Hæstiréttur íslands

Mál nr. 125/2017

Skúli Einarsson, Jónína Einarsdóttir, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Valdís Einarsdóttir, Ólöf Björg Einarsdóttir, Svanborg Þuríður Einarsdóttir, Jón Ægisson, Harald Óskar Haraldsson, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson (Skarphéðinn Pétursson lögmaður)
gegn
Veiðifélagi Laxdæla (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Veiðifélag
  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Sameign

Reifun

V keypti jörðina Ljárskóga af Laxárdalshreppi. Eftir kaupin var útbúin sérstök arð- og eignarhlutaskrá vegna jarðarinnar þar sem félagsmenn í V voru tilgreindir eigendur í samræmi við framlög sín vegna kaupanna, en þau voru í formi skertra arðgreiðslna frá félaginu. S o.fl. höfðuðu mál á hendur V og kröfðust viðurkenningar á eignartilkalli sínu til jarðarinnar samkvæmt þeim hlutföllum er greindi í skránni. Byggðu S o.fl. á því að í upphafi hefði verið tekin ákvörðun um að tilteknir félagsmenn innan V myndu, með atbeina félagsins, kaupa jörðina og félagið síðan afsala til þeirra hlutdeild þeirra í jörðinni til samræmis við framlög þeirra. Héraðsdómur taldi ekkert liggja fyrir um að slík ákvörðun hefði verið tekin og hafnaði því að S o.fl. hefðu sýnt fram á þau ættu lögmætt tilkall til þess að fallist yrði á kröfu þeirra. Var V því sýknað og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.  

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2017. Þau krefjast þess að viðurkennt verði að hverju þeirra fyrir sig tilheyri nánar tilgreindur eignarhlutur í söluverði jarðarinnar Ljárskóga samkvæmt kaupsamningi um hana og afsali frá 6. janúar 2017. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum, sem áfrýjendur hafa lagt fyrir Hæstarétt, stóð stefndi eftir uppkvaðningu héraðsdóms að kaupsamningi og afsali, sem gert var í einu lagi 6. janúar 2017, en þar seldi hann jörðina Ljárskóga fyrir 145.000.000 krónur, sem staðgreiddar voru við samningsgerð. Tekur framangreind kröfugerð áfrýjenda mið af þessu. Að því gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Skúli Einarsson, Jónína Einarsdóttir, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Valdís Einarsdóttir, Ólöf Björg Einarsdóttir, Svanborg Þuríður Einarsdóttir, Jón Ægisson, Harald Óskar Haraldsson, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson, greiði óskipt stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 21. nóvember 2016

I.

Mál þetta sem tekið var til dóms 24. október sl. er höfðað með stefnu birtri 12. júní 2013. Stefnendur eru Skúli Einarsson, Melshúsum, Álftanesi, Jónína Einarsdóttir, Tjarnargötu 16, Reykjavík, Jóhanna Lilja Einarsdóttir, Jóruseli 11, Reykjavík, Valdís Einarsdóttir, Lambeyrum, 371 Búðardal, Ólöf Björg Einarsdóttir, Heiðarbæ 1, 801 Selfossi, Svanborg Þuríður Einarsdóttir og Jón Ægisson Gillastöðum 2, 371 Búðardal, Harald Óskar Haraldsson, Svarfhóli, 371 Búðardal, Bjarni Hermannsson og Unnsteinn Kristinn Hermannsson, Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal. Stefndi er Veiðifélag Laxdæla, Þrándargili l, 371 Búðardal.

 

Endanlegar dómkröfur stefnenda í stefnu eru eftirfarandi:

„Stefnendur gera þær kröfur að viðurkennt verði með dómi, eignartilkall þeirra til jarðarinnar Ljárskóga, lnr. 137576, Dalabyggð, og að stefnda, Veiðifélagi Laxdæla, verði gert skylt með dómi að gefa út afsal til stefnenda, fyrir hlutdeild þeirra í jörðinni, þ.e. í hlutfalli við arð- og eignarhlutaskrá Veiðifélags Laxdæla, vegna Ljárskóga, dagsettri 8. apríl 1993, með þeim breytingum sem á henni urðu með afsali Laxárdalshrepps, dagsettu 31. maí 1994, og með afsali eigenda Hrappsstaða, dagsettu 10. maí 2004.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Skúla Einarssonar, kt. 290256-5429, Melshúsum, 225 Álftanesi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann  fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn  yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jónínu Einarsdóttur, kt. 110954-4339, Tjarnargötu 16, 101 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóhönnu Lilju Einarsdóttur, kt. 070457-2459, Jóruseli 11, 109 Reykjavík, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Valdísar Einarsdóttur, kt. 180564-3659, Lambeyrum, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Ólafar Bjargar Einarsdóttur, kt. 170167-2959, Heiðarbæ 1, 801 Selfossi, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Svanborgar Þuríðar Einarsdóttur, kt. 281268-5469, Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 1,48275% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hún fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Jóns Ægissonar, kt. 220359-3959, Gillastöðum 2, 371 Búðardal, fyrir 4,19900% hlut í jörðinni Ljárskógum og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Haralds Óskars Haraldssonar kt. 170370-3929, Svarfhóli, 371 Búðardal, fyrir 8,23800% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Bjarna Hermannssonar, kt. 230458-6269, Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.

 

Gerð er krafa um að viðurkennt verði eignartilkall Unnsteins Kristins Hermannssonar, kt. 060472-5999, Leiðólfsstöðum, 371 Búðardal, fyrir 2,27200% hlut í jörðinni Ljárskógum, og að hann fái afsal frá stefnda fyrir þeim hlut, gegn yfirlýsingu frá stefnanda um að hann eigi ekkert frekara eignatilkall til Ljárskóga sem aðili að veiðifélagi Laxdæla.“

 

Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt mati dómsins úr hendi stefnda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Stefndi krafðist þess aðallega að máli þessu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.

 

Með úrskurði dómsins hinn 4. júní 2014 var fallist á kröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi. Var í rökstuðningi dómsins vísað til þess að stefna í málinu væri í andstöðu við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úrskurður þessi var hins vegar ómerktur með dómi Hæstaréttar hinn 25. ágúst 2014, í málinu nr. 451/2014, og málinu vísað heim í hérað, þar sem ekki hefði verið gætt að ákv. d- og e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við samningu hans. Kveðinn var á ný upp úrskurður í málinu 13. janúar 2016 og var málinu þá á ný vísað frá dómi, með vísan til þess að nauðsyn hefði borið til að stefna öllum félagsmönnum stefnda, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Á þetta var hins vegar ekki fallist í Hæstarétti og var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar á ný, með dómi réttarins hinn 22. febrúar 2016, í máli nr. 70/2016.

 

Stefndi krefst því nú sýknu í málinu og að stefnendur verði dæmdir óskipt til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu.

 

II.

Stefndi er veiðifélag um lax- og silungsveiði á  vatnasvæði Laxár í Dölum í Dalasýslu og samkvæmt samþykktum félagsins, dags. 1. nóvember 2007, eiga eftirgreindar 28 jarðir aðild að því: Fjósar, Hrappsstaðir, Hjarðarholt, Spágilsstaðir, Goddastaðir, Lambastaðir, Gillastaðir I-II, Sámsstaðir I, II og III, Hamrar, Svalhöfði, Sólheimar I-II, Pálssel, Dönustaðir og Lambeyrar, Gröf, Svarfhóll og Engihlíð, Þrándargil, Leiðólfsstaðir, Hornsstaðir, Höskuldsstaðir, Sauðhús, Saurar og Ás.

 

Hinn 28. júlí 1987 var haldinn fundur í hinu stefnda veiðifélagi til að fjalla um bréf hreppsnefndar Laxárdalshrepps, nú Dalabyggð, dags. 24. sama mánaðar, þar sem stefnda var gefinn frestur til að svara því hvort hann óskaði eftir því að kaupa jörðina Ljárskóga af hreppnum ef hreppurinn myndi neyta forkaupsréttar vegna jarðarinnar. Á umræddum fundi var eftirfarandi tillaga samþykkt einróma af öllum landeigendum: „Almennur fundur Veiðifélags Laxár í Dölum haldinn í Dalabúð þann 28.07 ´87  heimilar stjórn félagsins að festa  kaup á jörðinni Ljárskógum í Laxárdalshrepp með þeim skilmálum sem getið er í bréfi hreppsnefndar 24.7. ´87“. Einnig var á fundinum samþykkt að veita stjórn félagsins umboð til að taka lán fyrir hluta af kaupverðinu, auk þess sem stjórninni var falið að öðru leyti að útvega fjármagn til kaupanna.

 

Hinn 11. september 1990 gaf Laxárdalshreppur út afsal til stefnda fyrir jörðinni Ljárskógum. Í afsalinu kemur fram að jörðin hafi verið afhent kaupanda 1. september 1987. Eftir að stefndi hafði eignast jörðina var útbúin svokölluð arð- og eignarhlutaskrá félagsins vegna jarðarinnar.

 

Þegar Laxárdalshreppur ráðstafaði jörðinni Ljárskógum til stefnda átti sveitarfélagið aðild að veiðifélaginu sem eigandi jarðarinnar Fjósa. Á þeim grunni virðist sem hreppurinn hafi talið sig eftir afsalið njóta réttinda yfir 8,99% hlut í Ljárskógum. Hinn 31. maí 1994 gaf hreppurinn út afsal til veiðifélagsins fyrir þessum ætlaða hlut sínum í Ljárskógum, þrátt fyrir að stefndi væri þá þegar þinglýstur eigandi allrar jarðarinnar Ljárskóga. Það sama gerðu eigendur jarðarinnar Hrappsstaða á árinu 2004 að því er varðar 8,488% hlut í Ljárskógum. Þessum ætluðu eignarhlutum í Ljárskógum vegna Fjósa og Hrappsstaða ráðstafaði stefndi síðan 1994 og 2004 til þeirra félagsmanna sinna sem vildu leysa þá til sín, en meðal þeirra voru í fyrra skiptið stefnendur allir  eða þeir sem þau leiða rétt sinn frá og í síðara skiptið hluti þeirra.

 

Ný arðskrá samkvæmt yfirmatsgerð, sem breytti arðskrárhlutföllum félagsmanna, tók gildi fyrir hið stefnda félag 1. janúar 1998.

 

Á félagsfundi í hinu stefnda félagi hinn 26. apríl 2011 var samþykkt heimild til stjórnar þess að afsala jörðinni Ljárskógum til félagsmanna í stefnda. Heimildin var sögð ná til þess að afsala jörðinni til félagsmanna í sömu hlutföllum og eignin hefði upphaflega verið keypt, ásamt þeim breytingum sem síðan hefðu átt sér stað með eignarhluta í viðskiptum milli félagsmanna. Næðist hins vegar ekki fullt samkomulag milli félagsmanna um þá leið væri stjórn félagsins heimilt að þinglýsa beitarkvöð fyrir félagsmenn á jörðina Ljárskóga og bjóða jörðina síðan til sölu á almennum markaði. Tveir landeigendur höfnuðu tillögunni og fimm sátu hjá.

 

Fram kemur í greinargerð stefnda að þar sem ekki hefði náðst samþykki allra félagsmanna fyrir tillögunni hefði orðið ljóst að fyrri hluti hennar myndi ekki ná fram að ganga, enda hefði hann verið bundinn þeim fyrirvara að fullt samkomulag væri meðal félagsmanna um að afsala jörðinni með þeim hætti sem mælt hefði verið fyrir um í tillögunni. Í ljósi þess, og að teknu tilliti til lögfræðiálita, hefði það verið niðurstaða stjórnar stefnda að fara ætti með Ljárskóga í arðskrárhlutfalli eins og aðrar eignir félagsins í bókum þess og að hætt yrði að halda hina sérstöku arðskrá fyrir hluta félagsmanna. Þannig hefðu sölurnar á svokölluðum Fjósahlut og Hrappsstaðahlut á árunum 1994 og 2004 falið í sér vanheimild, þar sem seljendurnir hefðu ekki verið lögformlegir eigendur hinna seldu eignarhluta. Í framhaldi af því hafi upphaflegir seljendur Fjósahluts og Hrappsstaðahluts ákveðið að endurgreiða öllum þeim sem reitt hefðu fjármuni af hendi vegna umræddra gerninga. Flestir hefðu tekið við þeim greiðslum án athugasemda og fyrirvara, þ. á m. nokkrir stefnenda, en einnig hefði hluti stefnenda neitað að taka við þeim.

 

Með bréfi lögmanns stefnenda til stefnda, dags. 25. mars 2013, var þess farið á leit að félagið viðurkenndi eignarhlutdeild stefnenda í jörðinni Ljárskógum og að afsal yrði í kjölfarið gefið út til þeirra í hlutfalli við arð og eignarhlutaskrá. Með bréfi lögmanna stefnda, dags. 23. apríl 2013, var lýst þeirri afstöðu stefnda að félagið væri eigandi jarðarinnar Ljárskóga, en ekki einstakir félagsmenn eða félagsmenn allir persónulega, og að færsla í sérstaka arðskrá og/eða önnur atvik er vörðuðu meðferð eignarhalds hennar skapaði ekki eignarréttindi til handa félagsmönnum persónulega.

 

III.

Stefnendur byggja kröfur sínar á ákvörðun sem tekin hafi verið á aðalfundi hjá stefnda hinn 28. júlí 1987. Ákvörðun þessi, sem stefnendur telji bindandi samning gagnvart stefnda, hafi verið þess efnis að ákveðinn hópur aðila innan vébanda stefnda hafi keypt fasteignina Ljárskóga með atbeina stefnda, en stefndi skyldi síðar afsala til þeirra hlutdeild í jörðinni í samræmi við það sem þeir legðu til kaupanna. Hafi kaupverð Ljárskóga verið innt af hendi með þeim hætti að þeir sem tekið hafi þátt í kaupunum hafi heimilað stefnda að ráðstafa arðgreiðslum sem þeir fengju frá stefnda til kaupanna. Þetta hafi verið gert í samræmi við arð- og eignarhlutaskrá um Ljárskóga, dags. 8. apríl 1993. Téðri skrá hafi verið þinglýst hinn 14. júní 1994 á jörðina Ljárskóga, og liggi hún til grundvallar kröfu stefnenda. Skráin hafi tekið breytingum í samræmi við innbyrðis eigendaskipti að eignarhlutunum, svo sem vegna kaupa hluta stefnenda á svokölluðum Fjósahlut og Hrappsstaðahlut. Þeir hlutar hafi áður verið í eigu eigenda jarðeignanna Fjósa og Hrappsstaða, líkt og nöfn þeirra gefi til kynna. Stefnendur, eða þeir sem þeir leiði rétt sinn frá, hafi innt kaupverð Ljárskóga af hendi með ráðstöfun arðgreiðslna sinna. Á grundvelli almennra reglna fjármunaréttar beri þeim því réttur til að fá afsal fyrir eigninni. Arður hafi alltaf verið greiddur samkvæmt arð- og eignarhlutaskrá vegna Ljárskóga. Sama megi segja um eignfærsluna og allar skattagreiðslur. Stefnendur byggi eignartilkall sitt því einnig á hefð.

 

Stefnendur vísa og til þess að í 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sé með skýrum hætti tekið fram að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eigi og í arðskrárhlutfalli. Samkvæmt því fari ekki á milli mála að stefnda beri að afsala hlut úr jörðinni Ljárskógum, sem sé utan umdæmis veiðifélagsins, til stefnenda í samræmi við hlutdeild þeirra í kaupunum, í samræmi við arð- og eignarhlutaskrá Ljárskóga, eins og hún hafi verið gerð árið 1987, með þeim breytingum sem hafa á henni orðið fram til ársins 2012.

               

Stefnendur telji að sú ákvörðun stjórnar stefnda að endurgreiða svokallaðan „Fjósahluta“, og breyting á arð- og eignarhlutaskrá í samræmi við það, sé ekki aðeins brot á samþykkt stefnda frá 28. júlí 1987 heldur fari hún einnig þvert gegn fyrirmælum 3. mgr. 41. gr. laga nr. 61/2006. Stjórn veiðifélagsins hafi verið óheimilt, einni og óstuddri, að taka umrædda ákvörðun og gera breytingu á arð- og eignarhlutaskrá Ljárskóga, í samræmi við þá ákvörðun, líkt og stjórnin hafi tilkynnt félagsmönnum í janúar 2012. Þessi ákvörðun stjórnar stefnda sé því ekki bindandi fyrir stefnendur.

Ekki sé á það fallist með stefnda að orðalag í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 209/2010 feli í sér niðurstöðu um hver sé eignarhlutdeild hvers aðila innan hins stefnda veiðifélags í jörðinni Ljárskógum. Þvert á móti komi fram í dóminum að ekki sé tekin afstaða til hugsanlegra fjárréttinda sem jörðinni tengist. Þar sé augljóslega átt við innbyrðis uppgjör vegna kaupa á jörðinni og þar með til eignartilkalls hvers félagsmanns veiðifélagsins til jarðarinnar Ljárskóga.

IV.

Til stuðnings sýknukröfu sinni vísar stefndi til þess að í dómi Hæstaréttar, í málinu nr. 209/2010, hafi verið staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að jörðin Ljárskógar væri í eigu hins stefnda félags en ekki einstakra félagsmanna þess eða einhverra er leiði rétt sinn frá þeim. Skipti þá engu þótt innan félagsins hafi verið farið með eignarhaldið eins og jörðin væri í óskiptri sameign fleiri eigenda innan félagsins eða sérstakt félag væri um jörðina. Hæstiréttur hafi og bætt við þeirri athugasemd í dómi sínum að jörðin Ljárskógar gæti ekki verið talin eign fyrrum eiganda jarðarinnar Dönustaða eða annarra félagsmanna í veiðifélaginu en með því væri þó „ekki tekin afstaða til hugsanlegra fjárréttinda hennar, sem jörðinni tengjast“. Stefndi hafni því alfarið sem röngu að með þessu sé „augljóslega átt við innbyrðis uppgjör vegna kaupa á jörðinni, og þar með eignartilkall hvers félagsmanns í veiðifélagi Laxdæla til jarðarinnar Ljárskóga“, eins og stefnendur haldi fram. Fyrirvarinn varði enda einungis fjárréttindi sem jörðinni tengist, s.s. rétt eigenda til arðs af henni. Ekki sé því um að ræða fyrirvara um eignaréttarleg atriði er jörðinni tengist. Stefndi hafi ávallt verið þinglýstur eigandi jarðarinnar og Sýslumaður Dalabyggðar hafi m.a. lýst því yfir gagnvart félagsmönnum stefnda að ekki væri hægt að þinglýsa gerningunum sem byggðust á vanheimild, þar sem stefndi væri þinglýstur eigandi jarðarinnar.

 

Til þess að stefnendur geti orðið beinir eigendur jarðarinnar, eins og þeir krefjist í máli þessu, þurfi að liggja skýrt fyrir að samið hafi verið svo um á milli stefnenda og stefnda að stefnendur myndu eignast beinan eignarhlut í jörðinni. Í samræmi við meginreglur samningaréttar og laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, með síðari breytingum, stofnist samningur yfirleitt þegar tilboð tilboðsgjafa sé samþykkt af hálfu tilboðshafa. Þurfi samningurinn þá að vera grundvallaður á loforði loforðsgjafa er feli í sér skuldbindingu af hans hálfu. Stefnendur hafi ekki með nokkru móti sannað eða gert líklegt að stefndi hafi lofað, eða skuldbundið sig með öðrum hætti, til þess að afsala til stefnenda eða annarra aðila stefnda eignarétti að jörðinni Ljárskógum. Þótt rætt hafi verið um það á vettvangi stefnda að stofna hlutafélag í kringum jörðina hafi aldrei orðið af því. Þá skipti engu máli þótt arðgreiðslur félagsmanna hafi verið notaðar að hluta til fjármögnunar. Slíkt sé eðlilegt í ljósi þess að kaupin á jörðinni hafi verið fjárfesting sem félagsmenn stefnda hafi notið góðs af og hirt arð af í arðskrárhlutfalli.

 

Þá hafni stefndi því alfarið að ákvörðun á almennum félagsfundi hinn 26. apríl 2011 hafi falið í sér skuldbindandi samning. Þar hafi einungis verið mælt fyrir um að stjórninni væri „heimilt“ að afsala jörðinni Ljárskógum til félagsmanna stefnda. Heimildin hafi náð til þess að afsala jörðinni til félagsmanna í sömu hlutföllum og eignin hafi upphaflega verið keypt, ásamt þeim breytingum sem síðan hefðu átt sér stað með „eignarhluta“ í viðskiptum milli félagsmanna. Í tillögunni hafi og verið tiltekið að ef ekki næðist fullt samkomulag milli félagsmanna um framangreint væri stjórn félagsins heimilt að þinglýsa beitarkvöð fyrir félagsmenn á jörðina Ljárskóga og bjóða jörðina síðan til sölu á almennum markaði. Framangreind heimild fyrir stjórnina hafi byggst á því að allir félagsmenn myndu samþykkja þá ráðstöfun. Strax hafi legið fyrir að sú leið væri ófær þar sem félagsmenn hafi ekki verið einhuga um að selja jörðina með þeim hætti. Þá hafi legið fyrir lögfræðilegar álitsgerðir um að gerningarnir frá 1994 og 2004 væru grundvallaðir á vanheimild. Hafi seljendurnir því ákveðið að endurgreiða öllum þeim sem reitt hefðu fjármuni af hendi vegna umræddra gerninga, eins og áður segi, en í staðinn hafi beitarkvöð verið þinglýst fyrir félagsmenn á jörðinni og jörðin síðan boðin til sölu á almennum markaði, allt í samræmi við varatillögu ákvörðunar félagsfundarins.

 

Þá telji stefndi rétt að benda á að við mat á ráðstöfun eigna í eigu veiðifélags eigi aðallega beinlínis, en til vara til hliðsjónar, að taka mið af einstökum ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, enda sé um mjög svo sambærilegt sameignarform að ræða. Þar sé mælt fyrir um í 2. mgr. 21. gr. að óheimilt sé að ráðstafa hlutum séreignar nema með samþykki allra eigenda. Gildi hið sama um ráðstöfun sameignar fjöleignarhúss, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna. Því sé ljóst að jafnvel þótt svo ólíklega færi að fundargerðin frá 26. apríl 2011 yrði talin einhvers konar „samnings­ígildi“ hafi stjórn félagsins allt að einu verið óheimilt að ráðstafa eigninni með þeim hætti sem mælt hafi verið fyrir um í fundargerðinni, enda hefðu eigendurnir allir þurft að samþykkja ráðstöfunina.

 

Með vísan til framangreinds sé ljóst að enginn samningur sé eða hafi verið til staðar á milli stefnenda og stefnda þess efnis að stefnendur yrðu beinir eigendur að jörðinni Ljárskógum.

 

Engu skipti við úrlausn þessa máls að jörðin Ljárskógar sé utan félagssvæðis stefnda. Félagsmenn stefnda grundvalli rétt sinn til Ljárskóga á 2. mgr. 59. gr. þágildandi laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði, sbr. 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þá sé og ljóst að ákvörðun stefnda um breytingu á arðskrá hafi ekki verið bindandi fyrir stefnendur.

 

Óheimilt hafi verið að halda sérstaka arðskrá um Ljárskóga, þar sem jörðin hafi verið eign veiðifélagsins og hlutdeild félagsmanna byggst á gerningum sem grundvallast hafi á vanheimild. Í því sambandi beri einnig að nefna að á árinu 1997 hafi farið fram arðskrármat í stefnda og ný arðskrá tekið gildi sem breytt hafi arðskrárhlutföllum félagsmanna. Arðskrá fyrir Ljárskóga hafi ekki verið breytt til samræmis við nýtt yfirmat og hafi því orðið misræmi milli arðskrárhlutfalla félagsmanna í eignum félagsins, sem nauðsynlegt hafi verið að leiðrétta. Í öllu falli sé ljóst að hin sérstaka arðskrá um Ljárskóga sé ekki arðskrá veiðifélags í skilningi 41. gr. laga nr. 61/2006 og hafi afnám hennar því ekki farið eftir þeim lögum.

 

Að lokum mótmæli stefndi skilningi stefnanda á 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Í fyrsta lagi verði að túlka aðstæðurnar í þessu máli á grundvelli 2. mgr. 59. gr. þágildandi laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði en ekki ákvæðis hinna nýju laga. Orðalagið í lögum nr. 61/2006, um að eignir veiðifélags „tilheyri“ fasteignum á félagssvæðinu, sé ósamrýmanlegt orðalagi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 76/1970, sem gilt hafi um ráðstafanir í þessu máli. Í því ákvæði komi einungis fram að eignir veiðifélags eigi að „teljast til“ jarða á félagssvæðinu í arðskrárhlutfalli. Það orðalag bendi til þess að eignirnar hafi ekki átt að „tilheyra“ aðilum veiðifélagsins, heldur einungis að aðilarnir ættu að hirða arð af eignunum í samræmi við arðskrárhlutfall. Þar sem ekki hafi verið ætlunin að breyta merkingu ákvæðisins með lögum nr. 61/2006, sbr. orðalag í athugasemdum með 37. gr. frumvarpi til laganna um að með ákvæðinu sé „áréttuð“ sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna, verði að skýra það til samræmis við ákvæði eldri laga.

 

Í öðru lagi telji stefndi að jafnvel þótt talið yrði að leggja ætti ákvæði laga nr. 61/2006 til grundvallar í máli þessu þá komi orðalagið um að eignir veiðifélags „tilheyri“ fasteignum á félagssvæði veiðifélags ekki í veg fyrir að veiðifélag geti verið beinn og þinglýstur eigandi fasteignar, sbr. orðalagið í upphafi ákvæðisins um „sjálfstæðar“ eignir veiðifélags. Telji stefndi því að ákvæðið breyti ekki inntaki eignarheimilda eða eignarréttar stefnda, enda geti félagsmenn ekki átt sjálfstætt tilkall til eignarréttar yfir eignum og breytist eignarhlutur þeirra einungis í hlutfalli við breytingar sem gerðar séu á arðskrá veiðifélags hverju sinni, sbr. orðalag 6. mgr. 37. gr. laganna um að eignirnar tilheyri fasteignum á félagssvæðinu „í arðskrárhlutfalli“. Þá sé ljóst að í ákvæðinu komi fram að eignir veiðifélags tilheyri fasteignum á félagssvæði veiðifélags. Ekki sé því gert ráð fyrir því í lögunum að eignirnar tilheyri einstaklingum eða lögpersónum öðruvísi en sem eigendum þeirra fasteigna sem aðild eigi að veiðifélaginu. Dómkröfur stefnanda samrýmist því engan veginn tilvitnuðu ákvæði laganna um lax- og silungsveiði.

Þá telji stefndi í þriðja lagi að ekki sé hægt að byggja rétt á hinni sérstöku arðskrá Ljárskóga, sem nú hafi verið felld úr gildi. Þannig hafi arðskráin verið byggð á gerningum sem ekki hafi getað öðlast gildi sökum vanheimildar. Þá sé ljóst að lög um lax- og silungsveiði komi í veg fyrir að veiðiréttarhafi geti afsalað sér rétti í veiðifélagi, t.d. með framsali á rétti til arðgreiðslna í því. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 sé skylt að stofna veiðifélag í hverju fiskihverfi og sé veiðiréttarhöfum á félagssvæðinu skylt að taka þátt í veiðifélaginu, sbr. 2. og 5. mgr. 37. gr. laganna. Veiðifélagi sé enn fremur skylt að láta gera skrá er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði sem koma skuli í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklings er veiðirétt eigi í vatni á félagssvæði, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna. Framangreint þýði það að veiðiréttarhafar séu skyldugir til þess að eiga aðild að veiðifélagi. Geti veiðiréttarhafi ekki framselt réttindi sem tengist aðild að veiðifélaginu, s.s. með framsali á rétti til arðs í því. Megi enn fremur ráða þetta af 4. mgr. 2. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. núgildandi laga um sama efni, þar sem mælt sé fyrir um að veiðiréttarhafa sé óheimilt að skilja veiðirétt að nokkru leyti eða öllu frá fasteign.

 

Af framanröktum ákvæðum, sem og með vísan til 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006, sbr. 2. mgr. 59. gr. þágildandi laga um lax- og silungsveiði, sé ljóst að eignarráð félagsmanna í jörðinni Ljárskógum hafi átt að fara eftir arðskrárhlutfalli þeirra í arðskrá stefnda hverju sinni, með sama hætti og gilt hafi um aðrar sjálfstæðar eignir stefnda. Óheimilt hafi því verið að halda sérstaka arðskrá um tiltekna eign sem væri ósamrýmanleg arðskrá veiðifélagsins. Þannig sé enda hvergi í lögum nr. 61/2006 mælt fyrir um heimild fyrir félagsmenn í veiðifélagi til að minnka arðshlutfall sitt vegna tiltekinna þátta í rekstri veiðifélagsins.

 

V.

Niðurstaða

Eins og áður er rakið festi stefndi kaup á jörðinni Ljárskógum samkvæmt afsali frá Laxárdalshreppi hinn 11. september 1990. Eftir að stefndi eignaðist jörðina var útbúin sérstök „arð- og eignarhlutaskrá“ félagsins vegna hennar. Voru félagsmenn stefnda þar tilgreindir sem eigendur tiltekins eignarhluta jarðarinnar í hlutfalli við framlög sín vegna kaupa stefnda á henni og síðan einnig vegna kaupa félagsins á ætluðum eignarhlutum jarðanna Fjósa og Hrappsstaða í Ljárskógum, en framlög þessi voru í formi skertra arðsgreiðslna frá félaginu. Stefnendur krefjast í máli þessu viðurkenningar á því að þeir séu á grundvelli framangreindrar skrár hver um sig eigandi að tilteknum hlut í Ljárskógum og að stefnda verði gert að gefa út til þeirra afsöl fyrir þeim eignarhlutum.

 

Stefnendur byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að ákvörðun hafi verið tekin um það á almennum félagsfundi stefnda hinn 28. júlí 1987 að tiltekinn hópur manna innan vébanda stefnda myndi, með atbeina stefnda, kaupa jörðina Ljárskóga af Laxárdalshreppi, en stefndi síðar afsala til þeirra hlutdeild í jörðinni í samræmi við það sem þeir legðu til kaupanna í formi skertra arðsgreiðslna. Ekki liggur neitt fyrir um að slík ákvörðun sem stefnendur lýsa hafi verið tekin á umræddum fundi 28. júlí 1987. Þannig er einungis bókað í fundargerð stefnda vegna fundarins að samþykktar hafi verið tillögur um heimild fyrir stjórn félagsins til að festa kaup á jörðinni, til að nýta tilgreinda fjárhæð úr rekstri félagsins til kaupanna og til að sjá að öðru leyti „um útvegun fjármagns til kaupanna“, eftir atvikum með fyrirgreiðslu frá tilgreindum banka. Verður ekki talið að stefnendur hafi á neinn hátt sýnt fram á það að á fundi þessum hafi verið tekin ákvörðun af hálfu stefnda, sem unnt er að líta á sem skuldbindandi loforð hans um útgáfu afsals fyrir jörðinni til handa stefnendum eða öðrum félagsmönnum stefnda.

 

Stefnendur styðja framangreint og við „ákvörðun sem tekin var á aðalfundi stefnda 26. apríl 2011“. Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð vegna almenns félagsfundar sem haldinn var í veiðifélaginu þann dag var eftirfarandi tillaga stjórnar félagsins borin upp á fundinum:

  1. Stjórninni er heimilt að afsala jörðinni Ljárskógum til félagsmanna í veiðifélagi Laxdæla. Heimild þessi nær til þess að afsala jörðinni til félagsmanna í sömu hlutföllum og eignin var upphaflega keypt ásamt þeim breytingum sem síðan hafa átt sér stað með eignarhluta í viðskiptum milli félagsmanna.
  2. Náist ekki fullt samkomulag milli félagsmanna um leið 1. er stjórn félagsins heimilt að þinglýsa beitarkvöð fyrir félagsmenn á jörðina Ljárskóga og bjóða jörðina síðan til sölu á almennum markaði. Ákvörðun um hvort kauptilboði skuli tekið í jörðina skal tekin á almennum félagsfundi í veiðifélaginu.

 

Fram kemur í fundargerðarbókuninni að tillagan hafi verið samþykkt með 16 atkvæðum, en 2 sagt nei og 5 setið hjá. Samkvæmt því náðist ekki „fullt samkomulag milli félagsmanna um leið 1“, og mun sú heimild til stjórnar stefnda þar af leiðandi aldrei hafa verið nýtt. Samkvæmt því, og þar sem hvorki verður ráðið af fundargerð þessa fundar að öðru leyti né öðrum gögnum málsins að þar hafi verið tekin skuldbindandi ákvörðun fyrir stefnda, um að afsala jörðinni til stefnenda og annarra félagsmanna með framangreindum hætti, eru þessi rök stefnenda haldlaus. 

 

Eins og fyrr er rakið eignaðist stefndi jörðina Ljárskóga með afsali hinn 11. september 1990. Hann er einn þinglýstur eigandi jarðarinnar og nýtur hvorki með félagsmönnum sínum óskiptra réttinda yfir henni né ber hann með þeim óskipta skyldu vegna hennar, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 70/2016. Hins vegar tilheyra Ljárskógar, svo og aðrar sjálfstæðar eignir stefnda, þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga, og í þeim hlutföllum sem greinir í arðskrá félagsins hverju sinni, sbr. 6. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Samkvæmt því geta eignarráð stefnenda að Ljárskógum, jafnvel þótt sú eign sé ekki sjálf á félagssvæðinu, því eingöngu byggst á arðskrárhlut fasteigna þeirra í stefnda. Breytir í því sambandi engu þótt haldin hafi verið sjálfstæð „arð- og eignarhlutaskrá“ fyrir jörðina, enda gat sú skrá hvorki falið í sér bindandi afsal á eignarhlutum í jörðinni né talist gild sem arðskrá í skilningi laga nr. 61/2006. Af því leiðir og að útborgun arðs til félagsmanna í andstöðu við framangreint lagaákvæði gat aldrei unnið þeim rétt til jarðarinnar á grundvelli reglna um hefð. Verður því að hafna málsástæðum stefnenda um að framangreint lagaákvæði geti með einhverjum hætti leitt til þess að taka beri kröfur þeirra til greina.

 

Að framangreindu virtu, og þar sem stefnendur hafa ekki að öðru leyti sýnt fram á að þeir eigi lögmætt tilkall til þess að fallist verði á kröfur þeirra, verður kröfum þeirra hafnað. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.

 

Að fenginni þeirri niðurstöðu verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað.

 

Dóm þennan kveður upp Ásgeir Magnússon dómstjóri.

 

Dómsorð:

Stefndi, Veiðifélag Laxdæla, skal vera sýkn af kröfum stefnenda, Skúla Einarssonar, Jónínu Einarsdóttur, Jóhönnu Lilju Einarsdóttur, Valdísar Einarsdóttur, Ólafar Bjargar Einarsdóttur, Svanborgar Þuríðar Einarsdóttur, Jóns Ægissonar, Haraldar Óskars Haraldssonar, Bjarna Hermannssonar og Unnsteins Kristins Hermannssonar.

Stefnendur greiði stefnda óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað.