26.042

Fatapeningar 94.433 x 205

     19.359

Fæðispeningar            945 x 157

   148.365

Samtals

1.516.555

Orlof 10.17% af kauptryggingu, fastakaup og starfsaldurálagi alls kr. 1.348.841

 

137.176

Samtals          

1.653.731

 

 

 

 

Frá kauptryggingu, fastakaup og starfsaldursálagi 1.348.831 krónum ber að draga 4% framlag stefnanda í lífeyrissjóð og skila því til sjóðsins ásamt 6% framlagi atvinnurekanda af sömu fjárhæð 4% gera        

 

kr.

53.953

Samtals           

1.599.778

 

Einnig ber samkvæmt lið 1.21 í kjarasamningi að draga frá greiðslum til stefnanda bætur sem nema launum fyrir hálfan uppsagnarfrest, þ.e. kaup­tryggingu 190.564 krónur, fastakaup 3.015 krónur og starfsaldurálag 3.811 krónur alls 197.390 krónur á mánuði x 1,5 kr.   296.085

 

1.599.778 – 296.085 Samtals

kr.

1.330.693

Stefnanda hafa verið greiddar

1.275.000

Eftirstöðvar

kr.

55.693

 

            

Af hálfu stefnda er fallist á að greiða stefnanda þá fjárhæð.

Fái krafan um skuldajöfnuð ekki komist að er fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda

kr.  351.778 (296.778 + 55.693 )

 

Af hálfu stefnda er viðurkennt að stefnandi eigi kröfu um ógreidd laun. Eins og hér að framan hefur verið rakið er lagt til grundvallar að stefnandi hafi unnið í 205 daga og hafi því borið að fá 1.653.731 krónur. Stefndi hafi þegar greitt stefnanda 1.275.000 krónur. Gerð sé krafa til þess að stefnda verði dæmdar bætur sem nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrestinn, sem verði skuldajafnað við ógreiddum launum stefnanda þar sem stefnandi hafi farið fyrirvaralaust úr starfi með vísan til 4. mgr. 1.21 gr. í kjarasamningi F.F.Í og L.Í.Ú. Fáist þessi málsástæða ekki komist að í máli er fallist á að greiða stefnanda 351.778 krónur.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi eigi rétt á launum í 3ja mánaða uppsagnarfresti. Byggt er á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi rift ráðningarsamningi sínum með ólögmætum hætti og þar með fyrirgert rétti sínum til launa á uppsagnar­fresti. Á því er byggt að vanskil á launum hafi ekki verið það veruleg að þau réttlæti fyrirvaralausa riftun stefnanda á ráðningarsamningi sínum. Því er haldið fram að hann hafi þann 25. október 2003 sjálfur með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi sínum og eigi því ekki tilkall til launa í uppsagnarfresti. Því er mótmælt að stefnandi hafi síðar en 25. október 2003 rift ráðningarsamningi sínum.

Þá er því haldið fram af hálfu stefnda að stefnandi hafi ekki fundið að því við stefnda að laun væru í vanskilum, en það hafi honum borið að gera áður en hann rifti ráðningarsamningi sínum.

 

III.

Stefndi lét undir höfuð leggjast að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda sem honum var lögskylt samkvæmt 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Ágreiningslaust er að stefnandi var hvorki ráðinn  tímabundið né til tiltekinna verkefna eða veiðiferða.

Ágreiningslaust er að þann 25. október 2003 voru launagreiðslur stefnda til stefnanda í vanskilum. Ennfremur er ágreiningslaust að það kastaðist í kekki milli stefnanda og forsvarsmann stefnda og stefnandi sagði eitthvað á þá leið við forsvars­mann stefnda, að það tæki því ekki að vinna fyrir svona fífl. Það er einnig ágreiningslaust að stefnandi vann ekki meira fyrir stefnda eftir þennan dag og stefndi hafði ekki frekar samband við stefnanda.

Fram kom hjá forsvarsmanni stefnda hér fyrir dómi að hann hafi haldið að það myndi brá af stefnanda og hann myndi koma aftur til vinnu. Eins og hér stóð á bar forsvarsmanni stefnda að ganga úr skugga um það hvort skilja bæri orð stefnanda sem riftun á ráðningarsamningi hans. Stefndi byggir á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi sjálfur slitið ráðningarsamningi sínum, þann 25. október 2003. Gegn mótmælum stefnanda verður sönnunarbyrðin á þessari málsástæðu lögð á stefnda. Þykir stefndi ekki hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að með orðunum „það tekur því ekki vinna fyrir svona fífl” hafi stefnandi rift ráðningarsamningi sínum. Forsvarsmanni stefnda bar eins og hér stóð á að boða stefnanda til vinnu sbr. 27. og 59. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem hann gerði ekki, en stefndi hefur ekki sýnt fram á það að stefnandi hafi hliðrað sér hjá vinnu.

Niðurstaðan er því sú að dómurinn lítur svo á að stefnandi hafi ekki rift ráðningarsamningi sínum þann 25. október 2003.

Eins og að framan hefur verið getið voru vanskil á launagreiðslum til stefnanda. Voru því brostnar forsendur til áframhaldandi vinnu á óbreyttu. Með bréfi dagsettu 4. nóvember 2003 var krafist greiðslu á eftirstöðvum launa. Frestur var veittur til 15. nóvember 2003. Var jafnframt tilkynnt að ráðningu yrði slitið þann 16. sama mánaðar yrði ekki orðið við beiðni stefnanda. Stefndi sinnti ekki kröfu stefnanda. Dómurinn fellst á að stefnandi veitti stefnda nægilegan frest og telur að stefnandi hafi slitið ráðningarsamningi sínum með lögmætum hætti. Stefnandi á því rétt til launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 25. gr. sömu laga.

Krafa stefnda að viðurkenndur verði réttur hans til bóta úr hendi stefnanda sem svari til helmingslauna á uppsagnarfresti vegna fyrirvaralausrar slita á ráðningar­samningi var fyrst höfð uppi við aðalmeðferð og var mótmælt sem of seint fram­kominni af hálfu stefnanda og fái því ekki komist að í málinu. Á það er fallist.

Uppgjör.

Dómurinn lítur svo á að stefndi hafi sýnt fram á að hann hafi greitt stefnanda laun að fjárhæð 1.275.000 krónur og verður sú fjárhæð lögð hér til grundvallar.

Stefnandi leggur til grundvallar ráðningartímann frá 1. apríl 2003 til 16. nóvember 2003 þegar ráðningu var slitið og segir það vera 195 daga og er sá daga­fjöldi lagður til grundvallar kröfugerðar stefnanda.

Stefndi leggur til grundvallar tímabilið frá 1. apríl 2003 til 25. október sama ár og segir það réttilega vera 205 daga og þann dagafjölda leggur hann til grundvallar í útreikningi sínum.

Ráðningartímabilið var frá 1. apríl 2003 til 16. nóvember 2003. Það eru 225 dagar. Stefnandi fer hins vegar einungis fram á laun í 195 daga og verður sá daga­fjöldi því lagður til grundvallar útreikningi, þar sem við á. Á það er bent að stefnandi á einungis rétt á fæðispeningum á lögskráningardögum. Stefnandi var lög­skráður frá 21. maí 2003 til 25. október 2003. Stefnandi gerir kröfu til fæðispeninga frá 21. maí 2003 til 15. nóvember 2003. Stefndi leggur hins vegar til grundvallar 157 lög­skráningardagar og mótmælir þar með að stefnandi eigi tilkall til fæðispeninga þá daga sem hann var ekki lögskráður og á það fellst dómurinn.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að 10.17% orlof sé einungis reiknað af kauptryggingu, föstum launum og starfsaldurálagi en ekki af fatapeningum og fæðis­peningum. Á það fellst dómurinn ekki. Það ber að reikna orlof 10.17% af heildar­launum þar með talið fata- og fæðispeningum eins og stefnandi gerir kröfur til sam­kvæmt gr. 1.18  í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna frá 2002.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnda beri að greiða framlag atvinnu­rekanda í lífeyrissjóð. Á það verður ekki fallist á þeirri forsendu að tjón stefnanda geti ekki talist að fullu bætt nema tillit verði jafnframt tekið til þessa þáttar. Vísað er hér til hrd. nr. 284/1999 og hrd. nr. 144/2002. Krafa stefnanda er því tekin til greina eins og hún er sett í sundurliðun á dómkröfu stefnanda hér að framan.

Niðurstaðan er því sú að stefnandi á rétt á eftirfarandi launagreiðslum úr hendi stefnda fyrir ráðningartímabilið 1. apríl 2003 til 16. nóvember 2003, sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

 

Laun á ráðningartíma (190.564:30x195)

kr.

1.238.666

Fast kaup (3.015:30x195)       

19.598

Starfsaldurálag (3.811:30x195)

24.771

Fatapeningar (2.833:30x195)

18.414

Fæðispeningar            (945x157)

148.365

Samtals

1.449.814

Orlof 10.17%

147.446

Samtals

kr.

1.597.260

 

            

Stefndi greiddi stefnanda á tímabilinu 1.275.000 krónur í laun og eru því eftirstöðvar 322.260 krónur samkvæmt því sem hér að ofan greinir og er stefndi dæmdur til þess að greiða þá fjárhæð. Að auki er stefndi dæmdur til þess að greiða stefnanda laun í 3 mánuði í uppsagnarfresti. Stefndi hefur ekki mótmælt fjárhæð þeirra launa sem stefnandi gerir kröfu um á uppsagnarfresti og er hann því dæmdur til þess að að greiða stefnanda 815.892 krónur í laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti. Hér þykir þó tilefni að taka fram vegna fæðispeninga sem einungis eru greiddir á lögskráningardögum, að þá gilda sérsjónarmið vegna greiðslu færðispeninga á upp­sagnarfresti. Fæðispeningar eru skattskyld hlunnindi sem eru hluti af ráðningarkjörum sjómanna eins og greinir í grein 1.20 í kjarasamningi.  Verður því fallist á það með stefnanda að hér sé um fastar greiðslur sem eru hluti af launakjörum stefnanda og því innifalið í hugtakinu kaup samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt því er viðurkennd krafa stefnanda um greiðslu fæðispeninga í 90 daga í uppsagnar­fresti að fjárhæð 85.050 krónur. Vísað er hér einnig til hrd. nr. 457/2001.

 Samtals er stefnda gert að greiða stefnanda 1.167.700 krónur auk dráttarvaxta eins og nánar greinir í dómsorði. Þá ber að fallast á kröfu stefnanda um að staðfestur verði sjóveðréttur hans í skipinu m.s. Kristbjörgu II HF - 75 skipaskránúmer 127 fyrir dómkröfunni með vísan til 1. tl. 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985.  

Eftir þessum málsúrslitum ber að taka kröfu stefnanda um málskostnað úr hendi stefnda til greina. Þykir hann hæfilega ákveðinn 180.000 krónur.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Stefndi Skeljahöllin ehf., greiði stefnanda, Birni Kristjánssyni, 1.167.700 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 16. nóvember 2003 til greiðsludags og 180.000 í málskostnað.

Stefnandi á sjóveðrétt í m.s. Kristbjörgu II HF - 75 skipaskránúmer 127 fyrir hinni dæmdu fjárhæð ásamt vöxtum.