Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2011


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Hlutabréf
  • Trygging
  • Aðfinnslur


                                                                                              

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 90/2011.

Óskar Sigurjón Finnsson

(Reynir Karlsson hrl.)

gegn

dánarbúi Gunnars Þórs Ólafssonar

(Gísli Guðni Hall hrl.)

Lánssamningur. Hlutabréf. Trygging. Aðfinnslur

Ó og G gerðu með sér samning á árinu 2007 um lán að fjárhæð 350.000 bresk pund sem Ó skuldbatt sig til þess að endurgreiða á tilteknum degi. Ó hélt því fram í málinu að gengið hefði verið frá kaupum G á 150.000 hlutum í S ehf. fyrir 350.000 bresk pund áður en fyrrgreindur samningur þeirra á milli var undirritaður, en hann hefði verið gerður í þeim tilgangi að tryggja G endurgreiðslu á kaupverði hlutanna ef Ó nýtti sér umsaminn kauprétt á þeim. Var það niðurstaða Hæstaréttar að þessi staðhæfing Ó samræmdist ekki ákvæðum lánssamningsins og að ekkert væri fram komið í málinu sem færði sönnur á hana. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um að Ó bæri að greiða dánarbúi G hina umkröfðu fjárhæð. Fundið var að því að aðila- og vitnaskýrslur hefðu verið raktar í héraðsdómi í mjög löngu máli sem samræmdist ekki ákvæðum réttarfarslaga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. febrúar 2011. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 Eftir að máli þessu var áfrýjað andaðist Gunnar Þór Ólafsson og hefur dánarbú hans tekið við aðild að málinu í hans stað.

Krafa áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi er á því reist að málsókn stefnda sé ekki í samræmi við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á sú krafa áfrýjanda ekki við rök að styðjast og verður henni hafnað.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Meðal málsgagna er samningur, undirritaður 22. júní 2007 af áfrýjanda sem lántaka og Gunnari Þór Ólafssyni sem lánveitanda, um lán að fjárhæð 350.000 bresk pund sem áfrýjandi skuldbatt sig til að endurgreiða 15. desember sama ár. Hefur hann viðurkennt að hafa tekið við greiðslu á þessari fjárhæð frá Gunnari Þór á þeim tíma þegar samningurinn var gerður.

Sýknukrafa áfrýjanda er á því byggð að gengið hafi verið frá kaupum Gunnars Þórs á 150.000 hlutum í Styr ehf. fyrir 350.000 bresk pund 6. júní 2007 eins og staðfest hafi verið í tölvupóstsamskiptum milli Hilmars Steinars Sigurðssonar og Pálma Sigmarssonar sem sáu um viðskiptin milli Gunnars Þórs og áfrýjanda fyrir þeirra hönd. Hafi fyrrgreindur lánssamningur 22. júní 2007 verið gerður í þeim tilgangi að tryggja Gunnari Þór endurgreiðslu á kaupverði hlutanna ef áfrýjandi nýtti sér umsaminn kauprétt á hlutunum þannig að kaupin á þeim gengju í reynd til baka.

Efni tölvupóstsamskiptanna milli Hilmars Steinars og Pálma 6. júní 2007, sem áfrýjandi vísar til um viðskipti þeirra Gunnars Þórs, er ekki eins skýrt sem skyldi. Fyrir dómi hélt Hilmar Steinar því fram að samskiptin beri með sér að setja hafi átt hlutina í Styr ehf. til tryggingar fyrir fyrirhuguðu láni Gunnars Þórs til áfrýjanda. Í vitnaskýrslu Pálma, sem sá um viðskiptin fyrir áfrýjanda, kom fram að svo hefði verið um samið milli aðila að yrði einhver mismunur á því, sem fengist fyrir hlutina, og fjárhæðarinnar, sem Gunnar Þór reiddi af hendi til áfrýjanda, yrði áfrýjandi að bæta Gunnari Þór þann mismun. Aðspurður kvaðst Pálmi ekki tjá sig um hvort samið hafi verið um að Gunnar Þór keypti hlutina eða fengi þá til tryggingar fyrir greiðslu láns til áfrýjanda, heldur sagðist hann eingöngu vilja vísa til þess sem þeim Hilmari Steinari hafi farið á milli umræddan dag.

Sú staðhæfing áfrýjanda að þeir Gunnar Þór hafi samið um kaup á hlutunum í Styr ehf. áður en lánssamningurinn var undirritaður og því hafi greiðsla þess síðarnefnda á fjárhæð, sem svarar til fjárhæðar lánsins samkvæmt samningnum, verið kaupverð fyrir hlutina samrýmist ekki ákvæðum samningsins. Af þeim sökum hvílir sönnunarbyrðin fyrir þeirri staðhæfingu á áfrýjanda. Þegar virt er það, sem að framan greinir, svo og annað það sem fram er komið í málinu og vísað er til í hinum áfrýjaða dómi, verður ekki talið að áfrýjandi hafi fært sönnur á þessa staðhæfingu sína. Samkvæmt því verður héraðsdómur staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Það athugist að skýrslum aðila og vitna fyrir dómi er lýst í mjög löngu máli í hinum áfrýjaða dómi. Þetta er í andstöðu við 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 þar sem ekki er gert ráð fyrir að þessum skýrslum séu gerð sérstök skil í héraðsdómi, heldur sé þar aðeins vísað til þeirra eftir því sem ástæða er til við úrlausn máls, sbr. d., e. og f. liði málsgreinarinnar.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.

Áfrýjandi, Óskar Sigurjón Finnsson, greiði stefnda, dánarbúi Gunnars Þórs Ólafssonar, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. nóvember 2010, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnari Þór Ólafssyni, kt. 190838-4399, Eikjuvogi13, Reykjavík, gegn Óskari Sigurjóni Finnssyni, kt. 120467-5659, Bretlandi, með stefnu sem birt var 14. desember 2009.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 bresk sterlingspund auk 12% fastra vaxta frá 22. júní 2007 til 15. desember 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með þeim degi til greiðsludags.  Þá er til viðbótar krafist málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Þá er þess krafist að stefnda verði tildæmdur málskostnaður samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því:  Hinn 22. júní 2007 sömdu aðilar að stefnandi, Gunnar Þór Ólafsson, lánaði stefnda, Óskari Sigurjóni Finnssyni, 350.000 bresk pund, sbr. dskj. nr. 3.  Í samningnum segir m.a. að lántaki skuldbindi sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu, hinn 15. desember 2007; lánið beri 12% fasta vexti.  Þá er tekið fram að vanefni lántaki skuld skv. lánasamningnum beri lántaka að greiða dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga til greiðsludags.

Af hálfu stefnanda segir að Óskar hafi falast eftir framangreindu láni hjá honum til kaupa á húseign í Guildford á Englandi.  Hilmar Sigurðsson, starfsmaður hjá Glitni banka hf., hafi séð um samskiptin fyrir hönd Gunnars en Pálmi Sigmarsson fjármálaráðgjafi, fyrir Óskar.  Þá segir að til þess að geta lánað Óskari hafi Gunnar fengið samsvarandi lán hjá Glitni banka hf. sem hann hafi síðan endurlánað Óskari.  Óskar hafi ekki endurgreitt lánið, hvorki á gjalddaga né síðar.

Af hálfu stefnda segir að á þeim tíma, sem lánið var tekið, hafi hann verið skráður eigandi að 150.000 hlutum í xG Technology í gegnum Luca Investment.  Þegar lánið var veitt hafi legið fyrir að Gunnar myndi kaupa þessa hluta af honum eigi síðar en 30. júní 2007.  Gunnar hafi verið tilbúinn að lána honum 330.000 bresk sterlingspund í sex mánuði og hann eða Luca að framselja 150.000 bréf til Gunnars á genginu 5,0.  Hann hafi haft kauprétt á bréfunum á genginu 6,0 til 15. desember 2007 og Gunnar sölurétt á sama gengi til sama tíma.  Reiknað hafi verið með að andvirði bréfanna myndi ganga til að greiða skuld samkvæmt samningi aðila frá 22. júní 2007.  Hann hafi ekki nýtt sér umsaminn kauprétt á bréfunum og Gunnar ekki heldur umsaminn sölurétt á þeim.  Síðar hafi komið í ljós að Gunnar Þór hafði fengið bréfin framseld til sín þann 20. júní 2007 og hafi þau enn undir höndum.

Helstu málsástæður og réttarheimildir er stefnandi byggir á:  Stefnandi, Gunnar Þór Ólafsson, byggir á því að hann hafi lánað stefnda, Óskari Sigurjóni Finnssyni, 350.000 bresk sterlingpund, hinn 22. júní 2007, er greiðast skyldu hinn 15. desember 2007.  Stefndi hafi ekki endurgreitt lánið.  Það sé misskilningur lögmanns stefnda eða fyrirsláttur að stefnandi hafi keypt hluti í Styr ehf. af stefnda og stefnandi ekki greitt kaupverð bréfanna og komi það á móti láni stefnanda til stefnda.  Hið rétta sé að stefnandi hafi fengið framselda 150.000 hluti í Styr ehf. til tryggingar greiðslu skuldar samkvæmt lánssamningi aðila og hafi stefnanda verið heimilt að selja hlutina og taka andvirðið sem innborgun upp í skuldina, en það hafi stefnandi ekki gert.

Stefnandi vísar til þess að hann, Hilmar Sigurðsson og lögmaður stefnanda hafi nánast allt yfirstandandi ár átt samskipti við stefnda um greiðslu umræddrar skuldar.  Í þeim samskiptum hafi stefndi borið sig illa vegna fjárhagserfiðleika og hafi samskiptin gengið út á að koma til móts við stefnda eins og forsvaranlegt gat talist.  Í þessum samskiptum hafi enginn vafi leikið á skuld stefnda og hafi stefndi verið þakklátur stefnanda fyrir að hafa veitt honum lánið, sem átti að vera skammtímalán.  Vísað er til tölvupóstar stefnda til Hilmars, dags. 17. mars 2008, sem dæmi um þetta, en þar segir m.a.:

Takk fyrir spjallið síðastliðinn föstudag.  Það var aldrei ætlunin að taka þetta skammtímalán sem ég er með hjá ykkur þar sem ég ætlaði að nota hluta af hlutabréfinu mínu.  En því miður á þessum tíma var ekki hægt að losa þau. …

… Ég er ykkur mjög þakklátur fyrir að koma að þessu skammtímaláni því ef ég hefði ekki notið þess þá hefði ég ekki geta gert þessi góðu kaup á húsinu.

Einnig er vísað til bréfs Þórs Ólafssonar, viðskfr.-MBA, f.h. stefnda, dags. 24. apríl 2009, til Hilmars Sigurðssonar, sbr. dskj. nr. 10, en þar segir m.a.:

Í framhaldi af samskiptum okkar vegna láns frá umjóðanda þínum, Gunnari Þór Ólafssyni, kt. 190838-4399, sem lánveitanda, til handa Óskari Sigurjóni Finnssyni, kt. 120467-5659, sem lántaka, hefur okkur verið falið að leita lausna á endurgreiðslu lánsins.

Ljóst er að fjárhagsleg staða Óskars hefur versnað til muna frá því að lánið var tekið … en eignir Óskars eru í dag sem hér segir: …

…

Óskar er mikið um að gera allt sem í hans valdi stendur til að endurgreiða lánið.  En eins og fram kemur hér að ofanverðu þá er eigna og skuldastaða hans með þeim hætti að hún býður ekki upp á marga kosti.

Hér á eftir eru lagðar upp tvær tillögur að frágangi við Gunnar Þór Ólafsson sem miða að því að Óskar afsali sér því sem möguleg er vegna málsins:

Tillaga 1. …

Tillaga 2. …

Tilboð það sem sett er fram í bréfi þessu verður að teljast þolanlegri kostur en að ganga að búi Óskars sem myndi leiða til gjaldþrotaskipta. …

Að lokum vísar stefnandi til þess að samskipti aðila, bæði fyrir og eftir lánveitinguna, sýni svo ekki verði um villst að stefndi hafi verið fullkomlega meðvitaður um skuld sína við stefnanda.

Um réttarheimildir vísar stefnandi til hinnar almennu reglu samninga- og kröfuréttar að gerða samninga beri að halda.  Krafa um dráttarvexti sé gerð með stoð í III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Krafa um málskostnað sé reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og þess krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði gætt að skyldu stefnda til að greiða 23,5% virðisaukaskatt af þóknun lögmanns síns; skaðleysiskrafa, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og eignist því ekki frádráttarrétt með greiðslu skattsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Um heimild til að stefna stefnda fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur er vísað til ákvæðis þar um í lánssamningi aðila, sbr. dskj. nr. 3.

Helstu málsástæður og réttarheimildir er stefndi byggir á:  Stefndi, Óskar Sigurjón Finnsson, byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi, Gunnar Þór Ólafsson, hafi fengi hluti í xG framselda til sín eins og gert hafi verið ráð fyrir þegar stefndi fékk lánið; hlutirnir hafi verið endurgjald fyrir lánið sem hann fékk hjá stefnanda.  Umsamið gengi hafi verið 5 þrátt fyrir að opinbert gengi bréfanna hafi verið 12,25 hinn 15. júní 2007, sbr. dskj. nr. 13.  Hagnaðarvon stefnanda hafi því verið mikil.  Hins vegar hafi gengi bréfanna verið 6,38, hinn 14. desember 2007.  Stefnandi hafi ákveðið að nýta sér ekki umsaminn sölurétt sinn á bréfunum, sem hann hafði haft til 15. desember 2007; ákveðið að halda bréfunum í stað þess að selja þau.  Á þeim tíma, sem stefndi fékk þau framseld til sín, dugði andvirði bréfanna vel fyrir skuldinni.  Miðað við umsamið gengi 5 hafi andvirði bréfanna verið 46.905.000 kr. (150 hlutir x gengi dollars 22/6 2007 62,54).  Verðmæti lánsins hafi á sama tíma verið 43.687.000 (350 pund x gengi punds 22/6 2007 124,82).  Um hafi verið að ræða kaup á hlutum í skilningi laga og stefnandi sé bundinn af samningi aðila sem sé í samræmi við gögn málsins.  Stefndi hafi afhent hluti í xG og stefnandi kaupverðið í formi „lánsins“.

Það að stefndi hafi haft kauprétt á bréfunum og stefnandi sölurétt, segi allt um það að stefnandi hafi verið talinn réttur eigandi bréfanna.  Fallist dómurinn hins vegar ekki á að um kaup hafi verið að ræða, þá lýsi stefndi yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnanda miðað við 22. júní 2007 en þá hafi verið gengið frá „láninu“ til stefnda, en samkvæmt tölvupósti Heiðars Ásbergs Atlason hdl. hafi stefnandi fengið bréfin framseld til sín 20. júní 2007.  Til vara sé miðað við 15. desember 2007, en stefnandi hafi haft sölurétt á bréfunum til þess tíma.  Samkvæmt framangreindu sé um að ræða kröfu stefnda upp á 46.905.000 kr. á móti kröfu stefnanda upp á 43.697.000 kr. miðað við uppgjör 22. júní 2007.  Stefndi áskilur sér rétt til að sækja mismuninn í sérstöku dómsmáli á hendur stefnanda, en niðurstaða samkvæmt framangreindu hljóti því að verða sýkna fyrir stefnda.

Um réttarheimildir vísi stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um að samninga skuli halda.  Varðandi heimild til skuldajöfnunar vísar stefndi til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og varðandi málskostnaðarkröfu til 21. kafla sömu laga.  Til stuðnings kröfu sinni um virðisaukaskatt á málskostnað vísar stefndi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskatt skyldur.

Stefnandi, Gunnar Þór Ólafsson, bar fyrir rétti m.a. að hann hefði verið í einkabankaþjónustu hjá Glitni banka hf.  Þjónusta bankans hafi verið í því fólgin að sjá um öll peningamál fyrir hann sem voru út á við.  Tengiliður hans hafi verið Hilmar S. Sigurðsson.

Gunnar Þór kvað mál þetta rekið sem innheimtumál til efnda á lánasamningi, sbr. dskj. nr. 3.  Aðdragandi af þessum samningi hans og stefnda, Óskars Sigurjóns Finnssonar, hafi verið að Pálmi Sigmarsson hafi komið að máli við Hilmar og farið fram á þessa fyrirgreiðslu til skamms tíma.  Gunnar Þór kvaðst ekki hafa þekkt Óskar en vitað hver hann var; þeir hefðu ekki verið málkunnugir.  Mikið hafi legið á og verið talað um u.þ.b. 500.000 evrur.  Síðan hafi það lækkað í meðferð.  Þá kvaðst Gunnar Þór ekki hafa átt bein samskipti við Óskar og mjög lítil samskipti við Pálma; öll samskiptin hafi farið í gegnum Hilmar.

Vísað var til þess að Óskar héldi því fram, að Gunnar Þór ætti enga kröfu á sig, vegna þess að Gunnar Þór hafi keypt af honum hlutabréf í xG eða Styr ehf. fyrir sömu upphæð.  Gunnar Þór sagði að það væri ekki satt; hann kvaðst muna að hafa verið boðin þessi kaup, en hann ekki orðið við því.  Honum hafi fyrst orðið kunnugt um þessa vörn Óskars í bréfi frá Reyni Karlssyni hrl. til Gísla Guðna Hall hrl. [dskj. nr. 11.]  Áður hefði farið fram viðræður við Óskar um uppgjör á skuld hans samkvæmt lánasamningnum.  Þetta komi greinilega fram í bréfi frá Þór Ólafssyni vorið 2009, en bréfið frá Reyni hafi verið frá því í júlí ef hann muni það rétt.  Gunnar Þór kvað það aldrei hafa hvarflað að sér kaupa umrædd hlutabréf; það hafi verið út úr myndinni; menn taki ekki lán til að kaupa hlutabréf einstaklinga.

Gunnar Þór kvaðst hafa átt viðskipti við Pálma Sigmarsson.  Þau hafi öll verið á einn veg, að Pálmi safnaði skuldum.  Árið 2005 hafi Pálmi skuldað honum u.þ.b. 350.000.000 kr. og stórum hluta af fjárhæðinni, u.þ.b. 320.000.000 til 330.000.000, hafi verið jafnað með xG bréfum og hafi hann þá eignast þannig u.þ.b. 2,6 milljónir eininga í xG bréfum.  Hann hafi þá haft að orði að hann gæti alveg eins tekið þessi bréf því að ef xG mundi ekki pluma sig þá væri Pálmi hvort sem er gjaldþrota.  Síðar hafi aftur aukist skuld Pálma við hann og sumir pappírar, sem hann fékk frá Pálma, verið einskis virði.  Ef til vill hafi þetta náð hámarki í þessu láni til Óskars og síðan láni til Pálma.  Þannig hafi þetta orðið nokkur hundruð milljónir aftur.

Gunnar Þór sagði helstu eignir hans í stýringu hjá Glitni banka hf., er lánið til Óskars var veitt, hafi verið xG bréfin, sem metin eru í eignastýringu upp á 10 dollara, þannig að tvær og hálf milljón og 10 dollarar eru 25.000.000 dollarar.  Þetta hafi verið stærsta eignin í safninu og af henni hafi hann greitt nokkur þúsund á mánuði í eignastýringu.  Einu möguleikar til að selja bréfin hafi verið innan Styrs hf. þannig að menn seldu það innbyrðis.  Enginn markaður hafi verið fyrir þessi bréf sem voru inni í Styr hf.

Gunnar Þór sagði að xG væri xG Techonology, amerískt félag, en Styr ehf. væri eignarhaldsfélag á Íslandi, sem heldur utan um hluti í ameríska félaginu með Stormi í Svíþjóð, sem heldur utan um íslenska hlutann, en Stormur hafi verið u.þ.b. 20% hluthafi.  Pálmi hafi verið stærsti hluthafinn og í stjórn xG Techonology og formaður í Styr ehf. síðast er hann vissi.  Styr ehf. væri ekki skráð félag.  Hlutur í Styr ehf. jafngildir hlutum í xG án þess að unnt sé að selja þá á markaði.

Lagt var fyrir Gunnar Þór dskj. nr. 4, sem er tölvupóstur frá Hilmari S. Sigurðssyni til Pálma 6. júní 2007, kl. 12:03, tölvupóstur frá Pálma til Hilmars s.d. kl. 12:28, tölvupóstur frá Hilmari til Pálma s.d. kl. 13:46, tölvupóstur frá Pálma til Hilmars s.d. kl. 14:01 og tölvupóstur frá Hilmari til Pálma s.d. kl 6:15 PM.  Gunnar kvaðst kannast við tölvupóstinn og hafa komið að athugasemdum við Hilmar; verið sammála niðurstöðunni en ekki því sem á undan gerðist.  Að hans áliti hafi niðurstaðan verið sú að þessi bréf frá Pálma kæmu sem trygging, eins og komi fram, að ef að þau yrðu seld þá gengi það upp í kaupverðið og kæmi meira út úr því en kaupverðinu næmi þá ætti hann þann mismun.  Gunnar Þór sagði að Hilmar hefði álitið að Óskar hefði engan áhuga á því að selja þessi bréf; hefði hann haft það þá hefði hann selt bréfin í stað þess að fá lán.  Staðreyndin hafi verið sú að enginn kaupandi var að þessum bréfum.

Vísað var til þess að á dskj. nr. 4 komi fram að Óskar hafi kauprétt á þessum hlutum en Gunnar Þór sölurétt.  Gunnar Þór kvaðst kannast við þetta, en málið hafi verið að þessi bréf frá Luca Investment hafi bara verið bréf, sem hann átti hjá Pálma, og raunar engin trygging gagnvart Óskari.  Gunnar Þór kvaðst ekki hafa nýtt sér söluréttinn, fyrst og fremst vegna þess að þetta var ekki söluvara.  Hann hafi ekki reynt að selja þessi bréf.  Hann hafi átt það mikið magn af bréfum.  Hann hafi þó náð góðri sölu með Pálma.  Ef til vill skýri það málið betur að þeir hafi selt í lok ársins 2007 1.000.000 eininga af xG bréfum.  Af þeim hafi Pálmi ætlað að afhenda helminginn sjálfur.  Samningur um þetta hafi verið gerður við þekkta kaupsýslumenn, sem átt hefði að treysta, og í samningi milli hans og Pálma hafi þessar 500.000 einingar, sem Pálmi skaffaði, fyrst og fremst að átt ganga upp í skuldir við hann.

Gunnar Þór sagði að umræddir kaupsýslumenn hefðu hlegið að sér fyrir að selja þeim xG bréfin svona ódýrt; einingin hafi þó verið verðlögð á níu dollara.  Þeir hafi haft framlengingarrétt, sem endaði í lok september 2008; ekki staðið við að greiða, en áður sett að veði 720.000 einingar í xG, sem hafi þá bæst við eignir hans.  Ekkert hafi verið selt síðan og bréfin einskis virði í dag.

Stefndi, Óskar Sigurjón Finnsson, bar fyrir rétti m.a. að aðdragandi þess að hann átti viðskipti við Gunnar Þór hafi verið að í byrjun árs 2007 hafi hann verið að leita að húsi, sem hann keypti um vorið.  Það hafi alltaf staðið til hjá honum að losa um hlutabréf fyrir hluta af útborguninni.  Hann hefði verið búinn að fá lán fyrir því og talið sig geta selt hlutabréfin, en það hafi ekki gengið eftir.  Hann hafi þá leitað til Pálma Sigmarssonar til að aðstoða sig við að útvega sér skammtímalán.  Pálmi hafi fallist á að skoða það.  Pálmi hafi spurt Hilmar hvort Gunnar Þór Ólafsson gæti komið að þessu.  Örfáum dögum síðar hafi Pálmi sagt honum að Gunnar Þór hefði ekki fé á lausu og væri ekki tilbúinn að lána honum.

Óskar sagði að á þessum tíma hafi verið stutt í það að gengið yrði frá kaupum hússins.  Hann hafi því spurt Pálma, hvort hann sæi einhverja aðra möguleika í stöðunni.  Hilmar hafi upplýst, að til að brúa þetta gæti hann hugsanlega, fyrir hönd Gunnars Þórs, keypt xG bréf af Óskari.  En þar sem bréfin væru mjög verðmæt gæti kaupunum verið háttað þannig að Óskar ætti rétt á að kaupa bréfin aftur.  Kvaðst Óskar, óreyndur í slíkum viðskiptum, sér hafa fundist þetta góð lausn og ályktað, að Gunnar mundi kaupa bréfin, sjálfur fengi hann andvirðið og gæti keypt bréfin aftur á umsömdu verði.  Þetta hafi gengið eftir.

Óskar kvaðst eingöngu hafa verið í beinu sambandi við Pálma varðandi þessi viðskipti, en hvorki haft bein samskipti við Hilmar né Gunnar Þór.

Vísað var til þess að á dskj. nr. 5 komi fram að á árinu 2008 taldi Óskar sig skulda Gunnari.  Óskar sagði að það hefði verið vegna þess að í febrúar eða mars 2008 hafi Hilmar haft símasamband og sagt honum að ganga frá málum og tjáð honum að hann skuldaði Gunnari Þór þessa peninga, hlutabréfakaupin hefðu aldrei gengið eftir, Gunnar hefði aldrei fengið neitt í hendur um þetta, málið væri alfarið hans [Óskars], hann hefði kvittað undir og skuldaði þessa peninga.

Óskar vísaði til þess að hann hefði sagt í þessum tölvupósti til Hilmars [dskj. nr. 5] „Það var aldrei ætlunin að taka þetta skammtímalán.“  Hann hefði alltaf ætlað að selja bréfin, en í reynsluleysi sínu ekki rengt það sem Hilmar sagði honum.

Óskar kvaðst hafa fengið Þór Ólafsson viðskiptafræðing, sbr. dskj. nr. 10, til að hjálpa sér að leysa málið, taka þessar litlu eignir sem hann átti og reyna að gera eitthvað, en hann væri maður sem vildi standa í skilum.  Hann hafi því fengið Þór til að taka saman allt sem hann átti og til að leggja til, hvernig hann gæti gert hreint fyrir sínum dyrum.  Þór hefði unnið fyrir hann og reynt að „blása einhverju í eignir hans“.  Þór hefði einnig fundað með Hilmari, Gunnari Þór og Gísla Guðna Hall hrl. þar sem Þór lagði fram tillögur um hvernig hann [Óskar] gæti greitt kröfuna.  Á fundinum hefði komið í ljós að Gunnar Þór hafði fengið hlutabréfin.  Þór hefði þá hringt til hans á Englandi og spurt hann, hvað væri í gangi, sjálfur væri hann [Þór] að semja fyrir hans hönd en gagnaðilar væru með bréfin.  Óskar kvaðst þá hafa sagt Þór að það væri rangt, Hilmar hefði sagt honum annað.  Þór hefði þá ítrekað að Gunnar Þór hefði lýst því yfir að hann hefði sjálfur fengið þessi bréf afhent.  Óskar kvaðst þá hafa haft samband við Pálma Sigmarsson og Pálmi síðan samband við Logos lögmenn og í ljós hefði komið að Gunnar hafði fengið bréfin afhent.  Þegar hann áttaði sig á þessu, kvaðst Óskar hafa hringt í Þór og spurt, hvort hann ætti ekki að fá lögmann að málinu fyrir sig.

Lögmaður stefnanda spurði Óskar í hvað tilgangi hann hefði fengið lán hjá Gunnari 22. júní 2007.  Óskar kvaðst hafa fengið peninga greidda frá Gunnari Þór Ólafssyni 22. júní 2007, en hann hefði talið, að Gunnar væri að kaupa af honum xG bréf, eins og Pálmi Sigmarsson hafði sagði honum, og jafnframt, að Gunnar gæti ekki og vildi ekki lána honum.  Honum væri hins vegar boðið að kaupa bréfin til baka og Gunnar fengi einhverja umbun fyrir það - sjálfur gæti hann ekki keypt bréfin á sama verði og Gunnar keypti þau af honum - honum hafi fundist þetta eðlilegt.

Lagt var fyrir Óskar dskj. nr. 3, sem er lánssamningur þar sem Gunnar er lánveitandi en Óskar lántaki.  Óskar kvaðst kannast við þennan samning og að hafa staðið að honum.  Lögmaðurinn benti þá á að hann hefði samt sagt að hann hefði selt hlutabréf, en ekki að gert lánssamning, þrátt fyrir að skrifa undir þennan lánssamning.  Óskar kvaðst hafa talið að svona væri þetta gert.

Spurt var, hvað Pálmi hefði sagt honum um þessi viðskipti.  Og jafnframt bent á að komið hefði fram að Óskar hefði ekki sjálfur persónulega haft sambandi við Hilmar eða Gunnar.  Óskar sagði að Pálmi hefði tjáð sér að Gunnar Þór Ólafsson væri ekki tilbúinn að lána honum peninga.  Síðan hefðu nokkrir dagar liðið og hann viti hvers vegna.  Þetta hafi verið dagarnir, þegar hann var næstum því kominn að því að hætta við að kaupa húsið.  Hann og kona hans hefðu verið komin á fremsta hlunn að draga í land.  Þá hafi Pálmi komið með umræddan millileik og tjáð honum, að Gunnar væri tilbúinn að kaupa af honum bréf á ákveðnu verði, sem hann gæti svo keypt aftur eftir þrjá mánuði.

Spurt var hvort hann hafi ekki átt að setja tryggingu, veðrétt í húsinu sem hann var að kaupa.  Óskar kvaðst kannast við það „úr skjalinu“, en alltaf hefði legið ljóst fyrir að það var ekki hægt.  Hann hafi verið með lán frá Landsbankanum í Lúxemborg.  Í lánssamningnum komi fram, að bankinn getur einn samþykkt að setja á veðrétt nr. 2, 3 eða 4.  Honum sjálfum hafi verið það óheimilt.

Spurt var hvort Pálmi hefði ekki gert honum grein fyrir því að honum bæri að setja húsið að veði á öðrum veðrétti til handa Gunnari á eftir Landsbankanum í Lúxemborg.  Óskar kvaðst kannast við að Pálmi hefði greint honum frá því.  Málið hafi snúist um það að hann væri með lán frá Landsbankanum í Lúxemborg og samkvæmt þeirra skilmálum yrði bankinn að samþykkja frekari veðsetningu hússins.

Spurt var hvenær lánssamningurinn við bankann í Lúxemborg var gerður.  Óskar kvaðst ekki muna nákvæmlega dagsetninguna, en lánssamningurinn hafi legið fyrir þegar viðskiptin voru gerð við Gunnar.  Hann hafi, áður en hann fékk peningana frá Gunnari, skrifað undir lánssamninginn; útilokað hafi verið að Gunnar fengi veð í húsinu.

Vísað var til þess að hann hefði áður sagt, að hann hefði reynt að selja bréf, og spurt var, hvort hann gæti lýst þeim tilraunum.  Óskar kvaðst ekki geta orðað það betur en hann hefði gert áður.  Hann kvaðst bæði sjálfur hafa reynt sölu og orðað það við menn, sem hann hélt að hefðu áhuga á að kaupa bréfin, en hann væri hvorki bankamaður né verðbréfasali.

Spurt var hvaða bréf þetta hafi verið, hvernig hann hafi eignast þau og hvenær.  Óskar sagði að þetta hefðu verið Styrbréf, xG bréf, sem hann keypti á árunum 2000 til 2005 eða 2006.  Hann hafi eignast bréfin smám saman og greitt fyrir þau.

Spurt var á hvað nafni bréfin voru.  Óskar sagði að þau hefðu verið geymd í félagi að nafni Lúka, sem hann eigi hlut í með Pálma Sigmarssyni.  Hann sagði að Lúka hefði átt umrædd bréf.  En sagði síðan að bréf, sem hann átti, hefðu einungis verið vistuð hjá Lúku.  Jafnframt kvaðst hann ekki vita hversu stór hluti af Lúku þau bréf voru sem hann átti.

Spurt var hvers vegna hann hefði ekki haft bréfin á sínu nafni og hvers konar félag Lúka væri?  Óskar sagði að Lúka væri lítið félag sem héldi utan um xG bréfin og geymdi þau.

Lagt var fyrir Óskar dskj. nr. 10.  Vísað var til þess að þar væru eignir hans taldar upp.  Vísað var til þess að í fyrsta tölulið standi: „Hlutabréf í xG Techonology, Inc.  Um er að ræða 170.000 hluta að nafnverði í USD.“  Spurt var hvaða hlutir þetta væru.  Óskar sagði að þetta væru hlutir sem hann hafi talið sig eiga.  Þetta væru hlutirnir, sem um var rætt, og komnir væru í hendur Gunnars Þórs Ólafssonar.

Vísað var til þess að hann hefði sagt rétt áðan að hann væri búinn að selja þá.  Óskar játaði því.  Hann kvaðst hafa talið sig hafa selt Gunnari Þór Ólafssyni þessa hluti.  Hilmar hafi sagt honum að svo væri ekki, það hefði ekki gengið eftir og ekki hafi orðið að þessum kaupum og hann skuldi þessa peninga.  Því hafi hann með góðri samvisku og í góðri trú tínt allt, sem var í skúffunum á heimilinu, til að bjóða Gunnari til þess að ganga frá sínum málum [við Gunnar].  Þetta væru sömu bréfin.  Komið hefði í ljós að Gunnar hafði fengið bréfin afhent af Logos mönnunum.

Vísað var til þess að Pálmi Sigmarsson hafði átt að greiða 9.000.000 inn á lánið sem Gunnar hafði veitt.  Óskar kvaðst muna eftir því.

Að ósk lögmanns stefnda kom stefnandi aftur fyrir til frekari skýrslutöku.  Lögmaðurinn sagði að komið hefði fram hjá Óskari áðan að Þór hefði hringt í hann eftir fund með stefnanda, lögmanni stefnanda og Hilmari þar sem stefnandi hafi staðfest að hann hefði umrædd hlutabréf og hefði fengið þau á sínum tíma.  Lögmaðurinn óskaði eftir staðfestingu stefnanda á að svo væri.  Stefnandi kvaðst muna eftir þessum bréfum á þessum fundi, en hann hefði ekki tekið við bréfunum sem greiðslu frá Óskari eða nokkuð í þá veru.

Hilmar Steinar Sigurðsson bar fyrir rétti m.a. að hann hefði verið starfsmaður í einkabankaþjónustu Glitnis banka hf.  Hann kvaðst hafa séð um mál Gunnars Þórs Ólafssonar í bankanum.

Hilmar sagði að viðskiptavinir bankans, sem áttu yfir hundrað milljónir, hafi notið einkabankaþjónustu.  Stærsta eign Gunnars Þórs í júní 2007 hafi verið hlutabréfaeign í Styr.  Hann hafi einnig átt hlutabréf í Kaupþingi og fleiri eignir.

Hilmar sagði að Styr væri íslenskt eignarhaldsfélag, óskráð.  Undirliggjandi eign félagsins hafi verið eign í erlendu félagi, xG, sem var skráð á gráum markaði í London.  Styr væri íslenskt hlutafélag sem hélt utan um hluti Íslendinganna í xG.  Hlutahafar í Styr gátu ekki selt hlutabréf í xG beint.

Hilmar sagði að Gunnar Þór hefði átt mörg bréf í Styr vegna þess að Pálmi Sigmarsson skuldaði honum peninga, þrjú hundruð milljónir.  Ákveðið hefði verið að taka hlut í þessu íslenska félagi upp í skuldina.  Þeir hafi talið minni hættu við að eiga þau bréf í þeirri von, að eitthvað kæmi út úr því, heldur en að eiga beina kröfu á Pálma Sigmarsson.  Hilmar sagði að þó hefði nánast verið vonlaust að selja hlutabréf í Styr.  Einstök viðskipti hefðu verið með bréfin, en ekki verið skráð verð á þeim.  Ef svo bar undir hefðu menn komið sér saman um verð, en það hafi verið mjög lágt.  Þau viðskipti sem áttu sér stað með hlutabréf í Styr hefðu aðallega verið með aðkomu Pálma.  Hann hafi selt þau erlendum aðilum.  Engin sala á hlutabréfum í Styr hafi farið í gegnum bankann.

Hilmar sagði að Pálmi Sigmarsson hefði lengi verið á verðbréfa- og fjárfestingamarkaði.  Hann hafi starfað hjá félagi að nafni Hans, Handsal í gamla daga.  Pálmi hafi einnig lengi verið í fasteignafjárfestingum hér á landi.

Vísað var til þess að umrædd skuld hafi verið gerð upp í lok árs 2005 en þessi viðskipti við Óskar, sem hér um ræðir, hafi verið um mitt ár 2007.  Spurt var hvort aftur hafi safnast upp skuld Pálma við Gunnar.  Hilmar játaði því.  Um hafi verið að ræða milli tvöhundruð og þrjúhundruð milljónir.

Hilmar kvaðst þekkja þann lánssamning milli Gunnars Þórs og Óskars sem hér um ræðir.  Lögmaður stefnanda lagði fyrir Hilmar dskj. nr. 4 og dskj. nr. 11, sem áður var getið, og bað hann um að lýsa aðdraganda lánssamningsins.

Hilmar sagði að Pálmi Sigmarsson hefði haft samband við sig í bankanum og óskað eftir að leitað yrði að láni fyrir Óskar Finnsson til þess að nýta til húsakaupi í London.  Upphaflega var beðið um 500.000 pund en það síðan lækkað í 350.000 pund.  Málið hafi verið kynnt þannig að Óskar væri búinn fjármagna sig gegnum Landsbankann í Lúx, en þetta væri skammtíma redding þar til Landsbankinn í Lúx myndi fjármagna Óskar í þessum húsakaupum.  Málið yrði að gerast gríðarlega hratt því hann væri að missa af ákveðnu húsi, en það væri mjög slæmt.  Eftir að hafa skoðað málið í miklum flýti hafi verið ákveðið að hafna þessari beiðni um lán, því að það voru ófrágengin mál gagnvart Pálma Sigmarssyni í bankanum og þeir hefðu ekki treyst hlutunum sem hann var að kynna.  Síðan hafi Pálmi ítrekað beiðni sína og sagt þeim að mikið væri í húfi að útvega þetta lán og ítrekað að þetta væri skammtíma redding og í boði væri tryggingarbréf í húsinu að veði fyrir þessu láni og einnig gæti hann lánað hlutabréf í Styr sem veð fyrir láninu.  Það sem líka hafi gerst á undan, áður en lánið var veitt, var að Landsbankinn í Lúx krafðist einhvers konar staðfestingar á að Óskar hefði þessa peninga til umráða.

Vísað var í tölvupóst, dskj. nr. 4, sem Hilmar sendi Pálma 6. júní 2007, kl. 13:46, um nýja tillögu á lánveitingu til Óskars þar sem segir: „Ef Gunnar fær uppgjör í peningum eða örugga kröfu fyrir andvirði þessa Spectra hedge fund sjóðs c.a. 25 m. kr. ISK þá er hann reiðubúinn að lána Óskari 330.000 GBP í 6 mánuði óskar (eða Luca) framselur 150.000 bréf á Gunnar á genginu 5.0, Óskar hefur kauprétt á genginu 6.0 til 15. des. n.k.  Gunnar hefur einnig sölurétt á 6.0 til 15 des n.k.  Gunnar fær tryggingarbréf í húsinu að fjárhæð 350.000 GBP 2 veðréttur, auk lánasamnings upp á 330.000 GBP með 12% föstum vöxtum, gjalddaga 15. des n.k.  Gunnar afhendir frumrit lánasamning og tryggingarbréf til Óskars gegn peningum eða Styrbréfin verða seld á markaði (þá hefur Óskar ekki nýtt kaupréttinn á 6.0), sala bréfana nægir vonandi fyrir höfuðstól og vöxtum, ef ekki þá verður Óskar/Pálmi að bæta við greiðsluna. – nýti Óskar ekki kaupréttinn og bréfin verða seld af Gunnari, þau hafa hækkað talsvert umfram kaupverð þá tekur Gunnar allann hagnað og selur bréfin og afhendir Óskari lánaskjalið og tryggingarbréfið án sérstakrar greiðslu þar sem sala Styr bréfana nægir.“  Lögmaður stefnanda bað Hilmar að reifa efni þessa pósts.

Hilmar sagði að þetta væri það sem hann hefði verið að lýsa að Gunnar hafi ákveðið í samráði við bankann að lána þessa peninga í sex mánuði gegn þessu tryggingabréfi í fasteigninni í London og gegn því að Pálmi Sigmarsson, sem átti auðvitað Lúka, mundi lána bréf í Styr þangað til lánið yrði fullgreitt.  Síðan hafi verið einhverjar vangaveltur um einhvern kaup- og sölurétt en það var ekki gengið frá neinum samningi um slíkt.

Lögmaður stefnanda spurði hvort það sem stendur í tölvupóstinum: „þá er hann reiðubúinn að lána Óskari 330.000 GBP í 6 mánuði óskar (eða Luca) framselur 150.000 bréf á Gunnar á genginu 5.0,“ hafi verið framsal til tryggingar.  Hilmar sagði að bréfin hefðu verið lögð fram og boðin til tryggingar fyrir þessu láni.  Raunar hafi Óskar ekki verið skráður fyrir neinum bréfum í Styr en Pálmi Sigmarsson, sem kynnti þetta mál, og hafði milligöngu um þetta mál fyrir Óskar, hafi lagt til þessi bréf.  Það var ekki gerður neinn kaupsamningur um þessi bréf, þau voru ekkert framseld í formlegu framsali.  Þau voru bara færð inn til bankans, færð yfir á nafn Gunnars.  Þetta voru ekki rafræn bréf eða slíkt.  Það var bara haldið utan um þetta í hluthafaskránni hjá Logos.  Þetta væru óskráð bréf sem höfðu ekkert verðmæti á markaðnum.

Í byrjun júní, kvað Hilmar þessar viðræður hafa fram farið, og þurft hafi að senda staðfestingu á Landsbankann í Lux og segja að Óskar hefði þetta eiginfé til húsakaupa.  Lánið hafi síðan verið greitt út og lánasamningur undirritaður í lok júní.

Lögmaður stefnanda vísaði til þess að staðfesting til Landsbankans í Lúxemborg komi fram á dskj. nr. 11 á bls. 3, þar í sé tölvupóstur neðst frá 6. júní 2007 kl. 18:08. [frá Hilmari til Pálma], en þar segir:

Það staðfestist hér með að Gunnar Þór Ólafsson kt. 190838-4399 mun kaupa í Styr ehf. hlutabréf nafnverð 150.000 hluti af Óskari S Finnssyni,  Greiðsla hlutabréfana fer fram eigi síðar enn 30 júní 2007 inn reikning sem Landsbanki Íslands Luxemburg vísar til  Söluandvirði hlutabréfana er GBP 350.000 nettó  Óskar S Finnsson í samvinnu við Landsbanka Íslands mun afhenda Gunnari Þór Ólafssyni frumrit að Tryggingarbréfi GBP 350.000 með 2 veðrétti í húseign Óskars í London og hluthafaskrá Styr ehf. (Logos) mun staðfesta að hlutabréfin eru veðbandslaus og án annara kvað

Lögmaðurinn spurði hvaða staðfesting þetta væri.  Hilmar sagði að Pálmi hefði beðið um – þegar menn væru búnir að ákveða að fara í þetta mál – að gera þessa skammtíma reddingu fyrir Óskar Finnsson þannig að hann gæti keypt þetta hús.  Þá hafi hann raunar verið að biðja um staðfestingu á að hann væri raunverulega að fá þessa fjármuni og þeir myndu millifæra þá.

Lögmaðurinn vísaði þá aftur í dskj. nr. 4, tölvupóst á fyrstu síðunni kl. 14:01, frá Pálma til Hilmars en þar standi í fimmtu línu: „Til að einfalda þetta og til að vinna tíma þá dugir væntanlega að staðfesta við Landsbankann í Luxemburg að eigi síðar en xxxxx þá muni Glitnit fyrir hönd GTO greiða Landsbankanum í Lux fyrir hönd Óskars vegna kaupa Styr bréfum og Landsbankinn muni tryggja veðrétt GTO í tryggingabréfinu“ eða eitthvað í þeim dúr.  Hilmar sagði að þarna væri Pálmi að óska eftir yfirlýsingu sem myndi staðfesta það að hann hefði aðgang að þessum fjármunum.  Framangreindan tölvupóstur frá kl. 18:08 hafi hann sent til að uppfylla þessa beiðni.  Hilmar staðfesti að sama dag kl. 6:15 PM hefði hann sent Pálma tölvupóst er fram kemur á dskj. nr. 4.  Lögmaður spurði hvort það væri rétt skilið að þar kæmu lánsskilmálarnir fram.  Hilmar gaf ekkert út á það, en sagði, að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir til Pálma og þessara aðila, þá hefðu þeir ekki við það að afhenda umrætt tryggingarbréf, sem þeir hefðu átt að gera samkvæmt þessum skilmálum.

Lögmaðurinn vísaði til þess að Óskar héldi því fram í þessu máli, að hann skuldaði Gunnari ekki neitt, því að Gunnar hefði keypt af honum bréf í xG fyrir jafn háa upphæð.

Hilmar sagði að Gunnar hefði átt tvær og hálfa milljón hluta í Styr og hefði á þessum tíma verið að reyna losa sig við Styr bréf.  Margir gætu staðfest það, bæði í bankanum og á markaðinum.  Menn hefðu verið að reyna að losna við þetta, þar á meðal Gunnar.  Mjög erfitt hefði verið að selja þau, nánast ómögulegt.  Ef Gunnar hefði verið að kaupa hlutabréf en ekki lána peninga þá hefði lánssamningur aðila, dags. 22. júní 2007, sbr dskj. nr. 3, verið þarflaus.  Þá hefði verið hægt að ganga frá málinu í byrjun júní, þegar Landsbankinn bað um staðfestinguna, en hinn 6. júní sendi hann á Landsbankann staðfestingu þess efnis að Óskar væri að fá þessa peninga og lánasamningurinn var gerður í lok júní þegar greiðslan átti til Landsbankans sér stað.  Ef þetta hefði verið eins og Óskar heldur fram þá hefði skjalagerðin verið öðruvísi og ekki gerður lánssamningur.  Á þessum tíma hafi undirliggjandi eignbréf verið skráð á 12 eða 13 eins og komi fram í skjali er liggur fyrir í málinu.  Óskar hefði aldrei farið að selja bréf sín á 5.  Hann hefði ekki selt bréf sín á hálfvirði miðað við undirliggjandi verð.

Lögmaður stefnda lagði fyrir Hilmar dskj. nr. 4 og dskj. nr. 11, sem áður var getið, og spurði, hvort hann gæti staðfest að hann hefði verið aðili að þessum tölvupóstsamskiptum.  Hilmar kvaðst geta það.  Þetta væru tölvupóstar sem hann kannaðist við.

Vísað var til þess að í tölvupóstinum komi fram að Gunnari Þór Ólafssyni hafi borist eintak, og lögmaðurinn spurði, hvort Gunnar hafi verið ljóst hvað þarna fór á milli á þessum tíma.  Hilmar kvaðst ekki vita betur en Gunnar Þór hafi vitað hvað þarna fór fram.

Lögmaðurinn vísaði til dskj. nr. 11 á bls. 3, þar sem segir að Gunnar muni kaupa bréf í Styr af Óskari, og spurði Hilmar, hvort honum hafi verið kunnugt, að eftir þetta voru hlutirnir færðir yfir á nafn Gunnars.  Hilmar játað því.  Það hefði raunar verið gert þannig, að bréfin voru lögð fram sem trygging og færð á nafn Gunnars.

Lögmaðurinn spurði þá hvers vegna bréfin hefðu ekki frekar verið veðsett en lögð fram sem trygging.  Hilmar sagði að erfitt hefði verið að útfæra það vegna þess að Óskar átti ekki bréfin sjálfur samkvæmt skráningu, heldur Styr.  Pálmi hefði boðið að lána bréf í þetta.  Bankinn hefði verið í viðskiptasambandi við Pálma.  Ákveðið traust hefði ríkt þar á milli.  Pálmi hefði fært bréfin yfir á Gunnar og treyst því að bankinn myndi færa bréfin til sín um leið og lánið væri greitt.

Heiðar Ásberg Ólafsson, héraðsdómslögmaður hjá Logos lögmannsþjónustu, kom fyrir réttinn sem vitni.  Lögmaður stefnda lagði fyrir hann dskj. nr. 11, sem áður var getið.  Heiðar kvaðst kannast við tölvupóst sem þar kemur fram að hann hafi ýmist sent eða móttekið.

Lögmaðurinn spurði um hvaða félög væri þarna að ræða en þarna komi fram xG Technology, Luca Invetments og Styr ehf.

Heiðar sagði að fyrirkomulagið með xG bréfin væri þannig að árið 2005 átti stór hópur íslenskra fjárfesta hluta í xG Technology, sem er bandarískt félag.  Þessir hlutir hafi allir verið færðir inn í íslenskt félag sem heitir Styr ehf., sem var stofnað í árslok 2005 ef hann muni það rétt.  Eftir það hafi allir þessir hluthafar átt hlutabréf í Styr ehf.  Þetta hafi í upphafi verið tíu manna hópur og í dag, ef hann muni það rétt, væru hluthafarnir 43 þannig að hluthafaeignin hefur dreifst á þessum árum sem liðin eru.  Það sem þeir gerðu var að eiga viðskipti með hlutabréf í Styr, sem endurspegluðu raunar undirliggjandi eign, sem eru hlutirnir í xG.  Luca Investment hafi verið stærsti hluthafann í Styr og hafi á tímabili verið með rúmlega 30%.  Styr hafi verið stærsti hluthafinn í byrjun og væri stærsti eða næst stærsti hluthafi í dag.

Heiðar sagði að hluthafaskrá Styr hefði alltaf verið haldin með tvöföldum hætti; hluthafar eiga hlut í Styr, því að það væri það sem þeir eiga samkvæmt íslenskum lögum.  En svo hafi alltaf verið látið endurspeglast hvað það í raun þýddi mikið af hlutum í undirliggjandi eign.  Styr eigi 23 milljónir bréfa, þannig af ef þú átt 10% í félaginu þá átt þú 50.000 hluti í Styr og þá áttu 10% af hinni undirliggjandi eign.  Þannig hafi menn verðmetið eignina.

Lögmaður stefnda vísaði til þess að í tölvupóstinum hafi hann [Heiðar] staðfest að Óskar ætti 150.000 hluti.  Heiðar sagði að það hefði verið Luca Investmen, sem er stærsti hluthafinn.  Heiðar kvaðst líka hafa verið með aðgang að þeirri hlutaskrá; Óskar hefði þar átt þennan hluta í það minnsta.  Í rauninni hefðu einungis ákveðnir hlutir verið vistaðir þar.  Þetta hafi í rauninni verið einn aðili út á við þó að undirliggjandi eigendur væru fleiri.  Rétt eins og Styr væri einn eigandi að hlutunum í xG þó að undirliggjandi eigendur væru 40.  Þetta hafi bara verið gert til að einfalda hlutina.

Lögmaður stefnda vísaði til þess að í tölvupóstinum komi fram að hann [Heiðar] hefði fært hluti frá SMM yfir á nafn Gunnars Þórs Ólafssonar og spurði hvort það hefði verið vegna hlutanna frá Óskari.  Heiðar játaði því og sagði, að þetta væri í rauninni þannig að þegar Gunnar keypti þessi bréf af Óskari samkvæmt fyrirmælum úr reikningsstýringu Glitnis, þá hefðu þessi bréf, sem Óskar átti og voru skráð á nafn Luca, verið veðsett.  Ekki hefði verið unnt að færa þau til.  Þá hefði verið samið um að menn fengju einfaldlega bréf lánuð frá þriðja aðila, sem varð raunar bara réttarsamband milli Óskars og þriðja aðila, til þess að geta selt bréfin áfram.  Nú væri það þannig að stjórn félagsins bæri ábyrgð á hlutaskránni, en þeir hefðu falið honum [Heiðari] á árinu 2006 að sjá alfarið um þetta, en um töluvert mikið af færslum væri að ræða; alltaf verið að kaupa og selja hluti og breyta hlutaskránni.  En áður en hann færði hluti til og staðfesti nýja hlutaskrá fullvissað hann sig um hvort hlutir, sem hann væri að færa til, væru sannanlega lausir, þ.e. óveðsettir.  Að öðrum kosti væri ekki hægt að færa þá til.  Þess vegna – þegar búið var að gera þennan samning – þ.e. Óskar selur hluti til Gunnars og afhendir þá tveimur til þremur vikum seinna, þegar hann var búinn að útvega hluti sem sannanlega voru óveðsettir.  Þá fyrst hafi verið hægt að búa til nýja hlutskrá og staðfesta hana.  Þegar Styr var stofnað hafi verið um tíu hluthafa að ræða en þeir væru í dag 43.  Mestu viðskiptin hefðu verið á árunum 2006 til 2007, eitthvað á árinu 2008.  Auðvelt væri að rekja þetta með því að skoða hvernig hlutaskráin þróaðist.  Hún hefði alltaf verið uppfærð reglulega og staðfest.  Hlutirnir hefðu verið færðir yfir á nafn Gunnars.  Tölvupóstur og bréf hefðu komið frá eignastýringu Glitnis, þar sem verið var að færa til, kaupa hluti og selja hluti.  Þessi bréf væru undirrituð af Hilmari Sigurssyni hjá Glitni fyrir hönd Gunnars.  Á grundvelli þess hafi hlutirnir verið færðir yfir.  Bréfið væri skrifað árið 2007.  Þar væri verið að kaupa bréf í Styr í þremur eða fjórum færslum og selja bréf í Styr í þremur eða fjórum færslum.Lögmaður stefnandi vísaði til þess að í umræddum tölvupósti hinn 5. júní 2007, kl. 21:44, segi: „Heill og sæll, ég get staðfest að Óskar Finnsson er skráður fyrir 150.000 hlutum í xG Technology í gegnum Luca Investments.  Hlutirnir jafngilda 3.232 hlut í Styr ehf.“  Lögmaðurinn spurði hvað Luca Investment væri.  Heiðar sagði að Luca Investment væri næst stærsti hluthafinn í Styr.  Þetta væri eigna haldsfélag sem vær í vörslu, en hann kvaðst ekki muna hvar.  Þetta félag hefði á sínum tíma verið langstærsti hluthafinn í xG af þeim hópi, sem stofnaði Styr ehf., og hefði á sínum tíma verið með þrettán miljónir hluta en þegar Styr var stofnað hafi öll þessi bréf verið færð yfir í Styr.  Þá hafi Luca átt í rauninni aðeins afleita stærð í xG.  Óskar hafi verið hluthafi í Luca.

Lögmaður stefnanda vísaði til þess að í umræddum tölvupósti hinn 14. júní 2009, kl. 37:52, segi: „Sælir – Fann þetta loksins.  Þann 20.06.07 lánaði SMM jafngildi 150k xG bréfa til að láta GÞÓ fá.  Gerður var einfaldur samningur á milli PS (ekki Luca eða Óskars) og GÞÓ vegna þess.  Þessum bréfum hefur ekki verið skilað aftur til SMM en GÞÓ fékk bréfin á sitt nafn þennan dag og hefur hann þau enn í dag.“  Lögmaður spurði hver SMM væri.  Heiðar sagði að það væri Sigurður M. Magnússon, forstjóri geislavarna ríkisins, einn af stóru hluthöfunum í Styr.  Hann hefði átt bréf sem voru óveðsett.  Það væru þau bréf sem voru seld og færð yfir á nafn Gunnars Þórs í þessum viðskiptum.

Heiðar sagði að allt fram á mitt ár 2008 hefði verið markaður fyrir xG bréf.  Hlutaskráin og þróun hennar sýndi það og sannaði mjög vel, en hún væri uppfærð að jafnaði einu sinni í mánuði.

Spurt var hvort hann kannaðist við samning Gunnars Þórs Ólafssonar við félag, sem heitir ALG.  Heiðar kvaðst kannast við hann.  Hann hefði fengið hann inn á borð til sín.  Þá var spurt hvort hann vissi að samningurinn hefði aldrei verið efndur af ALG.  Heiðar kvaðst kannast við, að hann hefði ekki verið efndur samkvæmt efni sínu, þegar átti að efna hann.  Samningurinn hins vegar verið framlengdur, allavega einu sinni ef ekki tvisvar.  Hann vissi ekki frekar, hvernig þessi „ágæti samningur“ endaði.  Ef hann myndi rétt, þá hefði þar verið borið við svikum af hálfu seljanda bréfanna; hann vissi ekki, hvort því væri haldið fram hér; allavega hefði það verið sérstakt mál og eftir að hann, sem umsjónamaður hlutafjárskrár, leitað eftir því, af því að hann vissi að það hefðu verið viðskipti, en vissi ekki hvort þau hefðu verið kláruð; þá hefði hann leitað ítrekað eftir upplýsingum um það, hvort menn hefðu klárað þetta.  Hann hefði vitað að aðilar þess máls, Gunnar Þór og ALG, voru í viðræðum um uppgjör á þeim samningi, allavega á árinu 2009.  Heiðar kvaðst einnig geta staðfest að enn í dag væru í hlutaskrá Styr bréf skráð veðsett Gunnari Þór út af þessum samningi, þannig að samningurinn hefði haft töluvert gildi milli aðilanna.  Gunnar Þór væri með veð í nokkuð mörgum bréfum í þessu félagi.

Þórir Örn Ólafsson bar fyrir rétti m.a. að hann hefði staðið að uppgjöri fyrir stefnda, Óskar.  Hann staðfesti að hann hefði ritað bréfið, sem fram kemur á dskj. nr.10, til Hilmars Sigurðssonar, dagsett 24. apríl 2009.  Hann kvaðst hafa átt formlegan fund í maí 2009 með Gísla Guðna Hall hrl., Gunnari Þór og Hilmari Sigurðssyni.  Á fundinum kvað Þórir efni bréfsins hafa verið rætt.  Menn hefðu farið yfir hvað hægt væri að gera og þá hefði umræðan aðallega snúist um fyrsta liðinn í bréfinu, þ.e. um hlutabréfaeign Óskars í xG.  Gunnar Þór hefði spurt, hvort ætlunin væri að láta hann hafa sömu bréf og hann hefði þegar fengið.  Kvaðst Þórir hafa sagt að hann þekkti það ekki og þyrfti að kanna það.  Þar með hefði fundi verið slitið.

Þórir kvaðst hafa hringt í Óskar að fundi loknum og spurt hann um þetta.  Óskar hefði sagt að ekki væri um sömu hlutina að ræða.  Þeir hefðu farið að grennslast fyrir um þetta, en aðkoma hans að málinu verið gjörbreytt.  Í upphafi hefði hann reynt að tína til eignir Óskars eins og unnt væri svo að hægt yrði að ganga í málið og semja um það.  Þegar þarna var komið hefði staðan verið sú að fá lögmann að málinu.  Þar með hefði hans afskiptum að málinu lokið.

Þórir kvað Óskar hafa sagt að hann gæti afhent hlutabréf í xG sem tilgreind eru í bréfinu til Hilmars Sigurðssonar, dags. 24. apríl 2009, dskj. nr. 10.

Pálmi Sigmarsson bar símleiðis fyrir rétti m.a. að Óskar hefði leitað til sín vegna skorts hans á fé til að kaupa fasteign í Bretlandi.  Pálmi kvaðst hafa verið í ágætu sambandi í nokkur ár við Hilmar Sigurðsson hjá Glitni og Gunnar Þór Ólafsson.  Hann kvaðst hafa haft samband við Hilmar og óskaði eftir að þeir könnuðu, hvort þeir hefðu áhuga á að koma að einverri slíkri fjármögnun eins og Óskar hafði lagt fram, bæði verðbréf og tryggingar í húsnæðinu sem hann var að kaupa.  Þetta hafi velst um í nokkurn tíma.  Í fyrstu hafi komið neikvætt svar um áhuga á að fjármagna þetta, en hafi seinna meir hafi fundist grundvöllur að samkomulagi, hvernig væri hægt að koma að þessu.  Lýsingu á því væri best lýst í tölvupóstum, sem fóru á milli í júní 2007, þar sem rætt er um að veð yrði í húsi Óskars, með færi bréf, hlutabréf, sem Óskar átti gegnum Styr í félaginu xG Technology.  Þau yrðu færð og framseld til Gunnars.  Óskar hafi síðan átt að kaupa bréfin til baka í desember 2007, og á sama tíma átti Gunnar að hafa sölurétt á bréfunum, þannig að gæti Óskar ekki staðið við kaupin þá gæti Gunnar selt bréfin á markaði, og yrði einhver mismunur þá yrði Óskar að bæta það.

Aðspurður kvaðst Pálmi hafa í höndum tölvupóst, sem lagður hefur verið fram í málinu.  Vísað var til dskj. nr. 4, sem er tölvupóstur frá 6. júní 2007 milli hans og Hilmars Steinars Sigurðssonar, er áður var getið.  Pálmi kvað tölvupóstinn lýsa vel þessu sambandi.  Þá var vísað til dskj. nr. 11, sem áður var getið.  Pálmar staðfesti að hafa fengið tölvupóst frá Hilmari, sem tímasettur er 6. júní 2007 kl. 18.08, sem er hluti af dskj. nr. 11.

Pálmi sagði að xG Technology væri skráð á hlutabréfamarkaði í London.  Þar hefðu viðskipti á þessum tíma, ef hann myndi rétt, verið á genginu 60 eða eitthvað þannig.  Styr hefði átti hlutabréf í xG Technology og Luca verið félag í eigu hans, Óskars og fleiri aðila, sem áttu hlut í Styr í gegnum Luca.  Nokkur viðskipti hefðu verið með hlutabréf í Styr og þau hefðu alltaf verið miðuð við hlutabréfaverð í xG Technology, því að eina eign Styr voru hlutabréf í xG Technology og engar aðrar skuldir eða eignir hjá Styr.

Lögmaður stefnda vísaði aftur til tölvupósts, sem er hluti af dskj. nr. 11, þar sem Heiðar Ásberg Atlason hdl. sendir Hilmari Steinari Sigurðssyni 5. júní 2007, kl 21:44, og jafnframt til tölvupósts frá Heiðari Ásberg til Pálma 14. júní 2009.  Pálmi sagðist kannast við þennan tölvupóst.  Luca hefði á þessum tíma verið búin að veðsetja sína hluti í Styr, en Óskar   þurft á sínum bréfum að halda vegna samnings við Gunnar Þór Ólafsson.  Og þar sem hann [Pálmi] og Sigurður hefðu aðstoða hvor annan í svona málum þá hafi Sigurður boðist til að lána honum hlutabréf til þess að hann gæti afhent Óskari og Óskar Gunnari.

Lögmaður stefnanda vísaði til tölvupósts, dagssettum 6. júní 2007, kl. 13:46, frá Hilmari Steinari Sigurðssyni til Pálma, sem fram kemur á dskj. nr. 4, þar sem segir, að Óskar hafi átt að framselja 150.000 bréf til Gunnars á genginu 5 og síðan hefðu aðilar kaup og sölurétt.  Pálmi staðfesti að hann hefði fengið þennan tölvupóst.  Lögmaðurinn spurði, hvort umrætt framsal hefði verið til tryggingar á láninu.  Pálmi spurði þá, hvort það væri ekki rétt að um það snérist þetta mál, hvort um lán væri að ræða eða kaup á bréfum með endurkauparétti.  Hann kvaðst halda að þeir sem læsu tölvupóstinn gætu „spjarað sig á því“ um hvort hefði verð að ræða.  Hann lýsti furðu sinni á því að bréfin hefðu verið sett að handveði og verðlögð á sama tíma og kauptilkynning var send kl. 19:09 um kaup á bréfum.

Niðurstaða:  Stefndi byggir á því að hafa í raun ekki samið við stefnanda með lögmætum hætti um að hann fengi að láni 350.000 bresk pund hjá stefnanda svo sem „lánssamningur“ aðila frá 22. júní 2007 kveður á um.  Viðskipti aðila hafi raunar verið þau að stefnandi hafi keypti af honum 150.000 hluti í xG Technology í gegnum Luca Investment.  Á þeim tíma hafi þessi hlutabréf, miðað við umsamið gengi, verið að verðmæti 46.905.000 kr., en verðmæti 350.000 breskra punda verið 43.687.000 kr.  Og raunar skuldi stefnandi honum mismuninn.

Af gögnum málsins verður ekki með ótvíræðum hætti ráðið að viðskipti aðila, sem hér um ræðir, hafi verið með þessum hætti.  En þar hvílir sönnunarbyrðin á stefnda.

Lánssamningur aðila frá 22. júní 2007 kveður skýlaust á um að stefndi fái að láni 350.000 bresk pund hjá stefnanda og stefndi skuldbindi sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu hinn 15. desember 2008.  Tillögur um viðskipti milli aðila, sem fram fóru með tölvupósti milli Hilmars Steinars Sigurðssonar og Pálma Sigmarssona fyrir 22. júní 2007, geta litlu um það breytt.  Hins vegar kemur fram í tölvupósti frá stefnda sjálfum til Hilmars Steinars Sigurðssonar, hinn 17. mars 2008, að það var „aldrei ætlunin að taka þetta skammtímalán sem ég er með hjá ykkur þar sem ég ætlaði að nota hluta af hlutabréfum mínum.  En því miður á þessum tíma var ekki hægt að losa þau“.

Af þessu má ljóst vera að stefndi taldi sig þá hafa fengið lán að fjárhæð 350.000 bresk pund hjá stefnanda án þess að hann tengdi það beinlínis við skráningu á 150.000 hlutum SMM í xG Technology í gegnum Luca Investment á stefnanda, svo sem gert var fyrir hönd stefnda, og hann mátti vita í júní 2007, þar sem hlutir hans sjálfs í xG Technology í gegnum Luca Investment voru þá veðsettir og hvorki nothæfir til að greiða lánið frá stefnanda né skuldajafna á móti því.

Af öllu framangreindu verður ekki annað ráðið en stefndi skuldi stefnanda umkrafða fjárhæð auk vaxta og dráttarvaxta, allt eins og í dómsorði segir.

Rétt er að stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Óskar Sigurjón Finnsson, greiði stefnanda, Gunnari Þór Ólafssyni, 350.000 bresk sterlingspund auk 12% fastra vaxta frá 22. júní 2007 til 15. desember 2007, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.