Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 16. nóvember 2009. |
|
Nr. 637/2009. |
Hannes Ólafsson og Kristín Ragnheiður Alfreðsdóttir (Karl Axelsson hrl.) gegn Helga Benediktssyni og Jóni Gunnari Benediktssyni(Óskar Sigurðsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
HÓ og K kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu HB og J um að heimilt yrði að leiða tiltekið vitni í landamerkjamáli milli þeirra. Féllst héraðsdómur á framangreindar kröfur eftir upphaf aðalmeðferðar málsins. Talið var að um heimildir til kæru færi eftir 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Þar væri ekki að finna heimild til kæru í þessu tilviki. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. október 2009, þar sem varnaraðilum var heimilað að leiða Elínu Erlingsdóttur fyrir dóm til að gefa vitnaskýrslu við aðalmeðferð máls sóknaraðila á hendur þeim. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðilum verði meinað að leiða vitni þetta fyrir dóm. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.
Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var mál þetta tekið fyrir á dómþingi 18. júní 2009 og því frestað til aðalmeðferðar 8. október sama ár. Síðargreindan dag var málið tekið fyrir og í byrjun gengið á vettvang, en að því loknu kröfðust varnaraðilar þess að þeim yrði heimilað að leiða áðurnefnda Elínu fyrir dóm sem vitni. Gegn andmælum sóknaraðila féllst héraðsdómur á þessa kröfu varnaraðila.
Að virtum bókunum í þingbók, sbr. og síðari málslið 2. mgr. 103. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður að líta svo á að aðalmeðferð málsins hafi verið hafin þegar sá ágreiningur reis, sem leyst var úr með hinum kærða úrskurði, og fer því um heimildir til að kæra hann eftir 2. mgr. 143. gr. sömu laga. Þar er ekki að finna heimild til kæru í þessu tilviki og ber því að vísa málinu frá Hæstarétti.
Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðilar, Hannes Ólafsson og Kristín Ragnheiður Alfreðsdóttir, greiði í sameiningu varnaraðilum, Helga Benediktssyni og Jóni Gunnari Benediktssyni, hvorum fyrir sig 75.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. október 2009.
Má þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag um ágreining aðila um skýrslugjöf vitnis fyrir dómi, er höfðað með stefnu birtri 3. febrúar sl.
Stefnendur eru Hannes Ólafsson, kt. 231253-3519 og Kristín R. Alfreðsdóttir, kt. 060560-5529, bæði til heimilis að Austvaðsholti 2, Rangárþingi ytra.
Stefndu eru Helgi Benediktsson, kt. 011248-3819, Austvaðsholti 1c, Rangárþingi ytra og Jón Gunnar Benediktsson, kt. 140652-2379, Austvaðsholti 1b, Rangárþingi ytra.
Dómkröfur stefnenda eru þær að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Austvaðsholts I og Austvaðsholts II séu svofelld:
Frá upphafspunkti í Selsgili (A436906.968-N380276.027) þaðan í punkt á vesturbakka Krókakeldu við Selsgil (A436898.822-N380265.696) þá suðvestur að punkti við hinar gömlu traðir milli túnanna (A436158.626-N379326.954) þaðan að punkti við Austvaðsholtstjörn (A436134.888-N379181.594). Frá punkti suðaustan við Austvaðsholtstjörn (A436217.204-N379048.874), þaðan línu í stefnu á Stórhól í punkt (A436838.366-N378688.831), sem er 360 metrum vestur af Stórhól. Frá þeim stað að punkti (A438936.263-N378976.271) við bakka Ytri-Rangár sem er miðja þess lands sem Austvaðsholtsjarðirnar eiga að Ytri-Rangá. Þaðan er farið í punkt út í miðjum farvegi Ytri-Rangár (A439047.758-N378991.549). Þá verði dæmt að Austvaðsholtstjörn sé í óskiptri sameign eigenda Austvaðsholts I og Austvaðsholts II þannig að jafnstór eignarhluti fylgi hvorri jörð. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnenda og málskostnaðar úr hendi þeirra.
Aðila greinir á um túlkun landskiptagerðar sem fram fór 17. maí 1944 í Austvaðsholti, Rangárþingi ytra. Aðalmeðferð málsins hófst 8. október sl. með vettvangsgöngu og að henni lokinni voru fyrirhugaðar skýrslutökur og málflutningur. Af hálfu stefndu var óskað eftir því að Elín Erlingsdóttir landfræðingur gæfi skýrslu fyrir dóminum. Af hálfu stefnenda var því mótmælt enda töldu þau ljóst að hún gæti ekkert borið um atvik málsins og teldist því vera sérfræðivitni. Af hálfu stefndu var á því byggt að vitnið hefði komið að sáttaumleitunum aðila og hefði hún látið í té álit sitt á landamerkjum, fyrst fyrir stefnendur, síðar fyrir stefndu. Þá hafi vitnið aðstoðað við sáttaumleitanir milli aðila og hafi gert reikning fyrir þá vinnu. Muni vitnið verða beðið um að skýra frá því sem þar fór fram. Af hálfu stefnenda var því mótmælt að vitnið hafi komið að sáttaumleitunum og gæti hún ekki borið um atvik máls.
Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 er hverjum manni, sem orðinn er 15 ára, lýtur íslenskri lögsögu og er ekki aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila, skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Stefndu halda því fram að Elín Erlingsdóttir geti borið um málsatvik þar sem hún hafi komið að sáttaumleitunum aðila en af hálfu stefnenda er því mótmælt að svo hafi verið. Því er ekki haldið fram af hálfu stefndu að vitnið verði leitt sökum sérfræðiþekkingar sinnar, heldur verði beint spurningum til þess um málsatvik. Kemur því ekki í ljós fyrr en við skýrslugjöf vitnisins hver aðkoma þess að málinu var. Með vísan til framanritaðs og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 ber að heimila stefndu að leiða vitnið Elínu Erlingsdóttur fyrir dóm.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Stefndu er heimilt að leiða Elínu Erlingsdóttur landfræðing fyrir dóm til þess að gefa skýrslu í máli nr. E-156/2009.