Hæstiréttur íslands

Mál nr. 143/2002


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Kaupsamningur
  • Málsástæða
  • Skoðunarskylda


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. október 2002.

Nr. 143/2002.

Eignarhaldsfélag Hörpu hf.

(Ólafur Gústafsson hrl.)

gegn

Kristni Guðmundssyni

Jónínu Gunnarsdóttur

Gunnari Rúnari Kristinssyni

Hilmari Kristinssyni

Guðmundi Má Kristinssyni og

Ölmu Dís Kristinsdóttur

(Hanna Lára Helgadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Hlutafélög. Kaupsamningur. Málsástæður. Skoðunarskylda.

E hf. keypti allt hlutafé K og fjölskyldu hans í fyrirtækinu K ehf. Þar sem E hf. taldi að ársreikningur félagsins hefði ekki gefið rétta mynd af fjárhag þess höfðaði það mál til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna kaupa á fyrirtækinu. Var annars vegar um að ræða ágreining um verðmæti vörubirgða, sem E hf. taldi ofmetið, og hins vegar ábyrgð á því að í ársreikningnum hefði ekki verið getið um ógreiddar orlofsskuldbindingar. Fallist var á það með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að í kaupsamningi aðila hefði E hf. látið undir höfuð leggjast að kanna nánar þau gögn um verðmæti vörubirgða sem honum voru fengin og gáfu tilefni til rannsóknar, sbr. 47. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Hefðu K og fjölskylda hans því hvorki vanrækt upplýsingaskyldu sína né sýnt af sér aðra saknæma háttsemi við gerð kaupsamningsins. Hins vegar var talið ósannað að K og fjölskylda hans hefðu gefið um það upplýsingar fyrir kaupin að ógreiddar orlofsskuldbindingar vegna áunnins orlofs starfsmanna hefðu ekki verið færð í ársreikning fyrirtækisins. Var K og fjölskyldu hans því sýknuð af kröfu E hf. um skaðabætur eða afslátt en gert að greiða umræddar orlofsskuldbindingar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2002. Hann krefst þess aðallega, að gagnáfrýjendur verði aðallega óskipt en til vara samkvæmt skiptri ábyrgð dæmdir til að greiða sér 6.084.225 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 2000 til 27. júní 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla þeirra laga frá þeim degi til 1. júlí sama ár en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess, að gagnáfrýjendur verði aðallega óskipt en til vara samkvæmt skiptri ábyrgð dæmdir til að greiða sér aðra lægri fjárhæð en í aðalkröfu greinir en hærri en eftir þrautavarakröfu með vöxtum, eins og krafist er í aðalkröfu. Til þrautavara er þess krafist, að gagnáfrýjendur verði aðallega óskipt en til vara samkvæmt skiptri ábyrgð dæmdir til að greiða aðaláfrýjanda 2.134.451 krónu með vöxtum eins og greinir í aðalkröfu. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Sú breyting hefur orðið á kröfugerð aðaláfrýjanda frá því í héraði, að hann hefur fallið frá kröfuliðnum „Ónýtar og úreltar vörur“ að fjárhæð 625.690 krónur.

Málinu var gagnáfrýjað 8. maí 2002. Gagnáfrýjendur krefjast þess aðallega, að héraðsdómur verði staðfestur um annað en skyldu þeirra til að greiða aðaláfrýjanda 452.499 krónur ásamt vöxtum og verði þeir sýknaðir af þessari kröfu. Þá er krafist hærri málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda en dæmdur var í héraði auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast gagnáfrýjendur þess, að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður.

Atvikum málsins og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram vísaði lögmaður aðaláfrýjanda við munnlegan málflutning í héraði til nokkurra lagaákvæða um ábyrgð stjórnenda hlutafélaga við gerð ársreikninga á þeim upplýsingum, sem þar kæmu fram eða væru vantaldar. Hann nefndi sérstaklega 3. gr. og 52. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga, 5. gr. og 22. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald og 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Verður ekki fallist á, að þessar tilgreiningar feli í sér nýjar málsástæður, er gerbreyti bótagrundvelli málsins, heldur er hér um ræða lagarök til stuðnings áður fram komnum málsástæðum aðaláfrýjanda um ábyrgð seljenda hlutafjár Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. á því, að ársreikningur félagsins hafi ekki gefið rétta mynd af fjárhag þess.

Verðmæti vörubirgða í óendurskoðuðum ársreikningi hins selda félags fyrir árið 1999 nam rúmlega þrefaldri bókfærðri eiginfjárstöðu þess og rúmlega helmingi skulda. Verður ekki undir það tekið með héraðsdómi, að það hafi ekki skipt aðaláfrýjanda verulegu máli við samningsgerðina. Eins og málið liggur fyrir verður hins vegar að telja, að viðskiptavild félagsins, viðskiptasambönd og ónotað skattalegt tap í árslok 1999 hafi ráðið úrslitum um þá ákvörðun aðaláfrýjanda að ganga til samninga við gagnáfrýjendur. Á það er fallist með héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að í þeim samningum hafi aðaláfrýjandi látið undir höfuð leggjast að kanna nánar þau gögn um verðmæti vörubirgða, sem honum voru fengin og gáfu tilefni til rannsóknar, sbr. 47. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi á báðum dómstigum, eins og í dómsorði greinir.       

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Eignarhaldsfélag Hörpu hf., greiði gagnáfrýjendum, Kristni Guðmundssyni, Jónínu Gunnarsdóttur, Gunnari Rúnari Kristinssyni, Hilmari Kristinssyni, Guðmundi Má Kristinssyni og Ölmu Dís Kristinsdóttur, sameiginlega 600.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. desember 2001.

Málið var höfðað 27. júní 2001 og dómtekið 4. desember síðastliðinn.  Stefnandi er Harpa hf., kt. 600169-2629, Stórhöfða 44, Reykjavík, en félagið heitir nú Eignarhaldsfélag Hörpu hf., með sömu kennitölu og stjórnarstöð, eftir nafnbreytingu 1. september 2001.  Stefndu eru Kristinn Guðmunds­son, kt. 240639-4679, Jónína Gunnars­­dóttir, kt. 160938-4639, bæði til heimilis að Vatnsnesvegi 24, Keflavík og börn þeirra, Gunnar Rúnar, kt. 220459-7649, Eskihlíð 12, Reykjavík, Hilmar, kt. 031063-6989, Logafold 49, Reykja­vík, Guðmundur Már, kt. 030162-4719, Rauðalæk 50, Reykjavík og Alma Dís, kt. 050869-2969, Munkaþverárstræti 15, Akureyri.

Málið er rekið til heimtu skaðabóta eða afsláttar vegna kaupa á fyrirtækinu Kristni Guðmundssyni & Co. ehf.

Stefnandi gerir svohljóðandi dómkröfur:

Aðalkrafa: Að stefndu verði aðallega í sameiningu (in solidum) en til vara að hluta (pro rata) í neðangreindum hlutföllum dæmd til að greiða stefnanda krónur 6.709.915, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 2000 til 27. júní 2001, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna frá þeim degi til 1. júlí sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. 

Varakrafa: Að stefndu verði aðallega í sameiningu en til vara að hluta í neðan­greindum hlutföllum dæmd til að greiða aðra lægri fjárhæð en í aðalkröfu greinir en hærri en í þrautavarakröfu greinir, með vöxtum eins og krafist er í aðal­kröfu. 

Þrautavarakrafa: Að stefndu verði aðallega í sameiningu en til vara að hluta í neðan­greindum hlutföllum dæmd til að greiða krónur 2.760.141, með vöxtum eins og krafist er í aðalkröfu. 

Í kröfugerð stefnanda um skipta eða pro rata ábyrgð stefndu er skiptingin milli þeirra þessi: Stefndi Kristinn með 23,5227%, stefnda Jónína með 72,3864% og stefndu Gunnar Rúnar, Hilmar, Guðmundur Már og Alma Dís hvert fyrir sig með 1,0227%; allt í samræmi við fyrrum eignarhluta þeirra í áður nefndu fyrirtæki.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að mati dómsins.

I.

Með kaupsamningi 5. maí 2000 keypti stefnandi eða nánar til tekið níu nafn­greindir hluthafar í stefnanda allt hlutafé stefndu í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf.  Við kaupin lágu meðal annars fyrir árs­­reikningar félagsins og fylgi­gögn úr bók­haldi, þar á meðal vöru­talningar­bækur vegna uppgjörs í árslok 1999.  Í óendur­skoðuðum árs­reikningi félagsins 1999 frá 10. febrúar 2000, sem áritaður er af Guðmundi Kjartans­syni lög­giltum endurskoðanda hjá Deloitte & Touche hf., kemur fram að tap af rekstri félagsins hafi numið rúmlega 5.400.000 krónum, á móti ríflega 5.700.000 króna tapi árið á undan.  Eignir félagsins voru metnar á rúm­lega 50.700.000 krónur; þar af voru við­skiptakröfur að fjárhæð tæpar 12.000.000 króna og vörubirgðir að verðmæti tæp­lega 23.500.000 krónur samkvæmt vöru­talningar­bókum, en í ársreikningnum voru birgðir sagðar metnar á kostnaðar­­verði.  Skuldir félagsins námu tæplega 43.300.000 krónum og var bókfært eigið fé því ríflega 7.400.000 krónur.  Kaupverð hlutafjárins var 10.000.000 krónur.  Eftir kaupin reis ágreiningur annars vegar um verðmæti vöru­­birgðanna, sem stefnandi telur að stefndu hafi ofmetið um krónur 6.257.416 í vöru­talningarbókum og hins vegar hvort stefndu beri sem seljendur einnig ábyrgð á því að í árs­reikningnum hafi ekki verið getið um ógreiddar orlofs­skuld­bindingar vegna áunnins orlofs starfsmanna að fjár­hæð krónur 452.499.  Dóm­kröfur stefnanda taka mið af greindum fjár­hæðum og eru studdar álitsgerð Benónís Torfa Eggertssonar lög­gilts endur­­­skoðanda frá 25. mars 2001.  Kröfurnar eru annars reistar á meginreglum kröfu­­réttarins, einkum reglum 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem fjalla um úrræði kaupanda þegar seldum hlut er áfátt. 

Samkvæmt framansögðu er um tvö ágreiningsefni að ræða, sem dómurinn þarf að skera úr um.  Við úrlausn þeirra er óhjákvæmilegt að rekja aðdraganda að hluta­fjár­­­kaupunum og hvað aðilum fór á milli í því sambandi.

II.

Stefndu Kristinn og Jónína voru aðaleigendur Kristins Guðmundssonar & Co. ehf., sem rak um margra ára skeið bygginga- og málningarvöruverslunina Dropann í Keflavík og hafði með höndum verktöku og aðra þjónustu á því sviði.  Stefndi Kristinn var fram­kvæmda­­­stjóri félagsins og stefnda Jónína stjórnar­­formaður, en hún kom einnig að dag­legum rekstri fyrirtækisins, sem og stefndi Guð­mundur Már.  Snemma árs 2000 ákváðu stefndu að selja allt hlutafé sitt í félaginu og þar með rekstur fyrirtækisins.  Var í því skyni rætt við málningarheildsala, sem stefndu höfðu átt mest viðskipti við gegnum árin, þar á meðal Málningu ehf. og Hörpu hf.  Varð úr að Helgi Magnússon framkvæmdastjóri og hluthafi í stefnanda og Jón Bjarni Gunnars­­son fjár­mála­stjóri héldu fund með fulltrúum stefndu í Kefla­vík um miðjan mars 2000, með kaup á félaginu í huga.  Helga var sýndur vörulager fyrirtækisins, en máls­aðila greinir á um hve nákvæm sú skoðun hafi verið og hvaða upp­lýsingar hafi verið veittar um mat á verð­mæti vörubirgða við vörutalningu og uppgjör í árslok 1999.  Upplýst er að vöru­talningarbækur, þrettán talsins, lágu fyrir við skoðunina.  Stefndu halda því fram að stefndi Kristinn hafi gengið með Helga um lagerinn, bent honum meðal annars á gamlar og verð­minni vörur („ókúrant“ vörur), svo sem plast­lista, teppa­búta, mislita málningu og aðra málningarafganga, sem stefndu nýttu að jafnaði í verktakaþjónustu sinni, og sagt við hann að allar vöru­­birgðir hefðu verið taldar og metnar til verðs í vöru­talningar­­bókunum.  Jafnframt hafi Helga verið sagt að 10-15% af birgðunum væru „ókúrant“ vörur.  Helgi stað­­festi fyrir dómi að honum hefði verið bent á gamlar og úreltar vörubirgðir á lagernum, þ.e. „ókúrant“ vörur, en honum hefði ekki verið sagt að umræddar vörur hefðu verið taldar með og metnar til verðs við birgðatalninguna og þær færðar í ársreikninginn sem fullgildar vörur.  Honum hefði hins vegar verið ljóst að í vörutalningarbókunum hefðu allar vörur verið til­­greindar á útsöluverði og verðmæti vörubirgða reiknað frá því.  Að sögn Helga hefðu hinar „ókúrant“ vörur ekki haft nokkurt verðgildi fyrir stefnanda og því hefði líknar­félaginu Byrginu síðar verið boðið að hirða þær. 

Jóna Björk Birgisdóttir, sem þá var starfs­maður stefndu en vinnur nú hjá stefnanda, var viðstödd þegar gengið var um vörulagerinn.  Hún bar fyrir dómi að stefndi Kristinn hefði við skoðun vöru­birgðanna bent á hitt og þetta og sagt við Helga að þrátt fyrir lítið verð­gildi sumra vara hefði allur lagerinn verið talinn og verðmetinn í vörutalningar­bókunum.  Hún kvaðst ekki minnast sérstakra við­bragða af hálfu Helga vegna ummæla stefnda.

Á meðan Helgi skoðaði vörulagerinn mun Jón Bjarni hafa rætt við stefndu Jónínu og Guðmund Má.  Er einnig deilt um hvað aðilum fór á milli í þeim viðræðum.  Stefndi Guðmundur Már staðhæfði fyrir dómi að Jón Bjarni hefði spurt um bók­halds­færslur vegna orlofsgreiðslna og hefði stefnda Jónína svarað því til að í árs­reikningi félagsins 1999 hefði ekki verið tekið tillit til ógreiddra orlofs­skuld­bindinga. Jón Bjarni hefði enn fremur spurt um birgða­talningu félagsins í árslok 1999 og stefndi sagt að vörubirgðir hefðu verið reiknaðar niður eins og venja hefði verið til um áraraðir.  Að sögn stefnda hefði Jón Bjarni ekki spurst frekar fyrir um niðurfærsluna.  Fyrir dómi kvaðst Jón Bjarni ekki minnast þess að stefndi Guðmundur Már hefði útskýrt hvernig staðið hefði verið að birgðatalningu félagsins og sagðist sjálfur einskis hafa spurt í því sam­bandi.  Þá mótmælti hann því að stefnda Jónína hefði upplýst um ógreiddar orlofs­skuld­bindingar félagsins og sagði þetta fyrst hafa komið upp eftir kaupin, þegar starfsfólk hefði haft orð á því að það ætti ógreitt orlof hjá félaginu.

III.

Í framhaldi af fundi málsaðila fengu Helgi og Jón Bjarni í hendur umbeðin gögn úr bókhaldi félagsins, þar á meðal ársreikninga, hreyfingalista og áður nefndar vörutalningarbækur.  Er óumdeilt að stefndu hafi boðið fram öll gögn og upp­lýsingar, sem óskað væri eftir af hálfu Helga og Jóns Bjarna, en þeir leiddu samninga­viðræður fyrir hönd stefnanda.  Að sögn þeirra mun eftirfarandi skoðun bókhalds­gagna ekki hafa leitt neitt óeðlilegt í ljós varðandi rekstur félagsins. 

Helgi sagði um þetta fyrir dómi að grund­völlur fyrir kaupum á hlutafé stefndu hefði verið vandaður árs­reikningur félagsins 1999 og þrettán vand­lega útfærðar vöru­talningar­bækur og hefði kaup­verð hlutafjárins tekið mið af þeim gögnum.  Af hálfu stefnanda hefði því ekki verið talin ástæða til að láta fara fram birgðatalningu eða áreiðanleikakönnun á fyrir­tækinu, enda hefði stefnandi átt viðskipti við félagið um ára­tuga skeið og treyst á áreiðanleika umræddra gagna.  Að sögn Helga hefði verið ætlun stefnanda að snúa tap­rekstri félagsins við með því að sameina félagið við Hörpu hf. og ná þannig fram ýmsum sam­legðaráhrifum og hagræðingu, meðal annars í manna­­haldi, bifreiða­kostnaði, hús­næðis­­kostnaði og fleiru.  Með í kaupunum hefðu fylgt allar vöru­birgðir félagsins, við­skipta­vild, úti­standandi kröfur og skuldir, en ætlunin hefði verið að nýta yfir­­­færan­legt skattalegt tap félagsins í rekstri stefnanda.  Helgi orðaði þetta svo fyrir dómi að stefnandi hefði verið „að kaupa einn pakka“.  Í því sambandi hefði bók­fært verðmæti vörubirgða, rúmlega 23.000.000 króna, skipt veru­legu máli.  Bókfært eigið fé félagsins hefði á sama tíma verið rúmlega 7.400.000 krónur og því hefði stefnandi talið sig vera að bjóða ríflegt verð fyrir hlutaféð.  Helgi kvað stefnanda hafa gengið út frá því sem vísu að ógreiddar orlofs­skuldbindingar væru færðar í ársreikninginn eins og hver annar rekstrar­kostnaður. 

Jón Bjarni bar fyrir dómi að ljóst hefði verið strax í upphafi að skráð verð í vörutalningarbókunum væri útsölu­verð, sem síðan hefði verið fært niður um einhverja ákveðna prósentu.  Á þeim tíma hefði hins vegar ekki verið hugað sérstaklega að niður­­færslu­hlutföllum einstakra vara, enda hefði samanburður á tölulegum niður­stöðum í vöru­talningar­­bókunum stemmt við matsverð í ársreikningi félagsins 1999, en þar hefðu vöru­­birgðir verið sagðar metnar á kostnaðarverði.  Í ljósi þessa hefði ekki verið talin ástæða til að kanna hvort niðurfærslan væri raunhæf eður ei.   

IV.

Af hálfu stefndu var upplýst fyrir dómi að kostnaðarverð vörubirgða félagsins hefði ávallt verið fundið með þeim hætti að allar vörur á lager hefðu verið taldar og skráðar í vörutalningarbækur á smásöluverði, sem síðan hefði verið reiknað niður á heild­söluverð með því að draga frá ákveðna meðalálagningu, virðisaukaskatt og eftir atvikum veittan afslátt frá birgjum.  Álagningin hefði verið eilítið mismunandi eftir vöru­­tegundum og niðurfærsluhlutföllin ekki alltaf hin sömu milli tegunda, en sömu hundraðshlutföllum hefði yfirleitt verið haldið milli ára.  Með umræddri ­aðferð hefði verið stefnt að því að komast sem næst kostnaðarverði vörubirgðanna.  Að sögn stefndu hefði sami starfsmaður félagsins séð um niðurfærsluna í áratugi, en hann hefði verið hættur störfum fyrir árslok 1999 og því hefði stefndi Kristinn ákveðið niður­færsluhlutföllin og annast útreikninginn í vörutalningarbókunum þrettán.  Fyrirsvars­mönnum stefnanda, Helga og Jóni Bjarna, hefði verið gerð skilmerkilega grein fyrir þessari reikningsskila­aðferð fyrir sölu hlutafjárins og hefðu vörutalningarbækurnar borið með sér hvaða aðferð hefði verið beitt.

V.

Hinn 6. apríl 2000 gerði stefnandi stefndu „fast og bindandi kauptilboð“ í öll hluta­­bréf félagsins, að nafn­verði 1.100.000 krónur.  Kaupverðið, krónur 10.000.000, skyldi greiðast með afsali á tveimur fasteignum í eigu félagsins og einni bifreið, samtals að nettó­verðmæti 9.230.000 krónur, yfirtöku á 200.000 króna skuld stefnda Gunnars Rúnars og 570.000 króna peningagreiðslu.  Í til­boðinu, sem undirritað er af Helga Magnús­syni og Jóni Bjarna Gunnarssyni, fyrir hönd tilboðsgjafa, segir að það sé „gert með eftirfarandi fyrir­­­­vörum:

1.

Að viðunandi trygging fáist fyrir áframhaldandi viðskiptum við Kefla­víkur­verktaka og aðra á Keflavíkurflugvelli á svipuðum nótum og verið hefur.

2.

Að samningar náist við Guðmund Kristinsson um að hann starfi fyrir nýja eigendur sem verslunarstjóri Dropans.

3.

Að samningar náist við Kristinn Guðmundsson um áframhaldandi tak­markað starf næstu 2 árin hjá nýjum eigendum til að tryggja yfirfærslu á við­skiptavild.

4.

Gengið verði frá starfslokum Jónínu Gunnarsdóttur.

5.

Að firmaheitið Dropinn yfirfærist til nýrra eigenda.

6.

Að nánari upplýsingar fáist úr bókhaldi Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. frá sl. áramótum til að tryggja að ekkert óvænt hafi gerst frá síðasta uppgjöri pr. 31.12.99.

7.

Að seljandi tryggi að hægt verði að skila vörum fyrir a.m.k. 2 m. kr. hjá Málningu ehf. áður en skuld Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. verði gerð upp.  Seljandi hefur lagt fram stöðulista yfir lánadrottna frá 3.4.2000 sem miðast við 31.03.00 þar sem m.a. kemur fram að staðan við Málningu er 13.087.346 og að breyting á þeirri fjárhæð verði aðeins vegna vöru­kaupa og skilana.

8.

Seljendur taka persónulega ábyrgð á óvæntum kröfum sem upp kunna að koma og ekki eru tilfærðar í ársreikningi 1999.“

 

Í tilboðinu eru að auki ákvæði um að stefndu heiti því að leggja sig alla fram um að vernda viðskiptavild félagsins og verslunarinnar Dropans og aðstoða stefnanda við að halda henni.  Enn fremur, að þau heiti því að fara ekki í sam­keppni við stefnanda eða aðstoða samkeppnisaðila með neinum hætti næstu fimm árin.  Sam­kvæmt til­boðinu skyldu afhending og stjórnarskipti fara fram svo fljótt sem mögu­legt væri og aldrei síðar en 6. maí 2000, en miðað skyldi við að kaupin giltu frá 1. janúar 2000.

Stefndu samþykktu tilboðið samdægurs samkvæmt efni sínu, en undir það rituðu fyrir hönd tilboðshafa stefndi Guðmundur Már og Guðmundur Kjartansson lög­giltur endurskoðandi.

Í framhaldi héldu málsaðilar tvo fundi, samkvæmt dagskrá saminni af stefnanda, þar sem rætt var um nánar tilgreind atriði tengd kaupunum, þar á meðal um „málefni Keflavíkurverktaka“, „málefni Málningar ehf.“, ráðningarsamningana við stefndu Kristinn og Guðmund Má og uppgjör vegna kaupa stefndu á fasteignum og bifreið í eigu félagsins.  Í annarri dagskránni, sem ber með sér að vera sú seinni í röðinni, segir orðrétt í niðurlagi: „Til að þessi gjörningur líti betur út er rétt að afhenda ávísun upp á 10 m. kr. og fá á móti ávísun upp á 8.529.303 til þess að þetta líti eðli­lega út í bókhaldi Hörpu og Dropans.“  

Með kaupsamningi 5. maí 2000, sem útbúinn var af hluthöfunum níu í Hörpu hf. og undir­ritaður af Helga Magnússyni fyrir þeirra hönd, var endanlega gengið frá kaupum á hlutafé stefndu í Kristni Guðmunds­syni & Co. ehf. fyrir 10.000.000 krónur.  Í samningnum er, líkt og í kaup­tilboðinu, gerð grein fyrir kaupum stefndu á fast­eignum og bifreið í eigu félagsins og yfirtöku á skuld stefnda Gunnars Rúnars.  Þá eru í samningnum samsvarandi ákvæði um að stefndu heiti því að vernda við­skipta­­vild félagsins og verslunarinnar Dropans og að fara ekki í sam­keppni við kaupendur næstu fimm árin.  Samkvæmt samningnum yfirtóku kaupendur öll réttindi og skyldur sem fylgdu hinu selda frá og með 1. janúar 2000.  Af þeim átta fyrir­vörum, sem kaupendur höfðu gert að skilyrði fyrir kaupunum í tilboði sínu, stóð aðeins einn eftir sem samnings­ákvæði og hljóðar hann svo: „Seljendur taka persónu­­lega ábyrgð á óvæntum kröfum sem upp kunna að koma og ekki eru tilfærðar í ársreikningi 1999, þ.m.t. vaxtakröfum frá birgjum.“ Stefndu Kristinn og Guðmundur Már sögðu fyrir dómi að þeir hefðu fengið þá skýringu á téðu ákvæði að í því ætti eingöngu að felast trygging fyrir óvissum bakkröfum á hendur stefnanda frá Málningu ehf. vegna um 12.000.000 króna skuldar félagsins við Málningu ehf., sem ekki hefði verið vaxta­reiknuð vegna farsæls viðskiptasambands milli fyrirtækjanna í áratugi.  Er óumdeilt að stefndi Guðmundur Már hafi náð samningum við Málningu ehf. um greiðslu skuldarinnar á sex mánuðum, vaxtalaust, eftir að hinir nýju eigendur tóku við félaginu.  Jón Bjarni Gunnarsson staðfesti fyrir dómi að umrætt ákvæði hefði verið sett inn í samninginn að ósk stefnanda í kjölfar umræðna við stefndu um verulega skuld félagsins við Málningu ehf.  Hann kvaðst hafa skilið ákvæðið svo að það ætti einnig að taka til allra óvæntra atriða, sem ekki væri getið um í ársreikningnum og upp gætu komið eftir kaupin, en sagðist ekki minnast þess að slíkt hefði verið rætt sér­stak­lega við stefndu. 

Sama dag, þ.e. 5. maí 2000, var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnda Kristinn, með ráðningartíma frá 1. maí 2000 til 30. apríl 2002.  Laun hans voru ákveðin 250.000 krónur á mánuði.  Samkvæmt samningnum átti stefndi að vera ráð­gjafi hinna nýju eigenda félagsins og starf hans einkum að felast í því að tryggja yfirfærslu við­skipta­vildar félagsins yfir til Hörpu hf., sérstaklega með tilliti til sam­skipta við Kefla­víkurverktaka og aðra mikilvæga viðskiptavini á Keflavíkurflugvelli og annars staðar.  Einnig liggur fyrir að stefnandi réð stefnda Guðmund Má sem verslunar­stjóra Dropans.

VI.

Hinn 30. júní 2000 var gengið frá samrunaáætlun Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. og Hörpu hf., að undangenginni bókhaldskönnun af hálfu Benónís Torfa Eggerts­sonar löggilts endurskoðanda.  Í áliti hans, dagsettu sama dag, kemur fram að stjórnir félaganna hafi komið sér saman um mat eigna og skiptihlutfall hluta, sem teljist sanngjarnt, en fyrir hafi legið ársreikningar beggja félaga fyrir árið 1999.  Þar segir og að félögin hafi bæði með höndum rekstur málningarvöruverslana og hafi reiknings­­skilaaðferðir þeirra verið með hliðstæðum hætti.  Í áritun endurskoðandans segir að könnunin hafi ekki leitt annað í ljós en að sameiginlegur efnahagsreikningur félaganna 1. janúar 2000 gefi glögga mynd af eignum og skuldum félaganna, þeim breytingum sem samruninn hafi í för með sér og upphafsefnahagsreikningi hins sam­einaða félags eftir samrunann.  Í framhaldi voru félögin tvö sameinuð undir nafni Hörpu hf.  Við sameininguna fengu hinir nýju hlut­hafar í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf. ein­göngu hluti í Hörpu hf. í skiptum fyrir hluti sína í fyrr­nefndu félagi.  Sam­runinn var endanlega samþykktur 27. nóvember 2000.  Þann dag framseldu kaupendur hlutanna í Kristni Guðmundssyni & Co. öll réttindi sín og skyldur samkvæmt kaup­samningnum við stefndu til Hörpu hf., en á þeim grunni telst félagið fara með aðild í málinu; einnig eftir nafnbreytingu í Eignarhaldsfélag Hörpu hf.

VII.

Stefnandi segir að fyrir þann tíma, eða síðsumars 2000, hafi hluthafar sínir gerst órólegir út af rekstrarstöðu hins keypta félags.  Því hefði verið ráðist í milli­upp­gjör miðað við fyrstu átta mánuði ársins.  Sú vinna hefði hafist í byrjun september og niðurstöður legið fyrir í október 2000.  Samkvæmt milliuppgjörinu hefði tap af reglu­legri starfsemi félagsins fyrir skatta á fyrstu átta mánuðum ársins verið 16.773.000 krónur og hefði tapið legið að miklu leyti í ofreiknuðu birgðaverðmæti samkvæmt ársreikningi félagsins 1999.  Helgi Magnússon sagði fyrir dómi að stefnda Guðmundi Má hefði mátt vera þetta ljóst þegar milliuppgjörið lá fyrir, enda hefði hann tekið þátt í uppgjörinu.  Helga var í framhaldi sýnd fundargerð um málefni verslunarinnar Dropans frá 5. september 2000, sem hann staðfesti að hafa ritað.  Þar segir meðal annars um vörutalningu vegna umrædds milliuppgjörs, að búið sé að telja „en eftir er að reikna út RAUNVIRÐI BIRGÐA eftir flokkum, þ.e. finna út áætlaða meðal­álagningu og reikna birgðaverðmætið út frá henni.  Þetta verður GMK [stefndi Guð­mundur Már Kristinsson] að gera hið fyrsta og koma niðurstöðunni til JBG [Jóns Bjarna Gunnarssonar] því við erum með formlegt milliuppgjör miðað við 31.8. og þurfum þessar niðurstöður sem fyrst.“  Aðspurður hvort umrædd aðferð við birgða­mat, sem lögð væri til í fundargerðinni, væri ekki í samræmi við aðferð þá er stefndu hefðu viðhaft við uppgjör í árslok 1999, sagðist Helgi ekki vita nákvæmlega hvernig bæri að skilja tilvitnaðan texta fundargerðarinnar og bætti því við að sér finndist þetta „skrýtið“ orðalag.  Birgðatalning hefði legið fyrir og því hefði átt að reikna verðmæti vöru­birgðanna út frá kostnaðarverði.  Í ljósi þessa sagði Helgi umræddan texta vera „svolítið einkennilegt orðalag“ og ekki í samræmi við reglur stefnanda um birgðamat.  Hann kvaðst í framhaldi ekki þora að svara því hvernig staðið hefði verið að birgða­mati félagsins við milliuppgjörið, þ.e. hvort beitt hefði verið sömu aðferð og stefndu hefðu notað eður ei.

Jón Bjarni Gunnarsson bar fyrir dómi að umrædd birgðatalning hefði aldrei verið kláruð og því hefði verið brugðið á það ráð að áætla vörunotkun félagsins fyrstu átta mánuði ársins 2000, út frá meðalvörunotkun áranna tveggja á undan, til þess að fá einhverja niðurstöðu út úr milliuppgjörinu.  Aðspurður um birgðatalningu Dropans í árs­lok 2000 sagði Jón Bjarni að þá hefði verið stuðst við innkaupsverð vörubirgða og kostnaðarverð fundið út frá því, þ.e. ekki hefði verið beitt sömu aðferð og stefndu hefðu notað við birgðamat í árslok 1999.  Sá framburður stangast á við vitnisburð Benónís Torfa Eggertssonar löggilts endurskoðanda stefnanda, en hann bar fyrir dómi að vöru­birgðir Dropans í árslok 2000 hefðu verið metnar með líkri aðferð og stefndu hefðu beitt, þ.e. fundin hefði verið einhver meðalálagning og síðan hefðu birgðir verið reiknaðar niður til kostnaðarverðs.

VIII.

Með bréfi dagsettu 7. nóvember 2000 var fyrst vakið formlega máls á því við stefndu að stefnandi teldi vörubirgðir félagsins hafa verið ofmetnar í árslok 1999.  Var því til stuðnings vísað til áður nefnds milliuppgjörs, sem leitt hefði í ljós að við birgðamat stefndu hefði ekki verið stuðst við rétt inn­kaupsverð vara og að gamlar og úreltar vörur hefðu verið metnar sem fullgildar vörur.  Segir í bréfinu að stefndu hafi verið eða mátt vera þetta ljóst og því væri óskað eftir við­ræðum við þau vegna málsins.  Þessum skilningi var mótmælt af hálfu stefndu í bréfi 22. nóvember sama ár.  Urðu út af þessu frekari bréfaskriftir og fór svo að stefnandi rifti fyrr­­nefndum ráðningar­samningi við stefnda Kristinn með bréfi 21. desember 2000.  Segir í bréfinu að tilefni riftunarinnar séu verulegar og alvarlegar vanefndir á umræddum kaup­samningi í ljósi rangra og villandi upplýsinga um verðmæti hlutafjár í Kristni Guð­munds­syni & Co. ehf.  Í framhaldi höfðaði stefndi Kristinn skaða­bótamál á hendur stefnanda vegna ólögmætrar riftunar, (ódæmt mál réttarins nr. E-310/2001) en í kjöl­farið var mál þetta höfðað á hendur stefndu.  

IX.

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína í fyrsta lagi á því að stefndu hafi sem seljendur hlutafjárins í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf. bakað sér bótaskyldu gagn-vart kaupendum hlutafjárins á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausa­fjár-kaup, en ársreikningur félagsins 1999 hafi verið rangur í veigamiklum atriðum og eigin­­­fjárstaða þess því allt önnur og mun verri en gefið hafi verið í skyn af hálfu stefndu.  Stefndu hafi vitað eða mátt vita að vörubirgðir hefðu verið ofmetnar í árs­reikningnum og að þar hefði ekki verið getið um ógreiddar orlofsskuld­bindingar félagsins vegna áunnins orlofs starfsmanna.  Hafi stefndu borið að skýra kaupendum frá þessu hvoru tveggja, en með því að gera það ekki hafi þau sýnt af sér saknæma hátt­semi.

Verði háttsemi stefndu ekki talin saknæm samkvæmt framansögðu er í annan stað á því byggt að hið selda hafi ekki haft þá kosti, sem áskildir hafi verið við kaupin og kaupendur hafi mátt ganga út frá með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem stefndu hafi lagt fyrir kaupendur við kaupin.  Í því sambandi bendir stefnandi á að grundvöllur kaupanna og ákvörðunarástæða af hálfu kaupenda hafi verið árs­reikningar félagsins og fylgigögn, einkum vörutalningarbækur.  Vegna rangra og mis­vísandi upplýsinga frá stefndu hafi kaupendur ekki haft réttar forsendur til ákvarðana­töku um kaupin og tekið ákvörðun í góðri trú, sem þeir hefðu ella ekki gert.  Beri stefndu í því tilviki bóta­ábyrgð gagnvart stefnanda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðarreglu 2. mgr. 42. gr. kaupalaga. 

Stefnandi vísar einnig til og byggir hér á sérstöku ákvæði í kaupsamningi aðila um að stefndu taki á sig persónu­lega ábyrgð á óvæntum kröfum, sem upp kunni að koma og ekki séu tilfærðar í ársreikningi 1999.  Í samningsákvæðinu felist sérstök ábyrgðar­­yfirlýsing stefndu um að ársreikningurinn hafi sýnt raunverulega eiginfjár­stöðu hins selda félags, þar með talið rétt verðmat vörubirgða og rétta stöðu orlofs­skuld­bindinga, og hafi ákvæðið gefið kaupendum ríkari ástæðu til að ætla að svo hafi verið.  Óvænt frávik frá því falli undir ábyrgðar­yfir­­lýsinguna. 

Verði ekki fallist á að stefndu beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þess sem hinu selda hafi verið áfátt byggir stefnandi í þriðja lagi á því að stefndu beri að veita afslátt af kaupverðinu, sem nemi sömu fjárhæð og skaða­bóta­krafan.  Er afsláttar­krafan einkum studd við 1. mgr. 42. gr. kaupalaga, en krafan endur­spegli þá verð­rýrnun á hlutafé í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf., sem áður lýst ofmat vöru­birgða og vanmat orlofsskuldbindinga hafi valdið stefnanda.

Stefnandi sundurliðar og rökstyður dómkröfurnar nánar með svofelldum hætti:

Aðalkrafa.

1.  Kährs-parket ofmetið

kr.   626.589.

2.  Vörur frá Hörpu hf. ofmetnar

kr.   278.682.

3.  Vörur frá Málningu ehf. ofmetnar

kr.   467.792.

4.  Vörur frá Slippfélaginu hf. ofmetnar

kr.   308.889.

5.  Ónýtar og úreltar vörur

kr.   625.690.

6.  Vanmetin orlofsskuldbinding

kr.   452.499.

 

kr. 2.760.141.

7.        Aðrar vörubirgðir að fjárhæð kr.15.799.098.

        (kr. 23.469.550 – kr. 7.670.452) ofmetnar um 25%

 

kr. 3.949.774.

                                                                                      Samtals

kr. 6.709.915.

 

Stefnandi kveður fjárhæð aðalkröfunnar styðjast við álitsgerð Benónís Torfa Eggerts­sonar löggilts endurskoðanda frá 25. mars 2001, sem hann staðfesti fyrir dómi, en álitsgerðin sé unnin upp úr fyrir­liggjandi gögnum úr bók­haldi Kristins Guðmunds­sonar & Co. ehf.  Í álits­gerðinni felist ekki mat við­komandi sérfræðings heldur byggi hún á staðreyndum og hafi því fullt sönnunargildi í málinu.  Í álitsgerðinni komi fram að vörubirgðir félagsins í árs­lok 1999 hafi verið tilfærðar samkvæmt þrettán vöru­talningar­bókum og sé heildar­verð­mæti birgðanna talið vera krónur 23.469.550.  Sú fjár­hæð hafi verið færð í árs­reikning félagsins 1999.  Bókhaldskönnun endur­skoðand­ans hafi leitt í ljós að birgða­matið virðist hafa verið framkvæmt á þann veg að birgðir væru taldar á útsöluverði með virðisaukaskatti, sem síðan hafi verið fært niður í ætlað kostnaðarverð með mis­munandi prósentum eftir vöruflokkum.  Endur­skoðandinn bendi á að þar sem vörutalningin sé afar umfangsmikil og texti í vöru­talningar­bókunum oft á tíðum ekki nægilega upplýsandi sé erfitt að bera hana skipu­lega saman við innkaupanótur eða innflutningsskjöl félagsins til að staðreyna hvort kostnaðarverð samkvæmt vörutalningarbókunum geti talist rétt eða nærri lagi.  Þetta hafi þó reynst unnt varðandi fjóra leiðandi vöruflokka (liðir 1.-4. í aðalkröfu að framan) og í öllum þeim til­vikum hafi kostnaðarverð samkvæmt innkaupanótum, innflutningsskjölum eða öðrum gögnum reynst vera lægra en birgðamatið hjá stefndu.  Parketið hafi reynst ofmetið um 27,31%, vörur frá Hörpu um 27,59%, vörur frá Málningu um 17,28% og vörur frá Slippfélaginu um 29,84%.  Könnun endurskoðandans hafi enn fremur leitt í ljós að við birgðamatið hafi gömul og ónýt eða úrelt vara verið metin sem fullgild vara að fjár­hæð samtals krónur 625.690, sbr. liður 5. að framan.  Þá hafi endur­skoðandinn stað­fest að orlofsskuldbindingar að fjárhæð krónur 452.499 séu ekki til­greindar í árs­reikningi félagsins 1999, sbr. liður 6. að framan.  Þegar af þeirri ástæðu sé eigið fé félagsins samkvæmt ársreikningnum ofreiknað um sömu fjárhæð.

Í álitsgerðinni komi einnig fram að vörusala hjá félaginu á árunum 1998, 1999 og 2000 hafi verið mjög svipuð milli ára, en vörunotkunin mun meiri árið 2000 eða 93,6% sem hlutfall af vörusölu ársins; á móti 75,6% og 72,2% árin 1998 og 1999.  Tap félagsins árin 1998 og 1999 hafi verið rúmar 5.000.000 króna hvort ár, en tap á árinu 2000 hafi numið rúmlega 37.000.000 króna þegar búið sé að fá fram raunveru­legt verðmæti vörubirgða félagsins.  Stefnandi heldur því fram að þetta skýrist fyrst og fremst af því að vörubirgðirnar hafi verið verulega ofmetnar í ársreikningi 1999, en af því megi vera ljóst að tjón kaupenda hlutafjárins vegna vanefnda stefndu sé miklu mun meira en krafist sé í málinu.

Stefnandi byggir 7. lið aðalkröfu sinnar á því að sá hluti vörubirgðanna, sem ekki hafi reynst unnt að bera saman við innkaupa- og innflutningsgögn í bókhaldi félagsins hafi verið ofmetinn í ársreikningi 1999 um krónur 3.949.774 eða um 25%.  Sú kröfugerð verði að teljast eðlileg og réttmæt þegar tekið sé mið af því að þeir vöru­flokkar, sem unnt reyndist að bera saman við raunverulegt innkaupsverð, hafi verið ofmetnir frá 17,28% upp í 29,84% og því að meðaltali um 25,1%.  Vilji stefndu and­mæla þessu og halda því fram að umræddar vörubirgðir hafi verið réttilega færðar á innkaupsverði þá beri þau sönnunarbyrði fyrir því, enda hafi verið leitt í ljós að stór hluti vörubirgðanna hafi ekki verið réttilega færður á innkaupsverði, eins og haldið hefði verið fram af hálfu stefndu.

Stefnandi mótmælir því sem þýðingarlausu, þótt rétt kunni að reynast, að birgða­mat félagsins hafi um áraraðir verið framkvæmt með sama hætti og gert hafi verið í ársreikningi þess 1999.  Hér skipti meginmáli að birgðirnar hafi ekki verið færðar á raunverulegu kostnaðarverði, eins og tilgreint hafi verið í ársreikningnum og því hafi afkoma og eignastaða félagsins sýnst mun betri en hún hafi í raun verið.  Þá hafi komið fram við frumathugun að niðurfærsluprósentan, sem notuð hafi verið við birgða­mat í ársreikningi 1999 virðist almennt hafa verið lægri en árin á undan og því hafi birgðamat verið hærra en ella í árslok 1999.

Varakrafa.

Komist dómur að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að leggja til grundvallar þá aðferð sem beitt sé í aðalkröfu til að fá fram raunverulegt kostnaðarverð annarra vöru­birgða samkvæmt 7. lið, þá byggir stefnandi á því að miða beri við aðra og lægri prósentu­tölu að mati dómsins.  Rökstuðningur fyrir liðum 1.-6. sé hinn sami.

Þrautavarakrafa.

Kröfu þessa byggir stefnandi á því að aðeins verði unnt að fallast á kröfur hans varðandi þann hluta vörubirgðanna, sem unnt hafi verið að skoða og bera saman við raun­gögn til að finna rétt kostnaðarverð og þar með ofmat þeirra vörubirgða, ásamt vanmetnum orlofsskuldbindingum, sbr. liðir 1.-6. í aðalkröfu, en samkvæmt því beri að dæma honum krónur 2.760.141.  

X.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi gert fast og bindandi kauptil­boð í hlutafé stefndu í Kristni Guðmundssyni & Co. ehf.  Stefnandi hafi gert átta fyrir­vara í tilboðinu, sem öllum hafi verið fullnægt af hálfu stefndu fyrir gerð kaup­­samnings 5. maí 2000.  Með gerð samningsins hafi stefnandi eða hluthafar í stefnanda fallið frá öllum fyrir­vörunum að þeim einum undanskildum að stefndu bæru persónu­lega ábyrgð á óvæntum kröfum, sem upp kynnu að koma og ekki væru tilfærðar í árs­reikningi félagsins 1999, þar með töldum vaxtakröfum frá birgjum.

Enginn fyrirvari hafi verið gerður varðandi mat á vörubirgðum eða færslur á orlofs­skuld­bindingum þrátt fyrir að Helgi Magnús­son framkvæmdastjóri stefnanda og Jón Bjarni Gunnars­son fjármálastjóri hafi fengið í hendur öll gögn um rekstur og stöðu félagsins fyrir tilboðs­gerðina og tekið sér góðan tíma til að skoða þau.  Sömu menn hafi í framhaldi samið kauptilboðið og samninginn og ráðið kaupverði hluta­fjárins.  Verði að ætla að þeir hafi gert þetta að vel ígrunduðu eigin mati á heildar­verð­mæti félagsins, en Helgi sé löggiltur endurskoðandi og Jón Bjarni við­skipta­­fræðingur.  Báðum hafi þeim verið ljóst eða mátt vera ljóst að áunnið, ógreitt orlof í árslok 1999 hefði ekki verið fært í ársreikning félagsins, enda slíkt ekki óalgengt hjá smærri hluta­félögum.  Þá hafi Helga og Jóni Bjarna verið gerð grein fyrir því hvernig kostnaðar­verð vörubirgða félagsins hefði verið metið í árslok 1999, þ.e. að í vöru­talningarbækur hefði verið fært smásöluverð hverrar vöru, að frá­dregnum virðisauka­skatti, áætlaðri meðalálagningu og eftir atvikum afslætti frá birgjum, eins og fram komi í vöru­talningar­bókunum, en sama reikningsskilaaðferð hefði verið notuð í ára­tugi þar á undan.  Niðurfærslan hafi verið eilítið mismunandi eftir vöru­­flokkum; allt niður í 50% þegar um verðminni vörur hefði verið að ræða, svo sem gamla málningu, mislitanir eða áteknar málningardósir.  Hafi stefnanda mátt vera þetta fyllilega ljóst eftir könnun sína á vörutalningarbókunum.  Stefndu kannast ekki við að neinar vörur hafi verið ónýtar eða úreltar á lagernum og benda á að afgangar af málningu, teppum og plast­listum hafi nýst félaginu í verktöku og stundum verið selt nánast fullu verði, svo sem í þeim tilvikum er verkkaupi hefði beðið um tilboð í málun á hús­næði, án þess að óska eftir ákveðnum lit.  Að sögn stefndu megi vel vera að umræddar vöru­birgðir hafi ekki nýst stefnanda með sama hætti, enda hafi hann að því leyti ólíkan rekstur með höndum.  Stefndu kveða enn fremur ljóst að vörubirgðir hafi verið aðrar í maí 2000 en í árslok 1999 og hafi stefnanda verið í lófa að láta fara fram vörutalningu og birgða­mat miðað við söludag hlutafjárins 5. maí 2000.  Hljóti stefnandi af þeim sökum að bera áhættuna af því nú, telji hann að félagið hafi haft annað og minna verðmæti en hann hefði vænst.  Framangreindu til stuðnings vísa stefndu til skoðunar­skyldu kaupanda í lausafjárkaupum, sbr. 47. gr. kaupalaga nr. 39/1922, en stefnandi hafi fengið öll nauðsynleg gögn í hendur og verið boðnar allar upplýsingar um stöðu félagsins fyrir áður nefnda til­boðs­­gerð.  

Stefndu benda einnig á að kauptilboðið og kaupsamningurinn beri þess merki að tilgangur kaupanna af hálfu stefnanda hafi fyrst og fremst verið sá að ná til sín við­skiptasamböndum og viðskiptavild, sem félaginu hefði áskotnast í áralangri starfsemi á sínu viðskiptasvæði.  Vísa stefndu í því sambandi til ákvæða um að firmaheitið „Dropinn“ skyldi fylgja með í kaupunum, áskilnað um að stefndu tækist að tryggja félaginu áframhaldandi viðskipti við Keflavíkurverktaka og loks til ráðningar stefnda Kristins í áframhaldandi, tímabundið ráðgjafastarf hjá stefnanda.  Önnur atriði, svo sem tap­rekstur félagsins og samsetning og verðmæti vörubirgða, hafi greinilega ekki haft neina þýðingu fyrir stefnanda, enda ljóst að hann hafi leitast við að losa sig við sem mest af vörum annarra framleiðenda og jafnvel selt þær á niðursettu verði.  Enn fremur megi telja ljóst að stefnandi hafi með kaupunum ætlað sér að nýta ónotað skatta­legt tap félagsins að fjárhæð krónur 17.575.547 samkvæmt skýringum í árs­reikningi 1999, en það samsvari krónum 5.272.664 í skattspörun miðað við 30% tekju­skatt.

Þá verði ekki betur séð en að stefnandi hafi sætt sig að fullu við verðmat eigna félagsins, bæði þegar horft sé til samrunaáætlunar stefnanda og félagsins frá 30. júní 2000 og endanlegrar samþykktar á hluthafafundi 27. nóvember 2000.  Stefnandi hafi fyrst með bréfi 7. nóvember sama ár hreyft athugasemdum við ætluðum vanefndum stefndu, en þá hefði stefnandi verið búinn að reka hið selda félag um sex mánaða skeið.  Með vísan til reglna 52. gr. kaupalaga um réttaráhrif tómlætis í lausafjár­kaupum verði því að telja að stefnandi geti ekki lengur borið fyrir sig ætlaðan ágalla á hinu selda.

Stefndu vefengja útreikninga í álitsgerð Benónís Torfa Eggertssonar lög­gilts endurskoðanda frá 25. mars 2001 með vísan til þess að þeir nái aðeins til hluta vörubirgðanna og virðast í sumum tilvikum miðaðir við smásöluverð framleiðenda en ekki söluverð félagsins.  Þá samrýmist niðurstaða endurskoðandans um mat á vöru­birgðunum ekki mati hans á stöðu félagsins, sem fram komi í áliti hans frá 30. júní 2000.  Því mótmæli stefndu að seinni álitsgerðin verði lögð til grundvallar dómi um kröfur stefnanda í málinu.

Loks mótmæla stefndu því alfarið að lagaskilyrði afsláttar af kaupverði séu fyrir hendi og vísa því alfarið á bug að kaupverð hlutafjárins hafi verið of hátt, en endurskoðandi félagsins hafi verið búinn að áætla verðmæti þess á um 15.000.000 króna.  Í því sambandi benda stefndu á að stefnandi hafi ráðið kaupverði hluta­fjárins og að kaup­verð fasteigna félagsins, sem notaðar hafi verið til greiðslu kaup­verðsins, hafi verið hærra metið en raunverulegt markaðsvirði á greindum tíma.  Með hliðsjón af því, verðmæti viðskiptavildar félagsins og skattspörun stefnanda vegna yfir­­færan­legs skatta­legs taps í rekstri félagsins, verði ekki séð að kaupverð hluta­fjárins geti talist ofmetið þótt ýtrustu kröfur stefnanda yrðu teknar til greina.  Megi því vera ljóst að kröfugerð hans í málinu sé í meira lagi ósanngjörn.  

XI.

Við munnlegan málflutning fyrir dómi vísaði lögmaður stefnanda til ábyrgðar stjórnenda hlutafélags við gerð og undirritun ársreikninga, sbr. 3. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga og byggði á því að stefndu Kristinn og Jónína bæru sem fyrrum stjórnendur Kristins Guðmundssonar & Co. ehf. ábyrgð á því að það sem fram kæmi í ársreikningi félagsins 1999 væri rétt.  Jafnframt vísaði lögmaðurinn í því sambandi til 5. gr., sbr. 22. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald.  Þá vísaði hann til 52. gr. laga um ársreikninga varðandi skýrslu stjórnar og ábyrgðar stefndu Kristins og Jónínu, sem hvílt hefði á þeim með gerð og undirritun skýrslu þeirrar er fylgt hefði nefndum ársreikningi.  Í ljósi téðra laga­ákvæða og málsatvika að öðru leyti hefði stefnandi mátt treysta því að ársreikningur félagsins væri réttur og að vörubirgðir hefðu verið metnar á raunverulegu kostnaðar­­verði.  Eins og á stóð hefði því engin þörf verið á sérstakri birgðatalningu fyrir kaup stefnanda á hlutafé í félaginu.  Þessu til frekari stuðnings vísaði lög­maðurinn til 4. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt, en þar komi fram að við mat á vörubirgðum beri að meta þær á kostnaðarverði, að frádregnum afföllum og gölluðum og úreltum vörum.

Lögmaður stefndu mótmælti framangreindum lagatilvísunum og málflutningi lög­­manns stefnanda sem nýjum málsástæðum og allt of seint fram komnum.  

XII.

Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skulu máls­ástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til.  Að öðrum kosti má ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hefur þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær.  Ekki reynir á síðastgreint atriði í máli þessu þar sem aðilar njóta lögmannsaðstoðar.  Af stefnu er ljóst að stefnandi byggir málatilbúnað sinn fyrst og fremst á meginreglum kröfuréttarins um lausafjár­kaup, einkum reglum 42. gr. laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup, sem fjalla um úrræði kaupanda þegar seldum hlut er áfátt.  Ætluð bótaábyrgð stefndu er því reist á reglum skaðabótaréttar innan samninga.  Hvergi er í stefnu að finna tilvísun til laga nr. 144/1994 um ársreikninga, laga nr. 145/1994 um bókhald eða laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt, en við munnlegan málflutning fyrir dómi hreyfði lögmaður stefnanda því fyrst að ætluð bótaábyrgð stefndu Kristins og Jónínu, sem stjórnenda hluta­­félags, væri studd við tilvitnaðar lagagreinar í kafla XI. hér að framan.  Ábyrgð stjórnenda hlutafélaga, reynist hún fyrir hendi, byggir á reglum skaðabótaréttar utan samninga.  Er því um gjörólíkan bótagrundvöll að ræða.  Við þingfestingu málsins lagði stefnandi grunn að málshöfðun sinni á hendur stefndu og var bæði tekið til varna á þeim grunni og aðalmeðferð háð með hliðsjón af því að ætluð ábyrgð stefndu væri reist á grundvelli kaupsamnings milli málsaðila.  Gegn mótmælum stefndu verður því að telja að málsástæður stefnanda samkvæmt XI. kafla séu of seint fram komnar og komast þær því ekki að í málinu, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála. 

Kemur þá til álita hvort stefndu beri, sem seljendur hlutafjár í einkahluta­félaginu Kristni Guðmundssyni & Co., ábyrgð á því að vörubirgðir félagsins hafi verið ofmetnar í vörutalningarbókum og ársreikningi félagsins við uppgjör í árslok 1999 og enn fremur hvort ógreiddar, áfallnar orlofsskuldbindingar hafi verið vantaldar í ársreikningnum.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi fékk í hendur öll þau gögn og upplýsingar, sem hann óskaði eftir, fyrir tilboðsgerð í hlutafé stefndu 6. apríl 2000, þar á meðal ársreikning félagsins 1999 og þrettán vörutalningarbækur, sem stefnandi segir að hafi verið grundvöllur fyrir kaupum sínum á hlutafénu.  Hvorki var í kauptilboðinu né kaup­samningi milli aðila 5. maí 2000 gerður fyrirvari eða áskilnaður um að vöru­birgðir félagsins væru metnar á kostnaðarverði, eins og ársreikningurinn ber með sér, en fyrir liggur að ársreikningurinn var óendurskoðaður og án frekari skýringa á mati vörubirgða.  Þá liggur fyrir að Helgi Magnússon og Jón Bjarni Gunnarsson, sem leiddu samningaviðræður við stefndu fyrir hönd stefnanda, gerðu sér ljóst, þegar fyrir kauptilboðsgerðina, að skráð verð einstakra vara í vörutalningar­bókunum, sem voru grundvöllur fyrir bókfærðu verði í ársreikningnum, væri útsölu­verð viðkomandi vöru, sem fært hefði verið niður um ákveðna prósentu til að finna áætlað kostnaðarverð hverrar vöru.  Verður þannig að telja að stefnandi hafi vitað eða mátt vita að svokallað kostnaðarverð vörubirgða félagsins hafi ekki verið reiknað út frá því verði sem vörurnar kostuðu í inn­kaupum, en í því sambandi ber að líta til þess að Helgi er löggiltur endurskoðandi og Jón Bjarni viðskiptafræðingur.  Má því telja ljóst að þeir hafi ekki mátt treysta því, án frekari skoðunar, að vörubirgðir félagsins í árslok 1999 væru metnar á kostnaðar­­verði, enda augljóst af vörutalningarbókunum að svo var ekki.

Af hálfu stefndu er því haldið fram að Helga hafi enn fremur verið sérstaklega kynnt við skoðun vörubirgða félagsins í mars 2000 að allar birgðir hefðu verið taldar og metnar til verðs í vörutalningarbókunum, en samkvæmt viðurkenndum reiknings­skila­aðferðum skal við birgðamat telja allar heilar vörur og skemmdar, sem og úreltar vörur á lager í lok hvers árs.  Fær framangreind staðhæfing stefndu stoð í vitnisburði Jónu Bjarkar Birgisdóttur, sem bar fyrir dómi að stefndi Kristinn hefði við skoðun vöru­birgðanna vakið athygli Helga á því að allar vörur á lager félagsins hefðu verið taldar og verðmetnar í vörutalningarbókunum.  Þykir vitnisburður Jónu Bjarkar renna enn frekari stoðum undir að stefndu hafi gætt nauðsynlegrar upplýsinga­skyldu gagn­vart stefnanda varðandi verðmæti vörubirgðanna og að stefnanda hafi mátt vera ljóst að allar vörubirgðir félagsins hefðu verið taldar og metnar til verðs í ársreikningi félagsins 1999.

Samkvæmt framansögðu er það álit dómsins, sem skipaður er tveimur lög-giltum endurskoðendum, að stefnandi hafi vitað eða mátt vita, fyrir kaupsamning aðila 5. maí 2000, að stefndu hefðu ekki reiknað verðmæti vöru­birgða félagsins á kostnaðarverði og að honum hefði því verið í í lófa lagið, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að kanna frekar hvernig staðið hefði verið að útreikningi vörubirgða og eftir atvikum að beiðast birgðatalningar fyrir kaupin.  Þykir því mega leggja til grundvallar dómi að nauðsynlegar upplýsingar hafi ýmist legið fyrir eða verið stefnanda auð­fengnar fyrir kaupin, svo að honum yrði kleift að leggja raunhæft mat á verðmæti umræddra vörubirgða.  Að þessu virtu verður ekki fallist á að stefndu hafi að því leyti vanrækt upp­lýsinga­skyldu sína gagnvart stefnanda eða með öðrum hætti sýnt af sér saknæma háttsemi fyrir gerð kaupsamingsins, en óumdeilt er að mat á verðmæti vörubirgðanna og færsla í ársreikning félagsins 1999 fór fram nokkru áður en samningaviðræður hófust milli máls­aðila og var hvort tveggja gert óháð sölu stefndu á hlutafé félagsins. 

Það er enn fremur álit dómsins að í ljósi framanritaðs feli tilgreining í óendur­skoðuðum ársreikningi félagsins 1999 um að vörubirgðir séu metnar á kostnaðarverði ekki í sér ábyrgðaryfirlýsingu af hálfu stefndu í skilningi 2. mgr. 42. gr. kaupalaga nr. 39/1922.  Þá verður ákvæði í kaupsamningi aðila um að stefndu taki persónulega ábyrgð á óvæntum kröfum, sem upp kunni að koma eftir gerð samningsins og ekki séu tilfærðar í ársreikningnum, fráleitt talið fela í sér ábyrgðaryfirlýsingu eða að öðru leyti aukna ábyrgð á verðmæti vörubirgða félagsins, enda hafði stefnandi undir höndum öll nauðsynleg gögn og upplýsingar til að leggja raunhæft mat á verðmæti þeirra fyrir kaupin. 

Af því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefndu af kröfu stefnanda um skaðabætur samkvæmt 2. mgr. 42. gr. kaupalaga vegna vörubirgða félagsins. 

Eins og áður segir var þess hvorki getið í kauptilboði stefnanda né kaup­samningi aðila að kaupverð hlutafjárins, krónur 10.000.000, væri háð raunverulegu kostnaðarverði vöru­birgða félagsins.  Af þeim gögnum verður því ekki ráðið að verð­mæti vörubirgðanna eitt sér hafi skipt stefnanda verulegu máli við samningsgerðina og verið ákvörðunar­ástæða fyrir kaupunum af hans hálfu.  Þá er í nefndum gögnum ekki minnst á árs­reikning félagsins sem grundvöll fyrir kaupunum nema að því leyti sem snýr að óvæntum kröfum í árslok 1999.  Engir fyrirvarar voru gerðir um aðra eignaliði, hvorki peningalega stöðu við yfirtöku rekstrarins né stöðu viðskiptakrafna og innheimtan­leika þeirra.  Verður ekki séð að stefnandi hafi beðið um gögn þar að lútandi.  Í kaup­til­boðinu og kaupsamningnum er á hinn bóginn lögð rík áhersla á við­skipta­vild félagsins og beinlínis gert að skilyrði í tilboðinu að við­unandi trygging fáist meðal annars fyrir áframhaldandi viðskiptum við Keflavíkur­verk­taka á svipuðum nótum og verið hefði, en upplýst er að allt að 25-30% af ársveltu félagsins hafi verið vegna viðskipta við umrætt fyrirtæki.  Þá liggur fyrir að yfirfæranlegt tap félagsins hafi verið rúmar 17.500.000 krónur í árslok 1999 og að ætlun stefnanda hafi verið að nýta yfirfæranlegt skattalegt tap félagsins á móti tekjum í eigin rekstri.  Að öllu þessu virtu má telja að eigin­fjár­staða félagsins hafi ekki skipt stefnanda öllu máli við hluta­fjár­kaupin og að verðmæti ein­stakra eignaliða hafi því ekki verið ráðandi við ákvörðun kaupverðsins.  Má í því sam­bandi einnig benda á að með skuldbindingu stefndu um kaup á tveimur fasteignum og bifreið í eigu Kristins Guðmundssonar & Co. ehf., en kaupverð þeirra eigna nam um 2.300.000 króna umfram bókfært verð, hafi eiginfjárstaða félagsins verið tæpar 10.000.000 króna við kaupin.  Þegar framan­greind atriði eru virt heildstætt telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi keypt annað og minna en um var samið milli aðila og á hann því ekki rétt á afslætti af kaupverðinu úr hendi stefndu á grundvelli 1. mgr. 42. gr. kaupalaga.   

Gegn mótmælum stefnanda er ósannað að stefndu hafi upplýst fyrir kaupin að ógreiddar orlofsskuldbindingar vegna áunnins orlofs starfsmanna á árinu 1999 hafi ekki verið tilfærðar í ársreikningi félagsins 1999.  Telst sú krafa stefnanda því falla undir áður nefnt ákvæði í kaupsamningi aðila um að stefndu taki persónulega ábyrgð á óvæntum kröfum, sem upp kunni að koma eftir gerð samningsins og ekki séu til­færðar í ársreikningnum.  Stefndu hafa ekki mótmælt fjárhæð kröfunnar, 452.499 krónur, og verða því dæmd í sameiningu til að greiða þá fjárhæð, með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað.  Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr.  Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. 

Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum og ­úrslitum í máli þessu er ljóst að stefnandi hefur tapað málinu í öllu verulegu.  Að því virtu þykir rétt að dæma hann til að greiða stefndu málskostnað í einu lagi, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Dómur þessi er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara og Ómari Kristjánssyni og Sverri Ingólfssyni lög­giltum endurskoðendum.

DÓMSORÐ:

Stefndu, Kristinn Guðmundsson, Jónína Gunnars­dóttir, Gunnar Rúnar Kristins­son, Hilmar Kristinsson, Guðmundur Már Kristinsson og Alma Dís Kristins­dóttir, greiði í sameiningu stefnanda, Eignar­­halds­félagi Hörpu hf., 452.499 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. maí 2000 til 27. júní 2001.  Frá þeim degi greiðist dráttarvextir samkvæmt III. kafla téðra laga til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðslu­dags. 

Stefnandi greiði stefndu í einu lagi 400.000 krónur í málskostnað.