Hæstiréttur íslands

Mál nr. 275/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Riftun
  • Varnarþing
  • Málshöfðunarfrestur
  • Stefnubirting
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Þriðjudaginn 14. maí 2013.

Nr. 275/2013.

LBI hf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

Banco Bilbao Vizcaya Argentaria S.A.

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Varnarþing. Málshöfðunarfrestur. Stefnubirting. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi máli fjármálafyrirtækisins L hf. gegn aðallega J en til vara , að því er B varðaði. L hf. hafði verið tekið til slita og höfðaði málið til riftunar greiðslu sem B hafði milligöngu um til J. Með vísan til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var talið að L hf. hefði mátt reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Talið var að L hf. hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að miða bæri upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests. Þar sem B hafði sótt þing við þingfestingu málsins skipti engu hvort honum hefði verið birt stefna á lögmætan hátt. L hf. hafði farið þess á leit að stefna yrði birt fyrir fyrirsvarsmanni B á Spáni í samræmi við ákvæði samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Þá fékk L hf. stefnuna einnig birta í Lögbirtingablaði. Við þingfestingu málsins lagði L hf. fram eintak stefnunnar án þess að henni fylgdu gögn um að hún hefði verið birt B. Þegar málið var síðan tekið til munnlegs flutnings lagði L hf. fram vottorð um að stefnan hefði verið birt fyrir fyrirsvarsmanni B á Spáni. Af þessum sökum var fallist á að tekist hefði að birta stefnuna innan þess frests sem L hf. hafði til að höfða málið samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. apríl 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2013, þar sem máli sem sóknaraðili beindi aðallega að Jaime Serrano Suner Polo og til vara að varnaraðila var vísað frá dómi að því er þann síðastnefnda varðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um frávísun. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta sem fyrr segir aðallega gegn Jaime Serrano Suner Polo, en til vara á hendur varnaraðila. Í málinu leitar sóknaraðili riftunar á greiðslu, sem hann innti af hendi til aðalstefnda í héraði fyrir milligöngu varnaraðila 3. október 2008 eins og nánar er gerð grein fyrir í hinum kærða úrskurði, og endurheimtu fjárhæðarinnar sem greidd var. Aðalstefndi og varnaraðili kröfðust þess báðir að málinu yrði vísað frá héraðsdómi. Með úrskurðinum var þeirri kröfu aðalstefnda hafnað, en málinu vísað frá dómi að því er varnaraðila varðar.

Frávísunarkrafa varnaraðila er reist á því í fyrsta lagi að hann eigi ekki varnarþing hér á landi. Í öðru lagi að héraðsdómsstefna í málinu hafi ekki verið birt honum með lögmætum hætti innan málshöfðunarfrests samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum og málið því ekki höfðað í tæka tíð. Í þriðja lagi að málatilbúnaður sóknaraðila í stefnunni uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður sú niðurstaða staðfest að ekki séu efni til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna þess að málatilbúnaði sóknaraðila sé svo áfátt að úr honum verði ekki bætt undir rekstri þess.

Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þriðja málslið málsgreinarinnar, sem tekinn var upp í hana með 1. gr. laga nr. 146/2011, skal mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli hennar þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita. Að virtu þessu síðastgreinda lagaákvæði og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 21. september 2012 í máli nr. 485/2012 er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að reka megi málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í öðrum málslið 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eftir að honum var breytt með 1. gr. laga nr. 146/2011, er mælt svo fyrir að frestur slitastjórnar til að höfða riftunarmál samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sé 30 mánuðir. Samkvæmt því byrjar málshöfðunarfresturinn að líða þegar slitastjórn átti þess kost að gera riftunarkröfu, þó aldrei fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Slitastjórn sóknaraðila var skipuð 29. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti við slit hans 30. október sama ár. Sóknaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að atvik málsins séu með þeim hætti að miða beri upphaf þessa rúma málshöfðunarfrests við síðara tímamark en lok kröfulýsingarfrests og verður því litið svo á að hann hafi runnið út 30 mánuðum síðar eða 30. apríl 2012.

Þar sem varnaraðili sótti þing við þingfestingu málsins skiptir engu hvort honum var birt stefna á lögmætan hátt, sbr. 4. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því og með vísan til þess sem áður segir stendur eftir að leysa úr því hvort sóknaraðili hafi höfðað málið á hendur varnaraðila innan þess frests sem að framan greinir.

Samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 telst mál höfðað þegar stefna er birt eða árituð um viðtöku samrits hennar, sbr. 3. mgr. 83. gr. laganna, ellegar stefndi mætir að öðrum kosti fyrir dómi þar sem stefnandi afhendir honum samrit stefnu og þingfestir mál. Í samræmi við það segir í 1. mgr. 94. gr. sömu laga að mál sé þingfest með því að stefna er lögð fram fyrir dómi. Við þingfestingu skal stefnandi leggja fram stefnu og þau skjöl sem varða málatilbúnað hans eða hann byggir annars kröfur sínar á, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna.

Sóknaraðili fór þess á leit 17. janúar 2012 við sýslumanninn í Keflavík að hann hlutaðist til um að héraðsdómsstefna í máli þessu yrði birt fyrir aðalstefnda í héraði og fyrirsvarsmanni varnaraðila á Spáni í samræmi við ákvæði samnings um birtingu erlendis á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum frá 15. nóvember 1965. Sýslumaður framsendi stefnuna til hlutaðeigandi yfirvalda þar í landi. Með bréfi 27. mars 2012 sendi sýslumaður sóknaraðila vottorð um að stefnan hafi verið birt fyrir aðalstefnda í Madrid á Spáni 7. sama mánaðar. Þegar frestur til stefnubirtingar var við að renna út án þess að gögn hefðu borist frá spænskum yfirvöldum um birtingu stefnunnar fyrir varnaraðila fékk sóknaraðili birta í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012 stefnu sem óumdeilt virðist að hafi verið samhljóða þeirri upphaflegu að öðru leyti en því að í kafla með fyrirsögninni „lagatilvísanir“ hafði til samræmis við 2. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 verið bætt svohljóðandi málslið: „Stefna þessi er birt í Lögbirtingablaði á grundvelli b-liðar 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem birting stefnunnar hefur ekki tekist á hendur stefndu.“ Við þingfestingu málsins 29. maí 2012 lagði sóknaraðili fram eintak stefnunnar eins og hún hljóðaði í upphafi án þess að henni fylgdu gögn um að hún hefði verið birt fyrir varnaraðila eftir einhverri þeirri leið sem um ræðir í 1. til 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Auk stefnunnar lagði sóknaraðili meðal annars fram bréf sitt til varnaraðila 11. maí 2012, þar sem honum var tilkynnt um málshöfðunina og jafnframt að óskað hafi verið eftir að stefnan yrði birt í heimalandi hans í samræmi við ákvæði áðurnefnds samnings, en sökum þess að ekki hafi borist staðfesting á að það hafi verið gert hafi stefnan verið birt í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012. Á hinn bóginn lagði sóknaraðili hvorki fram afrit af stefnunni sem hafði verið birt í Lögbirtingablaði né gögn um þá birtingu eða til stuðnings því að uppfyllt væri það skilyrði b. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 fyrir slíkri birtingu stefnu að erlend yfirvöld hafi neitað eða látið hjá líða að verða við ósk um að birta hana. Varnaraðili lagði hins vegar fram í þinghaldi 30. september 2012 gögn um birtingu stefnunnar í Lögbirtingablaði. Þegar málið var tekið til munnlegs flutnings um frávísunarkröfu varnaraðila og aðalstefnda 4. mars 2013 lagði sóknaraðili fram bréf sýslumannsins í Keflavík 18. desember 2012 ásamt vottorði frá Spáni um að stefna í málinu hafi verið birt fyrir fyrirsvarsmanni varnaraðila 21. febrúar sama ár.

Í héraðsdómsstefnu kom meðal annars fram að af hálfu varnaraðila væri henni beint að formanni stjórnar hans, Gonzalez Rodriguez Francisco, með aðsetur á Plaza San Nicolas nr. 4 í Bilbao á Spáni. Samkvæmt þýðingu sem sóknaraðili hefur lagt fram í Hæstarétti á vottorði um birtingu stefnunnar gagnvart varnaraðila segir að fyrrnefndur maður hafi ekki hist fyrir „á heimili“ varnaraðila „við götuna Gran Vía 12“. Stefnan hafi verið birt fyrir „aðila sem kveðst vera starfsmaður ... hjá hlutaðeigandi og heita Ana García“. Í greinargerð varnaraðila fyrir Hæstarétti er því haldið fram að starfsstöð hans sé „ekki við þessa götu“, svo og að ekkert liggi heldur „fyrir um að þessi tiltekni einstaklingur sem tók við stefnunni hafi einhver þau tengsl við varnaraðila að hann sé bær að lögum að taka við stefnu fyrir varnaraðila hönd.“ Um þessi atriði verður að líta til þess að „starfsmaður dómsmálaskrifstofunnar“, sem svo er nefndur í fyrrnefndri þýðingu á vottorði um birtingu stefnunnar, hefur staðfest þar að „heimili“ varnaraðila sé á umræddum stað og hefur því ekki verið hnekkt. Varnaraðili hefur ekki haldið því fram að fyrrnefnd Ana García sé ekki starfsmaður sinn, sem honum stæði næst að taka af skarið um, og verður að því gættu ekki séð að hverju þau rök hans lúta að hún hafi ekki að lögum verið bær um að taka við stefnunni fyrir hans hönd. Verður því að líta svo á að þessi birting á stefnunni hafi verið fullnægjandi.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að tekist hafi að birta stefnu í málinu fyrir varnaraðila innan þess frests sem sóknaraðili hafði til að höfða það. Þótt ekki hafi verið sýnt fram á þetta fyrr en löngu eftir þingfestingu málsins með framlagningu vottorðs um stefnubirtingu í þinghaldi 4. mars 2013 verður að gæta að því að tilgangur málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 er öðru fremur sá að koma í veg fyrir óvissu viðsemjanda þrotamanns um hvort þrotabú muni una við ráðstöfun hans fyrir upphaf skipta, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 257/2003. Líta verður svo á að sóknaraðili hafi jafnskjótt og tilefni var til borið fyrir sig að tekist hafi að birta stefnuna fyrir varnaraðila, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, en eins og áður greinir barst sóknaraðila ekki vitneskja um það fyrr en í desember 2012. Að þessu virtu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varnaraðila varðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugist að til viðbótar kæru í málinu lagði sóknaraðili fyrir Hæstarétt athugasemdir við greinargerð varnaraðila, svo sem þeim fyrrnefnda var heimilt samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Að því búnu lagði varnaraðili fram „viðbótarathugasemdir“ í tilefni af greinargerð sóknaraðila. Þessi málatilbúnaður varnaraðila er andstæður lögum.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því er varðar kröfu sóknaraðila, LBI hf., á hendur varnaraðila, Banco Bilbao Vizcaya Argentaria S.A.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 29. maí 2012, var tekið til úrskurðar mánudaginn 4. mars 2013 að loknum munnlegum málflutningi um kröfu aðalstefnda, Jaime Serrano Suner Polo, Bravo Murillo 16, Madríd, Spáni, og varastefnda, Banco Bilbao Vizcaya SA, Via de los Poblados 4a, Madríd á Spáni, um frávísun málsins. Stefnandi, LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík, krefst þess að kröfu stefndu um frávísun verði hafnað. Allir aðilar krefjast málskostnaðar.

Yfirlit yfir efnishlið málsins

Í málinu hefur stefnandi uppi þær efniskröfur að staðfest verði með dómi riftun greiðslu stefnanda, sem þá bar heitið Landsbanki Íslands hf., til aðalstefnda hinn 3. október 2008, að fjárhæð 1.877.000 evrur, sem fram fór fyrir milligöngu varastefnda, vegna greiðslu á skuldabréfum að nafnverði 2.000.000 evrur, með gjalddaga 19. ágúst 2009, gefinn út af Landsbanka Íslands hf., með auðkennin EMTN 198 og ISIN númer XS0345947757. Jafnframt krefst stefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.877.000 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2011 til greiðsludags.

Í stefnu hefur stefnandi uppi þær kröfur gegn varastefnda að hann „að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. til varastefnda, Banco Bilbao Vizcaya Argentaria S.A. sem átti sér stað þann 3. október 2008 að fjárhæð EUR 972.400,00 vegna greiðslu á skuldabréfum að nafnverði EUR 2.000.000,00 sem voru með gjalddaga þann 19. ágúst 2009 og gefin voru út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennin EMTN 198 og ISIN númer XS0345947757.“ Þá krefst hann þess að varastefndi verði 1.800.000 evrur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags. Í bókun sem stefnandi lagði fram 29. maí sl. er skýrt frá því að mistök hafi orðið við framsetningu kröfugerðar gegn varastefnda og lýst yfir breytingum á kröfugerð til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru gegn aðalstefnda, þó þannig að krafist er dráttarvaxta frá 16. september 2010.

Í efnisþætti málsins krefjast stefndu sýknu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar.

Í stefnu er því lýst að 15. febrúar 2008 hafi Landsbanki Íslands hf. boðið fjárfestum til sölu skuldabréf útgefin af honum í flokki sem var auðkenndur EMTN 198 og ISN númerið XS0345947757 og hafi gjalddagi þeirra verið 19. ágúst 2009. Skuldabréfin hafi verið gefin út á grundvelli uppfærðar útgáfu af EMTN skuldabréfarammanum (e. Euro Medium Term Note Programme) að heildarnafnvirði 2.000.000 evrur. Því er lýst í stefnu að varastefndi hafi haldið á þessari skuldabréfaútgáfu 3. október 2008 þegar greiðsla átti sér stað. Varastefndi hafi hins vegar lýst því yfir í bréfi til stefnanda 1. desember 2010 að hann hafi ekki átt bréfið heldur hafi hann keypt bréfið og selt fyrir hönd aðalstefnda á grundvelli eignastýringarsamnings. Aðalstefndi sé því sá aðili sem hafi í raun notið hags af hinum rifta gerningi ef fallist verði á þessa málsástæðu varastefnda.

Í stefnu er því einnig lýst að Landsbanki Íslands hf. hafi greitt upp skuld sína samkvæmt framangreindu skuldabréfi EMTN 198 þann 3. október 2008. Greiðslan hafi verið framkvæmd í gegnum skuldabréfamiðlunina EUROCLEAR með þriggja daga uppgjörsfresti og greiðslan verið framkvæmd 30. september 2008. Gagnaðili í þessum viðskiptum hafi verið aðalstefndi. Greiðslan hafi verið innt af hendi, þótt ekki væri komið að gjalddaga skuldabréfanna, með greiðslu að fjárhæð 1.877.000 evrur. Í stefnu er einnig lýst þróun fjármálamarkaða og stöðu Landsbanka Íslands hf. fram á haustið 2008 sem lyktaði með því að Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi bankans 7. október 2008 með vísan til 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá er í stefnu gerð grein fyrir því þegar Landsbanki Íslands hf. var tekin til slita samkvæmt ákvæðum laga nr. 161/2002 og aðgerðum slitastjórnar við riftun þeirra greiðslna sem áður er lýst.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að Landsbanki Íslands hf. hafi með framangreindum greiðslum greitt skuld við aðalstefnda eða varastefnda fyrr en eðlilegt hafi verið á sama tíma og bankinn hafi verið ógjaldfær. Ekki hafi verið komið að gjalddaga þeirra og uppgreiðsluheimild hafi ekki verið fyrir hendi. Við greiðslurnar hafi réttindi og skyldur samkvæmt skuldabréfunum farið á eina hendi og skuldabréfakröfurnar fallið niður. Því séu greiðslurnar riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Greiðsla skuldar, fyrr en nauðsynlegt hafi verið að greiða og með takmörkuðu lausafé bankans, hafi ekki getað verið venjuleg eftir atvikum eða eðlileg ráðstöfun, með hliðsjón af stöðu bankans og íslenska fjármálamarkaðarins.

Málsástæður og lagarök aðila í frávísunarþætti málsins

Aðalstefndi byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því hann eigi ekki varnarþing á Íslandi og málið sé utan lögsögu íslenskra dómstóla. Stefndi vísar til þess að samkvæmt almennum reglum svo og ákvæðum í útgáfulýsingu hefði varnarþing stefnda átt að vera utan Íslands. Ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingarlög nr. 146/2011 sem tekið hafi gildi 25. október 2011, hafi því falið í sér afturvirka lagasetningu um viðskipti málsaðila sem að fullu hafi verið lokið við gildistöku breytingarlaganna. Slíkt brjóti gegn meginreglum stjórnskipunarréttar, sbr. einnig 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og rétti stefnda til réttlátrar meðferðar fyrir dómi, sem honum sé tryggður með ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Stefndi telur einnig að að umrædd breytingarlög feli í sér breytingu á efnisreglum um riftun. Lögin brjóti í bága við lögmætar væntingar stefnda sem njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem og  jafnræðisreglu með því að verið sé að hygla tilteknum aðilum, þ.e. slitastjórnum, á kostnað annarra aðila. Samkvæmt þessu sé ekki hægt að byggja á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 í þessu máli. Málið sé höfðað á röngu varnarþingi og af þeim sökum beri að vísa því frá dómi.

Þá byggir aðalstefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður og uppfylli ekki meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Aðalstefndi bendir einkum á að með engum hætti sé útskýrt með hvaða hætti hann tengist þeim viðskiptum sem lýst sé í stefnu eða hver tengsl hans séu við stefnanda.. Engin rök séu færð fyrir því að hann hafi haft hag af umræddri ráðstöfun eða að stefnandi málsins hafi orðið fyrir tjóni. Samhengi skorti milli krafna, málsástæðna og framlagðra dómskjala og því beri að vísa málinu frá dómi að því er aðalstefnda varðar.

Varastefndi byggir kröfu sína um frávísun í fyrsta lagi á því að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu með sambærilegum rökum og aðalstefndi. Í annan stað grundvallar hann frávísunarkröfu sína á því að málið hafi ekki verið höfðað fyrr en að loknum málshöfðunarfresti. Í því sambandi er því mótmælt að gögn um birtingu fyrir nafngreindum manni á Spáni 21. febrúar 2012 séu sönnum um að birting hafi farið fram með fullnægjandi hætti samkvæmt spænskum lögum. Umræddur maður hafi ekki verið skráður fyrirsvarsmaður varastefnda og hvorki liggi fyrir þýðing spænskra skjala viðvíkjandi birtingunni né upplýsingar um spænsk lög. Óumdeilt sé að kröfulýsingafresti í slitameðferð stefnanda hafi lokið 30. október 2009. Með vísan til þess hafi málshöfðunarfresti lokið 30. apríl 2012. Aðalstefndi mótmælir því að sú stefna sem stefnandi lét birta í Lögbirtingarblaðinu 27. apríl 2012 sé sú stefna sem miða eigi við í málinu. Þá hafi skort á að skilyrði 89. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir birtingu með auglýsingu í Lögbirtingablaði væri fullnægt. Þar sem málið hafi ekki verið höfðað innan lögbundins málshöfðunarfrests beri að vísa því frá dómi.

Í þriðja lagi byggir varastefndi á því að málatilbúnaður stefnanda sé óljós og vanreifaður og uppfylli ekki meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Varastefndi bendir einkum á það misræmi sem sé í kröfugerð stefnanda gagnvart aðalstefnda annars vegar og varastefnda hins vegar. Ekki sé gerð viðhlítandi grein fyrir þeim viðskiptum sem liggi að baki greiðslunni eða rökstutt með hvaða hætti varastefndi á að hafa auðgast á greiðslunni. Engin grein sé gerð fyrir tjóni stefnanda. Á skorti að stefnandi rökstyðji með fullnægjandi hætti að efnisskilyrðum riftunar sé fullnægt. Samhengi skorti milli krafna, málsástæðna og framlagðra dómskjala og því beri að vísa málinu frá dómi að því er aðalstefnda varðar. Þá bendir varastefndi á að ekki sé gerð fyrir grundvelli kröfu- eða aðilasamlags.

Stefnandi mótmælir málsástæðum stefndu um málið sé höfðað á röngu varnarþingi. Vísar hann til þess að skorið hafi verið úr þessu álitaefni í nýlegum dómi Hæstaréttar Íslands sem beri að leggja til grundvallar sem fordæmi í þessu máli. Þá breyti varnarþingsregla 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 146/2011, ekki íslenskum efnisrétti um riftun greiðslna. Með breytingarlögunum frá 2011 hafi verið innleidd meginregla EES réttar um að framkvæmd þrotaskipta fari fram á heimavarnarþingi þrotabús og eftir lögum þess ríkis. Hvað varðar málshöfðunarfrestinn þá telur stefnandi að miða eigi við þá birtingu sem fram fór á Spáni 21. febrúar 2012 fyrir nafngreindum manni á skráðri starfstöð varastefnda. Hins vegar sé einnig heimilt að miða við birtingu stefnu í Lögbirtingablaði 27. apríl 2012 þar sem skilyrði fyrir birtingu stefnu í Löbirtingarblaði hafi verið uppfyllt.

Stefnandi mótmælir málsástæðum aðalstefnda um vanreifun. Hann leggur áherslu á að fyrir liggi að aðalstefndi hafi tekið við ákveðinni greiðslu frá Landsbanka Íslands hf. Skilmerkileg grein sé gerð fyrir þeirri greiðslu í stefnu og einnig því hvers vegna kröfum sé beint að varastefnda verði talið að hann hafi verið viðtakandi greiðslunnar. Því er mótmælt að um  sér að ræða misræmi í stefnu eða málatilbúnaði stefnanda að öðru leyti.

Niðurstaða

Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina, svo glöggt er verða má, málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Í stefnu er gerð grein fyrir þeirri greiðslu sem krafist er riftunar á auk þess sem fjallað er um þau lögskipti í stuttu máli sem lágu til grundvallar greiðslunni. Að mati dómara er þessi lýsing, svo og tilgreining í stefnu á málsástæðum og lagarökum, nægilega glögg og studd fullnægjandi gögnum til þess að ekki fari á milli hvert sakarefni málsins er og stefndu sé kleift að færa fram efnisvarnir sínar, meðal annars þær að þeir hafi ekki verið raunverulegir viðtakandi greiðslunnar og málsókn stefnanda sé ranglega beint að þeim. Þá þykir það misræmi sem er á fjárhæðum í kröfugerð stefnanda og gögnum málsins ekki þess eðlis að það leiði til frávísunar. Verður ekki fallist á að vísa beri málinu frá dómi sökum vanreifunar málsatvika, málsástæðna eða lagaraka í stefnu.

A

Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. gr. laga nr. 146/2011, skal mál, sem slitastjórn höfðar til riftunar ráðstafana fjármálafyrirtækis undir slitum samkvæmt ákvæðum laganna, þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fyrirækið var tekið til slita skv. 3. og 4. mgr. 101. gr. laganna. Að mati dómsins verður ákvæðið ekki skýrt rýmkandi skýringu á þá leið að í því felist lagaskilaregla þess efnis að íslensk lög skuli gilda fortakslaust um þau mál sem slitastjórn höfðar. Ræðst það atriði af öðrum réttarheimildum sem ekki eru til umfjöllunar í þessum þætti málsins. Hins vegar hins vegar mælir ákvæðið fyrir um varnarþing án tillits til samninga eða samningsákvæða þar að lútandi.

Í málinu liggur fyrir að með 2. lið 19. gr. útgáfuskilmála þess alsherjarskuldabréfs, sem áður er gerð grein fyrir, samþykkti útgefandi skuldabréfsins, í þágu handahafa þess, að dómstólar í Englandi hefðu lögsögu til að leiða allan ágreiningtil lykta sem kynni að rísa vegna eða í tengslum við skuldabréfið. Í ákvæðinu er ennfremur áréttað að útgefandi bréfsins afsali sér rétti til að mótmæla lögsögu enskra dómstóla við slíka málsókn. Á hinn bóginn er þar einnig tekið fram að handhafa bréfsins sé heimilt að höfða mál fyrir öðrum dómstólum en enskum, kjósi hann það.

Téð ákvæði útgáfuskilmálanna tekur ekki, samkvæmt orðum sínum, til dómsmála sem útgefandi skuldabréfs kann að höfða gegn handhafa þess. Því síður er þar fjallað um riftunarmál sem þrotabú eða slitastjórn kann að höfða til endurheimtu greiðslu sem innt hefur verið af hendi til handhafa skuldabréfs eða annarra sem leiða rétt sinn frá honum. Ákvæðið felur þannig fyrst og fremst í sér það réttarfarshagræði til handa handhafa skuldabréfs að eiga þess kost að höfða mál fyrir enskum dómstólum án þess að þar sé tekin sérstök afstaða til dómsmála sem útgefandi bréfsins kann að höfða eða slitastjórn fjármálafyrirækis. Með 1. gr. laga nr. 146/2011 var því ekki raskað heimildum stefndu samkvæmt  19. gr. umræddra útgáfuskilmála.

B

Að mati dómara geta aðilar varanlegs réttarsambands ekki átt lögmætar væntingar til þess að réttarfarsreglur, þ.á m. varnarþingsreglum, haldist óbreyttar frá stofnun réttarsambands allt til loka þess. Væri slík niðurstaða í berlegri andstöðu við almennar heimildir löggjafans samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þótt ákvæði stjórnarskrár, svo og mannréttindasáttmála, setji heimildum löggjafans skorður við setningu nýrra réttarfarsreglna um dómsmál sem þegar hafa verið höfðuð, er á það að líta að að mál þetta er höfðað eftir að lög nr. 146/2011 tóku gildi. Var því ekki um það að ræða að lögin röskuðu meðferð mála sem þegar höfðu verið höfðuð við gildistöku þeirra. Enn fremur ber að horfa til þess að téð ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er í samræmi við þá meginreglu, sem birtist í 1. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana, að fjármálafyrirtæki skuli slitið í samræmi við lög, reglur og málsmeðferð heimaríkis. Jafnvel þótt vafi kunni að hafa leikið um heimildir stefnanda til að höfða mál fyrir íslenskum dómstólum fyrir gildistöku 1. gr. laga nr. 146/2011 verður þannig ekki á það fallist að reglan sé óhæfilega íþyngjandi gagnvart stefndu eða feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart þeim.

Samkvæmt þessu verður ekki fallist á málsástæður þess  efnis að ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 sé andstætt stjórnarskrá og að vettugi virðandi. Verður málinu því ekki vísað frá dómi með vísan til þess að það sé höfðað á röngu varnarþingi eða sé utan lögsögu íslenskra dómstóla.

C

Óumdeilt er að mál þetta var höfðað gegn aðalsstefnda innan 30 mánuða frá lokum kröfulýsingarfrests 30. október 2009, en með vísan til ítrekaðra fordæma Hæstaréttar verður ekki talið að lenging á málshöfðunarfresti með 1. gr. laga nr. 146/2011 hafi verið andstæð stjórnlögum eða sé að vettugi virðandi af öðrum ástæðum. Verður því ekki fallist á kröfu aðalstefnda um frávísun málsins.

D

Samkvæmt spænsku birtingarvottorði, sem lagt var fram í málinu við upphaf munnlegs málflutnings um frávísunarkröfu stefndu, mun stefna hafa verið birt 21. febrúar 2012 fyrir nafngreindum starfsmanni varastefnda á skráðri starfstöð hans, en íslensk þýðing skjalsins hefur ekki verið lögð fram eða gætt fyrirmæla 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 að öðru leyti. Með vottorðinu fylgir ekki staðfesting spænskra stjórnvalda á því að birting hafi farið fram í samræmi við spænsk lög, sbr. 6. gr. Haag-samnings 15. nóvember 1965 um birtingar á réttarskjölum og utanréttarskjölum í einkamálum og verslunarmálum. Þá liggja engar upplýsingar fyrir um spænskar lagareglur um þetta efni. Verður stefnandi að bera hallan af skorti af sönnun um þetta efni með vísan til grunnreglu 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Eins og málið liggur fyrir er þannig ekki fram komin lögfull sönnun þess að stefna hafi réttilega verið birt fyrir varastefnda.

Í málinu liggur fyrir að stefna var birt í Lögbirtingablaðinu 27. apríl 2012. Sú stefna var hins vegar ekki þingfest við fyrirtöku málsins 29. maí 2012 heldur lögð fram síðar sem dómskjal í málinu. Samkvæmt þessu, svo og með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2013 í máli nr. 74/2013, verður að leggja til grundvallar að stefna í máli þessu hafi ekki verið réttilega birt varastefnda. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi að því er varðar varastefnda, en telja verður mótmæli hans við ófullnægjandi birtingu stefnu nægilega snemma fram komin.

E

Samkvæmt framangreindu verður málinu vísað frá dómi gagnvart varastefnda. Kröfu aðalstefnda um frávísun er hins vegar hafnað. Eftir þessum úrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða varastefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Úrlausn um málskostnað gagnvart varastefnda býður efnisdóms í málinu.

Af hálfu aðalstefnda flutti máli Bragi Björnsson hdl.

Af hálfu varastefnda flutti málið Svanhvít Axelsdóttir hdl.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hdl.

                Skúli Magnússon kveður upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð

Málinu er vísað frá dómi gagnvart varastefnda, Banco Bilbao Vizcaya Argentaria SA.

Kröfu aðalstefnda, Jaime Serrano Suner Polo, um frávísun málsins er hafnað.

Stefnandi, LBI hf., greiði varastefnda 500.000 krónur í málskostnað.