Hæstiréttur íslands
Mál nr. 283/2012
Lykilorð
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Kærumál
|
|
Miðvikudaginn 25. apríl 2012. |
|
Nr. 283/2012. |
Sýslumaðurinn
á Akureyri (Guðjón Jóel Björnsson fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. apríl 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 16. maí 2012 klukkan 14.30. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur hlotið tuttugu og fjóra refsidóma frá árinu 1994, síðast 29. júní 2011. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði eru nú til rannsóknar hjá lögreglu tíu brot sem varnaraðili er undir rökstuddum grun um að eiga aðild að og fangelsisrefsing er lögð við. Þegar af þessum ástæðum og með vísan til c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Er því ekki þörf á að taka afstöðu til kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. sama lagaákvæðis.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. apríl
2012.
Lögreglustjórinn á Akureyri krefst þess að sakborningur, X, kt. [...], [...],[...], verði úrskurðaður í áframhaldandi gæzluvarðhald til miðvikudagsins 16. maí. Sakborningur
krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara þess að varðhaldinu verði
markaður skemmri tími. Mál þetta var tekið til úrskurðar á dómþingi fyrr í dag.
Lögreglustjóri kveðst styðja kröfu sína við c og d lið 1. mgr.
og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Hinn 25. marz var sakborningur
úrskurðaður í gæzluvarðhald á grundvelli a og c liðar
1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr.
214/2012, sem kveðinn var upp hinn 29. marz, var sá
úrskurður staðfestur.
Lögreglustjóri segir að hinn 24. marz
hafi sakborningur verið handtekinn fyrir að ráðast að barnsmóður sinni, meðal
annars með hamri, og veita henni áverka. Þá sé til rannsóknar árás hans á hana
sem framin hafi verið 23. marz.
Hinn 23. marz hafi borizt tilkynning um að sakborningur hafi valdið tjóni í
húsakynnum Fjölskyldudeildar [...] og um að hann hafi hótað starfsfólki þar
lífláti. Sama dag hafi verið tilkynnt að hann hefði barið með hafnaboltakylfu í
hliðarrúður bifreiðar sem hafi verið fyrir utan heimili hans. Á þessum tíma
hafi lögreglan verið með fjölmörg mál til rannsóknar á hendur sakborningi.
Þessi séu helzt:
Mál nr. 024-2012-1046. Þar sé sakborningur grunaður um að
kúga fé út úr ungum dreng. Rannsókn málsins sé ekki lokið.
Mál nr. 024-2012-902. Umtalsvert magn fíkniefna hafi fundizt fyrir utan íbúð sakbornings og sé talið að hann
eigi þau. Húsleit hafi verið gerð hjá honum og fundizt
fíkniefni, ætlaðir skuldalistar og grammavogir. Málið sé enn í rannsókn.
Mál nr. 024-2012-487. Í vopnuðu ráni hafi verið teknar um 600
þúsund krónur í reiðu fé. Sé rökstuddur grunur um að sakborningur hafi átt
hlutdeild í ráninu eða alltjent tekið við hluta þýfis. Telji lögregla sig hafa
gögn um þátt sakbornings í málinu. Rannsókn sé ekki lokið.
Mál nr. 024-2012-487 [svo]. Það hafi hafizt
með kæru bæjarlögmanns [...] á hendur sakborningi, þar sem hann hafi verið
sakaður um að hafa margsinnis hótað starfsmönnum barnaverndar hjá
fjölskyldudeild bæjarins. Hafi nokkur tilvik verið rakin, meðal þeirra að
sakborningur hafi hinn 29. nóvember 2011 hótað að drepa einhvern í
barnaverndinni ef hann fengi ekki barn sitt, hinn 28. desember 2011 hótað að
hefna sín grimmilega á forstöðumanni barnaverndarinnar fyrir að hafa tekið af
sér son sinn, hinn 8. janúar 2012 hótað starfsmönnum barnaverndarinnar dauða á
„facebook“-síðu sinni, í símtali hinn 9. janúar hótað
starfsmanni barnaverndar ófarnaði og hinn 20. janúar 2012 hótað forstöðumanni
barnaverndarinnar og fjölskyldu hans ófarnaði vegna afskipta hans af barni
sakbornings. Skömmu síðar hafi verið unnið tjón á garði forstöðumannsins og
beinist grunur lögreglu að því að þar hafi sakborningur verið að verki. Mál
þessi séu enn í rannsókn.
Mál nr. 007-2012-5051. Þar sé sakborningur kærður fyrir
akstur undir áhrifum fíkniefna og vörzlur á þeim í
Reykjavík. Sé rannsókn lokið og hafi ákæra verið gefin út og sé til meðferðar
hjá héraðsdómi Norðurlands eystra.
Mál nr. 024-2011-5999. Þar sé sakborningur grunaður um að
hafa notað keðjusög við að hóta manni ófarnaði borgaði hann ekki skuld vegna
fíkniefnaviðskipta við sakborning. Málið sé enn í rannsókn.
Mál nr. 024-2011-5931. Þar sé sakborningur kærður fyrir að
hafa ásamt þremur öðrum innheimt skuld hjá aðila í Hörgársveit. Sé hann sakaður
um líkamsárás með vopni. Við rannsóknina hafi verið lagt hald á fíkniefni og
umtalsverða fjármuni. Málið sé enn í rannsókn.
Mál nr. 024-2011-5121. Hinn 12. október hafi lögregla lagt
hald á nokkurt magn fíkniefna á heimili sakbornings. Hafi hann verið ákærður og
sé sú ákæra til meðferðar héraðsdóms Norðurlands eystra.
Mál nr. 024-2012-1554. Við húsleit hjá sakborningi hinn 24. marz 2012 hafi lögregla fundið tvo flotgalla, þýfi úr
innbroti í skipið [...] í [...]höfn í byrjun febrúar 2012. Lögreglustjóri segir að rannsókn þessara mála
sé langt komin og hafi ákæra verið gefin út vegna hluta þeirra. Sé ekki þörf á gæzluvarðhaldi til að að koma í veg fyrir að sakborningur
spilli rannsókninni en enn sé veruleg hætta á að hann haldi áfram brotum gangi
hann laus meðan mál hans séu óafgreidd. Þá álíti lögregla að margítrekaðar
hótanir hans í garð starfsfólks barnaverndar [...] séu þess eðlis að þörf sé á
að vernda það fólk fyrir hugsanlegum gerðum hans. Þá hafi fyrir nokkurum dögum, við leit í klefa hans í fangelsinu á [...],
komið í ljós að sakborningur hafi útvegað sér nettengingu og verið farinn að
hóta aðilum, greiddu þeir ekki skuldir sínar. Þá hafi verið lagt hald á ætlaðan
skuldalista og hafi sakborningur útbúið hann á bakhlið gæzluvarðhaldsúrskurðar
frá 25. marz 2012.
Rökstuddur grunur sé um hlutdeild sakbornings í ráni og tvö
tilvik þar sem hann sé kærður fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra
hegningarlaga, en refsirammi í þessum málum sé tíu ára fangelsi eða meira og
séu brotin þess eðlis að gæzluvarðhald sé nauðsynlegt
þegar horft sé til almannahagsmuna.
Sakborningur hafnar kröfu lögreglustjóra. Að því er varði
ætlaðar hótanir í garð starfsmanna barnaverndar standi þar yfirleitt frásagnir
starfsmannanna gegn orðum sakbornings. Verði þar einnig að hafa í huga forsögu
mála. Fyrir dómi kvaðst sakborningur hafa misst stjórn á sér þegar niðurstaða í
forræðismáli hafi legið fyrir en hann myndi aldrei gera neitt á hlut
starfsmannanna. Þá var byggt á því af hálfu sakbornings að tryggja mætti öryggi
starfsmannanna með mildari hætti en gæzluvarðhaldi,
svo sem nálgunarbanni.
Af hálfu sakbornings var því borið við að ekki lægi fyrir
rökstuddur grunur um að sakborningur hefði kúgað fé út úr dreng, svo sem
lögreglustjóri byggir á. Þá bærust engin bönd að sakborningi í því ránsmáli sem
lögreglustjóri hefði tilgreint og fíkniefni, sem lögregla hefði fundið á lóð
hans, gætu verið í eigu hvers sem væri. Gæzluvarðvald
væri viðurhlutamikil aðgerð sem sakborningur hefði nú
þegar sætt í rúmar þrjár vikur.
Sakborningur tók fram að í fangelsinu sækti hann reglulega
fundi á vegum [...]-samtakanna og hefði fengið vilyrði um að komast í sex
mánaða meðferð hjá SÁÁ.
Svo
sem rakið hefur verið, hefur lögregla til rannsóknar margvísleg brot, sem hún
grunar sakborning um að hafa framið eða átt hlutdeild í. Meðal þeirra eru brot
gegn 2. mgr. 218. og 252. gr. almennra hegningarlaga.
Eins
og áður er rakið, var sakborningur úrskurðaður í gæzluvarðhald
hinn 25. marz, á grundvelli a og c liðar 1. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/2008. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur Íslands staðfesti
með vísan til forsendna, segir meðal annars að „með vísan til þess sem að
framan er rakið um kærur til lögreglu á hendur sakborningi undanfarið, svo og
afskipti lögreglu af honum, og sérstaklega þegar litið er til framferðis hans í
gær og fyrradag, [megi ætla] að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er
ekki lokið“.
Lögreglustjóri
byggir á því að sakborningur hafi, úr gæzluvarðhaldsklefa
sínum, haft uppi hótanir við menn greiddu þeir ekki skuldir sínar. Engin gögn
fylgja þessari staðhæfingu og verður ekki litið til hennar. Á hinn bóginn
liggur fyrir í gögnum málsins að í klefa sakbornings var lagt hald á skrifaðan
lista þar sem skráð eru fjölmörg nöfn og er tala skráð við hvert og eitt nafn.
Miklu stærsta talan, 10.000.000, er skráð við nafnið „[...]“, sem er
skírnarnafn barnsmóður sakbornings. Þykir staðhæfing lögreglustjóra, um að
sakborningur hafi í varðhaldsvist sinni tekið saman skuldalista, vera styrkum
stoðum studd. Þegar á þetta er horft og gögn málsins í heild þykja enn verða að
telja verulegar líkur á því að sakborningur muni halda áfram brotum sínum meðan
máli hans er ekki lokið. Þá þykja gögn málsins sýna að sakborningur er undir
sterkum grun um að hafa ráðizt að barnsmóður sinni og
veitt henni áverka, með aðferð sem kann að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra
hegningarlaga, en hann er grunaður um að hafa ráðizt
á hana með hamri, meðal annars á höfuð hennar. Rannsókn þess máls er ekki lokið
en eins og á stendur þykir verða að fallast á með lögreglustjóra að almannahagsmunir
geri hér áframhaldandi gæzluvarðhald sakbornings
nauðsynlegt. Þegar á framanritað er horft þykir verða að fallast á kröfu
lögreglustjóra og framlengja gæzluvarðhald
sakbornings á grundvelli c liðar 1. mgr. og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 svo
sem í úrskurðarorði greinir.
Af
hálfu lögreglustjóra gerði kröfuna Eyþór Þorbergsson.
Þorsteinn
Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Sakborningur,
X, sæti áfram gæzluvarðhaldi en þó ekki lengur en til
miðvikudagsins 16. maí kl. 14:30.