Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2007


Lykilorð

  • Fasteign
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007.

Nr. 184/2007.

Sandgerðisbær

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

Ellu H. Fuglö Hlöðversdóttur

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Fasteign. Líkamstjón. Skaðabætur. Gjafsókn.

 

E slasaðist er hún hrasaði niður stiga í húsnæði sveitarfélagsins S. Við slysið hlaut hún meiðsl sem samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna leiddu til 15% varanlegs miska og 20% varanlegrar örorku, auk réttar til þjáningarbóta vegna sex mánaða tímabils. Í kjölfarið höfðaði E mál gegn S þar sem hún krafðist skaðabóta og byggði kröfu sína á því að S bæri fulla bótaábyrgð. Húsnæði S hafði verið byggt árið 1934 en í málinu gat S ekki upplýst hvaða reglur giltu um húsbyggingar í sveitarfélaginu á þeim tíma, né heldur þegar húsnæðið var tekið í notkun fyrir skrifstofur S. Það lá þó fyrir að umræddur stigi uppfyllti ekki kröfur gildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að S notaði umrætt húsnæði undir skrifstofur þar sem veitt var margvísleg þjónusta við almenning sem ekki yrði sótt til annarra. Yrði því að gera þær kröfur til S að hann byggi um slíkt húnæði þannig að tryggt væri öryggi þeirra sem þangað ættu erindi. S var ekki skylt að laga húsnæðið að fyrrnefndri byggingarreglugerð, en hins vegar átti E ekki að þurfa búast við að stiginn væri svo frábrugðinn því sem almennt mætti gera ráð fyrir í slíkum húsakynnum. Jafnframt voru ekki neinar viðvaranir við stigann þótt vel væri kunnugt að hann gæti verið hættulegur. Vegna þessa vanbúnaðar og hirðuleysis bar S skaðabótaábyrgð á slysi E. Var þó talið að E hefði ekki sýnt af sér næga aðgæslu og því yrði að leggja nokkra sök á hana, sem hæfilega var ákveðinn ¼ hluti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

I.

Samkvæmt gögnum málsins átti stefnda, sem fædd er 1970, erindi ásamt móður sinni við byggingarfulltrúa áfrýjanda 2. desember 2003. Fóru þær í því skyni á skrifstofur áfrýjanda að Tjarnargötu 4 í Sandgerði, þar sem byggingarfulltrúinn hafði vinnustað í kjallara, en þangað var gengið innan dyra um stiga frá aðalhæð hússins. Stefnda kveðst hafa haldið af stað niður stigann á undan móður sinni, en þá leið hafi stefnda ekki áður farið. Þegar hún hafi verið komin niður um eitt þrep hafi hún ætlað að auðvelda móður sinni gönguna og snúið sér við til að taka við skjölum, sem sú síðarnefnda hélt á, þannig að hún gæti stutt sig með báðum höndum á leið sinni. Stefnda, sem klædd hafi verið skóm með gúmmísólum, hafi þá haldið um handrið með annarri hendi. Þegar hún hugðist síðan ganga áfram hafi hún fallið við, misst takið á handriðinu nokkrum þrepum neðar og dottið fram fyrir sig niður á kjallaragólfið, þar sem hún hafi skollið utan í vegg andspænis stiganum. Af þessu hlaut hún meiðsl, sem leiddu samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna til 15% varanlegs miska og 20% varanlegrar örorku, auk þjáninga á sex mánaða tímabili. Í málinu leitar stefnda skaðabóta vegna þessa.

Húsið að Tjarnargötu 4 mun hafa verið byggt 1934 sem sjúkraskýli. Skrifstofur áfrýjanda munu hafa verið þar frá því um 1960, en ekki liggur fyrir hvort þær hafi jafnframt verið í kjallara hússins allt frá þeim tíma. Í stiganum, sem málið varðar, munu vera ellefu þrep. Samkvæmt upplýsingum frá áfrýjanda er hæð þrepanna, svokallað uppstig, á bilinu frá 19,0 til 21,3 cm og dýpt þeirra eða framstig frá 21,5 til 23,0 cm, en þrepin virðast vera innan við einn metra að breidd. Halli stigans er sagður vera 43,4° og minnsta ganghæð yfir honum 180 cm. Þegar stefnda varð fyrir framangreindu slysi var gólfdúkur á stiganum og állistar á brúnum þrepa, en handrið vinstra megin þegar gengið var niður. Í svörum við fyrirspurnum stefndu hefur áfrýjandi ekki getað upplýst hvaða reglur giltu um húsbyggingar í sveitarfélaginu á þeim tíma, sem Tjarnargata 4 var byggð, eða þegar hann tók húsnæðið í notkun fyrir skrifstofur. Í 202. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 með áorðnum breytingum er á hinn bóginn að finna fyrirmæli, sem nú gilda um tröppur, stiga og stigahús. Samkvæmt því ákvæði má ganghæð yfir stiga hvergi vera minni en 220 cm. Halli á tröppum fyrir almenna umferð innanhúss skal vera á bilinu 30° til 36°. Framstig á þrepi má ekki vera minna en 24 cm, en sé það innan 30 cm skal það bætt upp, sem þar vantar á, með svonefndu innskoti á innanverðu framstiginu. Um hæð á uppstigi er mælt svo fyrir að hæðin tvöföld að viðbættri dýpt framstigs skuli vera samtals frá 60 til 64 cm þegar tröppur eru í 30° til 45° halla. Þá er kveðið á um að handrið þurfi að vera báðum megin við tröppur sem eru meira en 90 cm að breidd.

II.

Í skýrslu, sem lögregla gerði 2. desember 2003 um slys stefndu, var meðal annars tekið fram að Vinnueftirliti ríkisins hafi verið tilkynnt um það og bent á að „vert væri að líta á hættulegar tröppurnar.“ Í skýrslu Vinnueftirlitsins 15. sama mánaðar um úttekt á húsnæði áfrýjanda vegna slyssins sagði meðal annars: „Stiginn er verulega brattur (uppstig 19-19,5 og framstig 21,5) og uppfyllir þar af leiðandi ekki kröfur um stiga í núverandi byggingarreglugerð. Ekki eru gerðar athugasemdir við efni á stiganum eða handrið.“ Í bréfi 1. apríl 2004 til vátryggingafélags, þar sem áfrýjandi mun hafa keypt ábyrgðartryggingu vegna húsakynna sinna, greindi starfsmaður hans meðal annars frá eftirfarandi í tilefni af slysi stefndu: „Undanfarin 10 ár hafa byggingarfulltrúi og félagsmálastjóri haft aðsetur í kjallaranum og er þó nokkur umgangur almennings til þeirra. Síðustu tvö ár hefur bókhaldið einnig verið staðsett þar og hafa starfsmenn bæjarins þurft mikið að fara upp og niður stigann vegna þess. Ekki er vitað til að slys hafi áður orðið á fólki í stiganum, hvorki á starfsfólki né gestum. Starfsfólki er vel kunnugt um að stiginn getur verið hættulegur og gengur um hann með tilliti til þess. Ekki var nein viðvörun við stigann þegar slysið átti sér stað en núna hefur verið bætt úr því.“

Þegar stefnda varð fyrir slysinu, sem málið varðar, notaði áfrýjandi húsið að Tjarnargötu 4 undir skrifstofur, þar sem veitt var margvísleg þjónusta við almenning, sem ekki gat sótt hana til annarra. Gera verður þá kröfu til áfrýjanda að hann búi um húsnæði undir þessa starfsemi þannig að tryggt sé öryggi þeirra, sem þangað eiga erindi, meðal annars við yfirvöld byggingarmála í sveitarfélaginu. Þótt áfrýjanda hafi ekki verið skylt að laga húsnæðið að kröfum, sem gerðar eru í áðurnefndri 202. gr. byggingarreglugerðar, átti stefnda ekki fremur en aðrir, sem leituðu til áfrýjanda, að þurfa að búast við því að stigi milli hæða þar væri svo að einhverju næmi frábrugðinn því, sem almennt megi gera ráð fyrir í slíkum húsakynnum. Af því, sem áður greinir um gerð stigans, svo og um skýrslur og bréf varðandi slys stefndu, er ljóst að á skorti að þessu væri fullnægt. Við stigann voru engar viðvaranir til þeirra, sem leita þurftu opinberrar þjónustu í kjallara hússins, þótt starfsmönnum áfrýjanda hafi samkvæmt áðursögðu verið „vel kunnugt“ um að hann gæti verið hættulegur. Vegna þessa vanbúnaðar og hirðuleysis um að vara við hættu af stiganum ber áfrýjandi skaðabótaábyrgð á slysi stefndu. Til þess verður þó jafnframt að líta að samkvæmt frásögn stefndu var hún komin niður í stigann þegar hún staðnæmdist og sneri sér við til að taka við skjölum úr höndum móður sinnar áður en hún missti þar fótanna. Stefndu átti þannig að vera ljóst að stiginn væri hættulegur og að þörf væri sérstakrar aðgæslu þegar hún legði áfram leið sína niður um hann. Vegna þessa verður ekki komist hjá að leggja nokkra sök á stefndu, sem hæfilega er ákveðin ¼ hluti.

Í málinu er ekki ágreiningur um mat á tjóni stefndu eða fjárhæð kröfu hennar og heldur ekki um upphafsdag dráttarvaxta. Samkvæmt framansögðu verður áfrýjanda því gert að greiða henni fjárhæð kröfunnar að ¾ hlutum eða 4.235.567 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi svo sem í dómsorði segir. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað stefndu er ekki til endurskoðunar, en um þann kostnað hennar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Sandgerðisbær, greiði stefndu, Ellu H. Fuglö Hlöðversdóttur, 4.235.567 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 2. desember 2003 til 17. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. febrúar 2007, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ellu H. Fuglö Hlöðversdóttur, kt. 170170-2969, Suðurgötu 24, Sandgerði, á hendur Sandgerðisbæ, kt. 460260-4829, Tjarnagötu 4, Sandgerði, til greiðslu skaðabóta vegna líkamstjóns að völdum slyss, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu sem birt var 17. ágúst 2006.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.647.422 kr. auk 4,5% ársvaxta frá 2. desember 2003 til 16. júní 2006, en með dráttarvöxtum, samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda, Sandgerðisbæjar, eru þær aðallega að Sandgerðisbær verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og bænum tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnað felldur niður.

Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., eru engar kröfur gerðar.

Helstu málavextir eru að þriðjudaginn 2. desember 2003 var stefnandi stödd að Tjarnagötu 4 í Sandgerði, þar sem skrifstofur bæjarins eru til húsa.  Á leið sinni niður í kjallara hússins, þar sem byggingarfulltrúi er með skrifstofu, varð henni fótaskortur.  Rann hún niður tröppurnar og skall á vegg andspænis stiganum.  Við þetta áfall slasaðist hún.

 

Í úttekt byggingafulltrúa Sandgerðisbæjar á ástandi stigans í húsinu segir í bréfi hans til lögmanns stefnanda hinn 12. maí 2004, sbr. dskj. nr. 11:

Húsið er byggt árið 1937 úr steinsteypu.  Milli kjallara og 1. hæðar er steyptur stigi, byggður um leið og húsið. Varðandi reglur um stiga frá byggingartíma hússins er undirrituðum ókunnugt.

Skv. byggingarreglugerð sem í gildi er í dag og fyrir halla stiga 30%-45% miðast gönguhlutfall við ‘skreflengd’ þar sem 2h+b skal vera 0,60-0,64 m.

Framstig þreps má aldrei vera minna en 0,24 m í ganglínu, sé stigi milli tveggja hæða.

Þar sem framstig er minna en 0,30 m skal vera innskot, sem ekki telst til innskots.

Breidd innskots og framstigs skal samanlagt ekki vera minna en 0,30 m.

Ganghæð stiga má ekki vera minna en 2,20 m.

Stiginn í húsinu er þannig:

h=0,19-0,21 m;      b=0,22 m;        Minnsta ganghæð er 1,80 m.

Ekki er innskot í framstigi.

‘Skreflengd’ stigans er:

2h+b=2*0,19+0,22=0,60 m (mín).

       =2*0,21+0,22=0,62 m (max).

 

Í skýrslu lögreglunnar um atvikið, dags. 9. desember 2003, segir m.a.:

Ella kvaðst hafa átt erindi á bæjarskrifstofurnar og hafi hún þurft að fara niður í kjallara til að sinna erindi sínu.  Tröppurnar sem liggja niður í kjallarann, eru tíu þrep, heldur brattar og með handrið við vinstri hönd þegar gengið er niður.  Með Ellu í erindagjörðunum var móðir hennar, Helena Fuglö.  Ella kvaðst hafa farið á undan niður tröppurnar, verið komin niður um tvö þrep þegar hún sneri sér við til að huga að móður sinni.

Ella kvaðst þá hafa runnið til [og] fallið niður tröppurnar um átta þrep og skollið utan í vegg sem er andspænis tröppunum.  Ella taldi sig hafa vankast í u.þ.b. 40-50 sek því hún sagðist ekki hafa munað neitt fyrr en allt í einu hafi margir starfsmenn skrifstofunnar staðið yfir sér.

Ella kvaðst hafa verið flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar og í ljós hafi komið [að] hún var með sprungu í beini á hægri hönd fyrir neðan olnboga.  Hún sagðist einnig hafa leitað til Einars, tannlæknis, ... .  Þar kom í ljós að los var í 6-8 tönnum og aðrar tvær hafi verið lausar.

Aðspurð um líðan hennar að öðru leyti kvaðst hún ver þung fyrir brjósti, höfði og kjálka eftir óhappið.

 

Í lögregluskýrslu, sem tekin var af stefnanda hinn19. maí 2004, segir m.a.:

Mætta segir að í umrætt sinn hafi hún verið á leið á skrifstofu byggingafulltrúans hjá Sandgerðisbæ, en skrifstofa hans er í kjallara hússins þar sem bæjarskrifstofurnar eru.  Segir mætta að móðir hennar hafi verið með henni og hafi hún verið á eftir mættu þegar mætta ætlaði að ganga niður tröppurnar.  Kveðst hún hafa verið búin að stíga niður eina tröppuna þegar hún hafi snúið sér að móður sinni til að taka við pappírum sem móðir hennar hélt á.  Kveðst mætta hafa haldið í handrið sem er við tröppurnar, með annarri hendinni.

Þegar mætta svo snéri sér við aftur, þá hafi hún misst fótanna þannig að hún rann niður allar tröppurnar.  Hún segir að hún hafi misst fljótlega takið á handriðinu.  Kveðst mætta síðan haf lent á vegg sem er andspænis tröppunum, en þarna niðri er þröngur gangur.  Kveðst mætta alls ekki geta gert sér grein fyrir hvað orsakaði það að hún féll þarna niður, en hún segir að umræddar tröppur séu mjög brattar og þröngar.

Mætta telur að hún hafi vankast eitthvað við fallið, þar sem hún kveðst muna eftir þegar hún valt niður tröppurnar og síðan kveðst hún muna eftir að verið var að stumra yfir henni.  Kveðst mætta síðan hafa verið flutt í sjúkrabifr. á sjúkrahúsið í Keflavík.  Teknar voru myndir af henni og hafi m.a. komið í ljós að snúningsbein í hægra olnboga var brotið.  Þá var talið í fyrst að mætta væri tognuð og marin.

Segir mætta að síðan hafi hún verið send í sneiðmyndatöku og hafi komið í ljós bólgur undir öxlinni vinstra megin og meiðsli í mjóbaki og brjóstbaki.  Segir mætta að hún sé ekki enn fullrannsökuð.  Þá segir mætta að tennur hafi losnað í henni og að hún hafi misst ein tönn.  Kveðst mætta langt í frá vera búinn að jafna sig eftir þess slys.

 

Í áverkavottorði Jóns B. G. Jónssonar, yfirlæknis hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, varðandi stefnanda, dags. 26. apríl 2004 segir:

Ofangreind stúlka lendir í slysi þann 02.12.2003 sem verður með þeim hætti að hún dettur niður stiga sennilega 12 þrep.  Leitar hingað á HSS á Bráðamóttöku og er illa haldin af verkjum í skrokknum en þó verst í öxlum og sérstaklega hæ.megin.  Er þá skoðuð og finnst ekkert við skoðun á neðri útlimum, kvið eða brjóstkassa.  Hún er aum aftur í mjóbak við álag á mjaðmagrind.  Er aum við þreifingu yfir hryggjartindum í mjóbaki og einnig vöðvum beggja vegna og er þar bólgin.  Væg eymsli yfir hálsliðum en töluverð eymsli yfir vöðvum beggja vegna, verri hægra megin.  Verkjaleiðni frá hálsi og út í öxl og niður í hendi.  Á erfitt með að hreyfa hægri hendi og reynist með dofa í öllum fingrum og sárt í framhandlegg þegar hreyft er í olnboga.  Tekin var röntgenmynd af mjaðmagrind og hægri öxl þar sáust engir beináverkar.  Var meti sem tognun á hálsliðum, marin að ö.l. og einnig tognun í hægri axlarlið.  Fékk verkjalyf og bólgueyðandi.  Taugaskoðun var eðlileg.

Leitaði aftur daginn eftir eða þann 03.12.2003 og kvartar þá um verki í hægri olnboga þar sem henni finnst ekki hafa verið athugað nógu vel.  Fór í röntgenmyndatöku af hægri olnboga og það sýndi brot í caput radii í olnbogalið án verulegra tilfærslu.  Var meðhöndluð með gifsspelku.  Í röntgensvarinu af hægri olnboga kom fram að þetta var svokallað meitilbrot í caput radii og var innan liðsins.

Leitar aftur á HSS þann 19.12.3003 og þá verkir í höfði og mjög spenntir hálsvöðvar.  Leitar til Sigurjóns Sigurðssonar bæklunarlæknis þann 13.01.2004 vegna brotsins í hægri olnboga.  Röntgenmyndataka þann 13.01.2004 sýnir að brotið er ekki gróið og hún er ennþá mjög í olnboganum og áfram óvinnufær.  Hún kvartar einnig um mikla verki neðst í hálsinum og út í herðar og við skoðun er hún stirð og stíf í hálsinum.  Fer til sjúkraþjálfara með beiðni og fær ráðleggingar og hefur samband aftur eftir fjórar vikur til eftirlits á olnbogabrotinu.

Þann 12.02.2004 kemur hún til eftirlits vegna olnbogabrotsins, brotið virðist hafa gróið en hreyfingin ekki nógu góð og er hún hvött til þess að komast að hjá sjúkraþjálfara og er ráðlagt að koma aftur eftir mánuð ef hún er ekki orðin nógu góð.

Kemur aftur til skoðunar þann 24.02.2004 og kvartar þá um dofa og skrýtna tilfinningu ásamt minnkuðum krafti í hægri hendi og var send í framhaldi af þessu til Marinós P. Hafstein í skoðun og hugsanlega taugaleiðnimælingu.  Hans niðurstaða er sú að um eðlilega rannsókn á hægri hendi sé að ræða.

Leitar til Stefáns Eggertssonar háls, nef og eyrnalæknis þann 28.02.2004 og þá vegna þess að hún hefur tekið eftir þyngslatilfinningu yfir hægra eyra og þar um kring.  Stefán finnur ekkert sérstakt við skoðun, gerir heyrnapróf sem sýnir að heyrn er innan eðlilegra marka.

Leitar þann 16.03.2004 til Brynleifs Steingrímssonar læknis HSS vegna slysins og er þá með verki frá hálsi og hægri olnboga.  Hann ákveður að panta segulómskoðun af hægri olnboga og hálsliðum.  Niðurstaða úr því liggur ekki fyrir þegar þetta vottorð er ritað.  Hvað fyrri einkenni frá stoðkerfi varðar þá kemur það fram í gögnum að hún lendir í bílslysi í ágúst 1990.  Fékk þá Whip Lash eða hálshnykksáverka og mikinn dofa fram í hægri handlegg og einnig mikla tognun á vöðvum í herðum, hnakka og hálsi og baki.  Hafði lengi einkenni eftir slysið í hálsi og herðum og baki samkvæmt sjúkraskýrslum alla vega í þrjú ár.  Vegna þessa var hún send í taugaleiðnipróf hjá Marinó Hafstein taugalækni þar sem hans niðurstaða var sú að vöðva og taugarit var eðlilegt og taldi þetta vera hálshnykk.  Hann ráðlagði sjúkraþjálfun.

Við lestur á sjúkranótum kemur því fram að í nóvember 1996 leitar hún á HSS vegna óþæginda í hálsi, baki og herðum og það rekur hún til þess að hún lenti í bifreiðarslysi 1990.  Og segir þá í þessu viðtali að ef hún er undir auknu álagi eða í kulda versni þessi einkenni.

Árið 1997 í júní leitar hún vegna óþæginda í hálsi, herðum og hnakk og greind sem vöðvabólga.  Fékk bólgueyðandi og vöðvaslakandi.  Í febrúar 1998 kemur hún til heilsugæslulæknis og kvartar um verki í hálsi og herðum.  Þessi áverki var gerður upp sem 10% varanleg örorka.  Kemur fram í þessari nótu.  Sjúklingur segist finna enn verulega fyrir þessu, treystir sér ekki í vinnu og vantar vottorð læknis til þess að geta framvísað til Atvinnuleysistrygginga þar sem hún treystir sér ekki í vinnu vegna þessara óþæginda.

Síðan þetta hefur hún leitað af og til á HSS hér vegna óþæginda frá stoðkerfi í hálsi og herðum.

 

  Niðurstöður í vottorði um segulómskoðun af hægri olnboga og hálsliðum stefnanda, sem Brynleifur Steingrímsson, læknir hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, pantaði 16. mars 2004 segja að vægar slitbreytingar séu í hálshrygg.  Varðandi hægri olnboga segir:  Beinmar í caput radii subchondralt, sem teygir sig niður eftir prximal diaphysuni á radius, ekki stallmyndun í liðfleti.  Caput radii brjóski-klæddur.

                                                                                        Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 20. júní 2005, til réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., var óskað eftir að félagið viðurkenndi bótaskyldu á grundvelli sjónarmiða er þar voru ítarlega rakin.  Af hálfu tryggingafélagsins var svarað með bréfi, dags. 24. sama mánaðar, þar sem segir:

 

Tjónanefndin fjallaði um málið á fundi sínum 8. júní 2004 og komst að þeirri niðurstöðu að: „Skv. fyrirliggjandi gögnum hefur ekki verið sýnt fram á að tjónið megi rekja til saknæms vanbúnaðar húsnæðis vártryggingartaka, en gögn málsins bera með sér að tjónþoli hafi ekki sýnt fyllstu aðgát við umgang um tröppurnar og ekki haldið í handrið.“

Að mati VÍS hefur ekki verið sýnt fram á að orsakatengsl séu á milli þess að stiginn uppfyllir ekki kröfur um stiga í núverandi byggingarreglugerð og slyssins sem Ella H. Fuglö Hlöðversdóttir varð fyrir þann 2. desember 2003.

Niðurstaða tjónanefndar liggur fyrir og bendir félagið á að hægt er að leggja málið fyrir Úrskurðarnefnd vátryggingamála.  Að svo stöddu hafnar VÍS bótaskyldu í máli þessu.

 

Með bréfi til Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 19. október 2005 var af hálfu stefnanda óskað eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta varanlegar og tímabundnar afleiðingar slyssins 2. desember 2003.  Þess var óskað að matsmenn létu í té skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi:

1.          Hvenær var heilsufar Ellu orðið stöðugt vegna afleiðinga slyss hennar þann 2. desember 2003?

2.          Hversu lengi var Ella óvinnufær vegna afleiðinga slyss hennar þann 2. desember 2003, sbr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

3.          Hversu lengi var Ella veik, með og án rúmlegu, vegna afleiðinga slyss hennar þann 2. desember 2003, sbr. 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

4.          Hver er varanlegur miski Ellu vegna slyss hennar þann 2. desember 2003, sbr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

5.          Hver er varanleg örorka Ellu vegna slyss hennar þann 2. desember 2003, sbr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993?

 

Hinn 18. nóvember 2005 voru Atli Þór Ólason bæklunarlæknir og Ingvar Sveinbjörnsson hæstaréttarlögmaður dómkvaddir til að láta í té skriflegt og rökstutt álit eins og óskað var eftir.  Matsgerðin er dags. 16. maí 2006.  Þar segir undir fyrirsögninni Samantekt og Álit:

 

Fyrir slysið 02.12.2003 hafði Ella almennt verið heilsuhraust en hafði lent í bílslysi í ágúst 1990 og hlotið tognunaráverka með óþægindum í háls, baki og herðum og verið í meðferð hjá heilsugæslulækni vegna þess fram til 1998 og verið metin til 10% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.

Við slysið 02.12.2003 féll Ella úr næst efstu tröppu bratts stiga og lenti á gólfi fyrir neðan.  Hún vankaðist í 40-50 sekúndur samkvæmt lögregluskýrslu.  Hún hafði þyngslatilfinningu yfir hægra eyra og var í skoðun hjá háls- nef- og eyrnalækni 28.02.2004, sem var eðlileg og heyrnarpróf var einnig eðlilegt.  Hún hlaut áverka á höfuð, tennur, háls, axlir og hægri olnboga.

Áverki á höfuð olli stuttu meðvitundarleysi.  Ekki hafa komið fram frekari óþægindi.

Áverki á tennur var los á tveimur tönnum sem voru fjarlægðar og þurfti að setja brú í staðinn.  Aðrar tennur losnuðu en festust án sérstakrar meðferðar.  Ella hefur í dag engin sérstök óþægindi frá munnholi eða tönnum, en finnur smelli við opnun kjálkaliða.

Við fyrstu skoðun á bráðadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er lýst verkjum í skrokknum, en verst í öxlum og þá sérstaklega hægra megin, í hálsi, herðum og mjóbaki, en röntgenmyndir sýndu ekki beináverka.  Talið var að um tognun í hálsliðum og hægri axlarlið væri að ræða.  Taugaskoðun var eðlileg.  Ella virðist hafa fengið aukin óþægindi í háls, herðar og niður eftir baki við slysið.  Einkenni í hægri öxl ganga til baka er frá líður en einkenni í vinstri öxl verða áberandi.

Áverki á hægri olnboga var meitilbrot á hægra geislabeinshöfði við olnboga sem greri án tilfærslu.  Brotið greri eðlilega og á myndum teknum þann 13.05.2004 var brot gróið án stallmyndunar en liðflötur sveigði lítillega niðurávið.  Þegar frá leið hafði Ella óþægindi í hægri olnboga utanverðum, með einkennum niður í hönd og fingur.

Ella kvartar um aukin þunglyndiseinkenni eftir slysið 2003, en hún hafði átt við þunglyndi að stríða og verið á þunglyndislyfjum frá 1995 og í meðferð hjá geðlækni.

Við mat á varanlegum miska er tekið mið af ofangreindum atriðum og varanlegur miski í heild metinn 15%

Við mat á tímabundnu atvinnutjóni er stuðst við upplýsingar úr fyrirliggjandi gögnum.  Í læknisvottorði Jóns B. G. Jónssonar dags. 26.04.2004 kemur fram að við skoðun þann 13.01.2004 hafi Ella verið óvinnufær og var olnbogabrotið þá ekki gróið.

Ella hefur ekki farið að vinna aftur eftir slysið.  Gera má ráð fyrir að um það bil sex mánuðum eftir slysið hafi brot og mjúkvefjaáverkar verið grónir og ekki er reiknað með frekari bata eftir þann tíma.  Tímabundnar bætur, bæði þjáningar og tímabundið atvinnutjón er miðað við þennan tíma og lýkur með stöðugleikatímapunkti 02.06.2004.

Við mat á varanlegri örorku er litið til þeirra líklegu einkenna sem matsmenn tengja slysinu og matsmenn telja líkleg til að hafa áhrif á starfsgetu í velflestum störfum.  Ella hefur mjög takmarkaða almenna menntun og hefur unnið störf sem krefjast líkamslegs styrks.  Mat á starfsgetu til lengri tíma litið er miðað við þennan bakgrunn.  Af tekjusögu fyrir og eftir slysið verður lítið annað ráðið en að Ella hafi ekki verið í vinnu eftir slysið.  Matsmenn telja að starfsgeta til fyrri starfa sé allmikið skert og þá sérstaklega erfiðari starfa en Ella ætti að geta unnið létt hreyfanleg störf en þá vart í fullri vinnu.  Matsmenn taka í þessu mið af því að líkamleg einkenni torveldi flest störf þar sem nokkuð reynir á líkamlega færni að ráði svo sem í fiskvinnu og við aðhlynningarstörf.  Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með tilvísun til almennra sjónarmiða við mat á starfsgetu til lengri tíma er varanleg örorka metin 20%

 

Orðrétt er niðurstaða matsgerðarinnar eftirfarandi:

 

Við slysið þann 02.12.2003 varð Ella fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

1. Tímabundið atvinnutjón skv. 2. grein:

                        Sex mánuðir ... 100%

2. Þjáningabætur skv. 3. grein:

                        Rúmliggjandi, ekkert.

                        Batnandi, án þess að vera rúmliggjandi, sex mánuðir.

3. Stöðugleikatímapunktur: 02.06.2004.

4. Varanlegur miski skv. 4. grein: 15%

5. Varanleg örorka skv. 5. grein: 20%

6. Hefðbundin, varanleg læknisfræðileg örorka: 15%.

 

Stefnandi byggir á því að stefndi beri fulla og óskipta bótaábyrgð, samkvæmt sakarreglunni og reglu skaðbótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, á tjóni sem stefnandi hlaut hinn 2. desember 2003.  Í því sambandi er vísað til þess að stefndi, Sandgerðisbær, hafi haft ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., þegar slysið varð.

Bent er á að í skýrslu byggingafulltrúa Sandgerðisbæjar, Guðfinns G. Þórðarsonar, dags. 12. maí 2005, komi fram að húsnæði stefnda var reist árið 1937.  Stiginn, þar sem slysið varð, væri frá sama ári og telji Guðfinnur þennan stiga, er liggur að skrifstofu hans, ekki uppfylla þær öryggiskröfur sem gerðar séu til stiga af því tagi.

Vísað er til þess að í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, dags. 15. desember 2003, séu alvarlegar athugsemdir gerðar við umrætt húsnæði Sandgerðisbæjar.  Stiginn, þar sem slysið varð, uppfylli ekki kröfur núverandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Stiginn sé „verulega brattur“.  Húsnæði í kjallara sé verulega þröngt og lofthæð uppfylli ekki kröfur.

Áréttað er að í greinargerð Elísabetar Þórarinsdóttur, starfsmanns Sandgerðis-bæjar, dags. 1. apríl 2004, komi fram að mikil umferð almennings og starfsmanna bæjarins sé um umræddan stiga, enda séu mikilvægar og fjölsóttar skrifstofur staðsettar í kjallaranum.  Starfsfólkinu hefði verið vel kunnugt um að stiginn var hættulegur og farið um hann með tilliti til þess.  Engin viðvörun hefði verið við stigann um að hann væri varasamur, en eftir slys stefnanda hefði verið bætt úr því og viðvörun sett upp.

Stefnandi byggir á því að hættulegur vanbúnaður fasteignar stefnda hafi valdið slysinu.  Stiginn, sem hún þurfti að fara um, hafi verið allt of brattur og hafi því verið hættulegur og mjög varasamur þeim sem leið áttu um hann.  Gáleysi stefnda, Sandgerðisbæjar, felist í því að hafa ekki með aðvörunum eða lagfæringum á stiganum reynt að draga úr eða koma í veg fyrir hættu á slysi í húsinu, fyrst að forsvarsmenn bæjarins kusu að hafa fjölsóttar skrifstofur bæjarins í kjallaranum.  Skyldur þeirra hafi verið sérstaklega ríkar í ljósi þess að opinber þjónusta fór fram í húsinu.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi engar ráðstafanir gert til að draga úr slysahættu stigans, en samkvæmt 13. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum beri að gæta fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar á vinnustöðum.  Jafnframt hvíli skylda á atvinnurekendum að setja upp öryggismerki til að vara við hættum á borð við bratta stiga samkvæmt 3. gr. reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995.

Tölulega gerir stefnandi með eftirfarandi hætti grein fyrir skaðabótakröfu sinni:

 

1)     Þjáningabætur, skv. 3. gr. skaðabótalaga.

Dómkvaddir matsmenn telja að þjáningabætur án rúmlegu eigi að miða við tímabilið frá slysdegi að stöðugleikapunkti þann 2. júní 2004.  Þjáningabætur nema 1.110 kr. vegna hvers dags sem stefnandi var veik án rúmlegu, sbr. 3. gr. skaðabótalaga, að viðbættri hækkun samkvæmt lánskjaravísitölu á grundvelli 15. gr. laganna.  Bótakrafan reiknast því 184 x 1.1010 = 204.240 kr.

2)     Varanlegur miski, skv. 4. gr. skaðabótalaga.

Dómkvaddir matsmenn telja að varanlegur miski stefnanda af völdum slyssins sé 15 stig.  Vegna þessa þáttar er því krafist 15% x 6.331.500 kr. = 949.725 kr.

3)     Varanleg örorka, skv. 5 – 7. gr. skaðabótalaga.

Dómkvaddir matsmenn telja að varanleg örorka stefnanda vegna slyssins sé 20%.  Tekjur stefnanda eru lægri en lágmarksárslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Þess vegna er við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku miðað við lágmarksárslaun samkvæmt 15. gr. skaðabótalaga 1.899.500 kr.

Stöðugleikapunktur er 2. júní 2004.  Þá var stefnandi 34 ára og 135 daga gömul.  Margfeldisstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga er því 135/366 af mismuninum á margföldunarstuðli 34 ára manns og 35 ára manns.  Stuðullinn er því 11,828 (11,915-11,678 = 0,237 x 135/366 = 0,087. 11,915 – 0,087 = 11,828).  Samkvæmt því er skaðabótakrafan 1.899.500 kr. x 11,828 x 20% = 4.493.457 kr.

Allt í allt samtals 5.647.422 kr.

 

Stefndi byggi á því að ekki sé sannað að stefndi eða starfsmenn hans hafi valdið slysi stefnanda eða eigi sök á slysi hennar.

Vísað er til þess að um slysið gildi almennar skaðabótareglur (sakarreglan) og hvíli sönnunarbyrðin um ætlaða sök og orsakatengsl alfarið á stefnanda.  Þó slysið yrði í opinberu húsnæði gildi venjulegt gáleysismat.  Að íslenskum rétti gildi ekki sérstakt og strangt gáleysismat varðandi gerð og búnað bygginga þar sem opinber þjónusta er veitt.

Orsakasamband milli slyssins og gerðar og ástands stigans, eða milli slyssins og þess að við stigann var ekki uppi viðvörun, telur stefndi ósannað.  Vísað er til þess að stiginn og tröppur hans blasi við öllum sem að honum ganga og hafi hver maður mátt sjá að stiginn var nokkuð brattur og framstig þrepa fremur stutt.  Engin viðvörunarmerki hafi þurft til að vara við því.  Ósaknæmt hafi því verið að hafa ekki uppi viðvörunarmerki.  Slysið hafi orðið vegna þess að stefnandi hafi snúið sér í tröppunum, er hún var að taka við pappírum frá móður sinni, og hafi hún ekki haft næga fót- og handfestu á meðan og misst af þeim sökum fótanna.  Skortur á viðvörunarmerki hafi ekki verið ástæða slyssins.

Áréttað er að ósannað sé að stiginn eða umbúnaður við hann hafi brotið í bága við lög eða reglugerðir þó hann uppfyllti ekki kröfur núgildandi byggingareglugerðar.  Stiginn hafi verið steyptur 1937 í takt við lög og reglugerðir síns tíma.  Óskylt hefði verið að breyta honum þó að byggingareglugerðir tækju breytingum.  Vinnueftirlitið hafi enda engar kröfur gert um breytingar eða úrbætur á stiganum og heldur ekki krafist þess að sett yrði upp viðvörunarmerki vegna stigans.  Þá hafi ekkert bent til þess að stiginn hefði verið hættulegri en aðrir slíkir stigar í eldri húsum.  Aldrei hefði áður orðið slys í stiganum.  Ekkert tilefni hefði því verið fyrir stefnda að setja upp viðvörun við stigann eða breyta honum.  Verði enda ekki séð að það hefði verið hægt með góðu móti.

Ályktað er að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi.  Hún hafi snúið sér í þröngum tröppum í bröttum stiga og tekið við pappírum úr hendi móður sinnar, er stóð fyrir aftan hana, án þess að hafa næga hand- og fótfestu á meðan.  Þess vegna hafi hún misst fótanna og fallið niður stigann.  Ekkert hefði hins vegar kallað á að stefnandi tæki við pappírunum í stiganum.

Verði ekki fallist á sýknukröfu er varakrafa reist á því að skipta beri sök og lækka stefnukröfur í takt við það, en í öllu falli megi rekja meginorsök slyssins til gáleysis stefnanda.

Stefnukröfum er andmælt sem of háum.  Þá er upphafstíma dráttarvaxta mótmælt frá fyrri tíma en uppsögu dóms í málinu, og í öllu falli frá fyrri tíma en mánuði eftir birtingu stefnu, en með stefnunni hafi stefndu fyrst fengið í hendur sundurliðaða kröfugerð stefnanda og þá fyrst getað tekið afstöðu til fjárhæðar bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

 

Stefnandi gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að aðdragandi slyssins hefði verið að hún hafi farið með móðir sinni á bæjarskrifstofurnar.  Hafi þær þurft að fara niður á neðri hæð hússins en þar hafi byggingastjórinn verið til húsa.  Kvaðst hún hafa gengið á undan vegna þess að móðir hennar er mjög lofthrædd.  Hafi hún verið kominn niður eina tröppu, þegar henni hefði komið í hug að móðir hennar hélt á pappírum.  Til að hjálpa henni hafi hún tekið við pappírunum úr hendi móður sinnar.  Hafi hún tekið í handriðið og sagt við móður sína ‘mamma réttu mér pappírana’.  Hafi hún síðan tekið við pappírunum og snúið sér við og í sama mund hafi hún einhvern veginn fallið.  Í fallinu hafi hún haldið í handriðið, en í fjórðu eða fimmtu tröppu hafi hún misst takið og fallið fram fyrir sig.

Þegar hún tók við pappírunum frá móður sinni kvaðst stefnandi hafa snúið höfði og teygt höndina aftur fyrir sig [handrið er með stiganum öðru megin, á vinstri hönd, þegar gengið er niður stigann].  Raunar kvaðst hún ekki vita af hverju hún datt.  Að hennar mati væru tröppurnar litlar og einnig hafi þær verið hálar.  Ekki kvaðst hún hafa farið þarna áður.  Hún kvaðst hafa verið í inniskóm með gúmmíbotnum, ekki með háum hælum.

Stefnandi sagði að aðkoman að umræddum tröppum væri þannig að fyrst væri gengið inn í anddyri, sem væri með borði o.fl.  Síðan væri gengið eftir gangi og inn í kaffistofu og þar væru tröppurnar niður á neðri hæð.

Stefnandi sagði að henni hafi fundist tröppurnar brattar, er hún gekk að þeim, en hún hefði ekki ‘pælt í því’.

Með því að taka við pappírunum frá móður sinni kvaðst stefnandi hafa hugsað sér að móðir hennar þyrfti þá ekki að hirða um þá og jafnfram að halda í handriðið, en móðir hennar væri mjög lofthrædd.  Umrædda pappíra kvað stefnandi vera bréf í sambandi við lánaumsókn.

 

Helena Ösp Fuglö, móðir stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði staðið við stigann, en dóttir hennar verið komin niður eina tröppu og haldið í handriðið, þegar hún sneri sér að henni og beðið hana um að láta sig hafa bréfið sem hún var með, en dóttir hennar hefði vitað hvað hún var lofthrædd og að hún myndi þurfa báðar hendur [á handriðinu] til að komast þarna niður.  Hafi hún afhent dóttur sinni bréfið og síðan hefði dóttir hennar fallið niður stigann.

Helena sagði að stiginn hefði verið mjög brattur.  Stiginn hefði verið stífbónaður og glansað.  Hafi hún verið hrædd við að fara þarna niður.

 

Elísabet Guðrún Þórarinsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Lagt var fyrir Elísabetu dskj. nr. 6, sem myndrit af bréfi til Vátryggingafélags Íslands.  Bréfið tjáist ritað af Elísabetu fyrir hönd Sandgerðisbæjar og er dagsett 1. apríl 200[4].  Kvaðst Elísabet hafa ritað þetta bréf.  Hún sagði m.a. að hún hefði verið í næsta herbergi, þegar slysið varð, og kvaðst hún hafa heyrt þegar stefnandi datt niður og hafi hún verið fyrst til að koma að slysinu.

Elísabet sagði að stefnandi hefði verið með meðvitund, þegar hún kom að henni, og hefði hún talað við hana.  Hafi hún sagt sér að hún hefði verið á leiðinni niður með móður sinni, gengið á undan henni og skrikað fótur.  Þá hafi hún sagt sér að hún hefði ekki haldið í handriðið.

Elísabet sagðist ekki vita til þess að nokkur hefði dottið í umræddum stiga áður.

Elísabet kvaðst hafa starfað hjá Sandgerðisbæ í níu ár.  Hún kvaðst hafa starfað í sex ár í húsinu þar sem slysið átti sér stað.  Kvað hún sér ekki kunnugt um að nýir starfsmenn hefðu verið varaðir við stiganum, er þeir hófu störf þar.  Áður en skrifstofur Sandgerðisbæjar voru fluttar í húsið hefði það verið notað sem sjúkraskýli, lögreglan hefði áður haft not af því og heilsugæslan og hitaveitan.

Elísabet sagði að aðvörunarmerki hefði verið sett við stigann eftir að umrætt slys varð.  Þar hafi staðið ‘Varúð, passið ykkur á stiganum’.

 

Ályktunarorð:  Ráðið verður af gögnum málsins að stiginn, sem hér um ræðir, sé verulega brattur og uppfylli ekki reglur sem nú gilda varðandi halla á stiga og framstig þrepa.  Í skýrslu lögreglunnar, sem rituð er skömmu eftir slysið, er þess getið að haft hafi verið samband við Vinnueftirlit ríkisins og á það bent að tröppurnar væru hættulegar.  Þá segir í bréfi stefnda til réttargæslustefnda að stiginn sé „nokkuð brattur“ og jafnframt er greint frá því að starfsfólkinu væri vel kunnugt um að stiginn gæti verið hættulegur og gangi um hann með tilliti til þess.  Einnig er tekið fram að ekki hafi nein viðvörun verið við stigann þegar slysið átti sér stað, en nú hefði verið bætt úr því.

Húsnæði bæjarskrifstofu Sandgerðisbæjar, stefnda í máli þessu, verður að teljast húsnæði sem allur almenningur hefur aðgang að, húsnæði fyrir opinbera þjónustu.  Leið bæjarbúa frá fyrstu hæð hússins niður í kjallara að tilteknum skrifstofum stefnda þar, var um umræddan stiga.  Engar ráðstafanir höfðu verið gerðar af hálfu forsvarsmanna stefnda til að koma í veg fyrir að fólk slasaðist við að ganga þennan hættulega stiga.  Þar sem slys stefnanda verður gagngert rakið til vanbúnaðar stigans ber að fella skaðabótaskyldu á stefnda vegna tjóns hennar.  Engin efni eru til að lækka bætur til stefnanda vegna eigin sakar.

Stefndi hefur ekki andmælt fjárhæð kröfu stefnanda með rökstuddum hætti.  Verður hún því lögð til grundvallar dómi í málinu.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, að hún hafi gert kröfu á hendur stefnda með ákveðinni fjárhæð fyrr en við birtingu stefnu í málinu 17. ágúst 2006.  Með vísun til 9. gr. laga nr. 38/2001 verða dráttarvextir dæmdir frá 17. september 2006.

Samkvæmt framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 5.647.422 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

  Stefndi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað eins og í dómsorði greinir.

    Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.

                                                                                        Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Sandgerðisbær, greiði stefnanda, Ellu H. Fuglö Hlöðversdóttur, 5.647.422 krónur meðþ 4,5% ársvöxtum frá 2. desember 2003 til 17. september 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði 1.560.730 krónur í málskostnað sem renni í ríkissjóð.

    Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, 1.113.430 krónur.