Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinghald
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                        

Mánudaginn 18. janúar 2010.

Nr. 32/2010.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

Y

Z

Þ

Æ og

Ö

(enginn)

Kærumál. Þinghald. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Ó kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu réttargæslumanns brotaþola í sakamáli um að loka þinghöldum í málinu. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem Ó skorti heimild til kærunnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson fréttamaður, Austurströnd 2, Seltjarnarnesi, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2010, þar sem þinghöldum í málinu nr. S-1064/2009 var lokað. Um kæruheimild vísar Óskar Hrafn til b. liðar 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að lokun þinghalda nái aðeins til skýrslugjafar ætlaðs brotaþola í málinu.

Málið nr. S-1064/2009, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjaness, er sakamál þar sem sex menn eru sakaðir um refsiverð brot. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var hann kveðinn upp að kröfu brotaþola í málinu. Ákæruvaldið hefur krafist staðfestingar hins kærða úrskurðar. Ákærðu hafa ekki látið kærumál þetta til sín taka.

Talið verður að skilyrði fyrir rétti til að kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar samkvæmt 192. gr. laga nr. 88/2008 sé að sá sem kærir hafi átt í héraði aðild að þeim ágreiningi sem úrskurður lýtur að. Óskars Hrafns Þorvaldssonar er hvergi getið í gögnum um meðferð málsins í héraði og hefur hann raunar ekki í kæru einu sinni freistað þess að gera grein fyrir því hvernig hann tengist því sakarefni sem úrskurðað var um, þótt ráða megi af kærunni að fyrir honum vaki að tryggja fjölmiðlum aðgang að þinghöldum í málinu. Samkvæmt þessu skortir Óskar Hrafn heimild til kærunnar og verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. janúar 2010.

Réttargæslumaður brotaþola, Gunnhildur Pétursdóttir hdl., krafðist þess í dag að þinghöld í málinu verði háð fyrir luktum dyrum til hlífðar brotaþola.

Af hálfu verjanda ákærðu, annarra en ákærða Ö, er þessari kröfu mótmælt.

Krafan er reist á 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál.

Í málflutningi réttargæslumanns kom m.a. fram að íslensk yfirvöld hafi metið stöðu brotaþola svo að hann sé í mikilli hættu vegna sakborninga og hafi hún því gæslu allan sólarhringinn. Hún njóti því hámarks verndar. Þá hafi málið fengið mikla athygli fjölmiðla og því megi búast við, verði þinghaldinu ekki lokað, að fjölmiðlafólk og jafnvel almenningur verði viðstaddur aðalmeðferð málsins. Viðbúið sé að ýmsar viðkvæmar persónulegar upplýsingar um brotaþola muni koma fram við aðalmeðferð. Þá sé til þess að líta að þinghöld í kynferðisafbrotamálum séu almennt lokuð og eigi ekki að gera minni kröfur til þinghalda í mansalsmálum.

Þegar litið er til gagna málsins og til rökstuðnings réttargæslumanns fyrir kröfunni verður fallist á að málið sé þess eðlis að opið þinghald geti orðið brotaþola mjög þungbært. Talið verður að uppfyllt sé skilyrði a liðar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál til að verða við kröfu brotaþola um að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum að öllu leyti.         

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Þinghöldum í málinu er lokað.