Hæstiréttur íslands
Mál nr. 384/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Vistun barns
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 18. júní 2015. |
|
Nr. 384/2015.
|
Barnaverndarnefnd Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.) gegn A (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Kærumál. Börn. Vistun barns. Gjafsókn.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var á kröfu B um að börn A yrðu vistuð utan heimilis hennar í sex mánuði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að brýnir hagsmunir barnanna mæltu með því að börnin yrðu vistuð utan heimilis A á meðan rannsókn á málefnum þeirra stæði yfir og A undirgengist forsjárhæfnismat. Með vísan til b. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 var því fallist á framangreinda kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að systkinin B, C, D, E og F yrðu vistuð utan heimilis varnaraðila í sex mánuði frá 21. apríl 2015 að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að systkinin B, C og D verði vistuð utan heimilis varnaraðila í sex mánuði frá 21. apríl 2015 að telja.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.
Eftir að úrskurður héraðsdóms gekk samþykkti varnaraðili vistun tveggja elstu barna sinna, E og F, utan heimilis til 21. október 2015 og var yfirlýsing þess efnis undirrituð 4. júní 2015. Hefur sóknaraðili því fallið frá kröfu um að þau börn verði vistuð utan heimilis varnaraðila þann tíma.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili haft málefni barna varnaraðila til meðferðar allt frá árinu 2005. Hefur á þeim tíma borist fjöldi tilkynninga um ofbeldi á heimili varnaraðila sem meðal annars hefur beinst að börnunum. Í úrskurðinum er lýst komu barnaverndaryfirvalda að málefnum varnaraðila, barnsföður hennar og barna þeirra þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að börnin hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi og búið við óviðunandi aðstæður á heimili varnaraðila. Telja barnaverndaryfirvöld börnunum hættu búna að óbreyttu.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram endurrit af skýrslum sem teknar voru af þremur elstu börnunum, F, E og D, í héraðsdómi 17. apríl 2015. Þar greindi D frá því að varnaraðili beitti systkinin öll ofbeldi. Aðspurður hvort hann hafi séð móður sína beita C ofbeldi játaði hann því og sagði hana „henda honum í sófann af því að hann sofnar ekki“. Sagði hann hana einnig beita B ofbeldi. Þá kvaðst E ekki vilja búa hjá móður sinni og að honum liði vel á vistheimilinu þar sem hann dvelur nú. F og D neituðu að tjá sig, en hún kvaðst þó vilja fara aftur heim til móður sinnar.
Fyrir Hæstarétt hefur jafnframt verið lagt fram skjal sem hefur að geyma samantekt nafngreinds starfsmanns sóknaraðila á viðtali starfsmanna hans við D 13. apríl 2015. Þar kom fram að drengurinn hafi greint frá því að varnaraðili hafi kýlt hann í magann og sparkað í lærið á honum. Þá hafi drengurinn skýrt frá því að varnaraðili væri einnig að „lemja“ F og drægi hana um á hárinu. Hafi hann ekki vilja fara heim til móður sinnar vegna þess ofbeldis sem hún beitti. Að auki hafa verið lagðar fyrir Hæstarétt skýrslur starfsmanns sóknaraðila 25. maí og 8. júní 2015 með upplýsingum frá fósturforeldrum B og C um að drengjunum líði vel hjá þeim, en að umgengni drengjanna við varnaraðila bæri ekki merki um góð tengsl þeirra við hana.
Sóknaraðili óskaði 10. apríl 2015 rannsóknar lögreglu vegna gruns um að varnaraðili hefði beitt börnin alvarlegu ofbeldi og stendur sú rannsókn enn yfir. Samkvæmt gögnum málsins á lögregla meðal annars eftir að taka skýrslu að nýju af þremur elstu börnunum. Þá stendur til að varnaraðili gangist undir forsjárhæfnismat.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Eftir 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, meðal annars þegar félagsmálastofnanir eða dómstólar gera ráðstafanir sem varða börn. Samkvæmt b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga getur barnaverndarnefnd, ef brýnir hagsmunir barns mæla með því, kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Þá segir í 1. mgr. 28. gr. laganna að telji barnaverndarnefnd nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt b. lið 27. gr. þeirra standi lengur en þar er kveðið á um skuli hún gera kröfu um það fyrir héraðsdómi.
Fram er komið að þrjú elstu börnin eiga við alvarlegan hegðunarvanda að stríða. Þá liggur fyrir að barnaverndaryfirvöld hafa lengi reynt ýmis vægari úrræði en krafist er í máli þessu til að búa börnunum betri aðstæður, þar á meðal hafa átta meðferðaráætlanir verið gerðar í því skyni án tilætlaðs árangurs. Af því sem að framan er rakið um málavexti verður fallist á með sóknaraðila að brýnir hagsmunir barnanna mæli með vistun þeirra utan heimilis varnaraðila meðan rannsókn á málefnum þeirra stendur yfir og umrætt forsjárhæfnismat fer fram.
Að öllu framangreindu virtu er fullnægt skilyrðum b. liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga til að fallast á kröfu sóknaraðila um vistun barnanna B, C og D utan heimilis varnaraðila í sex mánuði frá 21. apríl 2015 að telja.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað varnaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, er heimilt að vista B, C og D utan heimilis varnaraðila, A, í sex mánuði frá 21. apríl 2015 að telja.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2015.
Mál þetta, sem barst Héraðsdómi 12. maí sl., var tekið úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 27. maí sl. Sóknaraðili er A, [...], [...]. Varnaraðili er barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Borgartúni 12-13.
Sóknaraðili krefst þess að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar barnaverndarnefndar Reykjavíkur 21. apríl sl. sem kveður á um að systkinin B, C og D skuli vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst þess að úrskurðinn 21. apríl sl. verði staðfestur. Hann krefst þess einnig úrskurðað verði að systkinin B, C, D, E, og F verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í samtals sex mánuði, frá 21. apríl 2015 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Af hálfu sóknaraðila er kröfu varnaraðila um frekari vistun barnanna B, C og D mótmælt. Hins vegar er kröfunni ekki mótmælt að því er varðar E og F.
Atvik málsins
Með fyrrnefndum úrskurði varnaraðila 21. apríl sl. var ákveðið að systkinin B, C, D, E, og F skyldu vistuð á heimili á vegum varnaraðila í tvo mánuði, frá þeim degi að telja, samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í niðurstöðukafla úrskurðarins er rakið að um sé að ræða fimm systkini: B eins árs, C tveggja ára, D sjö ára. E ellefu ára og F tólf ára. Þau lúti öll forsjár móður sinnar, þ.e. sóknaraðila máls þessa. Börnin séu öll samfeðra en faðir fari ekki með forsjá þeirra.
Fram kemur að mál tveggja elstu barnanna hafi fyrst verið tilkynnt til varnaraðila í desember 2005 en þá hafi foreldrar verið í átökum. Frá þeim tíma hafa borist hátt í 70 tilkynningar í málum barnanna frá ýmsum aðilum, þ.á m. lögreglu. Margar þeirra séu vegna átaka foreldra sem börnin hafi orðið vitni af. Einnig hafi borist tilkynningar til lögreglu þar sem fram komi að móðir hafi átt í deilum við fleiri aðila en föður. Þá hafi lögreglan tilkynnt um að barn væri ekki í viðeigandi öryggisbúnaði í bíl hjá móður. Einnig hafi borist tilkynning frá lögreglu um að tvö elstu börnin hafi verið eftirlitslaus í verslun seint að kvöldi en þá hafi þau verið í umgengni hjá föður. Lögregla hafi einnig tilkynnt um að móðir hafi hótað sjálfsvígi og um heimilisofbeldi þar sem foreldrar voru undir áhrifum. Tilkynningar hafi borist undir nafnleynd vegna mikils hávaða frá íbúð fjölskyldunnar og að börnin gráti mikið. Einnig vegna gruns um að sóknaraðili beiti börnin andlegu og líkamlegu ofbeldi og áhyggjur af andlegri líðan sóknaraðila sem jafnvel skilji börnin eftir ein heima. Auk þess hafi verið áhyggjur af hegðun barnanna sem séu hömlulaus og ofbeldisfull.
Í úrskurðinum segir að faðir barnanna hafi ítrekað tilkynnt um að sóknaraðili beiti börnin grófu ofbeldi. Tilkynning hafi borist frá leikskóla tveggja elstu barnanna þar sem fram kom að börnin væru að lýsa átökum á milli foreldra og óróleika á heimilinu. Áhyggjur væru af vanlíðan þeirra. Tilkynningar hafa borist frá bráðamóttöku LSH vegna ofbeldis föður gagnvart sóknaraðila þar sem börnin voru vitni. Þá hafi faðir sagt frá því að sóknaraðili hafi gefið börnunum bjór. Í tilkynningu frá lögreglu frá árinu 2007 komi fram að sóknaraðili hafi elt barnsföður sinn á bíl og hótað honum. Lögreglan hafi talið móður í annarlegu ástandi. Einnig hafi borist tilkynning frá lögreglu þar sem afskipti voru af föður vegna þess að hann hafi verið í annarlegu ástandi.
Í niðurstöðukafla úrskurðarins er enn fremur rakið að tilkynningar hafi borist, meðal annars frá skóla, vegna hegðunar barnanna E og F. Skóli E hafi lýst erfiðri hegðun, m.a. ofbeldishegðun og mikilli vanlíðan. Samkvæmt tilkynningu frístundaheimilis hans hafi hann ögrað með grófri hegðun. Þá er rakið að borist hafi tilkynning frá frístundaheimilinu 19. mars sl. um að E hafi tjáð sig um að sóknaraðili hafi beitt hann ofbeldi, m.a. hrint honum í sturtu. Sóknaraðili hafi einu sinni tilkynnt mál E vegna hegðunarerfiðleika hans og hafi hann þá farið á vistheimilið í fjóra daga í kjölfarið. Borist hafi tilkynning frá skóla D þar sem lýst sé óæskilegri og ofbeldisfullri hegðun hans. Hafði hann ráðist á aðstoðarskólastjóra og veitt áverka þannig að sauma þurfti fimm spor í höfuð aðstoðarskólastjórans. Einnig hafi hann ráðist á kennara og verið sýnilegir áverkar vegna þess. Tilkynning hafi borist frá heilsugæslunni, þroska og hegðunarstöð vegna C þar sem lýst sé áhyggjum af aðbúnaði hans, líðan og þroskastöðu. Sóknaraðili hafi afþakkað aðkomu fjölskylduteymis.
Í úrskurðinum kemur fram að beitt hafi verið neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga hinn [...]. apríl sl. í kjölfar tilkynningar um að foreldrar hafi átt í átökum og hnífur hafi komið við sögu. Yngsta barnið hafi verið með sóknaraðila sem hafði keyrt á bíl föður. Voru foreldrar flutt á lögreglustöð ásamt yngsta barninu. Var það mat starfsmanna að sóknaraðili væri ekki fær um að annast börnin að svo stöddu en hún samþykkti ekki vistun þeirra utan heimilis. Í úrskurðinum eru rakin tildrög þess að F fór af eigin rammleik til móðurforeldra sinna þar sem hún dvelst nú með samþykki barnaverndaryfirvalda.
Í úrskurði varnaraðila segir að E hafi lýst miklu ofbeldi sem sóknaraðili hafi beitt öll systkinin. D hafi einnig lýst ofbeldi. E og D hafi sagt að þeir vilji ekki fara heim til sóknaraðila. Hafi þeir staðfest þennan vilja sinn við talsmann sinn. F hafi hins vegar neitað að tala við starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur en fram hafi komið að hún vilji fara til móður sinnar aftur. Faðir hafi komið til viðtals og lýst grófu ofbeldi sem sóknaraðili hafi beitt öll börnin. Sóknaraðili hafi hins vegar neitað að hafa beitt börnin ofbeldi af nokkru tagi og sagt að öll vandræði væru föður barnanna að kenna; hann hafi ofsótt hana í gegnum árin.
Fram kemur að gerðar hafi verið átta meðferðaráætlanir vegna fjölskyldunnar. Ýmis úrræði hafi verið reynd bæði hjá Barnavernd og þjónustumiðstöð. Þau úrræði sem hafi verið reynd í málinu séu m.a. stuðningsfjölskylda, sálfræðiviðtöl, Stuðningurinn heim, Greining og ráðgjöf heim og kennslu og greiningarvistun á Vistheimili barna. Samstarf hafi verið við BUGL, þjónustumiðstöð, skóla og leikskóla barnanna og Hvítabandið LSH.
Í úrskurðinum er rakið það mat starfsmanna barnaverndar að ekki leiki vafi á því að móðir hafi beitt öll fimm börn sín grófu andlegu og líkamlegu ofbeldi og að þau hafi búið við algjörlega óviðunandi aðstæður í hennar umsjá alla tíð. Telji starfsmenn að jafnvel sé um lífshættulegt ofbeldi að ræða. Hafi þegar verið óskað eftir rannsókn lögreglu og læknisskoðun á öllum börnunum m.t.t. eldri áverka. Ljóst sé af hegðun F, E og D að ofbeldið hafi þegar sett verulega mark sitt á hegðun þeirra og líðan. Þau séu sjálf farin að beita ofbeldi, auk þess sem ljóst sé að þeim líði mjög illa. Telji starfsmenn nauðsynlegt að öll börnin verði vistuð utan heimilis meðan beðið sé niðurstöðu úr lögreglurannsókn og forsjárhæfnimati á móður. Þá segir að talsmaður yngstu drengjanna tveggja sé sammála mati starfsmannanna.
Í úrskurðinum kemur fram að sóknaraðili hafi lýst því yfir að hún samþykkti vistun E utan heimilis á meðan unnið yrði markvisst að því að bæta líðan hans og andlega heilsu sem og samskipti mæðginanna. Þá væri sett það skilyrði að móðir fengi reglulega umgengni á vistunartímanum.
Í úrskurði varnaraðila er tekið undir fyrrgreint mat starfsmanna barnaverndar og talið ljóst að börnin hafi búið við óviðunandi aðstæður í umsjá sóknaraðila til lengri tíma. Telur nefndin nauðsynlegt að sóknaraðili undirgangist forsjárhæfnimat og að börnin verði ekki í hennar umsjá á þeim tíma. Því til viðbótar sé lögreglurannsókn yfirstandandi vegna ætlaðs ofbeldis hennar gagnvart öllum börnunum fimm. Telur nefndin mikilvægt að aðstæður barnanna verði tryggðar utan heimilis á meðan forsjárhæfnimat fari fram og lögreglurannsókn sé í gangi. Telur nefndin þörf á því að vistun barnanna standi í a.m.k. sex mánuði til þess að unnt sé að uppfylla það markmið sem stefnt er að með vistun þeirra. Telur nefndin samþykki móður gagnvart vistun E utan heimilis vera háð skilyrðum sem óvíst sé hvort unnt sé að uppfylla og telur því nauðsynlegt að kveða upp úrskurð um vistun allra barnanna utan heimilis sbr. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Jafnfram verði gerð krafa fyrir dómi um vistun systkinanna fimm til 21. október 2015, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þá segir að starfsmönnum sé falið að gera áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 í samvinnu við sóknaraðila þar sem kveðið verði m.a. á um að hún undirgangist sálfræðilegt mat á forsjárhæfni.
Í úrskurðinum segir að með vísan til framangreinds og gagna málsins í heild sinni sé það mat varnaraðila að brýnir hagsmunir barnanna mæli með því að systkinin, F, E, D, C og B, skuli vistuð utan heimilis á vegum varnaraðila, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, frá og með 21. apríl 2015 að telja. Þar sem samþykki sóknaraðila skorti fyrir vistun barnanna F, D, C og B utan heimilis og samþykki fyrir vistun E sé háð skilyrðum sem óvíst er hvort hægt sé að uppfylla sé málið tekið til þess úrskurðar sem áður er rakinn.
Málsástæður og lagarök aðila
Sóknaraðili mótmælir málavaxtalýsingu í hinum kærða úrskurði í meginatriðum. Vísar sóknaraðili til þess að það sé fyrst og fremst E sem hafi greint frá ofbeldi en elsta dóttir sóknaraðila hafi neitað því staðfastlega. D hafi einungis tekið undir frásögn bróður síns og sé vafasamt hvort þar sé um sjálfstæða frásögn að ræða. Færir sóknaraðili rök að því að taka beri frásögn E með fyrirvara, meðal annars þannig að frásögnina megi rekja til föður drengsins. Sóknaraðili vísar einnig til skýrslu drengsins hjá lögreglu þar sem hann hafi ekki getað tilgreint nánar hvers konar ofbeldi sóknaraðili beitti börn sín.
Sóknaraðili leggur áherslu á flestar tilkynningar vegna fjölskyldunnar eigi rót sína að rekja til barnsföður sóknaraðila með einum eða öðrum hætti. Meðal annars hafi það verið barnsfaðir hennar sem réðst á hana með hníf [...]. apríl sl. Er í kröfu sóknaraðila rakið nánar samband sóknaraðila við barnsföðurinn og ofbeldi sem hún telur hann hafa ítrekað beitt sig. Lýsir sóknaraðili þessu sambandi þannig að faðirinn hafi ofsótt hana um árabil. Hún hafi meðal annars lagt fram beiðni um nálgunarbann eftir atvikið [...]. apríl sl. Segir í kröfu sóknaraðila að fjölskyldulífið hafi litast af stöðugum átökum milli foreldranna en inn á milli hafi samband þeirra gengið bærilega. Þegar hafi sinnast hafi faðirinn oftar en ekki brugðið á það ráð að tilkynna barnavernd áhyggjur sínar af aðbúnaði barnanna og ofbeldisfullrar hegðunar sóknaraðila í garð þeirra. Börnin hafi ítrekað horft upp á föður beita sóknaraðila ofbeldi og hafa í hótunum við hana. Einnig kemur fram að sóknaraðili hafi sjálf ráðist á barnsföður sinn þegar hún hafi missti stjórn á sér í samskiptum sínum við manninn.
Sóknaraðili kveðst þrátt fyrir erfiðleika hafa unnið markvisst að því að bæta líðan sína og barna sinna, meðal annars í samvinnu við barnaverndaryfirvöld. Sóknaraðili telur nauðsynlegt fyrir E að fá sérhæfða og vandaða meðferð hjá fagaðilum við vanda sínum. Sóknaraðili viðurkennir að hegðun E skapi mikið álag á heimilinu og telur hún að vanlíðan D megi að stórum hluta til rekja til ótta hans við eldri bróður sinn. E sé mjög ógnandi í garð bræðra sinna og þurfi sóknaraðili oft að halda E til þess að hindra hann frá því að ganga í skrokk á bræðrum sínum. Með hliðsjón af því að sóknaraðili hefur samþykkt vistun E utan heimilis er ekki ástæða til að rekja frekar atvik vegna hans.
Hvað varðar þrjú yngstu börnin fellst sóknaraðili ekki á vistun utan heimilis. Sóknaraðili lýsir sig hins vegar reiðubúna til að samþykkja önnur og vægari úrræði.
Sóknaraðili byggir kröfu sína í fyrsta lagi á því að vistun barnanna utan heimilis brjóti í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga. Telur sóknaraðili að vistun barnanna utan heimilis, sér í lagi yngstu drengjanna, sé andstæð hagsmunum þeirra. Í þessu sambandi bendir hún á að hún hafi fengið mjög takmarkaða umgengni við börnin. Hvað varðar D telur sóknaraðili að hann lifi í stöðugum ótta við eldri bróður sinn og hann hlýði honum í einu og öllu. Telur hún það líklegustu skýringuna á því af hverju hann hefur tekið undir lýsingar E á ofbeldi á heimilinu. Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að lagaskilyrðum um vistun barns utan heimilis skv. b-lið 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé ekki fullnægt en ekki hafi verið sýnt fram á að brýnir hagsmunir mæli með vistun barnanna utan heimilis. Í þriðja lagi telur sóknaraðili að ekki hafi verið gætt rannsóknarreglu 41. gr. barnaverndarlaga. Vísar sóknaraðili einkum til þess að tilkynningar sem hafi borist frá barnsföður hennar hafi reynst haldlausar. Einnig er vísað til þess að lögregluskýrsla af sóknaraðila vegna atviksins [...]. apríl sl. hafi ekki verið lögð fram. Í fjórða lagi telur sóknaraðili að úrskurður varnaraðila samrýmist ekki meðalhófi, sbr. 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sóknaraðili telur eðlilegra hefði verið að reyna önnur og vægari úrræði fyrst og að aðstoð inni á heimilinu komi til með að gagnast fjölskyldunni best til langs tíma litið. Við munnlegan flutning málsins lagði sóknaraðili á það áherslu að hún væri tilbúin að samþykkja vistun þriggja yngstu barnanna hjá stuðningsfjölskyldu og/eða móðurforeldrum barnanna. Varnaraðili hefði í engu leitast við að koma til móts við þessar óskir.
Varnaraðili hafnar öllum sjónarmiðum sóknaraðila telur að atvikum sé réttilega lýst í úrskurðinum 21. apríl sl. Það mat sem komi fram á aðstæðum barnanna sé rétt og mæli brýnir hagsmunir með tímabundinni vistun þeirra. Að því er varðar sjónarmið um rannsóknarreglu vísar varnaraðili til þess að gögn málsins sýni að mál sóknaraðila hafi verið meðferðar nær samfellt frá árinu 2005. Alvarlegar ásakanir um andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu varnaraðila séu nú til rannsóknar hjá lögreglu. Varnaraðili telji mikilvægt að aðstæður barnanna verðir tryggðar utan heimilis sóknaraðila á meðan lögreglurannsókn er í gangi og mat á forsjárhæfni sóknaraðila fer fram. Að því er varðar sjónarmið um meðalhóf vísar varnaraðili til þess að gerðar hafi verið átta meðferðaráætlanir með sóknaraðila og hafi ýmis úrræði verið reynd bæði hjá barnavernd Reykjavíkur og þjónustumiðstöð. Þyki fullreynt að veita sóknaraðila stuðning að svo stöddu með börnin í sinni umsjá, en talsverðrar þolimæði hafi verið gætt við vinnslu málsins. Sjónarmið varnaraðila falla að öðru leyti að meginstefnu saman við rökstuðning úrskurðarins 21. apríl sl. sem áður hefur verið rakin.
Niðurstaða
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 getur barnaverndarnefnd kveðið á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu. Samkvæmt upphafsorðum greinarinnar gilda um beitingu úrræðisins sömu skilyrði og fram koma í 26. gr. laganna en þar er kveðið á um ýmis úrræði sem barnaverndarnefnd er heimilt að grípa til án samþykkis foreldra án þess þó að barnið sé tekið úr umsjá þeirra. Í upphafsorðum 26. gr. laganna kemur fram að ráðstöfun samkvæmt þeirri grein komi því aðeins til greina að þau úrræði, með samþykki foreldra, sem greinir í 24. og 25. gr. laganna, hafi ekki skilað árangri að mati barnaverndaryfirvalda eða þau séu metin ófullnægjandi.
Af framangreindum fyrirmælum barnaverndarlaga verður dregin sú ályktun að úrræði samkvæmt 27. gr. laganna verði því aðeins beitt að brýnir hagsmunir barns mæli með því, svo og að önnur og vægari úrræði hafi verið reynd og ekki skilað árangri, eða þá að þau séu metin ófullnægjandi með hliðsjón af hagsmunum barnsins. Samkvæmt þessu verður meðal annars að liggja fyrir að úrræði sem foreldri hefur samþykkt, eða er tilbúið að samþykkja, hafi reynst árangurslaus eða séu talin ófullnægjandi með hliðsjón af brýnum hagsmunum barnsins. Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar og beinum fyrirmælum barnaverndarlaga verða ákvarðanir barnaverndaryfirvalda að bera með sér að mál hafi verið rannsakað með tilliti til þessara atriða og rökstudd afstaða tekin til þeirra.
Í máli þessu liggur fyrir að sóknaraðili hefur um árabil átt í stormasömu sambandi við barnsföður sinn og er ekki um það deilt að ítrekað hefur komið til alvarlegra átaka á milli þeirra. Hvað sem líður nánari ástæðum þessara átaka benda gögn málsins til þess að sóknaraðili hafi ítrekað látið sér í léttu rúmi liggja hvort börn hennar hafi orðið vitni af grófum orðaskiptum og jafnvel líkamlegum átökum foreldra. Virðist sóknaraðili þannig ítrekað hafa látið eigin tilfinningar og hvatir ganga framar hagsmunum barna sinna og þannig vanrækt alvarlega skyldur sínar sem foreldri.
Án tillits til átaka sóknaraðila og barnsföður hennar benda gögn málsins einnig til þess að sóknaraðili hafi lengi átt í erfiðleikum með ýmsa þætti í uppeldi barna sinna. Á þetta einkum við um soninn E sem sóknaraðili virðist frá upphafi hafa átt í miklum erfiðleikum með. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um E telur dómurinn þó ljóst að um er að ræða barn með hegðunarerfiðleika sem ekki verða endilega raktir til ófullnægjandi aðbúnaðar eða uppeldis af hálfu sóknaraðila. Í tilviki E er einnig ljóst að sóknaraðili hefur ítrekað talið sig þurfa að beita hann líkamlegu valdi, einkum í því skyni að stilla til friðar milli hans og systkina hans. Af frásögn sóknaraðila sjálfrar verður einnig dregin sú ályktun að samband mæðgina hafi verið erfitt um langt skeið, meðal annars þannig að sóknaraðili hafi talið sig þurfa aðstoð barnaverndaryfirvalda við umönnun og uppeldi drengsins.
Eins og áður greinir var barnaverndaryfirvöldum tilkynnt [...]. mars sl. af starfsmönnum frístundaheimilis um grun um að E væri beittur ofbeldi af sóknaraðila og liggur fyrir í málinu skýrsla E á þessa leið í óbeinni frásögn starfsmanna téðs frístundaheimilis. Af hálfu barnaverndaryfirvalda var óskað eftir rannsókn lögreglu [...]. apríl sl. samkvæmt því sem fram kemur í framlagðri beiðni lögreglunnar um skýrslutöku fyrir dómi. Kemur fram í gögnum málsins að skýrsla hafi verið tekin af drengnum í héraðsdómi 17. apríl sl. Sú skýrsla hefur ekki verið lögð fram í málinu og hefur varnaraðili upplýst, að fenginni fyrirspurn dómara utan réttar, að hann hafi ekki skýrsluna undir höndum. Sú stutta frásögn E sem liggur fyrir í málinu gefur til kynna að það sé fyrst og fremst hann sjálfur sem telji sig hafi sætt langvarandi ofbeldi af hálfu sóknaraðila þótt einnig sé þar vikið að systkinum hans. Að mati dómara verða því takmarkaðar ályktanir dregnar af frásögn E um framkomu sóknaraðila gagnvart þremur yngstu börnunum sem krafa sóknaraðila lýtur að.
Að slepptri téðri frásögn E liggja fyrir gögn þar sem fram koma frásagnir barnanna D og F eru hafðar eftir þeim. Frásögn F og háttsemi hennar eftir að hún var tekin úr umsjá sóknaraðila felur ekki í sér sterka vísbendingu um ítrekað eða alvarlegt ofbeldi sóknaraðila. Sama á við um lýsingar á atviki varðandi F frá árinu 2010 þar sem sóknaraðili mun hafa hent í hana leikfangi. Það sem fram kemur í gögnum málsins um frásögn D um ofbeldi er með mjög almennum hætti. Er því meðal annars ósvarað að hvaða marki um er að ræða líkamlegt átök milli hans og eldri bróður hans, E. Ítrekaðar ásakanir barnsföður sóknaraðila um ofbeldi sóknaraðila gagnvart börnunum í gegnum árin hafa ekki verið taldar þess eðlis af hálfu barnaverndaryfirvalda að rétt væri að grípa til sérstakra aðgerða. Er það og mat dómara að þessum ásökunum beri að taka með varúð þótt þær kunni að gefa tilefni til nánari skoðunar yfirvalda og eftirlits með fjölskyldunni. Þá liggur fyrir að þau læknisfræðilegu gögn, sem við nýtur í málinu, benda ekki sérstaklega til líkamlegs ofbeldis.
Samkvæmt öllu framangreindu byggjast grunsemdir um ofbeldi sóknaraðila gegn börnum sínum fyrst og fremst á þeirri frásögn E sem áður greinir. Þótt sú frásögn D, sem fyrir liggur, sé mjög almenns eðlis verður einnig að telja hana, ásamt lýsingum á hegðun drengsins, fela í sér tilefni fyrir barnaverndaryfirvöld til að kanna gaumgæfilega hvort um ofbeldi væri að ræða á heimili sóknaraðila. Að mati dómara var áðurlýst atvik [...]. apríl sl. einnig þess eðlis að fullt tilefni var fyrir barnaverndaryfirvöld að beita neyðarráðstöfun og taka börnin þegar í stað úr umsjá sóknaraðila í því skyni að tryggja öryggi þeirra.
Eins og áður greinir benda gögn málsins til þess að sóknaraðila hafi ekki, um árabil, tekist að sinna skyldum sínum sem foreldri með viðhlítandi hætti. Fyrir liggur afstaða talsmanns tveggja yngstu barna sóknaraðila þar sem talið er ljóst að þau hafi búið við óviðunandi aðstæður hjá móður og brýnir hagsmunir mæli með vistun utan heimilis meðan málið sé rannsakað. Einnig liggur fyrir skýrsla talsmanns D þar sem fram kemur að talsmaðurinn lýsi sig samþykkan vistun utan heimilis í tvo mánuði. Samkvæmt öllu framangreindu er það mat dómara að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga hafi verið fullnægt til þess að kveða á um vistun barna sóknaraðila utan heimilis í tvo mánuði í því skyni að rannsaka ásakanir um ofbeldi og leggja mat á hæfni sóknaraðila til að sinna skyldum sínum sem forsjárforeldri. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að úrskurðurinn verði felldur úr gildi að því er varðar þrjú yngstu börn hennar, svo sem hún hefur krafist.
Að því er varðar kröfu varnaraðila um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis í fjóra mánuði til viðbótar samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga hefur sóknaraðili samþykkt kröfuna um tvö elstu börnin, E og F. Er krafa varnaraðila um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis er þegar af þessari ástæðu þarflaus að því er snertir þessi börn. Í málinu liggur fyrir að E hefur þegar gefið skýrslu fyrir dómi að tilhlutan lögreglu, svo sem áður greinir, og við munnlegan flutning málsins kom fram að sama gengdi líklega um F. Að mati dómsins er yfirvöldum í lófa lagið að gera reka að því að D gefi skýrslu fyrir dómi áður en tímabundin vistun utan heimilis rennur út, þ.e. fyrir 21. júní nk., en telja verður ólíklegt að tvö yngstu börn sóknaraðila hafi nægilegan þroska til skýrslugjafar. Að þessu virtu er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að rannsóknarhagsmunir geti helgað áframhaldandi vistun þriggja yngstu barna sóknaraðila utan heimilis. Þá hafa ekki verið færð fyrir því haldbær rök að vistun utan heimilis sé með einhverjum hætti nauðsynleg vegna yfirstandi mats á forsjárhæfni sóknaraðila.
Svo sem áður greinir telur dómurinn að á þessu stigi málsins hafi ekki verið leitt nægilega í ljós að þrjú yngstu börn sóknaraðila eigi á hættu að verða beitt ofbeldi af hálfu sóknaraðila. Þótt sóknaraðili eigi sér einnig sögu um vanrækslu gagnvart börnum sínum er heldur ekki fram komið að hún sé ófær um að annast yngstu börnin þrjú, eftir atvikum með stuðningi og undir eftirliti barnaverndaryfirvalda. Er þá einnig horft til þess að fyrirsjáanlegt er að tvö elstu börn sóknaraðila muni ekki dvelja hjá henni næstu mánuði og sóknaraðili mun einungis þurfa að annast um þrjú yngstu börnin. Einnig ber að hafa í huga að sóknaraðili virðist að jafnaði hafa verið til samstarfs við barnaverndaryfirvöld, sbr. meðal annars bókun barnaverndaryfirvalda síðast [...]. janúar sl.
Samkvæmt framangreindu verður kröfu varnaraðila um áframhaldandi vistun í fjóra mánuði samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga hafnað. Dómurinn bendir hins vegar á að ef frekari vísbendingar um ofbeldi koma í ljós við þá rannsókn málsins sem nú stendur yfir er með þessari niðurstöðu engin afstaða tekin til hugsanlegrar kröfu varnaraðila samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga sem fram kæmi síðar. Dómurinn bendir þó á að sóknaraðili hefur fyrir dóminum lýst yfir samþykki sínu fyrir því að þrjú yngstu börn hennar verði vistuð utan heimilis í fjóra mánuði til viðbótar að kröfu varnaraðila ef vistun fari fram hjá móðurforeldrum þeirra og/eða stuðningsfjölskyldu og sóknaraðili njóti reglulegrar umgengni við börnin.
Eftir úrslitum málsins verður varnaraðili ekki úrskurðaður til að greiða málskostnað. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns hennar, Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl., hæfilega ákveðin 500.735 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Guðríður Lára þrastardóttir hdl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Benedikt Hallgrímsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að felldur verði úr gildi sá hluti úrskurðar varnaraðila, barnaverndarnefndar Reykjavíkur, 21. apríl sl. sem kveður á um að systkinin B, C og D skuli vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði.
Hafnað er kröfu varnaraðila um að úrskurðað verði að systkinin B, C, D, E, og F verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í samtals sex mánuði, frá 21. apríl 2015 að telja, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, þóknun lögmanns hennar Guðríðar Láru Þrastardóttur hdl. að fjárhæð 500.735 krónur, greiðist úr ríkissjóði.