Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2003
Lykilorð
- Skattur
- Jöfnunargjald
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2004. |
|
Nr. 301/2003. |
Garri ehf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Skattar. Jöfnunargjald. Skaðabætur.
Matvælainnflytjandinn G hafði greitt jöfnunargjald sem lagt var á kartöflur samkvæmt reglugerð um sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim nr. 223/1987 og nr. 468/1993. Með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4260, var álagning jöfnunargjaldsins talin hafa verið ólögmæt. G krafði íslenska ríkið um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna álagningarinnar. Ósannað var talið að G hefði orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni sem rakið yrði til álagningar jöfnunargjaldsins. Kröfum G var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. ágúst 2003. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 30.512.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1995 til 1. júlí 2001, en með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 14. apríl 2002 og með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að telja ósannað að áfrýjandi hafi orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni sem rakið verði til álagningar umrædds jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta hinn áfrýjaða dóm.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Garri ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 2. maí sl., var höfðað 13. mars 2002 af Garra ehf., Lynghálsi 2, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, Arnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 30.512.000 krónur eða lægri fjárhæð að mati réttarins og vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1995 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim tíma til 14. apríl 2002 en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi hefur flutt inn frosin matvæli, þar á meðal forsteiktar og frystar franskar kartöflur. Stefnandi greiddi jöfnunargjald sem lagt var á kartöflurnar samkvæmt reglugerð um sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim nr. 223/1987 og nr. 468/1993. Samkvæmt reglugerð nr. 109/1988 um breytingu á reglugerð nr. 223/1987 skyldi greiða 190% jöfnunargjald af umræddri vöru en það var lækkað í 120% með reglugerð nr. 335/1989. Með dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu var talið að álagning jöfnunargjaldsins hafi verið ólögmæt.
Stefnandi telur að stefnda beri ábyrgð á tjóni sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu álagningar. Stefnandi heldur því fram að hefði álagningin verið reist á málefnanlegum sjónarmiðum og verið innan þeirra marka sem lög leyfðu hefði sala hans á frönskum kartöflum orðið meiri en hún varð. Stefnandi hefur aflað álitsgerðar þar sem fram koma útreikningar og mat á tapaðri veltu og hagnaði vegna jöfnunargjaldsins á árunum 1992 til 1995. Skaðabótakrafa stefnanda í málinu er reist á því að stefnandi hafi misst af 30.512.000 króna framlegð á framangreindu tímabili vegna jöfnunargjaldsins sem stefndi beri bótaábyrgð á.
Sýknukrafa stefnda er byggð á því að krafa stefnanda sé fyrnd. Einnig er því haldið fram af hálfu stefnda að hið meinta tjón stefnanda sé með öllu ósannað.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Málsatvikum er lýst þannig af hálfu stefnanda að eigendur stefnanda hafi um árabil rekið innflutningsfyrirtæki sem hafi meðal annars flutt inn frosnar og forsteiktar franskar kartöflur. Upphaflega hafi innflutningurinn farið fram í nafni félagsins Garra hf. þar til í ágúst 1992, en þá hafi nafni félagsins verið breytt í Gnípu hf. sem síðar hafi verið breytt í einkahlutafélag. Í september 1992 hafi verið stofnað nýtt félag, Garri hf., nú Garri ehf., og hafi félagið staðið að innflutningi franskra kartaflna upp frá því. Gnípa ehf. hafi höfðað mál á hendur stefnda til endurgreiðslu ofgreidds jöfnunargjalds, en félagið hefði fengið endurgreiðslukröfuna framselda frá Garra og hafi málssókn félagsins því einnig tekið til þess tímabils álagningar jöfnunargjalds sem sé grundvöllur skaðabótakröfu stefnanda í þessu máli. Stefndi hafi verið sýknaður af kröfum Gnípu í fyrra máli á grundvelli aðildarskorts, sbr. dóm Hæstaréttar frá 25. maí 2000 í máli nr. 501/1999, en Hæstiréttur hafi talið að ekki hefði verið staðið rétt að framsalinu samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.
Krafa stefnanda um greiðslu skaðabóta sé grundvölluð á því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar álagningar jöfnunargjalds með reglugerðum settum af landbúnaðarráðherra. Með reglugerð nr. 223/1987 hafi verið lagt á 40% jöfnunargjald á ýmsa flokka kartaflna. Hinn 26. febrúar 1988 hafi landbúnaðarráðherra gefið út breytingu á reglugerðinni með reglugerð nr. 109/1988, þar sem jöfnunargjald af kartöflum hafi ýmist verið hækkað í 50% eða 100%, nema jöfnunargjald á franskar kartöflur sem hafi verið hækkað í 190%. Jöfnunargjald á franskar kartöflur hafi verið lækkað í 120% af tollverði vöru með reglugerð nr. 335/1989 og í 90% með reglugerð nr. 468/1993 frá 22. nóvember 1993. Síðastnefnda reglugerðin hafi verið afnumin með reglugerð nr. 359/1995. Með dómi Hæstaréttar frá 19. desember 1996 hafi komið fram sú niðurstaða að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds á franskar kartöflur samkvæmt ákvæðum framangreindra reglugerða hafi verið ólögmæt þar sem íslenska ríkið hafi ekki sýnt fram á að álagning hins sérstaka jöfnunargjalds fengi samrýmst þeim takmörkunum sem heimildum ráðherra væru settar og þeim kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu sem gæta verði. Í fleiri dómum hafi jöfnunargjaldið einnig verið talið ólögmætt. Stefnandi hafi þurft að greiða samtals 26.501.793 krónur til ríkissjóðs vegna álagningar jöfnunargjalds á grundvelli framangreinda reglugerða sem dæmdar hafi verið ólögmætar réttarheimildir. Stefnandi og fyrirrennarar hans hafi greitt samtals 72.726.074 krónur í ólögmæt jöfnunargjöld.
Stefnandi byggi á því að álagning 190%, 120% og síðar 90% jöfnunargjalds samkvæmt reglugerðum nr. 109/1988, nr. 335/1989 og nr. 468/1993 hafi ekki verið í samræmi við þann lagagrundvöll sem reglugerðirnar hafi átt að byggja á og þær hafi þannig brotið gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Byggir stefnandi á því, að landbúnaðarráðherra hafi við ákvörðun jöfnunargjaldsins brotið gegn ákvæði e-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985 með því að fara út fyrir þær heimildir og takmarkanir sem þar hefðu verið settar. Með dómum Hæstaréttar liggi fyrir að álagning jöfnunargjalds hafi ekki verið í samræmi við lög.
Stefnandi telji að hin ólögmæta álagning hafi bakað honum tjón sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum stjórnskipunar- og skaðabótaréttar. Hefði álagningin verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og verið innan þeirra marka sem lög leyfðu hefði sala stefnanda á frosnum frönskum kartöflum orðið önnur og meiri. Stefnandi hefði þá haft ákveðið samkeppnisforskot á íslenska framleiðslu sem hefði haft í för með sér að hann hefði getað náð stærri markaðshlutdeild en raunin hafi orðið. Vegna hinna erfiðu skilyrða, sem hafi verið ríkjandi á þessum markaði vegna jöfnunargjaldsins, hafi stefnandi og fyrirrennari hans leitast við að sækja frekar inn á aðra markaði.
Bótakröfuna reisi stefnandi á því að hefði hin ólögmæta álagning jöfnunargjalds ekki komið til hefði sala hans á frosnum frönskum kartöflum þróast í samræmi við aðra sölu hans á þeim vörum sem félagið hafi flutt inn. Krafa stefnanda um 30.512.000 króna skaðabætur sé byggð á útreikningum í skýrslu Einars Hafliða Einarssonar löggilts endurskoðanda þar sem rakin séu áhrifin, sem hin ólögmæta álagning jöfnunargjalds hafi haft á rekstur stefnanda, á framlegð sem stefnandi hafi orðið af vegna ólögmætrar álagningar jöfnunargjalds á árunum 1992-1995. Í skýrslunni séu einnig útreikningar á hagnaðarhlutfalli stefnanda og það borið saman við önnur félög í sama geira. Fram komi að hagnaðarhlutfall stefnanda hafi verið lægra en almennt tíðkaðist í geiranum.
Með framlögðum gögnum hafi stefnandi ótvírætt sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir tjóni af völdum hinnar ólögmætu álagningar og því hljóti alfarið að hvíla á stefnda að hrekja þau. Sönnun á umfangi tjóns í málum sem þessum hljóti óhjákvæmilega að vera háð nokkurri óvissu. Ekki megi gera strangar sönnunarkröfur í tilvikum sem þessu, en stefnandi hafi orðið fyrir skaðabótaskyldu tjóni vegna álagningar gjalds sem samrýmdist ekki ákvæðum stjórnarskrár um skattlagningu sem og meginreglum stjórnsýsluréttar. Sé vafi um afmörkun á umfangi tjóns hljóti stefnda að bera hallann af því.
Verði ekki fallist á að heimilt sé að leggja framangreint til grundvallar bótakröfunni sé þess krafist að bætur verði dæmdar að álitum. Hin ólögmæta álagning hafi haft áhrif á hagnað stefnanda á árunum 1992-1995, en hann hafi af þeim sökum orðið minni en ella. Stefnandi vísi til þess að hagnaður hans á tímabilinu hafi að meðaltali verið 2,59% en hlutfallið vegna sölu á matvörum, sælgæti og hreinlætisvörum hafi á sama tíma verið 3,9% til 5% samkvæmt tölum frá Samtökum verslunarinnar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar frá 16. mars 2000 í máli nr. 329/1999.
Stefnandi mótmæli því að bótakrafa hans sé fyrnd. Fyrningarfrestur hafi ekki byrjað að líða fyrr en hinu ólögmæta ástandi, sem komið hafi verið á með fyrrnefndum reglugerðum, hafi verið aflétt. Hafi það verið gert með reglugerð nr. 359/1995 um afnám reglugerðar nr. 468/1993 um sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem öðlast hafi gildi hinn 1. júlí 1995, sbr. 2. gr. hennar. Ekki verði beitt sömu viðmiðum um upphaf fyrningarfrests í skaðabótamáli sem þessu og í endurgreiðslumálum þegar fyrningarfrestur byrji að líða við greiðslu gjaldsins. Sé þar ekki um sambærileg tilvik að ræða. Annars vegar sé krafist endurgreiðslu í samræmi við almennar reglur kröfuréttar á greiðslu, sem innt hafi verið af hendi, en hins vegar sé krafist bóta vegna tjóns sem álagning, sem byggt hafi á ólögmætri réttarheimild, hafi valdið. Ekki hafi verið unnt að staðreyna hvert tjón stefnanda hafi orðið fyrr en eftir að hinu ólögmæta réttarástandi hafi verið aflétt, en af því leiði að dómkrafa stefnanda sé ekki fyrnd. Jafnvel þótt talið yrði að fyrningarfrestur byrjaði að líða þegar greiðsla á jöfnunargjaldi hafi verið innt af hendi hafi greiðslur hans á ólögmætum jöfnunargjöldum átt sér stað á tímabilinu september 1992 til júlí 1995 og séu þær því ekki fyrndar samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905.
Um skaðabótaábyrgð stefnda vísi stefnandi til almennra ólögfestra reglna stjórnskipunar- og skaðabótaréttar. Vísað sé til 40. og 77. gr. laga nr. 33/1944 stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Stefnandi vísi og til ákvæðis e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. ákvæði reglugerða nr. 109/1988, 335/1989 og 468/1993, og til reglugerðar nr. 359/1995. Vitnað sé til meginreglna stjórnsýsluréttar, sérstaklega reglunnar um að stjórnarathafnir skuli byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, og til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Stefnandi krefjist vaxta samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1995 þegar hinu ólögmæta ástandi hafi verið aflétt vegna vaxta áfallinna fyrir 1. júlí 2001 en frá þeim degi samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega IV. kafla laganna. Til stuðnings málskostnaðarkröfu vísi stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af stefnda hálfu er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi flutt inn til landsins franskar kartöflur ásamt öðrum vörum. Einhverjar af þessum kartöfluvörum hafi fallið undir reglugerðir um jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim. Ómótmælt sé að álagning jöfnunargjalds hafi verið ólögmæt en vísað sé í því sambandi til dóma Hæstaréttar frá 19. desember 1996 í málinu nr. 427/1995, hrd. 1996, bls. 4260, og frá 22. maí 1998 í málinu nr. 389/1997, hrd. 1998, bls. 2021. Einnig sé vísað til dóma Hæstaréttar frá 16. mars 2000 í málunum nr. 329/1999 og 359/1999.
Í málavaxtalýsingu stefnanda sé ekki gerður skýr en nauðsynlegur greinarmunur á stefnanda og öðrum félögum annars vegar og eigendum eða forráðamönnum þeirra hins vegar. Af hálfu stefnda sé því mótmælt að líta megi til fyrri innflutnings lögaðila sem enga aðild hafi átt að honum eða máli þessu. Félag sem áður hét Garri hf. hafi höfðað mál gegn stefnda og hafi þá heitið Gnípa ehf. Dómur hafi verið lagður á kröfur þess í Hæstarétti 25. maí 2000 í málinu nr. 501/1999. Stefnda hafi verið sýknað af kröfum félagsins af tveimur ástæðum. Annars vegar sökum þess að kröfur, sem gerðar hafi verið til endurgreiðslu á jöfnunargjöldum sem Gnípa ehf. hefði greitt, hafi verið fallnar niður fyrir fyrningu, sbr. 5. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Hins vegar hafi niðurstaðan byggst á því að áfrýjandi, Gnípa ehf., ætti ekki aðild að endurgreiðslukröfu vegna þeirra gjalda sem stefnandi þessa máls hefði innt af hendi. Gnípa ehf. hefði enga endurgreiðslukröfu fengið framselda og hafi málatilbúnaður um annað verið ósannaður. Það hafi leitt til þess að aðildarskortur hafi staðið þessum hluta krafna í vegi í dómi Hæstaréttar.
Stefnandi byggi á því að með álagningu jöfnunargjalds hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, en stefnda mótmæli bótaskyldu gagnvart stefnanda vegna þess. Enginn bótaréttur hefði stofnast enda byggði álagningin ekki á saknæmri háttsemi. Engri hlutlægri bótareglu sé til að dreifa við þessar aðstæður. Einnig mótmæli stefnda ætluðu tjóni stefnanda sem ósönnuðu. Engin orsakatengsl geti verið á milli álagningar jöfnunargjalds og ætlaðs tjóns stefnanda. Stefnandi beri ótvírætt sönnunarbyrði fyrir ætluðu tjóni og öðrum bótaskilyrðum en slík sönnun hafi ekki komið fram.
Krafa til endurgreiðslu jöfnunargjaldsins, sem stefnandi hafi innt af hendi, sé fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 5. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905. Í löggjöfinni sé brugðist við því hvernig með skuli fara ef í ljós komi að skattar eða gjöld hafi ekki verið löglega lögð á. Hin raunhæfu réttarúrræði væru að krefjast endurgreiðslu að gættum ákvæðum fyrningarlaga. Í dómi Hæstaréttar frá 10. desember 1998, hrd. 1998, bls. 4180, hafi því verið slegið föstu að fyrningarfrestur endurgreiðslukröfu vegna ofgreidds jöfnunargjalds væri fjögur ár og hæfist hann við hverja greiðslu. Sú niðurstaða hafi verið ítrekuð í síðari dómum Hæstaréttar vegna hliðstæðra sakarefna.
Stefnandi reki ætlað tjón sitt til þess að félagið hafi þurft að greiða samtals 26.501.793 krónur til ríkissjóðs vegna álagningar jöfnunargjalds. Greiðslur stefnanda á jöfnunargjaldi, sem kröfurnar virtust taka mið af, hafi verið inntar af hendi frá 11. september 1992 til 17. maí 1995. Réttur stefnanda til endurgreiðslu þessara gjalda sé fallinn niður fyrir fyrningu, sbr. ákvæði 5. töluliðar 3. gr. fyrningarlaga. Krafa stefnanda sé í eðli sínu endurgreiðslukrafa eða miði a.m.k. að því að fá sömu hagsmunum framgengt, en hún hafi verið sett í búning skaðabótakröfu þar sem hugsanlegur réttur til endurgreiðslu hafi löngu fallið niður fyrir fyrningu. Stefnda mótmæli því alfarið að krafa, sem liðin sé undir lok, geti verið vernduð af reglum skaðabótaréttar við það eitt að breytt sé um nafn hennar eða framsetningu. Ætlað tjón stefnanda felist í þeirri eigin sök og ábyrgð félagsins að hafa ekki krafist endurgreiðslu ofgreiddra gjalda með málsókn innan fyrningartíma. Stefnandi hafi getað án mikils fyrirvara takmarkað ætlað tjón sitt að öllu leyti með því að bera álagninguna þegar undir dómstóla og eftir atvikum krefjast þar endurgreiðslu að gættum réttarreglum um fyrningu en það hafi stefnandi á engum stigum gert. Stefnda mótmæli því að fyrningarfrestur bótakröfu teljist frá því að jöfnunargjaldið var afnumið með reglugerð nr. 359/1995. Bótakrafa stefnanda sé fyrnd þar sem hið umþrætta jöfnunargjald hafi verið lagt á með reglugerð löngu fyrir 13. mars 1992, þ.e. meira en 10 árum fyrir málshöfðun þann 13. mars 2002. Með því að stefnandi hafi ekki neytt raunhæfra réttarúrræða í tíma sé engin bótaréttur fyrir hendi. Eigin sök stefnanda og tómlæti hans standi bótakröfunni því alfarið í vegi.
Stefnandi greini frá því að félagið hafi verið stofnað í september 1992. Á þeim tíma hafi álagning jöfnunargjalds á franskar kartöflur í umræddum tollflokki verið 120% en í júní 1989 hafi það lækkað úr 190%. Málatilbúnaður stefnanda og kröfur á honum reistar nái einungis til þess jöfnunargjalds sem hafi á tímabilinu numið 120% og síðar 90%. Stefnandi hafi verið nýtt hlutafélag á þessum tíma sem síðar hafi verið breytt í einkahlutafélag. Þegar félagið hafi verið stofnað haustið 1992 hafi stefnandi afráðið að hefja innflutning á umræddum vörum þrátt fyrir vitneskju um jöfnunargjaldið. Raunhæf rekstraráform félagsins hljóti því að hafa tekið mið af þessu. Hagnaðarvon stefnanda af innflutningi á vörunum hljóti einnig að hafa tekið mið af því að vörurnar bæru jöfnunargjald enda hafi allar reglugerðir um álagningu jöfnunargjaldsins verið birtar með lögformlegum hætti. Það hafi því alfarið verið á ábyrgð og áhættu stefnanda sjálfs að hefja innflutning á vörum sem vitað var að báru jöfnunargjald og verði ekki miðað við forsögu annars félags, Gnípu ehf., sem hafi verið annar lögaðili. Breyti engu hvort sömu eigendur hafi verið að félögum þessum að einhverju leyti, enda sé í máli þessu ekki tekist á um annað en bótakröfu stefnanda. Á þeim tíma sem mál þetta varði, þ.e. innflutning varanna frá hausti 1992 til vorsins 1995, hafi jöfnunargjaldið hins vegar lækkað umtalsvert, eða niður í 90%. Tjón sé því undir engum kringumstæðum afleiðing af álagningu jöfnunargjalds eða þeirrar niðurstöðu Hæstaréttar að telja gjaldið ólögmætt. Engin röskun hafi því orðið á starfsemi stefnanda, ekkert inngrip sem leitt hafi til þess að hagnaðarvon, framlegð eða tekjur yrðu minni en upphaflega hafi mátt vænta. Enginn atburður, athöfn eða athafnaleysi stefnda hafi því valdið röskun á rekstri félagsins. Hér sé því ekki um að ræða tjón sem njóti réttarverndar skaðabótareglna, heldur aðeins hugmynd sem virtist hafa vaknað að gengnum dómi Hæstaréttar sem hafi fallið rúmum fimm árum áður en málið hafi verið höfðað.
Stefnda haldi því fram að jafnt viðskiptavenja, sem og gögn málsins, sýni ótvírætt að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir á viðskiptamenn sína. Þeir hafi því að lokum greitt jöfnunargjaldið án þess að stefnandi yrði fyrir nokkru tjóni. Stefnandi hljóti að hafa bætt við álagningu ofan á verð vörunnar eftir að jöfnunargjaldið hafi lagst á vöruna. Álagning stefnanda hafi því orðið mun meiri í krónum talið vegna jöfnunargjaldsins. Stefnandi hafi flutt vörurnar inn í stórum sendingum, oft mánaðarlega, en oftar nokkrar sendingar á mánuði. Um mikið magn hafi verið að ræða og næga eftirspurn. Almennt sé viðurkennt að kartöflur séu neysluvara þar sem eftirspurn breytist tiltölulega lítið með verðsveiflum. Þá séu kartöflur notaðar sem meðlæti með öðrum mat og vegi ekki þungt í heildarverði máltíðar. Breyttar neysluvenjur með tilliti til hollustu eða aukins vöruúrvals skipti því miklu meira máli um eftirspurn eftir kartöflum en verðið. Því sé eindregið mótmælt að álagning jöfnunargjalds hafi valdið tjóni heldur hefur hún að öllu jöfnu leitt til meiri hagnaðar en ella.
Stefndi mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að sala stefnanda á vörunni hefði orðið önnur og meiri hefði álagningin verið reist á málefnalegum sjónarmiðum og innan þeirra marka sem lög leyfðu. Í málsástæðu stefnanda felist ekki að engin álagning hefði átt að vera heldur að hana hefði átt að ákveða með öðrum hætti. Jöfnunargjaldið hefði þurft að vera hærra ef jafna hefði átt samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu við innflutning. Innflytjendur, þ.á m. stefnandi, hafi þegar haft mikið samkeppnisforskot á innlenda framleiðslu vegna þess að hin innflutta vara hafi verið ódýrari þrátt fyrir álagningu jöfnunargjaldsins. Sá verðmunur hafi verið það mikill að engar líkur væru á að stefnandi hafi selt minna eða haft minni tekjur vegna áhrifa jöfnunargjaldsins. Árið 1992 hafi söluverð hjá stefnanda verið 126 krónur á hvert kíló. Verð Kartöfluverksmiðju Þykkvabæjar hafi þá verið 151 krónur á kíló. Árið 1993 hafi verð stefnanda verið 127,76 krónur en innlendrar framleiðslu 151 krónur. Árið 1994 hafi verð stefnanda verið 124,21 krónur en innlendrar framleiðslu 163 krónur og árið 1995 hafi verð stefnanda verið 128,31 krónur, en innlendrar framleiðslu 170 krónur. Stefndi mótmælir því einnig sem röngu og ósönnuðu að markaðshlutdeild stefnanda hefði orðið meiri ef álagningu hefði "verið hagað í samræmi við lög". Óupplýst sé hver markaðshlutdeild stefnanda hafi verið þegar hann hóf starfsemi haustið 1992. Innflytjendur hefðu þegar haft mikið samkeppnisforskot á innlenda framleiðslu og hafi þeir setið við sama borð innbyrðis um greiðslu jöfnunargjalda.
Hafi sala á frönskum kartöflum dregist saman hjá stefnanda hafi jöfnunargjaldinu ekki verið þar um að kenna, enda hafi það verið 120% er stefnandi hóf starfsemi sína og það hafi lækkað á tímabilinu í 90%. Verð vörunnar hjá stefnanda virtist hins vegar ekki hafa lækkað í hlutfalli við það, en verð á innlendri framleiðslu hafi hækkað. Heildarmagn innflutnings á vörunni hafi aukist nokkuð á árunum 1992 til 1995. Hvorki heildarinnflutningur né eftirspurn virtist því hafa dregist saman. Sala annarra fyrirtækja á innfluttum frystum kartöflum hafi aukist verulega á meðan sala stefnanda hafi dregist saman árið 1995 þrátt fyrir að öll fyrirtækin sætu við sama borð varðandi aðflutningsgjöld. Ekki sé jöfnunargjaldinu heldur um að kenna hafi samdráttur orðið hjá stefnanda í innflutningi eða sölu kartaflna miðað við aðrar vörur. Ætlað tjón stefnanda sé því ekki afleiðing af álagningu jöfnunargjalda og heldur ekki vegna samkeppni við íslenska framleiðslu. Alls kyns ástæður gætu verið fyrir samdrætti í sölu á frönskum kartöflum, t.d. áróður gegn neyslu á fituríkri fæðu, aukin neysla á öðrum vörum o.fl. Þróun yfir í sölu á öðrum grænmetisvörum hjá stefnanda geti því hæglega hafa verið í takt við breyttar neysluvenjur.
Ósannað sé að skilyrði á markaði hafi verið erfið sökum jöfnunargjaldsins. Hins vegar hljóti að vera eðlilegt að fyrirtæki, sem flytji inn margs konar vörur, leitist við að sækja á mismunandi markaði eftir atvikum og auka eða minnka framboð mismunandi vara eftir því sem tilefni verði til. Hvergi hafi komið fram að hagnaður félagins hafi minnkað á þeim tíma sem um ræði heldur komi þvert á móti fram í málsgögnum að vöxtur hafi verið í veltu á hverju ári. Ókleift sé að ráða í hvenær á tímabilinu stefnandi telji að tjón hafi orðið og óraunhæft sé að líta á allt tímabilið og meta að álitum hugsanlegar sveiflur, hagnað eða tap, minnkaða framlegð eða aukna.
Stefnandi beri ótvírætt sönnunarbyrði fyrir ætluðu tjóni sínu. Langur tími sé liðinn frá þeim atvikum sem kröfurnar séu reistar á, auk þess sem stefnandi hafi engin haldbær sönnunargögn lagt fram til stuðnings kröfu sinni. Stefnda mótmæli sem rangri og þýðingarlausri niðurstöðu löggilts endurskoðanda sem og reikningslegum forsendum hennar. Álitsgerðin sé bersýnilega samin að beiðni stefnanda og eftir forskrift hans og hugmyndum um að tjón hafi orðið. Hún hafi verið samin einhliða og án þess að hagsmuna stefnda hafi verið gætt en honum hafi ekki verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við gerð hennar. Álitsgerðin eða önnur gögn málsins beri ekki með sér að höfundur hennar hafi sérþekkingu á viðfangsefninu, þótt hann sé löggiltur endurskoðandi. Í stefnu sé einungis vísað til álitsgerðarinnar og sagt að krafan sé byggð á útreikningum sem þar greini. Sé þar um að ræða "framlegð" sem stefnandi hafi orðið af. Í stefnu sé þetta hugtak ekki útskýrt nánar eða hvers eðlis þetta ætlaða tjón megi vera. "Framlegð" geti ekki talist til hagsmuna sem njóti verndar skaðabótareglna, enda um mjög umdeilt og óljóst hugtak að ræða. Vangaveltur um framlegð eða brúttóálagningu segi ekkert til um hvort rekstrartjón hafi orðið. Eftir væri að taka til skoðunar fjölmarga þætti í rekstri. Í raun geti neikvæð framlegð á einni vörutegund í rekstri fyrirtækis átt sér fullkomlega eðlilegar ástæður án þess að um tjón teljist vera að ræða. Nálgunin í álitsgerðinni sé með öllu þýðingarlaus við mat á tjóni vegna þess að hún byggi á að ekki hafi náðst eðlileg sala tiltekinnar vörutegundar í samanburði við þróun í sölu annarra vörutegunda fyrirtækisins. Ekki verði séð að neinn samdráttur hafi orðið að marki og alls ekki unnt að sjá fylgni milli samdráttar og álagningar jöfnunargjaldsins. Hafi orðið samdráttur í sölu á umræddri vöru eða hún ekki vaxið eins og aðrar vörur á árinu 1995 sé líklegra að það hafi verið vegna breyttrar viðskiptastefnu félagsins. Engin teikn séu um að neikvæð framlegð hafi orðið með minni sölu vegna áhrifa jöfnunargjaldsins. Nær væri að stefnandi upplýsti hversu mikið framlegðin hafi aukist hjá fyrirtækinu vegna nýrrar viðskiptastefnu og breytts vöruúrvals. Hér sé því um vangaveltur að ræða um innanhúsmál félagsins í álitsgerðinni en ekki heildarmat á því hvort tjón hafi orðið í rekstri fyrirtækisins almennt vegna álagningar jöfnunargjalds. Álitsgerðin sé einnig villandi þar sem hún taki árið 1992 sem viðmiðunarár, m.a. um magn seldrar vöru, og inni í því starfsemi annars fyrirtækis, Gnípu ehf. Samanburðurinn sé að þessu leyti óraunhæfur, ekki síst vegna þess að það fyrirtæki hafi orðið uppvíst að því að gefa upp röng tollverð af umræddum vörum. Þá sé einnig óraunhæft að miðað er við allt árið 1995 til samanburðar, en á miðju því ári hafi fallið niður reglugerðir um jöfnunargjaldið sem dæmt hafi verið ólögmætt. Samkvæmt viðurkenndum efnahagslegum og rekstrarlegum sjónarmiðum hafi með útreikningum, sem stefnandi vísi til, ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að afkoma stefnanda hafi versnað vegna umþrættra jöfnunargjalda. Í álitgerðinni komi fram ónákvæmni í meðferð opinberra talna, t.d. úr verslunarskýrslum, þannig að útreikningar á meðalverðum séu þar rangir, sem sé skýring á miklum verðsveiflum á kartöflum frá 1994 til 1995, sem sé í engu samræmi við gengisþróun á sömu árum. Tölur í skýrslunni sýni hækkandi verð á innfluttum frystum kartöflum um 36% milli ára, en á sama tíma hafi gengi íslensku krónunnar breyst um 5%. Af því leiði að tölurnar verði ósamanburðarhæfar og því ekki marktækur grundvöllur fyrir þá útreikninga sem á eftir komi.
Stefnda mótmæli að stefnandi geti reist útreikning kröfugerðarinnar á svonefndu hagnaðarhlutfalli, en stefnandi telji það lægra hjá honum samanborið við önnur félög í "sama geira". Hafi hagnaðarhlutfall stefnanda verið lægra en annars staðar í geiranum hafi það verið vegna samkeppni við aðra innflytjendur, sem setið hafi við sama borð. Það hafi hins vegar á engan hátt verið vegna álagningar jöfnunargjaldsins eða samkeppni við innlenda framleiðslu. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á með bókhaldsgögnum eða öðrum gögnum að hagnaðarhlutfall hans hafi verið minna og hvergi sé reynt að sýna fram á hvenær á þessu langa tímabili stefnandi telji að hagnaðarhlutfall hafi verið lágt. Stefnda mótmæli því að tjón hafi orðið af völdum álagningar jöfnunargjalds þannig að hagnaðarhlutfall hafi orðið lægra samanborið við önnur fyrirtæki. Samanburður sá sem vísað sé til í álitsgerð endurskoðanda sé markleysa, enda hafi ekki verið reynt að greina þau fyrirtæki sem vísað sé til í úrtaki. Hvergi komi fram samanburður á þeim vörutegundum sem fyrirtækin flytji inn og hver sé hlutdeild þeirra í veltu fyrirtækjanna. Þá liggi ekki fyrir hver hafi verið eða sé hagnaður af einstökum vörutegundum og samanburður í því efni og engin gögn hafi verið lögð fram frá Samtökum verslunarinnar sem vísað sé til. Samanburðinum sé því mótmælt sem órökstuddum. Álagning jöfnunargjaldsins hafi verið hæst 120%, en það hafi verið á tímabilinu september 1992, þegar stefnandi hóf starfsemi, og fram í nóvember 1993. Á þessum sama tíma hafi rekstrarhagnaður stefnanda verið mestur og hafi numið hærra hlutfalli af tekjum en það hlutfall af tekjum sem fram komi samkvæmt upplýsingum Samtaka verslunarinnar en eftir það hafi jöfnunargjaldið lækkað. Þetta sýni að ekkert tjón hafi orðið vegna álagningar jöfnunargjalds heldur meiri hagnaður af þess sökum burtséð frá hagnaðartölum. Vangaveltur um hagnaðarhlutfall eitt sér og samanburður almennt við alls kyns vörur aðrar án nánari tilgreiningar eða útskýringar sé því óraunhæfur. Upplýsingar frá stefnanda þess efnis að hagnaður hafi verið mestur þegar jöfnunargjaldið hafi verið hæst styðji hins vegar kenningu stefnda um að jöfnunargjaldið hafi haft þau áhrif að hagnaður hafi orðið meiri. Jöfnunargjaldið hafi því leitt til aukins hagnaðar en ekki tjóns og stefnda mótmæli fullyrðingum í stefnu um hagnaðarhlutfall og samanburði við önnur fyrirtæki sem markleysu og órökstuddum. Einnig sé mótmælt sem röngu að hagnaður stefnanda hafi verið 2,59% að meðaltali á árunum 1992-1995, en þessa tölu sé hvergi að finna í málsgögnum eða útskýringu á henni. Mismunandi hagnaðarhlutföll miðað við svokallað "hlutfall skv. SV" sýni enga fylgni við jöfnunargjöld á kartöflur nema að því leyti að hagnaður hafi þvert á móti orðið meiri þegar það gjald var hæst. Þá virtist brúttóframlegð kartaflna samkvæmt álitsgerðinni vera langmest það tímabil sem jöfnunargjaldið hafi verið hæst. Stefndi mótmæli því einnig sérstaklega að aðstæður geti verið sambærilegar þeim sem fjallað sé um í Hæstaréttardómi frá 16. mars 2000 í málinu nr. 359/1999.
Stefnandi beri fulla sönnunarbyrði og beri jafnframt halla af sönnunarskorti um ætlað tjón. Stefnandi hafi ekki lagt fram matsgerð heldur hafi hann einungis byggt á áliti sem hann hafi aflað einhliða. Tómlæti stefnanda valdi því að engin rök væru til að víkja frá meginreglunni um að stefnandi beri sönnunarbyrði. Sá langi tími sé ekki á áhættu stefnda. Þá standi stefnanda nær að sanna þar sem öll gögn séu hjá félaginu um innflutninginn, innkaupsverð, samanburð við söluverð, álagningu, hagnað og verðmyndun vörunnar til viðskiptamanna. Stefnandi hafi ekki lagt fram frumgögn úr rekstri sínum, sem sýnt gætu fram á hvort á tímabilinu hafi einhvern tíma verið óraunhæft að fella jöfnunargjaldið inn í vöruverð þannig að viðskiptamaðurinn greiddi. Öflun slíkra sönnunargagna væri stefnanda greiðfær. Stefnda telji sig engu að síður hafa hrakið sönnunarfærslu stefnanda alfarið.
Stefnandi hafi hafið starfsemi og innflutning á árinu 1992 og hafi hann greitt jöfnunargjald án fyrirvara allan tímann sem málið varði. Á hinn bóginn hafi stefnda verið með öllu grandlaus þennan tíma um að gjaldið kynni að vera lagt á andstætt lögum. Stefnandi hafi fengið allt umrætt jöfnunargjald endurgreitt úr hendi viðskiptamanna sinna og að auki hagnað af viðskiptunum sem hljóti að hafa orðið meiri vegna jöfnunargjaldsins. Mótmælt sé sem ósönnuðu að stefnandi hafi orðið af brúttóframlegð eða að hagnaður hafi orðið minni vegna jöfnunargjaldsins. Yrði á bótakröfu stefnanda fallist að einhverju leyti yrði hann margfalt betur settur en ef jöfnunargjaldið hefði ekki verið lagt á.
Til stuðnings varakröfu um stórfellda lækkun vísi stefnda til allra áðurgreindra málsástæðna til stuðnings sýknukröfu. Verði komist að þeirri niðurstöðu að dæma megi bætur að álitum verði ekki miðað við annað en ótvíræða sönnun um tjón sem í því tilviki teldist bein afleiðing af álagningu jöfnunargjalds en engu öðru. Ítrekaðar séu málsástæður stefnda um tómlæti og eigin sök stefnanda.
Stefnda mótmæli vaxtakröfu stefnanda, einkum með vísan til tómlætis stefnanda. Verði ekki á það fallist er vaxtakröfu allt að einu mótmælt sem fyrndri, sbr. 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905, að því leyti sem hún taki til tímans fyrir 13. mars 1998. Þá sé dráttarvaxtakröfu, einkum upphafstíma dráttarvaxta, einnig mótmælt með vísan til 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987 og 9. gr. gildandi laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Stefnda telji að komi til bótaskyldu séu engin rök til að dæma vexti nema frá dómsuppkvaðningu. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað sé vísað í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í greinargerð stefnda er bent á að málið kynni að sæta frávísun án kröfu þar sem landbúnaðarráðherra hafi ekki verið stefnt til fyrirsvars en stefnandi byggi á því að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna jöfnunargjaldsins sem lagt var á með reglugerð landbúnaðarráðherra. Telja verður að tengsl landbúnaðarráðherra við sakarefnið séu ekki með þeim hætti að nauðsynlegt hafi verið að hann ætti aðild að málinu eða væri í fyrirsvari varðandi þá hagsmuni sem hér um ræðir enda hafa ekki verið færð rök fyrir því af hálfu stefnda að þörf sé á aðild hans að málinu. Dómurinn telur því ekki ástæðu til að vísa málinu frá dómi án kröfu vegna þess að landbúnaðarráðherra hafi ekki verið stefnt.
Krafa stefnanda er skaðabótakrafa og fyrnist því á tíu árum samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905. Samkvæmt 5. gr. laganna telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Telja verður að krafa stefnanda vegna hins meinta tjóns hans á árunum 1992 til 1995 hafi orðið gjaldkræf við álagningu gjaldsins sem var fyrst 11. september 1992. Fyrningarfrestur var rofinn 13. mars 2002 þegar málið var höfðað, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu hefur krafa stefnanda ekki fallið niður fyrir fyrningu.
Stefnandi hefur látið reikna út missi framlegðar stefnanda á árunum 1992 til 1995 vegna þess að sala á frönskum kartöflum hafi ekki aukist í sama mæli og sala á öðrum vörum hjá stefnanda á umræddu tímabili. Útreikningar á tapaðri veltu segja hins vegar ekkert til um það hverjar voru ástæður fyrir því að sala á umræddri vöru á tímabilinu jókst ekki til jafns við sölu á annarri vöru. Af stefnda hálfu hefur verið bent á að ástæður fyrir minni sölu gætu til dæmis verið breyttar neysluvenjur fólks eða að um hafi verið að ræða eðlilega þróun þegar dregið hafi úr kartöflusölu en aukin áhersla hafi verið lögð á sölu grænmetis. Stefnandi telur, eins og gert er ráð fyrir í ofangreindum útreikningum, að ætlað hagnaðartap vegna kartöflusölunnar megi rekja til hins háa jöfnunargjalds sem lagt var á vöruna á umræddu tímabili. Engin gögn hafa þó verið lögð fram og ekkert mat hefur heldur farið fram á því hvort minni sölu var í raun að rekja til jöfnunargjaldsins. Hvorki hefur því verið sýnt fram á með útreikningum stefnanda né öðrum gögnum að orsakatengsl væru milli þess að sala jókst minna á vörunni, sem jöfnunargjaldið var lagt á, en sala á annarri vöru annars vegar og að hið ólögmælta jöfnunargjald var lagt á vöruna hins vegar. Staðhæfingar stefnanda um að hagnaðartölur hans á umræddu tímabili hafi verið lægri en ella vegna jöfnunargjaldsins verður og að telja ósannaðar enda hafa ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn því til staðfestu. Af þessu leiðir að telja verður ósannað að hið meinta tjón stefnanda verði rakið til álagningar jöfnunargjaldsins og ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Gretu Baldursdóttir héraðsdómara og Friðbirni Björnssyni löggiltum endurskoðanda.
DÓMSORÐ:
Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Garra ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.