Hæstiréttur íslands

Mál nr. 185/1999


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Fyrningarfrestur


           

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 185/1999.

Erlingur Gunnarsson

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

gegn

Stefaníu Lárusdóttur

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

Lánssamningur. Fyrningarfrestur.

S lagði 400.000 krónur inn á bankareikning E, sem notaði féð í eigin þágu. Talið var að E hefði ekki fært fyrir því viðhlítandi sönnur að greiðslan hefði verið gjöf af hálfu S eða endurgjald af einhverju tagi. Krafa S, sem sætti 10 ára fyrningarfresti, taldist ófyrnd og ekki fallin niður fyrir tómlæti. Var dómur héraðsdóms um að E skyldi endurgreiða S fjárhæðina staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 1999. Hann krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefndu og hún dæmd til greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í héraðsdómi er ágreiningslaust í málinu, að hinn 11. maí 1989 hafi stefnda lagt inn á bankareikning áfrýjanda 400.000 krónur og hafi áfrýjandi notað þetta fé í eigin þágu. Með hliðsjón af atvikum málsins verður á það fallist með héraðsdómara, að áfrýjandi hafi ekki fært viðhlítandi sönnur fyrir því að greiðslan hafi verið gjöf af hálfu stefndu eða endurgjald af einhverju tagi. Verður því að líta svo á að þetta hafi verið peningalán og sæti krafa stefndu 10 ára fyrningarfresti samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Ekki var samið um gjalddaga skuldarinnar og gat stefnda krafist greiðslu þegar eftir 11. maí 1989. Stefna í málinu var birt 19. júní 1998 og telst krafan því ekki fyrnd. Málsástæða áfrýjanda þess efnis að krafan sé fallin niður fyrir tómlæti, án tillits til fyrningar hennar, er haldlaus. Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma áfrýjanda til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Erlingur Gunnarsson, greiði stefndu, Stefaníu Lárusdóttur, 100.000  krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 7. apríl 1999.

Mál þetta, sem höfðað er með stefnu útgefinni hinn 19. júní 1998 og þingfest hinn 24. júní 1998, var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 12. mars 1999.

Stefnandi málsins er Stefanía Lárusdóttir, kt. 190552-3149, Stórhól, Djúpavogshreppi og stefndi er Erlingur Gunnarsson, kt. 250150-2619, Gautavík, Djúpavogshreppi.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verða dæmt skylt að greiða henni kr. 400.000 ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25 frá 1987, frá 24. júní 1994 til greiðsludags, og málskostnað eftir framlögðum málskostnaðareikningi.

Stefndi gerir kröfu um sýknu af kröfu stefnanda og málskostnað úr hendi stefnanda eftir framlögðum málskostnaðarreikningi.

Málavextir eru þeir, að hinn 11. maí 1989 lagði stefnandi kr. 400.000 inn á bankareikning stefnda í Landsbankanum á Djúpavogi.

Þegar innlögnin var gerð, var stefndi staddur í Reykjavík í þeim erindum að kaupa bifreið og gengu peningarnir upp í kaupverð bifreiðarinnar.

Enginn skriflegur gerningur var gerður um greiðslu þessa annar en kvittun fyrir innborgun stefnanda á tékkareikning stefnda nr. 284 í Landsbankanum á Djúpavogi hinn 11. maí 1989.

Stefnandi heldur því fram, að þau stefndi hafi rætt um það, að stefnandi lánaði stefnda fé þetta og skyldi það endurgreitt, þegar stefndi hefði tök á því, eða þegar stefnandi þyrfti á að halda, ef það yrði fyrr. Telur hún að aðilar hafi reiknað með að endurgreiðsla færi fram á ca. 2-3 misserum.

Stefnandi telur að hún hafi nokkrum sinnum óskað eftir því við stefnda á árunum 1990-1992, að hann endurgreiddi lánið, en hann hafi ekki orðið við því. Frá því fyrir um 5 árum síðan telur stefnandi sig margítrekað hafa gert skýra kröfu til stefnda um að hann endurgreiddi lánið.

Stefndi viðurkennir að stefnandi hafi lagt þá fjárhæð, sem stefnt er um, inn á ofangreindan reikning, en segir, að stefnandi hafi gert það ótilkvödd og að eigin frumkvæði og hafi ekki verið um lán að ræða, heldur óafturkræft framlag. Stefndi rak ekki minni til, að á milli hans og stefnanda hafi farið nein orð um þessa greiðslu. Þó taldi hann, að stefnandi hafi einhvern tíma um þetta leyti sagt við hann eitthvað á þá leið, „að þú hjálpar mér kannski ef ég byggi mér hús yfir mig og mitt fólk á Stórhól.” Hann hafi ekki kannað neitt nánar hjá stefnanda, hver var ætlun hennar með þá greiðslu, sem hún lagði inn á reikning hans.

Stefndi vissi um innlögn fjárins inn á reikninginn samdægurs. Mun ætlun hans hafa hafa verið, að taka að hluta lán til bifreiðakaupanna, en hætti við það, þegar hann fékk peningana inn á reikninginn.

Stefndi taldi, að þau stefnandi hefðu fyrst talað um mál þetta er stefnandi hringdi til hans í farsíma, sennilega í mars 1996, en símasamband hafði slitnað og var ekkert rætt út um málið í því samtali. Síðan telur hann að hann hafi ekki fengið kröfu um endurgreiðslu fyrr en hann fékk bréf frá lögmanni stefnanda, sem dagsett er 15. ágúst 1997.

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hún hafi veitt stefnda peningalán, sem stefnda sé skylt að endurgreiða skv. almennum reglum samninga- og kröfuréttar.

Kröfu sín um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Upphafsdag dráttarvaxta miðar stefnandi við fjögur ár fyrir þingfestingu máls þessa. Er það gert vegna fyrningarreglna, en stefnandi telur hins vegar að rétt til dráttarvaxta hafi hún átt frá 1990 og samkvæmt því miðast krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól skuldar í vaxtaútreikningi við 31. desember 1990.

Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að hann beri ekki greiðsluskyldu gagnvart stefnanda vegna stefnufjárhæðar. Hann hafi aldrei tekið lán hjá stefnanda og krafa í máli þessu sé þar af leiðandi ekki um endurgreiðslu láns, sem stefnandi hafi veitt honum, heldur sé verið að gera kröfu um að hann endurgreiði framlag, sem hún innti af hendi til hans á árinu 1989 sem gjöf og/eða til greiðslu eigin framfærslu á heimili hans. Stefndi byggir á því, að um skuldbindandi gjafagerning og/eða greiðslu vegna framfærslu hafi verið að ræða og því geti stefnandi ekki tekið það til baka.

Stefndi byggir á því, að aðilar hafi ekki gert samkomulag um endurgreiðslu á þeirri fjárhæð, sem stefnandi innti af hendi til hans í maí 1989 og því eigi hún ekki lögvarða kröfu um að fá hana greidda til baka. Stefnandi hafi aldrei ætlað sér að fá fjárhæðina endurgreidda eins og aðgerðarleysi stefnanda varðandi innheimtu kröfunnar sýni.

Stefndi byggir jafnframt á því að ekki liggi fyrir í málinu neinn lánssamningur og því sé ekki hægt að gera kröfu um endurgreiðslu á meintu láni samkvæmt lánssamningi. Það sé stefnanda að sýna fram á að hann hafi veitt stefnda lán og það hafi hún ekki gert í framlögðum gögnum málsins. Stefndi hafnar því með öllu að hann hafi tekið lán hjá stefnanda, enda hafi sú fjárhæð sem hún er að gera kröfu um að fá endurgreidda, verið innt af hendi að hennar eigin frumkvæði og án þess að stefndi hafi beðið um það.

Þá byggir stefndi á því að krafa stefnanda ef einhver, sé fallin niður fyrir tómlæti, þar sem hún hafi ekki rækt hana í um níu ár, eða fram að útgáfu stefnu. Ef hún hafi átt kröfu á stefnda með gjalddaga á árinu 1989 eða 1990, eins og haldið sé fram í stefnu, þá hafi hún fyrirgert rétti sínum með vanrækslu á að innheimta kröfuna. Stefndi byggir einnig á tómlæti sérstaklega varðandi kröfu um dráttarvexti og málskostnað, þar sem hún hafi með vanrækslu sinni á að innheimta kröfuna, fyrirgert rétti sínum til dráttarvaxta og kostnaðar af innheimtu, enda hafi hún ekki einu sinni reynt að innheimta kröfuna sjálf hjá stefnda, áður en hún leitaði aðstoðar lögmanns.

Að lokum byggir stefndi á því, að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu í samræmi við 5. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905. Ef eingöngu sé miðað við gögn málsins, þá sé að minnsta kosti ljóst að aðilar hafi ekki litið eins á afhendingu stefnanda á umræddri fjárhæð í maí 1989. Stefndi hafi tekið við henni í góðri trú um að um gjöf og/eða greiðslu til heimilishalds vegna dvalar stefnanda á heimili hans væri að ræða. Ef stefnandi hefur talið sig hafa verið að lána stefnda peninga með von um endurgjald, þá sé ljóst, að hún hafi greitt í rangri trú og fyrningartími á slíkum endurgjaldskröfum sé aðeins fjögur ár. Miðað við þetta hafi krafan þannig fyrnst á árinu 1993.

Um fyrningu kröfunnar er til vara byggt á 1. tl. 3. gr. s.l. þar sem tekið er fram að kröfur vegna veru, viðurgernings eða aðhlynningar fyrnist á fjórum árum og þá muni kröfur og endurkröfur vegna greiðslu til framfærslu þannig hafa fjögurra ára fyrningartíma.

Niðurstaða.

Óumdeilt er, að stefnandi lagði hinn 11. maí 1989 inn á reikning stefnda í Landsbankanum á Djúpavogi kr. 400.000.

Aðila greinir á um til hvers greiðslan hafi verið ætluð. Stefndi hefur ekki sýnt fram á, að stefnandi hafi verið að greiða honum skuld og ekki gert það líklegt, að stefnandi hafi verið að færa honum féð að gjöf.

Hefur ekki verið hnekkt þeirri staðhæfingu stefnanda, að hún hafi greitt stefnda féð sem lán.

Bar stefnda því að endurgreiða stefnanda féð, þegar þess var krafist.

Stefndi hefur byggt á því, að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt lögum nr. 14/1905.

Óumdeilt er, að ekki var rætt um það á milli aðila, hvenær greiða skyldi skuldina, og var hún því gjaldkræf, þegar skuldareigandi krafðist hennar. Stefnandi krafði stefnda svo sannað verði fyrst með bréfi dagsettu 15. ágúst 1997. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 telst fyrningarfrestur frá þeim degi, er skuldin í fyrsta lagi gat orðið gjaldkræf eftir uppsögn, sem er þá 15. ágúst 1997. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna, fyrnist skuld sem þessi á 10 árum. Verður því ekki fallist á, að skuldin sé fyrnd.

Aðilar hafa ekki haldið því fram, að samið hafi verið um að skuldin skyldi bera vexti á lánstímanum og verða því ekki dæmdir vextir fyrir þann tíma. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 er heimilt að reikna dráttarvexti af kröfum, þar sem ekki er samið um gjalddaga, þegar liðinn er mánuður frá því kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu. Samkvæmt því ber að að dæma stefnda til að greiða stefnanda dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 400.000 frá 15. september 1997 til greiðsludags.

Samkvæmt þessu greiði stefndi stefnanda kr. 400.000 með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. september 1997 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda kr. 130.000 í málskostnað.

Logi Guðbrandsson, dómstjóri kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Erlingur Gunnarsson, greiði stefnanda, Stefaníu Lárusdóttur, kr. 400.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. september 1997 til greiðsludags og kr. 130.000 í málskostnað.