Hæstiréttur íslands

Mál nr. 329/1999


Lykilorð

  • Skattur
  • Jöfnunargjald
  • Endurgreiðsla
  • Fyrning


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2000.

Nr. 329/1999.

Ástríður Hauksdóttir

Brynhildur Georgsdóttir

Georg H. Tryggvason

Harpa Georgsdóttir

Hildigunnur Georgsdóttir og

Tryggvi Georgsson

(Örn Höskuldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

og gagnsök

 

Skattar. Jöfnunargjald. Endurgreiðsla. Fyrning.

Í lok árs 1996 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem lagt var á samkvæmt heimild í reglugerð landbúnaðarráðherra, hefði verið ólögmæt. Félagið E, innflytjandi franskra kartaflna, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu til endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna innflutnings á frystum og forsteiktum kartöflum, sem greidd voru á tímabilinu frá apríl 1993 til júní 1995. Var annars vegar um að ræða 120% jöfnunargjald en hins vegar  gjaldtöku á grundvelli yngri reglugerðar sem kvað á um 90% jöfnunargjald. Við meðferð málsins í héraði varð breyting á aðild sóknarmegin og tóku Á, B, G, H, HG og T við rekstri málsins í stað E. Voru aðilaskiptin ekki talin varða frávísun málsins. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á nauðsyn álagningar 90% jöfnunargjalds á innfluttar kartöflur, af ástæðum sem raktar yrðu til sjónarmiða um viðbrögð við innflutningi landbúnaðarvara á óeðlilega lágu verði. Var álagningin hvorki talin hafa samrýmst takmörkunum á heimild ráðherra né kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu og því hafi hún ekki farið að lögum. Var sú álagning jöfnunargjalds sem endurgreiðslukröfur lutu að því talin ólögmæt.  Miðað var við að við ákvörðun vöruverðs til viðskiptamanna E hefði verið tekið mið af hinu ólögmæta jöfnunargjaldi og verðið verið hærra sem því nam.  Voru Á, B, G, H, HG og T talin hafa leitt verulegar líkur að því að samkeppnisstaða E hefði raskast nokkuð á þessu skeiði vegna jöfnunargjaldsins og voru þau talin eiga rétt til endurgreiðslu gjaldsins að því marki, sem telja mætti næsta öruggt, að það hefði í raun ekki skilað sér til baka í verðlagningu vörunnar. Var ríkið dæmt til að greiða Á, B, G, H, HG og T hluta hins ofgreidda jöfnunargjalds.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 1999. Þau krefjast þess, að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim in solidum 23.237.390 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, eins og nánar greinir í héraðsdómi, frá 13. apríl 1993 til greiðsludags auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

 Málinu var gagnáfrýjað 19. nóvember 1999. Gagnáfrýjandi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er krafist staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til þrautavara er þess krafist, að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar til mikilla muna og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt, þar á meðal um afkomu Ekrunnar hf. 1992-1995 og upplýsingar úr Árbók landbúnaðarins 1990-1995 og verslunarskýrslum Hagstofu Íslands 1991-1995.

I.

Í málinu krefjast áfrýjendur endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna innflutnings Ekrunnar hf. á frystum og forsteiktum kartöflum, sem greidd voru á tímabilinu frá   13. apríl 1993 til 30. júní 1995. Upphaflega var krafist endurgreiðslu vegna sömu gjalda frá 20. mars 1992, en við aðalmeðferð í héraði var fallið frá kröfu vegna gjalda fyrir 13. apríl 1993.

Vara þessi var háð sérstöku jöfnunargjaldi samkvæmt heimild í 2. tl. e-liðar 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. 1. gr. laga nr. 25/1986, og síðar d-lið 1. mgr. 30. gr. núgildandi búvörulaga nr. 99/1993, en hún var felld niður með lögum nr. 87/1995 um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Lög nr. 46/1985 veittu landbúnaðarráðherra víðtækar heimildir til afskipta af innflutningi á búvörum. Framangreint ákvæði heimilaði ráðherra að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Skyldi það greitt af tollverði vörunnar og renna í ríkissjóð, en nánari ákvæði um álagningu þess og gjaldskyldar vörur skyldi ráðherra setja í reglugerð. Mátti hann ákveða hæð gjaldsins allt að tilteknu hámarki og hafa um það tvo kosti. Var sá fyrri við það miðaður, að samanlagt tollverð og jöfnunargjald yrði ekki hærra en innlent heildsöluverð vörunnar, sem ákveðið væri af svokallaðri fimmmannanefnd samkvæmt 13.-15. gr. laganna. Síðari kosturinn átti við um þær vörur, sem ekki voru háðar slíkri verðlagsákvörðun og mátti gjaldið þá nema allt að 200% af tollverði.

Fram til 22. nóvember 1993 var það jöfnunargjald, er mál þetta varðar, 120% samkvæmt reglugerð nr. 223/1987 um sérstakt jöfnunargjald af kartöflum og vörum unnum úr þeim, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 335/1989, en eftir það 90% samkvæmt reglugerð nr. 468/1993 um sama efni. Áður hafði vara þessi einnig verið háð verðtolli samkvæmt tollskrá, sem nam 30% af tollverði til 1. janúar 1990, en lækkaði þá í 20% og í 10% við næstu áramót en féll niður 1. janúar 1992.

II.

Við meðferð málsins í héraði varð breyting á aðild sóknarmegin og krefst gagnáfrýjandi af þeim sökum frávísunar þess frá héraðsdómi. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á niðurstöðu hans um að hafna frávísunarkröfunni og sýknukröfu gagnáfrýjanda, sem reist er á aðildarskorti. Það haggar ekki þessari niðurstöðu, þótt aðaláfrýjendur hafi við málflutning fyrir Hæstarétti skýrt kröfu sína þannig, að krafist væri endurgreiðslu in solidum, enda er grundvelli málsóknar á hendur gagnáfrýjanda ekki raskað af þeim sökum frekar en með kröfuframsalinu.

III.

Með bréfi fjármálaráðuneytisins til lögmanns Ekrunnar hf. 9. apríl 1997 var þess óskað, að aðgerðum félagsins til endurgreiðslu jöfnunargjalda yrði frestað, á meðan beðið væri dóms í tveimur tilteknum málum, er þá voru rekin fyrir dómstólum. Í bréfi 11. júlí sama ár lýsti ráðuneytið því yfir, að það myndi ekki bera fyrir sig fyrningu varðandi þann hluta krafna Ekrunnar hf., sem að öðrum kosti kynni að fyrnast eftir dagsetningu fyrra bréfsins. Gagnáfrýjandi telur, að með framsali kröfunnar til aðaláfrýjenda hafi brostið forsendur fyrir þessari ákvörðun. Á þetta verður ekki fallist. Þar sem kröfuframsalið var lögmætt er gagnáfrýjandi bundinn við fyrirheit sitt gagnvart Ekrunni hf., enda tóku aðaláfrýjendur við málinu í því horfi, sem það var fyrir héraðsdómi, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu, H.1996.4260, var komist að þeirri niðurstöðu, að álagning 190% og 120% jöfnunargjalds af kartöflum og vörum unnum úr þeim, sem ákveðið var í reglugerð nr. 223/1987, eins og henni var breytt með reglugerðum nr. 109/1988 og nr. 335/1989, hefði verið ólögmæt. Vara þessi féll undir tollskrárnúmer 2004.1000, sem breyttist með tollskrá 1993 í 2004.1009. Í dóminum var sagt, að jöfnunargjaldið yrði að teljast skattur í skilningi 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Væri lagaheimild til skattlagningarinnar bundin við skilgreindan tilgang laganna og hefði falist mikilvæg afmörkun í þeim skýringum, sem fram komu í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 25/1986 og umræðum á Alþingi. Svigrúm ráðherra til ákvörðunar um gjaldið innan hinna lögfestu marka hefði þannig ekki verið óheft. Með hliðsjón af þessu var ekki á það fallist, að í framangreindum lögum hefði falist óheimilt framsal löggjafans á skattlagningarvaldi. Við úrlausn þessa máls verður sérstaklega að hafa til hliðsjónar þær ástæður, sem Hæstiréttur taldi eiga að leiða til þess, að heimild í þágildandi búvörulögum um allt að 200% jöfnunargjald af innfluttum kartöflum gæti staðist.

Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 25/1986, er felldi hina umdeildu heimild inn í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 46/1985, er lýst þeim tilgangi búvörulaganna, að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu. Síðan segir: „Vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt vöruframboð allt árið á vissum tegundum búvara, t.d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Verður því að flytja þessar vörur inn en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum. Þegar innlend framleiðsla er enn á markaði raskar innflutningur þessara vara því mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni. Þessar aðstæður hafa m.a. gert þeim innlendu fyrirtækjum sem vinna úr kartöflum erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda framleiðslu erlendis frá.“ Loks er í athugasemdunum sagt, að í tillögugreininni sé lagt til, að landbúnaðarráðherra verði veitt heimild til að leggja sérstakt jöfnunargjald á innfluttar kartöflur „sem lið í stjórn búvöruframleiðslunnar og því að ná fram áðurnefndum tilgangi laga nr. 46/1985.“

Þegar þáverandi landbúnaðarráðherra fylgdi frumvarpinu úr hlaði sagði hann, að tilgangur þess væri að jafna verð milli innlendrar og erlendrar framleiðslu og myndi álagið á innflutta vöru þá geta orðið til að lækka verð hinnar innlendu framleiðslu á móti, svo að heildarútkoma fyrir neytendur yrði hin sama. Framsögumaður meirihluta landbúnaðarnefndar sagði í umræðum á Alþingi, að kjarni röksemda fyrir jöfnunargjaldinu kæmi fram í athugasemdum með frumvarpinu. Þáverandi forsætisráðherra lagði í umræðunum á það áherslu, að frumvarpið væri eingöngu flutt til að heimild fengist til að vernda innlenda framleiðslu á kartöflum, þegar um óeðlilega verðfellingu væri að ræða á innflutningi.

Í málinu liggja fyrir þrjú bréf landbúnaðarráðuneytisins til ríkislögmanns vegna óska hans um gögn og upplýsingar, meðal annars um „jöfnunarþörf á þessum tíma,   þ. á m. með tilliti til þess hve mikið vægi erlendar niðurgreiðslur höfðu á verðlag vörunnar sem gjaldið náði til.“ Í bréfi ráðuneytisins 23. október 1997 kemur fram, að forsendur þess, að jöfnunargjaldið á innfluttar franskar kartöflur var lækkað í 90% með reglugerð nr. 468/1993 hafi verið þær, að kanadísk stjórnvöld hefðu fundið að því, að lögð væru hærri verðjöfnunargjöld á umrædda vöru en samið hefði verið um af Íslands hálfu í hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti (GATT). Þótt þetta samkomulag hefði ekki verið skuldbindandi fyrir Ísland á þessum tíma, hafi ráðuneytið talið rétt að lækka gjaldið til samræmis við „GATT-bindingar“ á þessum vörum. Í bréfi sama ráðuneytis 8. desember 1998 er sagt um þessa breytingu, að ekki hefði verið talið unnt að fara eftir niðurgreiðslum í einstökum löndum. Ástæða þess hafi verið sú, að niðurgreiðslur í einstökum ríkjum væru allt frá því að vera mjög háar á alþjóðlegan mælikvarða til þess að vera nánast engar. Jöfnunargjöld væru í öllum tilvikum ákveðin sem verðmunur á heimsmarkaði og markaði innanlands, enda væri mismunur á heimsmarkaðsverði og verði vöru í hverju ríki besti mælikvarðinn á niðurgreiðslur í einstökum ríkjum. Sú ákvörðun að leggja 90% jöfnunargjald á franskar kartöflur væri í samræmi við það hámark, sem heimilt væri að nota á þessa vöru samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum um hámark tolla. Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins 21. janúar 1999 sagði jafnframt, að eiginlegt heimsmarkaðsverð sé ekki til á vörum í umræddum tollflokkum, enda væri um unnar vörur að ræða. Hins vegar hafi íslenskt verð á ferskum kartöflum verið tvöfalt til fjórfalt hærra en erlent verð síðasta áratug. Ljóst sé, að verðmunur á ferskum kartöflum endurspegli skýrlega þá jöfnunarþörf, sem fyrir hendi sé, enda liggi ekkert fyrir um verðmun á öðrum þáttum í framleiðslukostnaði á þeim vörum, sem falli undir tilgreinda tollflokka. Sérlega lágur hráefniskostnaður fyrir erlenda framleiðendur þýði óhjákvæmilega, að hann sé lítill hluti framleiðslukostnaðar vöru. Það sýni, að þörfin fyrir jöfnun sé í innflutningi á ferskum kartöflum og öllum afurðum, sem unnar eru úr þeim.

V.

Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 var sagt, að ákvarðanir um álagningu 190% og síðar 120% jöfnunargjalds hefðu ekki verið skýrðar að marki. Afstaða stefnda, gagnáfrýjanda í þessu máli, hefði verið sú, að gjaldinu hefði verið ætlað að jafna samkeppnisstöðu íslenskrar framleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum. Þetta sjónarmið hafi þó aðeins verið eitt af mörgum, sem gæta hafi þurft, og framlagðar upplýsingar í málinu nægðu ekki einar sér til að skýra umrædda jöfnunarþörf. Þá lægju engar skýringar fyrir um tengsl gjaldsins við þau sjónarmið, sem sérstaklega komu fram á Alþingi 1986. Hafi meðal annars ekki verið lagðar fram upplýsingar um vægi erlendra niðurgreiðslna eða styrkja í verðlagi á þeim vörum, sem gjaldið náði til. Í dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjagarði hf., H.1998.2021, var sagt, að framlögð gögn í því máli skýrðu ekki, svo að neinu næmi, þörfina á hinu umdeilda jöfnunargjaldi nánar en þær upplýsingar, sem lágu fyrir, þegar dómur gekk í fyrrnefndu máli 19. desember 1996.

Ekki verður talið, að í þessu máli hafi verið lögð fram skýrari gögn en áður um þörf á 90% jöfnunargjaldi af innfluttum kartöflum, þegar horft er til þeirra sjónarmiða, sem einkum voru talin geta réttlætt skattlagningu landbúnaðarráðherra með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 25/1986 og umræðum á Alþingi um það. Þannig hefur ekki verið sýnt fram á, að innfluttar kartöflur hafi verið niðurgreiddar af erlendum stjórnvöldum og engra gagna nýtur heldur um það, að um óeðlilega verðfellingu á þessari vöru hafi verið að ræða. Verður meðal annars ekki séð, hvort eða að hvaða marki slíkar ráðstafanir í öðrum löndum hafi skipt máli við samningsgerð um þær alþjóðlegu skuldbindingar í tollamálum, sem Ísland hafði gengist undir. Af framangreindum bréfum landbúnaðarráðuneytisins til ríkislögmanns kemur og ekki fram, að vægi erlendra niðurgreiðslna eða styrkja hafi verið ráðandi í ákvörðunum um hlutfall jöfnunargjaldsins. Fara skýringar ráðuneytisins í framangreindum bréfum í bága við helsta rökstuðning á Alþingi fyrir heimild til álagningar gjaldsins, sem áður er lýst.

Þegar allt er virt, sem fram er komið, verður gagnáfrýjandi ekki talinn hafa sýnt fram á, að til álagningar 90% jöfnunargjalds á innfluttar kartöflur hafi verið nauðsyn af ástæðum, sem raktar verða til sjónarmiða um viðbrögð við innflutningi landbúnaðarvara á óeðlilega lágu verði. Verður álagningin því ekki talin hafa samrýmst þeim takmörkunum, sem heimild ráðherra voru settar, og þeim kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta varð. Álagning jöfnunargjalds samkvæmt reglugerð nr. 468/1993 fór þannig ekki að lögum.

VI.

         Samkvæmt framansögðu var ólögmæt sú álagning jöfnunargjalds á innflutning Ekrunnar hf., sem endurgreiðslukröfur aðaláfrýjenda lúta nú að. Álagning 120% jöfnunargjalds á tímabilinu frá 13. apríl til 17. nóvember 1993 nam 5.650.020 krónum en 90% jöfnunargjalds frá 26. nóvember 1993 til 30. júní 1995 17.466.831 krónu eða samtals 23.116.851 krónu.

Eins og mál þetta liggur fyrir dómstólum verður við það að miða, að við ákvörðun vöruverðs til viðskiptamanna Ekrunnar hf. hafi verið tekið mið af hinu ólögmæta jöfnunargjaldi og verðið verið hærra sem því nam. Aðaláfrýjendur halda því fram, að álagning á vöruna hafi af þeim sökum orðið til muna lægri en hún hefði þurft að vera og afkoma félagsins því töluvert lakari en ella hefði orðið. Gagnáfrýjandi telur hins vegar, að ekki hafi verið sýnt fram á, að jöfnunargjaldið hafi haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu félagsins gagnvart íslenskri framleiðslu og myndi endurgreiðsla þess úr hendi gagnáfrýjanda leiða til ólögmætrar auðgunar aðaláfrýjenda.

Aðaláfrýjendur hafa lagt fram rekstrarreikninga Ekrunnar hf. fyrir árin 1992 til 1995, sem eiga að sýna, að meðaltalsálagning seldra vara félagsins á þessu árabili hafi numið 27.2%. Hins vegar sýni framlagðir reikningar til viðskiptavina, að álagningin á þessa vöru hafi einungis verið á bilinu frá 13.5% til 20.6%. Þá sýni rekstrarreikningarnir, að hagnaður eftir skatta sem hlutfall af tekjum hafi að meðaltali verið 2.55% öll árin. Samkvæmt framlögðum samanburðartölum frá Samtökum verslunarinnar er þetta hlutfall vegna sölu á matvörum, sælgæti og hreinlætisvörum 3.9% til 5% á sama tíma. Loks kemur fram í rekstrarreikningum Ekrunnar hf., að tekjur félagsins af vörusölu tvöfölduðust á árunum 1992 til 1995, en sala á frystum og forsteiktum kartöflum mun einungis hafa numið um fjórðungi af veltu þess.

Framangreindar tölur hafa ekki verið hraktar. Með þeim hafa aðaláfrýjendur leitt verulegar líkur að því, að samkeppnisstaða Ekrunnar hf. hafi raskast nokkuð á þessu skeiði vegna jöfnunargjaldsins. Þar sem ekki var gætt lögmætra skilyrða við álagningu þess þykja aðaláfrýjendur eiga rétt til endurgreiðslu gjaldsins að því marki, sem telja má næsta öruggt, að það hafi ekki í raun skilað sér til baka í verðlagningu vörunnar. Þetta mat er örðugt og hlýtur að fara að álitum. Eftir öllum atvikum þykir hæfilegt, að gagnáfrýjandi endurgreiði aðaláfrýjendum 6.000.000 krónur af hinu ofgreidda jöfnunargjaldi, sem til álita er. Rétt þykir, að hin dæmda fjárhæð beri dráttarvexti frá þingfestingu málsins í héraði, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 67/1989.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjendum, Ástríði Hauksdóttur, Brynhildi Georgsdóttur, Georg H. Tryggvasyni, Hörpu Georgsdóttur, Hildigunni Georgsdóttur og Tryggva Georgssyni, sameiginlega 6.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. október 1998 til greiðsludags auk 600.000 króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 16. þessa mánaðar, er höfðað með stefnu, áritaðri um móttöku 16. október 1998.

Stefnendur eru Ástríður Hauksdóttir, kt. 141045-4079, Brynhildur Georgsdóttir, kt. 081068-3489, Georg Tryggvason, kt. 261041-2359, Harpa Georgsdóttir, kt. 250475-4039, Hildigunnur Georgsdóttir, kt. 060873-4299, og Tryggvi Georgsson, kt. 241087-2129, öll til heimilis að Arnartanga 32, Mosfellsbæ.

Stefndi er íslenska ríkið.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 23.237.390 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af  389.999 krónum frá 13. apríl 1993 til 20. apríl 1993, en af 637.973 krónum frá þeim degi til 4. maí s.á., af 1032.701 krónum frá þeim degi til 28. maí s.á., af 1.353.622 krónum frá þeim degi til 9. júní s.á., af 1.675.214 krónum frá þeim degi til 16. júní s.á., af  2.046.141 krónum frá þeim degi til 15. júlí s.á., af 2.450.731 krónum frá þeim degi til 26. júlí s.á., af 2.798.665 krónum frá þeim degi til 27. júlí s.á., af 3.012.270 krónum frá þeim degi til 30. ágúst s.á., af 3.487.314 krónum frá þeim degi til 7. september s.á., af 3.822.499 krónum frá þeim degi til 23. september s.á., af 4.205.573 krónum frá þeim degi til 12. október s.á., af 4.411.345 krónum frá þeim degi til 14. október s.á., af 4.842.654 krónum frá þeim degi til 17. nóvember s.á., af 5.770.559 krónum frá þeim degi til 26. nóvember s.á., af 6.087.731 krónum frá þeim degi til 18. janúar 1994, af 6.781.629 krónum frá þeim degi til 7. mars s.á., af 7.470.509 krónum frá þeim degi til 18. apríl s.á., af 8.170.612 krónum frá þeim degi til 18. maí s.á., af 9.054.853 krónum frá þeim degi til 24. júní s.á., af 9.955.600 krónum frá þeim degi til 9. ágúst. s.á., af 10.973.892 krónum frá þeim degi til 14. september s.á., af 11.894.436 krónum frá þeim degi til 17. október s.á., af 12.929.527 krónum frá þeim degi til 10. nóvember s.á., af 14.015.519 krónum frá þeim degi til 9. desember s.á., af 15.072.914 krónum frá þeim degi til 16. febrúar 1995, af 16.818.684 krónum frá þeim degi til 10. mars s.á., af 17.561.281 krónum frá þeim degi til 10. apríl s.á., af 18.508.102 krónum frá þeim degi til 2. maí s.á., af 19.456.1163 krónum frá þeim degi til 26. maí s.á., af 20.333.797 krónum frá þeim degi til 15. júní s.á., af 21.262.859 krónum frá þeim degi til 30. júní s.á. og af 23.237.390 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er þess aðallega krafist, að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, en til þrautavara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Upphaflegur stefnandi málsins var Ekran hf., kt. 490392-2629, Vatnagörðum 6, Reykjavík. Með kaupsamningi, dagsettum 7. febrúar 1999, var allt hlutafé félagsins selt Nathan & Olsen hf., kt. 480269-5789, Vatnagörðum 20, Reykjavík, en dómkröfur í máli þessu hins vegar framseldar seljendum hlutabréfanna, svo sem rakið verður hér á eftir.

I.

Málavextir.

Á tímabilinu frá 20. mars 1992 til 15. júní 1995 flutti Ekran hf., upphaflegur stefnandi málsins, frystar franskar kartöflur til landsins. Auk aðflutningsgjalda greiddi félagið verðjöfnunargjald samkvæmt reglugerðum nr. 109/1988, 335/1989 og 468/1993 af 52 sendingum, alls 28.725.778 krónur. Gjöldin voru greidd tollstjóranum í Reykjavík að mestu leyti, en lítill hluti sýslumanninum í Hafnarfirði. Verðjöfnunargjaldið var 120% frá og með fyrstu sendingu stefnanda og lagðist á tollverð vöru. Tollverð er fob-verð, flutningsgjald og vátrygging. Auk þessa greiddi félagið virðisaukaskatt af samanlögðu tollverði og verð­jöfnunar­gjaldi, en ekki er krafist endurgreiðslu á virðisaukaskatti. Frá og með sendingu 26. nóvember 1993 greiddi Ekran hf. 90% verðjöfnunargjald, en það hafði þá verið lækkað með reglugerð nr. 468/1993. Með bréfi l8. mars 1997 var stefndi krafinn um endurgreiðslu verðjöfnunargjaldsins. Óskaði fjármálaráðuneytið eftir með bréfi, dagsettu 9. apríl sama ár, að innheimtuaðgerðum yrði frestað, þar til dómur gengi í tveimur málum, er þá rekin voru fyrir dómstólum. Lýsti ráðuneytið því yfir, að það myndi ekki bera fyrir sig fyrningu, hvað varðar þann hluta krafnanna, sem kynnu að öðrum kosti að fyrnast eftir dagsetningu bréfs ráðuneytisins. Stefnendur krefja nú stefnda um endurgreiðslu á þessum fjárhæðum, ásamt dráttarvöxtum af hverri greiðslu fyrir sig frá þeim degi, sem Ekran hf. greiddi hana, til greiðsludags. Við aðalmeðferð málsins var fallið frá kröfu um endurgreiðslu frá og með 20. mars 1992 til og með 13. apríl 1993. Hér á eftir verða ofangreindir seljendur Ekrunnar hf. nefndir stefnendur í samræmi við niðurstöðu dómsins um sóknaraðild málsins.

II.

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Af hálfu stefnenda er því mótmælt, að frávísunarkrafa stefnda verði tekin til greina. Heimilt sé að framselja kröfu þá, er um ræðir í málinu samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, sbr. og 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um það hafi skuldari ekkert að segja.

Stefnendur byggja á því, að hinn 19. desember 1996 hafi gengið í Hæstarétti dómur í máli þrotabús S. Óskarssonar og Co. h.f. gegn íslenska ríkinu nr. 427/1995. Með dómi þessum sé því slegið föstu, að verðjöfnunargjald, álagt samkvæmt reglugerðum nr. 109/1988, 335/1989 og 468/1993 hafi verið ólögmætt. Telja stefnendur réttarstöðu sína sambærilega við stöðu þrotabúsins, að breyttu breytanda. Þeir eigi því rétt á endurgreiðslu alls hins ólögmæta gjalds, sem Ekran hf. hafði greitt. Byggja stefnendur kröfur sínar á almennum reglum kröfuréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár.

Við aðalmeðferð málsins var af hálfu stefnenda fallið frá kröfu um endurgreiðslu og vexti frá og með 20. mars 1992 til og með 13. apríl 1993 og rof fyrningar miðað við dagsetningu bréfs fjármálaráðuneytisins frá 9. apríl 1997. Eigi stefnendur því kröfu á hendur stefnda vegna greiðslu jöfnunargjalds frá og með sendingu 13. apríl 1993, sbr. 5. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er frávísunarkrafa á því byggð, að [upphaflegur] stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af efnisdómi í málinu, þar sem fyrir liggi, að fyrri eigendur og félagið hafi undir rekstri þess ráðstafað með einhverjum hætti réttindum, sem dómkrafan lýtur að og þar með sakarefninu. Hafi fyrri eigendur Ekrunnar hf. og í raun félagið sjálft ráðstafað þeim hagsmunum, sem dómkröfur lúta að, í andstöðu við málatilbúnað þann, sem lagt er upp með í stefnu, en hann sé á því reistur, að ,,[stefnandi]... eigi rétt á endurgreiðslu alls hins ólögmæta gjalds, sem hann hafði greitt”. Grundvöllur endurkröfumáls sé því ekki lengur fyrir hendi á þeim forsendum, er lagt hafi verið upp með í stefnu. Þá verði ekki séð, að eiginlegt kröfuframsal hafi átt sér stað, en endurgreiðslumál verði tæplega með réttu rekið af öðrum, en þeim, er innti þau gjöld af hendi. Liggi því fyrir, að frá dagsetningu kaupsamningsins milli seljenda hlutabréfa Ekrunnar hf. og Nathans & Olsen hf., 7. febrúar 1999, hafi málið verið rekið á röngum grundvelli. Þá vísar stefndi í því sambandi einnig til 80. gr. laga nr. 9171991 og grunnraka 26. og 27. gr. sömu laga og ennfremur 18. og 19. gr. laganna, ásamt 17. gr., en svo virðist sem fyrirsvar fyrir málarekstri stefnanda, málsóknarheimild og aðild félagsins að málinu sé svo óljós, að vísa beri málinu frá dómi. 

Þegar gerð verður grein fyrir efnisrökum stefnda hér á eftir verður til hagræðingar rætt um stefnanda í eintölu í samræmi við upphaflega sóknaraðild málsins.

Stefndi byggir á því, að stefnandi rökstyðji ekki, að álagning 90% jöfnunargjalds á vörur í tollflokki nr. 2004.1000 hafi verið ólögmæt eða ómálefnaleg, þannig að í bága færi við ákvæði ákvæði laga nr. 46/1985. Sé málatilbúnaður stefnanda því alfarið órökstuddur um það, þannig að varða eigi frávísun frá dómi án kröfu. Teljist málið dómhæft telur stefndi, að sýkna beri af þeim lið krafna stefnanda, sem byggja á endurgreiðslu 90% jöfnunargjalds samkvæmt reglug. nr. 468/1993, er gildi tók 22. nóvember 1993. Gjaldið hafi verið ákveðið 90% með þeirri reglugerð með hliðsjón af Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti (GATT), sem Ísland hefur átt aðild að, en jöfnunargjald af tollflokki 2004.1000 hafi þar verið ákveðið 90%. Með því að miða gjaldið við 90% á þeim forsendum hafi í raun verið miðað við ígildi verðmunar á heimsmarkaði gagnvart aðstæðum á Íslandi og ekki unnt að komast nær þeim sjónarmiðum, sem Hæstiréttur hafi talið, að leggja hefði átt til grundvallar álagningu jöfnunargjalds samkvæmt heimild í búvörulögum í dómi sínum frá 19. desember 1996. Meðan ljóst sé, að verðmunur á innfluttri vöru og þeirri, sem framleidd er innanlands, sé margfaldur, hafi verið málefnalegt og í samræmi við jafnræðisreglu að miða gjaldið við 90% og í samræmi við GATT-bindingar, en verðtollur hafi þá ekki lengur verið á vörunni. Þessu til stuðnings sé bent á, að verðmunur, þegar borin eru saman cif verð og innlend verð frá framleiðanda, hafi verið magfaldur. Hafi hann verið um 411% árið 1992, 359% árið 1993, 354% árið 1994 og 390% árið 1995. Þróun verðs milli innlendrar framleiðslu og innflutnings hafi því augljóslega mælt með því, að hin umdeilda heimild búvörulaga yrði nýtt, þótt ekki væri tekið sérstakt mið af niðurgreiðslum í öðrum löndum. Verðmunurinn hafi einnig verið margfaldur, þegar litið sé til hráefnisverðs og þeirra sjónarmiða, sem gildi almennt samkvæmt bókun 2 við EFTA-samninginn. Ekki sé vitað til þess, að stefnandi hafi nokkru sinni mótmælt því, að miðað yrði við GATT-samninginn við ákvörðun jöfnunargjalds eða mótmælt umfangi gjaldsins miðað við 90%. Verði ekki annað séð, en sátt hafi verið um þá álagningu, sem ákveðin var með reglug. nr. 468/1993. Að öðru leyti vísist til framlagðra bréfa landbúnaðarráðuneytis um álagninguna.

 Þótt talið verði, að álagning hins umdeilda jöfnunargjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Ljóst sé, að vara sú, sem sætti álagningu jöfnunargjalds, hafi verið flutt inn og leyst út úr tolli, eftir því hvenær það var talið hyggilegt af stefnanda. Hafi  jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa. Augljóst sé, að þegar svo margar sendingar voru fluttar inn, í svo miklu magni og á löngum tíma, hafi eftirspurnin hlotið að vera mikil. Í öllum tilvikum hafi stefnandi getað selt vöruna, án þess að álagning jöfnunargjalds hefði nokkur áhrif á arð af þeim viðskiptum, nema ef vera skyldi til hækkunar. Þá hafi álagning jöfnunargjaldsins í engu raskað jafnræði milli innflutnings eða íslenskrar framleiðslu stefnanda í óhag, hvort sem litið sé til verðs á vörunni almennt eða álagningu gjalda og skatta. Hafi stefnandi til að mynda ekki leitt rök að því, að verð á innlendri framleiðslu hafi verið lægra. Hvort sem stefnandi seldi vöruna í heildsölu eða smásölu hafi álagningu verið bætt ofan á verð vörunnar, sem þegar innihélt jöfnunargjaldið. Þannig séu löglíkur og viðskiptavenja fyrir því, að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi. Stefnandi hafi því ekki orðið fyrir tjóni vegna álagningarinnar og ekki hafi verið sýnt fram á, að álagningin hafi haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnanda gagnvart íslenskri framleiðslu. Jafnvel þótt talið yrði, að álagningin hafi haft neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu stefnanda, hafi hann ekki reynt að sýna fram á hvert tjón hans af þeim sökum hafi verið. Engan veginn sé unnt að halda því fram, að það hafi numið nákvæmlega fjárhæð álagðs jöfnunargjalds. Sé sitthvað fjárhæð gjalds, sem lagðist á vöruna, og hins vegar hugsanlegt tekjutap stefnanda vegna minni sölu á vörunni, ef því væri að skipta. Um framangreint vísi stefndi einnig til réttarþróunar í Danmörku, sbr. dóma Hæstaréttar þar í landi (UfR. 1994, bls. 430 og 450), en líta beri til þess til fyllingar óskráðum reglum kröfuréttar til endurgreiðslna.

Þegar allt framangreint sé virt telur stefndi, að ekki sé fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu greidds jöfnunargjalds samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, enda auðgist stefnandi með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara, ef á endur­kröfuna yrði fallist að hluta til eða í heild. Þá auðgist stefnandi með ósanngjörnum hætti gagnvart viðskiptamönnum sínum, sem hann hafi látið bera gjöldin að fullu og ekki, svo vitað sé, heitið þeim endurgreiðslu eða sótt kröfuna í umboði þeirra. Er einnig á því byggt í þessu sambandi, að í raun sé um aðildarskort að ræða, þar sem viðskiptamenn stefnanda hafi í raun staðið skil á jöfnunargjaldinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Ennfremur telur stefndi, að með vísan til þessa hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af endurgreiðslum þeim, sem krafið er um.

Um innheimtu jöfnunargjaldsins skyldi fara eftir tollalögum nr. 55/1987, sbr. 30. og 33. gr. laga nr. 46/1985 og síðar ákvæði laga nr. 99/1993. Gjaldið hafi verið sérstaks eðlis og greitt af tilteknum vörum. Í tollalögum sé ekki kveðið sérstaklega á um endurgreiðslu tolla við þær aðstæður, að innflytjandi hefur greitt toll og selt vöruna. Þar sem ekki séu sérstök ákvæði um endurgreiðslur í tollalögum við þessar aðstæður telur stefndi, að krafa stefnanda sé ekki lögvarin og beri því að sýkna af henni. Þar sem ekki liggi fyrir sönnun um, að stefnandi hafi endur­greitt viðskiptamönnum sínum gjaldið, verði að hafna því, að hann eigi kröfu á hendur stefnda nú. Þessu lagasjónarmiði til stuðnings og lögjöfnunar byggir stefndi meðal annars á 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. önnur sérákvæði í þeim lögum varðandi endurgreiðslur.

Stefndi telur, að framangreindar málsástæður eigi í heild að leiða til sýknu af kröfum stefnanda. Séu engin rök til að heimila endurgreiðslu, nema að því marki, sem samsvara myndi tjóni stefnanda af álagningu gjaldsins, þótt um endurgreiðslumál sé að ræða. Engin sönnun um tjón hafi hins vegar komið fram.

Verði ekki á sýknukröfu fallist byggir stefndi á því, að í ljósi framangreindra málsástæðna verði einungis fallist á kröfu stefnanda um endurgreiðslu að álitum og í samræmi við það tjón, sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna jöfnunargjaldsins gagnvart samkeppnisvörum innlendrar framleiðslu. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir umfangi þess tjóns.

Verði fallist á, að gjaldið hafi verið ólögmætt, sé fjárhæð þeirra greiðslna eftir 9. apríl 1993 17.466.831 krónur, en samtals muni þau gjöld, sem stefnandi hafi greitt eftir 9. apríl 1993, nema 23.116.851 krónur (17.466.831 + 5.650.020). Byggi framangreindar fjárhæðir á yfirferð ríkistollstjóra á þeim greiðslukvittunum og afhendingarskýrslum, sem fram hafi verið lagðar, en nokkrar skekkjur hafi verið í útreikningi stefnanda.

Af hálfu fjármálaráðuneytis hafi því verið heitið, að það myndi ekki bera fyrir sig fyrningu, hvað varðar þann hluta krafna stefnanda, sem að öðrum kosti kynnu að fyrnast eftir dagsetningu bréfs ráðuneytisins til stefnanda þann 9. apríl 1997. Verði fallist á aðild seljenda hlutabréfa í Ekrunni hf. séu nú brostnar forsendur fyrir loforði ráðuneytisins samkvæmt nefndu bréfi. Hafi fyrningu því ekki verið slitið, fyrr en eftir eftir að greindur kaupsamningur var gerður, eða í fyrsta lagi er málið var höfðað.

Dráttarvaxtakröfum stefnanda er mótmælt. Vísar stefndi í því sambandi almennt til meginreglu 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga. Stefndi byggir í fyrsta lagi á því, að vextir af kröfum stefnanda, sem eru eldri en frá 16. nóvember 1994, séu fyrndir, sbr. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 14/1905. Byggir stefndi á því, að stefnandi hafi sýnt af sér tómlæti, sem valdi því, að engin rök séu til að fallast á, að dráttarvextir hafi upphafstíma, nema frá dómsuppkvaðningu að telja, eða frá þingfestingu. Verði ekki á það fallist komi í fyrsta lagi til álita að dæma vexti frá því, er mánuður var liðinn frá kröfubréfi stefnanda, dagsettu 18. mars 1997, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.

IV.

Niðurstaða.

Málið var flutt í einu lagi um form og efni samkvæmt heimild í 2. málsl. 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991. Verður fyrst vikið að formhlið þess.

Svo sem áður greinir var upphaflegur stefnandi málsins Ekran hf., kt. 490392-2629, Vatnagörðum 6, Reykjavík. Við aðalmeðferð upplýsti Georg Tryggvason, fyrrum fyrirsvarsmaður félagsins, að hlutabréf þess hefðu verið seld Nathan & Olsen hf., kt. 480269-5789, Vatnagörðum 20, Reykjavík, í mars síðastliðnum. Samkvæmt kaupsamningi milli félagsins sem kaupanda og Ástríðar Hauksdóttur, kt. 141045-4079, Brynhildar Georgsdóttur, kt. 081068-3489, Georgs Tryggvasonar, kt. 261041-2359, Hörpu Georgsdóttur, kt. 250475-4039, Hildigunnar Georgsdóttur, kt. 060873-4299, og Tryggva Georgssonar, kt. 241087-2129, allra til heimilis að Arnartanga 32, Mosfellsbæ, sem seljenda, dagsettum 7. febrúar 1999, skuldbundu seljendur sig til að selja og kaupandi að kaupa alla hluti í eigu seljenda í Ekrunni hf.. Í 8. gr. kaupsamningsins er sérstakt ákvæði um, að mál þetta sé rekið hér fyrir dómi. Skuli allur kostnaður vegna þess, ábyrgð, svo og hugsanlegur ávinningur, vera Ekrunni hf. óviðkomandi, þar með talinn lögfræðikostnaður og fleira, umfram það, sem þegar hafi verið greitt og gjaldfært í bókhaldi félagsins fyrir 31. desember 1998. Skuli seljendur yfirfæra aðild málsins af nafni félagsins, yfir á sín eigin. Þá liggur fyrir í málinu yfirlýsing seljenda, dagsett 14. þessa mánaðar, um að Ekran hf. hafi framselt þeim stefnukröfuna.

Líta verður á ofangreint ákvæði 8. gr. kaupsamningsins frá 7. febrúar 1999 sem framsal Nathans & Olsen hf. á kröfu þeirri, sem mál þetta er sprottið af, til ofangreindra seljenda hlutabréfa Ekrunnar hf. Er fallist á með framsalshöfum, að krafan sé framseljanleg. Eru þeir því löglegir eigendur hennar og þar með réttir sóknaraðilar málsins samkvæmt heimild í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því er frávísunarkröfu stefnda, svo og sýknukröfu, reistri á aðildarskorti, hafnað.

Með vísan til forsendna ofangreinds dóms Hæstaréttar í máli réttarins nr. 427/1995 þykir eigi vera sá eðlismunur á 120% jöfnunargjaldi, sem dæmt var ólögmætt með þeim dómi, og  90% sams konar gjaldi, er lagt var á með reglugerð nr. 468/1993 og sett var með heimild í d-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, að til annarrar niðurstöðu leiði um lögmæti gjaldsins, en í dóminum greinir. Er það því mat dómsins, að ekki hafi verið sýnt fram á það af hálfu stefnda, að málefnalegur grundvöllur hafi verið fyrir hendi til álagningar 90% jöfnunargjalds, frekar en 120% sams konar gjaldheimtu. Skiptir eigi máli í því sambandi, að gjaldið hafi verið innan marka svonefnds GATT-samkomulags, enda hefur það hvorki lagagildi hérlendis né er ætlað að stofna með beinum hætti til réttinda til handa einkaaðilum. Var 90% álagning jöfnunargjalds því einnig ólögmæt að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er á því byggt, að þótt talið verði, að álagning hins umdeilda gjalds hafi verið ólögmæt, sé ekki fyrir hendi réttur til endurgreiðslu. Ljóst sé, að vara sú, sem sætti álagningu gjaldsins, hafi verið flutt inn og leyst út úr tolli eftir því, hvenær það var talið hyggilegt af stefnanda, og jöfnunargjaldið verið lagt á vöruna sjálfa. Hvort sem stefnandi seldi vöruna í heildsölu eða smásölu hafi álagningu verið bætt ofan á verð vörunnar, er þegar innihélt jöfnunargjaldið. Þannig séu löglíkur og viðskiptavenja fyrir því, að stefnandi hafi velt jöfnunargjaldinu yfir í verðlagið og látið viðskiptamenn sína greiða það að fullu og þar með fengið gjaldið endurheimt úr þeirra hendi. Beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir öðru. Stefndi hafi því ekki hagnast á kostnað stefnanda og yrði á endurkröfuna fallist, væri stefnandi betur settur, en hefði ekki komið til álagningar jöfnunargjalds. Sé því ekki fyrir hendi réttmæt krafa til endurgreiðslu jöfnunargjalds samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, enda myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti á kostnað stefnda og þar með skattborgara, yrði á endurkröfuna fallist að hluta til eða í heild. Þá myndi stefnandi auðgast með ósanngjörnum hætti gagnvart viðskiptamönnum sínum, sem hann hafi látið bera gjöldin að fullu og ekki, svo vitað sé, heitið þeim endurgreiðslu eða sótt kröfuna í umboði þeirra. Séu engin rök til að heimila endurgreiðslu, nema að því marki, sem samsvara myndi tjóni stefnanda af álagningu gjaldsins, þótt um endurgreiðslumál sé að ræða. Engin sönnun um tjón hafi hins vegar komið fram.

Í greinargerð sinni skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram alla sölureikninga úr bókhaldi eða önnur gögn, sem sýndu, hvernig verðmyndun á vöru þeirri, er hér um ræðir, var háttað til viðskiptamanna stefnanda og hvort jöfnunargjaldið var inni í vöruverði til þeirra. Af því tilefni hefur stefnandi kosið að leggja einungis fram þrjá verðútreikninga, auk greiðslukvittana frá tollstjóranum í Reykjavík og Landsbanka Íslands og ljósrit nokkurra reikninga til viðskiptavina vegna sölu á vöru þeirri, er hér um ræðir. Samkvæmt útreikningum stefnanda sýni reikningar frá 22. mars og 13. apríl 1994 19.2% álagningu. Reikningar frá 15. nóvember, 17. nóvember og 28. nóvember og 12. desember 1994 sýni 17.2%, 20,5%, 19.2% og 20.6% álagningu og reikningar frá 6. janúar, þrír talsins, 9. janúar og 10. janúar 1995 sýni 14%, 17%, 18,3% og 18,2% álagningu. Halda stefnendur því fram, að álagning á vöruna, til þess að reka fyrirtækið með eðlilegum hætti, hafi þurft að vera um 35%, en ekki hafa verið lögð fram gögn af hálfu stefnenda um, hvernig álagningu hafi verið háttað, áður en hið ólögmæta gjald var í lög leitt.    

Í máli þessu er ekki byggt á skaðabótasjónarmiðum af hálfu stefnanda og leitast við að sýna fram á, að hann hafi beðið tjón af álagningu jöfnunargjaldsins, heldur er það höfðað til endurgreiðslu oftekinna opinberra gjalda. Ljóst er af framansögðu, að jöfnunargjald var inni í vöruverði til þeirra viðskiptamanna stefnenda, sem um ræðir í ofangreindum reikningum, auk álagningar. Verður því, eins og málið er lagt fyrir dóminn, að fallast á  með stefnda, að um ólögmæta auðgun af hálfu stefnanda væri að ræða, yrði endurgreiðslukrafa hans tekin til greina. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum er rétt, að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Dóminn kveður upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnenda, Ástríðar Hauksdóttur,  Brynhildar Georgsdóttur, Georgs Tryggvasonar, Hörpu Georgsdóttur, Hildigunnar Georgsdóttur og Tryggva Georgssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.