Hæstiréttur íslands
Mál nr. 535/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Fimmtudaginn 9. ágúst 2012. |
|
Nr. 535/2012. |
Lögreglustjórinn á Selfossi (Ólafur Helgi Kjartansson sýslumaður) gegn X og (Hólmgeir Elías Flosason hdl.) Y (Ingi Freyr Ágústsson hdl.) |
Kærumál. Vitni.
Úrskurður héraðsdóms um að skýrslutaka af fjórum vitnum fyrir dómi vegna rannsóknar á ætluðu broti X og Y skyldi fara fram undir nafnleynd, sbr. 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 og að sakborningar og verjendur þeirra skyldu víkja úr dómsal á meðan skýrslutakan færi fram, sbr. 2. mgr. 123. gr. sömu laga, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 2. ágúst 2012, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. júlí 2012, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að skýrslutaka fyrir dómi af fjórum vitnum um ætlað brot varnaraðila skyldi fara fram undir nafnleynd vitnanna samkvæmt 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og að sakborningar og málflytjendur skyldu víkja úr þingsal á meðan framangreind vitni gefa skýrslu, sbr. 2. mgr. 123. gr. sömu laga, en að þeir geti fylgst með skýrslutöku og látið leggja fyrir vitnin þær spurningar sem þeir óska í samræmi við 3. mgr. sömu greinar. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að þeim ásamt verjendum sínum verði heimilað að vera viðstaddir skýrslutökur yfir vitnunum í dómsal. Til vara krefjast þeir þess að verjendur þeirra verði í dómsal við skýrslutökurnar, en varnaraðilum gert kleift að horfa á þær á skjá um myndfundarbúnað um leið og þær fara fram. Að því frágengnu krefjast þeir þess að skýrslutökunum verði varpað í hljóði og mynd um myndfundarbúnað til staðar þar sem þeim og verjendum þeirra verði kleift að fylgjast með.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði óskaði sóknaraðili eftir því í bréfi til Héraðsdóms Suðurlands 24. júlí 2012 með vísan til b. og c. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 að teknar yrðu skýrslur fyrir dómi af fjórum vitnum, sem gefið hefðu skýrslu hjá lögreglu vegna rannsóknar á ætluðu manndrápi í fangelsinu að Litla Hrauni 17. maí 2012. Eru varnaraðilar grunaðir um aðild að hinu ætlaða broti. Í bréfi sóknaraðila er því lýst að vitnin hafi lýst ótta sínum um að framburður þeirra kunni að skapa þeim lífshættu í ljósi þess hverjir hinir grunuðu séu. Hafi lögregla heitið vitnunum nafnleynd við rannsókn málsins, sbr. 3. mgr. 65. gr. laga nr. 88/2008. Sóknaraðili vísar til stuðnings kröfu sinni til 8. mgr. 122. gr. síðastgreindra laga.
Í ljósi sakaferlis varnaraðila og eðlis brots þess, sem þeir eru grunaðir um að hafa framið, og til rannsóknar er, verður fallist á með héraðsdómi að lífi eða heilbrigði vitnanna fjögurra eða náinna vandamanna þeirra yrði stefnt í hættu, ef uppskátt væri hver þau væru.
Í ljósi þess hvernig aðstæðum vitnanna er háttað og takmarkaðra möguleika þeirra til þess að forðast allt samneyti við varnaraðila verður einnig talið að skilyrði 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um að brýna nauðsyn beri til að þau njóti nafnleyndar sé fullnægt. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem þeir eigi þess kost að komast að því hver vitnin séu, þrátt fyrir að á nafnleynd yrði fallist. Af þeirra hálfu er því ekki haldið fram að þeir eigi þess kost að finna út á hvern hátt hvert af vitnunum fjórum ber. Leiðir þessi röksemd því ekki til þess að á kröfu varnaraðila verði fallist.
Í úrskurðarorði hins kærða úrskurðar er lýst þeirri framkvæmd sem höfð verður á við skýrslutökur af vitnunum fjórum. Með því er tryggt að varnaraðilar og verjendur þeirra eiga þess kost fyrir milligöngu dómara að fylgjast með skýrslutökum og koma að spurningum þegar þær fara fram.
Með framangreindum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. júlí 2012.
Lögreglustjórinn á Selfossi hefur gert kröfu fyrir dóminum um að teknar verði vitnaskýrslur fyrir dóminum vegna rannsóknar sakamáls.
Í kröfu lögreglustjóra segir að með vísan til b. og c. liðar 1. mgr. 59. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 sé þess óskað að tilteknir einstaklingar, sem þegar hafa gefið skýrslu hjá lögreglu vegna rannsóknar á meintu manndrápi refsifangans A kt. [...] þann 17. maí 2012 í fangelsinu á Litla Hrauni, verði boðaðir fyrir héraðsdóm og þeir látnir staðfesta framburð sinn þar. Grunaðir um aðild að manndrápinu séu refsifangarnir X kt. [...] og Y kt. [...]. Þau vitni sem óskað er eftir að skýrslur verði teknar af eru fjórir refsifangar og eru þeir nafngreindir í kröfunni.
Segir í greinargerð lögreglustjóra að vitnin hafi öll lýst miklum ótta sínum á því að framburður þeirra um málið kunni að skapa þeim lífshættu í ljósi þess hverjir hinir grunuðu eru. Lögregla hafi lofað vitnunum nafnleynd við meðferð málsins hjá lögreglu, skv. 3. mgr. 65. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 og að reynt verði að tryggja að nöfn þeirra komi ekki fram við aðalmeðferð máls fyrir dómstólum komi til þess að ákæra verði gefin út.
Í kröfu lögreglustjóra er vísað til 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og er gerð sú krafa að nöfn vitna komi ekki fram og í því skyni að þau verði látin staðfesta skýrslu sína án viðveru verjenda grunuðu eða það tryggt að þeim verði ekki kunnugt um nöfn hinna yfirheyrðu.
Kveðst lögreglustjóri meta það svo að raunhæft sé að ætla að lífi og limum ofangreindra vitna kunni að vera hætta búin vegna framburðar þeirra. Hafa verði í huga að grunur leiki á að aðilar þeir sem rannsókn beinist að hafi, með ofbeldi í fangaklefa, ráðið samfanga sínum bana. Þá sé staða vitnanna með þeim hætti að vegna vistunar sinnar í fangelsi eigi þeir þess ekki kost að koma sér undan yfirvofandi árás líkt og frjáls maður á alla jafna.
Ofangreind krafa var tekin fyrir á dómþingi í dag og var henni mótmælt af hálfu kærðu. Kom fram að því væri þó ekki mótmælt að skýrsla væri tekin af vitnum fyrir dóminum, en því mótmælt að vitni nytu nafnleyndar og að sakborningum og verjendum yrði vikið úr þingsal meðan vitni gæfu framburð sinn.
Lögregla rannsakar lát A á Litla Hrauni þann 17. maí 2012 og hafa kærðu verið undir rannsókn vegna rökstudds grunar um að þeir hafi með líkamlegu ofbeldi átt refsiverðan þátt í láti ofangreinds A. Hafa kærðu báðir sætt gæsluvarðhaldi vegna þessa.
Hefur lögregla við rannsókn málsins tekið ýmsar skýrslur, m.a. framburð þeirra vitna sem nú er óskað eftir að gefi skýrslur fyrir dóminum.
a. af brotaþola ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og hann hefur ekki náð 15 ára aldri þegar rannsókn máls hefst,
b. af sakborningi, brotaþola eða öðrum vitnum ef lögregla telur það nauðsynlegt til þess að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum þess,
c. af brotaþola eða öðrum vitnum ef þau neita að mæta til skýrslutöku hjá lögreglu eða neita að svara spurningum hennar, ætla má að þau komist ekki fyrir dóm við meðferð málsins eða það er talið æskilegt með tilliti til hagsmuna þeirra, svo sem ef um börn er að ræða.“
Þá kemur fram í 2. mgr. 59. gr. laganna að um slíka skýrslutöku fyrir dómi skv. 1. mgr. gilda ákvæði XV. kafla laganna.
Í 123. gr. laga nr. 88/2008 segir m.a. „Dómari getur samkvæmt kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu ef dómari telur að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess.
Nú er skýrsla tekin af vitni yngra en 15 ára og getur þá dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Ákærandi, ákærði og verjandi hans eiga ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Á sama hátt getur dómari ákveðið að ákærði og málflytjendur skuli víkja úr þinghaldi ef skýrsla er tekin af vitni án þess að það þurfi að skýra frá nafni sínu í heyranda hljóði, sbr. 8. mgr. 122. gr.
Ef ákærða er óheimilt að vera viðstaddur skýrslutöku skv. 1. mgr. eða ákærða og málflytjendum skv. 2. mgr. skal dómari sjá til þess að þeir geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram. Jafnframt er honum rétt að leggja fyrir vitnið þær spurningar sem þeir óska.“
Af hálfu lögreglustjóra er vísað til þess að verið sé að rannsaka meint manndráp fanga á Litla Hrauni, sem kærðu X og Y séu grunaðir um. Kemur fram að þau vitni, sem beiðst er að gefi skýrslu fyrir dómi, hafi öll lýst miklum ótta sínum við að framburður þeirra um málið kunni að baka þeim lífshættu í ljósi þess hverjir hinir grunuðu eru. Lögregla hefur lofað vitnum nafnleynd við rannsókn málsins að því marki sem lögregla hefur það á valdi sínu. Lögregla metur það svo að raunhæft sé að ætla að lífi og limum vitnanna kunni að vera hætta búin vegna framburðar þeirra. Vísar lögregla í þessu skyni m.a. til þess að kærðu séu grunaðir um að hafa veist að samfanga sínum með ofbeldi með þeim afleiðingum að hann hafi beðið bana af, en vitnin séu sjálf vistuð í fangelsi og séu því ekki í aðstöðu til að koma sér undan yfirvofandi árás líkt og frjálsir menn. Kom fram hjá lögreglustjóra að vitnin hefðu skýrt frá því að skyldmennum þeirra hefðu borist hótanir eftir krókaleiðum, en ekkert vitnanna hefði haft kjark til að skýra berum orðum frá því í hverju nákvæmlega það hefði falist, enda gæti lögreglustjóri illa skýrt frá því í dómsal án þess að gefa með því upp hver vitnin væru.
Af hálfu kærðu er vísað til 70. gr. Stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 þar sem segir m.a. að öllum beri réttur til að fá úrlausn m.a. „um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð“ og telja þann rétt á sér brotinn með því að vitnin verði undir nafnleynd og að ákærðu og verjendum verði meinað að vera í dómsal við skýrslugjöf vitnanna. Þá er af hálfu kærðu sérstaklega vísað til d liðar 3. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994, þar sem m.a. kemur fram að hver sá sem borinn er sökum skuli fá „að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum.“
Af hálfu dómsins var fyrirhugað að haga skýrslutöku á þann veg, að vitni yrði eitt í þingsal með dómara, en að sakborningar, verjendur og sækjandi yrðu allir í hliðarherbergi og gætu heyrt allt sem fram færi í þingsalnum og beint spurningum beint til vitnisins og talsamband yrði milli þeirra sem væru í þingsalnum og þeirra sem væru í hliðarherberginu. Þá var gert ráð fyrir því að spurningar og svör sem væru til þess fallin að afhjúpa vitnið yrðu skrifleg. Var jafnframt gert ráð fyrir að skýrslutaka yrði tekin upp bæði í hljóði og mynd. Var aðilum kynnt þetta í upphafi þinghalds.
Niðurstaða:
Eins og fram kemur að ofan er því ekki mótmælt út af fyrir sig að skýrsla verði tekin af umræddum vitnum fyrir dómi, en það er jafnframt álit dómsins að skilyrði b liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt, en fram hefur komið að verjendur hafa ekki fengið afrit lögregluskýrslna vitnanna. Er óþarft að vísa jafnframt til c liðar 1. mgr. 59. gr. laganna.
Í máli þessu leikast á ólík sjónarmið, annars vegar um réttindi sakaðra manna, og hins vegar sjónarmið um möguleika lögreglu til að rannsaka alvarleg sakamál á raunhæfan hátt með því að fá fram réttan og óþvingaðan framburð vitna, sem getur skipt sköpum um niðurstöðu rannsóknar á alvarlegum sakarefnum.
Það er álit dómsins að réttindi sakborninga eins og þau eru m.a. tryggð í ofangreindum ákvæðum Stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu girði ekki sjálfkrafa fyrir tilvist reglna eins og lýst er í 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008, en ljóst er að tilvist slíkra reglna getur verið forsenda þess að takist að upplýsa alvarleg sakamál, en af því hefur samfélagið augljósa og ríka hagsmuni. Jafnljóst er að við framkvæmd slíkrar skýrslutöku sem lýst er og gert ráð fyrir í 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 þarf að gæta sérstaklega að því að réttindi sakborninga verði virt, sem og jafnræði málsaðila. Hitt er jafnljóst að við framkvæmd slíkrar skýrslutöku er ófært að sakborningur og verjandi séu viðstaddir, enda færi þá nafnleynd vitnisins fyrir lítið, en til að gæta jafnræðis yrði þá sækjanda vikið úr þingsal jafnhliða sakborningi og verjanda, en fyrir því er gert ráð í 3. mgr. 123. gr. laganna að sakborningur, verjandi og sækjandi, víki úr þingsal meðan slík skýrsla er gefin, en dómari skuli þá sjá til þess að sjá til þess að „þeir geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram. Jafnframt er honum rétt að leggja fyrir vitnið þær spurningar sem þeir óska.“
Fram er komið að umræddir sakborningar sæta rannsókn vegna rökstudds grunar um að hafa orðið samfanga sínum að bana með líkamlegu ofbeldi á Litla Hrauni í maímánuði síðastliðnum. Fyrir liggur að báðir sakborningar hafa verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot og hafa þeir báðir verið dæmdir fjórum sinnum fyrir ofbeldisbrot. Fyrir liggur að umrædd vitni hafa gefið framburði hjá lögreglu sem þykja styðja þá ætlan lögreglu að sakborningarnir hafi veist að A umrætt sinn með líkamlegu ofbeldi. Þá kemur það jafnframt fram í umræddum skýrslum að vitnin eru hrædd við sakborninga og um að þeim verði unnið mein, en þetta kemur jafnframt fram í kröfu lögreglustjóra og þá kom þetta einnig fram fyrir dóminum við fyrirtöku kröfunnar. Það er mat dómsins að óttinn sé raunverulegur og að raunveruleg ástæða sé til að ætla að „lífi, heilbrigði eða frelsi vitnisins ellegar náinna vandamanna þess, sbr. 1. eða 2. mgr. 117. gr., yrði stefnt í hættu ef það væri gert uppskátt hvert það er“ eins og segir í 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008. Ekki þykir það girða fyrir þetta að ekki hafi verið upplýst um hótanir um tiltekna refsiverða háttsemi í garð tiltekinna manna, enda eðli hótana að vera í hálfkveðnum vísum, aukinheldur að með því kynni að vera gert uppskátt hver vitnin eru. Þykir ljóst að veruleg hætta er á að vitnin gefi ranga skýrslu fyrir dómi eða neiti að svara spurningum ef nafnleyndar nýtur ekki við. Það er því mat dómsins að uppfyllt séu skilyrði til að umrædd vitni njóti nafnleyndar og að skýrslutöku af þeim verði hagað skv. 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008.
Í 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir því að „Ef ákærða er óheimilt að vera viðstaddur skýrslutöku skv. 1. mgr. eða ákærða og málflytjendum skv. 2. mgr. skal dómari sjá til þess að þeir geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram. Jafnframt er honum rétt að leggja fyrir vitnið þær spurningar sem þeir óska.“ Er ljóst að nafnleynd vitna getur ekki orði nema að nafninu til við rannsókn þessa máls ef verjendur og sakborningar fá að vera viðstaddir í þingsal þegar vitnin gefa skýrslu. Er óhjákvæmilegt að þeir víki úr þingsal á meðan vitni gefur skýrslu, en ella nær nafnleynd ekki tilgangi sínum og verðu markleysa, en fram kemur í 2. mgr. 123. gr. laganna að dómari geti ákveðið að sakborningur og málflytjendur skuli víkja úr þingsal meðan vitni gefur skýrslu undir nafnleynd sbr. 8. mgr. 122. gr. laganna.
Með vísun til ofangreinds og að öðru leyti með vísun til röksemda lögreglustjóra ber því að ákveða að skýrslutaka af umræddum vitnum fari fram undir nafnleynd í samræmi við 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008 og að sakborningar og málflytjendur víki úr þingsal meðan vitnin gefa skýrslu, sbr. 2. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008, enda verði séð til þess að sakborningar og málflytjendur geti fylgst með skýrslutöku meðan hún fer fram og dómari leggi fyrir vitni þær spurningar sem þeir óska.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Taka ber skýrslu fyrir dómi af umræddum fjórum vitnum og skulu vitnin njóta nafnleyndar í samræmi við 8. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008. Sakborningar og málflytjendur skulu víkja úr þingsal meðan skýrslutakan fer fram, en sjá skal til þess að þeir geti fylgst með skýrslutökunni meðan hún fer fram og látið leggja fyrir vitni þær spurningar sem þeir óska, í samræmi við 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.