Hæstiréttur íslands
Mál nr. 373/2011
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Skilorðsrof
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 373/2011:
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Benedikt Bragasyni (Bjarni Hauksson hrl.) |
Umferðarlagabrot. Skilorðsrof.
B var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot og sviptur ökuréttindum ævilangt með því að hafa ekið bifreið án þess að hafa til þess gild ökuréttindi og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna. Með brotum sínum rauf B skilorð dóms frá árinu 2008. Í Hæstarétti var refsing samkvæmt þeim dómi tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem honum var nú gerð samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga og jafnframt var refsing ákveðin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd og staðfest ævilöng svipting ökuréttar hans.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin.
Fyrir héraðsdómi var farið með mál ákærða sem játningarmál, sbr. 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er hin refsiverða háttsemi hans réttilega færð til refsiákvæða í ákæru. Sakarferli ákærða er rétt lýst í héraðsdómi.
Með brotum sínum samkvæmt I. kafla ákærunnar rauf ákærði skilorð dóms Héraðsdóms Reykjaness 12. desember 2008. Verður refsing samkvæmt þeim dómi tekin upp og dæmd með þeirri refsingu sem honum verður nú gerð samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt verður refsing ákærða ákveðin eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga. Fallist er á með héraðsdómi að taka skuli upp þá skilorðsbundnu reynslulausn á eftirstöðvum 190 daga refsingar sem ákærða var veitt 27. nóvember 2009. Að þessu öllu virtu, sakarferli ákærða og með hliðsjón af 3. og 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Með hliðsjón af sakarferli ákærða verður refsing hans ekki skilorðsbundin.
Ekki er ágreiningur með aðilum um ákvörðun héraðsdóms um sviptingu ökuréttar. Verða staðfest ákvæði hans um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Benedikt Bragason, sæti fangelsi í 15 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 264.524 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 8. mars sl., á hendur, Benedikt Bragasyni kt. 260870-4679, Laugarnesvegi 38, Reykjavík, „fyrir umferðarlagabrot í Reykjavík og Hafnarfirði sem hér greinir:
I.
Aðfararnótt laugardagsins 24. apríl 2010 ekið bifreiðinni NI-247 sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,01) og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði 20 ng/ml) með 121 km hraða suður Hafnarfjarðarveg, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu er hún hugðist stöðva aksturinn á Hafnarfjarðarvegi við Vífilsstaðaveg heldur ekið áfram suður Hafnarfjarðarveg, og síðan suður Reykjavíkurveg, inn Hjallabraut til vesturs, gegn akstursstefnu í hringtorg við gatnamót Hjallabrautar og Miðvangs þar sem hann snéri við og ók áleiðis austur Hjallabraut, gegn rauðu ljósi á gatnamótum Hjallabrautar og Reykjavíkurvegar, áfram austur Hjallahraun og þaðan Dalshraun að Stakkahrauni, því næst inn á bifreiðastæði við Reykjavíkurveg, þar sem hann snéri við, þaðan austur Stakkahraun og inn Dalshraun til norðurs, að Reykjavíkurvegi og á ný Hafnarfjarðarveg til norðurs, með allt að 140 km hraða á vegakafla við Silfurtún, upp aðrein að Arnarnesbrú og Arnarnesveg til austurs í átt að Fífuhvammsvegi og gegn akstursstefnu inn í hringtorg á gatnamótum Arnarnesvegar og Fífuhvammsvegar, þegar hér er komið við sögu höfðu bæst við fleiri lögreglubifreiðar og áhafnir til að freista þess að stöðva aksturinn, norður Fífuhvammsveg og yfir á rauðu ljósi á gatnamótum Fífuhvammsvegar og Smárahvammsvegar, inn Dalveg yfir hringtorg og að Nýbýlavegi, því næst inn á Breiðholtsbrú og norður að Reykjanesbraut uns lögreglu tókst að stöðva aksturinn með því að þrengja að bifreið ákærða sem ók út af akrein og út fyrir veg og akstur stöðvaðist. Á framangreindri akstursleið ók ákærði í rökkri of hratt miðað við aðstæður, yfir almennum hraðatakmörkunum og sýndi ekki almenna tillitssemi eða varúð við aksturinn. Leyfður hámarkshraði á Hafnarfjarðarvegi var 80 km. á klst.
II.
Miðvikudaginn 12. janúar 2011 ekið bifreiðinni RL-813 sviptur ökurétti suður Reykjanesbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn móts við Mjódd.
Teljast brotin í I. og II. kafla varða við 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, brot í I. kafla auk þess við 1. og 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. sbr. a og c liði 2. mgr. 36. gr. og 1. mgr. og 1. sbr. 3. mgr. 37. gr., 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. og 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a, allt sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987 sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.
Þess er krafist að ákærði verið dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.”
Ákærði hefur játað brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann sektaður eða dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir margvísleg brot samtals 11 sinnum á árunum 1998 til 2007, þar af tvisvar erlendis. 26. september 2008 var hann dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 173. a gr. almennra hegningarlaga og vopnalögum. 12. desember sama ár var ákærði svo af sama dómstól dæmdur í 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir tilraun til fjárkúgunar og brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Þessi dómur var hegningarauki við 18 mánaða dóminn og er þess getið í dómnum. 2. júlí 2009 var ákærði svo dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og hilmingu og var sá dómur hegningarauki við dómana frá 2008. Með þessum dómi var ákærði sviptur ökurétti ævilangt. Ákærða var veitt reynslulausn úr fangelsi 27. nóvember 2009 á 190 daga eftirstöðvum refsingar. Með brotum þeim, sem hann hefur verið sakfelldur fyrir, hefur hann rofið skilorð reynslulausnarinnar, sbr. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Með brotinu, sem greinir í fyrri lið ákærunnar, hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 12. desember 2008. Sá dómur var hegningarauki við óskilorðsbundinn dóm og verður því litið fram hjá honum við ákvörðun refsingar nú. Hins vegar er óhjákvæmilegt að taka upp reynslulausnina og dæma með þessu máli. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ákærða ákveðin 9 mánaða fangelsi. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Loks verður áréttuð ævilöng svipting ökuréttar.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Benedikt Bragason, sæti fangelsi í 9 mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði greiði 105.081 krónu í sakarkostnað og þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 75.300 krónur.