Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/1999


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Skaðabætur


                                                                                                                 

Föstudaginn 18. júní 1999.

Nr. 35/1999.

Matthías Pétursson

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

Birgi Guðmundssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

og gagnsök

Líkamsárás. Skaðabætur.

M var gestkomandi hjá G þegar B kom í heimsókn þangað. Sló M til B og kom til handalögmála milli þeirra í framhaldinu. Kvaðst M hafa orðið fyrir meiðslum í átökunum auk þess sem B hefði kastað hlutum í hans eigu út úr íbúðinni um nóttina. Krafðist hann bóta vegna þessa úr hendi B. B krafðist hins vegar bóta úr hendi M vegna líkamstjóns, miska og meingerðar. Ekki var talið að M hefði sýnt fram á að B hefði valdið honum tjóni, sem B bæri ábyrgð á og var hann því sýknaður af kröfum M. Þá var ekki talið að B hefði sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir líkamstjóni sem M bæri ábyrgð á og var M sýknaður af kröfum B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. janúar 1999. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 512.954 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. apríl 1997 til greiðsludags og að niðurstaða héraðsdóms um sýknu hans af kröfum gagnáfrýjanda verði staðfest. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði 19. mars 1999 og krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda, sem verði í gagnsök dæmdur til að greiða sér 160.630 krónur með dráttarvöxtum frá 12. apríl 1997 til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Kona, sem var húsráðandi, hleypti gagnáfrýjanda inn í íbúð sína snemma morguns og sat á tali við hann í stofunni þegar aðaláfrýjandi, sem þar var staddur, reyndi að eigin frumkvæði að vísa honum á dyr. Veitti aðaláfrýjandi gagnáfrýjanda högg og í kjölfarið urðu handalögmál milli þeirra, en báðir voru ölvaðir. Fyrir héraðsdómi hefur húsráðandi ekki skýrlega borið að gagnáfrýjandi hafi síðar kannast við að hafa fleygt út jakka og skóm aðaláfrýjanda, eins og sá síðarnefndi heldur fram. Vegna þessa og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Matthías Pétursson, greiði gagnáfrýjanda, Birgi Guðmundssyni, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.                                                          

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 1998.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 30. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað fyrir dómþinginu af Matthíasi Péturssyni, kt. 310752-2319, Gautlandi 9, Reykjavík á hendur Birgi Guðmundssyni, kt. 171054-5249, Barmahlíð 30, Reykjavík, með stefnu birtri 12. mars 1998 og þingfestri 26. mars 1998. Hinn 16. apríl 1998 var þingfest gagnstefna.

Dómkröfur í aðalsök

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 594.520 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. febrúar 1997 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda sam­kvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.

Dómkröfur í gagnsök

Dómkröfur stefnanda í gagnsök eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda krónur 160.630 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 12. apríl 1997 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.

Dómkröfur stefnda í gagnsök eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefndi verði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

II.

Málavextir eru þeir, að aðalstefnandi var gestkomandi í húsi við Barmahlíð 17, Reykjavík hinn 9. febrúar 1997, í boði Guðrúnar Stefánsdóttur. Um klukkan fimm um nóttina kom gagnstefnandi í heimsókn til húsráðanda, en þau eru ágætir kunningjar. Var gagnstefnanda boðið til stofu af húsráðanda. Er þau höfðu setið þar mjög skamma stund kom aðalstefnandi þar að. Aðalstefnandi bað gagnstefnda um að yfirgefa íbúðina, en gekk síðan að gagnstefnanda og sló hann í höfuðið. Í framhaldi af því kom til nokkurra átaka milli aðila málsins, en húsráðandi gekk þar á milli og fylgdi síðan gagnstefnanda út úr íbúðinni.

Aðalstefnandi kvaðst hafa orðið fyrir töluverðum meiðslum í fyrrgreindum átökum, m.a. hafi brákast í honum rifbein,og hafi hann verið óvinnufær með öllu í tvær vikur á eftir. Kvað aðalstefnandi, að síðar hafi komið í ljós, að hlutir í hans eigu hafi horfið út úr íbúðinni umrædda nótt. Heldur aðalstefnandi því fram, að gagnstefnandi hafi tekið frá sér skó, rúskinnsjakka og veski, sem í hafi verið 15.000 krónur í peningum, ökuskírteini, skotvopnaleyfi, demantshringur, lyklar og skiptikrónur viðskiptanetsins að verðmæti krónur 20.000.

Hinn 19. febrúar 1997 kærði aðalstefnandi gagnstefnanda til lögreglunnar í Reykjavík, sem tók skýrslu af aðilum málsins og húsráðanda, Guðrúnu Stefánsdóttur. Hinn 6. mars 1998 lagði gagnstefnandi fram kæru á hendur aðalstefnanda hjá lögreglunni í Reykjavík.

Í málinu liggja frammi tvö læknisvottorð. Í læknisvottorði Sigurðar Ásgeirs Kristinssonar, læknis, dags. 23. febrúar 1998, segir svo m.a. um áverka aðalstefnanda: „Það vottast hér með að ofangreindur Matthías leitaði á slysa- og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur þann 11.02.97, kl. 16:19. Í sögu Matthíasar kom frama að tveim dögum áður eða þann 09.02 hefði hann dottið og lent með vinstri síðu á stólbrík úr tré. Í tölvuskráningu stendur að slysstaður sé utan við heimili. Eftir slysið hefði Matthías fundið fyrir verkjum við hreyfingu og djúpa innöndun en engin mæði eða andþyngsli voru til staðar.

Skoðun leiddi í ljós veruleg þreifieymsli yfir X rifi vinstra megin í axilarislínu. Sársauki var þar við hreyfingu og óbein eymsli við skoðun. Matthías var talinn rifbrotinn og var útskrifaður heim með ráðleggingar um verkjalyf en Matthías hafði þó ekki talið sig þurfa nein verkjalyf. Honum var ráðlögð hvíld í eina viku.

Viku síðar eða þann 19.02.97, kl. 11:57 leitaði Matthías á ný til slysadeildar. Kvartanir voru þá sem fyrr verki (svo) neðarlega í vinstri hluta brjóstkassa og staðsettir aftan til. Skoðun leiddi í ljós þreifieymsli yfir neðstu rifjum í axilarislínu vinstra megin en lungnahlustun var eðlileg. Matthías fékk upplýst að hann gæti haft verki í 4 til 6 vikur eftir áverka. Honum var gefið lyf til að fara til vinnu á ný. Endurkoma áætluð eftir þörfum. Ekki er að sjá af gögnum að Matthías hafi leitað til okkar á ný vegna afleiðinga þessara áverka.”

Í læknisvottorði Stefáns Finnssonar. læknis, dags. 19. febrúar 1997, vegna læknisskoðunar hans á gagnstefnanda, segir svo:„...Ofangreindur leitaði til mín í dag vegna áverka er hann kvaðst hafa orðið fyrir aðfaranótt 9. febrúar s.l.

Kvaðst hafa verið drukkinn og fór í heimsókn til konu er hann þekkir og hleypti hún honum inn í íbúð. Þar var fyrir maður sem vildi koma honum út og ræðst sá á hann hvar ofangreindur sat í stól og sló í höfuðið og tókust þeir síðan á.

Ofangreindur kveðst síðan hafa verið stirður í hálsi og með höfuðverk í tvo daga á eftir og frá vinnu þess vegna. Hann leitaði ekki á Slysavarðstofu.

Við komu nú er merki um áverka á enni, þ.e. ör sem er 1 og 1/2 x 1/2 cm að stærð, engin eymsli. Það er sár á hægri hnúa, lítið. Það er stirðleiki í hálsliðum, en hann hreyfir þó samt ágætlega.

Þetta vottast hér með að ósk ofangreinds...”

III.

Málsástæður í aðalsök

Aðalstefnandi kveðst byggja bótakröfu sína á því, að aðalstefndi hafi tekið hluti í hans eigu ófrjálsri hendi og ekki komið þeim til skila. Þá byggir aðalstefnandi á því að hann hafi orðið fyrir tilhæfulausri árás af hendi aðalstefnda, sem hafi orðið til þess að brákuðust í honum rifbein og honum hafi því verið ómögulegt að stunda vinnu sína um tveggja vikna skeið á eftir.

Aðalstefnandi kveðst byggja miskabótakröfu sína á því, að hann hafi orðið fyrir andlegu áfalli og miklum óþægindum vegna fyrrgreindra viðskipta sinna við aðalstefnda.

Aðalstefnandi sundurliðar bótakröfu sína á eftirfarandi hátt í stefnu:

1. Beinn útlagður kostnaður:

a. Endurnýjun ökuskírteinis, m/mynd kr.4.200.

b. Seðlaveski kr. 3.050.

d. Demantshringur kr. 112.000.

e. Reiðufé kr. 15.000.

f. Viðskiptanetið, skiptikrónur kr. 20.000.

g. Timberland skór kr. 11.500.

h. Rúskinnsjakki kr. 25.600.

i. Kostnaður vegna slysadeildar kr. 3.570.

j. Kostnaður vegna læknisvottorðs kr. 11.400.

Samtals kr. 206.320.

2. Tekjumissir: kr. 120.000.

3. Miskabætur: kr. 250.000.

4. Bætur vegna þjáninga: kr. 18.200.

Samtals krafa: kr. 594.520.

Um lagarök vísar aðalstefnandi til almennra reglna skaðabótaréttarins vegna kröfu um bætur vegna eignatjóns, útlagðs kostnaðar og tekjumissis.

Kröfu um miskabætur byggir aðalstefnandi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um skyldu til bótagreiðslu vegna þjáninga.

Kröfu um vexti byggir aðalstefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Aðalstefndi byggir kröfur sínar á því að hann hafi orðið fyrir ólögmætri árás af hendi aðalstefnanda og að allt það tjón sem aðalstefnandi hafi hugsanlega orðið fyrir í átökum þeirra á milli sé því á ábyrgð aðalstefnanda.

Aðalstefndi kveðst hafa verið að verja sig og ekki beitt vörnum, sem hafi verið hættulegri en árásin, sbr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Athafnir aðalstefnda hafi því ekki verið „ólögmæt meingerð” í skilningi 26. gr. skaðabótalaganna, þar sem aðalstefndi hafi verið að verja sjálfan sig.

Þá komi og fram í læknisvottorði, að aðalstefnandi hafi gefið þá skýringu á áverka sínum, að hann hafi „dottið og lent með vinstri síðu á stólbrík úr tré”.

Aðalstefndi mótmælir því, að hann hafi átt nokkurn þátt í því, að föt í eigu aðalstefnanda hafi horfið úr íbúðinni að Barmahlíð 17, Reykjavík.

Aðalstefndi mótmælir bæði meintu líkamstjóni og fjártjóni, eins og því er lýst í stefnu, sem röngu. Skaðabótakrafan sé vanreifuð í heild sinni, m.a. sé ekkert lagt fram um tekjumissi og hvernig sú krafa sé fundin. Beri því ex officio að vísa skaðabótakröfunni frá. Þá hafi engin sönnun verið lögð fram um að demantshringur hafi verið í veski aðalstefnanda.

Aðalstefndi kveður, að þar sem um beinbrot hafi verið að ræða hafi aðalstefnandi ekki átt að krefja um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaganna, heldur hafi hann átt að krefja um varanlegan miska samkvæmt 4. gr. þeirra laga.

Um lagarök vísar aðalstefndi til þeirrar meginreglu, að tjónþoli þurfi að sanna tjón sitt og meginreglu sem fram komi í 12. gr. almennra hegningarlaga.

Málsástæður í gagnsök

Í gagnsök byggir gagnstefnandi á því, að gagnstefndi hafi á ólögmætan hátt ráðist á gagnstefnda og valdið honum líkamstjóni, miska og meingerð. Kveðst gagnstefnandi hafa orðið fyrir fjártjóni, sem sé bein afleiðing árásarinnar.

Gagnstefnandi sundurliðar bótakröfu sína þannig:

1. Vinnutekjutap kr. 21.780.

2. Þjáningabætur kr. 13.200.

3. Miskabætur að álitum kr. 100.000.

4. Útlagður kostnaður kr. 13.200.

5. Lögfræðikostnaður kr. 12.450.

Samtals kr. 160.630.

Um lagarök í gagnsök vísar gagnstefnandi til almennu skaðabótareglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu um tímabundið tekjutap byggir gagnstefnandi á 2. gr. skaðabótalaga. Kröfu um þjáningabætur byggir gagnstefnandi á 3. gr. skaðabótalaganna. Kröfu um miskabætur byggir gagnstefnandi á 26. gr. skaðabótalaganna.

Kröfu sína um sýknu í gagnsök byggir gagnstefndi á því að gagnstefnandi hafi fyrir árásina tekið nánar tilgreinda muni í eigu gagnstefnda og kastað þeim út um svaladyr. Engir aðrir en aðilar máls þessa og Guðrún Stefánsdóttir, húsráðandi, hafi verið í húsnæðinu er munirnir hafi horfið. Gagnstefnandi hafi og viðurkennt fyrir Guðrúnu Stefánsdóttur og gagnstefnda, að hafa tekið munina ófrjálsri hendi og gagnstefnandi ekki neitað því að hafa átt hlut að máli.

Gagnstefnandi hafi ekki gert reka að því að leita réttar síns vegna hinnar meintu árásar gagnstefnda fyrr en löngu síðar og þá í kjölfar og í tilefni af kröfugerð gagnstefnda.

Gagnstefndi vísar kröfugerð gagnstefnanda í gagnsök á bug, sem rangri, ósannaðri, óstaðfestri og órökstuddri og telur að vanreifun þessi eigi að leiða til þess að gagnsakarkröfum verði vísað frá dómi ex officio.

Um lagarök í gagnsök vísar gagnstefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins sbr. og lög nr. 50/1993.

Gagnstefndi byggir málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Óumdeilt er, að aðilar máls þessa áttu í átökum aðfaranótt 9. febrúar 1997. Fyrir liggur, að upptök átakanna var með þeim hætti, að aðalstefnandi gekk að gagnstefnanda og sló hann högg í höfuðið. Aðalstefnandi hafði þá áður beðið gagnstefnanda að yfirgefa íbúðina að Barmahlíð 17, Reykjavík, en þeir voru þar báðir gestkomandi.

Hvorki af fyrrgreindu framlögðu læknisvottorði né öðrum gögnum málsins verður séð, að aðalstefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni vegna þessara atvika.

Aðalstefnandi hefur haldið því fram gegn andmælum gagnstefnanda, að gagnstefnandi hafi, tilgreint sinn, tekið ófrjálsri hendi nánar tilgreinda muni í eigu aðalstefnanda.

Samkvæmt framburði aðila og vitnis fyrir dómi var gagnstefnandi aldrei einn í íbúðinni og sáu hvorki aðalstefnandi né húsráðandi gagnstefnanda taka fyrrgreinda muni. 

Með vísan til framanritaðs hefur aðalstefnandi ekki sýnt fram á að gagnstefnandi hafi valdið honum tjóni, sem gagnstefnandi beri ábyrgð á. Ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna gagnstefnanda af öllum kröfum aðalstefnanda.

Gagnstefnandi hefur lagt fram læknisvottorð, dagsett 10 dögum eftir umrætt atvik, til sönnunar tjóni sínu. Kemur þar fram, að gagnstefnandi er með ör á enni og lítið sár á hægri hnúa. Jafnframt hefur hann lagt fram vottorð frá vinnuveitanda, þar sem fram kemur að hann tók sér sumarfrí dagana 10. og 11. febrúar 1997. Gögn þessi bera ekki með sér að gagnstefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni, sem aðalstefnandi beri ábyrgð á. Þegar af þeirri ástæðu, að gagnstefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni, sem aðalstefnandi ber ábyrgð á ber að sýkna aðalstefnanda af öllum kröfum gagnstefnanda í máli þessu.

Málskostnaður í aðalsök og gagnsök er ákveðinn í einu lagi. Eftir úrslitum málsins þykir rétt, að aðalstefnandi greiði gagnstefnanda krónur 50.000 í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu aðalstefnanda að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Aðalstefndi, Birgir Guðmundsson, er sýkn af kröfum aðalstefnanda, Matthíasar Péturssonar.

Gagnstefndi, Matthías Pétursson, er sýkn af kröfum gagnstefnanda, Birgis Guðmundssonar.

Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda krónur 50.000 í málskostnað.