Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2016

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráherra um framsal X til Póllands var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.  

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. maí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016, þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 17. febrúar sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins eru skilyrði til framsals varnaraðila samkvæmt 3. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 uppfyllt varðandi brot hans, en mat innanríkisráðherra á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984 verður ekki endurskoðað, enda hafa engar líkur verið að því leiddar að það mat hafi ekki fram með réttum og málefnalegum hætti, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 11. júlí 2014 í málinu nr. 480/2014. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.

                                                         Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 248.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. maí 2016.

Sóknaraðili krefst staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytis frá 17. febrúar 2016 um framsal varnaraðila X til Póllands.

Varnaraðili krefst þess að fram kominni ákvörðun innanríkisráðuneytisins um framsal varnaraðila til Póllands verði hafnað. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr ríkissjóði að mati dómsins.

Í greinargerð sóknaraðila, dagsettri 15. mars 2016, segir m.a:

,,Upphaf málsins er eftirlýsing pólskra yfirvalda í Schengen-upplýsingakerfinu en í tilefni af henni var varnaraðili boðaður í skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 2. október sl. Var honum kynnt eftirlýsingin og meðfylgjandi handtökuskipun og staðfesti hann að gögnin ættu við hann. Um það sem fram kom í skýrslutökunni vísast til fyrirliggjandi skýrslu af varnaraðila, dags. 2. október sl. Í framhaldi af skýrslutökunni var varnaraðili úrskurðaður í farbann.

Framsalsbeiðnin, dags. 8. október 2015, er gefin út af dómstóli í [...] í Póllandi og með henni er óskað eftir framsali varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar. Samkvæmt því sem fram kemur í framsalsbeiðninni og fylgigögnum hennar, var varnaraðili með dómi héraðsdóms í [...] frá 30. janúar 2013 í máli nr. XIV K 933/11 dæmdur í 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið til 4 ára, auk þess sem varnaraðila var gert að greiða skaðabætur innan eins árs frá því að dómurinn varð endanlegur. Loks var varnaraðila samkvæmt nefndum dómi gert að sæta eftirliti skilorðsfulltrúa á skilorðstíma. Samkvæmt dóminum var varnaraðili í fyrsta lagi fundinn sekur um fjársvik, þ.e. brot gegn 1. mgr. 286. gr. og 1. mgr. 297. gr., sbr. 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningarlaga, framið þann 23. febrúar 2010 í [...]. Í öðru lagi var hann fundinn sekur um hlutdeild í fjársvikum, þ.e. brot gegn 1. mgr. 286. gr. og 1. mgr. 297. gr., sbr. 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 11. gr. pólskra hegningarlaga, framið þann 5. mars 2010 í [...]. Í þriðja lagi var varnaraðili fundinn sekur um fjársvik, þ.e. brot gegn 1. mgr. 286. gr. pólskra hegningarlaga, framið þann 23. mars 2009 í [...].

Með ákvörðun héraðsdóms í [...] frá 27. maí 2014 í máli nr. Ko 533/14 var varnaraðila vegna skilorðsrofa gert að afplána 18 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt framangreindum dómi héraðsdóms í [...] frá 30. janúar 2013 í máli nr. XIV K 933/11 sem varð endanlegur 7. febrúar s.á.

Viðeigandi ákvæði pólskra laga eru meðfylgjandi framsalsbeiðninni sem og framangreindur dómur og ákvörðun ásamt staðfestingu á ríkisfangi varnaraðila og ljósmynd af honum. Um nánari lýsingu málavaxta og skilorðsrofa vísast til framsalsbeiðninnar og fylgigagna hennar.

Ríkissaksóknari framsendi framsalsbeiðnina til lögreglustjórans á höfuðborgar-svæðinu þann 23. október sl., með beiðni um kynningu í skýrslutöku og framlengingu á farbanni, lögreglustjórinn kynnti varnaraðila beiðnina samdægurs. Aðspurður kvað hann framsalsbeiðni þarlendra yfirvalda eiga við sig og að hann væri að reyna að redda málinu. Kvað hann þetta snúast um peningafjárhæðina og að hann ætlaði að reyna að redda þessu. Varnaraðili kvaðst mótmæla framsalsbeiðninni og sagðist eiga son sem væri í skóla hér á landi. Var honum m.a. kynnt 7. gr. framsalslaga og vísast að öðru leyti til samantektarinnar.

Fram kemur í lögreglukerfi að til meðferðar er hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu mál er varðar meint umferðarlagabrot varnaraðila. Sakavottorð varnaraðila er hreint.

Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals, dags. 12. nóvember 2015, og taldi skilyrði laga nr. 13/1984 uppfyllt sbr. einkum 1. mgr. og 3. mgr. 3. gr. um tvöfalt refsinæmi og lágmarksrefsingu, 5. mgr. 3. gr. varðandi grunnreglur íslenskra laga, og 8. – 10. gr. varðandi bann við endurtekinni málsmeðferð, fyrningu og meðferð annarra mála hérlendis, sem og 12. gr. laganna sem fjallar um formskilyrði.

Innanríkisráðuneytið ákvað að verða við framsalsbeiðninni með ákvörðun frá 17. febrúar 2016. Fram kemur í forsendum ráðuneytisins að ráðuneytið endurskoði ekki niðurstöðu ríkissaksóknara um skilyrði framsals. Ráðuneytið lagði heildstætt mat á aðstæður varnaraðila með tilliti til sjónarmiða mannúðarákvæðis 7. gr. laga nr. 13/1984 og mat þær svo að ekki þættu nægjanlegar ástæður fyrir hendi til að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli ákvæðisins. Einnig vísaði ráðuneytið til þess að varnaraðili hefði hlotið refsidóm fyrir hegningarlagabrot og hafi pólsk yfirvöld metið það sem svo að þau hefðu hagsmuni af því að fá hann framseldan til fullnustu refsingarinnar. Þá hefur varnaraðili viðurkennt að kannast við umrætt mál og væri það mat ráðuneytisins að varnaraðili hafi mátt vera fyllilega ljóst að pólsk dómsmálayfirvöld myndu krefjast afplánunar hans.

Enn fremur tók ráðuneytið fram í forsendum sínum að engin gögn hafa komið fram í málinu sem leiða til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að framsalsbeiðni pólskra dómsmálayfirvalda og meðfylgjandi gögn þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Loks tók ráðuneytið fram í forsendum sínum að samkvæmt athugasemdum við 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 væru íslensk stjórnvöld skyldug, án frekari könnunar á sönnunaratriðum, að leggja erlendan dóm eða ákvörðun um handtöku eða fangelsun til grundvallar við meðferð framsalsmáls.

Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila þann 3. mars 2016 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þann sama dag krafðist varnaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til álitsgerðar ríkissaksóknara frá 12. nóvember 2015 og ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 17. febrúar 2016.“

                Í greinargerð varnaraðila segir að hann hafi komið hingað til lands í febrúar 2014 og hefur hann stundað atvinnu hér síðan. Hann búi hér á landi með unnustu og 9 ára gömlum syni. Framsal byggist á dómi uppkveðnum 30. janúar 2013 er varnaraðili var dæmdur í 18 mánaða fangelsi en dómurinn var skilorðsbundinn til fjögurra ára. Varnaraðili hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann hafi rofið skilorð dómsins er hann flutti hingað til lands. Varnaraðili vísaði til þess að sakarefni samkvæmt dóminum væri gamalt og að hagsmunir hans af því að kröfunni um framsal yrði hafnað væru ríkari hagsmunum pólskra yfirvalda af því að fá hann framseldan. Þá telur varnaraðili að íslensk stjórnvöld hafi brotið 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við ákvörðun um framsal og ekki gætt meðalhófs. Því beri, með vísan til 12. gr. framangreindra laga, að hafna kröfunni um framsal.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og fleira er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki, grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Varnaraðili var hinn 30. janúar 2013 dæmdur í Póllandi fyrir fjársvik og hlutdeild í fjársvikum en slík brot myndu hér á landi varða við 248. gr. og 248. gr., sbr. 22. gr. almennra hengingarlaga og refsirammi fyrir slík brot er þannig að uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Dæmd refsing varnaraðila er ófyrnd, sbr. 2. tl. 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga og eru því uppfyllt skilyrði 9. gr. laga nr. 13/1984. Ekki liggur annað fyrir í málinu samkvæmt gögnum þess en að gætt hafi verið meðalhófsreglu 12. gr. laga nr. 37/1993 við meðferð máls varnaraðila.

Samkvæmt öllu ofanrituðu er kröfu varnaraðila hafnað en staðfest ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 17. febrúar 2016 um að framselja varnaraðila til Póllands.

Þóknun réttargæslumanns greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði greinir.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn:

Úrskurðarorð:

Ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 17. febrúar 2016 um að framselja X til Póllands er staðfest.

Þóknun Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslu-manns varnaraðila, 363.320 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.