Hæstiréttur íslands
Mál nr. 9/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Föstudaginn 10. janúar 2014. |
|
Nr. 9/2014. |
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanns.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til Póllands var staðfest. Undir rekstri málsins óskaði ákæruvaldið eftir frekari upplýsingum frá pólskum dómsmálayfirvöldum um forsendur þeirrar ákvörðunar Héraðsdóms [...] að X skyldi gert að afplána refsingu samkvæmt dómi þess dómstóls. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákæruvaldinu hafi verið heimilt að leggja umrædd gögn fram í héraði samkvæmt 1. mgr. 110. gr. og 2. mgr. 165. gr., sbr. 4. mgr. 179. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Gögnin hafi hins vegar ekki verið þess eðlis að þörf væri á því að þau lægju fyrir þegar innanríkisráðuneytið tók ákvörðun sína um framsal X. Af þeim sökum yrði ekki talið að ráðuneytið hafi við meðferð málsins brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessum athugasemdum var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. janúar 2014. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013 þar sem staðfest var ákvörðun innanríkisráðuneytisins 25. september sama ár um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Mál þetta sætti meðferð í héraði samkvæmt XXVII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 177. gr. og 1. mgr. 2. gr. þeirra. Í 4. mgr. 179. gr. er kveðið á um að sé ekki öðru vísi fyrir mælt skuli meðferð slíks máls fara eftir ákvæðum laganna um almenna meðferð sakamáls eftir því sem við getur átt. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði óskaði sóknaraðili undir rekstri málsins eftir frekari upplýsingum frá pólskum dómsmálayfirvöldum um forsendur þeirrar ákvörðunar Héraðsdóms [...] að varnaraðila skyldi gert að afplána refsingu samkvæmt dómi sama dómstóls 27. desember 2004. Var þetta bókað eftir sóknaraðila í þinghaldi 21. nóvember 2013 og lagði hann gögn þessa efnis fram í þinghaldi 11. desember sama ár, án þess að séð verði að réttargæslumaður varnaraðila hafi hreyft athugasemdum við því af sinni hálfu. Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. og 2. mgr. 165. gr., sbr. 4. mgr. 179. gr. laga nr. 88/2008 var sóknaraðila heimilt að leggja umrædd gögn fram undir rekstri málsins, enda vörpuðu þau frekara ljósi á atvik þess. Gögnin eru hins vegar ekki þess eðlis að þörf væri á að þau lægju fyrir þegar innanríkisráðuneytið tók ákvörðun sína um framsal varnaraðila til Póllands. Af þeim sökum verður ekki talið að ráðuneytið hafi við meðferð þess stjórnsýslumáls brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti sem ákveðin verður eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.
Með bréfi ríkissaksóknara, dagsettu 12. nóvember 2013, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu X, kt. [...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um framsal, sbr. 14. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálaum nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins frá 25. september 2013 um að framselja varnaraðila til Póllands.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að ákvörðun innanríkisráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst réttargæslumaður þóknunar sér til handa, sem greiðist úr ríkissjóði.
I.
Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 20. febrúar 2013, barst innanríkisráðuneytinu beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu refsidóms þar í landi. Í framsalsbeiðninni kemur fram að varnaraðili hafi með dómi Héraðsdóms [...] 27. desember 2004 verið sakfelldur fyrir þjófnaðarbrot samkvæmt 1. mgr. 279. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa 11. mars 2004, í félagi við nafngreindan mann, brotist inn í íbúð og haft þaðan á brott með sér litasjónvarp, rafmagnsofn, ferðaútvarp, vekjaraklukku og fatnað, samtals að verðmæti PLN 335. Hafi varnaraðili verið dæmdur til eins árs fangelsisrefsingar, skilorðsbundið í fjögur ár. Með ákvörðun dómstólsins 4. febrúar 2009 hafi varnaraðila verið gert að afplána fangelsisrefsinguna, vegna skilorðsrofa. Varnaraðili hafi ekki mætt til afplánunar og hafi pólsk yfirvöld því látið lýsa eftir honum. Í kjölfarið hafi borist tilkynning frá íslenskum lögregluyfirvöldum um að varnaraðili dveldist hér á landi. Framsalsbeiðni fylgdi endurrit framangreinds dóms Héraðsdóms [...] og ákvörðunar dómsins um fullnustu, auk handtökuskipunar og gagna um eftirlýsingu.
Varnaraðila var kynnt framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á [...] 12. ágúst 2013. Hann kannaðist við að beiðnin ætti við hann, en kvaðst hafna henni. Áður hafði verið tekin skýrsla af varnaraðila hjá lögreglu vegna málsins, hinn 13. nóvember 2012, þar sem hann tjáði sig um málsatvik og aðstæður sínar að öðru leyti. Ríkissaksóknari sendi innanríkisráðuneytinu umsögn um málið, dagsetta 20. ágúst 2013, þar sem kom fram að skilyrði framsals teldust uppfyllt. Hinn 25. september 2013 féllst innanríkisráðuneytið á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila. Í ákvörðun ráðuneytisins kemur fram að þegar málsatvik væru virt heildstætt þættu aðstæður ekki vera þannig að réttmætt væri að synja um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Ákvörðun ráðuneytisins var kynnt varnaraðila 2. október 2013. Daginn eftir krafðist hann úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði framsals væru fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 13/1984.
Undir rekstri málsins fyrir dómi óskaði sóknaraðili eftir frekari upplýsingum frá pólskum dómsmálayfirvöldum um forsendur ákvörðunar um að varnaraðila yrði gert að afplána refsingu samkvæmt fyrrgreindum dómi. Í tölvubréfi pólska dómsmálaráðuneytisins til sóknaraðila frá 25. nóvember sl. kemur fram að varnaraðili hafi ekki gefið sig fram til skilorðseftirlits eftir að hann flutti til Íslands í janúar 2008, en það hafi verið skilyrði þess að fresta framkvæmd refsingar í máli hans. Hafi skilorðseftirlitsmaður tilkynnt dóminum um skilorðsrof varnaraðila 28. nóvember 2008 og jafnframt krafist þess að refsingin kæmi til framkvæmda. Þá kemur fram í tölvubréfinu að hinn 6. júní 2008 hafi varnaraðili verið dæmdur til refsingar vegna kynferðisbrots gegn barni yngra en 15 ára.
II.
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr. 13/1984 vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili er pólskur ríkisborgari sem dæmdur hefur verið fyrir refsiverða háttsemi í heimalandi sínu. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 sé heimilt að framselja mann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Sú háttsemi sem varnaraðili var dæmdur fyrir myndi varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varði refsingu allt að 6 ára fangelsi. Sé því fullnægt skilyrðum framsals samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá hafi dæmd refsing verið eins árs fangelsi, en eftirstöðvar hennar muni vera 11 mánuðir og 28 dagar. Sé því jafnframt fullnægt skilyrðum 3. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.
Engin gögn séu fram komin í málinu sem leiði til þess að rökstudd ástæða sé til að ætla að grunur um refsiverða háttsemi eða niðurstaða dóms þyki ekki fullnægja grunnreglum íslenskra laga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun sakar, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Varnaraðili hafi verið dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar 27. desember 2004, en skilorðsbinding hafi verið afturkölluð með ákvörðun 4. febrúar 2009 og hafi þá hafist fyrningarfrestur dómsins, sbr. 2. og 3. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga. Fyrningarfrestur sé 5 ár samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar. Sé refsing því ófyrnd og skilyrði 9. gr. laga nr. 13/1984 því fyrir hendi. Þá séu skilyrði 8. gr. og 10. gr. laga nr. 13/1984 einnig fyrir hendi vegna framsalsbeiðninnar.
Með vísan til þessa teljist efnisskilyrði framsals uppfyllt. Þá séu formskilyrði samkvæmt 12. gr. laga nr. 13/1984 einnig uppfyllt.
III.
Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að hagsmunir hans af því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi séu mun ríkari en hagmunir pólskra yfirvalda af því að hún nái fram að ganga. Varnaraðili hafi verið sakfelldur fyrir minni háttar brot með dómi 27. desember 2004 og séu ekki efni til að hann gjaldi fyrir háttsemi sína 9 árum síðar. Engin gögn liggi fyrir um afturköllun skilorðsbindingar refsingar í máli varnaraðila. Þá séu engin rök færð fyrir því í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar að slík framkvæmd samræmist meginreglum sakamálaréttarfars og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Varnaraðili bendir á að skilorðstíminn hafi verið liðinn þegar ákvörðun var tekin um afturköllun í febrúar 2009. Er því andmælt að varnaraðili hafi rofið skilorð refsidómsins, enda beri sakavottorð með sér að hann hafi ekki gerst brotlegur hér á landi. Varnaraðili hafi verið búsettur hér á landi þegar ákvörðun um afturköllun skilorðsbindingar var tekin og liggi ekki fyrir hvort honum hafi verið kunnugt um ákvörðunina. Fráleitt sé að hann hafi verið í felum hér á landi, en hann hafi talið að málinu væri lokið. Ekki hafi verið lýst eftir honum þegar hann kom til landsins og ekkert liggi fyrir um að reynt hafi verið að boða hann til fyrirtöku vegna málsins í heimalandi hans.
Þá er á það bent að varnaraðili hafi verið búsettur hér á landi frá árinu [...] og eigi [...] ára gamalt barn með íslenskri konu, en barnið búi hjá móður sinni. Hafi hann áhyggjur af því að tengsl við barnið muni rofna, verði ákvörðun sóknaraðila staðfest, en það sé réttur barnsins að þekkja og umgangast föður sinn, sbr. 1. gr. a. og 1. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003, og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Verði ákvörðun sóknaraðila staðfest með dómsúrskurði verði jafnframt að skýra með hvaða hætti það verði tryggt að kærandi og barnið fái verið samvistum, að varnaraðili fái að snúa aftur til Íslands að lokinni afplánun og dvelja hér. Vísar varnaraðili að þessu leyti til meðalhófsreglu samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga, 7. gr. laga nr. 13/1984 og athugasemda í frumvarpi til þeirra laga. Líta verði til þess að aðstæður varnaraðila séu aðrar í dag en þegar hann braut af sér árið 2004. Varnaraðili hafi borið að hann hafi hætt áfengisneyslu. Hann sé atvinnulaus sem stendur, en þiggi greiðslur til framfærslu frá Vinnumálastofnun.
Loks telur varnaraðili að meta verði hvort fullnægt hafi verið lagskilyrðum um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi og lögfulla sönnun í málinu, við meðferð refsimálsins í heimalandi hans sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.
IV.
Krafist er framsals varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari, til fullnustu 11 mánaða og 28 daga eftirstöðva refsidóms vegna brots sem myndi varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem getur varðað allt að 6 ára fangelsi. Samkvæmt því er fullnægt skilyrðum 1. gr. og 1. mgr. og 1. tölul. 3. mgr. 3. gr. laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr. 13/1984. Þá er ekkert komið fram í málinu sem gefur ástæðu til að ætla að málsmeðferð og dómsniðurstaða í framangreindu refsimáli hafi ekki fullnægt grunnreglum íslenskra sakamálalaga um rökstuddan grun, refsiverða háttsemi eða lögfulla sönnun, sbr. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984.
Samkvæmt gögnum málsins rauf varnaraðili skilorð með því að gefa sig ekki fram við skilorðseftirlit á skilorðstímanum. Miðast upphaf fyrningarfrests dæmdrar fangelsisrefsingar við 4. febrúar 2009 er dómari ákvað að varnaraðili skyldi afplána refsinguna, sbr. 2. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. sömu lagagreinar er fangelsisrefsing ekki niður fallin og er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984.
Framsalsbeiðnin hefur verið borin fram með tilskildum hætti og er hún studd viðhlítandi gögnum, sbr. 12. gr. laga nr. 13/1984. Þá hefur verið gætt lögbundinna stjórnsýslureglna við meðferð málsins og mat á því að almenn lagaskilyrði séu fyrir hendi.
Innanríkisráðuneytið hefur í ákvörðun sinni frá 25. september 2013 fjallað um undanþáguákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984. Jafnframt hefur ráðuneytið metið annars vegar hagsmuni pólskra dómsmálayfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan og hins vegar hagsmuni varnaraðila af því að synjað verði um framsal, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður ekki annað séð en að mat ráðuneytisins hafi farið fram með réttum og málefnalegum hætti. Eru ekki efni til að því mati verði hnekkt í málinu. Þá eru ekki lagaskilyrði til þess að í málinu verði kveðið á um umgengnisrétt varnaraðila við dóttur sína eða endurkomu hans hingað til lands að lokinni afplánun refsidómsins í heimalandi sínu.
Samkvæmt framansögðu teljast uppfyllt skilyrði fyrir framsali varnaraðila. Verður því staðfest ákvörðun um framsal hans til Póllands.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og er hún ákveðin 483.175 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 82.720 krónur.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun innanríkisráðherra frá 25. september 2013 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila Ásgeirs Arnar Blöndal Jóhannssonar hdl., 483.175 krónur, auk kostnaðar, 82.720 krónur, greiðist úr ríkissjóði.