Hæstiréttur íslands
Mál nr. 704/2014
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 5. nóvember 2015. |
|
Nr. 704/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Benedikt Kristmannssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Líkamsárás. Skilorð.
B var sakfelldur í héraði fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa slegið A nokkrum hnefahöggum í andlitið svo hann féll á gólfið með þeim afleiðingum að hann hlaut opið sár á vör og fjórar tennur losnuðu. Féllst Hæstiréttur ekki á með B að nokkuð væri fram komið um að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi væri rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þannig að ástæða væri til ómerkja hinn áfrýjaða dóm og og vísa málinu heim í hérað. Var hinn áfrýjaði dómur því staðfestur. Var refsing B ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga. Þá var honum gert að greiða A samtals 226.366 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. október 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþolinn A hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og verður því litið svo á að hann krefjist þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest, sbr. 1. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Í máli þessu er ákærða gefin að sök líkamsárás á veitingastaðnum [...] 1. október 2013, en þar var haldið ball á vegum Menntaskólans í [...]. Ákærði neitar sök, en ágreiningslaust er að ákærði var á dansleiknum, klæddur blárri Hawaii skyrtu.
Brotaþoli bar fyrir dómi að hann hefði ekki séð árásarmanninn, en ,,strákarnir sem voru í kring gátu ... allir sagt fötin á honum“. Spurður um hvernig hann hefði fengið vissu um hver árásarmaðurinn hefði verið sagði hann að ,,félagar mínir voru búnir að lýsa fyrir mér fötunum og að hann var lágvaxinn“. Hann hafi rætt um atvikið við félaga sína sem voru með honum á dansleiknum og fundið mynd af þeim, sem hann taldi árásarmanninn, á Facebook síðu nemendafélags skólans og sýnt þeim hana. Um var að ræða mynd, sem tekin var á dansleiknum af ákærða, klæddan ljósblárri Hawaii skyrtu. Hann teldi þó ekki að hann hefði sýnt félaga sínum, F myndina. Þeir sem verið hafi með honum umrætt sinn hafi verið félagar hans E og D, en F hefði einnig séð árásina. Jafnframt sagði hann að þegar árásin átti sér stað hafi hann verið að ræða við G, en síðastgreint vitni bar fyrir dómi að hann væri kunningi þeirra beggja, ákærða og brotaþola. Jafnframt bar það vitni að ákærði hafi staðið við hlið sér þegar brotaþoli kom í þeim tilgangi að sætta vitnið og félaga brotaþola, D, en þeir hafi verið að rífast. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar brotaþoli var sleginn, en kvaðst hafa gengið í burtu frá D eftir að brotaþoli reyndi að fá þá til að sættast. Vitnið kvað ákærða ekki hafa gengið með sér í burtu og kvaðst ekki vita hvort ákærði hefði staðið þarna áfram.
Vitnið, E, bar fyrir dómi að er brotaþoli var að ræða við einhvern strák hafi árásarmaðurinn, sem klæddur var í Hawaii skyrtu með litlum bátum á, slegið brotaþola þrjú högg í andlitið. Hann kvaðst ekki þekkja gerandann neitt en ,,eina ástæðan af hverju við þekktum hann var ... við þekktum skyrtuna hans.“ Spurður um hvernig það hafi komið til að hann sá myndina af ákærða kvað hann að þeir félagarnir, F og D hafi farið að skoða myndir sem birtust frá ballinu vegna þess að þeir hafi munað eftir skyrtunni sem árásarmaðurinn var í. Þegar borinn var undir vitnið framburður brotaþola um að hann hefði fundið myndina og borið hana undir félaga sína, kvaðst vitnið geta hafa ruglast og tók fram ,,já það var líklega A“ og að hann hefði sent þeim myndina.
Vitnið, D, sagði strák í skyrtu ,,með svona litlum bátum á, Hawaii bát“ hafa kýlt brotaþola, er þeir vinirnir hafi verið að ræða við G. F hafi þá komið þar að og ýtt ákærða af brotaþola, sem þá hafði fallið í gólfið. Það sem hefði einkennt árásarmanninn hafi verið að hann hefði verið ,,í þessari skyrtu“. Þá sagðist hann hafa þekkt árásarmanninn um leið og brotaþoli sýndi honum fyrrgreinda mynd af ætluðum árásarmanni, en það hefði verið brotaþoli sem fann myndina á netinu.
Vitnið, F, sem kvaðst ekki hafa verið undir áhrifum áfengis á dansleiknum, bar fyrir dómi að hann hefði staðið á dansgólfi staðarins og séð brotaþola ræða þar við G. Vinur G hefði tekið því illa og kýlt brotaþola nokkur högg í andlitið. Frændi sinn, E, hefði einnig verið þarna staddur. Vitnið kvaðst hafa tekið utan um ákærða og reynt að draga hann í burtu, en ákærði hefði hent sér í gólfið. Spurður um hvort einhver annar hefði getað staðið að árásinni á brotaþola kvaðst hann aðeins hafa séð ákærða kýla brotaþola. Þar sem vitnið hafi verið í skemmtinefnd kvaðst hann hafa látið forvarnarfulltrúa sem var á ballinu vita og sagt henni að strákurinn sem hefði ráðist að brotaþola væri enn á ballinu. Hann hafi gefið forvarnarfulltrúanum þá lýsingu á árásarmanninum að hann væri í ljósblárri Hawaii skyrtu. Hann hafi ekki vitað hver árásarmaðurinn var og ekki fengið um það vitneskju fyrr en hann fór í skýrslutöku til lögreglu. Hann kvaðst hvorki hafa séð myndir af ætluðum árásarmanni hjá lögreglu né brotaþola, en flett honum upp á netinu eftir skýrslutöku hjá lögreglu.
II
Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að mynd af ákærða frá umræddum dansleik var fundin eftir lýsingu þeirra, sem voru vitni að árás á brotaþola, á klæðnaði ákærða og útliti. Eins og að framan er rakið bar eina vitnið sem kvaðst vera kunningi þeirra beggja, ákærða og brotaþola, G, að ákærði hefði staðið við hlið sér er vitnið var að ræða við félaga brotaþola, D, og hefði brotaþoli einnig verið þar, en eins og að framan er rakið kvað vitnið, G, að brotaþoli hafi þá verið að reyna að stilla til friðar milli þeirra D.
Í ljósi alls framangreinds er ekki fallist á að nokkuð sé fram komið um að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi sé rangt svo einhverju skipti um úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, þannig að ástæða sé til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað. Hinn áfrýjaði dómur verður því staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Benedikt Kristmannsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 514.371 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. október 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. september 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 20. maí 2014, á hendur Benedikt Kristmannssyni, kt. [...], Ásbraut 7, Kópavogi, fyrir líkamsárás, með því að hafa að kvöldi þriðjudagsins 1. október 2013, á skemmtistaðnum [...] slegið A nokkrum hnefahöggum í andlitið svo hann féll í gólfið, með þeim afleiðingum hann hlaut opið sár á vör og fjórar tennur losnuðu.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Þá gerir Pétur F. Gíslason, hdl., f.h. B, kt. [...], móður A, kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa 476.366 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2013, til þess dags er mánuður er liðinn frá því bótakrafan er birt kærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. mgr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.
Í þinghaldi þann 27. ágúst kom fram að bótakrefjandi væri nú orðinn lögráða og tæki því við aðild málsins frá móður sinni.
Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði. Gerð er sú krafa að málsvarnarlaun miðist við gjaldskrá lögmannstofu verjanda enda hafi innanríkisráðuneytið fellt úr gildi viðmiðunartaxta til verjenda í sakamálum. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá er krafist frávísunar bótakröfu á grundvelli sýknu málsins, en til vara verulegrar lækkunar bóta og að vaxtakröfu verði hafnað.
I
Um málavexti segir í frumskýrslu lögreglu að A brotaþoli þessa máls hafi mætt á lögreglustöð ásamt föður hans í því skyni að tilkynna um líkamsárás sem hann hefði orðið fyrir á skemmtistaðnum [...] en þar fór þá fram „[...]ball“ Menntaskólans í [...]. Brotaþoli bar að hann hafi verið á dansgólfi staðarins að ræða við strák þegar á hann hafi verið ráðist og hann kýldur þrjú högg í andlitið. Hafi hann ekki séð árásarmanninn og þekkti hann ekki neitt. Hafi hann farið á slysadeild og þá komið í ljós að fjórar tennur voru lausar auk þess sem það hafi þurft að sauma tvö spor í neðri vör.
II
Hér verða eftir þörfum raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dómi og lögreglu.
Fyrir dómi neitaði ákærði sök og bar að hann hafi ekki kýlt brotaþola. Hann hafi verið á ballinu og séð þegar félagi hans C hafi lent í einhverjum „ýtingum“ á dansgólfinu við aðila sem hann þekkti ekki. Hafi hann farið að félaga sínum og tekið hann í burtu. Meira hafði hann ekki um málið að segja en aðspurður hafi drukkið einn til tvo bjóra þetta kvöld.
Vitnið A, brotaþoli í máli þessu bar fyrir dómi að hafa verið inni á [...] þetta kvöld. Þetta hafi verið þemaball og allir klæddir í „[...] klæðnað“. Hafi hann verið þar með nokkrum vinum sínum, D, E og F. D hafi áður átt í einhverjum útistöðum við dreng að nafni G og hafi brotaþoli ætlað að ræða við hann. Upp úr þurru hafi verið ráðist á hann. Hann hafi ekki séð árásarmanninn, en hafi dottið út við fyrsta eða annað högg. Þegar þetta hafi gerst hafi hann verið að ræða við G og hafi hann snúið að honum. Taldi brotaþoli að allir þeir sem hafi verið þar staddir hafi séð klæðnað ákærða. Þannig hafi F vinur hans tekið ákærða ofan af honum. Sjálfur kvaðst brotaþoli hafa verið undir áhrifum áfengis en ekki miklum.
Um áverka hans kom það fram að upphaflega hafi fjórar tennur verið lausar en þrjár þeirra hafi náð taki en ein tönn sé „dauð“. Brotaþoli kvaðst hafa farið til lögreglu 10 dögum eftir umrædda atburði. Ástæðan hafi verið sú að hann hafi í fyrstu ekki haft vissu um hver hafi kýlt hann og ekki verið ákveðinn hvort hann ætlaði að kæra eða ekki. Sjálfur hafi hann farið í gegnum allar myndir af ballinu á „Facebook“ nemendafélags [...] og hafi ákærði verið sá eini sem hafi verið í fötum sem pössuðu við lýsingar vina hans og lýsingar af meintum árásarmanni sem mun hafi verið lágvaxinn og þykkur. Aðspurður sagðist hann hafi sýnt vinum sínum myndina hálfum mánuði eftir að hann fór í skýrslutöku hjá lögreglu en þó hugsanlega áður en hann fór í skýrslutöku að undanskildum F sem væri ekki í sama skóla og þeir. Spurður sagðist hann ekki geta fullyrt að það væri ómögulegt að lýsingin passaði við aðra sem hafi verið á ballinu.
Vitnið F bar fyrir dómi að hafa verið á dansgólfinu og hafi hann þá séð brotaþola vera að tala við G sem hafi staðið beint á móti brotaþola. Ákærði hafi verið við hliðina á þeim og frændi hans E fyrir aftan brotaþola. Vinur G hafi tekið þessu illa og byrjað að kýla brotaþola nokkur högg í andlitið. Höggin hafi verið tvö til fjögur. Sjálfur hafi hann þá tekið utan um þann sem var að kýla og ætlað að færa hann í burtu. Honum hafi þá verið hent í gólfið. Hann hafi reynt að segja forvarnarfulltrúa skólans frá þessu. Spurður hver hafi kýlt brotaþola bar vitnið að það hafi verið ákærði þessa máls. Þegar hann var spurður hvort hann gæti lýst ákærða, lýsti vitnið honum sem lágvöxnum og þykkum í ljósblárri „Hawaii“ skyrtu með mynstri á. Spurður hvort ákærði hafi verið undir áhrifum taldi vitnið að svo hefði verið en hann gæti ekki sagt til um það. Sjálfur hafi hann ekki verið að drekka. Spurður hvort hann hafi þekkt ákærða á þessum tíma hvað vitnið svo ekki vera en hann þekkti vini ákærða og hafi hann verið með G í grunnskóla í 10 ár. Upplýsingar um ákærða hafi hann fengið þegar hann hafi farið í skýrslutöku hjá lögreglu. Hann hafi sjálfur skoðað myndir af ákærða á „Facebook“ eftir skýrslutöku hjá lögreglu. Lögreglan hafi ekki sýnt honum mynd af ákærða og heldur ekki brotaþoli.
Vitnið D bar fyrir dómi að hann hafi ætlað að tala við strák að nafni G. Allt í einu komi strákur í skyrtu sem á hafi verið litlir bátar „Hawaii bátum eða einhvernvegin“ og byrji að kýla brotaþola. Hafi hann staðið við hliðina á þeim og séð þetta 100%. Hafi ákærði verið lágvaxinn eða um 170 cm, verið þykkur með stórar hendur. Ákærði hafi kýlt brotaþola þrisvar sinnum þungum höggum og hafi brotaþoli legið í gólfinu. Þeir hafi reynt að stoppa ákærða en hann hafi horfið og þeir ekki fundið hann þrátt fyrir leit allt kvöldið. Vitnið taldi að ákærði hafi verið undir miklum áhrifum þegar þetta átti sér stað. Sjálfur hafi hann lítið drukkið en þó eitthvað til þess að þurfa ekki að vera á bíl þetta kvöld. Spurður um það, hverjir gætu hugsanlega hafa séð það sem fram fór, taldi hann að G hafi séð það sem fram fór en hafi ekki gert neitt. Spurður hvort hann hafi vitað einhver deili á árásarmanninum þegar atburðir áttu sér stað sagði vitnið svo ekki vera. Spurður hvenær hann hafi fengið upplýsingar um hver árásarmaðurinn væri taldi vitnið að það hafi verið um það bil viku eftir atburðinn, eftir að „þeir“ hafi skoðað myndir á „Facebook“ frá ballinu. Brotaþoli hafi sjálfur fundið hann þar en „þeir“ hafi allir þekkt hann um leið. Fram kom að brotaþoli hafi einnig borið myndina undir E og F. Honum hafi hins vegar ekki verið sýnd mynd af ákærða hjá lögreglu.
Vitnið E bar fyrir dómi að ákveðið hafi verið að leita að einhverjum strák til þess að tala við. Hafi þeir fundið hann. Upp úr þurru hafi ákærði slegið brotaþola þremur höggum og hann fallið í gólfið. Ákærði hafi síðan látið sig hverfa. Hafi „þeir“ reynt að finna hann allt kvöldið en ekki tekist. Spurður um staðsetningu kvaðst hann hafa staðið hægra megin við brotaþola þegar þetta gerðist. Spurður um hvort hann gæti lýst gerandanum kvaðst hann ekki þekkja hann neitt. Hann hafi hins vegar verið nokkuð þykkur, lágvaxinn, dökkhærður. Hann hafi séð framan í gerandann en þar sem langt sé síðan þetta gerðist, muni ekki frekar hvernig hann leit út. Spurður hvernig hann hafi vitað að gerandinn væri ákærði þessa máls kvaðst vitnið hafa séð myndir frá ballinu á „Facebook“. Fram kom að þeir sem hafi fundið myndina hafi verið hann, F og D. Það sem hafi tengt myndina við gerandann var skyrta gerandans. Aðspurður taldi hann hugsanlegt að það hafi verið brotaþoli sem hafi fundið myndina en hann hafi séð skyrtu gerandans á ballinu og hafi hún augljóslega verið „Hawaii“ skyrta með fullt af litlum bátum á.
Vitnið C bar fyrir dómi að hafa verið á dansgólfinu með félaga sínu ákærða þessa máls. Einhver „ýtingur“ hafi byrjað. Honum sé ýtt og hann: „Fái svona í sig“. Ákærði komi þá aftan að honum og taki hann í burtu og fari þeir út fyrir dansgólfið. Í framhaldi af því hafi þeir haldið áfram að dansa. Hann hafi ekki séð aðra og ekki séð nein högg. Hann hafi ekki séð ákærða lenda í átökum á ballinu eða kýla neinn. Þá hafi hann ekki frétt neitt af þessu enda ekki í skólanum. Aðspurður um klæðnað ákærða sagði vitnið að hann hafi verið í skyrtunni sinni, „Hawaii“ skyrtu, blárri. Taldi ákærði aðspurður að 350 manns hafi verið á ballinu.
Vitnið G bar fyrir dómi að hafa verið að rífast við félaga brotaþola, hann D. Brotaþoli hafi reynt að sætta þá og hann þá gengið burt. Hann hafi séð einhvern „ýting“ en engin átök. Hann hafi því ekki séð þegar brotaþoli hafi verið kýldur. Þegar hann hitti brotaþola næst hafi það verið í „dauðaherberginu“ og þá frétt af þessu. Spurður að því hvort ákærði hafi verið á dansgólfinu þegar umræddir atburðir gerðust hvað vitnið að hann hafi verið að ganga með ákærða og ákærði hafi verið hliðina á honum þegar átök hafi átt sér stað á milli hans og D, hann hafi hins vegar ekki séð ákærða kýla neinn eða séð neina áverka á ákærða.
Málsaðilar voru sammála því að ekki væri þörf á skýrslutökum af lækni á Slysa- og bráðasviði LSH né af tannlækni brotaþola, enda væri enginn ágreiningur um afleiðingar.
III
Niðurstaða: Sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 109. gr. sömu laga.
Ákærði neitaði sök. Kvaðst hann hafa verið á umræddu balli þegar brotaþoli var kýldur en hann hafi hins vegar ekki kýlt brotaþola. Fram kom skýrslutökum að ákærði hafi verið með G þegar G hafi lent í einhverjum „ýtingum“. G ber á sama hátt að ákærði hafi verið með honum og staðið við hlið hans þegar hann hafi verið að rífast við D og ákærði hafi þá reynt að ganga á milli þeirra. D bar að hann hafi verið að tala við G og á sama hátt bera brotaþoli og F sem bar jafnframt að ákærði hafi staðið við hlið G og brotaþola. E kvaðst síðan hafa staðið hægra megin við brotaþola og ætla má að C hafi einnig verið á staðnum. Ekki verður fullyrt hvort einhver „ýtingur“ hafi átt sér stað milli aðila eða hvort þeir voru bara að ræða saman. Sannað þykir að saman á dansgólfinu voru samkvæmt þessu, ákærði þessa máls, G, D, F, E, C og brotaþoli og að einhver samskipti áttu sér stað á milli þeirra. Ákærði bar sjálfur að þarna hafi byrjað einhver „ýtingur“ og hafi hann gripið í C og tekið hann með sér af dansgólfinu. C ber á sama hátt að einhver „ýtingur“ hafi byrjað og ákærði tekið hann út af dansgólfinu. Ekki kom fram í málinu hvers vegna ákærði dró C út af dansgólfinu.
Meðan á framangreindum samskiptum stóð mun brotaþoli hafa verið kýldur þrjú högg í andlitið. Brotaþoli sá ekki sjálfur hver það gerði og sömuleiðis ekki G eða C. Fram kom að F, D og E hafi orðið vitni að árásinni. F bar að hafa séð þegar ákærði sló brotaþola. Hafi hann tekið utan um ákærða og fært hann ofan af brotaþola. Hann lýsti ákærða sem lágvöxnum og þykkum í ljósblárri „Hawaii“ skyrtu með mynstri á. D sagði að strákur í skyrtu sem á hafi verið litlir bátar „Hawaii bátum eða einhvernvegin“ hafi byrjað að kýla brotaþola. Hafi hann staðið við hliðina á þeim og séð þetta 100%. Hafi ákærði verið lágvaxinn eða um 170 cm, verið þykkur með stórar hendur. E kvaðst hafa séð ákærða slá brotaþola „upp úr þurru“. Lýsti hann ákærða sem þykkum, lágvöxnum og dökkhærðum. Hann hafi séð framan í gerandann en þar sem langt sé síðan þetta gerðist geti hann ekki lýst andliti hans en hann hafi séð skyrtu gerandans á ballinu og hafi hún augljóslega verið „Hawaii“ skyrta með fullt af litlum bátum á.
Framangreind vitni vissu ekki á verknaðarstundu frekari deili á árásarmanninum en gátu eftir að þeir sáu myndir frá umræddu balli borið kennsl á hann. Ákærði bar sjálfur hjá lögreglu þegar myndin var borin undir hann að myndin væri af honum og hann væri sá sem væri í bláu skyrtunni á myndinni. Vitni að árásinni voru öll mjög trúverðug í frásögn sinni fyrir dómi og báru að hafa séð árásarmanninn kýla brotaþola og gáfu nokkuð góða lýsingu á honum og sérstaklega klæðnaði hans. Ber lýsingum þeirra vel saman og stenst í meginatriðum við framburði þeirra hjá lögreglu. Ákærði hefur borið að hafa verið á staðnum og sannað er að hann hafi verið á dansgólfinu, við hlið eða á móti brotaþola þegar einhver samskipti munu hafa byrjað milli G og D. Ekki voru bornar brigður á lýsingar vitna á ákærða eða klæðnaði hans og ekki hefur verið leitt í ljós að einhver annar hafi verið í þessum hópi sem lýsingar vitna gætu hugsanlega átt við.
Það er mat dómsins að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa, að atburðir hafi verið með þeim hætti að ákærði hafi slegið brotaþola hnefahöggi í andlitið, að tilefnislausu að því er virðist. Með vísan til þessa telur dómurinn lögfulla sönnun hafa verið færða fram um að það hafi verið ákærði sem braut gegn brotaþola umrætt sinn. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi og verður honum gerð refsing fyrir. Er háttsemin réttilega heimfærð til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga
IV
Ákærði er fæddur í október 1993. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum aldrei verið gerð refsing áður. Á það verður að líta að mikil hætta er því samfara að slá í andlit brotaþola og það ítrekað. Þá hefur ekki annað verið leitt í ljós en að árásin hafi verið tilefnislaus með öllu.
Þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga sem verður bundin skilorði svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði hafnaði bótakröfu. Réttargæslumaður brotaþola gerði grein fyrir bótakröfunni á þann hátt að hún skiptist í miska og skaðabætur. Miskabótakrafan væri að fjárhæð 400.000. Fjórar tennur hafi losnað í brotaþola og hafi komist drep í eina þeirra og óvíst um hverjar yrði afleiðinga þess þegar fram líði stundir. Þá var krafist skaðabóta kr. 26.366 í samræmi við framlagða reikninga. Af gögnum málsins má sjá að krafan var fyrst birt fyrir ákærða þann 12. desember 2013 og miðast upphaf dráttarvaxta við mánuð eftir þann dag.
Með vísan til 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþola miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 200.000 og skaðabætur að fjárhæð 26.366 krónur, auk vaxta sem í dómsorði greinir.
V
Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakakostnað fyrir þau brot sem hann er sakfelldur fyrir, sem er samkvæmt yfirliti 28.000 krónur. Ákærði skal greiða þóknun skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, hrl., 228.410 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar getur um í dómsorði auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Péturs Gíslasonar héraðsdómslögmanns að fjárhæð 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Dóm þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari
D ó m s o r ð:
Ákærði, Benedikt Kristmannsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði, A miskabætur að fjárhæð 200.000 krónur og skaðabætur að fjárhæð 26.366 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. október 2013 til 12. janúar 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 228.410 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Péturs Gíslasonar hdl. 150.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 28.000 krónur í annan sakarkostnað.