Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2008


Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Miskabætur
  • Ómerking ummæla


                                     

Fimmtudaginn 11. desember 2008.

Nr. 34/2008.

365 miðlar ehf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Magnúsi Ragnarssyni

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Ærumeiðingar. Miskabætur. Ómerking ummæla.

M höfðaði mál á hendur 365 miðlum ehf. til greiðslu miskabóta og ómerkingar á fjórum ummælum sem birtust í dagblöðum félagsins, DV og Fréttablaðinu. Ummælin í DV lutu að hjúskaparslitum M en síðari tvö ummælin er birtust í Fréttablaðinu voru fyrirsagnirnar „Maggi glæpur“ og „Geðþekkur geðsjúklingur“ og var mynd af M hliðina á síðastgreindri fyrirsögninni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að einkalíf manna, heimili og fjölskylda nytu friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar en í frásögn af hjúskaparslitum einum og sér fælist þó ekki brot á þeirri friðhelgi. Að öðru leyti var fallist á með héraðsdómi að í ummælunum hefði falist ærumeiðandi móðganir sem vörðuðu við 234. gr. almennra hegningarlaga og ærumeiðandi aðdróttanir sem vörðuðu við 235. gr. sömu laga. Niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummælanna og bótaábyrgð 365 ehf. var staðfest og fjárhæð miskabóta talin hæfilega ákveðin 600.000 krónur. Þá var 365 hf. gert að standa straum að birtingu dómsins miðað við tvær birtingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. janúar 2008. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjanda til ómerkingar á eftirfarandi ummælum: 1. „Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra Magnúsar Ragnarssonar og ...“. 2. ... „gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu.” 3. „Maggi glæpur”. 4. „Geðþekkur geðsjúklingur“. Tvö fyrstnefndu ummælin birtust í DV föstudaginn 29. september 2006, þau þriðju í Fréttablaðinu 26. janúar 2007 og hin fjórðu í sama blaði 10. febrúar sama ár:

Einkalíf manna, heimili og fjölskylda nýtur friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í frásögn af hjúskaparslitum einum og sér felst þó ekki brot á þeirri friðhelgi. Í orðunum sem um er getið í 1. og 2. kröfulið felast hins vegar ærumeiðandi móðganir sem varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þegar þau eru lesin í samhengi við meginmál fréttarinnar þykja þau einnig fela í sér ærumeiðandi aðdróttanir sem varða við 235. gr. laganna. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans um ómerkingu framangreindra ummæla og bótaábyrgð áfrýjanda staðfest. Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem vísað er til í héraðsdómi og fordæma Hæstaréttar er fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 600.000 krónur. Þá er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjanda verði gert að standa straum af birtingu dómsins með þeim hætti sem þar er getið, þó þannig að rétt þykir að miða við tvær birtingar. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 240.000 krónur til að standa straum af þeim.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um ómerkingu ummæla skal vera óraskað.

Áfrýjandi, 365 miðlar ehf., greiði stefnda, Magnúsi Ragnarssyni, 840.000 krónur, þar af 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. júní 2007 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

                                       Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. desember sl., er höfðað með stefnu birtri 1. júní 2007.

Stefnandi er Magnús Ragnarsson, Álfalandi 2, Reykjavík.

Stefndu eru 365 miðlar ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að eftirfarandi ummæli verði ómerkt með dómi:

1.                    Ummæli í yfirfyrirsögn fréttar á bls. 4 í dagblaðinu DV föstudaginn 29. september 2006: ,,Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra Magnúsar Ragnarssonar og...“

2.                    Ummæli í meginmáli fréttar á bls. 4 í dagblaðinu DV föstudaginn 29. september 2006: ,, ...gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu.“

3.                    Ummæli í meginmáli dálks á bls. 102 (sic) í Fréttablaðinu föstudaginn 26. janúar 2007: ,,Maggi glæpur.“

4.                    Ummæli í fyrirsögn á bls 56 í Fréttablaðinu laugardaginn 10. febrúar 2007: ,,Geðþekkur geðsjúklingur.“

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla, sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi máls þessa til greiðsludags og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn þegar ár er liðið frá þingfestingardegi.

Einnig er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda 480.000 krónur til að standa straum af birtingu dómsins og forsendna hans í dagblöðum.

Að lokum krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mati dómsins eða málskostnaðaryfirliti.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda, eins og þær eru fram settar í tl. nr. 1-4 í stefnu, en til vara sýknu að hluta.

Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins. 

Málsatvik.

Stefnandi var framkvæmdastjóri fjölmiðlafyrirtækisins Skjárinn Miðlar ehf., sem rekur sjónvarps- og útvarpsstöðvar á íslenskum fjölmiðlamarkaði og hefur nýverið látið af því starfi. Í dagblaðinu DV  29. september 2006, birtist umfjöllun um stefnanda á síðu 4. Var fyrirsögn umfjöllunarinnar: ,,Skilnaðarfaraldur skekur Skjá Einn.“ Í umfjölluninni var greint frá hjúskaparmálefnum stefnanda og það sett í samhengi við það sem fram kom í fyrirsögninni. Birtust þar fyrstu tvenn ummælin um stefnanda sem krafist er ómerkingar á.

Þriðju ummælin, sem krafist er ómerkingar á, birtust í Fréttablaðinu 26. janúar 2007 á bls. 54. Í stefnu eru ummælin sögð hafa birst á bls. 102, en lögmaður stefnanda óskaði leiðréttingar á því og samþykkti lögmaður stefnda að sú leiðrétting kæmist að. Var þar vísað til stefnanda sem ,,Maggi glæpur “.

Fjórðu ummælin, sem krafist er ómerkingar á, birtust í Fréttablaðinu 10. febrúar 2007 á bls. 56, í svokölluðum fjölmiðlapistli. Hjá honum er mynd af stefnanda og fyrirsögnin: ,,Geðþekkur geðsjúklingur.“

Lögmaður stefnanda ritaði bréf til þáverandi ristjóra DV og þáverandi útgefanda DV, 26. október 2006, vegna tveggja fyrstu ummælanna. Í bréfinu setti lögmaður stefnanda fram þá skoðun sína að ofangreind umfjöllun hefði brotið gegn æru og réttindum stefnanda og var krafist bóta af þeim sökum. Með bréfi frá 6. nóvember 2006 var hafnað öllum kröfum stefnanda. Stefndu var aftur ritað bréf 29. mars 2007 og þá vegna fyrrgreindra ummæla auk ummælanna sem fram koma í tl. 3 og 4 í stefnu. Voru þar ítrekaðar gerðar kröfur í fyrra málinu og bent á ný og áframhaldandi meint brot gegn stefnanda, en stefndu höfnuðu öllum kröfum stefnanda með bréfi frá 20. apríl 2007.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur stefnandi sjálfur, vitnin Björn Þórir Sigurðsson, Jakob Bjarnar Grétarsson, Orri Hauksson og Pálmi Guðmundsson.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveður aðild málsins byggjast á því að í umræddu tölublaði DV sé tilgreindur útgefandi 365-prentmiðlar ehf. Í hlutafélagaskrá finnist ekki lengur neitt félag með því nafni og ef kennitala þess sé slegin inn, komi upp nafn 365-miðla ehf. Muni þetta vera vegna skipulagsbreytinga á fyrirtækjasamstæðunni sem stefndu tilheyri. Því sé 365-miðlum ehf. stefnt í máli þessu, enda sé ljóst að það félag hafi tekið við öllum réttindum og skyldum 365- prentmiðla ehf.

Á milli þess sem fyrri tvenn ærumeiðandi ummælin hafi birst og málshöfðunar þessarar, hafi stefndu selt blaðið DV. Kröfur í máli þessu beri hins vegar að hafa uppi á hendur þeim sem ábyrgð hafi borið á skrifum blaðsins þegar hin umstefndu ummæli hafi birst. Þar sem umfjöllunin hafi verið nafnlaus fari um ábyrgð á efni hennar eftir ákvæði 1. ml. 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.

Síðari tvenn ærumeiðandi ummælin hafi birst í Fréttablaðinu á árinu 2007. Nafngreining höfunda að þeim báðum sé ekki fullkomin í skilningi laga um prentrétt. Þar með sé hún ekki fullnægjandi til að höfundur skrifanna geti borið ábyrgð á þeim. Fari því einnig um ábyrgð á þeim eftir ákvæði 1. ml. 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt.

Samkvæmt ábyrgðarröð síðastnefnds ákvæðis beri útgefandi rits eða ritstjóri næstir refsi- og bótaábyrgð á skrifum, í rit á þeirra vegum ef nafngreining höfundar er ekki fullkomin. Í máli þessu beini stefnandi kröfum sínum að útgefanda þeirra blaða sem um ræði í samræmi við þetta ákvæði.

Stefnandi byggir á því að í þeim ummælum sem krafist er ómerkingar á og bóta fyrir, hafi falist ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda og að stefndu hafi þannig með saknæmum og ólögmætum hætti brotið gegn mikilvægum hagsmunum hans, sem m.a. njóti verndar stjórnarskrárinnar.

Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að með umfjöllun stefndu hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans, sem njóti m.a. verndar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í umfjölluninni á bls. 4 í DV föstudaginn 29. september 2006 sé greint frá viðkvæmum hjúskapar- og fjölskyldumálefnum stefnanda og þau borin á torg. Fjallað sé um samvistarslit hans og eiginkonu hans í smáatriðum. Einnig þurfi að hafa í huga í hvers konar samhengi upplýsingar um stefnanda séu fram settar. Hið tillitslausa, tilefnislausa og meiðandi samhengi sem áður hafi verið rakið, auki á alvarleika friðhelgisbrots stefndu gagnvart stefnanda.

Stefnandi hafi aldrei rætt hjúskaparmálefni sín við fjölmiðla og því ekkert tilefni gefið til slíkrar umfjöllunar. Það, hvort aðrir fjölmiðlar hafi í óþökk stefnanda fjallað um einkalíf hans, á sama hátt og stefndu í máli þessu, hafi enga þýðingu í þessu máli enda hafi stefnandi hvorki beint né óbeint samþykkt slíka umfjöllun um sig. Þá hafi umfjöllun um hjúskaparmálefni stefnanda engin tengsl við störf hans og skoðanir, ekkert fréttagildi eða annað erindi við almenning.

Stefnandi byggi í öðru lagi á því að ofangreind umfjöllun stefndu um einkalíf hans hafi brotið gegn æru hans og persónu. Stefnandi byggi á sakarreglunni, þar sem stefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni. Þá vísar stefnandi til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæða í XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs.

Stefnandi vísar að þessu leyti sérstaklega til þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á, en einnig til umfjöllunar stefndu almennt. Að ,,allt sé í tómu tjóni í einkalífi“ stefnanda og að honum gangi ,,illa að fóta sig í einkalífinu“ séu almennar, afráttarlausar og mjög meiðandi staðhæfingar um persónu og æru stefnanda. Sama sé að segja um nafngiftina ,,Maggi glæpur“ og að nota orðið ,,geðsjúklingur“ í beinu samhengi við persónu stefnanda. Með slíkum skeytingarlausum alhæfingum sé á grófan hátt brotið gegn æru og persónu stefnanda.

Ítrekað sé að hjónaband stefnanda og fjölskyldulíf séu hans einkamál, sem vernduð séu af ákvæðum stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs og því sé óheimilt að fjalla um þau með ofangreindum hætti. Óháð því, verði ofangreind ummæli um einkalíf stefnda með engum hætti byggð á slíkri umfjöllun. Í þeim felist alhæfingar sem gangi miklu lengra en tilefni sé til, hlutlægt séð. Þær eigi sér m.ö.o. enga stoð, hvorki í efni umfjöllunarinnar né annars staðar.

Bent sé á að samhengi umfjöllunarinnar, sem birtist m.a. skýrt í fyrirsögn hennar, um svokallaðan skilnaðarfaraldur, skipti einnig máli um þá ærumeiðingu sem af ofangreindum ummælum leiði fyrir stefnanda. Stefnandi sé þar spyrtur saman við samstarfsmenn sína og hjúskaparstaða og fjölskyldumálefni þeirra allra sett í fráleitt samhengi, líkt og um veikindi eða sjúkdóm sé að ræða.

Þá sé með orðalagi á sama stað gefið til kynna að stefnandi hafi verið harðbrjósta eða skeytingarlaus í garð eiginkonu sinnar og jafnvel barna. Ýjað sé að mikilli fjárhagslegri velgengni sjónvarpsstöðvarinnar sem stefnandi hafi rekið. Síðan sé sagt að hann hafi nýlega skilið við eiginkonu sína, sem hann ,,hafi verið lengi með og alið honum börn“ og að ekki sé vitað hvar hún og synir þeirra stefnanda ,,halli höfði sínu þessa dagana“, eftir að tekið hafi verið fram að hús þeirra hafi verið selt og stefnandi hafi flutt í miðbæinn. Þessi tónn umfjöllunarinnar fái ótvírætt staðfestingu af samanburði við ennþá skýrari ummæli af sama toga um annan samstarfsmann stefnanda, Orra Hauksson, síðar í nefndri umfjöllun.

Í þriðju ummælunum sem krafist hafi verið ómerkingar á, sé eins og áður segi, vísað til stefnanda, sem ,,Magga glæps“. Þessi óviðurkvæmilega og meiðandi nafngift hafi ekki verið rökstudd eða útskýrð á nokkurn hátt. Stefnandi leggi áherslu á og bendi sérstaklega á að hún hafi enn fremur verið sett fram sem hluti af umfjöllun um viðskiptaleg málefni stefnda og Skjásins, fyrirtækis sem stefnandi hafi veitt forstöðu.

Í fjórðu ummælunum sem krafist sé ómerkingar á, ,,geðþekkur geðsjúklingur“ hafi verið mynd af stefnanda við hlið ummælanna. Birting myndar af stefnanda við hlið fyrirsagnarinnar hafi ekki þjónað neinum réttmætum tilgangi og hafi ekki verið skýrð á neinn hátt. Með þessari framsetningu og í því samhengi sem mynd af stefnanda hafi birst, hafi enn verið brotið gegn æru stefnanda.

Við mat á friðhelgisbrotum og ærumeiðingum í garð stefnanda, samkvæmt öllu ofangreindu, telji stefnandi að hafa verði í huga að stefndu hafi ekki aðeins verið útgefandi prentmiðlanna DV og Fréttablaðsins, heldur hafi stefndu þá rekið og reki enn sjónvarpsstöðvar í samkeppni við sjónvarpsstöðvar Skjásins, fyritækisins sem stefnandi hafi veitt forstöðu.

Að mati stefnanda sé afar ámælisvert að dagblað í eigu fyrirtækis sem sé og hafi lengi átt í samkeppni við fyrirtæki sem stefnandi hafi veitt forstöðu, skuli setja fram jafn ábyrgðarlausa og meiðandi umfjöllun og raun hafi borið vitni um persónu stefnanda.

Slíkt sé beinlínis ólögmætt út frá samkeppnissjónarmiðum vegna nefndra aðstæðna, sbr. m. a. ákvæði laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gegnsæi markaðarins.

Að mati stefnanda leiði þessi staðreynd til þess að strangt mat beri að leggja á þau friðhelgisbrot og/eða ærumeiðingar sem falist hafi í umfjöllun DV og Fréttablaðsins umrædd skipti.

Stefndi geti ekki réttlætt brot sín gagnvart stefnanda með vísan til tjáningarfrelsis þar sem því séu settar skorður gagnvart réttindum og mannorði annarra samkvæmt berum orðum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig sé áskilið í 2. mgr. 73. gr. að hver maður sem kjósi að láta í ljós hugsanir sínar verði að ábyrgjast þær fyrir dómi.

Stefnandi gerir þá grein fyrir stefnufjárhæðum að upphæð fjárhæðar til að kosta birtingu dómsins sé miðuð við verðskrá Morgunblaðsins. Gert sé ráð fyrir að hæfileg auglýsing myndi kosta um 120.000 krónur, þ.e. miðað við auglýsingu á síðu 4 eða 6 um 60 dálksentimetrar. Gert sé ráð fyrir tveimur birtingum í Morgunblaðinu og tveimur í Fréttablaðinu og miðað við að verð auglýsinga sé sambærilegt í hvorum miðli.

Upphæð kröfu um miskabætur taki mið af því að stefndu su stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, rekið í hagnaðarskyni og skráð opinberri skráningu. Lögð sé sérstök áhersla á það að hin margvíslegu og ítrekuðu brot stefndu gegn hagsmunum stefnanda hafi verið liður í atvinnurekstri stefndu og beinlínis sett fram sem ,,vara“ eða ,,afurð“ sem stefndu hafi selt í blöðum sínum. Hafi stefndu þannig haft hagnað af brotum sínum.

Á bak við hin meiðandi ummæli og fjölþætt brot stefndu á stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda séu því ekki nein  ,,mannleg mistök“ á borð við reiði, sárindi, ríg eða annað sem fólki geti orðið á af ásetningi eða gáleysi og talist geti afsaka hegðun þess að hluta eða öllu leyti.

Háttsemi stefndu hafi einungis stýrst af gróðasjónarmiðum og stefnandi hafi ekkert tilefni gefið til slíkrar umfjöllunar um sig sem raun bar vitni.

Á það er bent af hálfu stefnanda að almennt sé viðurkennt sjónarmið í skaðabótarétti að miskabætur í tilvikum sem þessum taki mið af fjárhagslegri stöðu tjónvalds. Það komi t.d. skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi til breytingarlaga á miskabótaákvæði 26. gr. skaðabótalaga: ,,Lögð er áhersla á að fjárhæðir bóta samkvæmt greininni eiga að ákvarðast samkvæmt því sem sanngjarnt þykir hverju sinni. Hafa skal m.a. í huga umfang tjóns, sök tjónvalds og fjárhagsstöðu hans.“

Í þessu tilviki eigi þetta allt við. Um sé að ræða alvarleg brot gegn friðhelgi einkalífs og æru stefnanda sem valdið hafi honum miklu ófjárhagslegu tjóni, ítrekuð brot sem sýni einbeittan brotavilja og hátt sakarstig og loks að tjónvaldur sé stöndugt stórfyrirtæki. Að mati stefnanda standi því öll rök í málinu til þess að ákveða miskabætur háar.

Til samanburðar megi benda á að - í dómi Hæstaréttar í máli nr. 278/2006, hafi stefndi verið dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð 700.000 krónur, fyrir ein ummæli sem jafnframt voru ómerkt. Í þessu máli sé um að ræða fern ummæli og fjársterkt fyrirtæki. Stefnandi miði miskabótakröfu sína m.a. við þessi atriði.

Lögð sé rík áhersla á að óforsvaranlegt sé með öllu að fjársterk fyrirtæki geti í skjóli þeirrar dómaframkvæmdar, að dæma lágar miskabætur í málum sem varða ærumeiðingar, reiknað með slíkri áhættu í fjárhagsáætlunum sínum eins og hverjum öðrum rekstrarútgjöldum.

Í þessu samhengi megi geta þess að við skráningu stefndu á hlutabréfamarkað hafi sérstaklega verið getið um það í útboðsgögnum að það væri mat félagsins, þ.e. stefndu, að í þeim tilvikum þar sem einstaklingar höfðuðu mál á hendur félaginu fyrir meintar ærumeiðingar væru kröfufjárhæðir ekki þess háttar upphæðir að haft gætu áhrif á aðgerðir félagsins. Vísar stefnandi í þessu sambandi til svokallaðs Prospectus frá nóvember 2006, sem lagður hafi verið fram í málinu.

Loks bendi stefnandi á að umstefnd ummæli hafi birst í víðlesnum fjölmiðlum, þar af tvenn í fríblaðinu Fréttablaðinu sem dreift sé ókeypis inn á flest eða öll heimili í þéttbýli í landinu og hafi mikla útbreiðslu.

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og ákvæða 73. gr. um tjáningarfrelsi. Einnig er vísað til ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, sbr. einkum 234. og 235. gr.

Þá byggir stefnandi á II. kafla laga nr. 57/2006 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, einkum 5. gr.

Kröfu um miskabætur styður stefnandi við b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Um aðild stefndu er vísað til 1. málsliðar 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu kveða að ummæli í tl. 1.1 og 1.2 í stefnu hafi birst í DV. Á þeim tíma sem um ræði hafi DV markað sér ákveðinn sess í íslenskri blaðaútgáfu. Ritstjórnarstefna blaðsins hafi í raun verið sambland af hefðbundnum fréttamiðli, og fjölmiðli sem flytji fréttir af þeim einstaklingum sem séu áberandi í samfélaginu hverju sinni. Þær fréttir varði oft persónuleg málefni fólks, eins og hverjir hafi verið hvar, hver sé með hverjum, hver gifti sig, hver heimsótti hvern o.s.frv. Um sé að ræða fréttir af þekktum einstaklingum og athöfnum þeirra. Margir merkir fjölmiðlar, bæði hér heima og erlendis hafi markað sér sess á þessum bás fjölmiðlunar. Hér á landi megi nefna tímaritið Séð og heyrt, sem eigi sér samsvörun á öllum Norðurlöndunum. Í þess háttar fjölmiðlum séu greinar oftar en ekki studdar myndum.

Fréttin í DV um skilnað stefnanda hafði áður birst í Séð og heyrt, sem ekki tengist stefndu. Umrædd frétt í DV frá 29. september 2006 hafi því verið í samræmi við það sem áður hafði komið fram í öðrum prentmiðlum hér á landi.

Ummælin í tl. 1.3 í stefnu hafi birst í Fréttablaðinu í janúar 2007. Fréttablaðið, öfugt við DV, hafi markað sér stað sem morgunblað hér á landi. Megináhersla þess sé að flytja hefðbundnar fréttir, sem að stofni til fjalli um atburði á vettvangi stjórnmála, viðskipta og samfélagsins í heild. Undir lok blaðsins séu þó birtar svokallaðar örfréttir um það sem heyrst hafi að skrafað sé í samfélaginu. Ummælin ,,Maggi glæpur“ séu þar sett í samhengi við ýfingar sem hafi verið milli samkeppnisaðilanna, 365 miðla ehf. og Skjásins miðla ehf. Sagt sé frá því, sem um hafi verið rætt á þessum tíma, að hugsanlega stæði til að sameina þessa tvo keppinauta. Í framhaldinu sé því svo velt upp hvor framkvæmdastjóranna myndi leiða sameinað félag, ef af sameiningu yrði. Í framhaldi af því  hafi verið sagt frá því að stefnandi gengi undir nafninu ,,Maggi glæpur“ á markaðsdeild 365 ehf. Engar heimildir séu hafðar fyrir því, og því sé ekki haldið fram að stefnandi sé glæpamaður eða tengist glæpum á nokkurn hátt. Hér hafi verið vísað til þess að á milli starfsmanna 365 ehf., sem starfi í mestu návígi við samkeppnina frá því fyrirtæki sem stefnandi hafi stýrt, gengi stefnandi undir þessu nafni. Af samhengi greinarinnar verði ekki ráðið að það vísi til þess að stefnandi stundi glæpsamlegt athæfi eða verið sé að væna hann um slíkt.

Ummælin í tl. 1.4 í stefnu hafi birst í Fréttablaðinu í febrúar 2007. Þau skeri sig úr ummælunum í tl. 1.1 til 1.3 í stefnu, með þeim hætti að þau fjalli ekki að neinu leyti um stefnanda sjálfan. Um sé að ræða fjölmiðlapistil í Fréttablaðinu, sem sé einn af föstum dálkum blaðsins. Þar skrifi blaðamaður Fréttablaðsins, Jakob Bjarnar, um dagskrárstefnu Skjás eins. Að mati blaðamanns sé dagskrá Skjás eins með þeim hætti að rétt sé að líkja henni við sjúkdóminn geðklofa, þ.e. annars vegar alveg framúrskarandi dagskrá með alla uppáhaldssjónvarpsþætti hans, en einnig að þar sé að finna það versta sem fyrirfinnist í íslensku sjónvarpi. Fyrirsögnin hæfi því umfjölluninni vel: Geðþekkur geðsjúklingur. Með þessari umfjöllun sé birt mynd af stefnanda, enda hafi hann verið sá aðili sem hafi borið ábyrgð á dagskrárstefnu sjónvarpsstöðvarinnar.

Vegna ummælanna: ,,Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar þeirra Magnúsar Ragnarssonar og...“ vilja stefndu taka fram að allar staðreyndir sem komi fram í umræddri grein séu réttar og hafi ekki verið hnekkt.  Annar fjölmiðill hafði þá þegar birt fréttir af skilnaði stefnanda. Hjúskaparstaða einstaklinga sé ekki þeirra einkamál. Með uppflettingu í þjóðskrá sé hægt að sjá hjúskaparstöðu einstaklinga á hverjum tíma. Hjúskaparstaða geti því ekki með nokkru móti fallið undir friðhelgi einkalífs, sem verndað sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár, eins og haldið sé fram í stefnu. Það að greint sé frá opinberum upplýsingum geti ekki falið í sér friðarbrot og skipti engu hvort stefnandi hafi fjallað um hjúskaparmálefni sín á opinberum vettvangi eða ekki. Staðreyndin sé sú að hjúskaparstöðu þurfi ekki að bera á torg, hún sé á torgum. Umfjöllun sé hins vegar hægt að setja fram með þeim hætti að til ærumeiðinga geti talist. Það eigi hins vegar ekki við í þessu máli. Framsetning greinarinnar sé vissulega ögrandi og hún sé skrifuð á máli sem flokka megi til einhvers konar götumáls. Slíkur stíll sé hins vegar að engu leyti nægjanlegur til að hægt sé að dæma ummælin í greininni ómerk, eins og krafa sé gerð um af hálfu stefnanda. Framsetning og stíll fjölmiðla sé verndaður af Mannréttindasáttmála Evrópu og breyti engu þótt hann sé með öðrum hætti en almennt gangi og gerist eða njóti velþóknunar ákveðins hóps í samfélaginu. Að mati stefndu eigi þau lýsingarorð, sem fram komi í stefnu, að um hafi verið að ræða ,,tillitslausa, tilefnislausa og meiðandi“ umfjöllun ekki við rök að styðjast.

Almennt hafi verið litið svo á að hjónaskilnaðir séu ákveðið skipbrot í lífi hvers manns. Orðanotkunin ,,í tómu tjóni“ sé því ákveðin útfærsla á þeim erfiðleikum sem skapist í kjölfar hjónaskilnaða.

Sömu rök og að ofan greinir eigi við varðandi ummælin ,,...gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu“. Með engu móti sé hægt að fallast á þá nálgun, sem komi fram í stefnu að orðanotkun í lið IV.1 og IV.2 feli í sér aðdróttun um að stefnandi hafi verið harðbrjósta eða skeytingarlaus í garð eiginkonu sinnar og jafnvel barna. Sú túlkun sem komi fram í stefnu sé alfarið á ábyrgð stefnanda sjálfs.

Við mat á ummælunum ,,Maggi glæpur“ verði að skoða þau í samhengi við þá umfjöllun sem hún sé hluti af. Í viðkomandi frétt sé sagt frá hugsanlegum yfirmannaskiptum hjá 365 ehf., ef til sameiningar 365 ehf. og Skjásins miðla ehf., myndi koma. Hafa verði í huga að rætt hafi verið um stefnanda sem hugsanlega nýjan yfirmann í sameinuðu fyrirtæki, enda hafi stefnandi verið á þessum tíma framkvæmdastjóri eins helsta samkeppnisaðila stefnda. Skjár einn, sem rekinn sé af Skjárinn miðlar ehf., sé auglýsingasjónvarp og hafi fyrirtækin keppt hart í auglýsingasölu sín á milli. Í fréttinni segi eingöngu að stefnandi gangi undir þessu nafni á markaðsdeild 365 ehf. Ummælin vísi ekki til þess að stefnandi sé glæpamaður eða stundi glæpsamlegt athæfi. Stefndu leggi til grundvallar að orðanotkunin glæpur, glæpsamlegt auk annarra beygingarmynda, sem dregin séu af þessu orði, hafi aðra þýðingu í daglegu máli, en þröngri merkingu lögfræðinnar. Játa verði fjölmiðlum ákveðið svigrúm varðandi orðnotkun, enda myndi stíft aðhald dómstóla á orðanotkun fjölmiðla fela í sér aðför að tjáningarfrelsinu.

Hitt sé svo allt annað mál að engar heimildir séu fyrir því að stefnandi hafi gengið í raun undir þessari nafngift á markaðsdeild 365 ehf. Hugsanlegt sé hins vegar að einhverjir starfsmenn 365 ehf., sem áður hafi unnið hjá Skjánum miðlum ehf., sem stefnandi hafi verið í forsvari fyrir á þessum tíma, hafi uppnefnt stefnanda með þessum hætti. Í þessu efni kunni að skipta máli að Persónuvernd hafi komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði framið brot gegn fyrrum starfsmanni Skjásins miðla ehf. og síðar starfsmanni 365 ehf., Helga Hermannssyni, þegar stefnandi skoðaði tölvupóst Helga að honum fjarstöddum.

Varðandi ummælin ,,Geðþekkur geðsjúklingur“ kveða stefndu að ekki sé unnt að fallast á að birting myndar af stefnanda við hlið fyrirsagnar þessarar hafi engum tilgangi þjónað. Sé greinin lesin sem er við hlið myndarinnar, sjáist að verið sé að fjalla um dagskrárstefnu Skjás eins, sem stefnandi hafi veitt forstöðu. Í greininni sé lýst þeirri skoðun blaðamanns að dagskrárstefna sjónvarpsstöðvarinnar sé í anda geðklofasjúklings, þ.e. öfganna á milli, annars vegar léleg, en hins vegar góð. Alþekkt sé að ritstjórar, framkvæmdastjórar og sjónvarpsstjórar fjölmiðla séu tengdir þeirri dagskrá sem viðkomandi fjölmiðill bjóði upp á. Myndbirtingin sé því eðlileg. Í viðkomandi grein sé ekki vikið að því einu orði að stefnandi sjálfur sem persóna eigi við geðræna erfiðleika að stríða. 

Stefndu kveða að starf stefnanda sem forsvarsmaður samkeppnisaðila stefndu á ljósvakamarkaði hafi enga þýðingu í þessu máli. Með engu móti hafi verið vegið að starfsemi vinnuveitanda stefnanda eða stefnanda sjálfum. 

Varðandi stefnufjárhæðir bendi stefndu á að miskabótakrafan sé allt of há og án tengsla við íslenskar dómsúrlausnir. Fjárhæðin sé ríflega sjöfalt hærri en hæstu bætur sem dæmdar hafi verið í Hæstarétti Íslands í meiðyrðamáli. Í stefnu sé því haldið fram að eingöngu gróðasjónarmið liggi að baki útgáfu DV og Fréttablaðsins. Varðandi þá staðhæfingu sé rétt að benda á að fjölmiðlar séu reknir í hagnaðarskyni, enda væru engir einkareknir fjölmiðlar til án hagnaðar. Í úrlausnum Mannréttindadómstóls Evrópu hafi beinlínis verið tekið fram að fjölmiðlar eigi lögvarinn rétt til þess að haga starfsemi sinni með þeim hætti að hagnaður verði af henni. Viðurkenndur sé réttur þeirra til að selja sig á frjálsum markaði í hagnaðarskyni.

Varðandi kröfu um kostnað af birtingu dómsins, telji stefndu að hafna beri þeirri kröfu. Það hafi aldrei gerst að nokkur aðili, sem fengið hafi dæmdar slíkar bætur, hafi birt dóminn eða dómsorðið, enda rati fréttir af dómsniðurstöðum í meiðyrðamálum án undantekninga í fjölmiðla. Að mati stefndu sé ekki rétt að dæma fjárhæð til birtingu dóms í fjölmiðlum.

Löggjafinn hafi játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Sérstaklega sé þessi réttur rúmur þegar um sé að ræða svonefndar almannapersónur og málefni sem varði almenning.

Stefndu byggja á því að það geti aldrei verið hlutverk þeirra sem séu andlag umfjölllunar fjölmiðla hverju sini að stýra umfjöllun um málefni sín og fréttamati fjölmiðla á þeim. Það sé hlutverk fjölmiðilsins. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða.

Stefndu telji það alvarlegan galla á málatilbúnaði stefnanda að hvergi sé í stefnu vikið að því einu orði hvernig ummælin geti falið í sér brot gegn 234. og 235 gr. almennra hegningarlaga, eins og haldið sé fram í stefnu. Sé málið þannig vanreifað, enda forsendur ómerkingar að um brot á tilgreindum ákvæðum hafi verið að ræða. Ekki verði séð að ummælin sem stefnt sé út af falli að verknaðarlýsingu þessara ákvæða.

Um lagarök vísa stefndu til 10. gr Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og ákvæða 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, auk grunnreglna samfélagsins, um þýðingu, hlutverk og heimildir fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.

Niðurstaða.

Af málatilbúnaði stefndu verður ekki ráðið að ágreiningur sé um aðild málsins.

Stefnandi hefur krafist ómerkingar ofangreindra ummæla, greiðslu miskabóta, greiðslu kostnaðar við birtingu dóms og málskostnaðar.

Krafa um ómerkingu ummæla styðst við 241. gr. almennra hegningarlaga og miskabótakröfu sína byggir stefnandi á því að í ofangreindum ummælum hafi falist ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.

Verður nú vikið að ummælum þessum, en fjallað verður saman um fyrstu tvenn ummæli stefndu sem krafist er ómerkingar á. Þar er í fyrsta lagi um að ræða ummæli í yfirfyrirsögn fréttar á bls. 4 í dagblaðinu DV föstudaginn 29. september 2006: ,,Á sama tíma er allt í tómu tjóni í einkalífi yfirmanna stöðvarinnar, þeirra Magnúsar Ragnarssonar og...“ og í öðru lagi ummæli í meginmáli fréttar á bls. 4 í dagblaðinu DV föstudaginn 29. september 2006: ,,...gengur yfirmönnum stöðvarinnar illa að fóta sig í einkalífinu...“

Við umfjöllun þessa er stór ljósmynd af stefnanda ásamt fleira fólki, þar á meðal öðrum yfirmanni Skjás eins. Í umfjölluninni er greint frá hjúskaparmálefnum stefnanda, börnum hans, hvar hann búi og hvar fyrrverandi eiginkona hans búi.

Með fyrrgreindri umfjöllun DV og ummælum er birtust þar í yfirfyrirsögn, að allt sé ,,í tómu tjóni í einkalífi“ og að stefnanda ,,gangi illa að fóta sig í einkalífinu“ eru borin á torg viðkvæm einkamálefni stefnanda, er m.a. lúta að hjúskaparslitum hans. Orðanotkunin ,,í tómu tjóni“ og þau ummæli DV að stefnanda ,,gangi illa að fóta sig í einkalífinu“ hafa á sér neikvæðan blæ og eru til þess fallin að skapa hjá lesendum miður góða ímynd af stefnanda. Þau eru móðgandi og meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga og fela í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga. Ummælin verða dæmd dauð og ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Felst í ummælum þessum ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru sem stefndi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Breytir hér engu að frétt um skilnað stefnanda hafi áður birst í tímaritinu Séð og heyrt.

Þá byggir stefnandi miskabótakröfu sína einnig á því að með umfjöllun stefndu hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs hans.

Tjáningarfrelsið nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, þótt því séu settar skorður í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir að tjáningarfrelsinu megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar nýtur einkalíf manna, heimili og fjölskylda friðhelgi. Menn eiga samkvæmt því rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Er ótvírætt að mati dómsins að rétturinn til þess að njóta friðar um einkahagi sína og lífshætti nær til þess að njóta friðar um hjúskaparslit sín, enda vart unnt að hugsa sér málefni sem höggva nær einkalífi manna en mál sem lúta að erfiðleikum í hjúskap.

Þegar skarast fyrrgreindir hagsmunir stefndu af því að njóta tjáningarfrelsis og hagsmunir stefnanda af því að njóta friðhelgis einkalífs síns, ber að líta til þess hvort hið birta efni sem stefndu bera ábyrgð á, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 278/2006. Það er mat dómsins að umfjöllun sú um einkahagi stefnanda sem birtist í DV umrætt sinn geti á engan hátt tengst slíkri umræðu og óumdeilt er að stefnandi hefur aldrei gefið tilefni til slíkrar umfjöllunar með því að ræða við fjölmiðla um hjúskaparmálefni sín. Þá hefur umfjöllunin ekkert fréttagildi, hún er ómálefnaleg og hefur engin tengsl við störf stefnanda. Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að með ofangreindri umfjöllun í DV föstudaginn 29. september 2006 hafi friðhelgi einkalífs stefnanda verið rofin. Með því frömdu stefndu meingerð gegn friði og persónu stefnanda, sem stefndu bera miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga.

Verður næst vikið að ummælunum ,,Maggi glæpur“ sem birtust í meginmáli dálks á bls 54 í Fréttablaðinu föstudaginn 26. janúar 2007. Í stefnu eru ummælin sögð hafa birst á bls. 102, en hið rétta er að þau birtust á bls. 54. Í fréttadálki þessum er fjallað um stefnanda sem hugsanlegan nýjan yfirmann, ef til sameiningar 365 ehf. og Skjásins miðla ehf., kæmi. Í fréttinni segir orðrétt: ,,...en Magnús er ekki efstur á vinsældalista þar á bæ eftir áralangar ýfingar. Enda mun Magnús ganga undir nafninu ,,Maggi glæpur “ á markaðsdeild 365...“

Viðurnefni það sem skeytt er aftan við nafn stefnanda, ,,glæpur“ er mjög gildishlaðið. Jafnvel þótt ekki sé rætt um stefnanda í fréttinni sem afbrotamann eða mann sem grunaður er um glæp, er viðurnefni þetta til þess fallið að skapa hughrif hjá lesandanum sem tengja persónuna við svo andfélagslega og miður æskilega hegðun sem glæpir eru. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi hefur hann aldrei verið grunaður um refsiverða háttsemi og þaðan af síður hlotið dóm fyrir slíka háttsemi.

Ummæli þessi eru móðgandi og meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga og fela í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga, hegningarlaga, en engu máli skiptir í þessu samhengi hvaða forsendur stefndu töldu sig hafa til þess að skeyta viðurnefni þessu við nafn stefnanda í fyrrnefndri frétt. Ummælin verða dæmd dauð og ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Felst í ummælum þessum ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru sem stefndi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Síðast verður vikið að ummælunum ,,geðþekkur geðsjúklingur“ sem birtust í fyrirsögn á bls. 56 í Fréttablaðinu laugardaginn 10. febrúar 2007. Í greininni lýsir blaðamaður því að dagskrárstefna sjónvarpsstöðvarinnar Skjás eins sé í anda geðklofasjúklings, en geðklofasjúklingurinn sé geðþekkur. Við greinina er skeytt stórri mynd af stefnanda. Jafnvel þótt óumdeilt sé að stefnandi hafi, á þeim tíma sem greinin var skrifuð, verið framkvæmdastjóri Skjás eins, og því tengdur efni umfjöllunarinnar með þeim hætti, er það mat dómsins að með því að birta stóra ljósmynd af stefnanda við hlið yfirskriftarinnar ,,geðþekkur geðsjúklingur“ sé verið að vísa til stefnanda á afar móðgandi hátt og drótta að geðheilsu hans.

Ummæli þessu eru móðgandi og meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga og fela í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga.

Ummælin verða dæmd dauð og ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Felst í ummælum þessum ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru sem stefndi ber miskabótaábyrgð á samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Samkvæmt framansögðu á stefnandi rétt til miskabóta úr hendi stefndu bæði vegna ærumeiðandi ummæla og aðdróttana og brota á friðhelgi einkalífs. Við ákvörðun bótafjárhæðar ber m.a. að líta til þess að Fréttablaðinu, sem tvö síðari ummælin birtust í, er dreift ókeypis og hefur mikla útbreiðslu. Þá er við ákvörðun bótafjárhæðar einnig litið til þess sem lagt hefur verið fram um fjárhagslega burði stefndu.

Þegar allt framangreint er virt er fjárhæð miskabóta ákveðin 1.500.000 krónur sem stefndu greiði með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla, sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. júní 2007 til greiðsludags.

Stefnandi hefur auk miskabóta krafist þess að stefndu greiði honum 480.000 krónur til að standa straum af birtingu dómsins og forsendna hans í dagblöðum. Stefnandi hefur gert þá grein fyrir fjárhæð þessarar kröfu sinni að hún sé miðuð við verðskrá Morgunblaðsins, þ.e. miðað við auglýsingu á síðu 4 eða 6, um 60 dálksentimetra. Gert sé ráð fyrir tveimur birtingum í Morgunblaðinu og tveimur í Fréttablaðinu. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga er fallist á þessa kröfu stefnanda.

Þá verða stefndu dæmdir, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að greiða stefnanda málskostnað, sem að mati dómsins er hæfilega ákveðinn 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

                                                                      D ó m s o r ð:

Framangreind ummæli á bls. 4 í DV 29. september 2006, á bls. 54 í Fréttablaðinu 26. janúar 2007 og á bls. 56 í Fréttablaðinu 10. febrúar 2007 eru dauð og ómerk.

Stefndu, 365-miðlar ehf., greiði stefnanda, Magnúsi Ragnarssyni, 1.500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 7. júní 2007 til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda 498.000 krónur í málskostnað og 480.000 krónur til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum.