Hæstiréttur íslands

Mál nr. 710/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Bráðabirgðasvipting ökuréttar


Mánudaginn 14

 

Mánudaginn 14. desember 2009.

Nr. 710/2009.

Lögreglustjórinn á Selfossi

(Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)

gegn

X

(Guðni Bergsson hdl.)

 

Kærumál. Bráðabirgðasvipting ökuréttar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun lögreglustjóra um að svipta X ökurétti til bráðabirgða.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 8. desember 2009, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sóknaraðila 3. september 2009 um að svipta varnaraðila ökurétti til bráðabirgða. Kæruheimild er í 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og ákvörðun hans um bráðabirgðasviptingu ökuréttar verði staðfest.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili var sviptur ökurétti til bráðabirgða með ákvörðun sóknaraðila 3. september 2009 í kjölfar meints brots hans á umferðarlögum þann dag. Hann krafðist þess 27. nóvember 2009 að framangreind ákvörðun yrði felld úr gildi.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands þriðjudaginn 8. desember 2009.

Með bréfi dagsettu 27. nóvember sl. sem barst dóminum 1. desember sl. krafðist sóknaraðili, X, kt. [...],[...], þess að felld verði úr gildi sú ákvörðun lögreglunnar í Árnessýslu frá 3. september sl. að svipta hann ökurétti til bráðabirgða. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar við að halda fram kröfu þessari.

Varnaraðili, lögreglustjórinn á Selfossi, hefur krafist þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi en til vara að kröfu hans verði hafnað og framangreind svipting ökuréttar til bráðabirgða verði staðfest.

Samkvæmt gögnum málsins var lögreglumaðurinn Ágúst Rafn Einarsson við umferðareftirlit við Hnaus á Suðurlandsvegi í Flóahreppi 3. september sl. er hann veitti athygli tveim bifhjólum sem ekið var vestur Suðurlandsveg. Segir í lögregluskýrslu að fremra bifhjólinu hafi verið ekið talsvert hraðar og hafi það mælst samkvæmt ratsjá lögreglubifreiðarinnar vera á 192 km hraða en ratsjánni hafi verið læst í 189 km. Kvaðst lögreglumaðurinn hafa veitt því sérstaka athygli þegar bifhjólunum var ekið framhjá að fremra hjólið hafi verið hvítt og ökumaður þess klæddur í hvítan og svartan galla en síðara hjólið hafi verið skærgult og ökumaður þess klæddur í svartan galla. Lögreglumaðurinn veitti bifhjólunum eftirför og skammt austan við Þingborg segist hann hafa farið fram úr seinna hjólinu, [...] og síðan gefið ökumanni fremra hjólsins, [...], merki um að stöðva, en sóknaraðili var ökumaður þess hjóls. Sóknaraðili kvaðst ekki hafa ekið hraðar en á 100 km hraða miðað við klst., en hann hefði verið á ferð með félaga sínum. Hann kvaðst ekki mun hvor þeirra hefði verið á undan þegar mælingin var gerð, en í svona ferðum skiptist menn á að fara framfyrir hvern annan. Félagi sóknaraðila gaf skýrslu hjá lögreglu og kvað alveg klárt að sóknaraðili hefði verið á fremra hjólinu. Á umræddum vegarkafla er hámarkshraði 90 km /klst.

Fyrir liggur í málinu myndskeið úr upptökubúnaði lögreglubifreiðarinnar og sést þar að tveimur bifhjólum er ekið vestur Suðurlandsveg.  Ekki verður ráðið af upptökunni hvor þeirra félaga er á undan. Lögreglan fékk Guðmund B. Böðvarsson, sem sagður er aðstoðarmaður Byggingarfulltrúa Uppsveita, til þess að mæla vegalengdina milli tveggja mælipunkta og kemst hann að þeirri niðurstöðu að reiknaður meðalhraði fremra hjólsins á milli mælipunktanna sé 152,7 km/klst. að teknu tilliti til 3% fráviks. Er þessi niðurstaða miðuð við klukku á upptöku, en sé klukka á myndvinnslubúnaði lögreglu notuð telst Guðmundi til að reiknaður meðalhraði sé 163,9 km/klst. að teknu tilliti til 3% vikmarka. Niðurstöður fyrir aftara hjólið gefa annars vegar töluna 135,8 km/klst. og hins vegar 140,6 km/klst., hvort tveggja að teknu tilliti til 3% vikmarka. Þegar fremra hjólið hafi komið út úr myndinni hafi hraði þess mælst 192 km/klst. og að teknu tilliti til 3% vikmarka sé endanleg niðurstaða að hjólinu hafi verið ekið með 186 km /klst.

Lögreglustjórinn á Selfossi hefur höfðað sakamál á hendur sóknaraðila hér fyrir dómi með ákæru sem gefin er út 10. október sl.  Er honum gefið að sök að hafa ekið umræddu bifhjóli með 186 km hraða á klukkustund og er krafist refsingar, greiðslu sakarkostnaðar og sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga. Þá er þess einnig krafist að sóknaraðila verði gert að sæta sviptingu ökuréttar vegna uppsafnaðra punkta. Aðalmeðmeðferð í því máli hefur verið ákveðin 7. janúar nk.

Sóknaraðili bendir á að aðeins einn lögreglumaður hafi staðið að mælingunni og vonlaust sé að sjá af myndbandsupptöku hvor þeirra félaga hafi verið á undan og því sé með öllu ósannað að sóknaraðili hafi ekið fremra hjólinu. Þá liggi aðeins fyrir skýrsla eins lögreglumanns og hafi engin gögn verið lögð fram sem sanni að sóknaraðili hafi ekið á umræddum hraða. Sé tekið mið af útreikningum Guðmundar B. Böðvarssonar sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki verið á 192 km hraða og leiði sterk rök til þess að hann hafi í mesta lagi ekið á 135,6 km/klst. Séu því ekki skilyrði til að svipta hann ökurétti til bráðabirgða sé tekið mið af dómaframkvæmd. Sóknaraðili telur því ljóst að hann hafi sýnt fram á að hraðamæling lögreglu sé að öllum líkindum röng og eigi hann rétt á að taka til varna í sakamáli því sem höfðað hafi verið á hendur honum. Það sé í andstöðu við stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasáttmála að áður en sakamál sé til lykta leitt, eftir atvikum með sýknu, hafi sóknaraðili tekið út refsingu í málinu á grundvelli ákvörðunar stjórnvalda. Þá er á því byggt að það sé í andstöðu við grundvallarreglur í íslenskum rétti að sviptingu ökuréttar til bráðabirgða sé ekki markaður ákveðinn tími og séu réttaráhrif stjórnvaldsákvörðunar lögreglunnar því í raun ótímabundin. Ótækt sé að sóknaraðili eigi það alfarið undir lögreglu hvort hann fái ökuréttindin nokkurn tíma á nýjan leik. Þegar svipting ökuréttar sé ákveðin í dómi sé henni ávallt markaður ákveðinn tími. Sé fráleitt að gera minni kröfur í þeim efnum þegar ökumaður sé sviptur ökurétti til bráðabirgða með ákvörðun stjórnvalda.

Varnaraðili gerir þá kröfu aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi. Samkvæmt fyrsta málslið 1. mgr. 103. gr. umferðarlaga skal lögreglustjóri svipta ökumann ökurétti til bráðabirgða svo fljótt sem unnt er telji lögreglustjóri skilyrði til sviptingar ökuréttar vera fyrir hendi. Samkvæmt öðrum málslið sömu lagagreinar má bera ákvörðun þessa undir dómstóla samkvæmt reglum um meðferð sakamála og sætir úrlausn héraðsdóms kæru til Hæstaréttar. Eins og rakið hefur verið hér að framan var ákæra gefin út á hendur ákærða 10. október sl. Með vísan til framangreindra lagaákvæða á sóknaraðili rétt á því að leita úrlausnar dómstóla um gildi bráðabirgðasviptingarinnar og verður sá réttur ekki af honum tekinn með útgáfu ákæru. Verður frávísunarkröfu varnaraðila því hafnað.

Sóknaraðili vefengir mælingu lögreglunnar á ökuhraða bifhjólsins og bendir á að aðeins einn lögreglumaður hafi staðið að mælingunni og vonlaust sé að sjá af myndbandsupptöku hvor þeirra félaga hafi verið á undan og því sé með öllu ósannað að sóknaraðili hafi ekið fremra hjólinu. Þá sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki verið á 192 km hraða og bendi útreikningar Guðmundar B. Böðvarssonar til þess að hann hafi í mesta lagi ekið á 135,6 km/klst. Sóknaraðili á rétt á því að þessar varnir hans verði prófaðar fyrir dómi áður en til þess kemur að hann verði beittur sviptingu ökuréttar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 288/2006. Þá ber til þess að líta að sóknaraðili hefur nú þegar verið sviptur ökurétti til bráðabirgða í rúma þrjá mánuði og aðalmeðferð í málinu fer ekki fram fyrr en eftir einn mánuð. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðna Bergssonar hdl., 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008.

Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Felld er úr gildi ákvörðun varnaraðila, lögreglustjórans á Selfossi, 3. september 2009, um að sóknaraðili, X, kt. [...], skuli sviptur ökurétti til bráðabirgða.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Guðna Bergssonar hdl., 100.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.