Hæstiréttur íslands

Mál nr. 540/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kjartan Ólafsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Hólmgeir Elías Flosason hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. september 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hún verði vistuð á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Engin gögn liggja fyrir í málinu um geðheilbrigði varnaraðila. Eru því ekki efni til að fallast á varakröfu hennar um vistun á viðeigandi stofnun meðan á gæsluvarðhaldi stendur, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti ber að veita henni fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í varðhaldsvistinni. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.         

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2017.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. september 2017 kl. 16:00.

                Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að lögreglan rannsaki nú meinta tilraun til ráns og stórfellda líkamsárás að [...] í Reykjavík en tilkynning hafi borist í gær um að kona væri í annarlegu ástandi að ráðast að fólki vopnuð hnífi.

                Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærðu verið haldið niðri af tveimur aðilum og hafði annar þeirra afvopnað hana og tekið af henni hníf. Á vettvangi hafi einnig verið meintur brotaþoli og hafi hún sjáanlega verið í losti. Kvað hún kærðu hafa gengið upp að sér og sagt henni að afhenda sér símann sinn. Er hún hafi ekki orðið við því hafi kærða dregið upp hníf og ítrekað ósk sína. Er hún hafi neitað henni um símann í þriðja skipti hafi kærða orðið reið og hafi veist að henni og skorið hana í hægri kinn með hnífnum auk þess að toga í hárið á henni. Eitt vitni á vettvangi hafi borið um að hafa séð kærðu ógna brotaþola með hnífnum.

                Kærða hafi hlotið tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir líkamsárás þann 2. maí 2016 í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. S-[...]/2016. Vafalaust sé að kærða muni hljóta óskilorðsbundna refsingu fái hún dóm fyrir þau mál sem nú séu til rannsóknar, en fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærða hafi gert tilraun til ráns vopnuð hnífi sem og framið stórfellda líkamsárás með sama vopni, og þar með rofið í verulegum atriðum skilyrði sem henni höfðu verið sett í skilorðsbundnum dómi, í skilningi c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, c-liðar 1. mgr. 95. gr. og b- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Kærða krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að hún sæti gæsluvarðhaldi á viðeigandi stofnun og til þrautavara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Niðurstaða:

                Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður sakborningur því aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Auk þess verða að vera fyrir hendi eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru upp í fjórum stafliðum. Meðal þeirra skilyrða er að rökstuddur grunur leiki á að sakborningur hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi, sbr. c-lið ákvæðisins.

                Kærða var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2016 sakfelld fyrir líkamsárás, sbr. 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og gert að sæta 60 daga fangelsi sem bundið var skilorði til tveggja ára. Hún var handtekin í gær, eins og að framan greinir, vegna ætlaðra brota gegn 2. mgr. 218. gr. og 252. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga. Fallist er á með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærða hafi með háttsemi sinni rofið í verulegum atriðum skilyrði sem henni voru sett í hinum skilorðsbundna dómi. Er því fullnægt skilyrðum síðari hluta c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, enda er ekki sýnt að brot þau sem hún er sökuð um muni aðeins hafa í för með sér sekt eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki er sýnt fram á að önnur úrræði komi til greina. Verður krafa lögreglustjórans því tekin til greina eins og hún er fram sett.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Kærða, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 22. september 2017 kl. 16:00.