Hæstiréttur íslands
Mál nr. 320/2017
Lykilorð
- Líkamstjón
- Ábyrgðartrygging
- Skaðabætur
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem áfrýjandi hafi orðið fyrir 17. janúar 2011 að […] í Kópavogi þegar hann hafi slasast á hægri handlegg. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 750.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. mars 2017.
I.
Mál þetta var höfðað 3. mars 2016 og dómtekið 13. febrúar 2017.
Stefnandi er A, […], en stefndi er Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir þann 17. janúar 2011 að […], Kópavogi þegar hann slasaðist alvarlega á hægri handlegg. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar, en til vara að hann verði einungis dæmdur skaðabótaskyldur að hluta vegna tjóns stefnanda sem hlaust af slysi þann 16. janúar 2011 og að í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.
II.
Stefnandi slasaðist alvarlega á handlegg kl. 4.21 að morgni 16. janúar 2011, þegar hann féll á spegil sem hafði verið stillt upp við vegg. Þegar slysið átti sér stað var stefnandi gestkomandi á heimili vinar síns, B, að […] í Kópavogi en umræddur B var leigjandi íbúðarinnar. Samkvæmt dagbók lögreglu átti slysið sér stað kl. 4.21 að morgni 16. janúar
Umræddum spegli var stillt upp við vegg í enda stofu. Til hliðar við spegil var veggstubbur 30-40 cm frá vegg sem aðskildi spegil frá gangvegi sem liggur inn eftir íbúðinni.
Samkvæmt örorkumati Sigurðar Thorlacius frá 9. júlí 2014, voru afleiðingar slyssins fyrir stefnanda þær að hann hlaut útbreidda lömun og skyntruflanir í hægri griplim. Taldi Sigurður að miski væri hæfilega metinn 50%.
Stefnandi var með frístundatryggingu hjá stefnda og fór fram fullnaðaruppgjör samkvæmt skilmálum hennar þann 23. september 2014.
Með tölvubréfi, dags. 27. október 2014, krafðist stefnandi bóta úr frjálsri ábyrgðartryggingu sem B hafði hjá stefnda, á slysdegi. Var bótaskyldu hafnað með bréfi stefnda 3. mars 2015, m.a. með þeim rökum að um dæmigert óhapp hafi verið að ræða, sem enginn beri skaðabótaábyrgð á. Var það niðurstaða stefnda, að frágangur spegilsins og aðstæður í íbúðinni að öðru leyti yrðu ekki virtar vátryggingartaka til sakar og bæri hann því ekki skaðabótaábyrgð á slysinu.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu skýrslu C, B og D.
Stefnandi bar fyrir dóminum að hann hefði verið að fylgja C inn í herbergi íbúðarinnar, til þess að hún gæti lagt sig, en hún hafi verið ölvuð. C hafi hrasað og rekist í stefnanda og hann við það fallið á spegilinn. Hann hafi borið olnbogann fyrir sig og dottið. Stefnandi kvaðst hafa drukkið bjór fyrir atvikið, en hafi ekki verið mjög ölvaður. Þá tók hann fram að hann hafi ekki verið að dansa þegar atvikið átti sér stað.
C bar fyrir dóminum að þau hafi verið að spjalla saman. Áður en slysið átti sér stað hafi þau setið í sófa í stofunni. Hún hafi verið á leið fram með A er hún hafi rekið sig í stól, sem hafi snúist og við það dottið á stefnanda og þau endað á speglinum. Hún kvað alla viðstadda hafa neytt áfengis en gat ekki sagt hversu mikið þau hefðu drukkið.
B tók fram að þau hefðu setið heima hjá honum. Síðar hafi C komið og hafi hún verið töluvert ölvuð. Stefnandi hafi ákveðið að fara með hana inn í herbergi. Hann kvað þá alla hafa drukkið þrjá til fjóra bjóra. Hann hafi átt spegilinn lengi. Hann hafi verið í ramma og hafi áður hangið uppi á vegg í fyrri íbúð hans. Ætlunin hafi verið að hengja hann upp í þessari íbúð, en það hafi ekki verið gert. Þá kvaðst hann hafa búið í íbúðinni í tvö ár. Hann taldi spegilinn hafa verið 50 cm breiðan og 155 cm á hæð. Hann hafi verið í gráum tréramma, með pappaspjaldi fyrir aftan. Hann hafi verið gerður til að hanga á vegg, það hafi verið festingar með honum. Hann tók fram að borðstofuborð hafi staðið alveg upp við vegg stofunnar og endi þess hafi verið alveg í „flútti“ við spegilinn.
E tók fram að þau hefðu verið að drekka bjór og spjalla saman. C hafi komið seinna. Hún hafi verið vel í því. Stefnandi hafi ætlað með hana inn í herbergi. Hann hafi rekist í stólinn og fallið á spegilinn. C hafi farið með honum alla leið á spegilinn og legið á honum eftir fallið.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi vísar til 2. gr. ábyrgðarskilmála ábyrgðartryggingar sem húsráðandi var með hjá stefnda. Samkvæmt umræddri grein beri menn bótaábyrgð á tjóni sem þeir valdi öðrum vegna mistaka eða vanrækslu. Telur stefnandi að tilætlaðrar varkárni hafi ekki verið gætt af hálfu húsráðanda varðandi staðsetningu og umbúnað spegilsins og hann hafi viðurkennt að ætlunin hafi verið að hengja hann upp á vegg. Spegillinn hafi verið um 150-170 cm á hæð og hafi hallað þannig upp að veggnum að efri hluti hans snerti vegginn en neðri hluti hans hafi verið um 15-20 cm frá veggnum. Hafi því skapast mikil hætta af umbúnaði spegilsins. Það sé ljóst að spegillinn sé til þess gerður að hanga uppi á vegg en ekki til að standa á gólfi. Hefði hann hangið uppi hefði fall stefnanda líklega ekki orðið til þess að spegillinn brotnaði og ylli stefnanda tjóni. Holrými sem var á bak við spegilinn hafi orðið til þess að stefnandi féll inn í spegilinn og síðan niður á brotin sem voru föst við neðri hluta rammans.
Stefnandi telur að staðsetning og frágangur spegilsins umrætt sinn hafi verið á ábyrgð hins vátryggða og að meta verði það honum til gáleysis að hafa ekki gengið frá honum með þeim hætti að hann ylli ekki tjóni.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi telur að sönnunarbyrði um að skilyrði sakarreglunnar séu uppfyllt hvíli á stefnanda, þar með talið að húsráðandi hafi í umrætt sinn sýnt af sér saknæma háttsemi og að orsakatengsl séu á milli sakar húsráðanda og tjónsins. Þá beri stefnandi einnig sönnunarbyrði fyrir því að tjónið sé sennileg afleiðing af saknæmri háttsemi húsráðanda. Telur stefndi að skilyrði sakarreglunnar séu ekki uppfyllt. Húsráðandi verði ekki talinn bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda eingöngu vegna þess að hann kaus að hafa spegil reistan upp við vegg á heimili sínu. Speglar séu algengur húsbúnaður, iðulega frístandandi eða lagðir við vegg. Engin sérstök hætta hafi stafað af því að hafa spegilinn reistan upp við vegg. Þá mæli engar reglur fyrir um að speglar af þessu tagi skuli skilyrðislaust hengdir upp á vegg. Þá hafi aðstæður í íbúðinni ekki verið frábrugðnar því sem almennt gerist á heimilum. Þá sé hægt að skera sig á ýmsum glerbúnaði svo sem gler- eða spegilborðum. Engin saknæm háttsemi hafi falist í því af hálfu húsráðanda að leggja spegilinn upp við vegginn. Telur stefndi að meginorsök slyssins, samkvæmt stefnu hafi verið sú að ölvaður einstaklingur hafi fallið utan í stefnanda og að við það hafi stefnandi misst jafnvægið, dottið á spegilinn og borið höndina fyrir sig. Telur stefndi að um óhappatilvik hafi verið að ræða og enginn beri skaðabótaábyrgð á slysinu. Þá mótmælir stefndi öllum getgátum í stefnu um muninn á því að falla á spegil sem halli upp að vegg eða spegil sem hangi á vegg. Telur stefndi ósannað að tjón stefnanda hefði orðið minna hefði spegillinn hangið á veggnum.
IV.
Málsatvik í máli þessu eru í aðalatriðum óumdeild. Stefnandi slasaðist alvarlega á handlegg þegar hann féll á spegil sem reistur hafði verið upp við vegg í enda stofu á heimili vinar hans. Slysið gerðist síðla nætur og hafði stefnandi að sögn drukkið þrjá til fjóra bjóra þegar slysið varð. Bar það að með þeim hætti að stefnandi var að styðja vinkonu sína, sem var mjög ölvuð, inn í herbergi íbúðarinnar. Hún hrasaði og rakst í stefnanda sem við það féll á spegilinn og slasaðist alvarlega.
Samkvæmt gögnum málsins var um að ræða spegil sem var 50 cm á breidd og 155 cm á hæð. Ekki liggja fyrir upplýsingar um spegil þennan að öðru leyti, hvorki þykkt hans, tegund né leiðbeiningar um uppsetningu. Var spegillinn reistur upp við vegg í enda stofunnar og bar neðri hluta hans 15-20 cm frá veggnum.
Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að nægilegrar varkárni hafi ekki verið gætt af hinum vátryggða, þ.e. eiganda spegilsins og húsráðanda, varðandi staðsetningu og umbúnað spegilsins og að mikil hætta skapast af staðsetningu hans. Verði að meta hinum vátryggða það til gáleysis að hafa ekki gengið frá honum með þeim hætti að hann ylli ekki tjóni.
Stefnandi
var gestkomandi á heimili vátryggðs að morgni 16. janúar 2011 er
hann við óhappatilvik datt á spegil sem þar var frístandandi upp við vegg við
enda stofunnar. Stórir speglar eins og þeir sem í málinu greinir eru algengur
húsbúnaður á heimilum manna og er þeim komið fyrir með ýmsum hætti. Ekki er
mælt fyrir um festingu þeirra eða aðra staðsetningu í byggingarreglugerðum.
Sönnunarbyrðin um að vátryggði hafi sýnt af sér saknæma háttsemi eða
vanrækslu umrætt sinn með staðsetningu spegilsins og umbúnaði á heimili
sínu hvílir á stefnanda. Dómurinn telur ósannað að slysið verði rakið til
saknæmrar háttsemi eða vanrækslu vátryggðs eða annarra atvika sem
vátryggður ber ábyrgð á. Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum
stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri kostnað af rekstri málsins.
Innanríkisráðuneytið veitti stefnanda gjafsóknarleyfi 26. apríl 2016. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist því úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans Björns Þorra Viktorssonar hrl., 700.000 krónur.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., er sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, 700.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.