Hæstiréttur íslands

Mál nr. 261/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skýrslugjöf
  • Vitni


                                                                                              

Mánudaginn 28. apríl 2014.

Nr. 261/2014.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Skýrslugjöf. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2014. Kæran var móttekin af héraðsdómi degi síðar og barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. apríl 2014, þar sem varnaraðila var gert skylt að víkja úr þinghaldi þegar brotaþoli, A, gæfi skýrslu við aðalmeðferð málsins. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Brotaþoli hefur ekki fyrir sitt leyti gert kröfu um staðfestingu úrskurðarins.

Fyrir réttinn hefur verið lagt vottorð geðhjúkrunarfræðings til réttargæslumanns brotaþola 14. apríl 2014, þar sem fram kemur að brotaþoli hafi verið í meðferð á göngudeild geðsviðs 21. nóvember 2012 til 25. október 2013 vegna almennrar kvíðaröskunar. Frá október 2013 hafi hún verið í eftirliti og stuðningi gegnum síma í samvinnu við félagsráðgjafa. Hún sé tilfinningalega viðkvæm og einkenni hafi endurtekið versnað undir álagi með auknum kvíða og þunglyndi auk áfallastreitueinkenna. Er það mat hjúkrunarfræðingsins að yrði brotaþoli sett í þær aðstæður að bera vitni í nærveru ætlaðs geranda væru raunverulegar líkur á því að hún upplifði sterkar neikvæðar tilfinningar og hugsanlega endurupplifanir sem gætu skert getu hennar til að greina frá reynslu sinni.

Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. apríl 2014.

                Mál þetta, sem barst dóminum þann 24. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 21. janúar 2013 [sic], á hendur ákærða, X, kennitala [...], [...], [...] fyrir nauðgun, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins [...], í tjaldi í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum, með ofbeldi þröngvað [...], kennitala [...], til samræðis, en ákærði reif í hár hennar, hélt höndum hennar niðri og beit hana í neðri vör, og reyndi einnig að setja getnaðarlim sinn í endaþarm hennar. Af þessu hlaut [...] eymsli í hásverði, neðrivör og í öllum stærri vöðvahópum.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í ákæru er tekin upp einkaréttarkrafa brotaþola. 

Ákærða er gefin að sök nauðgun gagnvart brotaþola sem var 17 ára þegar hið ætlaða brot var framið. Aðalmeðferð í málinu var fyrirhuguð þann 8. apríl sl., en var frestað í kjölfar kröfu brotaþola um að ákærða verði vikið úr þingsal meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð málsins og hefur ákærandi tekið undir þá kröfu. Ákærði hafnaði kröfunni. Krafan var tekin til úrskurðar þann 8. apríl sl., eftir að málflytjendur höfðu tjáð sig um hana.

Brotaþoli byggir kröfu sína á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 og vísar til  vottorða Þóru Sigríðar Einarsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, og Gísla Baldurssonar, sérfræðings á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, um mjög alvarlegar afleiðingar sem atburður þessi hafi haft á brotaþola og m.a. leitt til bráðainnlagnar á Barna- og unglingageðdeild. Brotaþoli vísar einnig til þess að viðvera ákærða í dómsal muni verða henni þungbær og gæti haft áhrif á framburð hennar fyrir dómi. 

Ákærði vísar til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d-liðar 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu máli sínu til stuðnings. Þá vísar ákærði til meginreglunnar um réttláta málsmeðferð sem í felist réttur ákærða til að vera viðstaddur öll þinghöld í málinu. Allar undantekningar frá þeirri reglu verði að skýra þröngt og verulega ríkar ástæður verði að standa til þess að vikið sé frá þeirri reglu. Ákærði hafnar því að framangreind sjónarmið 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 séu uppi í máli þessu og vísar til þess að öll gögn sérfræðinga greini frá ástandi brotaþola á árinu 2012 og ekki hafi verið aflað nýrra vottorða um hagi brotaþola nú.

Í máli þessu hefur verið lagt fram vottorð Þóru Sigfríðar Einarsdóttur, sálfræðings í Barnahúsi, dagsett 15. nóvember 2012. Þar kemur fram að brotaþoli hafi fram til þess tíma sem vottorðið var ritað sótt tíu viðtöl í Barnahúsi frá 9. ágúst 2012. Þá liggi fyrir að brotaþoli hafi, í kjölfar atburðarins, verið lögð inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans í ágústlok 2012 vegna ítrekaðra sjálfsvígshugsana og slæmrar andlegrar líðanar. Í samantekt og áliti sálfræðingsins kemur fram að fyrst eftir ætlað brot hafi stúlkunni liðið mjög illa. Hún hafi haft mikla sektarkennd, fundið fyrir skömm, grátið mikið, átt erfitt með svefn og borið hafi á sjálfsvígshugsunum. Próf  þann 9. ágúst 2012 hafi bent til alvarlegs þunglyndis og streitu, ásamt mjög alvarlegum kvíða. Hún hafi átt erfitt með að sinna daglegum verkefnum, s.s. að sækja vinnu og ferðast með almenningssamgöngum. Þá hafi sjálfsmynd brotaþola verið neikvæð og sé meðferð hvergi nærri lokið og viðtöl muni halda áfram. 

Einnig liggur frammi vottorð Gísla Baldurssonar, sérfræðings á Barna- og unglingageðdeild Landspítala, dags. 3. desember 2012. Þar kemur fram að í kjölfar atburðarins hafi einkenni brotaþola versnað til muna og hafi hún verið lögð inn á deildina í bráðainnlögn þann 22. ágúst 2012 og dvalið þar til 30. sama mánaðar. Komið hafi í ljós að brotaþoli bæri einkenni streituröskunar eftir áfall. Í samantekt sérfræðingsins kemur fram að brotaþoli sé með ADHD og tilfinningaerfiðleika í formi kvíða og þunglyndiseinkenna til margra ára sem hafi farið versnandi í kjölfar máls þess sem hér um ræðir. Þá kemur fram að auk meðferðar í Barnahúsi muni sjúkrahúsið sinna eftirfylgd með brotaþola.

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan það gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til þyngingar og haft áhrif á framburð þess. Af vottorðum sálfræðings Barnahúss um andlega hagi brotaþola verður ráðið að atburðurinn hafi haft mjög alvarleg áhrif á andlega líðan brotaþola sem samkvæmt vottorði sérfræðings á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur til margra ára glímt við tilfinningaerfiðleika í formi kvíða og þunglyndiseinkenna. Þá upplýsti réttargæslumaður brotaþola, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir hdl., við munnlegan málflutning vegna kröfunnar, að brotaþoli hafi eftir atburðinn einnig verið í meðferð hjá sérfræðingi Áfallamiðstöðvarinnar. Brotaþoli hafi hins vegar ekki notið þjónustu sérfræðinga síðastliðna sex mánuði eftir að hún flutti út á land fjarri höfuðborgarsvæðinu. Í viðtölum réttargæslumanns við brotaþola undanfarna daga hafi komið fram að andleg líðan brotaþola sé enn mjög slæm, hún sé kvíðin og eigi enn mjög erfitt með að takast á við atburðinn og fyrirhugað þinghald og sé nú óvinnufær.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það álit dómsins að uppfyllt séu  lagaskilyrði 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008, sem að framan eru rakin, og er því fallist á kröfu brotaþola. Ákærði skal því víkja úr þinghaldi meðan brotaþoli gefur skýrslu við aðalmeðferð máls þessa. Þess verður gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni í hljóð og mynd um leið og hún fer fram og jafnframt verður tryggt að ákærði geti komið að óskum sínum um að tilteknar spurningar verði lagðar fyrir brotaþola, sbr. 3. mgr. áðurnefndrar lagagreinar.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

 Ákærði, X, skal víkja úr þinghaldi meðan brotaþolinn A gefur skýrslu.