Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-20
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ávana- og fíkniefni
- Peningaþvætti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 9. janúar 2023, sem barst Hæstarétti 8. febrúar sama ár, leitar Michael Myrkva Karatzis leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. október 2022 í máli nr. 187/2022: Ákæruvaldið gegn Karina Elzbieta Koziej, Grazyna Irena Krawczak og Michael Myrkva Karatzis. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 12. desember 2022. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi var ákærður ásamt tveimur öðrum einstaklingum fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því hafa á tímabilinu 21. september til 5. október 2021 í félagi staðið að innflutningi á samtals 408,41 g af kristölluðu metamfetamíni, 2.996 töflum af Alprazolam Krka, 1.440 töflum af Rivotril, 854 töflum af OxyContin og 995 töflum af öðrum nánar tilgreindum ávana- og fíknilyfjum. Þá var leyfisbeiðandi ákærður fyrir peningaþvætti samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa um nokkurt skeið allt fram til 24. september 2021 aflað sér ávinnings að fjárhæð allt að 6.532.535 krónum með nánar tilgreindum hætti.
4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sakfellingu leyfisbeiðanda og tveggja meðákærðu og heimfærslu brotanna til refsiákvæða. Við ákvörðun refsingar vísaði Landsréttur til þess að um væri að ræða mikið magn fíkniefna með afar mikla hættueiginleika. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjú ár.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu meðal annars um hvort beita eigi þyngri refsingum en ella þegar um er að ræða svokallað kristallað metamfetamín. Þá telur hann að málsmeðferðinni fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant og dóm réttarins bersýnilega rangan. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að rannsókn lögreglu hafi verið ábótavant í margvíslegu tilliti er kunni að leiða til frávísunar málsins frá héraðsdómi eða sýknu. Jafnframt hafi ekki verið fullnægt skilyrðum 173. gr. a almennra hegningarlaga og því hafi borið að sýkna hann af ákæru fyrir þá háttsemi. Enn fremur fari sú niðurstaða að dæma hann til þyngri fangelsisrefsingar en meðákærðu í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.