Hæstiréttur íslands

Mál nr. 656/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. janúar 2008.

Nr. 656/2007.

Þrotabú Um ehf.

(Ólafur Rafnsson hdl.

gegn

Enso ehf.

Gunnari Óla Erlingssyni og

Randi Níelsdóttur

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

 

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Úrskurður héraðsdóms um frávísun máls vegna vanreifunar var staðfestur

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, þrotabú Um ehf., greiði varnaraðilum, Enso ehf., Gunnari Óla Erlingssyni og Randi Níelsdóttur, hverjum fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2007.

I

          Mál þetta, sem dómtekið var hinn 26. nóvember, en það var áður flutt hinn 17. október sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Þrotabúi UM ehf., [kt.], Reykjavíkurvegi 60, Hafnarfirði, á hendur Enso ehf, [kt.], Faxafeni 10, Reykjavík, Gunnari Óla Erlingssyni, [kt.], Kögurseli 8, Reykjavík og Randí Níelsdóttur, [kt.], Kögurseli 8, Reykjavík, báðum persónulega og f.h. félagsins, með stefnu birtri hinn 21. nóvember 2006 og þingfestri 30. nóvember 2006.

          Dómkröfur stefnanda eru:

1.          Að rift verði eftirtöldum ráðstöfunum.

a.                    Greiðslu á kr. 915.062,- frá hinu gjaldþrota félagi til hins stefnda félags Enso ehf., þann 13. júní 2005 með millifærslu af tékkareikningi félagsins nr. 0515-26-481203.

 

b.                    Greiðslu á kr. 500.000,- frá hinu gjaldþrota félagi til hins stefnda félags Enso ehf., þann 14. júní 2005 með millifærslu af tékkareikningi félagsins nr. 0515-26-481203.

 

c.                    Þeirri ráðstöfun er fólst í sölu auglýsingaskiltis til hins stefnda félags Enso ehf., sumarið 2005, en til vara þeirri ráðstöfun er fólst í verðlagningu skiltisins undir markaðsverðmæti.

 

2.          Að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda eftirfarandi.

a.                    Stefndu verði öll in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.421.712 krónur, með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 af 915.062 krónum frá 13. júní 2005 til 14. júní s.á., en þá af 1.415.062 krónum frá þeim degi til 1. júlí s.á., en þá af 1.315.062 krónum frá þeim degi til 8. ágúst s.á., en þá af 1.115.062 krónum frá þeim degi til 20. ágúst 2005, en þá af 2.637.697 krónum frá þeim degi til 16. september 2005, en þá af 2.421.712 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er þess krafið að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað ásamt virðisaukaskatti.

          Dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða þeim málskostnað, að skaðlausu.

II

          Bú Um ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum hinn 9. mars 2006.

          Frestdagur við skiptin var 23. janúar 2006, er félagið var tekið til skipta á grundvelli beiðni fyrrum framkvæmdarstjóra félagsins, Einars Kristins Hermannssonar.

          Kröfulýsingarfresti lauk hinn 27. maí 2006 og var skiptafundur um lýstar kröfur haldinn hinn 15. júní 2006.

          Hið gjaldþrota félag var stofnað í árslok 2003 af stefnda, Gunnari Óla Erlingssyni, Einari Hermannssyni og Hilmari Eiríkssyni, til að annast kaup og uppsetningu auglýsingaflettiskilta og rekstur þeirra.  Í því skyni voru keypt sex skilti í ágúst 2004 af stefnda Enso ehf., og voru þau öll sett upp.  Annaðist einn eigenda félagsins, Einar Kristinn Hermannsson, framkvæmdastjórn fyrir félagið í verktöku.

          Stefnandi kveður að í skýrslu fyrrum stjórnarmanns hins gjaldþrota félags, stefnda, Gunnars Óla, sem hann gaf hjá skiptastjóra, komi fram, að salan hafi gengið illa og fyrsta heila rekstrarárið 2004 hafi félagið verið í töluverðum mínus í árslok og hafi skuldað milljónir umfram eignir.  Kvað hann þá stöðu hafa myndast fyrst og fremst vegna verktakaskuldar við Einar Hermannsson, sem hafi verið fólgin í föstu mánaðargjaldi upp á tæplega 500 þúsund krónur.  Kvað stefndi á þeim tíma hafa séð að í óefni var komið og félagið hafi í sjálfu sér verið gjaldþrota.  Stefndi hafi því haft val um annað hvort að draga sig út úr rekstri félagsins eða kaupa meðeigendurna út.  Hafi síðari valkosturinn orðið ofan á og hafi stefndi, Gunnar Óli, keypt allt hlutafé í félaginu í mars 2005.  Kaupverðið hafi verið ákveðið, til málamynda, u.þ.b. 100 þúsund krónur.  Hafi enginn rekstur verið í félaginu eftir kaup stefnda, Gunnars Óla, á því.  Í kjölfar þessa varð stefndi, Gunnar Óli, eini stjórnarmaður félagsins og varamaður í stjórn, eiginkona hans, stefnda, Randí, en hún tók jafnframt við stöðu framkvæmdastjóra félagsins.  Bæði stefndu, Gunnar Óli og Randí, hafi orðið prókúruhafar félagsins.

Stefnandi kveður að í framhaldi af kaupum stefnda, Gunnars Óla, á félaginu hafi hann tekið til við að selja auglýsingaskilti félagsins og hafi fimm þeirra verið seld Skiltagæslunni ehf., hvert að fjárhæð 2.893.864 krónur og muni andvirði þeirra hafa verið greitt inn á tékkareikninga félagsins.  Eitt skiltið hafi verið selt félaginu Enso ehf., sem er í eigu stefndu, Gunnars Óla og Randíar, fyrir 1.200.000 krónur.

Stefndi, Gunnar Óli, kveðst eftir kaupin hafa tekið þá ákvörðun að koma eignum félagsins í verð og greiða skuldir þess.  Félagið hafi þá verið eigandi sex auglýsingaskilta, sem félagið hefði keypt af stefnda, Ensó ehf., í ágúst 2004.  Í ágúst 2005 hafi Um ehf. komist að samkomulagi við Skiltagæsluna ehf. um kaup þess aðila á fimm auglýsingaskiltum og hafi verið innifalið í þeim viðskiptum uppsetning skiltanna og heimild til staðsetningar þeirra.  Eftir sölu fyrrgreindra auglýsingaskilta hafi Um ehf. staðið uppi með eitt auglýsingaskilti, sem hafi verið mikið skemmt og því ekki söluvara.  Af þeim sökum hafi orðið að samkomulagi að Enso ehf. tæki auglýsingaskiltið til baka, þ.e. að kaup Um ehf. á skiltinu yrðu bakfærð og fyrir það verð, sem Um ehf. hefði keypt skiltið á.  Af þeim sökum hafi Um ehf. gefið út reikning á hendur Enso ehf. til bakfærslu fyrri viðskipta aðila.  Stefndi kveður, að af stefnu megi helst ráða, að stefnandi telji stefndu hafa tekið fjármuni Um ehf. til eigin nota og án þess að endurgjald kæmi fyrir.  Erfitt sé þó að gera sér grein fyrir grundvelli krafna stefnanda.

Fyrrum framkvæmdastjóri félagsins, Einar Kristinn, stefndi hinu gjaldþrota félagi til greiðslu eftirstöðva skulda við sig og var stefna árituð um aðfararhæfi kröfunnar hinn 7. október 2005.  Hinn 14. nóvember 2005 fór fram árangurslaus fjárnámsgerð hjá félaginu byggð á kröfunni og í framhaldi þess var krafist gjaldþrotaskipta hjá félaginu með beiðni, dagsettri 22. desember 2005. 

Með bréfi stefnanda til stefndu, dagsettu 31. október 2006, lýsti stefnandi því yfir að hann krefðist riftunar á öllum ráðstöfunum er kunni að ganga gegn ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, samhliða því að krefjast endurgreiðslna á tilgreindum útistandandi kröfum og riftanlegum ráðstöfunum. 

Aðilar máls þessa greinir á um þá ráðstöfun er fólst í sölu skiltisins sem selt var stefnda, Enso ehf., á 1.200.000 krónur.  Stefnandi heldur því fram að ráðstöfun þessi hafi verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins.  Stefndu mótmæla því og benda á að skiltið hafi verið mikið skemmt og því ekki verið söluvara.  Af þeim sökum hafi orðið að samkomulagi að Enso ehf. tæki auglýsingaskiltið til baka, þ.e. að kaup Um ehf. á skiltinu yrðu bakfærð og fyrir það verð sem Um ehf. keypti skiltið á.

III

Stefnandi byggir málsástæður sínar á því að hinn 13. júní 2005 hafi verið millifærðar inn á reikning Enso ehf. 915.062 krónur af tékkareikningi hins gjaldþrota félags nr. 515-26-481203, án þess að nokkur skýring sé á þeirri greiðslu í fjárhagsbókhaldi félagsins.

Hinn 14. júní 2005 hafi verið millifærðar inn á Enso ehf. 500.000 krónur af tékkareikningi hins gjaldþrota félags nr. 515-26-481203, án þess að nokkur skýring sé á þeirri greiðslu í fjárhagsbókhaldi hins gjaldþrota félags.

Stefnandi krefjist þess aðallega, að hið stefnda félag, Enso ehf., verði dæmt til greiðslu umræddra fjárhæða á grundvelli almennra reglna kröfuréttar, en jafnframt að öllum löggerningum er kunna að búa að baki greiðslunum verði rift á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991.  Krafist sé dráttarvaxta af umræddum kröfum frá þeim degi er millifærslan átti sér stað, eða hinn 13. júní 2005.

Stefnandi kveður, að samkvæmt skýrslutöku af fyrirsvarsmanni hins gjaldþrota félags hafi einu af skiltum félagsins verið ráðstafað til fyrirtækis stefndu, Gunnars Óla og Randíar, Enso ehf., og hafi fyrirsvarsmaður þess félags sagt kaupverðið hafa numið 1.200.000 krónum.  Engin gögn liggi fyrir í afhentum bókhaldsgögnum um að Enso ehf. hafi greitt umrætt kaupverð til hins gjaldþrota félags.

Stefnandi krefst þess aðallega að verðmat skiltisins verði í samræmi við önnur skilti sem seld voru þriðja aðila, Skiltagæslunni ehf., og miðist verðmæti skiltisins við sömu fjárhæð og til þeirra, eða 2.893.864 krónur.  Þar sem ekkert liggi fyrir um greiðslu kaupverðsins til Um ehf. byggi krafa þessi aðallega á almennum reglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga en jafnframt á reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 með vísan til þess að rift sé þeirri ráðstöfun er kunni að felast í sölu auglýsingaskiltisins til hins stefnda félags, Enso ehf., undir markaðsverðmæti þess, sbr. staðreynt söluverð sambærilegra skilta félagsins til þriðja aðila.  Vísar stefnandi einkum til ákvæða 131. gr. og 141. gr.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að stefndu hafi leitt óyggjandi sönnur að því að umrætt skilti hafi einungis verið að verðmæti 1.200.000 krónur, eins og segi í skýrslu fyrirsvarsmanns hins gjaldþrota félags, en stefnandi kveður varakröfu jafnframt aðallega byggja á almennum reglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en áskilinn sé réttur til frekari lagatilvísana gefi varnir stefnda tilefni til.

Stefnandi krefst dráttarvaxta frá 31. júlí 2005, en samkvæmt skýrslu af fyrirsvarsmanni hins gjaldþrota félags hafi sala skiltanna farið fram í júní/júlí 2005 og til hagsbóta fyrir stefndu sé valin síðasta dagsetning þess tímabils.

Til frádráttar framangreindum kröfuliðum á hendur hinu stefnda félagi, Enso ehf., hafi stefnandi dregið frá innborganir er bárust inn á tékkareikning hins gjaldþrota félags, nánar tiltekið 100.000 krónur, hinn 1. júlí 2005, 200.000 krónur, hinn 8. ágúst 2005, 215.985 krónur, hinn 16. september 2005 og sala á auglýsingaskilti hinn 20. ágúst 2005.

Almennt um kröfur á hendur stefndu, Gunnari Óla og Randí, kveðst stefnandi vísa til þess að þau teljist nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, og séu í senn eigendur og stjórnendur hins gjaldþrota félags, Um ehf., og jafnframt hins stefnda félags, Enso ehf.     

Í öllum framangreindum kröfuliðum sé krafist greiðslu in solidum á grundvelli samábyrgðar úr hendi stefndu, Gunnars Óla og Randíar, með vísan til almennra reglna skaðabótaréttarins og XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, ásamt reglum XX. kafla laga nr. 21/1991, einkum 142. gr.

Fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags hafi verið í slæmri trú, ráðstafanir þeirra ótilhlýðilegar og til hagsbóta fyrir stefndu á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins og hafi í senn leitt til þess að eignir þrotabúsins hafi ekki orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum og brjóti þar með gróflega í bága við jafnræðisreglur við skiptameðferð.  Ekki sé ágreiningur um að félagið hafi verið ógjaldfært er umræddar ráðstafanir áttu sér stað.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði, svo og laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.  Stefnandi kveðst byggja efnislegar kröfur sínar á almennum reglum íslensks kröfuréttar og almennum reglum skaðabótaréttar og XX. kafla laga 21/1991, um gjaldþrotaskipti.  Í ljósi þess að stefndu hafi í engu svarað kröfubréfi stefnanda sé sérstaklega áskilinn réttur til að vísa síðar til einstakra lagagreina XX. kafla, gefi varnir stefndu tilefni til slíks, umfram þær tilvísanir sem þegar sé að finna í reifun málsástæðna.

Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála í héraði.

Kröfu stefnanda um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988 en stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.  Beri honum því nauðsyn til þess að fá dóm fyrir þeirri kröfu sinni.

IV

          Stefndu, Gunnar Óli og Randí, byggja kröfu um sýknu á aðildarskorti og vísi þeirri kröfu til stuðnings til 16. gr. laga nr. 91/1991.  Málið varði ætluð viðskipti Enso ehf. og Um ehf. og séu þau ætluðu viðskipti með öllu óviðkomandi stefndu, Gunnari Óla og Randý, enda beri þeir aðilar ekki ábyrgð á viðskiptum Enso ehf.  Þá telja stefndu vanreifað í stefnu á hverju krafa á hendur stefndu, Gunnari Óla og Randí, byggi og beri af þeim sökum að sýkna þau af kröfum stefnanda.  Af stefnu megi þó helst ráða að krafa á hendur Gunnari Óla og Randí kunni að vera skaðabótakrafa en í stefnu sé þó ætlaðri skaðabótaskyldri háttsemi Gunnars Óla og Randíar ekki lýst á neinn hátt.  Stefndu mótmæli sem rangri kröfu stefnanda á hendur þeim og jafnframt sem vanreifaðri. Þá sé mótmælt tilvísun stefnanda í stefnu til ákvæða laga um einkahlutafélög og ákvæða XX kafla laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfum á hendur stefndu, Gunnari Óla og Randí.  Stefndu leggi áherslu á að þau hafi engin viðskipti átt við Um ehf. og sé kröfum því ranglega beint gegn þeim.  Þá hafi stefndu á engan hátt brotið gegn ákvæðum laga um einkahlutafélög og laga nr. 21/1991.

Krafa stefndu um sýknu byggir á því að kröfur stefnanda séu órökstuddar og lítt reifaðar í stefnu.  Stefndu benda á að í fyrsta lið í dómkröfum stefnanda sé þess krafist í a- og b-liðum að tilteknum peningagreiðslum verði rift.  Í stefnu sé krafa um riftun þeirra greiðslna studd almennt við ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, en ekki getið við hvaða ákvæði þess kafla laganna riftun styðjist.  Stefnandi reifi því ekki hvort riftun byggi á því að um greiðslu á skuld hafi verið að ræða, gjafagerning o.s.frv.  Stefnandi færi í stefnu ekki fullnægjandi rök fyrir kröfum sínum og því beri að sýkna stefndu.  Krafa stefnanda í c-lið kröfuliðar 1, um riftun ætlaðrar ráðstöfunar er hafi falist í sölu auglýsingaskiltis og til vara ætlaðrar ráðstöfunar er fólst í verðlagningu skiltis undir markaðsverðmæti, sé sama marki brennd en krafa þessi sé lítt rökstudd í stefnu.  Af lestri stefnu verði ekki ráðið hvort stefnandi telji Um ehf. hafa gefið stefndu skilti, hvort skuld hafi verið greidd með skilti o.s.frv.  Stefnandi vísi ekki í lagaákvæði til stuðnings kröfu um riftun samkvæmt þessum lið frekar en samkvæmt a- og b-liðum og beri því að sýkna stefndu af kröfu um riftun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991.  Af stefnunni verði aðeins ráðið að stefnandi krefji stefndu um greiðslu ætlaðs markaðsverðs skiltisins, 2.893.864 krónur, en stefnandi virðist aðeins byggja á að söluverð skiltisins sé ógreitt en reifi ekki á neinn hátt að ráðstöfun skiltisins kunni að vera riftanleg og þá á hvaða grunni.  Stefnandi vísar þó til almennra reglna kröfuréttar til stuðnings kröfu um riftun.  Stefndu telji almennar reglur kröfuréttar alls ekki styðja kröfur stefnanda.  Stefndu telji að sýkna beri þau af öllum kröfum stefnanda á ofangreindum grunni.

Stefndu styðji kröfu um sýknu á því að ráðstafanir, sem um er fjallað í kröfulið 1 í stefnu séu ekki riftanlegar samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 né annarra laga.  Stefndu leggi áherslu á að með greiðslu á 915.062 krónum til Enso ehf. hinn 13. júní 2005 hafi Um ehf. verið að greiða Ensó ehf. skuld.  Þann dag hafi Um ehf. staðið í skuld við Enso ehf. að fjárhæð 915.062 krónur og hafi sú skuld verið að fullu greidd með fyrrgreindri millifærslu.  Í stefnu sé þess ekki krafist að rift verði greiðslu Um ehf. á skuld við Ensó ehf. og komi því ekki til álita að stefnandi byggi á því síðar að skilyrði kunni að vera fyrir riftun greiðslu á skuld samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991.  Stefndu leggi áherslu á að fyrrgreindar greiðslur hafi ekki verið inntar af hendi á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag og þá telji stefndu sannað að Um ehf. hafi verið gjaldfært á þeim tíma er greiðslur hafi verið inntar af hendi.  Til stuðnings ofangreindu leggi stefndi, Enso ehf., fram í málinu hreyfingarlista og reikninga.  Ekki séu skilyrði að lögum fyrir því að rifta fyrrgreindri greiðslu.

Stefndu byggja kröfu um sýknu af kröfulið b í fyrsta lið dómkrafna á þeirri staðreynd að greiðsla Um ehf. til Ensó ehf. að fjárhæð 500.000 krónur hinn 14. júní 2005 hafi verið lán til Ensó ehf., sem Ensó ehf. hafi fyrir löngu endurgreitt að fullu.  Ensó ehf. hafi endurgreitt fyrrgreint lán með eftirfarandi greiðslum inn á tékkareikning Um ehf.:

 

100.000 kr. hinn 1. júlí 2005.

250.000 kr. hinn 8. ágúst 2005.

215.985 kr. hinn 16. september 2005.

 

Fyrrgreint lán, sem hafi verið að fullu endurgreitt, sé ekki riftanleg ráðstöfun, samkvæmt reglum kröfuréttar né ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991.  Í stefnu sé þess ekki krafist að rift verði fyrrgreindri lánveitingu og geti vegna málatilbúnaðar stefnanda ekki komið til greina að byggja riftun síðar á einhverju ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991, enda sé ekki í stefnu krafist riftunar með vísan til ákveðins ákvæðis XX. kafla laga nr. 21/1991.  Stefndu leggi áherslu á að stefnandi hafi sannarlega ekki orðið fyrir tjóni vegna láns til stefnda, Ensó ehf., enda hafi félagið endurgreitt lánið að fullu.  Skilyrði skorti því fyrir kröfu stefnanda og beri því að sýkna stefndu.

Eins og fyrr greini sé krafa stefnanda um riftun á ,,ráðstöfun er fólst í sölu auglýsingaskiltis til hins stefnda félags Ensó ehf., sumarið 2005, en til vara þeirri ráðstöfun er fólst í verðlagningu skiltisins undir markaðsverðmæti. með öllu órökstudd.  Stefnandi styðji kröfu um riftun eftirfarandi röksemdum í stefnu: ,,Þar sem ekkert liggur fyrir um greiðslu kaupverðsins til Um ehf. byggir kröfuliður þessi aðallega á almennum reglum kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga, en jafnframt er aðalkröfuliður reistur á reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 með vísan til þess að rift sé þeirri ráðstöfun er kunni að felast í sölu auglýsingaskiltisins til hins stefnda félags, Enso ehf., undir markaðsverðmæti þess sbr. staðreynt söluverð skilta félagsins til þriðja aðila.“  Krafa stefnanda byggir því á almennum reglum kröfuréttar en stefnandi virðist á því byggja að Ensó ehf. standi í skuld við stefnanda þar sem stefndi hafi ekki greitt kaupverð eins auglýsingaskiltis sem Um ehf. seldi stefnda, Ensó ehf.  Tilvísun stefnanda í stefnu til ákvæða XX. kafla laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfu um riftun verði ekki skilin á annan veg en að stefnandi telji einhver óskilgreind ákvæði þess kafla styðja riftun á ætlaðri ráðstöfun auglýsingaskiltisins fyrir lægra verð en markaðsverð, þ.e. varakröfu stefnanda í kröfulið c.  Stefndu mótmæla því, að stefndi, Enso ehf., hafi ekki greitt kaupverð auglýsingaskiltisins.  Stefndi, Enso ehf., vísar til framlagðs reiknings, að fjárhæð 1.522.635 krónur, útgefinn af Um ehf., hinn 20. ágúst 2005.  Samkvæmt þeim reikningi hafi kaup Um ehf. á fyrrgreindu auglýsingaskilti af Enso ehf. verið bakfærð og skiltinu afsalað til Enso ehf. fyrir 1.522.635 krónur.  Það sé því rangt að Um ehf. hafi ráðstafað skiltinu til Enso ehf. fyrir 1.200.000 krónur eins og greini í stefnu.  Stefndi, Enso ehf., leggi áherslu á að félagið hafi greitt að fullu fyrrgreindan reikning vegna auglýsingaskiltisins og leggi jafnframt á það áherslu að með reikningi þeim hafi verið að bakfæra kaup Um ehf. á sama auglýsingaskilti.  Það auglýsingaskilti sem um ræði hafi verið mikið skemmt og hafi verð skiltisins því verið annað og lægra en í viðskiptum Um ehf. við Skiltagæsluna ehf.  Í þeim viðskiptum hafi verið innifalið í söluverði skiltanna uppsetning skiltanna og staðsetning.  Í ljósi þess að um bakfærslu hafi verið að ræða og að skiltið hafi verið skemmt hafi verð skiltisins, við bakfærslu viðskiptanna, verið það sama og þegar Um ehf. hafi fest kaup á skiltinu af Enso ehf. á árinu 2004.  Það sé því rangt að verðmæti skiltisins hafi verið 2.893.864 krónur líkt og í viðskiptum Um ehf. við Skiltagæsluna ehf.  Þá sé einnig rangt að Enso ehf. hafi ekki greitt fyrir fyrrgreint skilti.  Um hafi verið að ræða bakfærslu fyrri viðskipta og hafi því skuld Um ehf. við Enso ehf. lækkað sem nemi fjárhæð reikningsins, 1.522.635 krónur.  Stefndu leggi áherslu á að í málinu sé ekki á því byggt af hálfu stefnanda að rift skuli greiðslu stefnanda á skuld við stefnda, Enso ehf., sem hafi falist í ráðstöfun fyrrgreinds skiltis.  Komi því ekki til álita að stefnandi byggi á síðari stigum kröfu um riftun á einstökum ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991, sem ekki sé getið um í stefnu.  Krafa stefnanda um riftun sölu skiltisins byggi aðeins á almennum reglum kröfuréttar og þá sé aðeins vísað óskilgreint til ákvæða XX. kafla laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfu um riftun á ráðstöfun skiltisins undir markaðsverðmæti þess.

Stefndu mótmæli sem rangri fullyrðingu stefnanda í stefnu að ekki sé ágreiningur um að félagið hafi verið ógjaldfært á þeim tíma er ætlaðar ráðstafanir áttu sér stað.  Þá mótmæli stefndu sem röngu þar sem segi í stefnu: ,,Kröfur stefnanda byggja á því að ráðstafanir fyrirsvarsmanna hins gjaldþrota félags hafi verið í slæmri trú, ótilhlýðilegar og stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa þrotabúsins og leiddu í senn til þess að eignir þrotabúsins urðu ekki til reiðu fullnustu kröfuhöfum og brjóti þar með gróflega í bága við jafnræðisreglur við skiptameðferð.“ Stefndu telji þetta aðeins orðin tóm enda styðji ekkert í málatilbúnaði stefnanda þær fullyrðingar sem um ræðir.

Stefndu mótmæli þeim áskilnaði stefnanda í stefnu, að ætla á síðari stigum að lýsa því á hverju kröfur hans um riftun byggja, en í stefnu áskilji stefnandi sér rétt til að vísa síðar til einstakra ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 til stuðnings kröfum sínum, gefi varnir stefndu tilefni til slíks.  Stefndu mótmæli þessum áskilnaði stefnanda og telji í andstöðu við réttarfarsreglur þá ætlan stefnanda að byggja mál sitt upp og rökstyðja eftir að greinargerð stefndu liggi fyrir.  Stefndu vísa þessu til stuðnings til ákvæða laga nr. 91/1991, einkum 80. gr.

Stefndu mótmæli sérstaklega kröfum stefnanda um upphafstíma dráttarvaxta.

          Um lagarök vísa stefndu til laga nr. 91/1991, reglna kröfurétta og ákvæða laga nr. 21/1991. 

Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

          Í máli þessu krefst stefnandi annars vegar að tilteknum greiðslum til stefnda, Enso ehf., verði rift og stefndu, in solidum, dæmd til greiðslu þeirra fjárhæða, sem greiddar voru.  Þá krefst stefnandi þess, að sölu á auglýsingaskilti til stefnda Enso ehf., verði rift og stefndu dæmd til að greiða stefnanda verðmæti auglýsingaskiltisins. 

          Af málatilbúnaði stefnanda í stefnu má ráða að hann byggi kröfur sínar um riftun á XX. kafla laga  nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti og kröfu um greiðslu á almennum reglum kröfuréttar.  Þá krefst stefnandi þess jafnframt, að öllum löggerningum er kunni að búa að baki greiðslunni verði rift á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991.  Þá virðist stefnandi byggja kröfur sínar á hendur stefndu, Gunnari Óla og Randí, á því, að þau teljist nákomin í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. 

                                                                  Í XX. kafla laga nr. 21/1991 er fjallað um riftun ráðstafana þrotamanns.  Samkvæmt lögunum eru skilyrði riftunar mismunandi eftir því hvaða gerning þrotamanns um er að ræða.  Þá er þar kveðið á um að unnt sé að krefjast riftunar á greiðslu til nákominna.  Verður hins vegar ekki séð að umræddar greiðslur hafi verið inntar af hendi til stefndu, Gunnar og Randíar, persónulega.  Í málatilbúnaði stefnanda í máli þessu er á engan hátt gerð grein fyrir því um hvers konar gerning er að ræða, t.d. hvort um sé að ræða gjöf, að greitt hafi verið fyrr en eðlilegt var eða greiðslan hafi verið ótilhlýðileg eins og á stóð.  Verður helst ráðið af stefnu, að ákvörðun stefnanda um það bíði varna stefndu í greinargerð.  Vantar og að gera viðhlítandi grein fyrir aðild stefndu, Gunnars og Randíar.  Er því með öllu óljóst hvert sakarefnið er, hvaða atvik búi að baki kröfunni og hvað felst í þeim atvikum, sem leiða eiga til þess að krafan sé til.  Telst því málatilbúnaður stefnanda svo óljós og óskýr að hann fullnægir ekki kröfum e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, til þess að efnisdómur verði lagður á málið.  Þegar allt framangreint er virt þykir stefnandi ekki hafa lagt málið upp með nægilega skýrum hætti og ekki lagt þann grundvöll að málinu, sem nauðsynlegur er til þess að efnisdómur verði á það lagður.  Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.  Þá þykir málatilbúnaður stefnanda vera mjög til þess fallinn að takmarka möguleika stefndu á að halda uppi vörnum í málinu.

          Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá dómi ex officio.

          Samkvæmt þessari niðurstöðu ber, samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að úrskurða stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.

          Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

          Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

                Stefnandi Þrotabú Um ehf., greiði stefndu, Enso ehf., Gunnari Óla Erlingssyni og Randí Níelsdóttur, in solidum, 100.000 krónur í málskostnað.