Hæstiréttur íslands
Mál nr. 498/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Föstudaginn 20. júlí 2012. |
|
Nr. 498/2012. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X
skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um
meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Greta Baldursdóttir hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. júlí 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 18. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hennar í Hæstarétti, en þó eigi lengur til fimmtudagsins 8. nóvember 2012 klukkan 17. Kæruheimild er í b. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst hún þess að vægari úrræðum verði beitt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 18. júlí 2012.
Ríkissaksóknari hefur
krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt.
[...], [...],[...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur
gengur í máli hennar í Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 8.
nóvember 2012, kl. 17:00.
Í greinargerð
ríkissaksóknara segir að með dómi Héraðsdóms Reykjaness, í máli nr. S-215/2012,
uppkveðnum 20. júní 2012, hafi X verið sakfelld fyrir brot gegn 1. mgr. 194.
gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa
ruðst í heimildarleysi, ásamt tveimur öðrum, inn á heimili brotaþola, veist að
manni sem þar var og þvingað hann með ofbeldi út úr íbúðinni og því næst veist
öll þrjú með ofbeldi að brotaþola og brotið gegn henni m.a. með því að sparka í
höfuð hennar, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu, svo
og með því að samverkamaður dómfelldu, sem hafði hulið andlit sitt, hafi
stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmt á milli.
Niðurstaða dómsins hafi verið sú að um verkaskipta aðild dómfelldu og
samverkamanna hennar hefði verið að ræða. Dómfelldu hafi verið gert að sæta
fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.
Með áfrýjunarstefnu
útgefinni 13. júlí 2012 hafi dómnum áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu dómfelldu.
Dómfellda hafi sætt
gæsluvarðhaldi frá 22. desember 2011, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness um
gæsluvarðhald hennar, nr. R-439/2011, R-27/2012, R-49/2012, R-89/2012,
R-131/2012, R-196/2012, R-242/2012, R-271/2012, R-287/2012 og R-297/2012 og
dóma Hæstaréttar nr. 695/2011, 21/2012, 107/2012, 166/2012, 323/2012 og 395/2012.
Dómfellda hafi verið
sakfelld fyrir alvarleg brot. Með hliðsjón af því og þess að ríkir
almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo stendur á
sé þess krafist að dómfelldu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan mál hennar
er til meðferðar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 95. gr. og 3. mgr. 97. gr. laga
nr. 88/2008
Dómfellda sætti fyrst
gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðan með vísan til 2. mgr.
95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hinn 20. júní 2012 var hún
sakfelld og dæmd í fangelsi í fjögur ár og sex mánuði fyrir brot gegn 1. mgr.
194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómnum hefur
nú verið áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu dómfelldu. Með vísan til
framangreinds og 3. mgr. 97. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu
ríkissaksóknara eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þegar litið er til umfangs málsins þykir ekki ástæða til að marka
gæsluvarðhaldi skemmri tíma.
Úrskurð þennan kveður upp
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Dómfellda, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hennar í Hæstarétti, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 8. nóvember 2012, kl. 17:00.