Hæstiréttur íslands

Mál nr. 101/2001


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2001.

Nr. 101/2001.

M

(Jón Magnússon hrl.)

gegn

K

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

M og K deildu um forsjá tveggja barna sinna, X, 12 ára, og Y, 6 ára. Töldust báðir aðilar hæfir til að fara með forsjá barnanna. Með hliðsjón af því sem upplýst var um vilja X sjálfrar, nálægðar milli heimila málsaðila og þess að ekkert í álitsgerðum sálfræðinga mælti gegn því að við ákvörðun forsjár X yrði tekið tillit  til óska hennar, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, var dæmt að M skyldi hafa forsjá X en tekið fram að mikilvægt væri að X fengi notið rúmrar og sveigjanlegrar umgengni við K. Þá var, með hliðsjón af því sem fyrir lá í málinu um hagi Y og K, staðfest niðurstaða héraðsdóms um að K skyldi fara með forsjá Y.    

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. mars 2001 og krefst þess að sér verði með dómi veitt forsjá tveggja barna sinna og stefndu, X, f.[…], og Y, f.[…], til átján ára aldurs þeirra. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara, að sér verði dæmd forsjá sonarins Y. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Stefnda hefur gjafsókn fyrir Hæstarétti.

I.

Við málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að frá uppkvaðningu héraðsdóms 19. janúar 2001 hafa börnin X og Y verið í forsjá stefndu. Jafnframt kom fram að áfrýjandi hefur keypt sér rúmgott húsnæði í næsta nágrenni við stefndu. Hefur verið samkomulag um umgengni áfrýjanda við börnin og virðist hún að flestu leyti hafa gengið án árekstra.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð nokkur ný gögn. Er þar meðal annars um að ræða áætlun fjölskyldu- og félagsþjónustu […] 7. febrúar 2001 um meðferð máls  samkvæmt 19. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, en hún var gerð að ósk stefndu. Var markmið áætlunarinnar að X fái nauðsynlega sálfræðiaðstoð, börnin séu örugg á heimili stefndu og að umgengni við föður gangi eðlilega fyrir sig. Jafnframt fái stefnda sálfræðiaðstoð til að ganga frá sínum málum og gengst hún undir það að neyta ekki áfengis meðan börnin eru hjá henni. Einnig hefur verið lögð fram staðfesting skólaskrifstofu […] á því að stefnda sótti á liðnu vori námskeið á vegum félagsvísindadeildar Háskóla Íslands til stuðnings foreldrum.

Í vottorði kennara og leiðbeinanda við leikskólann […] 18. maí 2001 um Y kemur fram að eftir áramót hafi hann verið í betra jafnvægi og dregið hafi úr neikvæðri hegðun hans. Sýni hann meiri blíðu en áður, sem komi mest fram í samskiptum hans við yngri börn. Hafi hann smátt og smátt styrkst og taki þátt í verkefnum, sem fyrir hann eru lögð. Drengurinn hóf nám í […] í […] hinn 24. ágúst sl. og kemur fram í vottorði umsjónarkennara að hann eigi góð samskipti við önnur börn og skili alltaf heimaverkefnum. Móðir hans sé áhugasöm um gang mála í skólanum og hafi mætt á fundi og samveru, sem boðað hafi verið til innan skólans.

Í tveimur vottorðum kennara X kemur fram að hún hafi stundað nám sitt af samviskusemi og náð góðum árangri í prófum. Móðir hennar hafi og fylgst vel með náminu. Í minnisblaði Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings hjá fjölskyldu- og félagsþjónustu […] 6. júní 2001 er greint frá viðtölum hennar við X, en markmið samtalanna var að hjálpa henni að tjá betur tilfinningar sínar, bæta sjálfstraust sitt og sjálfsímynd. Segir þar að X sé mjög lokuð tilfinningalega og eigi erfitt með að tjá tilfinningar sínar og skoðanir. Vanlíðan hennar komi oft fram í líkamlegum einkennum eins og magaverkjum. Hún hafi lítið frumkvæði og sjálfsmynd hennar sé slök. Persónulegur ráðgjafi hefði getað hjálpað henni við að taka á þessum þáttum, en samkvæmt fyrrnefndri meðferðaráætlun fékk hún slíkan ráðgjafa. Hefur komið fram að X vildi ekki hitta ráðgjafann eins oft og áætlað hafði verið, en henni fannst hún ekki hafa þörf fyrir hann. Taldi sálfræðingurinn að henni hefði ekki verið kynntur nægilega tilgangur ráðgjafarinnar og hún ekki kunnað að nýta sér stuðninginn sem skyldi. Í bréfi yfirfélagsráðgjafa fjölskyldu- og félagsþjónustu […] til lögmanns áfrýjanda daginn fyrir munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti segir að komið hafi fram í viðtölum við sálfræðinga stofnunarinnar að X vilji vera hjá föður sínum.

II.

Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Meðal annars er þar rækilega gerð grein fyrir álitsgerð sálfræðinganna Gylfa Ásmundssonar og Aðalsteins Sigfússonar 4. desember 2000, er dómurinn kvaddi til. Kemur þar fram að X óski eftir því að vera hjá áfrýjanda og finni fyrir meira öryggi hjá honum en stefndu, en hins vegar virðist vera meiri tilfinningaleg samskipti milli hennar og stefndu. Svo virðist sem stúlkan sé ekki tengd foreldrum sínum djúpstæðum, traustum tengslum, en hún treysti fremur á föður hvað varðar stöðugleika.

Um Y segir að hann láti skýrt í ljósi að hann vilji búa hjá stefndu, en samskipti þeirra á milli virðist blíðari en milli drengsins og áfrýjanda. Erfitt sé þó að átta sig á tilfinningalífi hans þar sem hann sé mjög hverflyndur í frásögn og órólegur.

Í álitsgerðinni er lýst persónulegum eiginleikum málsaðila og kemur þar fram að þau eru nokkuð ólík að skapferli og hafa bæði við sín vandamál að stríða. Áfrýjandi sé í tiltölulega góðu jafnvægi á ytra borði, en undir niðri megi sjá merki um erfiðleika í mannlegum samskiptum og skort á hæfni til að bindast öðrum nánum tilfinningaböndum. Virðist hann hafa lítið innsæi í sjálfan sig og líðan barna sinna og ofmat á sjálfum sér í föðurhlutverki. Stefnda sé úthverf og virk að skapferli, mannblendin og tilfinningarík, en geti verið hvatvís og átt erfitt með að hemja skapsmuni sína. Í samræmi við það hætti henni frekar til en áfrýjanda að eiga við sýnileg áfengisvandamál að etja. Hún virðist hins vegar hafa hæfileika til að bindast börnum sínum nánum tilfinningaböndum, en virðist skorta innsæi í sjálfa sig og skilning á þeim áhrifum, sem hún hafi á börnin.

Við meðferð á fyrra forsjármáli aðila, sem lyktaði með réttarsátt 20. júní 2000, eins og í héraðsdómi greinir, var aflað álitsgerðar sálfræðinganna Odda Erlingssonar og Sólveigar Ásgrímsdóttur, sem einnig liggur fyrir í máli þessu, en hún var dagsett 5. apríl 2000. Í niðurstöðukafla þeirrar álitsgerðar segir að samkvæmt persónuleikaprófunum sé áfrýjandi í betra andlegu jafnvægi en stefnda og eigi auðveldara með að leysa farsællega vanda án togstreitu og ásakana. Stefnda virðist eiga auðveldara en áfrýjandi með að vera hlý og glöð og sýna börnunum líkamlega nánd og vera næmari á tilfinningalega líðan þeirra. Tengsl hennar við börnin séu frekar á jafningjagrundvelli en hjá áfrýjanda. Samkvæmt viðtölum sálfræðinganna við börnin virtust þeim þau sterkar tengd áfrýjanda en stefndu. Töldu þeir áfrýjanda setja þeim skýrari mörk og skapa þeim meira öryggi.

III.

Báðir aðilar málsins teljast hæfir til að fara með forsjá barna sinna. Ljóst er hins vegar að þau hafa bæði átt við vandamál að stríða og árekstrar þeirra á undanförnum misserum hafa verið börnum þeirra þungbærir og leitt til vanlíðunar þeirra. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, kemur meðal annars fram, að báðir foreldrar verði að breyta miklu í eigin fari og samskiptum hvors við annað til að koma til móts við þarfir barnanna og sé einkum ástæða til að hafa  áhyggjur af andlegri velferð X.

Samkvæmt 4. mgr. 34. gr. barnalaga  nr. 20/1992 skal veita barni, sem náð hefur 12 ára aldri, kost á að tjá sig um forsjármál nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á það eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Fram kemur í báðum þeim álitsgerðum sálfræðinga, sem fyrir liggja í málinu, að það hefur verið ósk X að vera hjá áfrýjanda með skírskotun til þess að þar fyndi hún meira öryggi og stöðugleika. Hins vegar kom einnig fram eindregin ósk hennar um rúma umgengni við stefndu. X verður 13 ára hinn […]. Ekkert haldbært hefur komið fram í málinu, sem bendir til þess að afstaða hennar í þessum efnum hafi breyst. Eins og áður er fram komið er nú stutt á milli heimila aðila málsins. Eru aðstæður þannig með þeim hætti að auðvelt á að vera fyrir þau bæði að tryggja tíð samskipti systkinanna, svo og rúma umgengni þeirra við foreldrana, hvort um sig. Með hliðsjón af framansögðu, og þar sem ekkert í álitsgerðum sálfræðinga þykir mæla gegn því, er eðlilegt að við ákvörðun forsjár X verði tekið tillit til vilja hennar, sem hún hefur ítrekað lýst af einlægni, að því er best verður séð. Verður jafnframt við það að miða að aðilar sýni þörfum barnanna fullan skilning og með vísan til þess, sem fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms, er mikilvægt að X fái notið rúmrar og sveigjanlegrar umgengni við móður sína. Með hliðsjón af því, sem fyrir liggur í málinu um hagi Y og stefndu nú, svo og með vísan til forsendna héraðsdóms, verður staðfest sú niðurstaða hans að stefnda skuli fara með forsjá drengsins.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að áfrýjandi hafi forsjá X en stefnda forsjá Y, eins og krafist er í varakröfu hennar.

Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað stefndu skal fara eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, M, skal fara með forsjá X, fæddrar […],  dóttur hans og stefndu, K.

Stefnda skal fara með forsjá sonar þeirra, Y, sem fæddur er […].

Málskostnaðar- og gjafsóknarákvæði héraðsdóms eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns hennar, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. janúar 2001.

Málið höfðaði M, […] , með stefnu birtri 4. október 2000 á hendur K, […].

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að honum verði með dómi veitt óskipt forsjá tveggja barna hans og stefndu, X, […], og Y, […], til átján ára aldurs þeirra.  Þá er krafist máls­kostnaðar að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti af málflutnings­þóknun.

Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að henni verði dæmd óskipt forsjá barnanna X og Y til átján ára aldurs þeirra, en til vara, að henni verði dæmd óskipt forsjá Y.  Í báðum tilvikum er krafist máls­kostnaðar að skað­lausu úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðu málskostnaðar­yfirliti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnda fékk gjafsókn með bréfi dóms­málaráðherra 7. desember 2000.

Samkvæmt upphaflegri kröfugerð beggja aðila kröfðust þeir einnig óskiptrar forsjár elsta barns þeirra, Z, […], en á aðalmeð­ferðar­degi 11. desember síðastliðinn náðist samkomulag um að aðilar fari áfram með sameiginlega forsjá Z til átján ára aldurs hennar, í samræmi við dómsátt frá 20. júní 2000 í eldra forsjármáli milli sömu aðila, og að stúlkan eigi áfram lögheimili hjá stefnanda.  Verður því ekki lagður efnisdómur á þann þátt málsins.

I.

Málsaðilar hófu sambúð haustið 1982, en stefnda átti þá fyrir tvo syni af fyrra hjónabandi, S og E.  Í […] fæddist þeim dóttirin Z.  Sambúðin mun hafa gengið illa og slitnaði upp úr henni nokkrum árum síðar.  Stefnda fékk þá forsjá dótturinnar.  Aðilar tóku upp sambúð að nýju, án þess að bót væri ráðin á samskipta­örðug­leikum þeirra í milli.  Á því tímabili misnotuðu þau áfengi sem fyrr.  Fór svo að stefnda leitaði áfengismeðferðar á árinu 1986, en stefnandi leitaði sér sálfræði­aðstoðar.  Í kjölfarið munu þau hafa hætt áfengisneyslu um tíma.  Þau eignuðust síðan dótturina X  […] og gengu í hjónaband 22. júlí 1993.  Þeim fæddist sonurinn Y […].  Aðilar skildu að borði og sæng 23. desember 1997.  Með leyfisbréfi útgefnu þann dag var staðfest samkomulag aðila um að þau færu með sameiginlega forsjá barnanna þriggja.  Z skyldi eiga lög­heimili hjá stefnanda, en tvö yngri börnin eiga lögheimili hjá stefndu.  Stefnda fór enn í áfengismeðferð í apríl 1998.  Í nóvember sama ár hóf hún sambúð með öðrum manni eftir stutt kynni og flutti hann inn á heimili hennar.  Hinn 15. desember 1998 fór X til dvalar hjá stefnanda og hefur búið hjá honum síðan.  Aðilar fengu lögskilnað 7. janúar 1999 með óbreyttri skipan forsjár.  Stefnda og sambýlismaður hennar fluttu búferlum til […] 19. mars 1999, en skömmu áður hafði hún fallist á það skriflega hjá sýslumanni að X yrði áfram hjá stefnanda, að minnsta kosti til maíloka sama ár.  Y fór til dvalar hjá stefnanda 3. apríl 1999 og hefur búið hjá honum síðan.  Var áður risinn ágreiningur um skipan forsjár með börnunum þremur.  Fór svo að stefnandi höfðaði forsjármál fyrir Héraðsdómi Norður­lands eystra; á þáverandi heimilisvarnarþingi stefndu.  Dómari í því máli ákvað 14. maí 1999 að stefnandi skyldi fara einn með forsjá barnanna til bráða­birgða, en málið mun að öðru leyti hafa verið fellt niður þar fyrir dómi, þar sem stefnda hafði flutt aftur til […].  Stefnandi höfðaði nýtt forsjármál fyrir Héraðs­dómi Reykjaness í maí 1999 og lauk því máli með dómsátt 20. júní 2000, að undan­genginni öflun álitsgerðar Odda Erlingssonar og Sólveigar Ásgríms­dóttur sálfræðinga dagsettrar 5. apríl 2000.  Samkvæmt sáttinni skyldu aðilar fara með sameiginlega for­sjá barnanna þriggja og X og Y eiga lögheimili hjá stefnanda, en elsta barnið, Z, eiga lögheimili hjá stefndu.  Börnin skyldu dvelja hálft ár í senn hjá hvoru for­eldri; hjá stefnanda frá 1. apríl til 30. september ár hvert og hjá stefndu frá 1. október til 31. mars.  Með sáttinni var einnig kveðið á um umgengnis­rétt aðila við börnin, meðal annars á þá leið, að það foreldri sem börnin dveldu ekki hjá hefði umgengnis­rétt við þau aðra hvora viku frá föstudegi til sunnudags en hina vikuna frá miðviku­degi til föstudags.

Stefnandi kveður börnin hafa verið í umgengni hjá stefndu helgina 25.-27. ágúst síðastliðinn er X hafi sent honum SMS skilaboð að morgni laugar­dagsins 26. og beðið hann um að sækja hana til stefndu, þar sem telpan væri hrædd hjá móður sinni, sem hefði verið að drekka áfengi kvöldið áður.  Hann hefði því sótt telpuna og síðan farið aftur heim til stefndu um hádegi sama dag, ásamt starfsmanni barnaverndarnefndar, til að kanna líðan Y og ástand á heimili stefndu.  Drengurinn hefði þá verið læstur úti og hefði hann sagt að móðir sín væri sofandi inni.  Eftir árangurslausar tilraunir til að vekja stefndu hefði stefnandi tekið drenginn í sína umsjá.  Stefnda hefur gefið þá skýringu á umræddu atviki að hún hafi fengið sér „fjóra bjóra“ að kvöldi föstudagsins og síðan vakað alla nóttina eftir elstu dótturinni, Z, sem ekki hefði komið heim, en áður hefði stefnda verið búin að vera van­svefta tvær nætur á undan vegna áhyggja af stúlkunni.  Hún hefði síðan sofnað um kl. 09 að morgni laugardagsins og líklega gengið í svefni, eins og hún stundum gerði, og þannig vakið ugg hjá X.

Í kjölfar þessa atviks neytti barnaverndarnefnd […] heimildar í barnaverndarlögum og kyrrsetti X og Y  hjá stefnanda hinn 30. ágúst.  Kyrrsetningin var felld niður 18. september síðastliðinn.  Í framhaldi af henni var dómsmál þetta höfðað 4. október og þess jafn­framt krafist í sérstöku máli (mál réttarins nr. B-1/2000) að stefnanda væri fengin óskipt forsjá allra barnanna til bráða­birgða, uns dómur gengi í forsjármálinu.  Á dóm­þingi 19. október síðastliðinn náðust lyktir í bráðabirgðaforsjármálinu með samkomulagi milli aðila um að dóm­sáttin frá 20. júní 2000 héldi gildi sínu að því leyti að þau færu áfram með sameigin­lega forsjá barnanna þar til dómur gengi í aðalmálinu.  Jafnframt myndu börnin eiga áfram lögheimili hjá stefnanda að sinni og hafa þar fasta búsetu.  Eins og áður er rakið náðist síðan samkomulag milli aðila á dómþingi 11. desember síðastliðinn um að for­sjá X verði óbreytt sam­eiginleg til átján ára aldurs hennar.

II.

Í þágu meðferðar málsins fól dómurinn sálfræðingunum Aðalsteini Sigfússyni og Gylfa Ásmundssyni að semja sér­fræði­lega álitsgerð um málsaðila og börn þeirra með tilliti til þess hvaða forsjár­skipan henti best högum og þörfum barnanna.  Í álits­gerð sálfræðinganna frá 4. desember 2000, sem þeir staðfestu fyrir dómi, kemur fram að sálfræðileg athugun á foreldrunum hafi farið fram með viðtölum og ferns konar sál­­fræðilegum prófum. 

Samkvæmt álitsgerðinni gaf stefnandi meðal annars eftirfarandi upplýsingar um forsögu sína og persónulega hagi:

„Hann kynntist stefndu í janúar 1982, en hafði ekki verið í föstu sam­bandi við konu áður.  ... Sambúð þeirra var brösug frá upphafi þótt gott væri á milli þeirra á tímabilum.  Bæði neyttu þau áfengis, sem hafði slæm áhrif á samband þeirra.  Stefnandi segir að þau hafi gengið nokkuð jafnt til verka í heimilis­haldinu og umönnun barnanna.  Hann tók meira að sér þvotta og tiltekt á heimilinu, en hún sá um mat.  Bæði sinntu þau börnunum nokkuð jafnt.  Eldri telpurnar sóttu stuðning til beggja foreldra sinna, en þó var alltaf erfitt á milli Z, elstu telpunnar, og mömmu sinnar.  Þegar telpurnar stækkuðu vildi K helst losna við að sinna þeim.  Þá var hún búin að reka E, son sinn af fyrra hjónabandi, oft út af heimilinu.  Á milli M og strákanna hennar var svolítið skrýtið samband og togstreita.  Þeir voru 2ja ára og sjö mánaða þegar þau hófu sambúð, en hún sinnti þeim illa.

Eftir að þau skildu árið 1997 hafa börnin verið mest hjá honum og hefur hann séð um þau að mestu leyti, t.d. farið með þau til læknis og tannlæknis, annast matseld og þrif.  Hann segir að sér gangi vel að halda reglu á þeim og veita þeim aðhald og þau taka mark á honum í flestu.  Hann skammar þau ef við á, en aldrei í vonsku.  M er vel fjárhagslega stæður, hefur um 260 þúsund kr. í tekjur á mánuði, á þriggja herbergja íbúð og góðan bíl.  Hann stendur skil á skuldum sínum og segist vera í stakk búinn til að kaupa stærri íbúð og má kaupa fyrir 11 milljónir samkvæmt greiðslumati.  M segist vera viss um að hann sé hæfari en K til að fara með forsjá barnanna.  Hún sinni þeim illa, en hann hafi bæði vilja og aðstæður til að búa þeim gott heimili.  Á sumrin fari hann með þau í ferðir til Þórshafnar, en þar á hann, ásamt systkinum sínum og móður, hús sem þau nýta að sumrinu.

[…] .

Samkvæmt álitsgerðinni eru niðurstöður úr sálfræðilegum prófum stefnanda svo­hljóðandi:   

„Í aðalatriðum sýnir sálfræðileg rannsókn á M, að hann er í meðal­lagi gefinn, í tiltölulega góðu andlegu jafnvægi á ytra borði, en sýnir merki um undirliggjandi gremju sem hann beitir talsverðri orku til að hafa hemil á.  Undir niðri má sjá merki um erfiðleika í mannlegum samskiptum og hæfni til að bindast öðrum nánum tilfinningaböndum.“

Samkvæmt sömu álitsgerð gaf stefnda meðal annars eftirfarandi upplýsingar um forsögu sína og persónulega hagi:

„Hún kynntist M fyrst 1976, þegar þau unnu saman, en þau byrjuðu síðan að vera saman 1982, hófu sambúð síðla þess árs og eignuðust saman þrjú börn, en giftu sig 1993.  K  var gift áður og átti með þeim manni 2 drengi.  Hún segir að hjóna­band þeirra M hafi byrjað mjög illa.  Hann var í drykkju og dópi (hass og amfetamín), og smám saman fór hún sjálf að sulla í áfengi með honum eftir að hún eignaðist elstu telpuna.  Hún tók þá ákvörðun að fara í með­ferð og var búin að ganga frá sambúðarslitum, en það dróst og þau skildu ekki fyrr en í desember 1997.  Hún segir að komið hafi tímabil í sambúð þeirra sem voru góð, en samband þeirra var yfir­leitt mjög stirt.  Aðspurð um hvað hafi dregið hana að M í upphafi segir hún að hann hafi verið myndarlegur og aðlaðandi, en hann hafi fljótt sett niður í hennar huga.  Hann kallaði hana öllum illum nöfnum og rifrildi þeirra hafi bitnað illa á börnunum.  Honum fannst K ekki gera nóg fyrir börnin og eitt sinn barði hann K  af því að hún neitaði að hjálpa Z við að bera út blöð.  Aðspurð um stam M, segir hún að það hafi verið honum erfitt, einkum ef hann þurfti að ræða við ókunnuga.  Hann var hins vegar alltaf betri undir áhrifum áfengis eða þegar hann var reiður.  Meðan þau M voru í sambúð var engin sérstök verkaskipting á heimilinu.  Hann gat þó verið duglegur við að sinna húsverkum og annast börnin.

Þegar þau M skildu höfðu þau fyrst sameiginlega forsjá yfir börnunum.  Yngri börnin voru þá hjá K, en sú elsta hjá pabba sínum.  Hann vildi hins vegar fá þær allar til sín til að sleppa við meðlagsgreiðslur.  Hann er í því að kaupa börnin til fylgis við sig, og sérstaklega hefur hann dekrað við Z umfram hin börnin.

Aðspurð um samband sitt við börnin nú verður henni einkum tíðrætt um Z elstu dóttur sína.  Hún segir að samband sitt við Z hafi verið gott þangað til nú undan­farið, sérstaklega eftir að hún rak hana út.  Hún hafði þó alltaf mjög erfitt skap og átti til að tryllast.  Eftir að hún flutti til pabba síns sótti hún mikið heim til mömmu sinnar og þeim kom ekki saman.  Að lokum sló hún hana utan undir og rak hana út af sínu heimili og sagði henni að fara til pabba síns aftur.  Þær talast lítið við nú, en samt sækir telpan í mömmu sína eftir sem áður, kemur alltaf öðru hvoru í sjoppuna þar sem hún vinnur og kaupir eitthvað, en talar ekki við hana.  Þó heilsaði hún mömmu sinni síðast þegar hún kom.  Hún hefur alltaf fengið allt sem hún vill hjá pabba sínum, sem dekrar við hana á dómgreindarlausan hátt.  Nú er hún að tala um að flytja að heiman til einhvers stráks.  K segir að hún sé mjög illa farin.  Hún byrjaði í fjölbrauta­skólanum í fyrra, mætti illa og gafst upp eftir áramót.  Hún byrjaði síðan aftur í skólanum í haust, en hætti og vinnur nú í […]. Pabbi hennar gaf henni bíl áður en hún var búin að taka bílpróf.  K segist ekki geta talað við M um þessi vandamál.  Hann er ósveigjanlegur í öllum samskiptum og segir henni ekkert um líðan barnanna, t.d. þegar drengurinn meiddi sig fyrir stuttu eða Z lenti í árekstri á bílnum.  Slíkt frétti hún frá fólki úti í bæ.  Hann svari henni bara með skætingi. 

Hvað hin börnin varðar á hún erfitt með að botna í X.  Hún kemur til mömmu sinnar en virðist ekki segja pabba sínum frá því og virðist hrædd við hann, þótt hún reyni stöðugt að verja hann.  Y,  yngsta barnið, var með sár á maganum um daginn og sagði að pabbi sinn hefði lamið sig.  Það er greinilegt að börnin eru mjög tvíbent í afstöðu sinni til foreldra sinna.

[…].“

Samkvæmt álitsgerðinni eru niðurstöður úr sálfræðilegum prófum stefndu svo­hljóðandi:   

„ Í aðalatriðum sýnir sálfræðileg rannsókn á K, að hún er allvel greind, en nýtist ekki af greind sinni til fulls.  Ekki koma fram merki um kvíða né neinar meiri háttar geðrænar truflanir, en hún gæti búið yfir duldu þunglyndi og vægum skap­gerðar­brestum.  Hún er úthverf að skapferli, mannblendin, tilfinningarík og getur verið hvatvís og átt erfitt með skapsmuni sína.  Hún er hugmyndarík, í góðum veru­leika­tengslum, en hömlur eru á sjálfkvæmri tjáningu, þannig að hún á erfitt með að gefa frá sér það sem í henni býr.  Þó virðist hún hafa góða hæfileika til að eiga sam­skipti við aðra og bindast nánum tilfinningaböndum.“

 

Heimsóknir til aðila voru liður í hinni sérfræðilegu athugun sálfræðinganna tveggja.  Um þær segir svo í álitsgerðinni:

„Heimsókn til M. Báðir matsmenn fóru í heimsókn á heimili M að […].  Heimsóknin var gerð upp úr hádegi laugar­daginn 25. nóvember.  Börnin voru öll heima hjá föður sínum.  Íbúðin er á 2. hæð í fjöl­býlishúsi, um 80 fermetrar að stærð, þrjú herbergi og eldhús.  Það er stór stofa og gott hol með sjónvarpi, 2 svefnherbergi, bæði með sjónvarpi og annað með tölvu.  Y er ætlað annað herbergið en Z og X  hitt.  Pabbinn sefur í stofunni í stóru hjóna­rúmi, en oft sofa börnin einnig hjá honum.  Y litli á nokkuð af leikföngum, en ekki er að sjá nein leikföng eða afþreyingu hjá X.  Íbúðin er allvel búin hús­gögnum og hrein.  Mikið er um hljómflutningstæki, en lítið um bækur eða myndir á veggjum.  Börnin virðast una sér vel.  Y er mikið á ferðinni og yngri börnin sýna föður sínum eðlileg blíðuhót meðan við stöldrum við.  Y er í leikskóla frá eitt til fimm á daginn, en X er í […].  Báðir þessir staðir eru í nokkurri fjarlægð og faðir þeirra ekur þeim til og frá.  Enginn leik­völlur eða opið leiksvæði er í næsta nágrenni og hverfið einkennist af húsum og bíla­stæðum.  Hins vegar er stutt út í óbyggða náttúru.

Heimsókn til K.  Báðir matsmenn fóru í heimsókn á heimili K að […].  Heimsóknin var gerð síðdegis á þriðjudeginum 28. nóvember.  Yngri börnin, X og Y, voru heima hjá mömmu sinni sam­kvæmt umtali, en þetta var ekki reglulegur umgengnisdagar hennar við börnin.  Íbúðin er á fyrstu hæð í fjölbýlishúsi, 111 fermetrar að stærð, 4 herbergi og eldhús.  Þetta er eigin íbúð K, keypt eftir skilnaðinn 1998, og hún skuldar um 3 milljónir króna í henni.  Íbúðin er opin, gengið í gegnum stofuna yfir í opið eldhús og svefnherbergis­álmu.  Þar er svefn­herbergi K og sofa börnin mest hjá henni, en hafa sérherbergi saman með tveimur rúmum.  E sonur hennar hefur svo þriðja svefnherbergið.  Íbúðin er vel búin hús­gögnum, hlýleg og snyrtileg, þótt ekki virðist mikið lagt upp úr nákvæmri tiltekt.  Lítið er um myndir á veggjum, en nokkur ritsöfn í hillum.  Ekki var að sjá mikið af leik­föngum í herbergi barnanna.  Andrúmsloftið á heimilinu er gott og virðist náið og eðlilegt tilfinningasamband vera á milli móður og barna og frjálsleg og stundum glettin samskipti.  Umhverfið virðist vera barnvænt, stutt í leiksvæði og hættur af umferð litlar.“

 

Rætt var sérstaklega við börnin, en í þeim viðtölum voru notuð sem hjálpar­gögn annars vegar Bene Anthony fjölskyldutengslapróf fyrir eldri og yngri börn og hins vegar sjálfsmatsprófið Jag tycker jag är. 

Þótt þáttur Z komi ekki til úrlausnar í máli þessu þykir rétt til upp­lýsingar og samhengi máls vegna að geta þess helsta sem fram kom í viðtölum og prófum á henni.  Segir meðal annars svo um hana í álitsgerðinni:  

„Í viðtali virðist Z reyna að vera eins hreinskilin og raunsæ gagnvart foreldrum sínum og henni er unnt.  Frásagnir og útskýringar eru fremur einhæfar og bera líklega vitni um að uppeldisaðstæður hafi ekki verið hvetjandi og örvandi.  Z segist eiga erfiðar minningar frá hjónabandi foreldra sinna.  Beri þar hæst mikil drykkja þeirra beggja og að faðir lagði hendur á móður.  Hún segir þau bæði hafa minnkað drykkju sína eftir skilnaðinn, en faðir drekki einu sinni til tvisvar í viku, en hún sjái hann sjaldan drukkinn.  Hún telur drykkju móður vera aðeins meiri og hún verði drukkin.  Hún segist ekki eiga sér heitari ósk en foreldrar hætti að drekka og að þau geti talað saman.  Jafnframt vildi hún að samskipti allrar fjölskyldunnar væru betri.  Hún segir móður hafa farið tvisvar í áfengismeðferð, sem hafi þó ekki borið tilætlaðan árangur.  Faðir hafi hins vegar ekki farið í meðferð.  Hún segir að skilnaður foreldranna hafi verið að frumkvæði móður og faðir hafi verið mjög ósáttur við þessa ákvörðun móður.  Hún telur að hann hafi síðan átt frumkvæði að því að þau tóku saman aftur í stuttan tíma á árinu 1998, en sama drykkjan hafi þá haldið áfram.  Hún telur að faðir sé reiðari í garð móður, en öfugt, en kann ekki skýringu á hvers vegna.

Nokkuð ber á óöryggi þegar Z er spurð um tilfinningar sínar í garð foreldra.  Hún segist sveiflast í viðhorfum til þeirra, henni þyki vænt um þá, en sé þeim mjög reið, þó reiðari í garð móður.  Hún segist eiga erfitt með að segja hvers vegna, en líklega sé það vegna þess að móðir hafi slegið hana sl. haust, sem leiddi til þess að hún fór frá henni til föður.  Þar að auki drekkur hún.  Hún segir samkomulag þeirra þó, að öðru leyti hafa verið sæmilegt. Hún telur hvorki vera innilegt samband milli hennar og foreldra hennar, né trúnaðarsamband.  Þó hafi hún getað rætt við móður sína hér áður og jafnframt treyst henni.  Í því sambandi nefnir hún að móðir hennar hafi fremur skilið málefni sem tengjast stúlkum, en faðir. Eftir skilnað foreldra hennar í desember 1997 bjó Z  hjá föður.  Hana langaði til að prófa að vera hjá móður sinni svo hún flutti til hennar í mars á þessu ári og var hjá henni fram til september sl.  Hún segir að betra sé að vera hjá föður.  Hún kann hins vegar engar skýringar á því hvers vegna, aðra en þá að móðir hafi slegið til hennar og að hún fái sér „í glas“ oftar en faðir.

Fram kemur í viðtölum að mikil vanlíðan er hjá Z og sjálfsmynd hennar afar veik.  Hún segist ekki vera vinsæl í jafnaldrahópnum, en hún eigi þó félaga.  Hún segist vera óánægð með sig, hún sé feimin, óframfærin og neikvæð.  Þá finni hún fyrir miklum kvíða, höfuðverkjum og magaverkjum.  Henni er gjarnt á að gráta í einrúmi þegar hún leggst til svefns og oftlega hafi hún hugsað um að svipta sig lífi. ... Aðspurð um yngri systkini sín segist hún telja að þeim líði báðum illa vegna átaka foreldranna og drykkju þeirra.  Vegna þessa sé X „alltaf fúl“ og Y fyrirferðarmikill og árásargjarn.  Hún segist hafa lítil tengsl við eldri bræður sína.  Z er beðin um að lýsa foreldrum sínum.  Hún á ákaflega erfitt með það og segir einungis að þeir séu ágætir.“

Lagt var fyrir Z fjölskyldutengslapróf fyrir eldri börn.  Segir svo um niðurstöður prófsins í álitsgerð sálfræðinganna:

„Gott samræmi er milli helstu niðurstaðna prófsins og viðtala.  Af mögulegum átján jákvæðum skilaboðum frá Z fær faðir þrjú og móðir eitt.  Þetta rennir stoðum undir afar erfið og brotin tengsl milli Z og foreldranna sem virðist fyrst og fremst helgast af erfiðum uppeldislegum kringumstæðum.  Af sextán mögulegum jákvæðum skilaboðum til Z upplifir hún sig aðeins fá tvö frá föður og eitt frá móður, sem ber enn frekar vitni um uppeldisaðstæður stúlkunnar.  Í þessu sambandi er ekki gerður greinarmunur á foreldum.  Af þessu leiðir að tilfinningaleg samskipti eru dreifð, óörugg og lítt gefandi og nauðsynlegar lykilpersónur vantar.  Hún virðist beina reiði sinni, sem hún hefur talað um, með nokkuð áberandi hætti til móður sinnnar.  Þessu jafnframt kemur fram rík tilhneiging til sjálfsgagnrýni sem gefur ástæðu til að hafa áhyggjur af velferð Z.  Hún virðist upplifa að báðir foreldrar reyni að setja henni mörk, en að öðru leyti virðist hún upplifa að hún sé fremur afskipt.  Af þeim aðilum sem hún tiltekur í prófinu, virðist hún tengdust Y, bróður sínum.“

Samkvæmt álitsgerðinni lýsa málsaðilar Z á svohljóðandi veg:

M segir Z frekar lokaða, henni líði illa, hún sýni mótþróa og að hún eigi erfitt skap.  Hann segist telja að hún eigi ekki í neinum félagslegum erfiðleikum og óttist ekki að svo verði í framtíð.  Hann telur sig eiga trúnað hennar.“

„K segist hafa miklar áhyggjur af Z því hún sé svo skemmd af uppeldis­­aðstæðum sem einkenndust af rifrildum, líkamlegum átökum og drykkju.  Að auki hafi Z verið uppáhald föður síns og því fengið allt upp í hendurnar.  Hún bregðist því illa við, fái hún ekki það sem hún vill.  Hún telur hana nokkuð vanþroska og óábyrga og segist hafa verulegar áhyggjur af stúlkunni og framtíð hennar.  Hún telur hana vera í mikilli þörf fyrir sálfræðilega aðstoð.“

Um afstöðu foreldranna segir síðan í álitsgerðinni:

„Í lýsingu föður kemur fram að hann telur ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af velferð stúlkunnar og jafnframt að hann telji sig eiga trúnað stúlkunnar.  Þessar lýsingar benda til að hann geri sér ekki að fullu grein fyrir erfiðleikum dóttur sinnar eða þeim takmörkunum sem eru í samskiptum þeirra.

Í lýsingu móður kemur fram að hún gerir sér grein fyrir erfiðleikum stúlkunnar og þörf yfir aðstoð.  Hún hefur hins vegar tilhneigingu til að kenna stúlkunni sjálfri um og föður og dregur ekki fram eigin þátt í uppeldisaðstæðum með skýrum hætti.“

 

Sálfræðingarnir ræddu með líkum hætti við X og lögðu fyrir hana samsvarandi próf.  Segir svo um stúlkuna í álitsgerð þeirra:

„X er […] ellefu ára stúlka, […].  Hún myndar ágæt tengsl, en er á varðbergi.  Henni er mikilvægt að vernda foreldra sína og rétta hlut þeirra sé hún spurð, að hennar mati, óþægilegra spurninga.  Hún hefur ágætt úthald, virðist samviskusöm og einlæg.  Hún tekur nærri sér að ræða um foreldra sína.  Greind virðist innan eðlilegra marka.

Eftir skilnað foreldranna segir X að hún hafi búið hjá móður fram í desember 1998.  Frá þeim tíma hefur hún búið hjá föður og líkað það ágætlega.  Hún segist hafa orðið fegin þegar foreldrar hennar skildu, en þá hafi dregið úr drykkju þeirra og átökum.  Aðspurð um drykkju foreldranna í dag segir hún föður drekka minna en áður, og hann verði ekki „fullur“.  Hún segist ekki lengur sjá móður drekka, en þegar hún var hjá henni spurði móðir hana hvort hún mætti drekka.  Drykkjan hafi síðan orðið meiri en um var talað og móðir því orðið drukkin.

Aðspurð um samskipti við foreldra segir X að hún og móðir tali mun meira saman um líðan hennar en hún og faðir geri og móðir taki oftar utan um hana.  Af viðtölum og teikningum að dæma vill hún að faðir taki oftar utan um hana.  Þá gerir hún hvorki í viðtölum, né á teikningum greinarmun á væntumþykju til foreldra.  Hún segir að sér þyki gott að ræða við móður, einkum þó um líðan sína.

Aðspurð um líðan sína segir hún að hún sé oft döpur og líði mjög illa og vilji hún þá helst deyja.  Hún nefnir nokkrar ástæður fyrir þessari líðan og má draga þær saman í eftirfarandi.  Í fyrsta lagi ósætti foreldra sinna, í öðru lagi hversu illa þau tala um hvort annað (m.a. segir móðir að faðir sé skrýtinn og barnalegur og faðir segir að móðir sé skrýtin og aumingi), í þriðja lagi að móðir verður svo æst og reið og í fjórða lagi að faðir meini henni að hafa frjálsa umgengni við móður.  Nokkuð áberandi er hversu miklvægt þetta atriði er fyrir X og kemur hún nokkrum sinnum að því í viðtölum.  Hún segist oftar vera döpur en glöð og ræði hún það stundum við móður.  Stúlkunni er því mjög mikilvægt að hafa þennan aðgang að móður.  Hún segist þó heldur vilja búa hjá föður og virðist þar ráða mestu að hún telur sig öruggari hjá honum og má ætla að það sé m.a. vegna minninga um ölvunarástand móður og að hún hafi orðið hrædd við hana (sbr. „mamma æsist svo upp og verður ýkt reið“).  Þá kemur fram að hún mundi ekki geta gert upp á milli þess hvar hún vildi búa, ef hvorugt foreldranna drykki.

Í viðtölum og með hjálp teikninga kemur fram að X mundi ekki vilja að fjölskyldan mundi búa saman, til þess hafi hún of slæmar minningar.  Hins vegar vill hún að öll systkinin séu saman.  Hún segir að sér líði illa hvort sem hún er hjá föður eða móður, en að hún eigi meiri tilfinningaleg samskipti við móður og þær eigi auð­velt með að tala saman.

Af þessu má ráða að heimili föður sé athvarf, þ.e. öruggari staður.  Faðir standi því fremur fyrir öryggi en móðir.  Móðir sé hins vegar sá aðili sem stúlkan leiti frekar til um tilfinningaleg samskipti og önnur samskipti jafnvel einnig.

Ber hér að undirstrika nauðsyn þess, fari svo að X verði ekki undir forsjá móður, að hún eigi kost á ríkulegri og aðallega sveigjanlegri umgengni við móður.“

Lagt var fyrir X fjölskyldutengslapróf fyrir eldri börn.  Segir svo um niðurstöður prófsins í álitsgerð sálfræðinganna:

„Gott samræmi er milli helstu niðurstaðna prófsins og viðtala.  Af mögulegum átján jákvæðum skilaboðum frá X fær faðir tvö og móðir eitt.  Þetta rennur stoðum undir afar erfið tengsl milli X og foreldranna sem virðist fyrst og fremst helgast af erfiðum uppeldislegum kringumstæðum.  Af sextán mögulegum jákvæðum skilaboðum til X upplifir hún sig aðeins fá eitt frá föður og tvö frá móður, sem ber enn frekari vitni um uppeldisaðstæður stúlkunnar.  Af þessu má ætla að óvissa og kvíði tengist samskiptum stúlkunnar við foreldra og að ekki hafi verið til staðar for­sendur til að mynda innileg og traust tengsl. Talsverð átök koma fram milli stúlkunnar og Z.  Fram kemur sú upplifun X að móðir hafi tilhneigingu til að ofvernda Y.  Þannig virðist hún ekki síður sjá móður, en föður í umönnunarhlutverki fyrir drenginn.  Talsverð systkinaátök eru milli hennar og Y, en  hún upplifir nokkuð sterk tengsl milli þeirra tveggja.  X virðist í ágætu sambandi við S bróður sinn.  Fram kemur mikil neikvæðni í eigin garð sem, ásamt viðtölum bendir til neikvæðrar sjálfsmyndar.  M.a. segir hún að sér sé strítt í skóla fyrir hversu lítil hún sé og feit.“

Einnig var lagt fyrir X áðurnefnt sjálfsmatspróf.  Segir svo um niður­­stöður þess í álitsgerðinni:

„Niðurstöður gefa til kynna neikvæða sjálfsmynd, neikvæða hugmynd um fjöl­skyldu sína og tilfinningalega erfiðleika.  Prófið er aðeins til aðstoðar, en gefur engu að síður mynd í samræmi við álit úr viðtölum.“ 

Samkvæmt álitsgerðinni lýsa málsaðilar X á svohljóðandi veg:

  „Faðir segir að X sé ólík systur sinni, sé mun ákveðnari.  Henni líði hins vegar ekki vel vegna erfiðleika í umgengni og annarra þátta.  Hann segir stúlkuna öruggari hjá sér og líði því betur hjá honum en móður.  Hann segir samband við móður erfitt, en kann ekki skýringar á því.  Hann segir hana vilja búa hjá sér.“

„Móðir segir X vera blíða stúlku, en henni líði mjög illa, sé grátgjörn spennt og óhamingjusöm.  Hún segir hana ávallt í vörn fyrir föður og sé sáttasemjari, reyni að hafa alla góða.  Hún segir að X  hafi sagt sér að hún vildi deyja.  Móðir segir að stúlkan sé mjög háð sér þegar umgengni fari fram og leiti mjög eftir líkam­legri snertingu.  Móðir segist ekki geta sagt til um hvort stúlkan sé tengdari sér eða föður.“

Um afstöðu foreldranna segir síðan í álitsgerðinni:

„Fram koma nokkuð aðrar áherslur í máli föður en móður varðandi X.  Faðir gerir sér vel grein fyrir að henni líði illa og leggur áherslu á neikvæð samskipti við móður og að stúlkan vilji búa hjá sér.

Móðir leggur áherslu á tilfinningar stúlkunnar og gerir nokkra grein fyrir aðstöðu stúlkunnar.  Lýsing er þannig ríkari og ber vitni um meira innsæi.

Hvorugt foreldranna nefnir hins vegar eigin veikleika og afleiðingar þeirra fyrir stúlkuna.“

Um sálfræðilega athugun á Y segir svo í títtnefndri álitsgerð:

„Y er fimm ára, […].  Hann er nokkuð ærslafenginn, fer úr einu í annað og á fremur erfitt með að einbeita sér.  Hann er fremur brosmildur og dálítið óstöðuglyndur.

Við skilnað foreldra var drengurinn hjá móður fram í apríl 1999 þegar hann fór til föður.  Hann kom í viðtöl með móður annars vegar og föður hins vegar.

Y segist vera í leikskóla þar sem honum finnst skemmtilegt, enda eigi hann marga vini þar.  Í viðtali fer hann úr einu í annað og erfitt er að halda honum upp­teknum við eitt ákveðið efni.  Með sama hætti sveiflast hann nokkuð í viðhorfum til sinna nánustu og erfitt er að henda reiður á hver viðhorf hans í raun eru.  Hann segir t.d. að Z og mamma séu skemmtilegastar, en hann sé „pabba drengur“.  Fram kemur hjá honum í fyrsta viðtali að „pabbi er vondastur, mamma er góðust“.  Hann gefur þá skýringu á þessu að pabbi rassskelli hann.  Hann er nokkuð orðljótur, segir „ég er að reyna að drepa pabba“ og segir aftur skýringuna að hann rassskelli hann.  Eins og fyrr segir er drengurinn öfgakenndur í hegðun og jafnframt í tali, í athugun, og ber að líta á þetta í því ljósi.  Þegar teiknuð eru tvö hús og hann er beðinn um að staðsetja sig í öðru hvoru segist hann vilja búa hjá báðum foreldrum.  Nokkru síðar segist hann vilja búa hjá móður, en hann hafi ekki sagt föður það því hann vill að hann búi hjá sér.  Hann segist alls ekki vilja búa hjá X, „X er að gera mig brjálaðan“.  Á teikningu staðsetur hann X og föður saman, sem vond, en móður og Z saman sem góð.  Þó segir hann að pabbi sé stundum góður því hann spili við hann.“

Niðurstöður fjölskyldutengslaprófs fyrir yngri börn voru þessar:

„Y velur föður og móður og systur sínar.  Afgerandi niðurstaða er úr prófinu sem felst í mun fleiri jákvæðum skilaboðum til móður.  Af mögulegum átta jákvæðum skilaboðum fær móðir fjögur, en faðir eitt.  Af mögulegum átta jákvæðum boðum í eigin garð fær hann sjö frá móður og eitt frá föður.  Neikvæð skilaboð til föður er eitt en ekkert til móður.  Neikvæð skilaboð frá föður eru þrjú, en ekkert frá móður.  Neikvæð skilaboð eru milli drengsins og X, en Z er jákvæður aðili.  Jafnframt kemur fram að Y virðist duglegur og sjálfstæður drengur sem reynir fremur að bjarga sér, en treysta á aðstoð annarra.

Þar sem talsvert misvægi var milli foreldra í niðurstöðum prófsins og drengnum er gjarnt að fara úr einu í annað reyndi matsmaður að leggja nokkur atriði fyrir drenginn að nýju, við annað tilfelli, þar sem faðir fylgdi drengnum.  Svo virðist sem drengurinn hafi haft meiri tilhneigingu til að deila jákvæðum og neikvæðum boðum jafnar milli foreldra við það tilfelli.

Á ofangreindum forsendum er mjög erfitt að segja til um hvoru foreldri drengurinn er tengdari.  Hins vegar virðast samskipti milli drengsins og móður vera blíðari, en milli föður og drengsins.

Móðir ræddi við matsmann um sár sem drengurinn fékk á síðuna, á því tíma­bili sem athugun fór fram.  Taldi hún að faðir hefði lamið drenginn.  Matsmaður ræddi sérstaklega við drenginn og X samtímis um þetta.  Svo virðist sem sár þetta hafi komið í leik þeirra.  Jafnframt var rætt sérstaklega um mögulegt kynferðis­legt ofbeldi, þar sem móðir taldi ástæðu til þess.  Börnin neituðu með trúverðugum hætti að slíkt hefði átt sér stað.“

Samkvæmt álitsgerðinni lýsa málsaðilar Y á svohljóðandi veg:

„Faðir segir að Y sé fremur opinn og hress drengur, en einnig fremur árársar­gjarn.  Hann segir að drengnum líði ekki vel, enda viti hann að togast sé á um hann.  Hann segir drenginn blíðan, eins og reyndar hin systkinin eru einnig.  Hann segir drenginn háðan þeim báðum, enda viti drengurinn ekki hvað gengið hafi á í sam­skiptum þeirra foreldra.  Vissi hann það væri hann háðari föður og veldi að vera hjá sér.“

„Móðir segir að drengurinn sé mjög blíður, en jafnframt árásargjarn og sé honum gjarnt að hafa í hótunum fái hann ekki sínum framgengt.  Þá sé nauðsynlegt fyrir drenginn að hafa mikið fyrir stafni, því að öðrum kosti sé drengurinn órólegur.  K segist ekki vita hvoru foreldrinu hann er tengdari.“

Um afstöðu foreldranna segir síðan í álitsgerðinni:

„Fram kemur í lýsingum beggja foreldra að drengurinn sé blíður, en árásar­gjarn og virðast þau sammála um að ekki sé hægt að gera upp á milli hvoru foreldrinu drengurinn er háðari.“

Auk framangreindra viðtala og prófana var rætt við syni stefndu af fyrra hjóna­bandi, þá S, fæddan […] og E, fæddan […].  Segir svo í álitsgerð sérfræðinganna um viðtalið:

„Drengirnir komu vel fyrir og virtist fara vel á með þeim.  Þeir voru sann­gjarnir og öfgalausir í frásögn og raunsæir.  Þeir skýrðu frá uppeldisaðstæðum sínum og samskiptum við móður og M og fram kom með skýrum hætti hversu erfiðar þessar aðstæður voru í huga drengjanna.  Er þeim efst í huga harkaleg framkoma M gagnvart þeim, en ekki síður drykkja M og móður þeirra og þau átök sem urðu á milli þeirra tveggja þegar þannig stóð á.  Einkenndust þá samskipti þeirra ýmist af „öskrum eða þögnum“ og hafi enginn millivegur verið til.  Var heimilislífið þjakað af þessu ástandi.  Hins vegar hafi bæði M og móðir þeirra verið húsleg og hugsað vel um heimilið þegar drykkja var ekki viðhöfð.

Bræðurnir hafa áhyggjur af hálfsystkinum sínum og telja að þeim líði illa.  Þeir taka fram að M komi betur fram við sín eigin börn, en hann hafi gert við þá.

Bræðurnir telja bæði M og móður þeirra blind á eigin veikleika og hvorugt þeirra hafi tekið ábyrgð á eigin hegðun, þ.e. að hætta að drekka.

Aðspurðir hvernig þeir vildu helst að mál yngri systkinanna skipuðust segir annar þeirra að X ætti að vera hjá föður, en Y hjá móður, en hinn telur að hvorugt foreldranna ættu að hafa börnin.

Aðspurðir un tengsl yngri systkinanna telja þeir að Y sé háðastur móður, en X reyni að þóknast þeim báðum.  Þeir telja að systkinunum komi afar illa saman.“

Í lok álitsgerðar sálfræðinganna tveggja er eftirfarandi samantekt og ályktun:

„Í matsbeiðni héraðsdómara er matsmönnum falið að gera álitsgerð með tilliti til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 og þeirra ellefu atriða, sem nefnd eru í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til barnalaga á sínum tíma.  Hér á eftir verður reynt að svara þeim atriðum sem hér eru talin skipta máli að svo miklu leyti sem efni standa til.

1. Tengsl barnsins við hvort foreldri um sig, þar á meðal hjá hvoru barn hefur dvalist og hvort það hefur umgengist mest, m.a. eftir samvistarslit.

Athugun leiðir í ljós Z virðist ekki tengd foreldrum sínum sterkum jákvæðum tengslum.  Hún gerir ekki greinarmun á foreldum sínum hvað þetta varðar.

Svo virðist sem X finni fyrir meiru öryggi hjá föður, en móður.  Hins vegar virðist vera meiri tilfinningaleg samskipti milli hennar og móður, sem felast í að þær tala meira saman um líðan stúlkunnar og líkamleg snerting er mun meiri milli þeirra en milli stúlkunnar og föður.  Svo virðist sem stúlkan sé ekki tengd foreldrum sínum djúpstæðum traustum tengslum, en hún treystir fremur á föður hvað varðar stöðugleika.

Y lætur mjög skýrt í ljós að hann vill búa hjá móður, en samskipti milli hans og hennar virðist blíðari, en samskipti milli föður og drengsins.  Drengurinn er mjög hverflyndur í frásögn og órólegur og því erfitt að átta sig á tilfinningalífi hans.  Líklegt er þó að hann sæki mjög í tilfinningaleg samskipti sem hann virðist fremur fá frá móður, en fram kemur í athugun að drengurinn er blíður.

2. Persónulegir eiginleikar og hagir hvors foreldris um sig og barnsins.

Báðir foreldrarnir eru eðlilega greindir með rökrétta hugsun og í nokkuð eðli­legum veruleikatengslum.  Þau eru hins vegar nokkuð ólík að skapferli og hafa bæði við sín vandamál að etja.

M er í tiltölulega góðu jafnvægi á ytra borði, en undir niðri má sjá merki um erfiðleika í mannlegum samskiptum og skort á hæfni til að bindast nánum til­finningaböndum.  Hann virðist hafa lítið innsæi í sjálfan sig og líðan barna sinna og ofmat á sjálfum sér í föðurhlutverkinu.

K er úthverf og virk að skapferli, mannblendin og tilfinningarík, en getur verið hvatvís og átt erfitt með að hemja skapsmuni sína.  Hún á í samræmi við það í meiri hættu en M til að hafa sýnileg áfengisvandamál.  Hún virðist hafa hæfi­leika til að bindast börnunum nánum tilfinningaböndum, en hana virðist þó skorta inn­sæi í sjálfa sig og skilning á þeim áhrifum sem hún hefur á börnin.

3. Óskir barnanna.

Fram kemur í athugun að Z vill búa hjá föður.  Sama ósk kemur fram hjá X, en hún finnur til meira öryggis hjá föður.  Að frátöldu áfengi gerir hún ekki greinarmun á foreldum.  Y setur mjög skýrt fram þá ósk að vera hjá móður.

4. Breyting á umhverfi.

X hefur verið hjá föður sínum frá því í desember 1998.  Y hefur verið hjá föður sínum frá því í apríl 1999.  Af þessu má ætla að minni breytingar verði á högum barnanna, verði þau áfram hjá föður.  Þess ber þó að gæta að X gengur í […], að eigin ósk, sem tilheyrir íbúðarhverfi því sem móðir býr í.  Þessu jafn­framt segir X að hún eigi fleiri vinkonur í námunda við heimili móður, en föður.  Mun meiri breyting yrði fyrir Y, flytti hann til móður.  Rétt er þó að hafa í huga að því yngri sem börn eru, því auðveldar eiga þau með að laga sig að nýjum aðstæðum.

5. Systkini.

Sterkust systkinatengsl virðast vera milli Z og Y.  Að öðru leyti virðist um fremur yfirborðsleg tengsl að ræða.

6. Áhrif kyns og aldurs barns á forsjárhæfni foreldranna.

Almennt er talið að mæður eigi auðveldara með að sinna og setja sig í spor stálpaðra dætra sinna en feður og dætur eigi auðveldara með að leita ráða hjá mæðrum sínum um kynbundin atriði.  Jafnframt eru mæður mikilvægar fyrirmyndir dætra sinna.  Að þessu leyti er móðir mikilvægari fyrir X en faðir.  Ekki er gerður greinarmunur á milli foreldra varðandi Y,  hvað þetta atriði varðar.

7. Umgengni barns og forsjárlauss foreldris.

Umgengni er mikilvæg.  Lögð er áhersla á, fari faðir með forsjá X,  að hún eigi greiðan aðgang að móður og umgengnisreglur verði sveigjanlegar.“

Eins og fyrr segir staðfestu sálfræðingarnir álitsgerðina fyrir dómi.  Fram kom í vætti þeirra að Gylfi Ásmundsson hefði einkum haft með höndum sálfræðilega rann­sókn á aðilum, en Aðalsteinn Sigfússon hefði stýrt sálfræði­legri athugun á börnunum. 

Aðspurður um persónulega eiginleika aðila og hæfni til að fara með forsjá barnanna bar Gylfi að þau væru ólíkir einstaklingar og hefðu sína kosti og galla.  Kostir stefnanda fælust einkum í því að hann skapaði börnunum öruggara umhverfi og því vildu þau vera hjá honum.  Ókostir í fari stefnanda væru einkum þeir að hann virtist hafa skerta hæfni í mannlegum samskiptum og til að bindast öðrum nánum og eðli­­legum tilfinningaböndum, auk þess sem hann sýndi merki um undirliggjandi gremju.  Stefnda virtist á hinn bóginn búa yfir góðum hæfi­leikum til að eiga samskipti við aðra og bindast nánum tilfinningaböndum.  Þannig gæfi hún börnunum meira af sér tilfinningalega og veitti þeim andlega næringu og þess vegna sæktu þau í hana.  Styrkur hennar fælist einkum í þessu.  Á móti kæmi að stefnda væri úthverf að skap­ferli og gæti verið hvatvís og átt erfitt með skapsmuni sína.  Vandamál tengd áfengis­neyslu væru því sýnilegri en hjá stefnanda.  Einkennandi fyrir báða aðila væri skortur á innsæi fyrir þörfum barnanna.  Þá væri einkennandi hve tengslamyndun væri í raun lítil innan fjölskyldunnar.

Aðalsteinn bar fyrir dómi að við sálfræðiathugun á börnunum þremur hefði verið einkennandi að tengsl milli einstaklinga virtust ekki vera náin.  Þó hefðu virst vera ákveðin tilfinningatengsl milli stefndu og X, en að öðru leyti hefðu slík tengsl innan fjölskyldunnar virst „ansi brotin“.  Tengsl stúlkunnar við stefnanda hefðu virst annars eðlis, þ.e. að hjá honum hefði henni fundist hún vera öruggari en hjá stefndu og virtist stúlkan tengja það að miklu leyti við áfengisneyslu móður, en einnig við erfiðleika hennar með skapsmuni sína.  Því virtist stúlkan fremur kjósa að búa áfram hjá föður, þrátt fyrir að tengsl hennar við hann væru ekki sterkari en við móður.  Réði þar mestu öryggið annars vegar og hins vegar það að losna við áfengis­­­neyslu móður.  Á hinn bóginn hefði stúlkan augsýnilega þörf fyrir mikla og einkum óhefta umgengni við móður, sem væri sú eina sem stúlkan leitaði til í til­finningalegum málum og hefði meiri skilning á erfiðleikum hennar.  Ljóst væri að stúlkunni liði afar illa og væri full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af andlegri velferð hennar.  Hún væri ábyrg og staðsetti sjálfa sig í miðri deilu foreldra sinna, sem hún vildi hafa mikil samskipti við, hvort um sig.

Aðalsteinn kvað afstöðu Y vera skýra um að hann vildi fremur vera hjá móður en föður.  Málið með drenginn væri að hann þyrfti mjög skýr skila­boð um reglu og ákveðna festu í öðrum efnum.  Enn fremur þyrfti hann mikla blíðu og kærleika til að sníða af vankanta með hörku og grófan talsmáta.  Hann væri geysilega næmur á umhverfi sitt, en í honum byggi óróleiki og tilhneiging til að nýta sér mjög aðstæður eins og honum henti hverju sinni, meðal annars varðandi val á því hjá hvoru foreldri hann dveldi.  Á slíkum atriðum mætti hann ekki hafa stjórn.

Aðalsteinn kvað ekki óvenjulegt í forsjárdeilum af þessu tagi að sjá mætti sterkari tengsl milli barna og þess foreldris, sem þau hefðu búið hjá eftir samvistarslit.  Svo væri ekki að sjá í þessari for­sjárdeilu og bæri í því sambandi að horfa til þess að börnin, einnig Z, hefðu gegnum tíðina upplifað afar slæm samskipti milli foreldranna, bæði hræðslu­vekjandi og kvíðavekjandi, sem meðal annars hefðu kallað fram depurð hjá Z og X.  Vegna þessa og ýmissa annarra atriða í fari for­eldranna hefðu ekki þróast og þroskast dýpri og innilegri samskipti milli þeirra og barnanna.  Þar sem tengsl milli foreldra og barna væru hér ekki ýkja sterk, heldur ekki milli barnanna innbyrðis, væri ekkert sérstakt sem virtist mæla með því að börnin alist upp saman hjá öðru hvoru foreldri.

Aðalsteinn kvað niðurstöður fyrrgreindra sálfræðiathugana vera trúverðugar um það hvar Z og X  vildu fremur vera, en sagði erfitt að átta sig á Y, því hann færi úr einu í annað. 

Aðalsteinn kvað sér hafa komið á óvart við rannsóknina að máls­aðilar skyldu ekki báðir taka eindregna og algera afstöðu gegn neyslu áfengis, því komið hefði mjög sterklega fram hjá börnunum að áfengis­neysla foreldranna skipti svo miklu máli í afstöðu þeirra og henni hefði fylgt svo mikil neikvæðni í hugum barnanna.  Virtust báðir aðilar eiga erfitt með að átta sig á eigin veikleikum og draga fram sína vankanta.    

III.

Stefnandi greindi meðal annars frá því í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi að hann teldi sál­fræðingana ekki taka nægilegt tillit til alvarlegs mál­heltis hans við mat á hæfni hans til að sýna tilfinningar og hlýju í garð barna sinna.  Þá hefðu sífelldar ásakanir stefndu um kynferðislega mis­notkun haft gríðar­leg áhrif á sam­skipti hans við börnin og heft hann í tilfinningalegum sam­skiptum við þau.  Einnig hefðu hann og börnin verið undir gríðarlegu álagi undan­farin misseri vegna deilna hans og stefndu og hefði það bitnað á sam­skiptum þeirra innbyrðis.  Taldi stefnandi að umrædd atriði hefðu haft villandi áhrif á niður­stöður sál­fræðinganna tveggja um hæfni hans sem uppalanda og til tengsla­myndunar.  Stefnandi kannaðist við að hafa stundum hindrað umgengni stefndu við börnin, en í þeim tilvikum hefði það fyrst og fremst verið vegna áfengis­neyslu hennar.  Yngri börnin hefðu þá verið farin í umgengni til stefndu, en X  hefði síðan sent SMS skila­boð til stefnanda og beðið um að þau yrðu sótt.  Þá hefði hann enn fremur verið því mót­fallinn að X hitti stefndu eftir skóla á virkum dögum, utan umsamins umgengnistíma, án þess að fá leyfi til þess hjá honum eða að minnsta kosti láta hann vita af því fyrir fram, t.d. með SMS skilaboðum.    

Stefnda greindi meðal annars frá því í sinni aðilaskýrslu að hennar helsti veik­leiki í dag væri bjórinn, en ef henni liði illa þá vildi hún fá sér bjór til að slaka á og jafnvel sofna.  Yfir­leitt neytti hún bjórs tvisvar í viku, tvo til fjóra í senn, en sjaldan þannig að börnin sæju til.  Á því hefði orðið breyting eftir áfengismeðferðina í apríl 1998 og skilnaðinn við stefnanda.  Hún teldi því ekki lengur um vandamál að ræða þar sem hún hefði ákveðna stjórn á neyslunni.  Færi svo að henni yrði dæmd forsjá annars eða beggja barnanna væri hún hins vegar ákveðin í að hætta allri áfengisneyslu og leita aðstoðar hjá AA samtökunum, enda hyrfi þá um leið þörf hennar fyrir bjór í slökunar­skyni.  Stefnda kvað börnin þjást af vanlíðan eftir skilnaðinn og þyrftu þau öll á sálfræði­aðstoð að halda.  Sambandið væri sérstaklega erfitt milli X og Y og ættu þau í eilífum erjum og slagsmálum þegar þau væru í umgengni hjá henni.  Fram kom hjá stefndu, að ef hún fengi forsjá barnanna myndi hún vilja haga umgengni þeirra við stefnanda á þann veg að hann fengi börnin til sín aðra hvora helgi, frá föstudegi til sunnudags.  Hún kvaðst hafa góðan aðgang að syst­kinum og móður varðandi aðstoð við umönnun barnanna og myndi íhuga að hætta í núverandi vaktavinnu og fá sér daglaunastarf, ef hún hefði forsjána. 

Auk málsaðila og áðurnefndra vitna komu fyrir dóm sem vitni Hjördís Árna­dóttir félags­mála­stjóri í […] og Rannveig Einarsdóttir yfirfélags­ráð­gjafi hjá fjöl­skyldu- og félags­þjónustu […].  Vitnin báru um afskipti félagsmála­yfir­valda af forsjár- og umgengnisréttardeilu aðila.

IV.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að hagsmunum barnanna X og Y sé best borgið með því að hann fari með óskipta forsjá þeirra.  Hann hafi annast börnin vel frá fæðingu þeirra og að verulegu leyti eftir að aðilar skildu að borði og sæng í desember 1997.  Hann haldi þeim gott og hlýlegt heimili, sem sé ávallt opið og öruggt skjól fyrir börnin, enda hafi hann haft þau hjá sér að veru­legu leyti þrátt fyrir að börnin hafi fram til 14. maí 1999 átt formlegt lög­heimili hjá stefndu.  Hann hafi gætt þess eftir bestu getu hvernig ástatt væri fyrir stefndu og hvernig heimilis­högum hennar væri háttað, en mikil óregla hafi verið á stefndu og í kringum hana.  Stefnda hagi sér einnig á öfgafullan hátt og sé í málinu með ýmist rangar eða öfgafullar lýsingar á öllum hlutum, þar á meðal um ætlað ofbeldi af hans hálfu, vímuefnaneyslu og kynferðislega áreitni gagnvart Y, sem ekki sé á rökum reist.  Aðstæður hans til að fara með forsjá barnanna séu þvert á móti allar hinar ágætustu.  Hann sé með öruggt húsnæði og í föstu starfi hjá […], þar sem hann hafi starfað um árabil.  Fái hann dæmda for­sjána geti börnin haldið áfram í sínum skólum og verið í góðum tengslum við vini sína og félaga.  Þá búi móðir hans eigi langt frá heimili þeirra, en þar sé ávallt opið hús fyrir börnin og geti þau ávallt leitað þangað.  Til að tryggja að líf barnanna haldist í föstum og öruggum skorðum kveðst stefnandi vera reiðubúinn að gera umgengnis­réttar­samning við stefndu; með minni umgengni þó en samkvæmt dóm­sáttinni frá 20. júní 2000.   

Stefnandi byggir kröfu sína á barnalögum nr. 20/1992, einkum 34. og 35. gr. laganna, en einnig vísaði lögmaður hans í málflutningi til ákvæða laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna.  Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en krafa um virðisaukaskatt af mál­flutnings­­þóknun var í málflutningi studd lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

V.

Stefnda byggir kröfur sínar á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, sbr. 2. mgr. 35. gr. sömu laga, en börnunum X og Y sé báðum fyrir bestu að vera hjá henni.  Hún hafi meiri skilning á þörfum barnanna og hafi sterkari til­finninga­tengsl við þau en stefnandi, sem ofmeti sjálfan sig í uppeldishlutverkinu og eigi erfitt með mannleg samskipti og myndun tilfinningatengsla.  Persónulegir eigin­leikar hennar séu því betri en hjá stefnanda.  Þá séu aðstæður hennar sömuleiðis betri ef eitt­hvað er.  Að því er sérstaklega varðar X eigi hún í miklum persónu­legum erfiðleikum og sé því betra nú, vegna aldurs hennar og kyns, að hún njóti forsjár móður en föður.  Að því er Y varðar hafi komið fram skýr vilji hans til að vera hjá móður.  Sé varakrafan reist á því, en hún styðjist við niðurstöðu sál­fræði­álits­gerðar frá 4. desember 2000, auk þess sem slík forsjárskipan gæti betur tryggt eðlilega umgengni á báða bóga, en stefnandi hafi til þessa viljað stýra um­gengni stefndu við börnin og hafi stöðvað umgengnina eftir hentugleikum.  Þá reyni stefnandi með mark­vissum hætti að innræta hjá börnunum andstöðu við stefndu og tali illa og niður­­lægjandi um hana í návist þeirra.  Auk þess hafi hann gegnum tíðina beitt hana miklu ofbeldi á heimilinu og einnig syni hennar tvo af fyrra hjónabandi.  Stefnandi spili einnig á samúð og með­aumkun barnanna til að fá þau til að gera það sem henti honum og hræði þau og kúgi til að þóknast honum.  Börnin hafi áður upp­lifað heimilis­­ofbeldi gagnvart stefndu og viti því til hvaða ráða stefnandi grípi, sé honum ekki hlýtt.  Því sé mikilvægt að börnin séu tekin úr því varhugaverða uppeldis­umhverfi, sem stefnandi búi þeim.  Sérstaklega er mótmælt framburði stefnanda um mikla óreglu stefndu, en hún neyti einkum áfengs bjórs, í svipuðum mæli og stefnandi sjálfur.

Stefnda byggir málskostnaðarkröfu sína á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna, en kröfuna um virðisauka­skatt af málflutningsþóknun styður hún við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

VI.

Dómurinn hefur í mörg horn að líta við úrlausn á því hjá hvorum málsaðila forsjá barnanna X og Y verði.  Af álitsgerð sálfræðinganna Aðalsteins Sigfússonar og Gylfa Ásmundssonar, sem studd er öðrum gögnum, verður ráðið að áralöng misnotkun áfengis af hálfu beggja aðila hafi haft slæm áhrif á sam­band þeirra og uppeldisaðstæður barna á sameiginlegu heimili þeirra, þar á meðal tveggja sona stefndu af fyrra hjónabandi.  Svo virðist sem aðilar hafi nú hvort fyrir sig dregið úr áfengis­neyslu eða að minnsta kosti breytt neysluvenjum þannig að sam­eigin­leg börn þeirra, sem enn eru háð forsjá, verði minna vör við neysluna en áður.  Af nýlegum viðtölum sálfræðinganna við Z og X er þó ljóst að hvorugur aðila hefur látið alveg af áfengisneyslu, en bæði hafa tilhneigingu til að gera lítið úr eigin neyslu og vandamálum, sem henni hafa fylgt.  Af viðtölum og sálfræði­prófum, sem lögð voru fyrir stúlkurnar, má enn fremur ráða að uppeldisaðstæður hafi ekki verið hvetjandi og örvandi og að stúlkurnar eigi erfiðar minningar frá hjónabandi foreldra sinna, einkum Z, sem nú er á átjánda aldursári.  Beri þar hæst mikil áfengisneysla, eins og áður segir og ósætti milli foreldranna, sem enn virðist valda því að þau geti ekki talast við um líðan og hagsmuni barnanna, þrátt fyrir að rúm tvö ár séu liðin frá lög­skilnaði þeirra.  Einnig virðast þau bæði hafa ríka til­hneigingu til að tala illa um hvort annað í návist barnanna.  Af þessum sökum sé sjálfs­­mynd Z og X nei­kvæð og vanlíðan oft svo mikil að þær vilji ekki lifa.  Virðist sem X geri ekki greinarmun á því hjá hvoru foreldri hún sé að því er þetta varðar; henni líði að eigin sögn illa hjá þeim báðum.  Telja sálfræðingarnir ástæðu til að hafa veru­legar áhyggjur af andlegri velferð telpunnar.  Í viðtölum við aðila hafi komið fram að þau geri sér bæði grein fyrir vanlíðan hennar, en hvorugt þeirra nefni hins vegar eigin veikleika í því sambandi og afleiðingar þeirra veikleika fyrir hana.  Er það álit sér­­­fræðinganna að lýsing stefndu sé þó ríkari og beri vott um meira innsæi í tilfinningalíf telpunnar en lýsing stefnanda.  Virðist sem hún líti á heimili stefnanda sem öruggari stað og að hann standi þannig fremur fyrir öryggi en stefnda í huga telpunnar.  Hins vegar sé stefnda sá aðili sem telpan leiti frekar til um tilfinningaleg sam­skipti og önnur samskipti jafnvel einnig.  Leggja sálfræðingarnir á það áherslu í álits­gerð sinni hve nauðsynlegt sé að telpan eigi kost á ríkulegri og aðal­lega sveigjan­legri umgengni við stefndu, fari svo að stefnanda verði dæmd forsjá telpunnar.  Af álits­gerðinni verður ráðið að drengurinn Y hafi ekki borið jafn skarðan hlut frá erfiðum uppeldisaðstæðum, en hann var aðeins tveggja ára er aðilar skildu að borði og sæng.  Aðilum beri saman um að hann sé blíður að eðlis­fari, en árásargjarn og virðast þau sammála að ekki sé unnt að gera upp á milli hvoru þeirra hann sé háðari.  Niðurstöður úr fjöl­skyldu­­­tengslaprófi hefðu þó verið afgerandi og falist í mun fleiri jákvæðum skilaboðum til móður en föður.              

Samkvæmt álitsgerðinni sýnir sálfræðileg rannsókn á persónulegum eigin­leikum stefnanda að hann sé í meðal­­lagi gefinn og í tiltölulega góðu andlegu jafnvægi á ytra borði, en sýni merki um undirliggjandi gremju, sem hann beiti talsverðri orku til að hafa hemil á.  Undir niðri megi sjá merki um erfiðleika í mannlegum samskiptum og hæfni til að bindast öðrum nánum tilfinningaböndum. 

Sambærileg rannsókn á stefndu sýni að hún sé allvel greind, en nýtist ekki af greind sinni til fulls.  Ekki komi fram merki um kvíða eða meiri háttar geðrænar truflanir, en hún gæti búið yfir duldu þunglyndi og vægum skap­gerðar­brestum.  Hún sé úthverf að skapferli, mannblendin, tilfinningarík og geti verið hvatvís og átt erfitt með skapsmuni sína.  Hún sé hugmyndarík og í góðum veru­leika­tengslum, en hömlur séu á sjálfkvæmri tjáningu, þannig að hún eigi erfitt með að gefa frá sér það sem í henni býr.  Þó virðist hún að mati sérfræðinganna hafa góða hæfileika til að eiga sam­skipti við aðra og bindast nánum tilfinningaböndum.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 skal ágreiningi um forsjá barns ráðið til lykta í samræmi við það sem talið er barninu fyrir bestu.  Meðal atriða sem kanna þarf eru tengsl barns við hvort foreldri um sig, þar á meðal hjá hvoru foreldri barnið hefur dvalist og hvort það hefur umgengist mest, meðal annars eftir samvistarslit.  X verður tólf ára í febrúar næst komandi og hefur búið hjá stefnanda frá því í desember 1998.  Y er ný­lega orðinn sex ára og hefur búið hjá stefnanda frá því í apríl 1999.  Gögn málsins bera þó ekki með sér að börnin séu tengdari föður en móður.  Af títtnefndri sálfræði­álits­gerð verður reyndar ráðið að X sé ekki tengd foreldrum sínum sterkum jákvæðum tengslum, sem skýrist fyrst og fremst af erfiðum uppeldis­að­stæðum og óvissu og kvíða í samskiptum við þá.  Hafi því ekki verið til staðar for­sendur til að mynda innileg og traust, djúpstæð tengsl. Telpan geri því ekki greinarmun á foreldrum sínum hvað þetta varðar.  Hún treysti þó fremur á föður hvað varðar öryggi og stöðug­leika, en sæki til móður tilfinninga­leg sam­skipti, sem felist í því að þær tali meira saman um líðan telpunnar, og líkamlega snertingu, sem sé mun meiri þeirra í milli.  Y mun samkvæmt álits­gerðinni hafa látið mjög skýrt í ljós að hann vilji búa hjá móður, en samskipti milli hans og hennar virðast blíðari en sam­skipti við föður.  Erfitt sé þó að átta sig á til­finninga­lífi hans, en líklegt sé að hann sæki mjög í tilfinningaleg samskipti, sem hann virðist fremur fá gegnum móður.  

Persónulegir eiginleikar og hagir hvors foreldris um sig eru þýðingarmikil atriði við úrlausn málsins.  Er vikið að þessum þáttum hér að framan, en báðir aðilar virðast vera innan eðlilegra marka að því er þetta varðar.  Stefnandi virðist þó fremur en stefnda ofmeta sjálfan sig sem uppalanda og er samkvæmt sálfræðiathugun með lítið innsæi í sjálfan sig og líðan barnanna og virðist hafa minni skilning á vanda­málum þeirra og þörfum en stefnda.  Ytra jafnvægi er hins vegar meira hjá honum en stefndu, sem er tilfinninga­rík að eðlisfari og getur átt erfitt með skapsmuni sína.  Er þetta eitt þeirra atriða sem X  segir að stuðlað hafi að vanlíðan hennar, þ.e. að móðir hennar verði svo æst og reið.  Þá virðist stefnda ekki hafa innsæi í eigin áfengis­neyslu og rétt­­lætti meðal annars drykkjumynstur sitt fyrir dómi með því að skella skuldinni á yfir­standandi forsjárdeilu.  Er að áliti dómsins ljóst að stefnda þurfi að axla ábyrgðina sjálf og ráða varanlega bót á áfengisvandamáli sínu vilji hún sinna uppeldi barnanna eins og þau eiga rétt til og koma til móts við þarfir þeirra.  Þá er ein­kennandi fyrir stefndu að hún virðist ósjálfstæðari en stefnandi og virðist láta börnin ráða miklu sjálf og taka ábyrgð um of.  Skýrt dæmi um þetta er áfengisneysla stefndu að kvöldi 25. ágúst síðastliðins, en þá segist stefnda hafa spurt X hvort henni væri sama þótt hún fengi sér áfengan bjór.  Hafi telpan svarað því játandi.  Að sögn stefndu hefði hún ekki verið að fara á fyllirí og því hefði henni ekki fundist óeðlilegt að spyrja barnið.

Ekki verður gert upp á milli aðila hvað varðar atvinnuhagi og heimilis­aðstæður, en bæði stunda vinnu með eðlilegum hætti og búa í eigin hús­næði.  Hvorugt þeirra er í sambúð eða sambandi við þriðja aðila og segjast bæði geta leitað liðsinnis vanda­manna við umönnun barnanna, ef þörf er á.  Umhverfi við heimili stefndu er að öllum líkindum barnvænna en við heimili stefnanda; stutt í leiksvæði og hættur af umferð litlar.  Þá er styttra frá heimili hennar í leikskóla Y og í grunn­skóla X,  […] sem er í sama íbúðarhverfi, en telpan segist einnig eiga fleiri vinkonur í námunda við heimili móður en föður.

Samkvæmt athugun sálfræðinganna setur Y mjög skýrt fram þá ósk að vera hjá móður.  X  segist vilja búa hjá föður, en þar finni hún til meira öryggis.  Að frátöldu áfengi geri hún þó ekki greinarmun á foreldrum sínum að þessu leyti.  Helstu ástæður sem hún gefur fyrir mikilli vanlíðan er eins og fyrr greinir ósætti for­eldra, illt umtal þeirra í garð hvors annars, skapsmunir móður og síðast en ekki síst að faðir hennar meini henni að hafa frjálsa umgengni við móður.  Að sögn telpunnar eigi hún meiri tilfinningaleg samskipti við móður og eigi þær auðvelt með að tala saman.  Telur dómurinn að þessi samskipti eigi eftir að verða enn mikilvægari á næstu árum þegar telpan kemst á kynþroskaaldur, en mæður eru að auki almennt mikil­vægar fyrirmyndir dætra sinna.  Verður að telja að stefnda sé að þessu leyti mikil­vægari fyrir X en stefnandi.  Koma þar einkum til áðurnefndir eigin­leikar hvors aðila um sig.  Hvað varðar síðastgreint atriði um aldur og kyn barns er að áliti sálfræðinganna ekki gerður greinar­munur á milli aðila varðandi Y.     

Samkvæmt framansögðu telur dómurinn ekki einsýnt hjá hvoru foreldri hags­munum barnanna X og Y sé betur borgið með tilliti til fram­tíðar.  Börnin hafa búið hjá stefnanda síðustu misseri við þokkalegar aðstæður, stöðugleika og öryggi, án þess þó að þau hafi bundist honum nánum tilfinninga­böndum, einkum X, sem býr við afar mikla vanlíðan.  Við samanburð á álits­gerð sál­fræðinganna tveggja og fyrri sálfræðiálitsgerð frá í apríl 2000 virðist helst mega ráða að líðan telpunnar hafi versnað.  Að sögn telpunnar mun hún vera fegin að foreldrar hennar hafi skilið, en vill að systkinin haldi hópinn.  Hún kveðst ekki gera greinar­mun á væntumþykju til foreldranna. 

Dómurinn verður að hafa að leiðarljósi hvaða forsjárskipan henti best högum og þörfum barnanna.  Við mat á því skiptir máli að tilfinningaleg tengsl þeirra við stefndu virðast nánari en við stefnanda, að stefnda virðist hafa meira innsæi í líðan þeirra en stefnandi, að stefnda virðist mun líklegri en stefnandi til að fá nauðsynlega utanað­komandi aðstoð við að ráða bót á eigin vanda og vanda­málum barnanna og loks að stefnda er mun lík­legri til að virða eðlilega umgengni en stefnandi, sem hefur að eigin sögn ítrekað gripið einhliða inn í umgengni stefndu við börnin.  Víst er að taka þarf á vanlíðan barnanna og ráða bót á högum þeirra, en báðir foreldrar virðast bera ábyrgð á því hvernig komið er fyrir þeim.  Ljóst er að báðir foreldrar verða að breyta miklu í eigin fari og samskiptum hvort við annað til að koma til móts við óskir og þarfir barnanna, einkum X, en ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af andlegri velferð hennar.  Enn fremur er ljóst að til þarf að koma dyggur stuðningur félagsmálayfirvalda. 

Með hliðsjón af öllu því sem nú hefur verið rakið og með vísan til 1. ml. 2. mgr. 34. gr. barnalaga er það álit dómsins að dæma beri stefndu óskipta forsjá barnanna X og Y  til átján ára aldurs þeirra.  Er það eindregin von dómenda að stefndu beri gæfa til að leita þeirra stuðningsúrræða sem völ er á, bæði fyrir sjálfa sig og börnin. 

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.  Útlagður kostnaður vegna öflunar sér­fræði­legrar álits­gerðar sálfræðinganna Aðalsteins Sigfússonar og Gylfa Ásmunds­sonar, krónur 553.350, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er þóknun lögmanns hennar, Daggar Páls­dóttur hæstaréttarlögmanns og þykir hæfilega ákveðin krónur 420.000, greiðist úr ríkissjóði.  Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt.

Jónas Jóhannsson héraðs­dómari kvað upp dóminn ásamt meðdómsmönnunum Álfheiði Steinþórsdóttur sálfræðingi og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingi.

Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna jólaleyfa og embættisanna dómsfor­manns.  Lögmenn eru sammála dómendum um að ekki sé þörf á endurflutningi máls vegna þessa, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

DÓMSORÐ:

Stefnda, K, skal fara með óskipta forsjá tveggja barna hennar og stefnanda, M; þeirra X, sem fædd er […] og Y, sem fæddur er […].

Málskostnaður fellur niður.  Kostnaður vegna öflunar sálfræðiálitsgerðar, krónur 553.350, greiðist úr ríkissjóði.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, krónur 420.000, sem er þóknun lögmanns hennar, Daggar Páls­dóttur hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.