Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka


                                                                                              

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 24/2012.

 

Þrotabú Ocean Direct ehf.

(Elín Árnadóttir hdl.)

gegn

Sigurði Aðalsteinssyni og

Reddingu ehf.

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Kærumál. Endurupptaka.

 

Þrotabú O ehf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var kröfu S og R ehf. um endurupptöku máls þrotabúsins gegn þeim, sem dæmt hafði verið í héraði 28. júlí 2011 í framhaldi af útivist S og R ehf. Báru S og R ehf. því við að annmarkar hefðu verið á birtingu stefnu og að þeim hefði ekki verið kunnugt um niðurstöðu í málinu fyrr en 29. ágúst sama ár. Héraðsdómur taldi að stefnubirting hefði verið lögmæt en að þrotabú O ehf. hefði ekki fært sönnur á að S og R ehf. hefði orðið kunnug niðurstaða í málinu fyrir 29. ágúst 2011. Samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefði þeim því verið heimilt að fá málið endurupptekið innan mánaðar frá fyrrgreindu tímamarki. Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2012, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2011, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að mál sóknaraðila gegn varnaraðilum nr. E-1206/2011 yrði endurupptekið. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að endurupptöku málsins verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Ocean Direct ehf., greiði varnaraðilum, Sigurði Aðalsteinssyni og Reddingu ehf., hvorum um sig 125.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2011.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 8. desember sl. að loknum munnlegum málflutningi vegna kröfu stefndu, Sigurðar Aðalsteinssonar og Redding ehf. um endurupptöku á máli aðila. 

Með beiðni, dagsettri 23. september 2011, sem móttekin var sama dag, fór Brynjar Níelsson hrl., f.h. Sigurðar Aðalsteinssonar og Redding ehf. þess á leit, með vísan til 1. mgr. 137 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að héraðsdómsmálið númer E- 1206/2011: Þrotabú Ocean Direct ehf. gegn Sigurði Aðalsteinssyni og Redding ehf. yrði endurupptekið.

Málið höfðaði stefnandi á hendur stefndu og gerði þessar dómkröfur:

Dómkröfur á hendur stefnda Sigurði Aðalsteinssyni eru:

Aðallega að stefndi greiði stefnanda 8.949.348 krónur vegna aflamarks þess sem tilgreint er í samningi og afsali aðila dagsettu 19. janúar 2011 sem þorskur 25.232 kg., grálúða 25 kg., og skrápflúra 34 kg. og fylgdi með í kaupum á Sæbergi HF-224. Jafnframt er þess krafist að stefndi verið dæmdur til að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2011 til greiðsludags og vexti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 á 12 mánaða fresti.

Til vara að stefndi greiði stefnanda 8.949.384 krónur in solidum með Reddingu ehf., vegna þess aflamarks sem tilgreint er í samningi og afsali aðila dagsettu 19. janúar 2011 sem þorskur 25.232 kg., steinbítur 830 kg., þykkvalúra 5.256 kg., langlúra 3.624 kg., sandkoli 336 kg., grálúða 25 kg. og skrápflúra 34 kg., og fylgdi með í kaupum á Sæbergi HF-224. Jafnframt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2011 til greiðsludags og vexti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 á 12 mánaða fresti, in solidum með stefndu Reddingu ehf.

Til þrautavara að stefndi greiði stefnanda lægri fjárhæð en 8.949.348 krónur að álitum dómsins, in solidum með Reddingu ehf., vegna aflamarks sem tilgreint er í samningi og afsali aðila dags. 19. janúar 2011 sem  þorskur 25.232 kg., steinbítur 830 kg., þykkvalúra 5.256 kg., langlúra 3.624 kg., sandkoli 336 kg., grálúða 25 kg. og skrápflúra 34 kg., og fylgdi með í kaupum á Sæbergi HF-224. Jafnframt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2011 til greiðsludags og vexti samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 á 12 mánaða fresti, in solidum með stefndu Reddingu ehf.

Dómkröfur á hendur stefnda Redding ehf. eru:

Aðallega að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun sem fólst í kaupsamningi/afsali, dagsettu 19. janúar 2011, þar sem Ocean Direct ehf., nú stefnandi, seldi og afsalaði Sæbergi HF-224, skráningarnúmer 1143, til stefnda en umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningi var 2.000.000 króna. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að eign samkvæmt kaupsamningi sé eign stefnanda. Enn fremur að stefndi afhendi stefnanda eignina Sæberg HF-224, skráningarnúmer 1143 ásamt fylgifé og veiðafærum samkvæmt kaupsamningi og afsali, dagsettu 19. janúar 2011, sem móttekið var til þinglýsingar hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði 3. febrúar 2011.

                Einnig er þess krafist að stefndi greiði stefnanda 8.949.348 krónur vegna aflamarks sem tilgreint er í samningi og afsali aðila, dagsettu 19. janúar 2011, sem er þorskur 25.232 kg., steinbítur 830 kg., þykkvalúra 5.256 kg., langlúra 3.624 kg., sandkoli 336 kg., grálúða 25 kg. og skrápflúra 34 kg. og fylgdi með í kaupum á Sæbergi HF-224. Jafnframt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2011 til greiðsludags og að á þá fjárhæð leggist vextir samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 á 12 mánaða fresti.

                Til vara að rift verði með dómi þeirri ráðstöfun sem fólst í kaupsamningi/afsali, dagsettu 19. janúar 2011, þar sem Ocean Direct ehf., nú stefnandi, seldi og afsalaði Sæbergi HF-224, skráningarnúmer 1143, til stefnda en umsamið kaupverð var 2.000.000 krónur. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að eign samkvæmt kaupsamningi sé eign stefnanda. Enn fremur að stefndi afhendi stefnanda eignina Sæberg HF-224, skráningarnúmer 1143 ásamt fylgifé og veiðarfærum samkvæmt kaupsamningi og afsali dagsettu 19. janúar 2011.

                Einnig er þess krafist að stefndi greiði stefnanda peningafjárhæð lægri en 8.949.348 krónur að áliti dómsins vegna þess aflamarks sem tilgreint er í samningi og afsali aðila dagsettu 19. janúar 2011, þorskur 25.232 kg., steinbítur 830 kg., þykkvalúra 5.256 kg., langlúra 3.624 kg., sandkoli 336 kg., grálúða 25 kg. og skrápflúra 34 kg. og fylgdi með í kaupum á Sæbergi HF-224. Jafnframt að stefndi greiði stefnanda dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2011 til greiðsludags og að á þá fjárhæð leggist vextir samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001 á 12 mánaða fresti.

                Í öllum tilvikum krafðist stefnandi málskostnaður að meðtöldum virðisaukaskatti.  

Málið var þingfest 29. júní 2011 og dómtekið sama dag að kröfu stefnanda, en stefndi mætti ekki við þingfestingu málsins. Dómur í málinu var uppkveðinn 28. júlí 2011.

Endurupptökubeiðnin var tekin fyrir á dómþingi 17. október 2011 og voru höfð uppi mótmæli gegn henni af hálfu varnaraðila og þess krafist að beiðninni yrði hafnað. Í þinghaldi 4. nóvember sl. lagði varnaraðili fram skrifleg mótmæli við beiðni sóknaraðila um endurupptöku málsins. Auk þess var krafist málskostnaðar.

Í þinghaldi 8. desember sl. tjáðu lögmenn aðila sig um ágreiningsefnið, Brynjar Níelsson hrl. f.h. sóknaraðila og Elín Árnadóttir hdl. f.h. varnaraðila og var málið síðan tekið til úrskurðar um það hvort fullnægt væri lagaskilyrðum til endurupptöku þess.

I

                Sóknaraðili vísar til þess að þingsókn af hálfu stefndu hafi fallið niður þar sem stefnda, Sigurði hafi ekki verið kunnugt um stefnuna og þingfestingu hennar á sínum tíma. Hafi stefnan verið birt á heimili stefnda fyrir syni hans, sem hafi verið gestkomandi á heimili stefnda þegar stefnan hafi verið birt og hafi hann hvorki afhent stefnuna til stefnda né látið vita af henni. Skilyrði a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé því uppfyllt um endurupptöku málsins. Þá telji stefndu að sýkna hefði átt í málinu að hluta þar sem stefnandi hafi ekki sýnt fram á að tjón hafi hlotist af því að báturinn hafi verið seldur til Reddingar ehf. og aflamarkið verið fært á annan bát í eigu þess. Í því sambandi sé vísað til c. liðar sama ákvæðis.

Hafi stefnda, Sigurði Aðalsteinssyni ekki verið kunnugt um niðurstöðu í málinu fyrr en 29. ágúst 2011 þegar honum hafi borist endurrit dómsins. Tveimur dögum áður hafði hann þó fengið upplýsingar um að kaupunum hafi verið rift án þess að hann hafi fengið frekari upplýsingar um hvernig það hafi verið til komið. Vísar sóknaraðili til þess að ágreiningur aðila snúist um kaup stefndu á bátnum Sæbergi HF. Félagið Ocean Direct hafi verið með útgerð á bátnum sem hafi verið eina starfsemi félagsins. Hafi báturinn verið aðaleign félagsins ásamt aflahlutdeild (varanlegur kvóti) að verðmæti ca. 130-150 milljónir. Báturinn hafi verið með aflamark (kvóti innan árs). Í janúar 2011 hafi félagið leigt það aflamark sem heimilt hafi verið að leigja og eftir hafi staðið aflamark að verðmæti ca. 8 milljónir. Hafi félagið ekki getað veitt þann kvóta innan ársins þar sem báturinn hafi verið sviptur veiðileyfi og hafi auk þess ekki haft haffærnisskírteini. Aflamarkið hafi því verið verðlaust nema til að selja öðrum skipum sem gætu fært aflamarkið yfir á annað skip. Til þess að bjarga verðmætum sem fælust í aflamarkinu hafi verið farin sú leið að stefndu keyptu bátinn og færðu aflamarkið yfir á annan bát í eigu stenda, Redding ehf. Fyrir það hafi samtals verið greiddar átta milljónir og tveir samningar verið gerðir í þeim tilgangi. Stefndu muni því krefjast sýknu í málinu. Til vara sé þess krafist að fjárkröfur verði lækkaðar. Þá sé krafist málskostnaðar.

Stefndu byggja kröfur sínar á því að fullt verð hafi verið greitt fyrir bátinn með aflamarkinu. Hafi báturinn sem slíkur verið verðlaus. Verðmæti aflamarksins hafi á leigumarkaði verið um átta milljónir og það hafi Redding ehf. greitt. Þá byggja stefndu kröfur sínar á því að ekkert tjón hafi orðið fyrir stefnanda. Hefði báturinn ekki verið seldur hefðu engin verðmæti fengist fyrir aflamarkið. Stefndi er í sjálfu sér samþykkur því að kaupunum verði rift og tilbúinn að samþykkja að skila honum enda sé hann verðlaus og veðsettur fyrir 400 milljónir. Þá sé bótakröfum hafnað af sömu ástæðum, þ.e. að ekkert tjón hafi orðið fyrir þrotabúið af þessum ráðstöfunum. Sérstaklega sé því mótmælt að stefndi Sigurður beri ábyrgð á tjóni verði á annað borð talið að félagið hafi orðið fyrir tjóni. Stefndi Sigurður hafi greitt átta milljónir til forsvarsmanna stefnanda fyrir bátinn og aflamarkið. Hafi bátnum verið skilað og aflamarkið verið einskis virði þar sem báturinn hafi ekki haft heimild til að veiða.

Varakrafa stefndu byggir á því að verði rétt verð fyrir aflamarkið talið vera 8.949.348 krónur beri að draga frá kröfunni 8.000.000 krónur sem stefndu hafi sannanlega greitt til stefnanda.

Um lagarök vísa stefndu til almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Þá er vísað til meginreglna skaðabótaréttar um skilyrði bótaskyldu.

II

Af hálfu varnaraðila er alfarið hafnað atvikalýsingu sóknaraðila, Sigurðar Aðalsteinssonar og Reddingar ehf., eins og hún komi fram í endurupptökubeiðni. Stefnur í máli nr. E-1206/2011, þ.e. annars vegar gagnvart stefnda, Sigurði Aðalsteinssyni og hins vegar gagnvart stefnda, Reddingu ehf., hafi verið afhentar stefnuvotti til birtingar föstudaginn 24. júní 2011 og hafi verið birtar samdægurs. Samkvæmt birtingarvottorðum hafi stefnur verið birtar fyrir Gylfa Þór Sigurðssyni kt. 080989-2029 á lögheimili stefnda Sigurðar Aðalsteinssonar sem jafnframt sé fyrirsvarsmaður stefnda, Reddingar ehf. að Hvassabergi 2 í Hafnarfirði, klukkan 18:56 í tilviki stefnda Reddingar ehf. en klukkan 19:15 í tilviki stefnda, Sigurðar Aðalsteinssonar. Gylfi Þór Sigurðsson sé sonur Sigurðar Aðalsteinssonar. Samkvæmt skráningu í þjóðskrá og Hlutafélagaskrá sé lögheimili Gylfa Þórs Sigurðssonar að Hvassabergi 2 í Hafnarfirði. Við birtingu stefnanna hafi Gylfi Þór tjáð stefnuvotti, að faðir hans væri í golfi í Vestmannaeyjum en hann myndi hringja í hann og láta hann vita af stefnunum.

            Mál nr. E-1206/2011 hafi verið þingfest í héraðsdómi Reykjaness að morgni miðvikudagsins 29. júní 2011 og hafi stefndu ekki mætt við þingfestingu málsins. Hafi málið í kjölfarið verið rekið sem útivistarmál og dómur upp kveðinn upp þann 28. júlí 2011.

           Um mánaðamótin júlí – ágúst 2011 eða nokkrum dögum eftir að dómurinn hafi verið upp kveðinn, hafi Sigurður Aðalsteinsson komið að tali við Jón Auðunn Jónsson hrl. og kvaðst ósáttur við dóminn og ætlaði að sækja um endurupptöku á honum. Einnig hafi Jóni og Árna Möller starfsmanni Byrs hf., borist tölvupóstur þann 29. júlí 2011 eða daginn eftir að dómur hafi verið kveðinn upp, með tilboði í kaup á aflahlutdeild Sæbergsins HF. og greiðsla fyrir aflamark að fjárhæð 8.500.000 krónur. Sé vandséð annað en sóknaraðila hafi a.m.k. á þessum tíma verið fullkunnugt um málsúrslit. Varnaraðili telur að hafna eigi endurupptökubeiðninni þegar af þeirri ástæðu að hún sé of seint fram komin, enda hafi Sigurður Aðalsteinsson vitað af meðferð málsins frá upphafi og málsúrslitum allt frá lokum júlí mánaðar.

            Varnaraðili krefst þess að beiðni sóknaraðila um endurupptöku á héraðsdómsmáli nr. E-1206/2011 verði hafnað. Varnaraðili byggir á neðangreindum málsástæðum og lagarökum:

            Stefnur í málinu hafi verið birtar á lögmætan hátt með birtingu stefnuvotts á stefnu sbr. a. lið 1. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir syni stefnda, Gylfa Þór Sigurðssyni, á lögheimili hans og á lögheimili stefnda að Hvassabergi 2, Hafnarfirði. Sigurður Aðalsteinsson sé einnig stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Reddingar ehf. samkvæmt skráningu í Fyrirtækjaskrá RSK. Hvassaberg 2 sé því einnig lögheimili fyrirsvarsmanns Reddingar ehf., sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 91/1991. Kveðst varnaraðili hafna því alfarið að a. liður 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í málinu. Eins og áður hafi komið fram hafi stefna verið löglega birt. Viðtakandi hafi skráð lögheimili að Hvassabergi 2 í Hafnarfirði á lögheimili stefnda. Birting stefnu sé því lögmæt sbr. a. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                   Þá kveðst varnaraðili einnig hafna því að c. liður 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í málinu. Varnaraðili hafi orðið fyrir tjóni með ráðstöfunum stefndu eins og fram komi í máli E-1206/2011. Ekkert kaupverð hafi verið greitt fyrir Sæberg HF-223 og með færslu aflamarksins hafi varnaraðili orðið fyrir tjóni þar sem ekkert endurgjald hafi komið fyrir. Þessar ráðstafanir stefndu hafi verið ólögmætar og saknæmar. Varnaraðili hafi átt þann kost að selja Sæberg HF-223 ásamt aflahlutdeild og aflamarkinu strax þegar skiptastjóri hafi tekið við búinu og fyrir hærra verð, þar sem kaupandi hefði þá geta nýtt aflamarkið á fiskveiðiárinu 2010-2011. Þar að auki hafa sóknaraðilar ekki mótmælt því að atvik að baki riftun á framsali Sæbergs HF-223, hafi bæði verið ólögmæt og saknæm og bakað búinu tjón.

                   Þá hafni varnaraðili því einnig að Sigurði Aðalsteinssyni hafi ekki orðið málsúrslit kunn fyrr en 29. ágúst sl. Varnaraðili telji að stefndu í máli E-1206/2011 hafi vitað af meðferð málsins allt frá stefnubirtingu og orðið málsúrslit kunn um mánaðamótin júlí – ágúst sl. Varnaraðili mun leiða fram vitni því til sönnunar.

              Varnaraðili kveðst einnig benda á að ákvæði 137. laga nr. 91/1991 sé undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt enda veiti ákvæði 97. gr. laganna stefnda vernd í þeim tilvikum þegar um lögmæt forföll er að ræða.

               Varnaraðili byggir kröfur sínar einnig á því að hafna eigi beiðni sóknaraðila þar sem hún uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 138. gr. og 2. gr. 138. gr. laga nr. 91/1991. Engin gögn þ.á m. sönnunargögn, fylgja beiðni til endurupptöku eins og áskilið sé í 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991. Varnaraðili bendi á að samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar geti menn ekki hliðrað sér hjá formkröfum laga með þeirri afsökun að þeir hafi verið í sumarfríi erlendis. Varnaraðili telji að öll sönnunarbyrði hvíli á sóknaraðilum í málinu fyrir staðhæfingum þeirra um að þeir hafi ekki vitað að málsmeðferð máls  E-1206/2011 í héraðsdómi Reykjaness og á sama hátt fyrir staðhæfingum sínum um að þeir hafi ekki vitað að úrslitum málsins fyrr en 29. ágúst 2011.

             Af öllum framangreindum ástæðum kveðst varnaraðili telja að synja beri endurupptökubeiðni sóknaraðila sbr. 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 enda eru skilyrði 137. gr. og 1. mgr. 138. gr.  ekki uppfyllt.

            Varnaraðili byggir mál sitt einnig á öðrum reglum og meginreglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um málskostnað byggir varnaraðili aðallega á því að endurupptökubeiðnin hafi verið þarflaus, sbr. 3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili hafi vitað af málinu frá upphafi en kosið að láta það ekki til sín taka. Til vara byggir varnaraðili málskostnaðarkröfu sína einkum á 129. gr., 1. mgr. 130. gr. og b. lið 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Málskostnaður beri virðisaukaskatt samkvæmt lögum.

III

                Af hálfu sóknaraðila er öðrum þræði vísað til þess að skilyrði a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu uppfyllt um endurupptöku málsins. Þar segir að stefndi geti beiðst endurupptöku útivistarmáls hafi stefna ekki verið birt fyrir stefnda eða öðrum sem birta mátti fyrir. Varnaraðili mótmælir þessu og fullyrðir að stefnubirting í málinu hafi verið lögmæt, sbr. a. lið 3. mgr. 85. gr. laga nr. 91/1991. Fyrir liggur að stefna í máli nr. E- 1206/2011 var birt fyrir Gylfa Þór Sigurðssyni á lögheimili stefnda, Sigurðar Aðalsteinssonar, að Hvassabergi 2, Hafnarfirði. Sigurður er einnig stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Reddingar ehf. samkvæmt skráningu í Fyrirtækjaskrá og er Hvassaberg 2 því einnig lögheimili fyrirsvarsmanns Reddingar ehf. Það er mat dómsins að birting stefnu í málinu uppfylli skilyrði 85. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og verður ekki fallist á það með sóknaraðila að ákvæði a. liðar 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 eigi við í málinu. 

                Beiðni sóknaraðila um endurupptöku málsins er enn fremur reist á 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Á því er byggt að stefnda Sigurði Aðalsteinssyni, sem einnig er fyrirsvarsmaður Reddingar ehf. hafi fyrst orðið úrslit í máli nr. E- 1206/2011 ljós 29. ágúst 2011. Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu og telur að hafna eigi endurupptökubeiðni sóknaraðila af þeirri ástæðu að hún sé of seint fram komin, enda hafi Sigurður Aðalsteinsson vitað af meðferð málsins frá upphafi og málsúrslitum allt frá lokum júlímánaðar 2011. Hafi Sigurður komið að máli við Jón Auðunn Jónsson hrl. um mánaðarmótin júlí – ágúst og sagst vera ósáttur við dóminn og ætla að sækja um endurupptöku á málinu. Þá hafi Jóni og Árna Möller starfsmanni Byrs hf. borist tölvupóstur 29. júlí 2011, daginn eftir að dómurinn hafi verið kveðinn upp, með tilboði í aflahlutdeildir Sæbergs HF og greiðsla fyrir aflamark að fjárhæð 8.500.000 króna. Því hafi sóknaraðila á þessum tíma vel verið kunnugt um málsúrslitin. 

Í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 eru þau skilyrði ein sett fyrir endurupptöku útivistarmáls í héraði að um hana sé beðið inn­an þriggja mánaða frá því að máli lauk og innan mánaðar frá því að stefnda varð kunnugt um málalok. Berist slík beiðni innan þess­ara tímamarka er ekki þörf frekari rökstuðnings. Í endurupptökubeiðni sóknaraðila er frá því greint að honum hafi verið ljós úrslit málsins 29. ágúst 2011.  Beiðni sóknaraðila barst dóminum 23. september 2011 eða innan mánaðar frá því að sóknaraðila urðu ljós úrslit málsins. Fullyrðing varnaraðila um að sóknaraðila hafi verið úrslit málsins kunn fyrir það tímamark sem sóknaraðilinn Sigurður heldur fram er ósönnuð að mati dómsins, enda hefur varnaraðili ekki rennt viðhlítandi stoðum undir fullyrðingu sína og verður ekki á henni byggt. Framlögð tölvubréf breyta ekki þessari niðurstöðu. Því liggur ekki annað fyrir en að sóknaraðilum hafi orðið málsúrslitin ljós 29. ágúst 2011 eða innan þess frests sem greinir í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og þarf beiðni sóknaraðila því í raun ekki frekari skýringa eða rökstuðnings eins og á stendur.

Samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 skal í beiðni um endurupptöku útivistarmáls greint skýrlega frá því hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum og á hvaða málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé byggt. Í beiðni sóknaraðila er tekið fram að stefndu muni aðallega krefjast sýknu, en til vara að fjárkröfur verði lækkaðar. Fyrir kröfum stefndu eru tilgreindar í megindráttum þær málsástæður sem byggt verði á í málinu. Þá hefur sóknaraðili skírskotað til réttarheimilda. Þótt beiðni sóknaraðila sé að ýmsu leyti knöpp, er það mat dómsins að hún sé ekki háð slíkum annmörkum að hún teljist ófullnægjandi. 

Samkvæmt framangreindu er það mat dómsins að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 137. gr. og 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að héraðsdómsmálið númer E- 1206/2011 verði endurupptekið.

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Héraðsdómsmálið númer E-1206/2011: Þrotabú Ocean Direct ehf. gegn Sigurði Aðalsteinssyni og Redding ehf. er endurupptekið.