Hæstiréttur íslands

Mál nr. 421/2000


Lykilorð

  • Veðskuldabréf
  • Framsal
  • Greiðsla
  • Áfrýjunarheimild
  • Nauðungarsala
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarkröfu hafnað


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. maí 2001.

Nr. 421/2000.

Sigurjón Ragnarsson og

Kvilt ehf.

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Ásrúnu Einarsdóttur

(Ingólfur Hjartarson hrl.)

og

Ásrún Einarsdóttir

gegn

Sigurjóni Ragnarssyni

Kvilt ehf.

Garðabæ og

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

Landsbréfum hf.

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hdl.)

 

Veðskuldabréf. Framsal. Greiðsla. Áfrýjunarheimild. Nauðungarsala. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarkröfu hafnað.

 

K gaf í febrúar 1995 út skuldabréf til Á. Var skuldin tryggð með veði í fasteign sem síðar var seld nauðungarsölu. Lýsti Á kröfu í söluverð fasteignarinnar á grundvelli skuldabréfsins, sem hún hafði þó ekki undir höndum. S bar brigður á eignarrétt Á að bréfinu og kvaðst hafa fengið það framselt frá henni. Á bakhlið bréfsins, neðan við undirritun stjórnarmanna K, hafði Á ritað nafn sitt, án þess að þar kæmu fram skýringar á undirrituninni. Var ekki talið að Á hefði með þeirri nafnritun sinni einni framselt skuldabréfið. G kvaðst hafa fengið bréfið afhent frá S sem tryggingu fyrir greiðslu vegna fasteignakaupa. L greiddi G síðar fyrir K fjárhæð sem var nokkru lægri en andvirði bréfsins. Bar K því við að þar sem L hefði þegar greitt G andvirði bréfsins væru ekki lengur til kröfuréttindi á grundvelli þess. Ekki var fallist á þá málsástæðu, enda gat greiðslan ekki hafa lokið kröfuréttindum samkvæmt bréfinu nema henni hefði verið beint til rétts kröfuhafa. Var eignarréttur Á að bréfinu staðfestur gagnvart K og S. Kom héraðsdómur ekki til endurskoðunar gagnvart G og L, þar sem þeir höfðu ekki gagnáfrýjað honum. Ekki var fallist á kröfu Á um endurskoðun á frávísun héraðsdóms á hluta krafna hennar í héraði, enda hafði Á ekki kært viðkomandi ákvæði héraðsdóms til Hæstaréttar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. nóvember 2000. Þeir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þeir verði sýknaðir af kröfu gagnáfrýjanda. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 29. janúar 2001. Hún krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur að öðru leyti en því að hrundið verði ákvæði hans um að vísa frá kröfu hennar um að staðfestur verði réttur hennar til að fá úthlutað 3.025.560 krónum af söluverði 1. hæðar eystri enda fasteignarinnar að Einholti 2 í Reykjavík við nauðungarsölu, svo og að sá réttur hennar verði viðurkenndur. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjenda.

Gagnstefndu Garðabær og Landsbréf hf. krefjast hvor fyrir sig sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málkostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og ráðið verður af kröfugerð gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti var hluta krafna hennar vísað frá héraðsdómi með hinum áfrýjaða dómi. Til að koma fram endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um þetta atriði hefði gagnáfrýjandi þurft að kæra til Hæstaréttar ákvæði hans um frávísun eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1293 og 2869, svo og dóm 31. maí 2000 í máli nr. 29/2000.  Með því að þessa hefur ekki verið gætt verður ekki komið að fyrir Hæstarétti dómkröfum gagnáfrýjanda um að hrundið verði ákvæði héraðsdóms um frávísun fyrrgreindrar kröfu hennar og um að fallist verði á þá kröfu að efni til.

II.

Með héraðsdómi var tekin til greina gagnvart aðaláfrýjendum og gagnstefndu krafa gagnáfrýjanda um að viðurkenndur yrði eignarréttur hennar að verðtryggðu veðskuldabréfi útgefnu til hennar 10. febrúar 1995 af aðaláfrýjandanum Kvilt ehf., sem var upphaflega að fjárhæð 2.425.986 krónur og tryggt með veðrétti í nánar tilgreindum eignarhlutum í fasteigninni Einholti 2 í Reykjavík. Þá voru aðaláfrýjendur og gagnstefndu jafnframt dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda í sameiningu 300.000 krónur í málskostnað. Samkvæmt þeirri meginreglu, sem kemur meðal annars fram í 2. og 3. málslið 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga eins og henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, geta gagnstefndu ekki leitað breytinga á þessari niðurstöðu héraðsdóms sér í hag nema með því að gagnáfrýja honum. Það hafa gagnstefndu ekki gert. Kemur því ekki til álita fyrir Hæstarétti krafa þeirra um sýknu af kröfu gagnáfrýjanda.

III.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var 1., 2. og 3. hæð eystri enda fasteignarinnar að Einholti 2, sem stóð að veði til tryggingar fyrrnefndu skuldabréfi, seld nauðungarsölu við uppboð 7. október 1998. Við uppboðið lýsti gagnáfrýjandi kröfu í söluverð fasteignarinnar á grundvelli veðskuldabréfsins, sem hún hafði þó ekki undir höndum. Í frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík 23. desember 1998 til úthlutunar á söluverði 1. hæðar í eystri enda hússins að Einholti 2 var ráðgert að 3.025.560 krónur kæmu til greiðslu kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu, en rétthafi þess væri óþekktur. Fyrir liggur í málinu bréf sýslumanns 25. maí 2000, þar sem staðfest var að heimildarskjal fyrir kröfunni hefði ekki borist honum, en fram væri komið að ágreiningur væri um hverjum hún tilheyrði. Meðan svo væri yrði fyrrnefnd greiðsla samkvæmt frumvarpinu varðveitt eftir ákvæði 2. mgr. 54. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Aðaláfrýjandinn Sigurjón Ragnarsson ber því við að hann hafi fengið umrætt veðskuldabréf framselt frá gagnáfrýjanda. Í bréfi gagnstefnda Garðabæjar 15. febrúar 2000 til gagnstefnda Landsbréfa hf. kvaðst sá fyrrnefndi hafa fengið veðskuldabréfið afhent frá aðaláfrýjandanum Sigurjóni sem tryggingu fyrir greiðslu vegna kaupa á fasteign. Ljóst er að þetta hefur gerst fyrir 11. desember 1997, en þann dag greiddi gagnstefndi Landsbréf hf. 2.500.000 krónur til gagnstefnda Garðabæjar fyrir aðaláfrýjandann Kvilt ehf. Af gögnum málsins verður ráðið að um þær mundir hafi gagnstefndi Landsbréf hf. komið í verð fyrir þann aðaláfrýjanda skuldabréfum og ráðstafað andvirði þeirra eftir fyrirsögn hans. Með bréfi 10. desember 1998 til gagnstefnda Garðabæjar óskaði gagnstefndi Landsbréf hf. eftir því að fá veðskuldabréfið afhent, þar sem krafa samkvæmt því hefði verið greidd á áðurnefndan hátt í desember 1997. Þrátt fyrir það var veðskuldabréfið áfram í vörslum gagnstefnda Garðabæjar, sem afhenti það ekki gagnstefnda Landsbréfum hf. fyrr en eftir að málið var höfðað í febrúar 2000. Hinn 10. apríl 2001 lagði sá síðastnefndi frumrit veðskuldabréfsins fram í Hæstarétti. Það ber ekkert með sér um greiðslu skuldarinnar.

Gagnáfrýjandi getur ekki krafist greiðslu frá sýslumanninum í Reykjavík á kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu nema með því að leggja fyrir hann frumrit þess eða jafngild skilríki fyrir rétti sínum til greiðslunnar. Gagnáfrýjandi hefur ekki frumrit veðskuldabréfsins undir höndum. Eins og atvikum er hér háttað gat hún hvorki kallað eftir veðskuldabréfinu né aflað sér dómsúrlausnar um rétt sinn til þess eða greiðslu kröfunnar með því að reka fyrir héraðsdómi mál eftir XIII. kafla laga nr. 90/1991. Eru því ekki efni til að fallast á röksemd aðaláfrýjenda, sem að þessu lýtur, fyrir kröfu þeirra um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandinn Kvilt ehf. ber því við í málinu að krafa samkvæmt veðskuldabréfinu hafi verið gerð upp til fullnaðar með áðurnefndri greiðslu, sem fór milli gagnstefndu 11. desember 1997. Af þeim sökum séu ekki lengur til kröfuréttindi á grundvelli bréfsins og hafi þannig gagnáfrýjandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um viðurkenningu eignarréttar síns að veðskuldabréfinu. Um þessa röksemd fyrir frávísunarkröfu aðaláfrýjenda verður að gæta að því að greiðslan 11. desember 1997 getur ekki hafa lokið kröfuréttindum samkvæmt veðskuldabréfinu nema henni hafi verið beint til rétts kröfuhafa. Í málinu ber gagnáfrýjandi brigður á að þar geti verið um annan að ræða en hana sjálfa, en verði á það fallist hefur kröfuréttur samkvæmt skuldabréfinu ekki fallið niður með umræddri greiðslu. Er því ekkert hald í þessari röksemd aðaláfrýjenda.

Samkvæmt framansögðu verður hafnað kröfu aðaláfrýjenda um frávísun málsins frá héraðsdómi, enda eru ekki að öðru leyti annmarkar á málatilbúnaði gagnáfrýjanda, sem leitt gætu til þeirrar niðurstöðu, svo sem aðaláfrýjendur héldu einnig fram fyrir héraðsdómi.

IV.

Veðskuldabréfið, sem um ræðir í málinu, var sem áður segir gefið út á nafn gagnáfrýjanda. Texti þess var ritaður á einu blaði, á framhlið þess og bakhlið, og ekki notast við prentað form. Hvergi var þar sérstaklega gert ráð fyrir áritun um framsal þess. Á bakhlið veðskuldabréfsins skrifuðu tveir menn nöfn sín sem stjórnarmenn útgefandans, aðaláfrýjandans Kviltar ehf. Neðan við undirskriftir þeirra rituðu tveir aðrir nöfn sín og kennitölur sem vottar að réttri dagsetningu veðskuldabréfsins, undirskrift og fjárræði aðila. Fyrir neðan þetta án nokkurrar fyrirsagnar eða skýringar var undirskrift gagnáfrýjanda, sem ritaði þar jafnframt kennitölu sína. Eins og hér var staðið að verki gat viðtakandi veðskuldabréfsins ekkert traust lagt á að gagnáfrýjandi hafi ritað nafn sitt á það til framsals réttindum samkvæmt því. Verður því ekki litið svo á að hún hafi framselt veðskuldabréfið með nafnritun sinni einni.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með vissu hvort gagnstefndi Garðabær hafi talið sig orðinn eiganda að veðskuldabréfinu fyrir framsal eða hafa það eingöngu undir höndum til tryggingar skuld aðaláfrýjandans Sigurjóns Ragnarssonar við sig, svo sem gefið var til kynna í fyrrnefndu bréfi gagnáfrýjandans 15. febrúar 2000. Er þá enn síður ljóst hvort greiðslan í þágu aðaláfrýjandans Kviltar ehf., sem gagnstefndi Landsbréf hf. hafði samkvæmt áðursögðu milligöngu um, hafi verið innt af hendi til gagnstefnda Garðabæjar til að ljúka skuld aðaláfrýjandans Sigurjóns við hann eða kröfu samkvæmt veðskuldabréfinu. Án tillits til þess gat þó aðaláfrýjandinn Kvilt ehf. ekki losnað undan skuld samkvæmt veðskuldabréfinu með því að beina greiðslu til þess, sem hafði það undir höndum án viðhlítandi framsals frá nafnskráðum kröfuhafa samkvæmt hljóðan þess.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að eignarréttur gagnáfrýjanda að veðskuldabréfinu verður viðurkenndur gagnvart aðaláfrýjendum. Þar sem þetta atriði málsins kemur ekki vegna þess, sem áður segir, til endurskoðunar að því er gagnstefndu varðar verður héraðsdómur þegar af þeirri ástæðu látinn standa óraskaður, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað.

Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti bera aðilarnir hver sinn kostnað af málinu hér fyrir dómi.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjendur, Sigurjón Ragnarsson og Kvilt ehf., greiði í sameiningu gagnáfrýjanda, Ásrúnu Einarsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Að öðru leyti fellur málskostnaður fyrir Hæstarétti niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. nóvember

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 27. október sl., er höfðað með stefnu sem árituð er um birtingu 4. febrúar sl. og birt 11. sama mánaðar.

Stefnandi er Ingólfur Hjartarson hrl., kt. 070942-2329, Ægisíðu 78, Reykjavík og höfðar hann málið vegna Ásrúnar Einarsdóttur, kt. 060616-2489, Dalbraut 27, Reykja­vík, en nefndur lögmaður var skipaður lögráðamaður Ásrúnar 10. október 1997 að því er tekur til fjárræðis.

Stefndu eru Landsbréf hf., kt. 520789-3329, Suðurlandsbraut 24, Reykjavík, Garða­bær, kt. 570169-6109, Garðatorgi 7, Garðabæ, Sigurjón Ragnarsson, kt. 160729-2289, Blikanesi 13, Garðabæ og Kvilt ehf., kt. 661094-2499, Einholti 2, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði með dómi eignarréttur Ásrúnar Einars­dóttur að verðtryggðu veðskuldabréfi, útgefnu til hennar 10. febrúar 1995 af stefnda Kvilt ehf., upphaflega að fjárhæð 2.425.986 krónur með 7% föstum vöxtum frá 1. nóvember 1994 og 20 afborgunum á 6 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júní 1995.  Skuldin var tryggð með 1. veðrétti í 2. og 3. hæð í eystri enda fasteignarinnar nr. 2 við Ein­holt í Reykjavík og með 2. veðrétti og uppfærslurétti í 1. hæð eystri enda sömu fast­eignar, næst á eftir veðkröfu að fjárhæð 724.310 krónur frá janúar 1995.  Jafn­framt er þess krafist að staðfestur verði með dómi réttur Ásrúnar til að fá úthlutað af nauð­ung­arsöluverði fasteignarinnar Einholt 2, 1. hæð í eystri enda, sem seld var nauð­ung­ar­sölu á uppboði 7. október 1998, 3.025.560 krónur.  Þá er krafist máls­kostn­aðar óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.  Upphaflega höfðu stefndu, Sigurjón og Kvilt ehf., krafist frávísunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 22. september sl.

II

Í stefnu er málavöxtum lýst á þá leið að framangreind Ásrún sé ekkja eftir Aron Guðbrands­son, sem m.a. hafi átt stóran hlut í Hótel Borg.  Við sölu á hótelinu hafi komið í hlut seljanda húseignin að Einholti 2 hér í borg.  Eftir andlát Arons hafi Kvilt hf. keypt þessa fasteign í mars 1995.  Til greiðslu kaupverðsins hafi hlutafélagið m.a. gefið út til Ásrúnar framangreint veðskuldabréf.  Á skuldabréfinu komi fram að stefndi, Sigurjón, sé vottur að undirritun þess.  Kvilt hf. hafi síðar orðið einka­hluta­fél­ag og sé það stefndi, Kvilt ehf.

Þegar unnið var að framtali fyrir Ásrúnu vegna ársins 1996 hafi komið í ljós að veru­legar fjárhæðir voru horfnar af bankareikningum hennar og framangreint veð­skulda­bréf var horfið án þess að nokkrar greiðslur hefðu borist.  Þetta leiddi til þess að í júlí 1997 var óskað eftir opinberri rannsókn á þessu máli og í framhaldi af þeirri rann­sókn var gefin út ákæra á hendur Sigurði Kárasyni fyrir misneytingu gagnvart Ásrúnu.

Haustið 1997 var Ásrúnu tilkynnt um nauðungarsölu á Einholti 2 og kom þá í ljós að framangreint veðskuldabréf var í vörslu stefnda, Garðabæjar, sem hafði beðið um nauð­ung­ar­söluna í október 1996 á grundvelli ákvæða í bréfinu.  Þessi tilkynning leiddi til þess að í nóvember 1997 var lögð fram kröfulýsing fyrir hönd Ásrúnar þar sem krafist var greiðslu á eftirstöðvum skuldabréfsins af söluverði eignarinnar ef af sölu yrði.  Þá var þess jafnframt krafist að stefndi afhenti Ásrúnu veðskuldabréfið.  Var m.a. vísað til þess að nafn hennar eitt og sér á bakhlið bréfsins án dagsetningar eða annars texta gæti ekki talist löggilt framsal og skapað þriðja manni rétt til bréfsins á grundvelli traust­fangs.   Þá var því og lýst  yfir við stefnda að hann yrði gerður ábyrgur fyrir því tjóni sem Ásrún, sem réttmætur eigandi veðskuldabréfsins, kynni að verða fyrir vegna at­hafna eða athafnaleysis hans.

Ekki varð af nauðungarsölunni haustið 1997 en haustið 1998 var Ásrúnu aftur til­kynnt um nauðungarsölu.  Aftur var lýst kröfu í eignina í október 1998 og þess krafist að greiðslu af söluverðinu á grundvelli veðskuldabréfsins yrði ráðstafað í samræmi við ákvæði 7. mgr.  50. gr. og 2. mgr. 54. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991 ef eign­ar­heimild yfir bréfinu yrði ekki útkljáð fyrir úthlutun.

Í nóvember 1998 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn Sigurði Kárasyni og var hann fundinn sekur um að hafa notfært sér bágindi Ásrúnar, sem stöfuðu af ellirýrnun, í þeim tilgangi að hafa af henni fé, m.a. með því að fá hana til að afhenda stefnda, Sigurjóni, framangreint veðskuldabréf, sem síðan hafi verið nýtt til að greiða skuld Sigurðar við stefnda.   Taldi dómurinn að Ásrún hefði ekki verið hæf á þessum tíma til að taka ákvarðanir varðandi meðferð veð­skulda­bréfsins.  Með bréfi 16. nóvember 1998 var stefnda, Garðabæ, tilkynnt um dóm­inn og áréttuð krafa Ásrúnar um að fá frumrit veðskuldabréfsins afhent.  Fram­an­greindur dómur héraðsdóms var staðfestur með dómi Hæstaréttar 12. maí 1999.

Fasteignin að Einholti 2 var seld nauðungarsölu 7. október 1998.  Frumvarp að út­hlutun nauðungarsöluverðs var sent út 23. desember s.á.  Samkvæmt því sé gert ráð fyrir að 3.025.560 krónur renni til rétthafa umrædds skuldabréfs.  Féð er varðveitt hjá sýslu­manni.  Lögmaður Ásrúnar tilkynnti stefnda, Garðabæ, 7. janúar 1999 um frum­varpið og úthlutun og var vakin athygli á kröfulýsingu hennar og því að athugasemdir við frumvarpið þyrftu að berast fyrir tilgreindan tíma.

Með bréfi 11. janúar 1999 tilkynnti stefndi, Garðabær, að hann hefði móttekið fulla greiðslu á skuldabréfinu og hafi greiðslan verið innt af hendi af hálfu stefnda, Lands­bréfa hf.  Hafi stefndi, Landsbréf hf., krafist afhendingar á bréfinu og telji stefndi, Garða­bær, að ekki sé annað stætt en að verða við þeirri kröfu.  Stefnandi kveðst hafa mót­mælt þessari afstöðu stefnda, Garðabæjar, með bréfi 26. janúar 1999 og jafnframt hafi stefnda, Landsbréfum hf., verið tilkynnt um málið og afstöðu lög­manns Ásrúnar.   Jafn­framt var þess óskað að stefndi, Landsbréf hf., upplýsti hvort hann hefði fengið frumrit bréfs­ins í hendur og hvaða greiðslur stefndi, Garðabær, hefði fengið vegna skuldabréfsins og hvenær.  Þess ósk hafi verið ítrekuð að gengnum dómi Hæstaréttar en henni ekki verið svarað.

III

Af hálfu stefndu, Kviltar ehf. og Sigurjóns Ragnarssonar, er bent á að krafan sam­kvæmt veð­skuldabréfinu sé greidd, en að öðru leyti telja stefndu að margt sé á huldu um atvik þessa máls.

Af hálfu stefnda, Landsbréfa hf., er málavöxtum lýst þannig að í desember 1997 hafi meðstefndi, Kvilt ehf., leitað eftir fyrirgreiðslu stefnda.  Í framhaldi af því hafi með­stefndi gefið út veðskuldabréf, sem stefndi annaðist um sölu á og ráðstafaði sölu­verð­inu í samræmi við fyrirmæli meðstefnda.  Stefndi hafi m.a. greitt 2.500.000 krónur til meðstefnda, Garðabæjar, en ekki haft önnur afskipti af málinu.  Eftir útgáfu stefnu í þessu máli kveðst stefndi hafa fengið í hendur frumrit veðskuldabréfsins sent í pósti frá meðstefnda, Garðabæ, og muni það verða geymt í vörslu stefnda þar til dómur gengur í þessu máli. 

Af hálfu stefnda, Garðabæjar, er málavöxtum lýst á þá leið að stefndi hafi tekið við um­ræddu skuldabréfi frá meðstefnda, Sigurjóni, í tengslum við fasteignaviðskipti hans og stefnda.  Stefndi kveðst hafa tekið við skuldabréfinu í góðri trú um að með­stefndi ætti lögmætan rétt til að ráðstafa því. 

Í framhaldi af móttöku bréfsins hafi innborgun inn á það verið greidd til stefnda af hálfu útgefanda þess á árinu 1995 en eftirstöðvarnar hafi verið greiddar af með­stefnda, Landsbréfum hf., fyrir hönd útgefenda í nóvember 1997.  Stefndi kveðst hafa af­hent bréfið meðstefnda, Landsbréfum hf., en að öðru leyti sé honum ókunnugt um hvar það sé nú niðurkomið eða hver sé hinn raunverulegi eigandi þess. 

IV

Stefnandi byggir á því að fyrir liggi samkvæmt framangreindum dómi Hæsta­réttar í máli ákæru­valdsins gegn Sigurði Kárasyni að Ásrún Einarsdóttir hafi, á þeim tíma sem stefndi, Sigurjón, fékk veðskuldabréfið í hendur, ekki verið hæf til að taka ákvarð­anir varð­andi meðferð þess.  Í dómnum sé talið sannað að Sigurður Kárason hafi notfært sér bágindi Ásrúnar og einfeldni varðandi fjármál til að auðgast um and­virði veð­skulda­bréfsins, með því að útistandandi skuldir hans hafi lækkað sem nam verð­gildi þess.  Jafnframt segi í dómnum að Sigurði hafi ekki mátt dyljast að Ásrún gat ekki gert sér grein fyrir hvers eðlis þær skuldbindingar voru sem fólust í skulda­bréf­inu, sem hún afhenti stefnda, Sigurjóni. 

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnda, Sigurjóni, hafi á sama hátt og Sigurði Kárasyni, ekki mátt dyljast ástand Ásrúnar þegar hann tók við veð­skulda­bréf­inu úr hendi hennar.  Í vætti stefnda, Sigurjóns, í málinu komi fram að hann hafi þekkt Ásrúnu frá því fyrir árið 1960 og komið til hennar um það bil einu sinni í viku.  Hafi hann fengið veðskuldabréfið upp í skuld Sigurðar Kárasonar og hafi sjálfur getað nýtt sér bréfið með því að afhenda það upp í aðra skuld. 

Stefnandi bendir á að staðfest sé með framangreindum hæstaréttardómi að veð­skulda­bréfinu hafi verið náð úr vörslum Ásrúnar með því að misnota sér bág­indi hennar og einfeldni  Þá geti nafnritun hennar með kennitölu neðst í vinstra horn bak­hliðar bréfsins undir áritun votta ekki talist löggilt framsal.  Þetta hvorttveggja leiði til þess að hvorki stefndu, Sigurjón, Garðabær né Landsbréf hf., hafi öðlast rétt til bréfs­ins á grundvelli traustfangs.  

Vegna þessa leysi hugsanleg greiðsla stefnda, Landsbréfa hf., á veðskuldabréfinu til stefnda, Garðabæjar, þótt hún kunni að hafa verið innt af hendi fyrir stefnda, Kvilt ehf., ekki heldur stefnda, Kvilt ehf., sem skuldara bréfsins, undan því að Ásrún fái við­ur­kenningu á eignarrétti sínum yfir bréfinu og taki til sín andvirði þess af nauð­ung­ar­sölu­verðinu.  Þá er og vísað til þess að hvorki stefndi, Garðabær, né stefndi, Lands­bréf hf., mótmæltu kröfulýsingu stefnanda  í nauðungarsöluverðið, þótt þeim hafi verið til­kynnt sérstaklega um það.  Þá mótmæltu þeir heldur ekki frumvarpi til út­hlutunar, þar sem gert hafi verið ráð fyrir greiðslu á grundvelli veðskuldabréfsins.  Þá bárust heldur ekki mótmæli frá skráðum skuldara bréfsins, sem er eigandi hinnar seldu eignar, þrátt fyrir tilkynningu um það, sbr. 51. gr. nauðungarsölulaga. 

V

Af hálfu stefndu, Sigurjóns Ragnarssonar og Kviltar ehf., er sýknukrafan byggð á því að umrætt veðskuldabréf sé greitt.  Krafan, sem bréfið hafði að geyma, sé því ekki lengur fyrir hendi.  Stefndu byggja á því, að stefndi, Garðabær, hafi fengið bréfið í hendur með fullkomlega lögmætum hætti þar sem Ásrún Einarsdóttir, hafi haft lög­form­lega heimild til að framselja það.  Bréfið hafi síðan verið greitt af með­stefnda, Lands­bréfum hf., og hafi ekki verið um kröfuhafaskipti að ræða heldur greiðslu á kröfu. 

Þá byggja stefndu einnig á því að stefndi, Garðabær, hafi öðlast réttindi yfir veð­skulda­bréfinu á grundvelli réttarreglna um traustfang og viðskiptabréfsreglna og regl­unnar um réttindamissi þriðja manns. Stefndu telja því að kröfur stefnanda geti ekki náð fram að ganga, jafnvel þótt viðurkennt yrði eða sannað teldist að Ásrún Einars­dóttir hefði verið beitt misneytingu við framsal skuldabréfsins.  Benda stefndu í þessu sam­bandi á áritun hennar á skuldabréfið.

Þá er því mótmælt af hálfu stefndu að hægt sé að byggja í þessu máli á sönn­un­ar­at­riðum sakamálsins á hendur Sigurði Kárasyni.  Benda þeir á að í sakamálum gildi aðrar sönnunarreglur heldur en í einkamálum.  Af hálfu stefndu er því mótmælt að Ásrún Einarsdóttir hafi verið haldin ellihrörleika og minnisleysi er hún framseldi veð­skulda­bréfið, sem þetta mál snýst um.  Halda stefndu því fram að það hafi verið ætt­ingjar hennar sem knúið hafi hana til að afsala sér lögræði þar eð þeir hafi ekki viljað missa af arfi eftir hana.

Sýknukrafa stefnda, Garðabæjar, byggist á því að hann hafi orðið rétthafi um­rædds skulda­bréfs með gjörningi inter vivos og í fullkomnu grandaleysi um nokkra hugs­an­lega meinbugi á handhöfn heimildarmanns stefnda eða fyrri heimildarmanna bréfs­ins.  Bréfið hafi verið orðið handhafabréf á þeim tíma sem stefndi varð rétthafi þess.  Réttur stefnda til bréfsins hafi þannig byggst á almennum reglum fjár­muna­rétt­arins um traustfang.  Þá er og á því byggt, að hafi Ásrún Einarsdóttir átt rétt til bréfs­ins gagn­vart fyrri handhöfum þess, þá hafi hún misst þann rétt sinn við framsal bréfs­ins til stefnda, Garðabæjar, á grundvelli almennra reglna um viðskiptabréf, um mót­bárutap og rétt­indamissi samkvæmt sérreglum kröfuréttarins um viðskiptabréf.  Einnig er á því byggt að skuld­ari bréfsins, meðstefndi Kvilt ehf., hafi greitt stefnda skulda­bréfið vitandi um alla mála­vexti og hafi meðstefndi orðið rétthafi bréfsins við þá greiðslu.  Loks er á því byggt að eins og dómkrafan í máli þessu sé úr garði gerð, hafi ekki verið rétt að beina henni að stefnda og því sé einnig krafist sýknu vegna að­ild­arskorts, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnda, Landsbréfa hf., er sýknukrafan byggð á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.  Stefndi kveðst aldrei hafa haldið því fram að hann sé eigandi veðskuldabréfsins eða borið brigður á eignarrétt annarra og hafi hann því engra hagsmuna að gæta í málinu.  Stefndi kveðst enga afstöðu hafa tekið til þess hver sé réttmætur eigandi veðskuldabréfsins, sem raunar virðist að fullu uppgreitt, enda sé það ekki hans að kveða upp úr um eignarrétt að bréfinu.  Þá kveðst stefndi heldur eigi hafa gert tilkall til þeirra fjármuna sem sýslumaðurinn í Reykjavík hafi í sinni vörslu og kveðst hann ekki fá séð annað en málssókn á hendur sér sé með öllu þarf­laus og tilefnislaus.

VI

Með ákæruskjali, útgefnu 3. apríl 1998 af ríkislögreglustjóra, var ákærða, Sigurði Kára­syni, gefin að sök misneyting gagnvart Ásrúnu Einarsdóttur, "með því að hafa not­fært sér bágindi Ásrúnar sökum heilarýrnunar, einfeldni hennar og að hún var ákærða háð, til að hafa af henni fé og áskilja sér hagsmuni er ekkert endurgjald skyldi koma fyrir."  Auk annars var ákærða gefið að sök að hafa fengið Ásrúnu til þess á árinu 1995 að afhenda stefnda, Sigurjóni, sem greiðslu upp í skuld ákærða við Sigurjón veðskuldabréf það, sem til umfjöllunar er í þessu máli. 

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 1998, sem staðfestur var í Hæsta­rétti 12. maí 1999, var talið sannað að ákærði "hafi notfært sér bágindi Ásrúnar og einfeldni varðandi fjármál til að auðgast um andvirði" veðskuldabréfsins.

Samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hefur dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik, sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. 

Veðskuldabréf það, sem til umfjöllunar er í þessu máli, var þannig haft af Ásrúnu Einars­dóttur með ólögmætum og refsiverðum hætti, enda hefur annað ekki verið sannað í þessu máli.  Af þessu leiðir að hún er réttmætur eigandi þess og verður aðal­krafa hennar því tekin til greina.  Grandleysi stefndu í málinu getur engu breytt um þessa niðurstöðu.  Þá skiptir engu máli við úrlausn þessa máls hvort krafan samkvæmt veð­skuldabréfinu sé greidd eða ekki þar eð hér er aðeins til umfjöllunar hvort Ásrún Einars­dóttir sé eigandi bréfsins og hvort hún eigi rétt á að fá í sinn hlut fjármuni þá, er sýslumaður hefur í sinni vörslu.

Hér að framan var því lýst að fasteignin að Einholti 2 hafi verið seld nauð­ung­ar­sölu 7. október 1998.  Frumvarp að út­hlutun nauðungarsöluverðs var sent út 23. desem­ber s.á. og samkvæmt því er gert ráð fyrir að 3.025.560 krónur renni til rétthafa um­rædds skuldabréfs.  Féð er varðveitt hjá sýslu­manni og í bréfi hans 25. maí sl. kemur fram að heimildarskjal hafi ekki borist fyrir kröfunni og meðan svo sé fari með féð í samræmi við ákvæði 2. mgr. 54. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991.  Það er þá fyrst þegar sýslumanni hefur borist framangreint veðskuldabréf að hann getur tekið um það ákvörðun hvort fénu verður ráðstafað til rétthafa þess í samræmi við ákvæði VIII. kafla nauðungarsölulaga.  Ágreining um það má svo bera upp við dómstóla sam­kvæmt ákvæðum XIV. kafla sömu laga.  Af þessu leiðir að það á ekki undir hér­aðs­dóm í almennu einkamáli að taka afstöðu til þess hvort Ásrún Einarsdóttir á rétt á að fá framangreindu fé úthlutað og er þeirri kröfu vísað frá dómi.

Stefndu, Garðabær og Landsbréf hf., byggja sýknukröfur sínar m.a. á því að þeir eigi ekki aðild að málinu.  Upplýst er að stefndi, Landsbréf hf., hefur veðskuldabréfið í vörslu sinni og er því hafnað kröfu hans um sýknu vegna aðildarskorts.  Stefndi, Garða­bær, tók við bréfinu frá stefnda, Sigurjóni, eins og lýst var og hafði það undir hönd­um allt fram í janúar 1999 að því er ráða má af gögnum málsins.  Með vísan til þessa og að öðru leyti til þess, sem að framan hefur verið rakið um þátt stefnda í mál­inu, er kröfu hans um sýknu vegna aðildarskorts einnig hafnað.

Samkvæmt framansögðu verða stefndu, óskipt, dæmdir til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð.

Framangreindri kröfu er vísað frá dómi.

Viðurkenndur er eignarréttur Ásrúnar Einars­dóttur að verðtryggðu veð­skulda­bréfi, útgefnu til hennar 10. febrúar 1995 af stefnda, Kvilt ehf., upphaflega að fjárhæð 2.425.986 krónur með 7% föstum vöxtum frá 1. nóvember 1994 og 20 afborgunum á 6 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. júní 1995.  Skuldin var tryggð með 1. veðrétti í 2. og 3. hæð í eystri enda fasteignarinnar nr. 2 við Ein­holt í Reykjavík og með 2. veðrétti og uppfærslurétti í 1. hæð eystri enda sömu fast­eignar, næst á eftir veðkröfu að fjár­hæð 724.310 krónur frá janúar 1995.

Stefndu, Landsbréf hf., Garðabær, Sigurjón Ragnarsson og Kvilt ehf., greiði óskipt stefnanda, Ingólfi Hjartarsyni hrl. vegna Ásrúnar Einarsdóttur, 300.000 krónur í máls­kostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Arngrímur Ísberg