Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2014

A (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)
gegn
Suðurverki hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Líkamstjón
  • Bifreið
  • Uppgjör
  • Fyrirvari
  • Fyrning


Skaðabótamál. Líkamstjón. Bifreiðir. Uppgjör. Fyrirvari. Fyrning.

A varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi 15. júlí 2003 og greiddi V hf. henni bætur 15. mars 2007 á grundvelli matsgerðar sem þá lá fyrir. A höfðaði síðan mál gegn V hf. til heimtu frekari bóta þar sem í ljós hefði komið að varanleg örorka hennar og miski væri meiri en fyrrnefnd matsgerð hefði gert ráð fyrir. Byggði A þá kröfu sína á matsgerð dómkvaddra matsmanna 9. apríl 2010, þar sem fram kom að varanlegur miski A væri 7 stig í stað 5 stiga samkvæmt fyrri matsgerð og varanleg örorka 10% í stað 5%. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna yrði ráðið að með henni hefðu verið metin sömu einkenni og í fyrri matsgerðinni og að heilsu hennar hefði ekki hrakað svo máli skipti frá því að fyrri matsgerðin lá fyrir. A hefði verið ljóst að hún hafði hlotið varanleg mein af völdum slyssins eigi síðar en á árinu 2005 og hefði fjögurra ára fyrningarfrestur kröfu hennar því hafist í ársbyrjun 2006, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hefði krafa hennar því verið fyrnd þegar málið var höfðað 28. desember 2012. Voru stefndu því sýknaðir.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. september 2014. Hún krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða sér 2.495.479 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. desember 2008 til 20. janúar 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti of verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ekið aftan á bifreið sem áfrýjandi var farþegi í 15. júlí 2003. Samkvæmt sjúkraskrá Heilbrigðisstofnunar […] sama dag var haft eftir henni að hún hefði eymsli í hálsi og yfir hálsvöðvum og var hún greind með tognun á hálsi. Áfrýjandi leitaði til bæklunarlæknis í júlí 2004, þar sem hún kvartaði yfir áframhaldandi einkennum frá hálsi og fór hún síðar í sjúkraþjálfun í Danmörku þar sem hún bjó. Málsaðilar öfluðu sameiginlega matsgerðar með beiðni 17. október 2005. Í matsgerðinni frá 28. september 2006 kemur fram að matsmenn hafi talið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Í matsgerðinni sagði að einkenni áfrýjanda væru verkir og stirðleiki í hálsi og herðum, hún fengi oftar migreneköst en áður, svæfi illa vegna verkja og stirðleika og að ofangreind einkenni versnuðu við andlegt og líkamlegt álag. Í matsgerðinni kom fram að bæklunarlæknir sem áfrýjandi fór til í júlí 2004 í kjölfar slyssins teldi að hún hefði hlotið tognun á hálsi, aðallega vinstra megin, alveg frá hnakkafestu og niður eftir hálsinum, og niður í vinstra herðasvæðið. Taldi hann að ekki væru frekari meðferðarmöguleikar fyrir hendi. Gengu áfrýjandi og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. til bótauppgjörs 15. mars 2007 á grundvelli matsgerðarinnar vegna þess fjártjóns sem áfrýjandi varð fyrir í umferðarslysinu. Voru áfrýjanda þá greiddar á grundvelli ábyrgðartryggingar fyrrgreinds ökutækis 3.294.366 krónur. Á yfirlit stefnda sama dag var ritað af þáverandi lögmanni áfrýjanda: ,,Samþykkt sem innborgun. Fyrirvari gerður um hækkun í kjölfar mats dómkvaddra matsmanna.” Fyrirvarinn var ítrekaður á tjónskvittun vegna uppgjörsins 19. mars 2007 á eftirfarandi hátt: ,,Samþykkt sem innborgun á heildarbætur. Gerður er fyrirvari um frekari kröfur í kjölfar niðurstaðna dómkvaddra matsmanna.” Á tjónskvittun sundurliðaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., nákvæmlega hvaða bótaþættir væru greiddir og var tekið fram að um væri að ræða ,,lokauppgjör“ og ,,fullar og endanlegar bætur“ vegna slyssins.

Með beiðni 23. október 2007 aflaði áfrýjandi matsgerðar dómkvaddra manna og er matsgerðin frá 9. apríl 2010. Er málsókn áfrýjanda á því reist að samkvæmt þeirri matsgerð hafi dómkvaddir matsmenn komist að því að varanlegur miski væri 7 stig í stað 5 stiga samkvæmt fyrri matsgerð og varanleg örorka 10% í stað 5% samkvæmt fyrri matsgerð. Í matsgerðinni var haft eftir áfrýjanda að einkenni hennar hafi verið svipuð og frá því um einu og hálfu ári eftir slysið, að því undanskildu að í apríl 2008 hefði hún vaknað með mikla verki í hálsi sem hún hafi haft í 14 daga, en þeir síðan orðið betri.  Þar segir einnig að einkenni áfrýjanda mætti rekja til tognunaráverka í hálsi, einkum um miðbik hálshryggjar. Hafi áverkinn valdið viðvarandi einkennum.

Af hálfu stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., var þess farið á leit við annan hinna dómkvöddu matsmanna að hann upplýsti hvenær hafi verið fyrst tímabært að meta afleiðingar slyss áfrýjanda. Sagði matsmaðurinn það hafa verið þegar um eitt og hálft ár hafi verið liðið frá slysi.

II

Meginágreiningur í málinu lýtur að því hvort krafa áfrýjanda hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað og hvort greiðsla stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., í mars 2007 hafi rofið fyrningarfrest. Verði ekki fallist á að krafa áfrýjanda sé fyrnd byggja stefndu á því til vara að skilyrði endurupptöku um að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari sem leiði til verulega hærri miska- og eða örorkustigs en áður var metið, séu ekki uppfyllt, sbr. til hliðsjónar 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Skaðabótakrafa, eins og sú sem til úrlausnar er í máli þessu, fyrnist samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Eins og að framan er rakið leitaði áfrýjandi í kjölfar slyssins til bæklunarlæknis í júlí 2004, þar sem hún kvartaði yfir áframhaldandi einkennum frá hálsi, en hann taldi í vottorði 5. september 2005 að ekki væru frekari meðferðarmöguleikar fyrir hendi. Málsaðilar öfluðu sameiginlega matsgerðar með beiðni 17. október 2005 og töldu matsmenn tímabært að meta afleiðingar slyssins. Þá liggur fyrir að annar hinna dómkvöddu matsmanna, sem fengnir voru til að meta afleiðingar slyss áfrýjanda, taldi að tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyss hennar þegar um eitt og hálft ár var liðið frá slysi, eða um miðjan janúar 2005. Af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna 9. apríl 2010 verður ráðið að þar voru metin sömu einkenni og með fyrri matsgerð. Í þeirri matsgerð var haft eftir áfrýjanda að einkenni hennar hefðu ekki breyst frá því um einu og hálfu ári eftir slysið og ekki verður ráðið af matsgerðinni að heilsu áfrýjanda hafi hrakað svo máli skipti frá því að fyrri matsgerð lá fyrir 28. september 2006.

Þegar allt framangreint er virt hlaut áfrýjanda að vera ljóst að hún hafði hlotið varanleg mein af völdum slyssins eigi síðar en á árinu 2005 og átti hún þess kost að leita þá þegar fullnustu kröfu sinnar. Hófst því fjögurra ára fyrningarfrestur kröfu hennar í ársbyrjun 2006 samkvæmt 99. gr. umferðarlaga. Með hliðsjón af dómum Hæstaréttar 7. október 1999 í máli nr. 150/1999, sem birtist í dómasafni réttarins það ár á bls. 3438, og 13. júní 2013 í máli nr. 86/2013 verður ekki litið svo á að stefndu hafi með greiðslu sinni 19. mars 2007 viðurkennt skyldu til að greiða á síðari stigum bætur, ef leitt yrði í ljós meira tjón áfrýjanda en þá var þekkt. Samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nægði þessi greiðsla bóta því ekki til að slíta fyrningu á kröfunni, sem áfrýjandi gerir nú. Mál þetta var höfðað 28. desember 2012 og voru þá samkvæmt framansögðu fyrndar kröfur áfrýjanda á hendur stefndu samkvæmt XIII. kafla umferðarlaga.

Með vísan til alls þess er að framan greinir verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málsaðilar beri hver sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 6. júní 2014 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 28. desember 2012 af A, […], á hendur Suðurverki hf., […], og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmdir til að greiða henni óskipt 2.495.479 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. desember 2008 til 20. janúar 2012 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir óskipt til að greiða henni málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að dæmdur málskostnaður taki mið af því að hún sé ekki virðisaukaskattskyld.

Af hálfu stefndu  er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hennar hendi, að mati dómsins.

Atvik máls

Mál þetta er sprottið af umferðarslysi 15. júlí 2003 en stefnandi var farþegi í framsæti bifreiðarinnar […], sem var kyrrstæð, gegn rauðu ljósi, þegar bifreiðinni […] var ekið aftan á hana. Stefndi, Suðurverk hf., var á slysdegi skráður eigandi þeirrar bifreiðar og var hún á slysdegi tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf. Ekki er ágreiningur um bótarétt stefnanda úr tryggingunni. Með matsbeiðni, 17. október 2005, óskuðu lögmaður stefnanda og stefndi Vátryggingafélag Íslands hf., í sameiningu, eftir því að B læknir og C héraðsdómslögmaður legðu mat á afleiðingar slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Matsmenn skiluðu matsgerð, 28. september 2006. Komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að ástand stefnanda hefði verið orðið stöðugt þremur mánuðum eftir slysið og því tímabært að meta afleiðingar þess. Ekki væri um tímabundið tjón að ræða og stefnandi ekki verið veik í skilningi skaðabótalaga. Var varanlegur miski hennar metinn 5 stig og varanleg örorka 5%.

Með bréfi, 2. mars 2007, krafði lögmaður stefnanda, stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., um bætur á grundvelli framangreindrar matsgerðar. Í bréfinu er sérstaklega tekið fram að stefnandi telji matsgerðina ekki endurspegla raunverulega líðan sína og ekki taka nægilegt tillit til ungs aldurs hennar og þeirra afleiðinga sem líklegar séu til að koma fram seinna á ævi hennar. Auk þess séu nokkrar rangfærslur í matsgerðinni. Af þessum ástæðum sé krafan sett fram með fyrirvara um hækkun á öllum þáttum málsins.

 Hinn 15. mars 2007 gerði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., tillögu að uppgjöri byggða á matsgerðinni frá 28. september 2006. Lögmaður stefnanda ritaði eftirfarandi fyrirvara á uppgjörstillöguna: „Samþykkt sem innborgun. Fyrirvari gerður um hækkun í kjölfar mats dómkvaddra matsmanna“. 19. mars 2007 veitti lögmaður stefnanda móttöku greiðslu skaðabóta frá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna slyssins. Greiðslan var í samræmi við framangreinda uppgjörstillögu félagsins. Greiðslunni var veitt móttaka með svofelldum fyrirvara: „Samþykkt sem innborgun á heildarbætur. Gerður er fyrirvari um frekari kröfur í kjölfar niðurstaðna dómkvaddra matsmanna“.

Hinn 23. október 2007 óskað stefnandi eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta afleiðingar  umrædds umferðarslyss. Til matsstarfa voru dómkvödd þau D lögfræðingur og E læknir og lá matsgerð þeirra fyrir 9. apríl 2009. Hinir dómkvöddu matsmenn töldu einkenni stefnanda að rekja til tognunaráverka í hálsi, einkum um miðbik hálshryggjar sem hefði með tímanum farið að geisla út í herðasvæði og niður í brjóstbak. Einnig hefði mígreni-höfuðverkur aukist. Er í matsgerðinni haft eftir stefnanda að einkenni vegna slyssins hafi versnað um þremur mánuðum eftir slysið en verið óbreytt frá því að um eitt og hálft ár var liðið þar í frá. Mátu hinir dómkvöddu matsmenn miska stefnanda til 7 stiga en varanlega örorku 10%.

Með bréfi, 20. desember 2011, krafði lögmaður stefnanda, stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., um bætur á grundvelli matsgerðarinnar frá 9. apríl 2009, að frádregnum þegar greiddum bótum skv. matsgerðinni frá 28. september 2006. Með tölvubréfi, 9. febrúar 2012, fór stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess á leit við matsmanninn, E lækni, að hann léti í ljós álit á því hvenær fyrst hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyss stefnanda. Í svari matsmannsins, 3. maí 2012, segir að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins, þegar um eitt og hálft ár hafi verið liðið frá slysinu. Með tölvubréfi, 7. maí 2012, hafnaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., viðbótarkröfum stefnanda. Er synjunin rökstudd með vísan til þess að tímabært hafi verið að meta afleiðingar umferðarslyssins einu og hálfu ári eftir slysdag. Vegna þessa hafi krafa stefnanda fyrnst um áramótin 2008/2009, sbr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi kveður málsókn sína reista á 1. mgr. 88. gr., 89. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Bifreið stefnda, Suðurverks hf., […], sem ekið hafi verið aftan á bifreiðina, sem stefnandi var farþegi í, hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

Málsókn á hendur stefnda, Suðurverki hf., byggi á sakarreglunni og 88., 89. og 90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Krafa um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðum dómkvaddra matsmanna. Stefnandi byggi á því að sú afstaða stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að krafa stefnanda sé fyrnd skv. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sé órökstudd enda eigi ákvæði þeirrar lagagreinar ekki við um atvik máls þessa. Sú lagagrein eigi eingöngu við um þann frest sem kröfuhafi hafi í upphafi til að leita fullnustu kröfu sinnar eftir slys. Orðin „vitneskja um kröfu sína“ eigi greinilega við um afleiðingar hins bótaskylda atviks, og hvenær hinn slasaði viti um þá kröfu. Dómstólar hafi ekki túlkað greinina rýmra. Að auki sé á því byggt að krafa sú sem stefnandi hafi upp í málinu sé til komin með mati dómkvaddra matsmanna, 9. apríl 2009. Þá fyrst hafi stefnandi fengið „vitneskju um kröfu sína og átt þess kost að leita fullnustu hennar“ eins og segi í niðurlagi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Hér gildi því almennur 10 ára fyrningarfrestur skaðabótakrafna skv. lokamálsgrein 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Sá fyrirvari sem gerður hafi verið við uppgjörstillögu og tjónskvittun stefnda, 15. og 19. mars 2007 og í kröfubréfi 2. mars 2007, sýni að ekki hafi verið um lokauppgjör að ræða. Stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi verið fullkunnugt um það. Sú greiðsla sem fram hafi farið í mars 2007 hafi því rofið fjögurra ára fyrningarfrest skaðabótakröfu stefnanda skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Eftir það gildi almennur 10 ára fyrningarfrestur skaðabóta. Upphafstími sé slysdagur. Fyrirvarinn hafi verið afdráttarlaus og skýr og auðskilinn, og ritaður á bæði uppgjörstillögu og tjónskvittun. Greiðslan hafi verið samþykkt sem innborgun á heildarbætur og gerður fyrirvari um frekari kröfur í kjölfar niðurstaðna dómkvaddra matsmanna.

Sú afstaða stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að miða eigi upphaf fyrningarfrests skv. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 við það tímamark, þegar fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, eigi sér enga stoð í lögum. Upphaf fyrningarfrest skv. lagagreininni miðist við það tímamark, þegar tjónþoli hafi haft vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þau skilyrði ein hafi þýðingu við mat á upphafi fjögurra ára fyrningar skv. 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, önnur ekki. Fari svo ólíklega að dómurinn telji rétt að líta svo á að ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eigi við í málinu leiði það engu að síður til þess að kröfur stefnanda séu ekki fyrndar.

Vitneskja stefnanda um þær afleiðingar slyssins, sem krafist sé greiðslu bóta fyrir í málinu, geti ekki hafa orðið til fyrr en á árinu 2009, þ.e. þegar matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi legið fyrir, og þá fyrst hafi stefnandi getað leitað fullnustu kröfunnar. Upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins verði þá að telja frá áramótunum 2009/2010 og lok fyrningarfrests skv. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 15. júlí 2013, þ.e. 10 árum eftir tjónsatburð. Við umferðarslysið hafi stefnandi orðið fyrir líkamstjóni. Matsmenn hafi verið dómkvaddir til að meta afleiðingar slyssins samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga. Skaðabótakrafa stefnanda sé í samræmi við niðurstöður þeirra og ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfur stefnanda, byggðar á skaðabótalögum nr. 50/1993 og matsgerð dómkvaddra matsmanna, séu þessar:

1. Varanlegur miski skv. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 15. gr. laganna:

Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna sé varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 7 stig. Stefndi hafi áður greitt stefnanda bætur fyrir 5 stiga miska. Krafa stefnanda vegna varanlegs miska sé því 2% af 9.643.000,- (4.000.000 x 7912/3282 = 9.643.000). = 192.860 krónur.

2. Varanleg örorka skv. 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993:

Samkvæmt matsgerð matsmanna sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins metin 10%. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hafi þegar greitt skaðabætur vegna 5% varanlegrar örorku, og sé því krafist þess sem eftir standi eða 5%. Viðmiðunarlaun við útreikning skaðabóta séu 3.104.725 krónur eða þau sömu og miðað hafi verið við við uppgjör 15. mars 2007. Margfeldisstuðull skv. 6. gr. skaðabótalaga sé 14,833, þ.e. sá sami og við uppgjör 15. mars 2007, enda sé stöðugleikatímapunktur sá sami í frummati B læknis og C hdl. og mati dómkvaddra matsmanna. Krafa stefnanda vegna varanlegrar örorku sé því 3.104.725 krónur x 14,833 x 5% =  2.302.619 krónur. 

Samtals krefjist stefnandi eftirgreindra skaðabóta:

1.                         Bætur vegna varanlegs miska                                   kr.             192.860,-

2.                         Bætur vegna varanlegrar örorku                               kr.          2.302.619,-

                            Samtals                                                                         kr.          2.495.479,-

Málskostnaðarkrafa stefnanda sé byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísist til 1. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á 16. gr. skaðabótalaga og III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta sé krafist frá því einn mánuður hafi verið liðinn frá því að lögmaður stefnandi hafi krafið stefnda, Vátryggingafélag Íslands hf., um bætur skv. matsgerð dómkvaddra matsmanna.

Málsástæður stefndu og tilvísun til réttarheimilda

               Stefndu byggja, hvað sýknukröfu sína varðar, í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt fjögurra ára fyrningareglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt því sem segi í stefnu byggi stefnandi kröfur sínar á hendur stefndu á ákvæðum XIII. kafla umferðarlaga. Af því leiði að um fyrningu fari eftir 99. gr. laganna og sé því hafnað, sem segi í stefnu, að ákvæði greinarinnar eigi ekki við um atvik málsins. Í 99. gr. sé kveðið á um tvenns konar fyrningarfrest bótakrafna. Þar segi að allar bótakröfur samkvæmt kaflanum fyrnist á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar og að kröfur fyrnist þó í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði. Þar sem málið hafi verið höfðað innan tíu ára frá slysdegi reyni í málinu eingöngu á hvort krafan hafi verið fallin niður fyrir fyrningu vegna fyrrnefnds ákvæðis 99. gr. um fjögurra ára fyrningarfrest. Stefndu mótmæli því sem skilja megi af málatilbúnaði stefnanda að fjögurra ára fresturinn eigi ekki við þar sem uppgjör hafi þegar farið fram og þá innan fjögurra ára frestsins.

               Þá sé því einnig mótmælt að greiðsla bóta í mars 2007 hafi rofið fjögurra ára fyrningarfrestinn. Stefndu hafni því að eingöngu sé unnt að horfa einu sinni til fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. umferðarlaga við einstök slys, sem bætist við samkvæmt fébótakafla umferðarlaganna. Hér verði að horfa sjálfstætt á nýjar kröfur, þótt þær séu tilkomnar vegna sama atviks, og lúti þær hver og ein fyrningarreglum ákvæðisins. Því beri að meta sjálfstætt hvert sé upphaf fjögurra ára fyrningarfrests þeirrar kröfu sem málið snúist um en ekki horfa til þess hvenær það tímamark hafi verið fyrir þá kröfu stefnanda, sem stefndu hafi þegar greitt. Uppgjör í mars 2007 breyti engu um upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. fyrir þá kröfu sem mál þetta snúist um og skipti engu þótt fyrirvari hafi verið gerður við uppgjörið.

               Stefndu bendi á að greiðslan sem innt hafi verið af hendi í mars 2007 hafi ekki rofið fyrningu enda hafi stefndu þá verið að greiða þær bætur sem legið hafi fyrir á þeim tíma að stefndu hafi skuldað stefnanda. Hér hafi því eingöngu verið um viðurkenningu á þeirri fjárhæð skuldar að ræða og ekki falist í uppgjörinu nein viðurkenning á skyldu stefndu til að greiða annað og meira tjón en þá hafi verið þekkt. Þessi greiðsla, í mars 2007, hafi því ekki rofið fyrningarfrest á meintu viðbótartjóni og breyti fyrirvari stefnanda engu um það. Séu lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda skýr um að eingöngu viðurkenning á greiðsluskyldu eða málshöfðun rjúfi fyrningu en umrædd greiðsla sé hvorugt.

               Því sé einnig mótmælt að stefndu hafi samþykkt greiðsluna sem ótilgreinda innborgun inn á heildarbætur. Stefndu hafi með greiðslunni verið að gera upp tjón stefnanda, í samræmi við kröfu hennar þar um. Fjárhæð greiðslunnar sé nákvæmlega sundurliðuð og henni skipt á einstaka bótaliði og hafi stefndu, sem greiðanda, verið fyllilega heimilt að ákveða ráðstöfun greiðslunnar með þeim hætti. Feli slíkt á engan hátt í sér viðurkenningu á frekari skuld stefndu við stefnanda, enda hafi ekkert legið fyrir á þessum tíma um neitt slíkt. Stefndu byggi á því að fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi verið liðinn þegar mál þetta hafi verið höfðað. Eins og segi í 99. gr. umferðarlaga séu tvö skilyrði sett fyrir upphafstíma fjögurra ára fyrningarfrestsins.  Annars vegar verði tjónþoli að hafa fengið vitneskju um kröfuna og hins vegar verði það tímamark að vera komið að hann eigi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar. Bæði þessi skilyrði verði að vera uppfyllt.

               Stefndu telji dómvenju fyrir því að beita skuli hlutlægum mælikvarða á það hvenær tjónþoli megi gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti leitað fullnustu hennar. Ekki beri að líta til þess hvenær tjónþoli ákveði að hefjast handa, hvort sem sé með því að leita til sérfræðinga, afla matsgerðar eða á einhvern annan hátt. Hér þurfi að horfa til þess hvenær tjónþola hafi fyrst gefist kostur á einhverju slíku, óháð því hvað hann hafi gert enda myndi önnur viðmiðun þýða að tjónþoli réði því í raun sjálfur hvenær fyrningarfresturinn hæfist og ákvæði þannig upphaf frestsins. Það gæti þýtt að tjónþoli gæti dregið það árum saman, án ástæðu, að leita læknis eða sérfræðings til að staðreyna afleiðingar slyss, án þess að það hefði áhrif á upphaf fyrningarfrests. Það fái vitaskuld ekki staðist þegar litið sé til þess að fjögurra ára fyrningarreglan sé, eins og aðrar fyrningarreglur, sett í þágu greiðanda og almannahagsmuna en ekki í þágu kröfuhafa.

               Eins og fram hafi komið hafi stefnandi sett fram bótakröfu sem gerð hafi verið upp í mars 2007. Síðar hafi stefnandi óskað eftir nýju mati þar sem hún hafi talið afleiðingar slyssins mun meiri en matsmenn höfðu metið. Ný krafa hafi síðan verið sett fram á grundvelli nýrrar matsgerðar og byggi stefnandi á því að fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi fyrst hafist á árinu 2009, þegar matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi legið fyrir.  Þessu hafni stefndu alfarið.

               Stefndu byggi á því að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. umferðarlaga við það, þegar fyrst hafi verið leitað álits á afleiðingum slyssins með matsbeiðni, 17. október 2005. Stefndu telji ekki annað koma til álita en að stefnandi hafi haft fulla vitneskju um tjón sitt og átt þess kost að leita fullnustu þess í skilningi 99. gr. umferðarlaga á því tímamarki enda  hafi matsmenn þá talið tímabært að meta afleiðingarnar, þótt þeir hafi ekki tilgreint viðmiðunardagsetningu þess nánar.

               Samkvæmt því hafi fjögurra ára fyrningarfrestur  99. gr. umferðarlaga hafist 1. janúar 2006 og honum lokið 31. desember 2009.  Krafan hafi því verið fyrnd, þegar mál þetta hafi verið höfðað, enda ekkert gerst eftir 1. janúar 2006 sem rofið hafi fyrninguna. Verði ekki fallist á framangreint byggi stefndu á því að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. umferðalaga við það tímamark, þegar dómkvaddir matsmenn hafi talið tímabært að meta afleiðingar slyssins. Eins og fram komi í skjölum málsins hafi það verið um einu og hálfu ári eftir slysið eða í ársbyrjun 2005. Fresturinn hafi því hafist 1. janúar 2006 og runnið út 31. desember 2009 og hafi því verið liðinn þegar málið hafi verið höfðað enda ekkert sem rofið hafi fyrningu á fyrningartíma. Stefndu bendi á að í raun skipti ekki máli við hvort framangreint tímamark sé miðað því í báðum tilvikum sé upphaf og lok fyrningarfrestsins það sama. Einnig eigi það sama við um að ekkert hafi gerst við upphaf freststímans, 1. janúar 2006, sem rofið hafi fyrningu á fyrningartíma.

               Stefndu byggi á því að ef miða eigi upphafstíma fyrningar við eitthvað annað síðara tímamark, sem komi eftir að tjónþola verði ljóst að hann hafi hlotið varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysi, þá sé nauðsynlegt að sýna fram á aukin og/eða ný einkenni vegna slyssins. Fyrir verði að liggja að líkamlegt ástand tjónþola hafi breyst frá því sem áður hafi verið talið vegna aukinna og/eða nýrra einkenna sem ekki hafi verið til staðar áður. Stefndu byggi á því að svo sé ekki í þessu máli enda ljóst af fyrirliggjandi matsgerðum að einkenni stefnanda, sem þar séu metin, séu í meginatriðum þau sömu. Stefndu vísi í þessu sambandi til bls. 5 í matsgerðinni frá 28. september 2006 þar sem matsmenn fjalli um þau einkenni sem stefnandi hafi haft þegar matið fór fram og rakin hafi verið til slyssins. Þar segi að einkenni séu verkir og stirðleiki í hálsi og herðum, algengari mígreniköst, lakari svefn vegna verkja og stirðleika og að þessi einkenni öll versni við álag, bæði andlegt og líkamlegt.  Byggi matsmenn niðurstöður sínar á þessum einkennum.

               Þessu til samanburðar vísi stefndu til bls. 11-12 í matsgerðinni frá 9. apríl 2009 þar sem fjallað sé um einkenni stefnanda sem lögð séu til grundvallar niðurstöðunni. Séu þau talin höfuðverkjaköst af mígrenitegund, sem komi oftar en fyrir slysið, stirðleiki með minnkaðri hreyfigetu og óþægindi í hálsi sem aukist við bæði líkamlegt og andleg álag, þreytuverkir og þyngsli í hálsi sem geisli út í herðasvæði og niður í brjóstbakið. Að auki nefni stefnandi að minni hafi versnað og einbeiting sé skert en það hái henni ekki við vinnu. Svefn telji stefnandi að jafnaði vera í lagi.

               Stefndu telji ljóst af framangreindu að í matsgerðinni frá 9. apríl 2009 sé ekki verið að fjalla um neina viðbótaráverka og/eða viðbótareinkenni vegna slyssins, sem liggi til grundvallar hærri niðurstöðu matsins. Matsmenn séu augljóslega að meta sömu einkenni og metin hafi verið í matsgerðinni frá 28. september 2006 og helgist mismunur á niðurstöðum eingöngu af því að matsmenn leggi mismunandi mat á sömu áverka og einkenni. Ef til þess komi að talið verði rétt að taka mið af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna að öðru leyti en því hvenær matsmenn hafi talið tímabært að meta afleiðingarnar, þá byggi stefndu á því að þá verði að horfa til þess hvenær beiðni um dómkvaðningu hafi verið sett fram, þ.e. 23. október 2007. Þá megi ætla að stefnandi hafi í öllu falli mátt hafa vitneskju í skilningi 99. gr. umfl. enda hefði hún tæplega óskað matsins annars. Fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umfl. hafi samkvæmt því hafist 1. janúar 2008 og lokið 31. desember 2011 eða áður en mál þetta hafi verið höfðað og án þess að fyrningarfrestur væri rofinn.

               Af öllu framangreindu telji stefndu að sama sé við hvaða mögulegan upphafsdag fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga sé miðaður. Niðurstaðan sé alltaf sú sama, að fresturinn hafi verið liðinn áður en málið hafi verið höfðað með áritun á stefnuna 28. desember 2012. Hugsanleg krafa stefnanda á hendur stefndu hafi því alltaf verið fallin niður fyrir fyrningu og beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda. Ef ekki verði fallist á að krafa stefnanda sé fyrnd byggi sýknukrafa stefndu í öðru lagi á því að skilyrði endurupptöku um að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari sem leiði til verulega hærri miska- og/eða örorkustigs en áður hafi verið metið séu ekki uppfyllt, sbr. til hliðsjónar 11. gr. skaðabótalaga. Stefndu telji að þrátt fyrir að stefnandi hafi gert fyrirvara við bótauppgjörið í mars 2007 leiði það ekki til heimildar til endurupptöku án frekari skilyrða í þeim tilvikum þar sem læknisfræðileg gögn gefi ekki til kynna slíkar breytingar. Ef svo væri gæti það leitt til þess að tilefnislausir fyrirvarar yrðu ítrekað gerðir við bótauppgjör sem leiddi aftur til verulegra tafa á því að hægt væri að ljúka bótauppgjörum endanlega. Feli slíkt í sér mikla óvissu fyrir tryggingafélög og tjónvalda sem geti undir slíkum kringumstæðum átt von á því að tjónþoli leiti ítrekað nýrra matsgerða til að freista þess að huglæg afstaða matsmanna sé misjöfn og leiði mögulega til hærri bóta án þess að nokkur ný/aukin einkenni hafi komið fram sem afleiðing slyss.

               Stefndu byggi á því að sömu sjónarmið eigi hér við og kveðið sé á um í 11. gr. skaðabótalaga um verulega hækkun miska- og/eða örorkustigs, sem skilyrði endurupptöku.  Í máli þessu sé niðurstaða dómkvaddra matsmanna að varanlegur miski stefnanda sé tveimur stigum hærri en áður hafði verið metið og varanleg örorka 5% hærri. Samkvæmt dómvenju teljist slík hækkun ekki veruleg í skilningi 11. gr. skaðabótalaga. Af því leiði að sýkna beri stefndu af kröfum stefnanda. Sýknukrafa stefndu byggi í þriðja lagi á því að ósannað sé með öllu að tjón stefnanda hafi orðið meira en metið hafi verið með matsgerðinni frá 28. september 2006. Með þegar greiddum bótum hafi stefnandi því fengið tjón sitt að fullu bætt og eigi engan frekari bótarétt úr hendi stefndu.

               Stefndu mótmæli mati hinna dómkvöddu matsmanna og telji það rangt og tjónið þar of hátt metið, að því leyti sem það sé hærra en í matsgerðinni frá 28. september 2006. Eins og þegar hafi verið rakið sé ekki annað að sjá en dómkvaddir matsmenn séu að meta sömu einkenni og metin hafi verið í fyrra mati og telji stefndu ljóst af því að niðurstaða þeirra sé of há. Til að sýna fram á þetta áskilji stefndu sér rétt undir rekstri málsins að óska dómkvaðningar yfirmatsmanna í því skyni að hnekkja fyrirliggjandi matsgerð frá 9. apríl 2009. Stefndu vísi einkum til almennra reglna skaðabótaréttar, skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987, laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og sé málskostnaðarkrafan byggð á 129. og 130 gr. þeirra laga.

Forsendur og niðurstaða

Í máli þessu greinir aðila á um hvort stefnandi eigi fjárkröfur á hendur stefndu, á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 9. apríl 2009, til viðbótar þeim greiðslum sem stefnandi veitti viðtöku 19. mars 2007, samkvæmt matsgerð frá 28. september 2006.

Málsókn stefnanda er aðallega á því reist að fyrir liggi samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna frá 9. apríl 2009, að heilsa hennar sé verri nú en hún hafi verið samkvæmt matsgerðinni frá 28. september 2006. Þar sem stefnandi hafi á sínum tíma tekið við bótum með fyrirvara um miska, samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og varanlega örorku samkvæmt 5. gr. sömu laga, eigi hún viðbótarkröfu á hendur stefndu, vegna þess hversu heilsufar hennar hafi versnað miðað við það sem verið hafi, þegar fyrra matið hafi farið fram.

               Stefndu byggja, hvað sýknukröfu sína varðar, í fyrsta lagi á því að krafa stefnanda sé fyrnd samkvæmt fjögurra ára fyrningareglu 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem stefnandi byggi kröfur sínar í málinu á hendur stefndu á ákvæðum XIII. kafla laganna. Um fyrningu kröfunnar bera stefndu fyrir sig eftirfarandi málsástæður. Stefndu mótmæli því að greiðsla á bótum til stefnanda í mars 2007 hafi falið í sér viðurkenningu á bótaskyldu gagnvart stefnanda, hvað varði þær kröfur sem hafðar séu uppi í málinu, og þannig rofið fyrningu skv. ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Horfa verði, hvað fyrningu varðar, sjálfstætt á nýjar kröfur, þótt þær sé að rekja til sama tjónsatviks. Samkvæmt 99. gr. umferðarlaga séu tvö skilyrði sett fyrir upphafstíma fjögurra ára fyrningarfrestsins. Annars vegar verði tjónþoli að hafa fengið vitneskju um kröfuna og hins vegar verði það tímamark að vera komið að hann eigi þess fyrst kost að leita fullnustu kröfunnar. Bæði þessi skilyrði verði að vera uppfyllt. Samkvæmt dómvenju skuli beita hlutlægum mælikvarða á það hvenær tjónþoli megi gera sér grein fyrir kröfu sinni og geti leitað fullnustu hennar. Stefnandi hafi sett fram bótakröfu á hendur stefndu vegna slyssins 15. júlí 2003, á grundvelli matsgerðar frá 28. september 2006, sem gerð hafi verið upp í mars 2007. Síðar hafi stefnandi óskað eftir nýju mati þar sem hún hafi talið afleiðingar slyssins mun meiri en matsmenn hefðu metið.

               Ný krafa hafi síðan verið sett fram á hendur stefndu á grundvelli nýrrar matsgerðar frá 9. apríl 2009. Stefndu byggi á því að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. umferðarlaga við það þegar fyrst hafi verið leitað álits á afleiðingum slyssins, með matsbeiðni 17. október 2005, enda hafi stefnandi þá haft fulla vitneskju um tjón sitt og átt þess kost að leita fullnustu þess í skilningi 99. gr. umferðarlaga enda  hafi matsmenn þá talið tímabært að meta afleiðingarnar. Samkvæmt því hafi fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafist 1. janúar 2006 og honum lokið 31. desember 2009.  Krafan hafi því verið fyrnd þegar mál þetta hafi verið höfðað enda ekkert gerst eftir 1. janúar 2006 sem rofið hafi fyrninguna. Verði ekki fallist á þessi rök stefndu sé á því byggt að miða beri upphaf fjögurra ára fyrningarfrests 99. gr. umferðalaga við það tímamark, þegar dómkvaddir matsmenn hafi talið tímabært að meta afleiðingar slyssins en það hafi verið, eins og fyrir liggi í málinu, um einu og hálfu ári eftir slysið eða í ársbyrjun 2005. Fresturinn hafi hafist 1. janúar 2006 og runnið út 31. desember 2009 og hafi því verið  liðinn, þegar málið hafi verið höfðað enda ekkert sem rofið hafi fyrningu á fyrningartíma. Stefndu byggi á því að ef miða eigi upphafstíma fyrningar við síðara tímamark en 1. janúar 2006 verði stefnandi að sýna fram á að líkamlegt ástand hennar hafi breyst frá því sem áður hafi verið talið vegna aukinna og/eða nýrra einkenna, sem ekki hafi verið til staðar áður.

               Ekki hafi verið sýnt fram á það enda einkenni stefnanda samkvæmt matinu frá 9. apríl 2009 í meginatriðum þau sömu og fram komi í matsgerðinni frá 28. september 2006. Ef til þess komi að talið verði rétt að taka mið af matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, að öðru leyti en því hvenær þeir hafi talið tímabært að meta afleiðingarnar, þá byggi stefndu á því að þá verði að horfa til þess hvenær beiðni um dómkvaðningu hafi verið sett fram en það hafi verið 23. október 2007. Þá megi ætla að stefnandi hafi í öllu falli mátt hafa vitneskju í skilningi 99. gr. umferðarlaga enda hefði hún tæplega óskað matsins annars. Fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga hafi samkvæmt því hafist 1. janúar 2008 og lokið 31. desember 2011 eða áður en mál þetta hafi verið höfðað, án þess að fyrningarfrestur væri rofinn.

               Af öllu framangreindu telji stefndu að sama sé við hvaða mögulegan upphafsdag fjögurra ára fyrningarfrestur 99. gr. umferðarlaga sé miðaður. Niðurstaðan sé alltaf sú sama, að fresturinn hafi verið liðinn áður en málið hafi verið höfðað með áritun á stefnuna 28. desember 2012. Hugsanleg krafa stefnanda á hendur stefndu hafi því alltaf verið fallin niður fyrir fyrningu og beri af þeim sökum að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Af hálfu stefnanda er þeim gagnrökum teflt fram gegn meintri fyrningu að ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eigi ekki við um atvik máls þessa. Sú lagagrein eigi eingöngu við um þann frest sem kröfuhafi hafi í upphafi til að leita fullnustu kröfu sinnar eftir slys. Orðin „vitneskja um kröfu sína“ í 99. gr. eigi greinilega við um afleiðingar hins bótaskylda atviks, og hvenær hinn slasaði viti um þá kröfu enda hafi dómstólar ekki túlkað greinina rýmra. Þá sé á því byggt að krafa sú sem stefnandi hafi upp í málinu sé til komin með mati dómkvaddra matsmanna, dagsettu 9. apríl 2009. Þá fyrst hafi stefnandi fengið „vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar“ eins og segi í niðurlagi 99. gr. umferðarlaga. Hér gildi því almennur tíu ára fyrningarfrestur skaðabótakrafna skv. lokamálsgrein 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.

Sá fyrirvari sem gerður hafi verið við uppgjörstillögu og tjónskvittun stefnda, 15. og 19. mars 2007 og í kröfubréfi 2. mars 2007, sýni að ekki hafi verið um lokauppgjör að ræða og stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf., verið um það fullkunnugt. Greiðslan sem fram hafi farið í mars 2007 hafi því rofið 4 ára fyrningarfrest skaðabótakröfu stefnanda samkvæmt umferðarlögum. Eftir það gildi almennur 10 ára fyrningafrestur skaðabóta en upphafstími sé slysdagur.

Fyrirvari stefnanda hafi verið afdráttarlaus og skýr og auðskilinn og ritaður á bæði uppgjörstillögu og tjónskvittun. Greiðslan hafi verið samþykkt sem innborgun á heildarbætur og fyrirvari gerður um frekari kröfur í kjölfar niðurstaðna dómkvaddra matsmanna. Sú afstaða stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., að miða eigi upphaf fyrningarfrests skv. 99. gr. umferðarlaga við það tímamark, þegar fyrst hafi verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, eigi sér enga stoð í lögum. Upphaf fyrningarfrest samkvæmt lagagreininni miðist við það tímamark þegar tjónþoli hafi haft vitneskju um kröfu sína og átt þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þau skilyrði ein hafi þýðingu við mat á upphafi fjögurra ára fyrningar skv. 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga, önnur ekki. Fari svo ólíklega að dómurinn telji rétt að líta svo á að ákvæði 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 eigi við í málinu leiði það engu að síður til þess að kröfur stefnanda séu ekki fyrndar. Vitneskja stefnanda um að afleiðingar slyssins væru þær, sem krafist sé greiðslu bóta fyrir í málinu, geti ekki hafa orðið til fyrr en á árinu 2009, þ.e. þegar matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi legið fyrir, og þá fyrst hafi stefnandi getað leitað fullnustu kröfunnar. Upphaf fjögurra ára fyrningarfrestsins yrði þá að telja frá áramótunum 2009/2010 og lok fyrningarfrests skv. 99. gr. umferðarlaga væru þá 15. júlí 2013, þ.e. 10 árum eftir tjónsatburð.

Eins og áður er rakið krefur stefnandi stefndu í máli þessu, á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 9. apríl 2009, um bætur til viðbótar bótum  sem henni voru greiddar, 19. mars 2007, samkvæmt matsgerð frá 28. september 2006. Þá krefst stefnandi vaxta úr hendi stefndu frá  28. desember 2008 og málskostnaðar. Um lagagrundvöll bótakröfu sinnar vísar stefnandi til XIII. kafla umferðarlaga nr. 50/1987 þ.e. til 1. mgr. 88. gr., 89. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr.

Ekki er um það ágreiningur að um fyrningu framangreindra krafna stefnanda í máli þessu fari samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en samkvæmt ákvæðinu fyrnast allar bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim, sem ábyrgð ber, og vátryggjanda, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs, sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Þó fyrnast þessar kröfur í síðasta lagi á tíu árum frá tjónsatburði.

Eins og rakið hefur verið fór fram uppgjör milli stefnanda og stefndu í mars 2007 á grundvelli matsgerðar frá 28. september 2006 en aðilar höfðu sameiginlega leitað matsgerðarinnar. Stefnandi veitti greiðslunni móttöku með fyrirvara hvað varðaði miskabætur og bætur vegna varanlegrar örorku.

Þá hefur verið rakið að stefnandi fór í október 2007 fram á dómkvaðningu matsmanna til að meta tjón stefnanda vegna slyssins 15. júlí 2003, þar sem hún taldi tjónið vanmetið með matsgerðinni frá 28. september 2006. Samkvæmt matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna frá 9. apríl 2009, var varanlegur miski stefnanda metinn 7 stig eða tveimur stigum hærri en samkvæmt matsgerðinni frá 28. september 2006 og varanleg örorka 10% sem var fimm prósentustigum hærra en samkvæmt matsgerðinni frá 28. september 2006. Leiddi framangreind niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna til frekari kröfugerðar stefnanda á hendur stefndu, 20. desember 2011. Hinn 7. maí 2012 hafnaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hækkun kröfugerðarinnar.

Ekki verður gegn mótmælum stefnanda talið sannað að hún hafi, 17. október 2005, átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar á hendur stefndu líkt og stefndu halda fram. Er þeirri málsástæðu stefndu því hafnað

Eins og áður er rakið og fyrir liggur í málinu fór stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess á leit við annan hinna dómkvöddu matsmanna, E taugalækni, með tölvubréfi, 9. febrúar 2012, að hann svaraði því hvenær fyrst hefði verið tímabært að meta afleiðingar slyssins, sem stefnandi varð fyrir 15. júlí 2003. Matsmaðurinn svaraði fyrirspurninni með tölvubréfi, 7. maí 2012. Í svarinu segir: „Undirritaður telur að tímabært hafi verið að meta afleiðingar slyssins þegar um 1½ ár var liðið frá slysi.“ Í bréfinu kemur fram að matsmaðurinn hafi verið í sambandi við lögmann stefnanda um fyrirspurnina og hann ekki gert athugasemdir við að umbeðnar upplýsingar yrðu veittar. Í tilvitnuðu bréfi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., til matsmannsins kemur fram að haft hafi verið samband við matsmanninn, D lögfræðing, vegna fyrirspurnarinnar, en hún hafi ekki viljað taka að sér frekari matsstörf, þar sem hún hefði tekið við starfi héraðsdómara.

Framangreindu áliti matsmannsins E, á því hvenær tímabært hafi verið að meta afleiðingarnar af slysi stefnanda, hefur ekki verið hrundið. Verður það því lagt til grundvallar dómi í máli þessu og fyrning bótakröfu stefnanda í máli þessu talin hefjast 1. janúar 2006. Rétt þykir með hliðsjón af atvikum málsins að leggja hlutlægan mælikvarða til grundvallar í þeim efnum.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, sem í gildi voru þegar umrætt tjónsatvik átti sér stað, 15. júlí 2003, rauf viðurkenning skuldara gagnvart kröfueiganda fyrningu, hvort sem viðurkenningin var gefin berum orðum eða á annan hátt t.d. með loforði um greiðslu eða greiðslu. Kröfugerð stefnanda í máli þessu er, eins og rakið hefur verið, byggð á matsgerð dómkvaddra matsmanna frá 9. apríl 2009. Ekki verður fallist á það með stefnanda að uppgjör stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., 19. mars 2007, hafi, þótt greiðslunni væri af hálfu stefnanda veitt móttaka með fyrirvara, hvað bætur fyrir miska og varanlega örorku varðaði, falið í sér viðurkenningu í merkingu 6. gr. laga nr. 14/1905 og fyrningarrof. Er þeirri málsástæðu stefnanda því hafnað.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að fyrningarfrestur bótakröfu stefnanda í máli þessu hafi hafist 1. janúar 2006 og krafan því verið fyrnd skv. 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þegar mál þetta var höfðað 28. desember 2012. Verða stefndu, þegar af þeirri ástæðu, sýknaðir af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, Suðurverk hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu. Málskostnaður fellur niður.