Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málsástæða
  • Heimvísun


Mánudaginn 1. febrúar 2010.

Nr. 53/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kærumál. Málsástæður. Heimvísun.

Úrskurður héraðsdóms, sem staðfesti ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Brasilíu, var felldur úr gildi þar sem ekki var tekin afstaða til allra málsástæðna X.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmálaráðherra 11. desember 2009 um að framselja varnaraðila til Brasilíu. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili neytti heimildar í 14. gr. laga nr. 13/1984 þegar hann krafðist úrskurðar héraðsdóms um ákvörðun dómsmálaráðherra. Um meðferð málsins fór eftir ákvæðum XXV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hinn kærði úrskurður fól í sér lokaniðurstöðu í máli varnaraðila. Í greinargerð hans til héraðsdóms er að finna athugasemd sem ekki verður skilin öðru vísi en svo að hann byggi kröfu sína meðal annars á því að framsalskrafan sé ekki gerð af réttum aðila í Brasilíu. Með hliðsjón af f. lið 1. mgr. 178. gr. laga nr. 88/2008 verður 4. mgr. 181. gr. sömu laga skýrð svo að ekki hafi verið heimilt að kveða upp úrskurð, þar sem kröfu varnaraðila var synjað, nema tekin væri afstaða til allra málsástæðna hans. Í hinum kærða úrskurði er ekki tekin afstaða til framangreindrar málsástæðu. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Með vísan til 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki dæmt um sakarkostnað að svo stöddu. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og úrskurðar á ný.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2010

          Með bréfi 15. desember síðastliðinn, sem barst dóminum 17. sama mánaðar, vísaði ríkissaksóknari, fyrir hönd íslenska ríkisins, til dómsins kröfu varnaraðila, X, brasilísks ríkisborgar sem nú er gæslufangi á Litla-Hrauni, fæddur [...], um að hann skuli framseldur til Brasilíu.

Varnaraðili krefst þess að ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins frá 11. desember 2009, um að framselja varnaraðila til Brasilíu verði felld úr gildi.  Þess er krafist að þóknun réttargæslumanns varnaraðila verði greidd úr ríkissjóði.

Af hálfu íslenska ríkisins er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins að framselja varnaraðila til Brasilíu.

II

Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum fyrir því að orðið skuli við kröfu hans:  „Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 9. september 2009, barst ríkissaksóknara beiðni brasilískra dómsmálayfirvalda, dags. 20. ágúst 2009, um framsal varnaraðila, brasilísks ríkisborgara, til fullnustu refsidóma. Samkvæmt gögnum er fylgdu framsalsbeiðninni er hún til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt tveimur refsidómum:

1)                   Með dómi undirréttar í Sao Paulo frá 21. desember 1983 í máli nr. 163/82 var varnaraðili dæmdur í 5 ára fangelsi, 1 árs varðhald og til greiðslu sektar fyrir vopnað rán, þ.e. brot gegn I. og II. lið 2. mgr. 157. gr. brasilískra hegningarlaga, með því að hafa þann 30. maí 1981, nálægt Av. 9 de julho ásamt öðrum manni, rænt tvær konur eigum sínum með því að hóta þeim með byssu. Áfrýjunardómstóll í Sao Paulo mildaði refsingu varnaraðila í 2 ára fangelsi, auk sektargreiðslu, með ákvörðun í áfrýjunarmáli nr. 368.343/6 frá 5. september 1984.

2)                   Með dómi undirréttar í Pouso Alegre, Minas Gerais, frá 24. september 1998 í máli nr. 233/96 var varnaraðili dæmdur í 30 ára fangelsi og 13 mánaða varðhald fyrir mannrán, rán og mótþróa við handtöku, þ.e. 1. mgr. 159. gr., I. lið 2. mgr. 157. gr. og 329. gr. brasilískra hegningarlaga, sbr. 69. gr. sömu laga, og 1. gr. laga nr. 8072/90. Atvik málsins voru þau að þann 16. júní 1996, hjá versluninni Oficina de Pizzas í Pouso Alegre, neyddu tveir menn nafngreindan mann, með því að beina að honum byssu, til þess að aka með þá í bifreið hans eftir Fernao Dias hraðbrautinni þar sem þeir, um 40 km síðar, settu hann í farangursrými bifreiðarinnar og óku með hann að Américo Martins De Merlo n° 166 í Governador Valadares, Minas Gerais, þar sem honum var haldið föngnum af þriðja manni. Daginn eftir kröfðust mannræningjarnir 300.000 reais í lausnargjald. Þann 22. júní 1996 var ákveðið að lausnargjaldið yrði greitt á ákveðnum stað á Via Anhanguera hraðbrautinni. Bifreið með þremur farþegum var ekið að staðnum og er þeir hugðust sækja lausnarféð voru þeir handteknir af lögreglu en reyndu að komast hjá handtöku með því að skjóta úr byssum að lögreglu. Var varnaraðili einn hinna handteknu. Hann hafði hins vegar framvísað persónuskilríkjum annars manns. Mannræningjarnir stálu bifreið brotaþola, farsíma og armbandsúri. Þótti dóminum sannað að varnaraðili hefði skipulagt mannránið. Áfrýjunardómstóll í Belo Horizonte, Minas Gerais endurskoðaði refsiákvörðun dómsins og mildaði refsingu varnaraðila í 24 ára fangelsi og 13 mánaða varðhald þann 11. nóvember 2002 í máli nr. 1.0000.00.268432-2/000(1).

Samkvæmt gögnum málsins hóf varnaraðili afplánun þann 22. júní 1996, þ.e. daginn sem hann var handtekinn vegna brotanna sem hann var sakfelldur fyrir með hinum síðari dómi. Átti afplánun að ljúka þann 21. júlí 2021. Hinn 23. desember 2008 fékk varnaraðili jólaleyfi frá fangelsinu en sneri ekki aftur til afplánunar þann 3. janúar 2009, eins og ráðgert hafði verið. Þann 14. s.m. var gefin út handtökuskipun á hendur honum auk þess sem leyfi til hálfopinnar afplánunar var afturkallað og varnaraðila gert að snúa aftur í lokaða fangelsisvist. Þá gaf Interpol, þann 21. ágúst 2009, út alþjóðlega eftirlýsingu og beiðni um handtöku og gæslu varnaraðila (Red Notice).

Varnaraðili var handtekinn á Keflavíkurflugvelli þann 9. ágúst 2009, er hann framvísaði vegabréfi bróður síns. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi varnaraðila í 30 daga fangelsi fyrir brot gegn 1. mgr. 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hinn 12. s.m., sbr. mál nr. S-673/2009. Sem fyrr greinir barst ríkissaksóknara framsalsbeiðni brasilískra yfirvalda þann 9. september sl. Var varnaraðila formlega kynnt beiðnin þann 14. september sl. hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kvaðst varnaraðili kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann en hafnaði henni á þeim forsendum að gögnin væru ekki fullnægjandi og um væri að ræða hefndaraðgerð sem gerði mál hans að einstöku og pólitísku máli.

Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu álitsgerð um málið þann 12. október 2009, skv. 17. gr. laga nr. 1371984, að fengnum frekari upplýsingum frá brasilískum yfirvöldum. Taldi ríkissaksóknari efnisskilyrði framsals uppfyllt, sbr. einkum 1. og 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984, sem og formskilyrði, sbr. 12. gr. laganna. Réttargæslumaður varnaraðila sendi ráðuneytinu einnig ýmis gögn vegna málsins, síðast þann 9. nóvember 2009. Að ósk varnaraðila frestaði dómsmálaráðuneytið töku ákvörðunar um framsal hans, á meðan kærumál hans vegna ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 23. október 2009, um synjun á pólitísku hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, var til meðferðar hjá ráðuneytinu. Ráðuneytið úrskurðaði í kærumáli varnaraðila þann 10. desember 2009 og daginn eftir tók ráðuneytið þá ákvörðun að verða við beiðni brasilískra dómsmálayfirvalda um framsal hans til fullnustu eftirstöðva refsingar hans, sem samkvæmt gögnum málsins er um tólf og hálft ár. Í ákvörðun sinni tók ráðuneytið fram að hvorki persónulegar aðstæður varnaraðila né mannúðarsjónarmið gætu staðið í vegi fyrir framsali, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Þá þóttu aðstæður varnaraðila ekki með þeim hætti að synja ætti um framsal á grundvelli 6. gr. laganna. Enn fremur tók ráðuneytið fram að lög nr. 13/1984 geri ekki að skilyrði fyrir framsali að til staðar sé milliríkjasamningur milli Íslands og þess lands sem óskar framsals, auk þess sem varnaraðili þótti ekki hafa lagt fram gögn þeirri fullyrðingu hans til stuðnings að gögn málsins væru ófullkomin eða efnislega röng.“

III

Varnaraðili byggir kröfu sína aðallega á mannúðarsjónarmiðum, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984 svo og á 6. gr. sömu laga.  Hann lýsir aðbúnaði í fangelsinu í Brasilíu þar sem hann var vistaður svo:  „Fangelsið yfirfullt, tuttugu fangar í litlum klefa, tveir fangar deila rúmi, ekkert gler í gluggum, klefinn óupphitaður, engin snyrtiaðstaða og allt fullt af kakkalökkum.  Margir fangann hafi verið sjúkir, hóstandi og illa til reika.  Varnaraðili kveður lýsingu á aðstæðum í fangelsinu Penetentiary of Junqueiópolis vera fjarri lagi.  Þar séu aðstæður engu betri en í öðrum fangelsum í Brasilíu.  Íslensk stjórnvöld hafa ekki framkvæmt sjálfstæða rannsókn á aðstæðum í þessu fangelsi heldur taka það gott og gilt, sem brasilísk stjórnvöld hafa fullyrt um aðstæður í þessu fangelsi, þrátt fyrir lýsingar alþjóðlegra og sjálfstæðra stofnana um afleitar aðstæður í brasilískum fangelsum.  Varnaraðili telur það næsta víst, að verði hann framseldur muni ekki líða langur tíma að honum yrði fyrirkomið.“  Hann bendir á að lýsingar sínar á aðbúnaði í fangelsum í Brasilíu séu með svipuðum hætti og lýsingar Human Watch og Amnesty International, en landið hafi löngum sætt ámæli fyrir að virða ekki mannréttindi.  Þá kveðst hann óttast um líf sit verði hann framseldur. 

Þá bendir varnaraðili á að framsalskrafan sé gerð af dómara en ekki dómsmálaráðuneyti Brasilíu og ekki liggi fyrir með hvaða lagaheimild það sé gert.  Einnig bendir hann á að meðal gagna frá Brasilíu sé skjal sem undirritað sé af syni fyrrum lögreglustjóra í Sao Paolo, en varnaraðili kveðst hafa ritað bók um spillingarmál og mútuþægni lögreglustjórans.  Af þessum sökum kveður varnaraðili embættismanninn hafa horn í síðu sér. 

Varnaraðili byggir einnig á því að ekki sé til framsalssamningur milli Íslands og Brasilíu og bendir á að brasilísk yfirvöld hafi neitað að framselja Íslendingum fanga frá Brasilíu. 

IV

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu, þar á meðal endurrit þeirra dóma sem fullnusta á, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.  Þá er það ekki skilyrði fyrir framsali að samningur sé við ríkið sem fer fram á framsal sakamanns. 

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir eru talin varða við 252. gr. og 2. mgr. 226. gr. og 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Refsing fyrir brot gegn tveimur fyrstnefndu ákvæðunum getur varðað allt að 16 ára fangelsi, en allt að 8 ára fangelsi gegn hinu síðastnefnda. Skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt.  Fangelsisrefsing er ekki fallin niður, sbr. 83. gr. almennra hegningarlaga og er því einnig uppfyllt skilyrði 1. og 3. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.

Varnaraðili byggir kröfu sína á 6. og 7. gr. laga 13/1984.  Í fyrrnefndu greininni segir að ekki megi framselja mann ef veruleg hætta er á að hann, eftir framsal vegna kynþáttar, þjóðernis, trúar, stjórnmálaskoðana eða að öðru leyti, verði að sæta ofríki eða ofsóknum sem beinist gegn lífi hans eða frelsi eða er að öðru leyti alvarlegs eðlis.  Hér að framan var þess getið að varnaraðili kveðst hafa gagnrýnt brasilískan lögreglustjóra og eins hefur komið fram að hann hafi ritað bækur í fangelsinu þar sem hann hefur gagnrýnt aðbúnað í fangelsum í Brasilíu og annað viðvíkjandi fangelsismálum þar.  Þessa gagnrýni mun hann hafa haft í frammi meðan hann sat í fangelsinu og verður ekki séð, hvorki af skriflegum gögnum málsins né framburði hans að hann hafi verið látinn gjalda þess á einhvern hátt.  Í 7. gr. laganna segir að hafna megi kröfu um framsal í sérstökum  tilfellum ef mannúðarástæður mæli gegn því, svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar ástæður.  Varnaraðili verður 65 ára eftir nokkra daga og ekki er vitað annað en hann sé við góða heilsu.  Hann kom hingað til lands 9. ágúst síðastliðinn frá Noregi þar sem hann á son.  Talið var að hann væri á leið til Kanada en því hefur hann mótmælt og bar að hann hefði ætlað að setjast hér að.  Varnaraðili hefur með öðrum orðum engin tengsl við landið eða fólk búsett hér og því vandséð hvaða aðrar ástæður eigi að valda því að kröfu ríkissaksóknara verði hafnað.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákvæði 6. og 7. gr. laganna standi ekki í vegi fyrir því að verða við kröfu ríkissaksóknara. 

Samkvæmt framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 11. desember 2009 um að framselja hann til Brasilíu.  Þóknun réttargæslumanns varnaraðila skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

                Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 11. desember 2009 um að framselja varnaraðila, X, til Brasilíu, er staðfest.

                Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 789.646 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði.