Hæstiréttur íslands
Mál nr. 493/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Símahlerun
|
|
Mánudaginn 27. júlí 2015. |
|
Nr. 493/2015.
|
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum (Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri) gegn X (enginn) |
Kærumál. Símahlerun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um heimild til að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símtöl og önnur fjarskipti við nánar tilgreint símanúmer X, og eftir atvikum önnur símanúmer sem X kynni að hafa umráð yfir, með skírskotun til þess að skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála væru ekki fyrir hendi í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 22. júlí 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tilgreindum fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að heimila honum að „hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] og önnur símanúmer og símtæki sem X hefur í eigu sinni eða umráðum í 14 daga frá og með úrskurðardegi.“ Þá var þess krafist að heimildin næði til þess að „skrá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer er hringt úr og í símanúmerið [...]og önnur símanúmer og símtæki sem ofangreindur aðili hefur í eigu sinni eða umráðum, í 14 daga frá og með úrskurðardegi og skrá IMEI númer sem framangreint símanúmer mun nota á sama tímabili, ásamt því að skrá sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf framangreinds númers, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig munu tengjast téðu númeri á sama tíma.“ Kæruheimild er í i. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili hefur ekki átt kost á að láta málið til sín taka, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands miðvikudaginn 22. júlí 2015
Héraðsdómi Suðurlands hefur borist krafa lögreglustjórans í Vestmannaeyjum, dagsett 21. maí [sic] 2015, en móttekin í gær, þess efnis að úrskurðað verði með vísan til 80. gr. og 81. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 82. gr., 1. mgr. 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, að Símanum hf., Nova ehf., IP Fjarskiptum ehf. og Vodafone ehf., verði gert skylt að leyfa lögreglunni í Vestmannaeyjum að hlusta á og hljóðrita símtöl úr og í símanúmerið [...] og önnur símanúmer og símtæki sem X, kt. [...], hefur í eigu sinni eða umráðum í 14 daga frá og með úrskurðardegi. Þess er einnig krafist að heimildin nái til þess að skrá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer er hringt úr og í símanúmerið [...] og önnur símanúmer og símtæki sem ofangreindur maður hefur í eigu sinni eða umráðum, í 14 daga frá og með úrskurðardegi, og skrá IMEI númer sem framangreint símanúmer mun nota á sama tímabili, ásamt því að skrá sendar og mótteknar SMS sendingar sem og samtöl við talhólf framangreinds númers, en jafnframt verði upplýst hverjir eru rétthafar allra þeirra númera sem þannig munu tengjast téðu númeri á sama tíma.
I.
Í greinargerð með framangreindri kröfu kemur fram að lögreglan hafi um nokkurt skeið vitað að X væri í neyslu fíkniefna og stundaði sölu þeirra. Samkvæmt sakavottorði kærða hafi honum þann [...] og [...] verið gerð sekt fyrir vörslu fíkniefna og að þann [...], hafi verið gefin út ákæra á hendur honum fyrir að hafa meðal annars haft í vörslu sinni 3,65 grömm af maríhúana þann [...] sl. Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um að kærði stundi víðfeðma sölu og dreifingu fíkniefna og hafi heimildarmaður lögreglu tilgreint 18 ætlaða kaupendur fíkniefna af kærða og fjóra menn sem heimildarmaður lögreglu telji að selji kærða fíkniefni. Þá hafi lögreglan í Vestmannaeyjum til rannsóknar fíkniefnamál sem tengist rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi og varði sendingu á 97,15 grömmum af amfetamíni til [...]. Í rannsókn lögreglustjórans í Vestmannaeyjum hafi komið fram í yfirheyrslu af stúlku þeirri sem sótt hafi umrædda sendingu í [...] í [...], að kærði og annar nafngreindur maður stunduðu sölu á fíkniefnum í [...]. Þá hafi, í tengslum við rannsókn á líkamsárásarmáli á hendur kærða, komið fram hjá vitni að kærði sé að egna til slagsmála og að þeir sem kaupi af honum fíkniefni standi að baki honum í ætluðum brotum. Einnig vísar lögreglustjóri til þess að kærði hafi, við handtöku í tengslum við líkamsárásarmál þann 7. júní sl., haft í fórum sínum 102.000 krónur. Að lokum er í greinargerð lögreglustjóra gerð grein fyrir upplýsingaskýrslu þar sem lögreglumaður, sem sat inni á veitingastað í Vestmannaeyjum, mun hafa fylgst með för kærða á hjólabretti um götur í nágrenni veitingahússins og orðið vitni að samskiptum kærða við mann nokkurn, en samskiptin hafi staðið yfir í innan við tvær mínútur. Að þeim loknum hafi lögreglumaðurinn sé að kærði hafi haldið á einhverju í hendinni, mögulega pening. Umræddur lögreglumaður hafi talið að þarna hafi farið fram sala á fíkniefnum.
Lögreglustjóri telur samkvæmt framangreindum upplýsingum að ljóst sé að kærði stundi sölu og dreifingu fíkniefna í Vestmannaeyjum, enda séu framangreindar upplýsingar áreiðanlegar. Til þess að upplýsa frekar umfang sölu hans í Vestmannaeyjum og hverjir vitorðsmenn hans séu og hvaðan hann kaupi efnin, sé lögreglu nauðsynlegt að fá heimild til að hlusta ofangreint símanúmer og númer tengd honum.
Kærði sé stórtækur í flutningi fíkniefna til Vestmannaeyja sem og sölu og dreifingu þeirra. Vísar lögreglustjóri til þess að brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/ 1940, geti varðað allt að 12 ára fangelsisrefsingu ef sannast. Í ákvæði 1. mgr. 173. gr. a. segi : ,,Hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skal sæta fangelsi allt að 12 árum.“ Í 2. mgr. segi: ,,Sömu refsingu skal sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.“ Lögreglustjóri telur ljóst að báðar málsgreinar ákvæðisins eigi við um háttsemi kærða og vísar til upplýsingaskýrslu þar sem tekinn er saman langur listi einstaklinga sem kaupi efni af kærða að staðaldri gegn verulegu gjaldi, sbr. framangreindar upplýsingar um peninga sem kærði hafi haft á sér. Með vísan til þess sölumangs sem kærði sé með í gangi sé ljóst að brot kærða myndi varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Af hálfu lögreglustjóra er á því byggt að mikilvægir almannahagsmunir séu fyrir því að upplýsa málið eins og frekast sé kostur. Er þá bent á þær upplýsingar sem fyrir liggi í málinu um að kærði sé stórtækur í sölu fíkniefna í [...]. Í ákvæði 2. mgr. 83. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé kveðið á um að skilyrði þess að gripið verði til aðgerða sem farið er fram á í beiðni þessari, séu að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Samkvæmt ákvæðinu þurfi því að minnsta kosti annað skilyrðið að vera uppfyllt þ.e. annars vegar brot sem varðað getur 8 ára fangelsi eða hins vegar að ríkir almannahagsmunir krefjist þess. Vísar lögreglustjóri einnig til þess að Þjóðhátíð standi fyrir dyrum í Vestmannaeyjum, en þar komi saman u.þ.b. 16.000 gestir. Því séu miklir almannahagsmunir í því að koma í veg fyrir sölu fíkniefna þá helgi. Að mati lögreglustjóra eru í máli þessu bæði skilyrðin 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt.
Lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum sé því nauðsyn að fá nefndan úrskurð, sbr. tilvitnuð lagaákvæði, enda ástæða til þess að ætla að upplýsingar, sem geta skipt miklu fyrir rannsókn málsins, fáist með þessum hætti. Nauðsynlegt sé að fá að hlera alla síma viðkomandi en alþekkt sé að seljendur fíkniefna skipti ört um síma til að torvelda lögreglu rannsókn mála.
II.
Í 81. gr. laga nr. 88/2008 segir að með þeim skilyrðum sem greind eru í 83. gr. og 1. mgr. 84. gr. sé heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki ellegar við síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki í eigu eða umráðum tilgreinds manns. Með sömu skilyrðum er heimilt að leyfa lögreglu að fylgjast með eða taka upp fjarskipti með þar til gerðum búnaði. Framangreind rannsóknarúrræði fela í sér verulega skerðingu á grundvallarrétti einstaklings til friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum er heimildum til að beita greindum rannsóknarúrræðum settar þröngar skorður, sbr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í 1. mgr. 83. gr. laganna segir að skilyrði fyrir aðgerðum samkvæmt 80.82. gr. sé að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti. Þá segir í 2. mgr. 83. gr. laganna að auk þess sem segi í 1. mgr. verði þau skilyrði að vera fyrir hendi, svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr., að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Það er þannig skilyrði þess að slíkar rannsóknaraðgerðir verði heimilaðar sem krafist er, að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.
Í greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargögnum kemur fram að heimildarmaður lögregla hafi annars vegar tilgreint fjölda einstaklinga sem hafi keypt fíkniefni af kærða og hins vegar tiltekna einstaklinga sem kærði sjálfur kaupi fíkniefni af. Fyrir liggur að kærði hefur tvisvar sætt sektarefsingu fyrir vörslu fíkniefna. Í upplýsingaskýrslu, sem fylgdi með kröfu lögreglustjóra, kemur fram að nafngreind stúlka hafi í skýrslutöku í fíkniefnamáli hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum greint frá því að kærði og nafngreindur maður stunduðu sölu fíkniefna í Vestmannaeyjum. Samkvæmt lögreglustjóra mun framangreind stúlka tengjast rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á ætlaðri sendingu á 97,15 grömmum af amfetamíni til Vestmannaeyja. Þá kemur fram í dagbókarfærslu lögreglu frá 7. júní sl., að við leit á kærða, í kjölfar afskipta lögreglu af kærða í tengslum við rannsókn á líkamárás, hafi fundist 102.000 krónur í veski kærða og fram kemur að kærði hafi upplýst að væru atvinnuleysisbætur.
Að virtum gögnum málsins og með vísan til dómaframkvæmdar þykir lögreglustjóri ekki hafa sýnt fram á að ætluð brot kærða, sem til rannsóknar eru, varði við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1040. Eins og ráðið verður af athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 88/2008 er með skilyrðinu í 2. mgr. 83. gr. þeirra laga um að ríkir almannahagsmunir geti réttlætt það að gripið verði til aðgerða á borð við símahlustun samkvæmt 81. gr. laganna vísað til annarra samfélagslegra hagsmuna en einvörðungu þeirra að brot séu upplýst, enda hefði skilyrðið um að rannsókn þurfi að beinast að broti, sem varðað getur að lögum átta ára fangelsi, að öðrum kosti takmarkaða þýðingu. Vísast í þessu sambandi til dóma Hæstaréttar Íslands í máli nr. 101/2014 frá 12. febrúar 2014, í máli nr. 610/2014 frá 18. september 2014 og í máli nr. 368/2015 frá 28. maí 2015.
Samkvæmt öllu framansögðu þykja ekki vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfu lögreglustjóra í máli þessu. Kröfunni er því hafnað.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Framangreindri kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum er hafnað.