Hæstiréttur íslands
Mál nr. 701/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Einkaréttarkrafa
- Frávísun frá héraðsdómi felld úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Brotaþoli, A, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Vesturlands 1. nóvember 2017, þar sem vísað var frá dómi einkaréttarkröfu brotaþola í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í u. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af hálfu brotaþola er þess krafist að fyrrgreint ákvæði héraðsdóms um að vísa einkaréttarkröfu hans frá dómi verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka „bæði miskabóta- og málskostnaðarkröfur“ hans til efnismeðferðar.
Hvorki sóknaraðili né varnaraðilar hafa látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi 29. apríl 2016 var X og Y gefin að sök líkamsárás aðfaranótt 26. júlí 2015 við [...] í [...], X með því að hafa slegið A hnefahögg í andlitið þannig að hann féll í götuna og vankaðist og Y með því að hafa sparkað í A þannig að sparkið fór ofarlega í búk og andlit, með þeim afleiðingum að A hlaut innkýlt brot í framvegg vinstri kjálkaholu, skurð lóðrétt í gegnum alla þykkt vinstri hluta efri varar og í gegnum hringvöðva munns og bólgu og mar á vinstri kinn. Var brotið talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Í málinu hafði áðurnefndur brotaþoli uppi þá kröfu að ákærðu yrðu dæmdir óskipt til að greiða sér 1.200.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 141.448 krónur og málskostnaðar við að halda bótakröfu sinni fram fyrir dómi.
Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 1. nóvember 2017 voru ákærðu sýknaðir af broti gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. sömu laga. Sem fyrr greinir var áðurnefndri einkaréttarkröfu brotaþola vísað frá dómi. Voru þau rök færð fyrir þeirri niðurstöðu að ákærðu hefðu verið sýknaðir af því að hafa verið valdir að þeim áverkum brotaþola, sem lýst væri í ákæru, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Í 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 segir að ef sakamál er fellt niður, því vísað frá dómi eða ákærði sýknaður með dómi, án þess að það hafi verið vegna þess að hann sé talinn ósakhæfur, skuli dómari vísa kröfu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 172. gr. af sjálfsdáðum frá dómi. Skuli það gert með dómi eða að öðrum kosti með úrskurði, þar á meðal ef málið er fellt niður.
Eins og áður greinir voru ákærðu sýknaðir af broti gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. laganna. Með því að ákærðu voru samkvæmt þessu sakfelldir í málinu standa ákvæði 2. mgr. 176. gr. ekki til þess að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi. Verður ákvæði héraðsdóms þar um því fellt úr gildi og lagt fyrir dóminn að taka kröfuna til efnismeðferðar, en jafnframt þarf að taka afstöðu til málskostnaðarkröfu brotaþola, sbr. 3. mgr. 176. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um að vísa frá dómi einkaréttarkröfu brotaþola, A, er fellt úr gildi og lagt fyrir dóminn að taka kröfuna til efnismeðferðar.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. nóvember 2017.
I.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Vesturlandi, dags. 29. apríl 2016, á hendur X, kt. [...], [...], Snæfellsbæ, og Y, kt. [...], [...], Snæfellsbæ. Málið var dómtekið 4. október 2017. Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærðu „fyrir líkamsárás aðfaranótt 26. júlí 2015 við [...] í [...], með því að hafa veist að A, kt. [...],
a) ákærði X með því að hafa slegið A hnefahögg í andlit þannig að hann féll í götuna og vankaðist,
b) ákærði Y með því að hafa sparkað í A þannig að sparkið fór ofarlega í búk og í andlit,
með þeim afleiðingum að A hlaut innkýlt brot í framvegg vinstri kjálkaholu, skurð lóðrétt í gegnum alla þykkt vinstri hluta efri varar og í gegnum hringvöðva munns (m. obiculari oris) og bólgu og mar á vinstri kinn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Í málinu hefur Arnar Þór Stefánsson hrl. lagt fram skaðabótakröfu f.h. A, kt. [...], og krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða A in solidum 2.000.000 kr. í miskabætur auk vaxta skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. júlí 2015 þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er gerð krafa um að ákærðu verði dæmdir til að greiða A útlagðan kostnað sem hann kann að verða fyrir vegna málsins og þóknun tilnefnds og skipaðs réttargæslumanns skv. 48. gr. sakamálalaga nr. 88/2008.“
Lögmaður brotaþola lét bóka við aðalmeðferð málsins lækkun á bótakröfu brotaþola á þann veg að höfuðstóll skaðabótakröfu lækkaði í 1.200.000 krónur og að útlagður kostnaður vegna tannlæknis næmi alls 141.448 krónum. Þá krefst hann greiðslu lögmannskostnaðar við að halda kröfu sinni fram fyrir dómi.
Ákærði X krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess að refsing verði felld niður eða að honum verði ákveðin vægasta refsing sem lög leyfi. Ákærði krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en að öðrum kosti verði hann sýknaður af henni. Loks krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, hver sem úrslit málsins verða.
Ákærði Y krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds og að bótakröfu verði vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 172. gr. laga nr. 88/2008. Til vara krefst hann þess að ákærða verði ekki gerð refsing og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til þrautavara krefst ákærði þess að verði lagaskilyrði talin vera fyrir hendi til refsiábyrgðar verði hann dæmdur í þá vægustu refsingu sem lög leyfa og að bótakröfur verði stórlega lækkaðar. Í öllum tilvikum er þess krafist að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda skv. málskostnaðaryfirliti.
II.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumenn staddir við hafnarsvæðið í [...] kl. 04.26, aðfaranótt sunnudagsins 26. júlí 2015, þegar þeim bárust upplýsingar um slagsmál á grashól við [...] hjá [...].. Þegar þeir komu á staðinn hafi hópur fólks verið dreifður þar um nokkuð stórt svæði. Hafi fólkið verið æst og öskur og barsmíðar gengið á víxl. Lögreglan hafi fljótlega séð brotaþola mikið blóðugan í andliti. Hafi hann verið æstur og í fyrstu ekki viljað þiggja aðstoð. Hafi skurður verið á efri vör hans og hann haltrað. Hann hafi svo verið fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæsluna í [...]
Þriðjudaginn 28. júlí 2015 mætti brotaþoli til skýrslutöku hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að eigin frumkvæði til þess að leggja fram kæru á hendur fjórum nafngreindum mönnum, þ. á m. ákærðu, vegna líkamsárásar hinn 26. sama mánaðar. Lýsti brotaþoli atvikum þannig að hann hefði verið ásamt öðru fólki á leiðinni gangandi upp á tjaldstæðið á [...] þegar einn í hópnum hefði kastað lítilli bjórdós, hálffullri af bjór, yfir hóp af fólki. Við það hefðu kærðu orðið brjálaðir. Hefðu þeir komið upp að brotaþola og félögum hans nálægt bryggjunni og byrjað að rífast. Kærðu hefðu svo elt þau áfram og alltaf verið að segja eitthvað við þau og reyna að búa til vesen. Þegar þau hefðu komið upp á tjaldstæðið hefði systir brotaþola gengið upp að einum hinna kærðu og gert athugasemdir við framgöngu þeirra. Hafi maðurinn þá sagst ætla að lemja hana, ýtt við henni og þá hafi allt sprungið. Kvaðst brotaþoli hafa sett hendur upp í loft og sagst ekki vera að fara að slást við neinn. Hann myndi svo næst eftir sér þar sem hann stóð við hliðina á systur sinni með áverka á vörinni. Hann kvaðst óljóst muna eftir að hafa verið að glíma við einhvern mann. Hann hefði svo fengið högg, en hann vissi ekki hvort það hefði verið hnefahögg eða spark. Spurður frekar um áverka kvaðst hann, auk þess að fá skurð á efri vör, hafa kinnbeinsbrotnað, augntóft vinstra megin væri brotin, liðþófi sennilega skaddaður í hægra hné og taugaendi í andliti sennilega skaddaður þar sem hann væri enn dofinn í andliti.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð B, sérfræðings í lýtalækningum á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, vegna komu brotaþola á slysa- og bráðadeild Landspítala að morgni umrædds dags. Kemur þar fram að brotaþoli hafi fyrst fengið aðhlynningu á heilsugæslunni í [...] fyrr um nóttina, en þar hafi sár á efri vör hans verið saumað til bráðabirgða. Hafi hann svo verið fluttur á Sjúkrahúsið á Akranesi til frekari greiningar og meðhöndlunar. Þar hafi verið gerð tölvusneiðmynd af andliti og niðurstaðan verið eftirfarandi: „Innkýlt brot brot sést í framvegg vinstri kjálkaholu. Lítið frakment sést í mjúkpörum fram við sinusinn, Einnig er nokkuð blóð í honum og stórt hematoma í mjúkvefjum. Ekki sjást önnur brot.“ Brotaþoli hafi loks verið sendur á slysa- og bráðadeild Landspítala til enn frekari meðhöndlunar. Hafi vakthafandi sérfræðingur gefið það álit á andlitsbroti að ekki væri talin ástæða til inngrips vegna þess, enda talið að það myndi gróa án afmyndunar í andliti. Hins vegar hafi það verið niðurstaða sérfræðings á lýtadeild að lagfæra þyrfti skurð á efri vör frekar með skurðaðgerð. Í þeirri aðgerð hafi komið í ljós að áverkinn væri mun dýpri og meiri en í fyrstu hafi verið talið og að „skurðurinn, sem liggur lóðrétt í vinstri hluta efri varar, nær alveg í gegnum vörina, alla þykkt varar og langt inní slímhúð munns og upp að sulcus. Skurðurinn nær rúma 2 cm upp fyrir varalínuna og alveg í gegn inn í munnholið. Hringvöðvi munns (m.Orbicularis Oris) er alveg í sundur á þessu svæði. Ekki sjáanlegur áverki á tönnum eða tannholdi.“ Hafi skurðurinn verið saumaður í 2-3 lögum og hafi gott útlit fengist á varalínu, sem áður hafi verið mjög skökk. Brotaþoli hafi komið á ný til skoðunar og saumatöku 31. sama mánaðar. Hafi skurðsárið þá litið vel út miðað við aðstæður og engin merki verið um sýkingu. Bólga hafi verið yfir vinstra kinnbeini og mar. Loks segir svo í álitskafla vottorðsins: „Áverki sem þessi í andliti verður að teljast nokkuð alvarlegur. Ljóst er að ör á efri vör og þar fyrir ofan er varanlegt. Það tekur um 12 mánuði fyrir örið að ná endanlegum þroska og aðeins þá er hægt að meta hvort þurfi lagfæringar.“
Jafnframt liggur fyrir í málinu vottorð C tannlæknis, dags. 18. janúar 2017, vegna meðhöndlunar brotaþola vegna bólgueinkenna og verkja frá kjálkalið og hálsvöðvum. Kemur þar m.a. fram eftirfarandi: „Líklegt er að kjálkaliður hafi hnaskast við höfuðhögg sem hann varð fyrir þegar hann fékk spark í höfuðið 26. júlí 2015. Miðað við áverka þess atburðar er mjög líkleg að tilfærsla hafi orðið inni í kjálkalið með tilheyrandi bólgumyndun og verkjum, Tönn 22, vinstri hliðarframtönn, brotnaði einnig í insisivkanti ca 2 mm af. Einnig er A með dofa í tönnum og tannbeini auk kinnbeins að hluta eftir þennan áverka.“
Í málinu liggur fyrir myndupptaka af vettvangi sem sýnir átök á milli brotaþola annars vegar og hins vegar ákærðu V og X og var hún sýnd í upphafi aðalmeðferðar.
III.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði X kvaðst umrætt sinn hafa verið að koma af dansleik í [...] ásamt konu sinni, ákærða Y og fleirum. Þau hefðu verið að rölta áleiðis að bíl til þess að fá far til [...] þegar einhver úr hópi með brotaþola hefði kastað bjór í þau. Í kjölfarið hefðu tveir menn, annar þeirra brotaþoli, komið að þeim. Hefði brotaþoli rifið sig úr að ofan og ráðist að manni sem var með ákærða. Hefði þessi atlaga síðan beinst að ákærða Y. Kvaðst ákærði hafa skynjað þetta þannig að hópur sem brotaþoli var í hefði setið fyrir þeim. Ákærði Y hefði snúist til varnar og ráðist á brotaþola. Kvaðst ákærði hafa ætlað að stoppa þessa atburðarás en þá hefði brotaþoli snúið sér við og kýlt til hans. Hann hefði þá sjálfur reynt að verja sig og ýtt brotaþola frá. Brotaþoli hefði við það fallið en haldið svo áfram og ráðist á fleiri af félögum ákærða.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið búinn að drekka nokkra bjóra umrætt sinn. Sagðist hann vera rétthendur og að hann hefði ekki þurft að leita sér læknisaðstoðar eftir atburðinn. Hann væri klár á því að hópur sem tilheyrði brotaþola hefði átt upptökin að átökunum. Spurður út í myndskeið, þar sem brotaþoli sést vera í slagsmálum við ákærða Y og ákærði kemur þar að, kvaðst hann hafa viljað stoppa það sem var í gangi. Ráðist hefði verið á ákærða Y og kvaðst ákærði þá hafa ætlað að draga hann með sér og fara með hann út í bíl. Brotaþoli hefði þá snúið sér við, komið fljúgandi með hægri höndina, sem hefði farið eftir öllu andlitinu á honum og upp. Kvaðst ákærði hafa reynt að forða sér og ýtt brotaþola frá sér, sem hafi valdið því að brotaþoli féll við. Aðspurður kvað ákærði brotaþola hafa slegið sig höggi sem hafi ekki endilega hitt hann vel en farið í bringuna á honum og meðfram andlitinu. Sjálfur kvaðst ákærði fremur hafa ýtt brotaþola en slegið og að útilokað væri að hann hefði stórskaðað brotaþola vinstra megin í andliti. Ákærði kvaðst hafa misst jafnvægið og höndin „runnið til hægra megin.“ Hann hefði náð að ýta á brotaþola og hafi vinstri hönd hans lent á hægri hluta andlits brotaþola, höku eða öxl. Spurður hvort brotaþoli hafi dottið í jörðina í kjölfar þessa kvað ákærði brotaþola ekki hafa verið í jafnvægi þegar hann nálgaðist hann. Ákærði kvaðst ekki sjálfur hafa orðið vitni að frekari átökum í kjölfarið heldur eingöngu séð þau síðar á myndupptöku.
Ákærði Y neitaði að hafa sparkað í andlit brotaþola umrætt sinn. Kvaðst hann hafa verið að koma af balli ásamt ákærða X og konunum þeirra. Þau hefðu verið að labba upp í bíl þegar einn úr hópi brotaþola hefði hent bjór yfir þau. Þau hefðu þá snúið sér við og spurt hvað væri í gangi. Hefði brotaþoli þá verið mjög æstur og haft sig mikið í frammi. Þau hefðu hins vegar ákveðið að halda áfram en stoppað við Samkaup og verið þar að spjalla saman þegar sami hópur hefði ráðist að félögum þeirra, D og E. Ákærðu hefðu ætlað að stoppa átökin en lætin þá byrjað og allt gerst hratt. Sjálfur kvaðst ákærði hafa verið kýldur og þurft að verja sig. Sjá megi á myndupptökunni að ekki hafi verið fullur þungi í sparki sem hann gaf brotaþola. Hann hefði dregið úr sparkinu. Hann teldi þó ekki að hann hefði verið að verjast þegar hann sparkaði í brotaþola en í þessum æsingi og látum hefði þetta endað svona. Hann sagðist ekki hafa getað forðað sér af vettvangi þar sem margir hefðu ráðist að þeim í einu. Þá hefði konan hans, kona meðákærða o.fl. verið þarna enn á staðnum og hann því ekki viljað fara frá þeim. Aðspurður kvaðst ákærði hafa fengið á sig högg áður en myndupptakan hófst því að brotaþoli hefði þá verið búinn að gera nokkrar atlögur að honum. Kvaðst ákærði hafa fengið glóðarauga undan höggum frá honum.
Brotaþoli, A, kvaðst hafa verið á leiðinni af balli og upp á tjaldstæði með félögum sínum þegar einn þeirra hefði kastað bjórdós yfir hóp af mönnum þannig að skvettst hefðu einhverjir dropar á þá. Þeir hefðu þá sturlast og farið að rífast við brotaþola. Þegar hann hefði ætlað að ganga í burtu hefðu þeir komið á eftir. Þetta hefði hafist á bryggjunni og á leiðinni upp að Samkaupum hefðu þeir alltaf verið að hreyta einhverju í þau. Systir brotaþola hefði svo snúið sér við og sagt þeim að hætta þessu. Þá hefði einn þeirra rifið í hana, hent henni í jörðina og sagt henni að þeir ætluðu að berja hana líka. Við það hefði allt sprungið og slagsmál byrjað. Hann kvaðst síðan lítið muna í kjölfarið. Hann kvaðst muna eftir aðdraganda átakanna og að hafa slegið í átt að ákærða Y en ekki hitt. Hann myndi hins vegar ekki eftir að hafa slegið til ákærða X og ekki eftir að hann hefði sjálfur verið sleginn niður. Hann hefði verið undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna umrætt sinn, bæði áfengis og kókaíns. Aðspurður kvaðst hann hafa tvíbrotnað í andlitinu og fengið þar skurð. Sé hann eftir þetta tilfinningalaus á vissu svæði í andlitinu. Þá hafi rifnað liður í hægra hnénu á honum, puttinn á honum hafi brotnað og hann hafi fengið sýkingu í beinið í kjölfarið. Aðspurður kvaðst hann fyrst hafa haldið að hann hefði fengið áverkana við að falla í grasið en hefði komist að því, eftir að hafa talað við fólkið á svæðinu og séð myndbandið, að hann hefði fengið umrædda áverka af öðrum ástæðum. Honum hefði liðið illa eftir umrædda atburði. Hann væri búinn að vera hjá geðlækni og fyndi fyrir miklum kvíða. Aðspurður kvaðst hann áður hafa lent í slagsmálum en ekki vita hversu oft.
Vitnið E lýsti atvikum þannig að hann hefði verið á leið af balli ásamt öðrum er hópur fólks hefði staðið og verið að grýta bjórdósum í áttina að þeim. Kvaðst hann hafa gengið að brotaþola og sagt: ,,Þið viljið engin vandræði við okkur og við viljum engin vandræði.“ Þegar hann hefði svo ætlað að ganga í burtu hefðu allt í einu hafist slagsmál. Einhver vinur brotaþola hefði komið og byrjað að slá vitnið. Svo hefði verið komið aftan að honum, hann tekinn af þremur eða fjórum, hann bitinn, klóraður og í hann sparkað. Kvaðst hann ekki hafa séð ákærðu veitast að brotaþola. Spurður um atvik á myndupptöku þar sem hann liggur á fjórum fótum og maður er að slá hann kvað hann það vera brotaþola sem hafi verið að slá hann. Brotaþoli hefði verið allur blóðugur og hefði hann sparkað í sig og slegið. Hefði mikið blóð verið á fötum vitnisins eftir þetta og minnst af því úr honum sjálfum.
Vitnið D lýsti atvikum þannig að hann hefði ásamt öðrum verið að ganga upp í bíl þegar fljúgandi bjórdós kom inn í hópinn og brotist hefðu út slagsmál. Hann hefði svo allt í einu verið kominn í jörðina og einhverjir að sparka í hann á fullu. Síðan hefðu F, G og fleiri komið að og leyst hann frá þessum strákum og leitt hann inn í bíl. Hann hefði ekki séð ákærðu veita brotaþola umrædda áverka.
Vitnið H, bróðir brotaþola, kvaðst hafa verið í slagsmálum við hóp manna, ásamt brotaþola, I systur þeirra, I og einhverjum fleirum. Kvaðst hann ekki hafa séð átök ákærðu við brotaþola, en hann hefði séð brotaþola eftir á og þá hefði verið augljóst að hann hefði verið sleginn.
Vitnið I, systir brotaþola, kvaðst ekki heldur hafa séð átök ákærðu við brotaþola. Um hefði verið að ræða hópslagsmál þar sem allir hefðu verið að slást við alla. Margir hefðu veitt brotaþola högg og spörk og hefði hann fengið mörg högg á sig áður en hann fékk stóra skurðinn. Hefði hún fyrst tekið eftir skurðinum á andliti brotaþola þegar hann settist við hlið hennar á bekk, en þá hefðu slagsmálin verið ennþá í gangi. Brotaþoli hefði síðan verið rifinn aftur inn í slagsmálin.
Vitnið J sagðist ekki hafa séð ákærðu veita brotaþola áverka. Kvaðst hann hafa legið á jörðinni og orðið fyrir barsmíðum og ekki séð annað sem var að gerast. Kvaðst hann hafa séð brotaþola í einhverjum átökum og síðar hefði hann séð að vörin á brotaþola væri sprungin. Hann kvaðst ekki muna hver kýldi hvern og gæti því ekki sagt til um það hver hefði slegið brotaþola. Kvaðst hann hafa séð einhvern sparka í andlit brotaþola en vissi ekki hver það hefði verið.
Vitnið G lýsti atvikum þannig að hann hefði verið að skemmta sér með ákærðu umrætt kvöld. Kvaðst hann muna eftir því að þeir hefðu ásamt öðrum verið að ganga upp frá bryggjunni er bjórdós hefði verið kastað inn í hópinn. Slagsmál hefðu byrjað en hann kvaðst hins vegar ekki hafa séð þegar brotaþola voru veittir áverkar.
Vitnið K, kunningi brotaþola, kvaðst hafa verið við gæslu á balli í [...] og verið á heimleið er hann sá að brotist hefðu út slagsmál. Kvaðst hann hafa séð brotaþola í átökum úti á götu við mann, sem sló hann í andlitið. Við það hefði brotaþoli virst vankast en þá hefði annar maður komið og sparkað af alefli í andlit brotaþola. Kvaðst hann hvorki geta sagt til um það hverjir það voru sem veittu brotaþola áverka né lýst því hvernig þeir voru klæddir. Kvaðst hann ekki hafa séð brotaþola í átökum eftir þetta en brotaþoli hefði augljóslega verið reiður, valsað um og öskrað. Kvaðst vitnið hafa séð brotaþola slást við einhverja aðra áður en hann síðan fékk umrædda áverka.
Vitnið L, eiginkona ákærða Y, kvaðst hafa séð þegar ákærði Y sparkaði, eða hefði ætlað að sparka, í brotaþola. Hún kvaðst hins vegar ekki muna eftir að hafa séð brotaþola veitast að Y. Kvaðst hún minnast þess að brotaþoli hefði klætt sig úr og verið að gera sig kláran í eitthvað í upphafi.
Vitnið M, fyrrverandi eiginkona ákærða X, lýsti því að ákærðu hefðu verið orðnir ergilegir yfir áreiti hóps manna umrætt sinn og að á örskotsstundu hefðu brotist út slagsmál. Hefði hún aldrei séð þessa menn áður og gæti líklega ekki þekkt neinn þeirra aftur í dag. Sagði hún að ákærði X hefði verið að verja sig þegar ráðist hefði verið að honum. Hún kvaðst þó ekki geta sagt til um það hver hefði kýlt fyrst eða hafið átökin. Hefði hún aldrei lent í neinu slíku áður og viljað komast í burtu. Kvaðst hún eiga erfitt með að lýsa slagsmálunum sjálfum. Þetta hefði gerst hratt og hún verið í áfalli.
Vitnið N kvaðst hafa farið nokkuð á undan ákærðu og félögum þeirra og verið sestur inn í bíl þegar hann heyrði öskur og skarkala og leit út. Kvaðst hann hafa séð báða ákærðu og brotaþola alblóðugan hjá þeim, en þó ekki séð hvað gerst hefði á milli þeirra.
Vitnið F kvaðst hafa staðið nokkuð álengdar þegar hann sá að ákærði Y var sleginn niður og að ákærði X var að reyna að verja hann. Hann hefði þó séð hvorugan ákærðu slá til viðkomandi. Í framhaldi hefðu hins vegar orðið mikil átök.
Vitnið B lýtalæknir sagðist ekki hafa skoðað brotaþola eftir að hún ritaði það vottorð sem liggur frammi í málinu. Taldi hún að áverkin á vör brotaþola væri varanlegur. Skurðurinn hefði náð í gegnum öll lög vararinnar, hringvöðvinn farið í sundur og að þarna muni myndast varanlegur örvefur. Gæti áverki þessi valdið skynbrottfalli í kringum skurðinn og valdið þar dofa, þetta geti þó smám saman gengið til baka.
Þrír lögreglumenn sem komu á vettvang lýstu aðkomu sinni að málinu. Urðu þeir ekki vitni að umræddum átökum en höfðu afskipti af brotaþola. Hann hefði verið alblóðugur og mjög æstur.
IV.
Niðurstaða
Ákærðu er gefin að sök líkamsárás með því að hafa ráðist að brotaþola, ákærði X með því að slá brotaþola hnefahöggi í andlitið svo að hann féll í götuna og vankaðist og ákærði Y með því að sparka í brotaþola. Neita báðir ákærðu sök í málinu. Þeir hafa báðir lýst því að brotaþoli hafi umrætt sinn veist að þeim og vinum þeirra með látum. Var framburður ákærða X fyrir dómi á þann veg að hann hefði umrætt sinn ætlað að hjálpa ákærða Y að verjast árás brotaþola, en þá hefði brotaþoli snúið sér við og kýlt til hans. Kvaðst hann einungis hafa ýtt brotaþola frá sér, sem hefði valdið því að brotaþoli féll við. Hefði vinstri hönd hans lent á hægri hluta andlits brotaþola, höku eða öxl. Ákærði hafði hins vegar áður kannast við það hjá lögreglu að hann hefði slegið brotaþola einu höggi en sagði þó að brotaþoli hefði áður verið búinn að slá hann. Framburður ákærða Y fyrir dómi var á þann veg að hann kannaðist við að hafa sparkað í brotaþola. Það spark hefði hins vegar ekki verið þungt og ekki lent í andliti brotaþola. Brotaþoli hefur lítið getað lýst atvikum umrætt sinn. Hann mundi einungis eftir aðdraganda átakanna og að hafa slegið í áttina að ákærða Y, án þess þó að hitta. Hins vegar mundi hann ekki eftir að hafa slegið til ákærða X og ekki eftir að hafa sjálfur verið sleginn niður. Vitnið K kvaðst hafa séð brotaþola í átökum við mann, sem sló hann í andlitið, og að annar maður hefði þá komið þar að og sparkað af alefli í andlit brotaþola. Kvaðst vitnið hvorki geta sagt til um það hverjir það voru sem veittu brotaþola áverka né lýst því hvernig þeir voru klæddir. Þá bar vitnið J að hann hefði séð einhvern sparka í andlit brotaþola en að hann vissi þó ekki hver það hefði verið. Í málinu liggur fyrir myndupptaka af vettvangi sem óumdeilt er að sýnir umrædd átök milli ákærðu annars vegar og brotaþola hins vegar. Má þar greinilega sjá hvar ákærði X ræðst til atlögu við brotaþola og veitir honum hnefahögg, sem virðist beint að höfði brotaþola. Við höggið fellur brotaþoli við og í kjölfarið kemur ákærði Y aðvífandi og sparkar í brotaþola. Verður hvorki séð með vissu að sparkinu hafi verið beint að höfði brotaþola né að það hafi lent þar. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að sönnun sé komin fram um að ákærðu hafi umrætt sinn veist að brotaþola, að ákærði X hafi slegið brotaþola hnefahögg í andlitið og að ákærði Y hafi sparkað í hann. Hins vegar verður ekki talið sannað, gegn neitun ákærða Y, að spark hans hafi lent í andliti brotaþola heldur ofarlega í búk hans.
Í ákæru er á því byggt að þessar atlögur ákærðu hafi haft þær afleiðingar að brotaþoli hafi við þær hlotið innkýlt brot í framvegg vinstri kjálkaholu, skurð lóðrétt í gegnum alla þykkt vinstri hluta efri varar og í gegnum hringvöðva munns (m. obiculari oris) og bólgu og mar á vinstri kinn. Er háttsemi ákærðu í ákæru talin varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enda þótt telja verði nægilega fram komið, með fyrirliggjandi læknisvottorði og vætti læknis, að brotaþoli hafi hlotið framangreinda áverka í átökum umrædda nótt verður til þess að líta að ekkert vitni sem kom fyrir dóminn gat með vissu staðfest að ákærðu hefðu veitt brotaþola þá áverka sem getið er um í ákæru. Þá verður ráðið af fyrrgreindri myndupptöku af vettvangi og af framburði vitna fyrir dómi að brotaþoli var í átökum við fleiri en ákærðu, bæði þar á undan og á eftir. Þannig kom fram hjá I, systur brotaþola, að brotaþoli hefði sest við hlið hennar á bekk og hafi hann þá verið með skurð í andliti. Hópslagmál hefðu þá enn verið í gangi og hefði brotaþoli í kjölfarið verið „rifinn aftur inn í slagsmálin“. Sagði hún að brotaþoli hefði fengið mörg högg á sig áður en hann fékk skurðinn og að margir hefðu veitt brotaþola högg og spörk í slagsmálunum umrætt sinn. Þá lýsti vitnið E því að hann hefði í greint sinn lent í átökum við brotaþola, sem hefði þá allur verið blóðugur. Kvað vitnið þau átök koma fram á fyrrgreindri myndupptöku og sjáist þar hvar brotaþoli sé að sparka í hann og slá þar sem hann sé á fjórum fótum. Þá verður og ráðið af framburði vitnisins K að brotaþoli hafi slegist við fleiri en ákærðu umrætt sinn. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ekki sé komin fram sönnun fyrir því að brotaþoli hafi hlotið þá áverka af völdum árása ákærðu sem í ákæru greinir. Að fenginni þessari niðurstöðu, og þar sem ljóst má vera af myndupptöku af árásunum að þær geta með engu móti réttlæst af neyðarvörn, verða ákærðu sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
Hvorugur ákærðu hefur áður hlotið refsingu svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar verður að taka tillit til þess að ákærðu gerðust sekir um áðurgreind brot í átökum við brotaþola, en upptökin að þeim verða ekki frekar rakin til ákærðu en brotaþola. Ber því að horfa til ákv. 3. mgr. 218. gr. c í almennum hegningarlögum. Að því virtu þykir refsing þeirra hvors fyrir sig hæfilega ákveðin 200.000 króna sekt í ríkissjóð.
Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri ákærðu af því að hafa verið valdir að þeim áverkum brotaþola sem lýst er í ákæru verður bótakröfu brotaþola vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.
Þar sem ákærðu hafa verið sýknaðir af hluta ákærunnar þykir rétt að þeir greiði hvor fyrir sig helming af útlögðum kostnaði og helming af þóknun og ferðakostnaði skipaðs verjanda síns, en helmingur greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Við rannsókn máls þessa hjá lögreglu var Arnar Þór Stefánsson hrl. tilnefndur réttargæslumaður fyrir brotaþola. Samkvæmt ákæru voru brot ákærðu, sem áður segir, talin varða við ákvæði 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en læknisfræðileg gögn málsins báru ekki með sér að brotaþoli hefði vegna þeirra orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða andlegu heilbrigði. Var af þessum sökum ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að tilnefna honum réttargæslumann. Verður sakarkostnaður þessi því felldur á ríkissjóð, eins og greinir í dómsorði.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði X greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.
Ákærði Y greiði 200.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 14 daga fangelsi í stað sektar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.
Ákærði X greiði helming 1.100.000 króna þóknunar skipaðs verjanda síns, Þorsteins Einarssonar hrl., á rannsóknarstigi og fyrir dómi, og helming af 44.880 króna ferðakostnaði, en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Y greiði helming 1.100.000 króna þóknunar og 63.220 króna ferðakostnaðar skipaðs verjanda síns, Braga Björnssonar hdl., en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði
Ákærðu greiði óskipt helming af 40.000 króna útlögðum sakarkostnaði en hinn helmingurinn greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun Arnars Þórs Stefánsson hrl., tilnefnds réttargæslumanns brotaþola á rannsóknarstigi, að fjárhæð 130.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.