Hæstiréttur íslands

Mál nr. 471/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti


Mánudaginn 28

Mánudaginn 28. október 2002.

Nr. 471/2002.                                       Pétur Einarsson

                                                              (Valgarður Kristinsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að bú P yrði tekið til gjaldþrotaskipta.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. september 2002, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

          Sóknaraðili, Pétur Einarsson, greiði varnaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. september 2002.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 12. þ.m.

Sóknaraðili, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði, gerir þá kröfu í málinu að bú varnaraðila, Péturs Einarssonar, Fagrahvammi 16, Hafnarfirði, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að skiptakröfu sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gaf varnaraðili út 22. júní 1986 tryggingarbréf, þar sem hann setti að veði fasteignina að Suðurgötu 72 í Hafnarfirði til tryggingar hvers konar skuldum sem hann stæði í við sóknaraðila, að fjárhæð allt að 200.000 krónur. Þá gaf varnaraðili í sama skyni út tryggingarbréf til sóknaraðila 29. ágúst 1986 að fjárhæð 2.000.000 krónur með veði í fasteigninni Fagrahvammi 16 í Hafnarfirði. Loks gaf varnaraðili út 7. nóvember 1990 tvö tryggingarbréf til sóknaraðila með veði í sömu fasteign og var hvort þeirra fyrir skuldum að fjárhæð allt að 2.500.000 krónur. Þessum tryggingarbréfum mun öllum hafa verið þinglýst og virðast þau nú hvíla á 4., 5., 6. og 7. verðrétti í síðarnefndu fasteigninni. Fyrir liggur að varnaraðili seldi þá fasteign á árinu 2001. Er ekki um það deilt að kaupandinn hafi tekið að sér að standa sóknaraðila skil á skuldum varnaraðila að samanlagðri fjárhæð framangreindra tryggingarbréfa.

Sóknaraðili þingfesti 12. september 2001 mál á hendur sóknaraðila meðal annarra til greiðslu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð 4.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. ágúst sama árs og málskostnaði. Var stefnan árituð um aðfararhæfi kröfu sóknaraðila, sem leitaði fjárnáms fyrir henni með beiðni 13. nóvember 2001. Þegar beiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanni 23. janúar 2002 lýsti varnaraðili því yfir að hann hefði ekkert við kröfu sóknaraðila að athuga. Kvaðst hann vilja benda á til fjárnáms „tvö tryggingarbréf á 4., 5. og 6. veðrétti í fasteigninni Fagrihvammur 16, Hafnarfirði”, svo sem segir í gerðinni. Sóknaraðili mótmælti þessari ábendingu og frestaði sýslumaður gerðinni til næsta dags til að taka afstöðu til hennar. Þegar gerðin var þá tekin fyrir kvaðst varnaraðili hafa heimild þinglýsts eiganda fasteignarinnar fyrir ábendingu sinni, en hann gæti að svo stöddu ekki framvísað skriflegri yfirlýsingu um það. Sýslumaður hafnaði ábendingu varnaraðili og lauk gerðinni að kröfu sóknaraðila án árangurs. Á grundvelli þessarar gerðar setti sóknaraðili fram kröfu, sem móttekin var af héraðsdómi 24. apríl 2002, um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili lagði 20. mars 2002 fyrir dóminn tilkynningu um að hann leitaði úrlausnar um ágreining við sóknaraðila um hvort fjárnám mætti gera í samræmi við fyrrgreinda ábendingu hans og var mál þingfest af því tilefni 27. sama mánaðar. Með úrskurði héraðsdóms 5. júní 2002 var hafnað þeirri kröfu varnaraðila að fjárnámið yrði fellt úr gildi. Þar var því einnig hafnað að varnaraðili hefði heimild til að benda á áðurgreind tryggingarbréf til fjárnáms. Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar. Með dómi 2. þ.m. staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn. Í dómnum segir svo meðal annars: „Vegna áðurgreindra veðréttinda í fasteigninni að Fagrahvammi 16 kann varnaraðili að njóta tryggingar fyrir greiðslu þeirrar skuldar sóknaraðila, sem um ræðir í málinu. Þótt þetta geti girt fyrir að varnaraðili fái bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., stóðu ákvæði 8. kafla laga nr. 90/1989 því ekki í vegi að árangurslaust fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila án tillits til þessa.”

Þegar skiptakrafa sóknaraðila var tekin fyrir á dómþingi héraðsdóms 30. maí 2002 mótmælti varnaraðili því að hún næði fram að ganga. Í samræmi við 1. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991 var mál þetta þingfest. Var í þinghaldi 5. júní ákveðið að aðalmeðferð í því færi fram 12. sama mánaðar. Þegar málið var þá tekið fyrir hafði varnaraðili kært til Hæstaréttar framangreindan úrskurð héraðsdóms frá 5. júní 2002. Þar sem ágreiningur aðila um fram komna skiptakröfu snerist á þessum tíma að hluta til um gildi þeirrar aðfarargerðar sem úrskurðurinn tók til ákvað dómarinn, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 168. gr. laga nr. 21/1991, að fresta meðferð þessa máls þar til dómur Hæstaréttar í kærumálinu lægi fyrir. Svo sem áður greinir kvað Hæstiréttur upp dóm í því máli 2. þ.m.

Ágreiningur málsaðila snýr nú einvörðungu að því hvort ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 standi því í vegi að taka megi skiptakröfu sóknaraðila til greina.

II.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að hann eigi aðfararhæfar kröfur á hendur varnaraðila samtals að fjárhæð 18.982.133 krónur. Styður sóknaraðili þessar kröfur sínar við þrjár stefnur áritaðar um aðfararhæfi og eitt skuldabréf. Tvær af þessum þremur stefnum voru áritaðar 13. september 2001. Með annarri þeirra var varnaraðila og Móteli ehf., sem er í eigu varnaraðila, óskipt gert að greiða sóknaraðila skuld samkvæmt víxli, útgefnum af varnaraðila, að fjárhæð 2.900.000 krónur ásamt dráttarvöxtum og málskostnaði. Þessi krafa nemur nú samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila 3.598.228 krónum. Með hinni stefnunni sem árituð var 13. september 2001 var varnaraðila, Móteli ehf. og Hildi Jónsdóttur, eiginkonu varnaraðila, gert að greiða sóknaraðila óskipt víxilskuld að fjárhæð 4.000.000 krónur auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Aðfararhæf krafa samkvæmt þessu dómsígildi, sem áðurgreind fjárnámsbeiðni var grundvölluð á, nemur nú að sögn sóknaraðila 5.357.446 krónum. Óumdeilt er að framangreindir víxlar voru afhentir sóknaraðila til tryggingar á greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi. Þriðja stefnan var síðan árituð 21. nóvember 2001. Með henni var gerð aðfararhæf á hendur varnaraðila og framangreindu einkahlutafélagi hans krafa sóknaraðila samkvæmt víxli að fjárhæð 2.895.000 krónur. Aðfararhæf krafa vegna þessa víxils nemur nú samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila 4.078.120 krónum. Skuldabréf það, sem vísað er til hér að framan, er að fjárhæð 4.000.000 krónur, útgefið af PG verki ehf., sem nú mun vera gjaldþrota, til sóknaraðila með veði í vörubifreið og sjálfskuldarábyrgð varnaraðila. Er því haldið fram af hálfu sóknaraðila að veðið hafi verið selt á nauðungarsölu og hluti söluandvirðis, eða 878.964 krónur, gengið til greiðslu á kröfu sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu. Eftirstöðvar skuldarinnar nemi nú 5.948.339 krónum, sem varnaraðili standi í ábyrgð fyrir á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sinnar.

Sóknaraðili telur sýnt í ljósi framanritaðs að tryggingarbréf hans í fasteigninni Fagrahvammi 16 í Hafnarfirði nægi engan veginn sem trygging fyrir greiðslu allra þeirra krafna sem sóknaraðili eigi samkvæmt framangreindu á hendur varnaraðila. Uppreiknuð til hins ítrasta geti þau staðið til tryggingar skuld að fjárhæð allt að 9.800.000 krónur. Hins vegar sé til þess að líta að eitt tryggingarbréfanna, nánar tiltekið tryggingarbréf útgefið 29. ágúst 1986, standi ekki aðeins til tryggingar greiðslu skulda varnaraðila við sóknaraðila heldur séu skuldir Mótels ehf. jafnframt tryggðar með því samkvæmt þinglýstri yfirlýsingu varnaraðila 3. maí 1996. Tiltekur sóknaraðili sérstaklega í þessu sambandi að skuld Mótels ehf. á tékkareikningi hjá sóknaraðila nemi rúmlega 39.000.000 krónum.

Sóknaraðili kveðst hafa krafist þess að fram fari nauðungarsala á fasteigninni Fagraikningi hjá sóknaraðila nemi rúmlega 39.000.000 krónum.

Sóknaraðili kveðst hafa krafist þess að fhvammi 16 á grundvelli þeirra tryggingarbréfa sem hér um ræðir og sé byrjun uppboðs fyrirhuguð 17. september nk. Ljóst sé að tryggingarvernd samkvæmt bréfunum verði að fullu nýtt án þess að fullnusta fáist fyrir þeirri kröfu sem hið árangurslausa fjárnám byggðist á. Sú ráðstöfun sóknaraðila að krefjast fjárnáms hjá varnaraðila til að tryggja kröfur sínar sem ekki séu tryggðar með veði í fasteign eða á annan hátt hafi því verið sjálfsögð og eðlileg. Sú aðför hafi verið árangurslaus.

Sóknaraðili telur með vísan til framanritaðs að ekkert standi því í vegi að taka beri til greina þá kröfu hans að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

III.

Af hálfu varnaraðila hefur því verið haldið fram að sóknaraðila hafi verið sett fullnægjandi trygging fyrir greiðslu þeirra krafna sem sóknaraðili kunni eigi á hendur honum. Er á þessum grunni og með vísan til 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. á því byggt að ekki séu skilyrði til að taka bú varnaraðila til gjaldþrotaskipta þrátt fyrir hið árangurslausa fjárnám sem sóknaraðili hafi fengið gert hjá honum 24. janúar 2002. Þá er til þess vísað að sú fjárkrafa sóknaraðila sem verið hafi grundvöllur hins árangurslausa fjárnáms sé í öllu falli nægilega tryggð með þeim veðbréfum sem varnaraðili hafi gefið út til sóknaraðila. Sóknaraðili eigi ekki frjálst val um ráðstöfun þessara tryggingarréttinda óháð vilja eða hagsmunum varnaraðila.

Við aðalmeðferð málsins hélt varnaraðili því fram að margvísleg viðskipti sem málsaðilar hafi átt í gegnum tíðina séu í raun óuppgerð og ekki sé ólíklegt að reyndin sé sú að sóknaraðili standi í skuld við varnaraðila eða Mótel ehf., en þær fjárkröfur sem sóknaraðili eigi á hendur varnaraðila persónulega séu að meginstefnu til ábyrgðarskuldbindingar sem hann hafi gengist undir vegna félagsins. Var í þessu sambandi einkum vísað til aðkomu sóknaraðila að fjármögnun á byggingu fjöleignarhússins að Núpalind 6 í Kópavogi og sölu íbúða í því.

IV.

Samkvæmt gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu á hann kröfu á hendur varnaraðila samkvæmt þremur stefnum, árituðum um aðfararhæfi, og einu skuldabréfi. Er í málatilbúnaði sóknaraðili á því byggt að þessi krafa hans, sem nýtur samkvæmt þeim heimildum sem hún styðst við aðfararhæfis samkvæmt 2. og 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, nemi 18.982.133 krónum. Þessu hefur varnaraðili ekki hnekkt. Þá hefur varnaraðili gegn andmælum sóknaraðila ekki rennt stoðum undir þann málatilbúnað sinn við aðalmeðferð málsins að hann eigi fjárkröfu á hendur sóknaraðila.

Veðréttindi sóknaraðila í fasteigninni Fagrahvammi 16 í Hafnarfirði samkvæmt fjórum tryggingarbréfum, sem varnaraðila gaf út til sóknaraðila 22. júní 1982, 29. ágúst 1986 og 7. nóvember 1990 til tryggingar hvers konar skuldum sem hann stæði í við sóknaraðila, samtals að fjárhæð 7.200.000 krónur, duga hvergi nærri sem trygging fyrir greiðslu þeirrar kröfu sem sóknaraðili á samkvæmt framansögðu á hendur varnaraðila. Þá hefur varnaraðili ekki haldið því fram að krafa sóknaraðila sé nægilega tryggð með öðrum hætti. Stendur ákvæði 1. töluliðar 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. því ekki í vegi að taka megi til greina þá kröfu sóknaraðila að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta.

Gert var árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila 24. janúar 2002. Skiptakrafa var móttekin af héraðsdómi 24. apríl sama árs. Standa engin rök til þess að líta megi svo á að hin árangurslausa gerð gefi ranga mynd af fjárhag varnaraðila.

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 eru fyrir hendi lagaskilyrði til að taka skiptakröfu sóknaraðila til greina. Er bú varnaraðila því tekið til gjaldþrotaskipta.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 50.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Bú Péturs Einarssonar, kt. 220750-4269, Fagrahvammi 16, Hafnarfirði, er tekið til gjaldþrotaskipta.

Varnaraðili, Pétur Einarsson, greiði sóknaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 50.000 krónur í málskostnað.