Hæstiréttur íslands
Mál nr. 408/2002
Lykilorð
- Vörumerki
- Samkeppni
- Sekt
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 27. febrúar 2003. |
|
Nr. 408/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Herluf Clausen og Arnarvík, heildverslun ehf. (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Vörumerki. Samkeppni. Sekt. Upptaka.
H, sem var framkvæmdastjóri A ehf., og A ehf. voru dæmd til greiðslu sektar fyrir brot á samkeppnislögum og lögum um vörumerki með því að hafa boðið til sölu og selt íslenskum aðila stuttermaboli, sem voru eftirlíkingar af framleiðsluvörum erlends fyrirtækis og höfðu verið framleiddir ólöglega með eftirlíkingum af vörumerkjum þess fyrirtækis og merkingum sem vísuðu til þeirra þannig að á varð villst.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd og ákærðu Arnarvík, heildverslun ehf. verði gert að sæta upptöku á 335.094 krónum.
Ákærðu krefjast aðallega sýknu. Til vara krefjast þau að refsing verði milduð og krafa um upptöku ávinnings lækkuð. Þá krefjast þau þess að allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
Í málinu eru ákærða Herluf gefin að sök brot á 178. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 25. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 4. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki með því að hafa sem starfandi framkvæmdastjóri ákærða Arnarvíkur, heildverslunar ehf. boðið til sölu og selt Baugi hf. 22. júlí 1999 tiltekinn fjölda stuttermabola, sem verið hafi eftirlíkingar af framleiðsluvörum fyrirtækisins STUSSY INC., sem framleiddir hafi verið ólöglega með eftirlíkingum af vörumerkjum fyrirtækisins og merkingum sem vísað hafi til þeirra þannig að á yrði villst. Bolina hafi ákærði keypt í Hong Kong og flutt inn, eins og nánar er lýst í ákæru. Um refsiábyrgð hins ákærða félags er í ákæru vísað til 3. mgr. 57. gr. laga nr. 8/1993 og 3. mgr. 42. gr. laga nr. 45/1997.
Samkvæmt c. lið 3. mgr. 27. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 3. gr. laga nr. 84/1996 höfðar ríkissaksóknari opinbert mál ef um er að ræða brot á ákvæðum XVIII. XXII. kafla almennra hegningarlaga, en 178. gr. er í XIX. kafla laganna. Segir í 4. mgr. 27. gr. fyrrgreindu laganna að feli háttsemi í sér annað eða önnur brot en tilgreind eru í 3. mgr. ákvæðisins, auk brots eða brota, sem þar eru greind, taki ríkissaksóknari ákvörðun um það hvort hann sjálfur höfði mál eða lögreglustjóri. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að slík ákvörðun hafi ekki verið tekin af hálfu ríkissaksóknara. Brast ríkislögreglustjóra, sem gaf út ákæruna, því heimild til að höfða mál á hendur ákærða fyrir brot gegn 178. gr. almennra hegningarlaga. Þegar af þeirri ástæðu verður ákærði ekki sakfelldur fyrir brot á því ákvæði. Að þessu athuguðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Herluf Clausen og Arnarvík, heildverslun ehf., greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2002.
Mál þetta var höfðað með ákæru Ríkislögreglustjóra, dagsettri 15. febrúar 2002, á hendur Herluf Clausen, kt. 130944-5159, Hofsvallagötu 1, Reykjavík, og Arnarvík heildverslun ehf., kt. 641193-2679, Bröttugötu 3b, Reykjavík, en fyrirsvarsmaður félagsins er Lára Clausen, kt. 130243-7979, Leynisbrún 5, Grindavík.
Málið er höfðað “... fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um vörumerki og samkeppnislögum, með því að hafa sem starfandi framkvæmdastjóri Arnarvíkur heildverslunar ehf. boðið til sölu og selt þann 22. júlí 1999, Baugi hf., kt. 480798-2289, fyrir kr. 701.091 að meðtöldum virðisaukaskatti, 901 stuttermabol sem voru eftirlíkingar af framleiðsluvörum fyrirtækisins STUSSY Inc. sem framleiddar höfðu verið ólöglega með eftirlíkingum af vörumerkjum þess fyrirtækis, og með merkingum sem vísuðu til þeirra þannig að á varð villst, en bolina keypti ákærði Herluf af fyrirtækinu Strax í Hong Kong og flutti inn til Íslands í nafni Arnarvíkur heildverslunar ehf. þann 20. júlí 1999, þrátt fyrir að hann vissi að rannsókn á sýnishornum úr sendingunni, sem fram hafði farið í apríl 1999, hefði leitt í ljós að um eftirlíkingar var að ræða.
Telst þetta varða við 178. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 25. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 4. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997. Um refsiábyrgð ákærðu Arnarvíkur heildverslunar ehf. er vísað til 3. mgr. 57. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og 3. mgr. 42. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.
Þess er krafist, með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að ákærðu verði gert með dómi að þola upptöku á jafnvirði kr. 335.094 sem var ávinningur þeirra af framangreindu broti.”
Ákærðu krefjast sýknu, til vara vægustu refsingar er lög leyfa og að upptökukrafa verði lækkuð.
Rannsókn máls þessa hófst í kjölfar kæru Magnúsar H. Magnússonar hrl. fyrir hönd Stussy Inc., Bandaríkjunum á hendur Arnarvík ehf. og Baugi hf. Gögn málsins bera með sér að kærandi hafði þá staðið í bréfaskriftum út af meintum brotum kærðu frá því snemma í ágúst 1999, en kærurnar eru dagsettar 17. desember það ár. Fyrst í stað hafði kærandi samband, með bréfi dagsettu 5. ágúst, við Baug Aðföng hf. vegna þess að í versluninni Bónus væru til sölu stuttermabolir seldir sem Stussy-bolir en talið væri að um eftirlíkingar væri að ræða. Þetta hefði borist til eyrna Stussy Inc. í Bandaríkjunum, sem litu alla fölsun á vörum þeirra mjög alvarlegum augum. Var skorað á viðkomandi að hætta þegar sölu á vörunni. Bréfaskipti héldu áfram þar sem kærandi reyndi að fá upplýsingar um það hver væri innflytjandi vörunnar. Kom loks í ljós að það var heildverslunin Arnarvík ehf., annar ákærðu í máli þessu. Ekki var fallist á kröfu kæranda um að sölu á bolunum yrði hætt þar sem fyrirsvarsmaður innflytjandans kvaðst hafa fullgilda pappíra sem sönnuðu uppruna þeirra og væri um ósvikna vöru að ræða. Að lokum voru viðskiptin kærð til lögreglu, eins og áður sagði. Í kærunum er því haldið fram að innflutningur og sala á hinum meintu eftirlíkingum feli í sér brot á vörumerkjalögum, samkeppnislögum og almennum hegningarlögum. Rannsókn málsins leiddi til þess að ákæra var gefin út á hendur ofangreindum aðilum.
Upplýst er að ákærði Herluf keypti umrædda boli í nafni hins ákærða félags af fyrirtækinu Strax sem staðsett er í Hong Kong en er í eigu íslenskra aðila. Liggja frammi í málinu tveir reikningar vegna þessara sömu viðskipta. Eru þeir dagsettir 10. febrúar 1999 og 15. júlí s.á. Fyrri reikningurinn er að fjárhæð USD 5.097,25, en sá síðari USD 1.711,90. Bolirnir voru leystir úr tolli 20. júlí 1999 og reikningur til Bónuss er gefinn út 27. sama mánaðar. Eins og síðar verður reifað er rakinn verður framburður ákærða Herlufs og vitnisins Þórðar Jóhannssonar, stóð upphaflega til að selja Þórði bolina, en hann rekur fyrirtækið Atlantis International Corp. í Massachusetts í Bandaríkjunum. Af því varð ekki af ástæðum sem síðar verða raktar og að lokum flutti ákærði þá til Íslands og seldi alla sendinguna Baugi hf., sem bauð bolina til sölu í versluninni Bónus í Reykjavík.
Lögð hafa verið fram í málinu fjölmörg skjöl sem vísað verður til eftir því sem þurfa þykir. Svo mikið er þó fjallað um tvö þessara skjala að nauðsynlegt er, samhengisins vegna, að reifa innihald þeirra nánar. Þar er í fyrsta lagi um að ræða bréf sem ritað er á bréfsefni merkt Atlantis International Corp. og undirritað af Thor Johannsson, eða Þórði Jóhannssyni. Bréfið, sem dagsett er 06/04/99, en ekki er ljóst hvort um er að ræða bandarískan eða evrópskan rithátt á dagsetningu, þ.e. 6. apríl eða 4. júní, er stílað á Mr. Herluf Clausen hjá Arnarvík og hljóðar svo: „Dear Mr. Clausen. I refer to our previous conversation on the 901 Stussy T-shirts in Hong Kong our firm purchased from your firm in March 1999. As you know, we had 4 T-shirt samples flown into USA in April to be inspected. STUSSY INC., USA OFFICE as well as independent „trademark and product authenticator” inspected them for us and for our buyers. I regret to confirm that the T-shirts turned out to be to say it mildly, „not authenticate Stussy products”. I therefore must return them to you at your cost. I recommend you contact your supplier ASAP and have them approve an R/A on the goods. If your supplier refuses to cooperate I regret to say that our firm MUST direct STUSSY Inc. USA, to the location of the goods and the goods will be confiscated due the (sic) discovered violation of trademark laws and related issues on this transaction. This would be a very serious issue for your firm and your supplier. I regret this outcome very much. This matter has been time consuming and expensive to us as well but this is the ONLY way out for all parties in order to avoid serious future complications from this deal. If you want me to call Stussy´s lawyer in Irvine, CA, (mr. Sommer) to turn in the goods, I´ll be happy to do so for you, he knows about this deal. You know where the goods are. I hope you can remove them from there and return them ASAP to your supplier. I thank you for your cooperation and understanding on this matter as always before. Yours truly, ...” Afrit það af bréfinu sem lagt hefur verið fyrir dóminn ber með sér að það hafi verið sent með myndrita en efst á blaðsíðunni kemur fram dagsetningin 29. júní 1999 og nafnið „Strax Ltd./SNM MFG. (F.E.) LTD”. Eins og fram kemur í framburði ákærða hefur hann neitað að hafa nokkurn tíma fengið umrætt bréf í hendur og kveðst ekki hafa séð það fyrr en í janúar 2002, er honum var sýnt það af rannsóknaraðilum málsins.
Hitt skjalið er frumrit reiknings sem ber með sér að vera gefinn út af Stussy Singapore, World Tribe Pte. Ltd., til Atlantis International Corp. í Bandaríkjunum. Samkvæmt reikningnum er um að ræða sölu á 901 „T-shirt”, kaupverðið er 6,39 bandaríkjadollarar fyrir stykkið, samtals 5.757,39 bandaríkjadollarar. Reikningurinn er nr. SS048098 og er dagsettur 2. mars 1999. Stussy merkið, eins og það er skráð sem stílfært orðmerki samkvæmt gögnum málsins, er prentað í vinstra horn og í miðju eyðublaðsins.
Verður nú rakinn framburður ákærða Herlufs Clausen og vitna fyrir dóminum.
Ákærði, Herluf Clausen, kvaðst vera rekstrarstjóri meðákærða Arnarvíkur, heildverslunar ehf. Hann kvaðst hafa fengist við innflutning á vörum í mörg ár, síðan 1965. Hann kvaðst þó ekki hafa flutt mikið inn frá Asíu. Beðinn um að lýsa viðskiptum sínum við Strax í Hong Kong, kvað hann það fyrirtæki vera svokallað „trading” fyrirtæki en eigendurnir væru íslenskir. Hann hefði beðið þá um að athuga hvort þeir gætu útvegað Stussy-boli, þar sem hann hefði verið með kaupanda að þess háttar vöru, Þórð Jóhannsson sem ræki fyrirtækið AIC í Bandaríkjunum. Síðan hefði hann fengið upplýsingar um að Strax hefðu um 900 boli til sölu. Þetta hefði verið í mars 1999. Hann hefði sent Þórði gögn um bolina, myndir og fleira og hann hefði beðið um að bolirnir yrðu sendir til flutningsaðila í Hong Kong. Það hefði verið gert en með þeim fyrirvara að ekkert yrði sent fyrr en fyrirmæli kæmu frá ákærða. Þá hefði ákærði verið búinn að kaupa bolina af Strax og hefði beðið eftir greiðslu frá Þórði. Þórður hefði fengið senda nokkra boli sem sýnishorn, sem hann hefði látið einhverja vini sína í Kaliforníu athuga. Hann hefði einnig fengið sendan svokallaðan „sanitized invoice”, sem væri reikningur sem stafaði frá skráðum dreifanda vörunnar til að sýna að verið væri að versla með ósvikna vöru. Síðan hefði tíminn liðið og Þórður hefði ekki greitt fyrir bolina þrátt fyrir ítrekanir. Loks hefði Þórður hringt í ákærða og tjáð honum að samkvæmt athugun á sýnishornunum væri varan hugsanlega svikin og Stussy í Bandaríkjunum væri að hóta honum málssókn. Hann væri því hættur við að kaupa bolina. Ákærði kvaðst þá hafa hugsað með sér að vera ekkert að „eltast við þetta meir” og ákveðið að flytja bolina inn sjálfur hingað til lands og selja þá hér. Borið var undir ákærða bréf undirritað af Þórði Jóhannssyni, dagsett annað hvort 6. apríl eða 4. júní 1999, en efni bréfsins er rakið hér að ofan. Kvaðst ákærði ekki hafa séð þetta bréf fyrr en í janúar 2002, hjá embætti ríkislögreglustjóra, og kvað það aldrei hafa borist sér. Hann benti á að Þórður Jóhannsson hefði aldrei ávarpað hann sem „dear Mr. Clausen”. Innihald bréfsins væri einnig ruglingslegt að hans mati.
Ákærði var spurður hvort hann hefði einhverntíma borið það undir fyrirsvarsmenn Strax að þeir hefðu hugsanlega selt honum falsaða vöru, hvort hann hefði t.d. krafist riftunar og endurgreiðslu. Ákærði kvaðst hafa fengið gögn með vörunni sem hann hefði talið fullnægjandi sönnun þess að bolirnir væru ósviknir, hann hefði ekki höndlað með vöru sem hann teldi svikna. Hann hefði eingöngu rætt við Strax um það hvað ætti að gera við bolina eftir að Þórður Jóhannsson hefði hætt við kaupin. Spurður um reikninga sem gefnir hefðu verið út vegna kaupanna kvað ákærði Strax hafa gefið út reikning til hans en reikningurinn sem bæri með sér að vera gefinn út af Stussy Singapore, World Tribe Pte. Ltd., til Atlantis International Corp., fyrirtækis Þórðar Jóhannssonar, væri áðurnefndur „sanitized invoice”. Á honum kæmi fram það verð sem Þórður hefði ætlað að greiða ákærða fyrir vöruna. Aðspurður hvort ekki væri óeðlilegt að fyrirtæki gæfi út reikning til aðila sem það ætti alls ekki í viðskiptum við, eins og í þessu tilfelli, kvað ákærði þetta vera algengt þegar verið væri að fá tryggingu fyrir því hvaðan varan væri upprunnin. Þessi reikningur hefði átt að sýna að bolirnir kæmu upphaflega frá viðurkenndum Stussy dreifingaraðila, en upplýsingum um alla milliliði, sem í þessu tilfelli eru þrír, væri sleppt. Strax hefði séð um að útvega þennan reikning frá World Tribe. Aðspurður hvenær reikningur frá Strax til ákærða hefði verið útbúinn kvaðst ákærði ekki muna það nákvæmlega. Varan hefði hins vegar komið hingað til lands í júní eða júlí. Bornir voru undir ákærða tveir reikningar frá Strax til Arnarvíkur, hinn fyrri dagsettur 10. febrúar 1999, fyrir 901 Stussy stuttermabol, kaupverð 4,75 bandaríkjadalir fyrir hvern bol, hinn seinni dagsettur 15. júlí 1999, fyrir 901 Stussy stuttermabol, kaupverð 1,90 bandaríkjadalir fyrir hvern bol. Kvað ákærði seinni reikninginn vera með því verði sem hann hefði greitt Strax fyrir bolina. Fyrri reikningurinn bæri með sér það verð sem honum hefði fyrst verið boðin varan á. Þó að reikningurinn vær númeraður væri um tilboð að ræða. Skýringin á þessu væri ekki sú að hann hefði fengið afslátt hjá Strax eftir að komið hefði í ljós að um falsaða vöru væri að ræða. Nánar spurður um þetta og áðurnefnt bréf frá Þórði Jóhannssyni stílað á ákærða, kvaðst ákærði halda fast við þann framburð að hann hefði fyrst séð það bréf í janúar 2002. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um hvað merkjavara eins og Stussy stuttermabolir kostuðu alla jafna, hann hefði ekki neina sérstaka þekkingu á þessu ákveðna vörumerki. Hann kvaðst ekki hafa leitað upplýsinga beint frá World Tribe í Singapúr um hvort bolirnir væru frá þeim komnir vegna þess að hann hefði treyst því að Strax væri í góðri trú og að gögnin sem þeir hefðu útvegað væru í lagi. Hann hefði talið á sínum tíma að Þórður Jóhannsson vildi einfaldlega losna út úr viðskiptunum og hann hefði ekki viljað eyða meiri tíma í það mál. Samkvæmt hans bestu vitund væru þessir bolir ósvikin vara.
Jim Fisher, aðaleigandi og framkvæmdastjóri Stussy í Melbourne á árinu 1999, gaf skýrslu í gegnum síma frá Ástralíu. Hann kvað Stussy í Ástralíu vera nytjaleyfishafa Stussy og framleiða vörur fyrir Stussy í Bandaríkjunum til sölu í Ástralíu og Asíu. Hann kvaðst hafa, á árinu 1999, fengið í hendur sýnishorn af Stussy-bolum sem keyptir hefðu verið á Íslandi. Bolirnir, sem hefðu verið fimm talsins, hefðu verið sendir honum af Stussy í Bandaríkjunum. Hann kvaðst strax hafa séð að um eftirlíkingar var að ræða, t.d. hefði verið svokallað CA-númer á merkimiðum í hálsmáli sem aldrei væri notað á vörur framleiddar í Ástralíu. Vitnið kvað um sömu boli að ræða og eru á myndum sem lagðar hafa verið fram í málinu, en vitnið fékk myndirnar sendar með myndrita til Ástralíu. Hann kvað engan vafa vera í sínum huga um að um falsaða vöru væri að ræða sem ekki hefði verið framleidd af Stussy í Ástralíu. Það sem einkum hefði ráðið úrslitum varðandi þá niðurstöðu hefðu verið merkingarnar. Aðspurður hvort einhver hlutlaus aðili hefði skoðað bolina kvað vitnið aðalhönnuð Stussy í Ástralíu og framkvæmdastjórann hafa skoðað þá. Spurningin frá Stussy í Bandaríkjunum hefði verið hvort Stussy í Ástralíu hefði framleitt bolina og þeir væru að sjálfsögðu best til þess fallnir að svara því. Aðspurður kvað vitnið Stussy í Singapúr hafa verið rekið undir nafninu World Tribe. World Tribe hefði keypt vörur bæði frá Stussy í Bandaríkjunum og Ástralíu.
Andrew Chng, framkvæmdastjóri World Tribe Pte. Ltd., Singapúr, gaf skýrslu í gegnum síma. Hann kvað fyrirtækið kaupa vörur af Stussy í Bandaríkjunum og Stussy í Ástralíu en Stussy í Ástralíu ætti 60% hlut í World Tribe. Vitnið kvað reikning, sem lýst var að framan og ber með sér að hafi verið gefinn út af World Tribe til Atlantic International Corp., ekki stafa frá World Tribe. Til samanburðar kvaðst vitnið hafa lagt fram tvo reikninga frá fyrirtækinu þar sem sæist greinilega að fyrsttaldi reikningurinn væri falsaður. Reikningar frá World Tribe væru að öllu leyti skrifaðir út úr tölvuforriti og prentara og þeir sýndu ávallt smásöluverð að frádregnum afslætti, áður en heildsöluverð væri reiknað. Allir reikningar frá World Tribe væru í Singapúrdollurum og lagður væri í 3% GST (vöru- og þjónustuskattur). Auk þessa hefði World Tribe ekki átt nein heildsöluviðskipti við útlönd á árinu 1999. Vitnið kvaðst ekki hafa neina hugmynd um hver hefði útbúið reikninginn sem lagður hefur verið fram sem margnefndur „sanitized invoice”. Aðspurður kvað vitnið World Tribe ekki selja í heildsölu en ekkert væri því til fyrirstöðu að einhver sem keypti af þeim vörur seldi þær áfram til Hong Kong. Hann gæti ekki útilokað það. Reikningurinn væri þó örugglega ekki gefinn út af hans fyrirtæki.
Þórður Jóhannsson, Atlantis International Corporation, kvað starfssemi fyrirtækisins aðallega ganga út á kaup og sölu á fatnaði, skóm og alls kyns sportvörum á milli landa. Hann kvaðst hafa starfað við þetta í sjö til átta ár. Hann kvaðst hafa átt í viðskiptum við ákærða í nokkur ár. Um vorið 1999 hefði ákærði boðið til sölu 900 eða 1000 Stussy-boli og hefði sent fax og sýnishorn af vörunni. Kvaðst vitnið ekki hafa viljað kaupa vöruna, pappírarnir sem hefðu fylgt með hefðu ekki verið fullnægjandi og sýnishornin, sem hann hefði reyndar aldrei séð sjálfur, hefðu vakið grun um að ekki væri um ósvikna vöru að ræða. Hann hefði sjálfur beðið um sýnishornin og einhverjir menn á vegum Phil Jammet, hjá Metco Consolidated í San Diego, hefðu skoðað þau. Phil væri staðsettur í Kaliforníu og þekkti þessa vörulínu mun betur en vitnið og hefði beðið einhverja menn um að skoða bolina. Niðurstaðan hefði verið sú að hann ætti ekki að kaupa. Vitnið kvaðst treysta nefndum Phil fullkomlega vegna mikillar þekkingar hans. Hann hefði einnig beðið um að fá pappíra með vörunni sem sýndu fram á hvaðan hún væri komin og sannaði að hún væri ósvikin en hann hefði fengið svokallaðan „sanitized invoice” frá ákærða. Það hefði ekki verið fullnægjandi þar sem hann hefði t.d. ekki vitað um tilvist „Stussy Singapore”, sem væri tilgreint á reikningnum. Hann kvaðst ekki hafa vitað hvar ákærði hefði keypt vöruna. „Sanitized invoice” væri afrit af reikningi sem ætti að vera kominn frá upphaflega seljandanum en dreifingaraðilinn hefði venjulega þurrkað út einhverjar upplýsingar sem aðrir mættu ekki sjá, svo sem verð, til að kaupandinn sæi ekki hvað álagningin væri mikil. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt hvort þessi tegund reikninga væri aðallega notuð í ólöglegum tilgangi, það væri mismunandi. Líklega væri þó mikið um að þess háttar pappírar væru falsaðir. Vitnið kvaðst aldrei hafa átt viðskipti við Strax í Hong Kong eða verið í samskiptum við þá. Borið var undir vitnið bréf það sem áður hefur verið fjallað um, með bréfhaus hans og undirritað af honum, stílað á ákærða. Kvaðst vitnið lítið muna eftir bréfinu en telja að þetta bréf hefði verið skrifað fyrir ákærða til þess að hann gæti sýnt það sínum birgi til að útskýra af hverju ekkert hefði orðið af sölunni. Ákærði hefði tekið þessu vel og þeir hefðu átt viðskipti síðan en vitnið hefði ekkert innt ákærða eftir því hvað hefði orðið af bolunum. Hann hefði seinna séð bolina auglýsta í Morgunblaðinu og hefði fengið staðfest hjá ákærða að um sömu vöru væri að ræða. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa sent bréfið sem hann skrifaði til Strax í Hong Kong, hann hefði aldrei átt nein samskipti við þá. Borin voru undir ákærða ummæli í bréfinu um að sýnishornin hefðu bæði verið rannsökuð af Stussy Inc. og „independent trademark and product authenticator”. Kvaðst vitnið ekki hafa vitað nákvæmlega hverjir skoðuðu sýnishornin en hann hefði treyst niðurstöðu þeirra. Hann kvað það misskilning sem mætti lesa út úr bréfinu að öll sendingin hefði verið komin til Bandaríkjanna, aðeins hefði verið um að ræða sýnishornin. Hann hefði vitað að lagerinn var í Hong Kong en ekki meira. Vitnið var spurður út í málarekstur á milli hans og Stussy í Bandaríkjunum. Hann kvaðst hafa lent í útistöðum við Stussy áður vegna vara sem þeir hefðu reynt að koma í veg fyrir að hann verslaði með. Sú vara hefði reynst ósvikin. Hann hefði hins vegar vitað vegna þessa að fyrirtækið gengi mjög hart fram í því að koma í veg fyrir verslun með eftirlíkingar af þeirra vöru. Ágreiningi á milli hans og Stussy hefði lokið með því að honum hefði verið stefnt og hefði hann samið við Stussy um að gefa þeim m.a. upplýsingar um málið sem hér er til umfjöllunar og hver það væri sem hann hefði átt í viðskiptum við hér, gegn því að málið gegn honum yrði fellt niður. Hann hefði einnig greitt einhvern kostnað. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa látið fyrirsvarsmönnum Stussy Inc. áðurnefnt bréf í té. Hann myndi ekki sérstaklega eftir að hafa sent ákærða það eða sent það með myndrita. Vitnið kvaðst hins vegar vera viss um að hafa aldrei sent bréfið til Strax Ltd. Aðspurður kvaðst vitnið aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa ávarpað ákærða sem „Dear Mr. Clausen”, eins og gert er í bréfinu. Hann myndi ekki eftir að hafa skrifað það að beiðni ákærða eða annarra.
John R. Sommer, aðstoðarforstjóri Stussy Inc., Irvine, Kaliforniu, kom fyrir dóminn. Hann kvaðst hafa unnið fyrir Stussy Inc. frá 1997, fyrst sem sjálfstæður lögfræðiráðgjafi en síðar í fullu starfi hjá fyrirtækinu. Vitnið kvaðst hafa sérhæft sig í vörumerkjarétti og aðgerðum gegn vörufölsun. Starf hans hjá fyrirtækinu sneri einkum að þeim málum. Lögð væri mikil áhersla á það hjá Stussy Inc. að halda vel utan um allar merkingar á vörum frá sér, til að eiga auðveldara með að greina eftirlíkingar. Allir merkimiðar og merkingar frá síðastliðnum 20 árum væru geymd og þess væri krafist af nytjaleyfishafanum í Ástralíu að hann sendi þeim allar merkingar sem notaðar væru þar. Fylgst væri með hvort því væri framfylgt. Vitnið kvaðst hafa fengið senda boli á árinu 1999, frá Northern Trading Company (NTC, sem hafði umboð fyrir sölu Stussy vara á Íslandi). Fyrst hefði hann fengið tvo boli en síðan fimm í viðbót þar sem hann hefði beðið um að fá einn af hverju tagi. Hann hefði verið beðinn um að segja til um hvort um ósvikna vöru væri að ræða. Hann hefði merkt sýnishornin sjálfur og ljósritað myndirnar framan á þeim. Hann kvað númerið CA-28629 hafa verið á miða í hálsmáli á öllum bolunum nema tveimur. „Made in Australia” hefði staðið framan á merkinu. Hann hefði athugað hvort þessi merki kæmu heim og saman við eitthvað af þeim merkjum sem Stussy hefði notað, en svo hefði ekki verið. CA-númerið væri einungis notað á boli sem framleiddir væru í Bandaríkjunum. Stussy í Bandaríkjunum hefði hins vegar aldrei framleitt boli í Ástralíu. Þetta hefði veitt honum vissu fyrir því að um falsaða vöru væri að ræða. Stussy í Ástralíu hefðu staðfest að þeir hefðu aldrei framleitt vöru með þessháttar miðum. Loks hefði hann haft samband við verslunina sem hefði dreifingarrétt í Singapúr, World Tribe, en reikningur sem hefði fylgt vörunni hefði gefið til kynna að varan væri frá þeim komin. Svo hefði ekki verið. Gæði áprentunarinnar á bolunum væru mjög léleg, hálsmálið væri tekið í sundur, sem væri ekki á ósviknum bolum, og merkið væri saumað í eftirá, en það væri aldrei gert hjá Stussy. Þar væri merkið saumað í um leið og bolurinn væri saumaður. Aðspurður hvort farið hefði fram rannsókn hlutlauss aðila á sýnishornunum kvað vitnið svo ekki vera.
Vitnið kvað Stussy vera skráð vörumerki í 136 löndum í dag, m.a. á Íslandi. Á árinu 1999 hefðu skráningar verið eitthvað færri og Stussy hefði ekki verið skráð hér þá. Aðspurður kvað vitnið fyrirtækið Strax í Hong Kong hafa veitt upplýsingar um viðskiptin við ákærða þegar farið hefði verið fram á það. Þeir hefðu m.a. afhent lögmanni Stussy í Hong Kong ýmis skjöl sem hefðu síðan borist vitninu. Hann kvað hafa verið gert samkomulag við Strax um að ekki yrði um frekari aðgerðir gegn þeim að ræða af hálfu Stussy Inc. en það samkomulag hefði ekki náð til ákærða.
Jón Óttar Birgisson, núverandi framkvæmdastjóri Strax í Hong Kong, kvaðst kannast við málið gegn ákærða. Viðskiptin á milli Strax og ákærða hefðu hins vegar farið fram áður en hann hefði komið til starfa hjá fyrirtækinu en hann hefði hafið störf í júlí 2001. Málið hefði komið inn á hans borð í september október það ár. Hann hefði kannað m.a. bókhaldsgögn fyrirtækisins til að fá upplýsingar um málið en hann hefði átt samskipti við Bird & Bird, lögmenn Stussy í Hong Kong. Hann hefði látið þeim í té ýmis gögn. Vitnið kvaðst ekki hafa skýringar á því að tveir reikningar, dagsettir í febrúar og júlí 1999, virðast hafa verið gefnir út vegna sömu viðskipta en sá seinni fyrir mun lægri fjárhæð. Hann kvaðst einungis hafa rekist á þessi skjöl þegar hann hefði verið að afla sér upplýsinga um málið. Hann kvað samkomulag á milli Stussy Inc. og Strax ekki hafa falið í sér viðurkenningu á því að um falsaða vöru væri að ræða, Strax hafi eingöngu metið það svo að betra væri að semja heldur en eiga yfir höfði sér dýr og tímafrek málaferli. Hann hafi aldrei fengið neina staðfestingu á því að bolirnir hafi verið eftirlíkingar.
Óli Anton Bieltvedt, fyrrverandi framkvæmdastjóri Strax í Hong Kong, gaf skýrslu í gegnum síma. Hann kvaðst hafa verið í forsvari fyrir Strax á árinu 1999, þegar ákærði hefði keypt margumrædda stuttermaboli. Hann kvað það hafa verið forsendu fyrir viðskiptunum af hálfu ákærða að hægt væri að fá einhverja pappíra sem sönnuðu að varan væri ósvikin. Vitnið kvað Strax hafa keypt bolina af aðila í Hong Kong, sem hefði keypt þá af World Tribe í Singapúr, en þeir væru annað hvort umboðsmenn Stussy í Asíu eða framleiddu fyrir þá. Mikið væri af eftirlíkingum á markaðinum í þessum heimshluta og þess vegna hefði ákærði lagt á þetta ríka áherslu. Erfitt gæti reynst að útvega slíka pappíra því svona vara lægi yfirleitt á lager einhversstaðar, t.d. afgangar af framleiðslu sem ekki hefði selst eða þess háttar. Til að einfalda myndina væri reikningurinn gefinn út á þann sem hefði átt að vera endanlegur kaupandi, þ.e. Atlantis International Corp. í Bandaríkjunum. Fyrst hefði Strax óskað eftir því að þeirra birgir útvegaði pappírana en það hefði gengið illa og þeir hefðu loks séð um það sjálfir að hafa samband við fyrirtækið í Singapúr. Ákærða hefði ekki verið kunnugt um þá erfiðleika. Vitnið kvaðst ekki hafa haft samband við World Tribe sjálfur, það hefði annar starfsmaður gert. Vitnið kvaðst ekki muna nafnið á fyrirtækinu í Hong Kong sem hefði selt Strax bolina. Aðspurður hvort ekki væri óeðlilegt að fyrirtæki gæfi út reikning til einhvers sem það stæði ekki í neinum viðskiptum við, eins og í þessu tilfelli, kvað vitnið eflaust einhverskonar yfirlýsingu hafa verið heppilegri, það væri í rauninni tilgangurinn með reikningnum, að gefa yfirlýsingu um að varan væri komin frá þessum viðurkennda Stussy umboðsmanni. Vitnið kvaðst ekki hafa haft grunsemdir um að um eftirlíkingar væri að ræða, hann hefði séð sýnishorn og þau hefðu litið mjög vel út. Hann kvaðst ekki muna hvað hefði staðið á merkimiðum. Aðspurður um bréf frá Þórði Jóhannssyni hjá Atlantis um það að bolirnir hafi reynst vera eftirlíkingar kvaðst vitnið kannast við það bréf. Hann kvaðst hins vegar ekki muna hvaðan það hefði borist til Strax eða hvenær nákvæmlega. Hann hefði engin samskipti átt við Þórð Jóhannsson, eingöngu við ákærða. Þetta hefði verið um mitt árið 1999, hann myndi ekki beinlínis eftir að hafa rætt þetta við ákærða en ákærði hefði „verið í klemmu” vegna þessa. Aðspurður kvaðst vitnið ekki vita um tilvist tveggja vörureikninga fyrir sömu sendingunni frá Strax til ákærða.
Sigurður Ásgeir Bollason, gaf skýrslu í gegnum síma frá London. Hann kvaðst hafa séð auglýsingu frá Bónus í september 1999, þar sem auglýstir voru Stussy-bolir til sölu. Hann kvað þetta hafa komið sér mjög á óvart þar sem NTC, fyrirtæki í eigu fjölskyldu hans, væri umboðsmenn Stussy á Íslandi. Grunur hefði strax vaknað um að þarna væru eftirlíkingar á ferðinni eða að varan hefði verið keypt ólöglega í gegnum þriðja aðila. Hann hefði haft samband við Stussy í Bandaríkjunum og gengið úr skugga um að bolirnir hefðu ekki verið keyptir þaðan. Hann hefði síðan keypt fimm boli í Bónus og sent til Stussy, sem hefði rannsakað þá og komist að því að þeir væru falsaðir. Aðspurður hvað hann ætti með því að keypt væri ólöglega í gegnum þriðja aðila kvað vitnið Stussy alltaf hafa verið mjög stranga varðandi það hverjir seldu þeirra vöru og NTC hefði verið eini aðilinn á Íslandi sem hefði keypt af þeim. Nánar spurður um fjölda bola sem hann hefði keypt kvaðst vitnið fyrst hafa keypt tvo en síðan hefði verið beðið um einn af hverri tegund og þá hefðu verið keyptir fimm í viðbót. Vitnið kvaðst strax hafa grunað að um eftirlíkingar væri að ræða þar sem gæðin hefðu ekki verið sambærileg við það sem hann hefði kynnst hjá Stussy, en hann hefði verslað með vöru frá þeim í mörg ár.
Niðurstaða.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa flutt inn til landsins, boðið til sölu og loks selt Baugi hf. 901 stuttermabol sem bera með sér að vera framleiddir af Stussy í Ástralíu. Viðskipti þessi voru gerð í nafni hins ákærða félags, Arnarvíkur ehf. Ákærði Herluf heldur því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um að um eftirlíkingar hafi verið að ræða og kveðst raunar enn telja að bolirnir séu framleiddir af Stussy.
Stussy er skráð vörumerki víða um heim, m.a. á Íslandi. Samkvæmt gögnum var það tilkynnt til skráningar hér á landi 16. júlí 1999. Þá hefur verið sýnt fram á að vörur með þessu vörumerki höfðu verið fluttar til landsins og seldar hér um nokkurra ára skeið. Nýtur merkið verndar samkvæmt 4. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.
Fram kom í skýrslu John R. Sommer hjá Stussy Inc. í Kaliforníu og Jim Fisher hjá Stussy í Ástralíu að þeir hefðu báðir skoðað sýnishorn sem Sigurður Ásgeir Bollason keypti í versluninni Bónus og sendi til Stussy Inc. í Kaliforníu. Töldu þeir báðir upp nokkur atriði sem þeir kváðu taka af allan vafa um að bolirnir væru eftirlíkingar. Vegur þar þyngst sú fullyrðing þeirra að framleiðslunúmer sem nota ætti á vörur framleiddar í Bandaríkjunum væri aldrei notað á vörur sem framleiddar væru í Ástralíu. Einnig kom fram í skýrslu vitnanna að enginn hjá Stussy í Ástralíu kannaðist við sýnishornin sem framleiðslu þess fyrirtækis. Jafnframt kom fram að Stussy Inc. heldur saman og varðveitir allar merkingar á fatnaði sem framleiddur er af þeim og í þeirra nafni og kvaðst John R. Sommer ekki hafa fundið neinar merkingar sambærilegar við þær sem eru á sýnishornunum er hann fékk til skoðunar.
Fullyrðing vitnanna um að sýnishornin væru eftirlíkingar þykir trúverðug í ljósi framangreindra röksemda, þó að nokkuð rýri það gildi þeirra að ekki er um hlutlausa aðila að ræða. Sýnishorn sem lögð voru fram fyrir dóminum styðja þennan framburð, auk framburðar Sigurðar Ásgeirs Bollasonar um að hann hafi strax séð að bolirnir sem seldir voru í Bónus væru eftirlíkingar, hann hefði höndlað með Stussy vörur í mörg ár og hvorki gæðin né verðið hefðu gefið til kynna að um ósvikna vöru væri að ræða.
Með vísan til þessa, framburðar vitnanna í heild og annarra gagna málsins verður að teljast sannað að bolirnir sem ákærði Herluf seldi Baugi hf. og sem seldir voru í verslunum Bónus hf. hafi verið eftirlíkingar af framleiðsluvörum fyrirtækisins Stussy Inc.
Í framburði Þórðar Jóhannssonar kemur fram að staðið hafi til að fyrirtæki hans keypti áðurnefnda stuttermaboli. Hann hafi hins vegar viljað fá einhverja staðfestingu þess að um ósvikna vöru væri að ræða og hafi því látið senda sýnishorn til Kaliforníu til skoðunar. Niðurstaða þeirrar skoðunar hafi verið sú að sennilega væri um eftirlíkingar að ræða. Hann kvaðst einnig hafa beðið um einhverja pappíra sem sönnuðu hvaðan varan væri upprunnin en hefði eingöngu fengið áðurnefndan „sanitized invoice”, sem honum hefði þótt ófullnægjandi.
Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að í samtali hans og Þórðar hefði komið fram að Þórður hætti við kaupin þar sem „einhverjir vinir hans” sem höfðu skoðað bolina töldu að þeir væru að öllum líkindum eftirlíkingar. Engu að síður flutti hann sjálfur inn bolina og seldi hér án þess að gera gangskör að því að kanna hvort um ósvikna vöru væri að ræða eða ekki. Bréf Þórðar Jóhannssonar rennir sterkari stoðum undir það að ákærði hlaut að vita að ekki var óhætt að bjóða vöruna til sölu sem framleiðslu Stussy. Hinn svokallaði „sanitized invoice”, sem áður var fjallað um þykir ekki hafa nægt til þess að ákærði gæti verið í góðri trú varðandi uppruna bolanna, en eins og áður kom fram taldi Þórður Jóhannsson að reikningurinn dygði ekki sem sönnun þess að bolirnir væru ósviknir. Fullyrðing ákærða um að hann hafi ekki séð bréfið fyrr en hjá lögreglu í janúar 2002 er ótrúverðug.
Ákærði hefur mótmælt því að bolirnir séu eftirlíkingar og heldur því fram að hann hafi verið í góðri trú varðandi viðskipti með þá, m.a. með vísan til þess að útvegaðir hafi verið pappírar sem sannað hafi að bolirnir hefðu upphaflega verið keyptir hjá umboðsmanni Stussy í Asíu og hafi hann mátt treysta þeim pappírum. Andrew Chng hjá World Tribe bar fyrir dóminum að reikningur sem Strax útvegaði ákærða, svokallaður „sanitized invoice”, hafi ekki stafað frá fyrirtæki hans. Lögð voru fram afrit af reikningum frá World Tribe til samanburðar og sést greinilega að þeir eru allt öðru vísi í útliti, m.a. er merki World Tribe notað í bakgrunn á allri síðunni. Vitnið nefndi fleiri atriði sem hann sagði sýna að reikningurinn stafaði ekki frá fyrirtækinu, t.d. væru reikningar frá þeim alltaf í Singapúr dollurum. Kvað hann World Tribe ekki selja vörur í heildsölu utan Singapúr. Í þessu sambandi ber að líta til þess að samkvæmt framburði Óla Antons Bieltvedt útvegaði Strax þennan reikning að beiðni ákærða, en án þess að ákærði ætti nokkur samskipti við þá aðila sem gerðu reikninginn. Samt sem áður verður ekki talið að ákærði hafi mátt treysta því að reikningur þessi, sem hann vissi að var skrifaður til málamynda, væri sönnun þess að varan væri ekta.
Áralöng reynsla ákærða í viðskiptum leiðir til þess að gera verður þá kröfu til hans að hann þekki reglur um vörumerki og heimildir til notkunar þeirra. Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan verður fullyrðing hans um að honum hafi verið alls ókunnugt um að umræddar vörur væri ekki framleiddar undir merki Stussy með réttri heimild metin haldlaus með öllu. Þegar einnig er litið til þess verðs sem hann greiddi fyrir bolina hlaut ákærða að vera ljóst að um heimildarlausa notkun þessa vörumerkis var að ræða. Verður hann sakfelldur fyrir brot sitt eins og því er lýst í ákæru.
Brot ákærða eins og því er lýst í ákæru varðar hann refsingu samkvæmt 4. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997.
Af greinargerð með frumvarpi er samþykkt var sem samkeppnislög nr. 8/1993 kemur fram að bannreglan í 25. gr. laganna er hugsuð til fyllingar öðrum lagareglum, t.d. reglum um vörumerki. Í því ljósi mætti telja að refsiákvæði vörumerkjalaga tæmdi hér sök, þó refsirammi samkeppnislaga sé í heild nokkru víðari. Með dómi Hæstaréttar 1995-1652 var hins vegar brot eins og það sem hér er sakfellt fyrir talið varða við ákvæði samkeppnislaga. Þótt í því máli hafi ekki verið ákært fyrir brot gegn þágildandi lögum um vörumerki verður ekki talið að þessu hafi verið breytt. Verður ákærði því sakfelldur fyrir brot gegn samkeppnislögum eins og í ákæru segir.
Af greinargerð með almennum hegningarlögum og fyrirmynd 178. gr. laganna í dönsku hegningarlögunum, verður séð að orðalag ákvæðisins veitir því nokkru víðara gildissvið en ætlað var. Þykir ekki nægur grundvöllur til að meta ranga notkun vörumerkis sem fölsun eða eftirlíkingu í skilningi ákvæðisins. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn 178. gr. almennra hegningarlaga.
Rétt er að ákærða Arnarvík verði gerð sekt, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 45/1997, og 3. mgr. 57. gr. samkeppnislaga.
Við ákvörðun viðurlaga ber að líta til þess að brot var framið í atvinnustarfsemi og í hagnaðarskyni. Á móti því kemur að um staka sendingu var að ræða og að hún var ekki mjög stór.
Hæfilegt er að ákærða Herluf verði gerð sekt að fjárhæð 800.000 krónur. Vararefsing skal vera fangelsi í þrjá mánuði. Þar sem jafnvirðisupptaka sem um getur hér á eftir beinist að hinu ákærða félagi, verður sekt þess ákveðin 700.000 krónur.
Af gögnum málsins má ráða að ávinningur Arnarvíkur ehf. hefur numið að minnsta kosti þeirri fjárhæð sem í ákæru er krafist upptöku á. Heimild til upptöku er í þessu tilviki í 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga. Er hæfilegt að ákveða upptöku á 300.000 krónum úr hendi ákærða Arnarvíkur ehf.
Loks verður ákærðu gert að greiða allan sakarkostnað. Málsvarnarlaun eru ákveðin 300.000 krónur.
Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Herluf Clausen, greiði 800.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærða, Arnarvík heildverslun ehf., greiði 700.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa.
Ákærða, Arnarvík ehf., sæti upptöku á 300.000 krónum.
Ákærðu greiði óskipt allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun Sigmundar Hannessonar, hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.