Hæstiréttur íslands

Mál nr. 21/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Slitameðferð
  • Fjármálafyrirtæki


Þriðjudaginn 8. mars 2011.

Nr. 21/2011.

Fjármálaeftirlitið

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Kærumál. Slitameðferð. Fjármálafyrirtæki.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu F um að fá endurgreiddan kostnað sem F innti af hendi vegna starfa skilanefndar L hf. frá skipun nefndarinnar þar til í apríl 2009. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það leiddi af lögum nr. 44/2009, sem breyttu ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að kostnaðar af störfum skilanefnda og slitastjórna skyldi frá gildistöku laganna greiddur af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Lögin tóku gildi 22. apríl 2009 og var því ekki lagaheimild fram að þeim degi fyrir kröfu F gagnvart L ehf. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. janúar 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2010, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfur hans verði teknar til greina við slit varnaraðila, aðallega að krafa að fjárhæð 117.302.401 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafa að fjárhæð 81.911.452 krónur, með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laganna og þá jafnframt að krafa að fjárhæð 35.390.949 krónur, með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 65.043.744 krónur, með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 og þá jafnframt að krafa að fjárhæð 52.258.657 krónur, með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Að öllu þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 117.302.401 krónur, með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Kröfur og málsástæður aðila eru raktar í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram skipaði sóknaraðili varnaraðila fimm manna skilanefnd 7. október 2008 á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem tóku gildi sama dag. Sóknaraðili hefur greitt laun skilanefndarmanna frá október 2008 til og með mars 2009, samtals 116.864.161 krónu, og krefst þess að varnaraðili endurgreiði honum þessa fjárhæð að viðbættum kröfulýsingarkostnaði. Fallast ber á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að ekki hafi verið kveðið á um slíka greiðsluskyldu í lögum nr. 125/2008. Af ákvæðum laga nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 22. apríl 2009, leiddi að kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna skyldi framvegis greiddur af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Fram að gildistöku þessara laga var ekki lagaheimild fyrir kröfu sóknaraðila og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2010.

I

Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 29. apríl 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun sem birtist í Lögbirtingablaði 30. apríl 2009 og lauk  kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík, lýsti kröfu við slit varnaraðila, og var kröfulýsing móttekin 30. október. Kröfunni var aðallega lýst sem búskröfu samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 116.864.161 króna, auk kröfulýsingarkostnaðar að fjárhæð 438.240 krónur, eða samtals að fjárhæð 117.302.401 króna. Til vara var lýst búskröfu samkvæmt sama ákvæði að fjárhæð 81.473.212 krónur, auk kröfulýsingarkostnaðar, eða samtals 81.911.452 krónum, en 35.390.949 krónum sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Til þrautavara var lýst búskröfu samkvæmt sama ákvæði að fjárhæð 64.505.504 krónur, auk kröfulýsingarkostnaðar, eða samtals 65.043.744 krónum, en 52.258.657 krónum sem almennri kröfu samkvæmt 113 gr. sömu laga. Til þrautaþrautavara var kröfunni lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 116.864.161 krónu, auk kröfulýsingarkostnaðar, eða samtals 117.302.401 krónu. Í öllum tilvikum var krafist dráttarvaxta af lýstri fjárhæð frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags.   

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni alfarið. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar en ágreiningur aðila varð ekki jafnaður. Í kjölfarið var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og var málið þingfest 26. mars sl.

Samkvæmt greinargerð sóknaraðila til dómsins eru kröfur hans sem hér segir:

-          Aðallega að krafa hans að fjárhæð 117.302.401 króna, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði við slit varnaraðila viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.

-          Til vara að krafa hans að fjárhæð 81.911.452 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði við slit varnaraðila viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en að krafa hans að fjárhæð 35.390.949 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. 

-          Til þrautavara að krafa hans að fjárhæð 65.043.744 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði við slit varnaraðila viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en að krafa hans að fjárhæð 52.258.657 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna.

-          Til þrautaþrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 117.302.401 króna,  auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2009 til greiðsludags, verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Í öllum tilvikum er þess krafist að varnaraðili verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Endanlegar kröfur varnaraðila eru þær að aðal- og þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila verði að öllu leyti hafnað, en að kröfum hans um viðurkenningu rétthæðar samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 í vara- og þrautavarakröfu verði vísað frá dómi, og kröfum á grundvelli 4. tl. 110. gr. og 113. gr. laga nr. 21/1991 í vara- og þrautavarakröfu hans verði hafnað. Til vara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.

Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 25. nóvember sl.

II

         Í byrjun október 2008 varð mikið umrót á íslenskum fjármálamarkaði og yfirvofandi að hérlendir bankar gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Af þeim sökum og í því skyni að koma í veg fyrir og takmarka tjón samþykkti Alþingi lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði  o.fl., og tóku þau gildi 7. október 2008. Á grundvelli 5. gr. laganna, sem breytti lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 100. gr. a þeirra laga, skipaði Fjármálaeftirlitið sama dag fimm manna skilanefnd yfir Landsbanka Íslands hf., og tók hún yfir stjórn bankans. Samkvæmt 4. og 5. mgr. 5. gr. fór skilanefndin með allar heimildir stjórnar samkvæmt hlutafélagalögum og fór að öðru leyti með öll málefni bankans, hafði m.a. umsjón með allri meðferð eigna og annaðist rekstur hans. Markmiðið með skipun nefndarinnar var að tryggja eignir bankans og hagsmuni kröfuhafa hans. Í 10. mgr. 5. gr. laganna sagði að ríkissjóður bæri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli greinarinnar. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að hann hafi fram að gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, greitt kostnað vegna starfa skilanefndar, en verksamningar munu hafa verið gerðir við félög á vegum skilanefndarmanna. Frá byrjun apríl 2009 hefur varnaraðili hins vegar greitt allan kostnað við slit og stjórn bankans, þ.m.t. kostnað vegna vinnu skilanefndarmanna.

         Landsbanka Íslands var veitt greiðslustöðvun með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008, og tók þá til starfa aðstoðarmaður bankans við greiðslustöðvun. Frestdagur vegna slita bankans var 15. nóvember 2008.

         Ágreiningur aðila lýtur að því hvort varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila þann kostnað sem hann hefur þegar innt af hendi vegna starfa skilanefndar, allt frá skipun hennar í október 2008 til og með marsmánuði 2009, samtals 116.864.161 krónu. Sem fyrr segir hefur varnaraðili hafnaði þeirri kröfu.

III

Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að skipti á þrotabúi Landsbanka Íslands hf. hafi í raun hafist er Fjármálaeftirlitið yfirtók bankann og skilanefnd tók yfir stjórn hans. Vegna hinna sérstöku aðstæðna á fjármálamarkaði hafi þó ekki verið farin sú leið að taka bankann þegar til skipta samkvæmt reglum gjaldþrotaskiptalaga. Greiðsluerfiðleikar hans hafi engu að síður verið ljósir og hafi það verið forsenda þess að Fjármálaeftirlitið tók hann yfir á grundvelli laga nr. 125/2008. Yfirlýst markmið með yfirtökunni hafi verið að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, og um leið að tryggja hagsmuni kröfuhafa, líkt og við gjaldþrotaskipti samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafi skilanefnd verið falin stjórn bankans og m.a. veitt vald til að ráðstafa réttindum og eignum hans, en bankinn hafi á þessum tíma verið í sömu stöðu og bú gjaldþrota félags. Er í því sambandi bent á að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. þeirra laga hafi ekki verið unnt að koma fram aðfarargerð á hendur bankanum á meðan skilanefnd fór með málefni hans. Hlutverk skilanefndar hafi m.a. verið að taka við umráðum eigna, ráðstafa hagsmunum og taka afstöðu til réttinda kröfuhafa á hendur búi, og verjast þeim eftir atvikum. Skilanefnd hafi því haft sama hlutverk og skiptastjóri þrotabús, eins og hlutverk hans sé skilgreint í 122. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í því felist yfirráð yfir hagsmunum bús í hverju tilliti sem á kunni að reyna. Augljóst sé að mati sóknaraðila að öll sú vinna sem skilanefndinni var falin, hafi verið liður í bústjórn í því skyni að hámarka verðmæti eigna bankans og að takmarka tjón eða hættu á tjóni. Kostnaður vegna starfa hennar sé því hluti af skiptakostnaði vegna slita bankans. Einnig er lögð áhersla á að skilanefndinni hafi verið ákvarðað hlutverk með hliðsjón af sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði og þeirri staðreynd að greiðsluþrot hafi blasað við bankanum. Starf og skyldur skilanefndarinnar byggi á sérlögum sem gangi framar almennum lögum og telur sóknaraðili að skýra beri stöðu skilanefndar með hliðsjón af gjaldþrotaskiptalögum. Því falli störf hennar undir störf sem skiptastjóra séu falin samkvæmt þeim lögum. Af þeirri ástæðu sé þess krafist að krafan verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, annaðhvort beint eða með lögjöfnun frá því ákvæði. Í samræmi við ofanritað er aðalkrafa sóknaraðila þannig sundurliðuð eftir mánuðum:

Október 2008

24.254.175 krónur

Nóvember 2008

22.959.286 krónur

Desember 2008                                              

18.944.800 krónur

Janúar 2009                                                    

18.570.425 krónur

Febrúar 2009

18.661.675 krónur

Mars 2009                                                       

13.473.800 krónur

116.864.161 króna

Kröfulýsingarkostnaður

      438.240 krónur

Samtals                                                            

117.302.401 króna

        

Sóknaraðili telur að ekki sé ágreiningur um fjárhæð kröfunnar og sundurliðun hennar. Skilanefndarmönnum hafi verið greiddar 16.000 krónur, auk virðisaukaskatts, fyrir hverja vinnustund, en formanni 18.500 krónur, auk virðisaukaskatts.

Varakrafa sóknaraðila byggist á því að lögmætar kröfur á hendur varnaraðila vegna starfa skilanefndar eftir frestdag, 15. nóvember 2008, séu búskröfur samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda þótt bankinn hafi þá ekki fengið greiðslustöðvun eða verið veitt heimild til nauðasamningsumleitana. Leggur hann áherslu á að samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafi skilanefnd verið sett yfir bankann sem farið hafi með alla stjórn hans. Skilanefndin hafi haft lögboðið starfssvið og hafi löggjafinn með sérlögum samþykkt lögmæti ráðstafana skilanefndarinnar fyrir og eftir frestdag. Í þessu efni vísar sóknaraðili til 2. tl. II. kafla bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44/2009, en þar segi m.a. að ákvæði IV. kafla laga nr. 21/1991, svo sem ákvæði um samþykki aðstoðarmanns og hverjar ráðstafanir séu heimilar, gildi ekki í greiðslustöðvun varnaraðila. Ekki hafi því verið lögbundið að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun samþykkti þá ráðstöfun að ráða skilanefnd til starfa, né hafi það verið lögbundið að skilanefnd leitaði samþykkis aðstoðarmanns fyrir gjörðum sínum. Af þeim sökum komi ekki til skoðunar skilyrði 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um að ráðstafanir hafi verið samþykktar af aðstoðarmanni og að ráðstafanir hafi verið heimilar samkvæmt 19.-21. gr. sömu laga. Kostnaður skilanefndarinnar eftir frestdag, vegna ráðstafana sem hafi verið lögboðnar, sé því búskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að túlka beri þetta ákvæði með hliðsjón af sérlögum nr. 125/2008, 129/2008 og 44/2009. Þá vísar sóknaraðili til 3. gr. laga nr. 129/2008, sem hafi falið í sér breytingu á 103. gr. laga nr. 161/2002, en þar segi að þegar ákvæði laga nr. 21/1991 miði réttaráhrif við frestdag, skuli frestdagur við skipti á búi fjármálafyrirtækis miðast við önnur tímamörk en samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum. Þar sem samþykki fyrir ráðstöfunum skilanefndar, og m.a. ráðning skilanefndarmanna hafi verið lögákveðið, telur sóknaraðili engin rök standa til annars en að viðurkenna eigi kröfu hans vegna vinnu skilanefndarmanna frá frestdegi sem búskröfu, sbr. 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Sundurliðast krafan  þannig:

Nóvember 2008

11.822.512 krónur

Desember 2008

18.944.800 krónur

Janúar 2009                                                    

18.570.425 krónur

Febrúar 2009

18.661.675 krónur

Mars 2009                                                       

13.473.800 krónur

81.473.212 krónur

Kröfulýsingarkostnaður

     438.240 krónur

Samtals

81.911.452 krónur

                                     

Sóknaraðili krefst þess einnig að krafa hans vegna greiðslu kostnaðar skilanefndar frá stofnun hennar til frestdags, 15. nóvember 2008, verði viðurkennd sem forgangskrafa á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Um rökstuðning fyrir kröfunni vísar sóknaraðili til þess að samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laganna teljist til forgangskrafna kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns sem hafi fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag. Falli krafa hans um greiðslu fyrir vinnu skilanefndar frá stofnun hennar í október 2008 til frestdags augljóslega undir fyrrgreint lagaákvæði. Skilanefndarmenn hafi starfað sem verktakar í þágu varnaraðila og hafi þeim á grunni þess verið greitt endurgjald fyrir vinnu í þágu bankans. Staða skilanefndarmanna hafi verið hin sama og ef þeir hefðu formlega verið launþegar við störf sín, enda hafi þeir persónulega verið skipaðir til að sinna stjórn bankans. Greiðslur til skilanefndarmanna hafi því verið laun eða annað endurgjald fyrir vinnu í skilningi lagaákvæðisins. Varnaraðili hafi í raun verið vinnuveitandi skilanefndarmanna, og er því haldið fram að samband bankans og skilanefndarmanna megi líkja við vinnusamband. Engu breyti þótt samningar hafi verið gerðir um verktöku skilanefndarmanna við störf þeirra. Krafa sóknaraðila um greiðslu vegna starfa skilanefndar frá stofnun hennar til frestdags, 15. nóvember 2008, nemur alls 35.390.949 krónum og sundurliðist þannig:

7. október 2008 til 1. nóvember 2008

24.254.175 krónur

1. nóvember 2008 til 15. nóvember 2008

11.136.774 krónur

Samtals                                                            

35.390.949 krónur

                                                                     

Sem rök fyrir þeirri kröfu að samþykkja beri kröfuna sem almenna kröfu vísar sóknaraðili til 113. gr. laga nr. 21/1991.

Til stuðnings þrautavarakröfu sinni, þess efnis að viðurkenna beri kröfu hans að fjárhæð 65.043.744 krónur sem búskröfu samkvæmt 4. tl. 110 gr. laga nr. 21/1991, bendir sóknaraðili á að 5. desember 2008 hafi verið kveðinn upp úrskurður um greiðslustöðvun bankans, og hafi þá aðstoðarmaður tekið til starfa. Krafa vegna vinnu skilanefndar frá þeim degi sé augljóslega búskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, verði ekki fallist á að krafa hans frá fyrri tíma sé búskrafa við skipti bankans. Þann dag hafi að minnsta kosti verið fullnægt því skilyrði ákvæðisins að aðstoðarmaður hafi verið ráðinn til að vinna að málefnum bankans. Er á því byggt að samþykki aðstoðarmanns fyrir störfum skilanefndarinnar hafi í raun verið óþarft, enda störf skilanefndarinnar ákveðin með neyðarlögum nr. 125/2008. Hvað sem öðru líði telur sóknaraðili að frá þeim degi sem aðstoðarmaður tók til starfa, hafi samþykki hans fyrir störfum skilanefndarinnar legið fyrir og því beri allur kostnaður vegna skilanefndarinnar að greiðast frá sama degi samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Leggur sóknaraðili áherslu á að samkvæmt 2. tl. II. kafla bráðbirgðaákvæðis laga nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, skuli beita tilteknum ákvæðum laganna eins og varnaraðili hefði verið tekinn til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lögin tóku gildi, en slitameðferð varnaraðila skuli kennd við heimild til greiðslustöðvunar. Í sama bráðabirgðaákvæði sé og mælt fyrir um að ákvæði IV. kafla laga nr. 21/1991 gildi ekki um greiðslustöðvun varnaraðila, enda þótt talið yrði að samþykki aðstoðarmanns hafi ekki legið fyrir eða ráðstafanir verið óheimilar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum. Telur sóknaraðili ljóst að slit eða skipti varnaraðila hafi hafist eigi síðar en þann dag sem úrskurður um greiðslustöðvun var kveðinn upp, 5. desember 2008. Kostnaður vegna skilanefndarinnar frá þeim degi sé því skiptakostnaður samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Krafan sundurliðist þannig:

Desember 2008

13.899.604 krónur

Janúar 2009                                                    

18.570.425 krónur

Febrúar 2009

18.661.675 krónur

Mars 2009                                                       

13.473.800 krónur

Kröfulýsingarkostnaður

     438.240 krónur

Samtals

65.043.744 krónur

      

Um rökstuðning fyrir kröfu sóknaraðila, þess efnis að 52.258.657 krónur, auk dráttarvaxta, verði þá viðurkennd sem forgangskrafa en til vara almenn krafa, vísar sóknaraðili til umfjöllunar um varakröfu hér að framan. Sú krafa sundurliðist þannig:

7. - 30. október 2008

24.254.175 krónur

Nóvember 2008

22.959.286 krónur

1.-5. desember 2008                                      

  5.045.196 krónur

Samtals                                                            

52.258.657 krónur

                                     

Til stuðnings þrautaþrautavarakröfu vísar sóknaraðili til sömu röksemda og til stuðnings öðrum kröfum hér að framan. Krafist er viðurkenningar á því að krafan, alls að fjárhæð 117. 302.401 króna, auk dráttarvaxta, njóti rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafan er vegna greiðslna sóknaraðila fyrir störf skilanefndar bankans frá því skilanefndin tók til starfa í október 2008 og þar til í lok mars 2009.

Að öðru leyti en að ofan greinir vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 einkum 110. gr., 112. og 113. gr. Þá vísar hann til meginreglna gjaldþrotaréttar og kröfuréttar, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum, sbr. lög nr. 125/2008, 129/2008 og 44/2009. Þá er vísað til laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Varnaraðili leggur í upphafi máls síns áherslu á að í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, sem síðar varð að lögum nr. 44/2009, sé tekið fram að með lögunum sé gert ráð fyrir að kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna greiðist af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið komi fram að þar sem skilanefndir gömlu bankanna þriggja hafi verið skipaðar á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 125/2008, hafi ríkissjóður borið kostnað af störfum þeirra að því leyti að ríkið hafi greitt laun skilanefndarmanna. Litið hafi verið svo á að ríkissjóði bæri að greiða kostnað við framangreind störf á meðan fjármálafyrirtæki hefðu heimild til greiðslustöðvunar. Í frumvarpinu sé hins vegar kveðið á um það að kostnaður vegna starfsemi fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun og slitum, þar með talinn kostnaður af störfum skilanefnda, skuli eftir gildistöku laganna greiðast af viðkomandi fjármálafyrirtæki en ekki úr ríkissjóði. Við aðra umræðu um frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 44/2009 hafi verið lagðar fram breytingartillögur af hálfu viðskiptanefndar, þess efnis m.a. að við ákvæði til bráðabirgða II bættist nýr töluliður, svohljóðandi: „Frá gildistöku laga þessara greiðist allur kostnaður af greiðslustöðvun og slitameðferð af eignum þess fjármálafyrirtækis sem á í hlut.“ Við þriðju umræðu hafi viðskiptanefnd lagt fram framhaldsnefndarálit þar sem fram komi að nefndin féllist á að framangreind tillaga væri fallin til þess að valda þeim misskilningi að vafi léki á því hvernig fara skyldi með þegar áfallinn kostnað af greiðslustöðvun og slitameðferð fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu sé ekki sérstaklega kveðið á um greiðslu kostnaðar sem hljótist af störfum fjármálafyrirtækis á meðan það sé í greiðslustöðvun eða slitameðferð, en gert sé ráð fyrir að um þann kostnað fari samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og greiðist þar með af eignum þess fjármálafyrirtækis sem í hlut eigi. Þrátt fyrir 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki hafi ríkissjóður og sóknaraðili greitt hluta af áföllnum kostnaði við störf skilanefnda. Nefndin telji að það hafi ekki verið ætlunin þegar ákvæðið var lögfest, heldur hafi því verið ætlað að tryggja að ríkið bæri ábyrgð á þeim kostnaði við skipti sem ekki fengist greiddur af eignum viðkomandi fjármálafyrirtækis. Hafi nefndin því lagt til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt frá annarri umræðu, þannig að framangreind breytingartillaga hafi verið dregin til baka.

Varnaraðili bendir einnig á að engar skýringar á hinu umdeilda ákvæði í 10. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008 sé að finna í athugasemdum er hafi fylgt frumvarpi að lögunum né öðrum undirbúningsgögnum. Því telur hann að staðhæfingar sóknaraðila um skýran vilja löggjafans í þessu efni fái ekki staðist, sé litið til framangreindra ummæla. Þvert á móti telur hann að ummæli í almennum athugasemdum við frumvarpið, tilvitnuð ummæli í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og breytingartillaga viðskiptanefndar, renni stoðum undir þá túlkun að hinn umdeildi kostnaður vegna skilanefnda yrði greiddur úr ríkissjóði. Geti framhaldsnefndarálit viðskiptanefndar, sem fram hafi komið eftir gildistöku laga nr. 125/2008, engu breytt í þeim efnum. Hvað sem öðru líði sé þó ljóst að ákvæði 77. gr. gjaldþrotaskiptalaga, um skiptakostnað, hafi ekki tekið gildi í tilfelli varnaraðila fyrr en með gildistöku laga nr. 44/2009, þ.e. 22. apríl 2009. Þá telur varnaraðili að reglur um ábyrgð félaga á greiðslu kostnaðar við stjórn þeirra eigi eðli málsins samkvæmt ekki við í þessu sambandi, enda sé hér um að ræða einhliða ákvörðun sóknaraðila, sem stjórnvalds, á grundvelli sérstakra lagaheimilda um að taka yfir vald hluthafafundar bankans, víkja félagsstjórn hans frá störfum og skipa sérstaka skilanefnd til að fara með stjórn.

Um aðalkröfu og þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila tekur varnaraðili fram að um sé að ræða samsvarandi kröfur og fram komi í kröfulýsingu sóknaraðila. Vara- og þrautavarakrafa hans hafi hins vegar að geyma kröfur sem ekki hafi verið lýst með sama hætti í kröfulýsingu, og því hafi ekki verið fjallað um þær á fundi til jöfnunar ágreinings samkvæmt 2. mgr. 120. laga nr. 21/1991. Meðal annars með vísan til 117. gr. þeirra laga byggir varnaraðili á því að þegar af þeirri ástæðu beri að vísa þeim kröfum frá dómi. Verði ekki fallist á frávísun krafnanna gerir varnaraðili kröfu um að þeim verði hafnað. Þá mótmælir hann dráttarvaxtakröfum sóknaraðila í heild sinni og telur þær vanreifaðar, enda hafi þær ekki að geyma fjárhæð í krónum, svo sem áskilið sé í 2. ml. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Verði hins vegar fallist á dráttarvaxtakröfur sóknaraðila bendir varnaraðili á að sóknaraðili hafi í öllum tilvikum miðað upphafsdag dráttarvaxta við 1. nóvember 2009. Sóknaraðili hafi hins vegar fyrst krafið varnaraðila um greiðslu kostnaðar vegna starfsemi skilanefndar með kröfulýsingu 30. október 2009. Því telur varnaraðili að upphafsdagur dráttarvaxta eigi að miðast við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, verði á annað borð fallist á kröfurnar. Ljóst sé einnig, verði fallist á dráttarvaxtakröfur sóknaraðila á grundvelli 112. eða 113. gr. laga nr. 21/1991, að um eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. sömu laga sé að ræða, að því marki sem þær hafi fallið í gjalddaga eftir 22. apríl 2009. Loks mótmælir varnaraðili sérstaklega kröfum sóknaraðila vegna kröfulýsingarkostnaðar, enda hafi sóknaraðili hvorki í kröfulýsingu né greinargerð lagt fram gögn er sýni fram á tilvist umkrafins kostnaðar.

Varnaraðili hafnar því alfarið að samþykkja beri aðalkröfu sóknaraðila sem búskröfu samkvæmt 2. tl. 110. gr. gjaldþrotaskiptalaga, enda lítur hann svo á að framangreint lagaákvæði eigi eingöngu við um kostnað sem falli til eftir úrskurðardag, þ.e. 22. apríl 2009, sbr. 2. tl. bráðabirgðaákvæðis V laga nr. 161/2002, með síðari breytingum. Hvað sem líði eðli þeirra starfa sem skilanefndarmenn hafi innt af hendi telur varnaraðili ljóst að sóknaraðili hafi samið við skilanefndarmenn um greiðslur og að allir reikningar vegna starfa skilanefndar hafi verið sendir til sóknaraðila en aldrei komið til umfjöllunar hjá varnaraðila. Að mati varnaraðila skorti lagagrundvöll fyrir greiðslu þess kostnaðar sem um sé deilt, enda verði að líta svo á að reglur gjaldþrotalaga um skiptakostnað hafi ekki tekið gildi í tilfelli varnaraðila fyrr en með gildistöku laga nr. 44/2009, líkt og áður greini. Þá er því alfarið hafnað að fallast eigi á kröfu sóknaraðila á grundvelli lögjöfnunar, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að skilyrði hennar séu fyrir hendi. Staðhæfingum þess efnis að slit eða skipti varnaraðila hafi hafist eigi síðar en 5. desember 2008 vísar varnaraðili á bug. Bendir hann á að með tilvitnuðu bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 hafi verið kveðið á um að heimild fjármálafyrirtækja, sem hafi notið greiðslustöðvunar við gildistöku laganna, skyldi haldast þrátt fyrir gildistökuna. Þá hafi verið kveðið á um að ákvæðum laga nr. 161/2002 skyldi beitt eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi sem lögin tóku gildi, það er 22. apríl 2009. Slitameðferðin skyldi þó enn kennd við heimild til greiðslustöðvunar, svo lengi sem sú heimild stæði. Af framangreindu telur varnaraðili ljóst að túlkun sóknaraðila á téðri lagagrein eigi sér enga stoð.

Að því er varðar vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila, þess efnis að þær kröfur njóti að hluta til rétthæðar sem búskröfur samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, kveðst varnaraðili byggja á því að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun hafi ekki samþykkt kröfurnar og því skorti lagaskilyrði til að viðurkenna þær með þeim hætti sem krafist sé. Áréttar varnaraðili að öllum reikningum vegna kostnaðar skilanefndar hafi verið beint að sóknaraðila, án íhlutunar aðstoðarmanns og hans samþykkis, og þeim raunar alfarið haldið utan fjárhagslegra málefna bankans á greiðslustöðvunartíma. Gildi þá einu hvort heimilt hefði verið að greiða þennan kostnað á grundvelli 19.-21. gr. laga nr. 21/1991, hefði lögformlega verið staðið að málum. Bent er á að lög nr. 44/2009 hafi verið samþykkt á Alþingi 15. apríl 2009 og öðlast gildi 22. sama mánaðar. Því geti ákvæði breytingarlaganna eðli máls samkvæmt ekki átt við um þann tíma sem hér sé til skoðunar. Einnig er því alfarið hafnað að löggjafinn hafi á einhvern hátt samþykkt lögmæti ráðstafana skilanefndar fyrir og eftir frestdag.

Krafa varnaraðila um að vísa skuli frá dómi kröfu sóknaraðila um að vara- og þrautavarakrafa hans verði að hluta til viðurkennd sem krafa samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, er á því reist að þeim kröfum hafi ekki verið lýst með þeim hætti í kröfulýsingu til varnaraðila 29. október 2009. Kröfur þessar hafi fyrst komið fram í greinargerð sóknaraðila til dómsins og hafi varnaraðili því ekki fjallað um kröfurnar á fundi til jöfnunar ágreinings, sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Verði ekki fallist á að vísa þeim kröfum frá dómi er því alfarið hafnað að krafa sóknaraðila geti á einhvern hátt talist falla undir ákvæði 1. tl. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sem og þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili geti á einhvern hátt hafa talist vinnuveitandi skilanefndarmanna á þeim tíma sem hér sé til skoðunar. Í því sambandi bendir varnaraðili á að ekkert samningssamband hafi verið til staðar milli skilanefndarmanna og varnaraðila og hafi hann ekkert boðvald haft yfir þeim. Ef litið yrði hins vegar svo á að skilanefndarmenn hafi í einhverjum skilningi verið starfsmenn varnaraðila, telur varnaraðili að krafa þeirra ætti að njóta rétthæðar samkvæmt 3. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, en ekki samkvæmt 1. tl. 1. mgr. þeirrar greinar. Loks andmælir varnaraðili þeim sjónarmiðum sóknaraðila að kröfur hans verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, enda fái hann ekki séð að fyrir hendi séu lög, stjórnvaldsfyrirmæli eða samningar sem fellt geti greiðsluskyldu á varnaraðila gagnvart sóknaraðila á umræddum kostnaði.

Sem rökstuðning fyrir þeirri kröfu að hafna beri þrautaþrautavarakröfu sóknaraðila vísar varnaraðili til röksemda sinna hér að ofan.

Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísar varnaraðili til meginreglna vinnuréttar, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, auk ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Samræmis vegna kveðst hann einnig vísa til þeirra laga og reglna sem byggt sé á af hálfu sóknaraðila og geti varðað úrlausn málsins að einhverju leyti. Málskostnaðarkrafa byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

V

Lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tóku gildi 7. október 2008. Tilgangur laganna var að bregðast við yfirvofandi hættu á því að hérlendar fjármálastofnanir gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar vegna takmarkaðs framboðs á lánsfé. Lögin fólu í sér breytingar á nokkrum gildandi lögum, m.a. lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum. Með 5. gr. laganna var nýrri grein, 100. gr. a, bætt við lög nr. 161/2002, sem mælti fyrir um víðtækar heimildir Fjármálaeftirlitsins til afskipta og inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja, allt í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. sömu laga var Fjármálaeftirlitinu heimilt, samhliða því að tekin væri ákvörðun um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem færi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga, sem og öll málefni fyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur. Á grundvelli þessarar heimildar skipaði Fjármálaeftirlitið Landsbanka Íslands hf. fimm manna skilanefnd 7. október 2008. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til skilanefndar 15. október sama ár var áréttað að um störf og valdsvið nefndarinnar gilti 4. mgr. 5. gr. áðurnefndra laga nr. 125/2008. Þá sagði þar orðrétt svo: „Það skal áréttað að þeir einstaklingar sem skipa skilanefndina eru starfsmenn Fjármálaeftirlitsins og eru af þeim sökum ekki bótaskyldir vegna starfa sinna í skilanefnd, sbr. 9. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008.“ Samkvæmt lokamálsgrein oftnefndrar 5. gr. laga nr. 125/2008 bar ríkissjóður ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli greinarinnar, þ.m.t. skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnaðist.

Allt frá skipun skilanefndar til aprílmánaðar 2009 greiddi sóknaraðili laun skilanefndarmanna, samtals 116.864.161 krónu. Meðal gagna málsins eru reikningar frá félögum á vegum skilanefndarmanna en fram kemur í greinargerð sóknaraðila að verksamningar hafi verið gerðir við þau félög. Allir eru reikningarnir stílaðir á sóknaraðila og bera þeir engin merki þess að varnaraðili hafi fjallað um þá eða veitt heimild til greiðslu þeirra. Ekki er heldur að sjá að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun varnaraðila, sem skipaður var 5. desember 2008, hafi að neinu leyti fjallað um reikningana eða veitt heimild sína til greiðslu þeirra.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008 var varnaraðila, að kröfu sóknaraðila, veitt heimild til greiðslustöðvunar, en frestdagur var 15. nóvember sama ár. Hinn 22. nóvember sl. var varnaraðili tekinn til slitameðferðar.

 Með lögum nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, voru settar nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Gera þær ráð fyrir því að fjármálafyrirtækið sjálft hafi frumkvæði að slíkri slitameðferð en í bráðabirgðaákvæði laganna var þó gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið gæti einnig haft frumkvæði að því að taka yfir ráð fjármálafyrirtækis. Samkvæmt lögunum svipar nú reglum um slitameðferð um margt til reglna um gjaldþrotaskipti. Lög þessi tóku gildi 22. apríl 2009.

Í 5. gr. laganna, sbr. 101. gr. laga nr. 161/2002, er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að því að taka fjármálafyrirtæki til slita og réttaráhrif þess. Í bráðabirgðaákvæði II laga nr. 44/2009, sbr. bráðabirgðaákvæði V laga nr. 161/2002, er hins vegar að finna sérreglur um fjármálafyrirtæki sem njóta greiðslustöðvunar við  gildistöku laga nr. 44/2009. Samkvæmt 1. tl. bráðabirgðaákvæðisins skal heimild til greiðslustöðvunar haldast þrátt fyrir gildistöku laganna og má framlengja hana í allt að 24 mánuði frá því þinghaldi þegar heimild til greiðslustöðvunar var fyrst veitt. Í 2. tl. sama ákvæðis segir að við greiðslustöðvunina skuli beitt ákvæðum 1. mgr. 101. gr., 102. gr., 103. gr. og 103. gr. a laga nr. 161/2002, eins og fyrirtækið hefði verið tekið til slita með dómsúrskurði á þeim degi þegar lög nr. 44/2009 öðluðust gildi, en slitameðferðin skuli þó allt að einu kennd við heimild til greiðslustöðvunar svo lengi sem sú heimild standi. Þá segir í 3. tl. sama bráðabirgðaákvæðis að skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hafi skipað fyrir gildistöku laganna á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skuli með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað samkvæmt þeim breytingum á lögum nr. 161/2002, sem lögin mæltu fyrir um. Í almennum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 44/2009 er tekið fram í kafla sem ber heitið „Fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun“, að gert sé ráð fyrir að kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna greiðist af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Með frumvarpinu fylgdi umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þar segir m.a.: „Gert er ráð fyrir að skipuð verði slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús en þar gildir þó sú aðalregla að slitastjórn skal hafa það að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis. Kostnaður vegna starfa þessarar nefndar verður greiddur af þeim fyrirtækjum sem eru í skiptameðferð. Í lokamálsgrein 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008, er kveðið á um að ríkissjóður beri ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða Fjármálaeftirlitsins á grundvelli ákvæðisins, þar með talið skiptakostnaði ef til slíks kostnaðar stofnast. Þar sem skilanefndir gömlu bankanna þriggja voru skipaðar á grundvelli þessa ákvæðis hefur ríkissjóður borið kostnað af störfum þeirra að því leyti að ríkið hefur greitt laun skilanefndarmanna, en ekki annan kostnað. […] Hefur verið litið svo á að ríkissjóði bæri að greiða kostnað við störf skilanefndarmanna á meðan fjármálafyrirtækið hefði heimild til greiðslustöðvunar. […] Kveðið er á um það í frumvarpinu að kostnaður vegna starfsemi fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun og slitum, þ.m.t. kostnaður af störfum skilanefnda, skuli eftir gildistöku laganna greiðast af viðkomandi fjármálafyrirtæki, en ekki úr ríkissjóði.“

Þrátt fyrir síðastgreind ummæli í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, svo og ummæli í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 44/2009, er hvergi í lagatextanum kveðið á um það berum orðum hver skuli bera kostnað af störfum skilanefnda og slitastjórna fjármálafyrirtækis. Í lokamálslið 4. mgr. 5. gr. laganna segir þó eftirfarandi: „Að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í lögum þessum gilda reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eiga sæti í henni.“ Í nefndaráliti viðskiptanefndar Alþingis, sem lagt var fram við aðra umræðu um frumvarp þetta, má hins vegar sjá að nefndin lagði til að við bráðabirgðaákvæði II bættist nýr töluliður, svohljóðandi: „Frá gildistöku laga þessara greiðist allur kostnaður af greiðslustöðvun og slitameðferð af eignum þess fjármálafyrirtækis sem á í hlut.“ Við þriðju umræðu um frumvarpið dró viðskiptanefnd tillöguna til baka með þeirri athugasemd að hún gæti valdið misskilningi um hvernig fara skyldi með áfallinn kostnað af greiðslustöðvun og slitameðferð fjármálafyrirtækja. Í framhaldsnefndaráliti nefndarinnar kom einnig fram að nefndin teldi að ekki hafi verið ætlun löggjafans, þrátt fyrir lögfestingu lokamálsgreinar 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. þágildandi 10. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, að ríkissjóður greiddi kostnað af störfum skilanefnda.

Af lokamálsgrein 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 10. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002, er ljóst að ríkissjóður bar ábyrgð á kostnaði af framkvæmd aðgerða sóknaraðila á grundvelli 5. gr. laganna, þ.m.t. skiptakostnaði. Þótt orðalag ákvæðisins kunni að orka tvímælis er engu að síður ekkert sem bendir til þess að ætlun löggjafans hafi verið að kostnaðurinn yrði síðar endurgreiddur af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Í því sambandi má sérstaklega benda á að hvorki í athugasemdum við frumvarp til laganna né öðrum lögskýringargögnum er gert ráð fyrir endurgreiðslu þessa kostnaðar. Síðbúið framhaldsnefndarálit viðskiptanefndar Alþingis um túlkun ákvæðisins fær hér engu um breytt. Þvert á móti verður að telja þá skýringu nærtækari að með lögfestingu ákvæðisins hafi löggjafinn, í ljósi hinna sérstöku aðstæðna og víðtæku heimilda sem sóknaraðila voru fengnar, talið sér skylt að standa straum af kostnaði vegna aðgerða sóknaraðila. Má hér einnig benda á að skilanefndarmenn voru starfsmenn sóknaraðila samkvæmt verksamningi og beindu þeir þar af leiðandi öllum reikningum sínum að sóknaraðila, sem annaðist greiðslu þeirra, án nokkurra afskipta varnaraðila. Þá þykir ofangreind umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp til laga nr. 44/2009, ásamt breytingartillögu viðskiptanefndar Alþingis á bráðabirgðaákvæði II í þeim lögum, skjóta enn frekari stoðum undir það álit dómsins að ákvæðið verði ekki túlkað á þann hátt að ætlun löggjafans hafi verið að viðkomandi fjármálafyrirtæki skyldi að endingu bera kostnað af starfi skilanefndar. Ágreiningslaust er hins vegar að með lögum nr. 44/2009, sem öðluðust gildi 22. apríl 2009, var fyrirkomulagi þessu breytt í þá veru að frá þeim degi er kostnaður af störfum skilanefnda og slitastjórna greiddur af viðkomandi fjármálafyrirtæki.

Að framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að kröfur sóknaraðila um endurgreiðslu þess kostnaðar sem hann innti af hendi vegna starfa skilanefndar varnaraðila frá skipun nefndarinnar 7. október 2008 til aprílmánaðar 2009, alls 116.864.161 króna, eigi sér ekki stoð í lögum nr. 125/2008, né verði þær kröfur reistar á ákvæðum laga nr. 21/1991, hvorki beint eða með lögjöfnun. Leiðir sú niðurstaða til þess að hafna ber öllum kröfum sóknaraðila.

Eftir úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., alls að fjárhæð 116.864.161 króna, auk vaxta og kostnaðar, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.