Hæstiréttur íslands
Mál nr. 525/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dómsátt
- Málskostnaður
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2007. |
|
Nr. 525/2007. |
Arna Steinunn Árnadóttir ogHaraldur Birgir Haraldsson(Finnur Þór Vilhjálmsson hdl.) gegn Jónínu Þórunni Hansen (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.) |
Kærumál. Dómsátt. Málskostnaður.
A og H kröfðust þess að J yrði gert að greiða þeim lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi aðila um fasteignina V, 826.565 krónur ásamt dráttarvöxtum. Með gagnstefnu krafðist J þess að A og H yrði gert að greiða sér skaðabætur eða afslátt af verði fasteignarinnar að fjárhæð 2.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum. Við aðalmeðferð málsins gerðu aðilar dómsátt um að J skyldi greiða A og H 600.000 krónur gegn útgáfu afsals. Væri um að ræða fullnaðargreiðslu samkvæmt kröfugerð beggja aðila. Úr ágreiningi aðila um málskostnað var leyst í hinum kærða úrskurði þar sem hann var felldur niður. A og H kröfðust þess fyrir Hæstarétti að þeim yrði úrskurðaður málskostnaður úr hendi J. Í dómi Hæstaréttar sagði að í dómsátt aðila fælist að A og H hefðu fengið kröfu sinni framgengt að verulegu leyti. Bæri því að dæma J til að greiða A og H málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem að virtu umfangi málsins þótti hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2007, þar sem málskostnaður var felldur niður í máli aðila en því að öðru leyti lokið með dómsátt. Þá var úrskurðað að gjafsóknarkostnaður varnaraðila skyldi greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 1.146.334 krónur. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar málskostnað milli aðila og að þeim verði úrskurðaður málskostnaður úr hendi varnaraðila, aðallega að fullu en til vara að hluta. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar að því er varðar málskostnað milli aðila og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta með stefnu 14. nóvember 2006 til heimtu eftirstöðva kaupverðs fasteignarinnar Vallargötu 37, Sandgerði, sem þeir seldu varnaraðila með kaupsamningi 5. janúar 2006. Kröfðust sóknaraðilar þess að varnaraðila yrði gert að greiða þeim lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi, 826.565 krónur, með dráttarvöxtum frá 3. mars 2006 gegn útgáfu afsals. Þá kröfðust þeir málskostnaðar. Varnaraðili krafðist aðallega sýknu en til vara lækkunar dómkröfu. Í báðum tilvikum krafðist hún málskostnaðar. Varnaraðili reisti kröfu sína á 44. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup þar sem hún ætti stöðvunarrétt á greiðslunni vegna galla. Með gagnstefnu krafðist varnaraðili þess að sóknaraðilum yrði vegna galla gert að greiða skaðabætur eða afslátt af verði fasteignarinnar að fjárhæð 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá 10. febrúar 2007. Sóknaraðilar tóku til varna í gagnsök og kröfðust aðallega sýknu en til vara að kröfur varnaraðila á hendur þeim yrðu lækkaðar. Báðir aðilar kröfðust málskostnaðar í gagnsök.
Við aðalmeðferð málsins 25. september 2007 gerðu aðilar dómsátt um að varnaraðili skyldi greiða sóknaraðilum 600.000 krónur gegn útgáfu afsals. Væri um að ræða fullnaðargreiðslu samkvæmt kröfugerð beggja aðila. Ágreiningur stóð eftir sem áður um málskostnað. Var leyst úr honum með hinum kærða úrskurði.
Í ljósi þess sem að framan greinir fól dómsátt málsaðila í sér að sóknaraðilar fengu kröfu sinni framgengt að verulegu leyti. Ber því að dæma varnaraðila til að greiða sóknaraðilum málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sem að virtu umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, Jónína Þórunn Hansen, greiði sóknaraðilum, Örnu Steinunni Árnadóttur og Haraldi Birgi Haraldssyni, 450.000 krónur í málskostnað í héraði og 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. september 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 25. september sl., var þingfest 22. nóvember 2006. Gagnstefna var þingfest 10. janúar 2007 en málin voru sameinuð á reglulegu dómþingi 28. febrúar sl.
Endanlegar dómkröfur aðalstefnenda eru þær að aðalstefnda verði dæmd til að greiða stefnendum 826.565 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 3. mars 2006 til greiðsludags gegn útgáfu afsals. Þá krefjast aðalstefnendur þess að aðalstefnda verði dæmd til að greiða þeim málskostnað að skaðlausu ásamt álagi að mati dómsins að teknu tilliti til hagsmuna málsins, vinnu málflytjanda og annars kostnaðar eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti, verði það lagt fram á síðari stigum málsins.
Aðalstefnda gerir þá kröfu aðallega í greinargerð að hún verði sýknuð af öllum kröfum aðalstefnenda en til vara krefst hún verulegrar lækkunar á dómkröfum þeirra. Þá krefst aðalstefnda þess að aðalstefnendur verði dæmdir til að greiða henni málskostnað samkvæmt síðar framlölgðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá fimmtánda degi eftir uppkvaðningu hans til geriðsludags. Þá krefst aðalstefnda virðisaukaskatts af málskostnaði.
Dómkröfur gagnstefnanda eru þær að gagnstefndu verði gert að greiða skaðabætur og/eða afslátt af kaupsamningsverði að fjárhæð 2.000.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. febrúar 2007 þegar mánuður er liðinn frá þingfestingu gagnstefnu.
Gagnstefndu gera þá kröfu aðallega í greinargerð í gagnsök að þau verði sýknuð af öllum kröfum gagnstefnenda en til vara krefjast þau þess að dómkröfur gagnstefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum krefjast gagnstefndu þess að gagnstefnandi verði dæmd til að greiða þeim málskostnað auk virðisaukaskatts samkvæmt mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, verði hann lagður fram á síðari stigum málsins.
Eftir að aðalmeðferð málsins hófst 25. september sl. gerðu aðilar sátt í málinu um annað en málskostnað þess efnis að aðalstefnda, Jónína Þórunn Hansen, greiðir aðalstefnendum, Örnu Steinunni Árnadóttur og Haraldi Birgi Haraldssyni, 600.000 krónur við útgáfu afsals sem fara skal fram innan tveggja vikna frá deginum í dag að telja. Ágreiningur aðila um málskostnað var lagður í úrskurð dómsins í sama þinghaldi. Voru sjónarmið aðila um málskostnað reifuð í þinghaldinu og málið tekið til úrskurðar að því er málskostnað varðar.
Með bréfi dómsmálaráðherra dagsettu 28. júní 2007 fékk aðalstefnda gjafsókn í málinu.
Niðurstaða.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal hver sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laganna. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.
Málsaðilar hafa gert dómsátt um deilu sína eins og rakið er hér að framan. Með sátt þessari hafa báðir aðilar fengið hluta af kröfum sínum viðurkenndan, aðalstefnendur hafa samþykkt að gefa aðalstefndu afslátt á hluta af lokagreiðslu vegna kaupa hennar á fasteigninni að Vallargötu 37 í Sandgerði en aðalstefnda hefur lækkað gagnkröfu sína á hendur aðalstefnendum. Þegar til þessa er litið og allra atvika málsins verður að telja að hér eigi við undantekningarákvæði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því ber hvor aðili sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður aðalstefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 1.146.334 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður vegna matsgerðar 290.944 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður aðalstefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hrl., 1.146.334 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður vegna matsgerðar 290.944 krónur, greiðist úr ríkissjóði.