Hæstiréttur íslands

Mál nr. 453/2016

Gottskálk Eggertsson og Guðrún Einarsdóttir (Tómas Jónsson hrl.)
gegn
Lífeyrissjóði verslunarmanna (Ólafur G. Gústafsson hrl.)

Lykilorð

  • Veðskuldabréf
  • Veðleyfi
  • Ábyrgð
  • Ógilding samnings

Reifun

Í málinu kröfðust GO og GU að fellt yrði úr gildi veð sem þau upphaflega veittu í fasteign sinni að M, sem var þinglýst eign GO, með samþykki á veðskuldabréf útgefnu af syni þeirra. Með yfirlýsingu var veðið síðar flutt á þinglýsta eign þeirra beggja að L. Töldu GO og GU að L hefði brotið gegn samkomulagi um notkun ábyrgða frá árinu 2001 og af því leiddi að það færi í bága við 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að L bæri fyrrgreint samþykki fyrir sig. Í dómi Hæstaréttar kom fram að GO og GU hefðu undirritað staðfestingu þess efnis að þau hefðu kynnt sér skjal sem bar yfirskriftina ábendingar og var beint til þeirra sem heimiluðu lántaka að veðsetja eign sína. Var því talið að þau gætu ekki byggt á því að ætlaðir gallar á greiðslumati á lántaka ætti að leiða til þess að upphafleg veðsetning í M væri ógild. Þá var ekki talið að hið nýja veð er varðaði eignarhluta GO yrði ógilt á grundvelli laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þar sem lögin ættu ekki við þegar veð væru flutt af einni eign yfir á aðra í eigu sama veðsala til tryggingar efndum á sama lánssamningi. Að lokum var því hafnað að felld yrði úr gildi veðsetning á eignarhluta GU þar sem að L hefði ekki framkvæmt nýtt greiðslumat á lántaka. Var meðal annars vísað til þess að flutningur veðsins hefði verið að frumkvæði og í þágu GO og GU og að ætluð vanræksla á gerð þess í tilefni af veðflutningi hefði enga þýðingu haft um þá ákvörðun GU að setja að veði eignarhluta sinn í íbúðinni að L. Var L því sýknað af kröfum GO og GU.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. júní 2016. Þau krefjast þess aðallega að fellt verði úr gildi veð sem þau veittu í fasteign sinni að Lundi 3 í Kópavogi og stæði í bílageymslu með undirritun yfirlýsingar 22. janúar 2010 um nýja veðsetningu vegna flutnings á láni nr. 50534 og að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfinu. Til vara krefjast þau þess að fellt verði úr gildi fyrrnefnt veð í eignarhluta áfrýjandans Guðrúnar Einarsdóttur í fasteigninni. Í báðum tilvikum krefjast þau aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir setti áfrýjandinn Gottskálk þann 10. september 2008 að veði fasteign sína að Mávanesi 21 í Garðabæ til tryggingar láni að fjárhæð 25.000.000 krónur, sem stefndi veitti syni áfrýjenda í því augnamiði að gera íbúðarhæft hús sem lántaki og eiginkona hans höfðu fest kaup á. Áfrýjendur rituðu samþykki sitt fyrir veðsetningunni á veðskuldabréf sem lántaki gaf út til stefnda sama dag, áfrýjandinn Gottskálk sem þinglýstur eigandi, en áfrýjandinn Guðrún sem maki þinglýsts eiganda. Í nóvember 2009 keyptu áfrýjendur íbúð að Lundi 3 í Kópavogi ásamt stæði í bílageymslu. Í kjölfarið var veðið flutt að beiðni lántaka af fasteigninni að Mávanesi á hina nýju eign með samþykki stefnda og var yfirlýsingu 22. janúar 2010 um veðflutning vegna lánsins þinglýst á eignina.

II

Áfrýjendur halda því meðal annars fram að veðsetning á fasteign þeirra að Mávanesi hafi verið ógild þar sem til grundvallar lánveitingu stefnda til sonar þeirra hafi legið rangt greiðslumat. Af því eigi að leiða að veðsetning á fasteign þeirra að Lundi í Kópavogi hafi einnig verið ógild. Greiðslumatið hafi verið ófullnægjandi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi hafi það verið andstætt lántökuskilyrðum stefnda sjálfs að taka mið af tekjum maka lántaka jafnframt tekjum lántaka sjálfs. Í annan stað hafi forsendur matsins verið rangar þar sem tekjur maka lántaka hafi verið ofmetnar, auk þess sem skuldir hafi verið vantaldar.

Í samræmi við skilmála stefnda fyrir lánveitingum, sem í gildi voru á þeim tíma þegar lánið var upphaflega veitt, lagði lántaki fram í aðdraganda lánveitingarinnar greiðslumat sem unnið var af viðskiptabanka hans, Byr sparisjóði. Á grundvelli greiðslumatsins, sem einnig tók mið af tekjum og fjárhagsstöðu maka hans, var talið að lántaki, ásamt maka sínum, hefði nægar tekjur til að greiða af umræddu láni. Greiðslumatið var unnið að beiðni lántaka og byggt á launaseðlum og skattframtölum sem hann lét í té, auk þess sem hann veitti viðskiptabanka sínum umboð til að kanna frekar eigna- og skuldastöðu sína. Kom stefndi hvergi nærri gerð greiðslumatsins. Áfrýjendum var og kynnt skjal sem ber yfirskriftina „Ábendingar“ sem beint er til þeirra sem heimila lántaka að veðsetja eign sína. Í ábendingum þessum var gerð grein fyrir þeim skuldbindingum sem í slíkri veðsetningu felast og þeirri áhættu sem henni getur verið samfara. Í 6. tölulið var tekið fram að skilyrði lántöku, þegar setja skyldi að veði fasteign annars en lántaka sjálfs, maka hans, aðila sem hann væri í sambúð með eða staðfestri samvist, sé að lántaki leggi fram greiðslumat banka eða annarrar viðurkenndrar lánastofnunar og að sá er hyggst lána fasteign sína til veðsetningar geti kynnt sér niðurstöður þess. Áfrýjendur staðfestu með undirritun á skjal þetta 10. september 2008 að þau hefðu kynnt sér þessar ábendingar. Við svo búið geta þau ekki borið fyrir sig að ætlaðir gallar á greiðslumatinu, sem stefndi gerði ekki sjálfur, eigi samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða öðrum lagareglum, sem þau byggja kröfu sína á, eigi að leiða til þess að litið verði svo á að upphaflega veðsetningin í húseign áfrýjandans Gottskálks að Mávanesi í Garðabæ hafi verið ógild. Af því leiðir jafnframt að veðsetning á íbúð áfrýjenda að Lundi í Kópavogi verður ekki ógilt af þeirri ástæðu.

Áfrýjendur byggja einnig á þeirri málsástæðu, að með flutningi lánsins af húsinu að Mávanesi í Garðabæ á íbúðina að Lundi í Kópavogi í janúar 2010  hafi verið veitt nýtt veð. Því hafi þurft að meta greiðslugetu lántaka að nýju samkvæmt lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. einkum 1. mgr. 4. gr. laganna en þau tóku gildi 4. apríl 2009. 

Í 1. gr. laga nr. 32/2009 segir að markmið þeirra sé að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Þá segir í 1. mgr. 2. gr. að lögin gildi um lánveitingar stofnana og fyrirtækja þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Ennfremur kemur þar fram að meðal stofnana og fyrirtækja sem vísað er til séu lífeyrissjóðir. Þá segir í 2. mgr. 2. gr. laganna að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings. Skýra verður ákvæði laga nr. 32/2009, einkum 1. og 2. mgr. 2. gr., svo að lögin eigi fyrst og fremst við þegar til ábyrgðar er upphaflega stofnað með því að annar aðili en lántaki sjálfur gengst í persónulega ábyrgð eða setur eign sína að veði til tryggingar efndum á lánssamningi lántaka. Þau eiga á hinn bóginn ekki við þegar veð er flutt af einni eign yfir á aðra í eigu sama veðsala til tryggingar efndum á sama lánssamningi.

Þegar lánið sem um ræðir í máli þessu var veitt samþykkti  áfrýjandinn Gottskálk að fasteign hans að Mávanesi yrði sett að veði til tryggingar greiðslu lánsins, en hann var þá einn þinglýstur eigandi. Áfrýjandinn Guðrún veitti samkvæmt 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 samþykki sitt fyrir veðsetningunni sem maki þinglýsts eiganda, enda var um að ræða íbúðarhúsnæði þeirra hjóna. Lög nr. 32/2009 tóku gildi 4. apríl 2009. Í 12. gr. þeirra segir að lögin taki til ábyrgða sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laganna, að frátöldum 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. Af þessari ástæðu, og vegna þess að þegar lánið var upphaflega veitt lá einnig fyrir greiðslumat frá viðurkenndri lánastofnun, þótt lagaskylda stæði ekki til þess, verður krafa um ógildingu veðsetningarinnar, að því er varðar eignarhluta áfrýjandans Gottskálks, hvorki reist á að fyrirmælum 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 né því að öðrum fyrrnefndum ákvæðum laganna hafi ekki verið fylgt. Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður niðurstaða hans um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjenda staðfest.

III

Varakrafa áfrýjenda er að felld verði úr gildi veðsetning á eignarhluta áfrýjandans Guðrúnar í íbúðinni að Lundi ásamt stæði í bílageymslu. Krafan er studd þeim rökum aðallega að með undirritun sinni á yfirlýsingu um veðflutning 22. janúar 2010 hafi hún gengist í ábyrgð fyrir láni sem hún hafi ekki verið ábyrg fyrir áður. Hafi því við veðflutninginn átt að fylgja ákvæðum laga nr. 32/2009 í einu og öllu gagnvart henni. Það hafi ekki verið gert og því beri að fella úr gildi veðsetninguna í eignarhluta hennar.

Fyrr er rakið að áfrýjandinn Gottskálk var einn þinglýstur eigandi að eigninni að Mávanesi og að áfrýjandinn Guðrún samþykkti þá veðsetningu sem maki þinglýsts eiganda. Á hinn bóginn var eignin að Lundi í Kópavogi í eigu þeirra beggja og þau bæði þinglýstir eigendur. Í samræmi við þetta ritaði áfrýjandinn Guðrún undir yfirlýsingu um veðflutning sem þinglýstur eigandi. Verður að líta svo á að með þessari yfirlýsingu hafi áfrýjandinn Guðrún orðið ábyrgðarmaður að umræddu láni í skilningi laga nr. 32/2009,  sem hún var ekki áður.

Lög nr. 32/2009 höfðu tekið gildi þegar áfrýjandinn Guðrún gekkst í umrædda ábyrgð. Í II. kafla laganna er að finna ákvæði um stofnun, efni og form ábyrgðarsamninga. Í 1. mgr. 4. gr. segir að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Greiðslumat skuli byggt á viðurkenndum viðmiðum. Þá kemur fram í 2. mgr. 4. gr. að lánveitandi skuli með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar og í 3. mgr. sömu greinar að lánveitandi skuli með sama hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Þá segir í 5. gr. að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skuli lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í því felist meðal annars að veita upplýsingar um almennar reglur sem um ábyrgðir gilda,  greiðslugetu lántaka, lán það sem ábyrgð er ætlað að tryggja, gildistíma ábyrgðar, höfuðstól ábyrgðar og fleira. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að  ábyrgðarmaður eigi rétt á að fá afhent eintak af ábyrgðarsamningi og lánssamningi, sem ábyrgðin stendur til tryggingar á, áður en hann gengst í ábyrgð. Í 6. gr. segir síðan að ábyrgðarsamningur skuli vera skriflegur og í honum getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðist þær sem hluti samningsins.     

Óumdeilt er að umræddur veðflutningur var að frumkvæði áfrýjenda þar sem áfrýjandinn Gottskálk þurfti að létta veðinu af húsinu að Mávanesi. Í tengslum við veðflutninginn undirrituðu áfrýjendur ábyrgðarsamning 29. janúar 2010. Með samningnum fylgdu upplýsingar til eigenda íbúðarhúsnæðis sem heimila veðsetningu, og eru þær einnig undirritaðar af áfrýjendum. Verður litið svo á að með þessu hafi verið fullnægt skilyrðum í 5. og 6. gr. laganna. Á hinn bóginn var hvorki lagt fram nýtt greiðslumat né fylgt fyrirmælum 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna. Kemur þá til skoðunar hvort þetta eigi að valda ógildi veðsetningarinnar, að því er varðar eignarhluta áfrýjandans Guðrúnar.

Í lögum nr. 32/2009 segir ekki með skýrum hætti um afleiðingar þess fyrir  ábyrgðarsamning ef fyrirmælum laganna um stofnun ábyrgðar er ekki hlýtt. Alla jafnan verður þó að gera ráð fyrir að það eigi að hafa afleiðingar að lögum, enda yrði markmiðum laganna tæpast náð með öðrum hætti. Í skýringum við 5. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi til þeirra segir að vanræksla lánveitanda við samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður sé ekki bundinn við samning sinn, að minnsta kosti ekki ef vitneskja um atriði hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Þótt tilvitnuð athugasemd eigi við um 5. gr. laganna verður í ljósi meginreglunnar um samningsfrelsi að telja að sömu sjónarmið eigi við um ætlaða vanrækslu á að fylgja ákvæðum 4. gr. laganna. Við mat á því hvort sú staðreynd, að nýtt greiðslumat var ekki lagt fram við veðflutninginn, eigi að leiða til ógildingar á veðsetningu á eignarhluta áfrýjandans Guðrúnar, er þess að gæta að flutningur veðsins var að frumkvæði og í þágu áfrýjenda, sem vildu losa veðið af eign áfrýjandans Gottskálks við Mávanes. Sú veðsetning var gerð að undangengnu greiðslumati eins og fram hefur komið og með samþykki áfrýjandans Guðrúnar sem maka þinglýsts eiganda í samræmi við fyrirmæli 60. gr. laga nr. 31/1993. Af yfirlýsingu 29. janúar 2010, sem undirrituð var af áfrýjendum, verður ráðið að stefndi hafi óskað eftir að lántaki færi í greiðslumat vegna fyrirhugaðs veðflutnings, en áfrýjendur lýstu því sérstaklega yfir að þau óskuðu eftir að hann gerði það ekki. Þá höfðu áfrýjendur fyrir veðflutninginn samþykkt skilmálabreytingu 13. febrúar 2009 og mátti þannig vera ljóst að lántaki átti í erfiðleikum með að greiða af láninu í samræmi við upphaflega skilmála þess. Þegar litið er til aðdraganda veðsetningarinnar og síðar veðflutningsins, og þá einkum fyrrnefndrar yfirlýsingar, sem og annarra atvika, þykir mega ganga út frá að ætluð vanræksla á gerð sérstaks greiðslumats í tilefni af téðum veðflutningi hafi enga þýðingu haft um þá ákvörðun áfrýjandans Guðrúnar að setja að veði eignarhluta sinn í íbúðinni að Lundi fyrir skuld lántaka. Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af varakröfu áfrýjenda staðfest.

Áfrýjendur greiði stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir. 

Dómsorð:

            Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Gottskálk Eggertsson og Guðrún Einarsdóttir, greiði stefnda, Lífeyrissjóði verzlunarmanna, óskipt 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

               

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2016.

                Þetta mál, sem var tekið til dóms 9. febrúar 2016, er höfðað af Gottskálk Egg­erts­syni, kt. 080534-4429, og Guðrúnu Einarsdóttur, kt. 110136-4479, báðum til heim­­ilis að Lundi 3, Kópavogi, með stefnu birtri 16. desember 2014, á hendur Líf­eyris­sjóði verzl­un­ar­manna, kt. 430269-4459, Húsi verslunarinnar, Kringlunni 7, Reykjavík.

                Stefnendur krefjast þess aðallega að felldur verði úr gildi sá veðsamningur sem þau gerðu við stefnda þegar þau veittu honum veð í fasteign sinni að Lundi 3, Kópa­vogi, íbúð 02-0704, með fastanúmerið 229-2425, og stæði í bíla­geymslu 03-B020, með fastanúmerið 229-2458, með undirritun sinni á yfirlýsingu um nýja veð­setn­ingu vegna flutnings á láni nr. 50534, dagsettu 22. janúar 2010.

                Þau krefjast þess einnig að stefnda verði gert að aflýsa veðskuldabréfi nr. 50534 af fasteigninni Lundi 3, Kópavogi, íbúð 02-0704, með fastanúmerið 229-2425, og stæði í bíla­geymslu 03-B020, með fastanúmerið 229-2458.

                Til vara krefjast stefnendur þess að viðurkenndur verði réttur þeirra til fullra bóta úr hendi stefnda vegna þeirrar háttsemi stefnda við að afla veðs frá stefnendum, til trygg­ingar veðskuldabréfi nr. 50534, útgefnu af Eggerti Þ. Gottskálkssyni til Líf­eyr­is­sjóðs verzl­un­ar­manna, sem fólst í því saknæma athafnaleysi stefnda að meta ekki greiðslu­getu lántakans Eggerts Þ. Gottskálkssonar að neinu leyti og afla ekki greiðslu­mats frá fjár­málastofnun sem staðfesti greiðslugetu hans.

                Til þrautavara krefst stefnandi, Guðrún, þess að felldur verði úr gildi sá veð­samn­ingur sem hún gerði við stefnda þegar hún veitti honum veð í hlutdeild sinni í fast­eign stefnenda að Lundi 3, Kópa­vogi, íbúð 02-0704, með fastanúmerið229-2425, og stæði í bíla­geymslu 03-B020, með fastanúmerið 229-2458, með undirritun sinni á yfir­lýs­ingu um nýja veð­setn­ingu vegna flutnings á láni nr. 50534, dagsettu 22. janúar 2010.

                Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst sýknu af aðalkröfu stefnenda.

                Stefndi krefst þess að varakröfu stefnenda verði vísað frá dómi en ella sýknu af henni.

                Hann krefst sýknu af þrautavarakröfu stefnanda Guðrúnar.

                Hann krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnenda óskipt að teknu tilliti til skyldu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Málsatvik

                Hjónin Eggert Þ. Gottskálksson og Erna Jóhannesdóttir keyptu í desember 2007 fokhelt hús að Gnitakór í Kópavogi. Fyrir áttu þau fullbúið hús við Laxalind. Það reyndu þau að selja árið 2008 en tókst ekki að selja fyrir það verð sem þau vildu fá.

                Eggert greiddi í Lífeyrissjóð verslunarmanna og átti því rétt á láni frá sjóðnum. Það átti Erna hins vegar ekki þar eð hún greiddi í annan sjóð. Þegar ljóst varð að húsið að Laxalind myndi ekki seljast sótti Eggert því um 25.000.000 kr. lán hjá Líf­eyris­sjóðnum, 28. ágúst 2008, til þess að þau gætu gert húsið að Gnitakór íbúðarhæft. Í umsókn­inni kemur fram að sett verði að veði einbýlishús í Mávanesi. Það var þá íbúð­ar­hús foreldra hans, stefnenda í þessu máli. Egg­ert hafði áður tekið lán hjá sjóðnum, sem var tryggt með veði í Laxa­lind og það var í skilum. Hann hafði einnig tekið bíla­lán svo og ýmis smærri lán hjá viðskiptabanka sínum. Þegar hann sótti um lánið í ágúst 2008 nam höfuðstóll þeirra lána sem hann greiddi þá af að minnsta kosti 115.000.000 krónum.

                Stefndi hafði ekki krafið lántaka um mat á greiðslugetu þeirra. Frá og með 24. júlí 2008 var auglýst á heimasíðu stefnda að lántökuskilyrði væru fjögur. Í einu þeirra sagði að: Ef fasteign sem sett skal til tryggingar láni er ekki í eigu lántaka, maka hans eða aðila sem hann er í óvígðri sambúð eða staðfestri sam­vist með, skal lán­taki leggja fram greiðslumat banka eða annarrar viðurkenndrar fjár­mála­stofnunar sem staðfestir greiðslu­getu lántaka. Miða skal við hefðbundið greiðslu­mat banka. Með sam­þykki lán­taka getur eigandi viðkomandi fasteignar kynnt sér nið­ur­stöður greiðslu­mats.

                Um mitt ár 2008 hóf sjóðurinn að krefja lántaka um greiðslumat fengi lántaki veð í eigu annarra til tryggingar láni. Sjóðurinn vann ekki greiðslumat sjálfur heldur fór fram á það við lán­taka að hann aflaði greiðslumats frá viðskiptabanka sínum.

                Lántaki Eggert fór í viðskiptabanka sinn, Byr sparisjóð, og óskaði eftir því að mat yrði lagt á greiðslugetu hans. Þar lagði hann fram launaseðla og skattframtöl síð­ast­lið­inna ára og rit­aði jafnframt undir umboð þar sem hann heimilaði bankanum að afla sér frekari upp­lýs­inga um fjárhagsstöðu sína. Að sögn Eggerts afhenti Byr honum ekki greiðslumatið heldur sendi stefnda það milli­liða­laust.

                Starfsmanni stefnda barst í tölvupósti 1. september 2008 greiðslu­mat frá Byr spari­sjóði þar sem greiðslugeta Eggerts og Ernu var metin saman. Samkvæmt matinu áttu þau 122.896 kr. í afgang mánaðarlega þegar tekið hafði verið tillit til mánaðar­legrar greiðslubyrði af lánum, annars fasts kostnaðar og framfærslukostnaðar. Í greiðslu­matinu eru tekjur Ernu sagðar 350.000 kr. Með þeim tekjum varð þetta greiðslu­mat sem Byr vann jákvætt en það hefði ekki verið jákvætt hefði aðeins verið miðað við tekjur Eggerts, sem tók einn lánið hjá stefnda. Vitnið Eggert bar að hann og eigin­kona hans teldu saman fram til skatts.

                Brynja Hauksdóttir, deildarstjóri lánadeildar lífeyrissjóðsins á þessum tíma, bar fyrir dómi að stefnandi Gottskálk hefði komið á skrifstofu sjóðsins, 9. september 2008, áður en lánið var veitt og samþykkt að veita stefnda veð í húsi fjölskyldunnar í Máva­nesi. Þetta er einnig skráð á veðbókarvottorð eignarinnar.

                Eggert gaf út veðskuldabréf til stefnda 10. september 2008, upphaflega nr. 50534, að fjárhæð 25.000.000 kr. Áður en Eggert gaf út veðskuldabréfið gáfu stefn­endur samþykki sitt fyrir veðsetningu fasteignarinnar að Mávanesi 21, Garðabæ, til trygg­ingar láninu. Þau rituðu síðan bæði undir veðskuldabréfið til sam­þykkis veð­setn­ing­unni hann sem þinglýstur eigandi og hún sem maki þinglýsts eiganda.

                Þar eð lántakinn Eggert fékk fasteignaveð að láni til tryggingar greiðslu afhenti stefndi honum skjalið Ábending með veðskuldabréfinu foreldrum hans og veð­sölum til upp­lýsingar. Þar var þeim bent á hvað fælist í veðsetningunni og hvaða afleið­ingar van­skil á láninu gætu haft fyrir þau. Með undirritun sinni á það 10. september 2008 stað­festu stefnendur að þau hefðu skilið ábendingarnar í skjal­inu.

                Fram kom í 6. tölulið ábendingarinnar að það væri skilyrði lántöku hjá stefnda, þegar setja ætti fasteign annars en lántaka sjálfs að veði, að lántaki legði fram greiðslu­mat banka eða annarrar viðurkenndrar fjár­mála­stofn­unar sem staðfesti greiðslu­getu lántaka. Einnig var tekið fram að benti niðurstaða greiðslu­mats til þess að lán­taki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar en eigandi fast­eignar vildi engu að síður veita veð skyldi hann staðfesta það sérstaklega skriflega.

                Með tölvupósti til Brynju, starfs­manns stefnda, 11. febrúar 2009 lýsti lántakinn Eggert fjárhagsstöðu þeirra hjóna og ástæðum þess að þau ósk­uðu eftir því að fá að „frysta“ lánið í eitt ár. Greiðsluskilmálum veð­skulda­bréfsins var breytt 13. febrúar 2009 þannig að hvorki skyldi greiða neinar afborganir af höfuðstól né vexti í eitt ár. Eggert og Erna rit­uðu undir skilmálabreytinguna svo og stefnendur, án nokk­urra athuga­semda.

                Stefnendur keyptu fasteign að Lundi í Kópa­vogi 10. nóvember 2009. Í kjöl­farið óskuðu þau eftir því að stefndi heimilaði veð­flutn­ing á framan­greindu láni af fast­eigninni í Mávanesi, Garðabæ, yfir á fasteignina að Lundi, í Kópa­vogi. Stefndi sam­þykkti beiðnina gegn því skilyrði að lán samkvæmt áhvíl­andi veð­skulda­bréfi nr. 50534 yrði greitt niður um 3.000.000 kr. Eggerti var til­kynnt það í tölvu­pósti 20. nóv­em­ber 2009. Fjár­hæðin var greidd inn á lánið 21. janúar 2010. Stefndi til­kynnti Egg­erti, sem hafði milli­göngu um veð­flutn­ing­inn, 25. janúar 2010 að skjöl vegna veð­flutn­ings­ins væru tilbúin í þjónustuveri stefnda.

                Í bréfinu stóð: Þú ferð með þá í þinglýsingu til sýslumannsins í Kópavogi þegar allar undirskriftir eru komnar auk votta. Þegar þinglýsingu lýkur kemur þú aftur með veðflutningspappírana til okkar (auk Upplýsingablaðsins, Ábyrgðar­samn­ing­inn, Yfir­lýs­ing­una og nýtt veðbókarvottorð yfir Lund) og færð afhenta veð­bands­lausn vegna Mávanessins sem þú þinglýsir hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði.

                Málsaðila greinir á um það hvenær skjölin Yfirlýsing um nýja veðsetningu vegna flutnings á láni nr. 50534 og Veðbandslausn, lán nr. 50534 voru undirrituð. Bæði skjölin eru dagsett 22. janúar 2010. Yfirlýsing um nýja veðsetningu er móttekin til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Kópavogi 28. janúar 2010 og veðbandslausn mót­tekin til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Hafnarfirði 1. febrúar 2010.

                Eins og fram er komið afhenti stefndi Eggerti, sem hafði milligöngu um veð­flutn­inginn, skjölin Yfirlýsing, þar sem stefnendur óska ekki eftir því að lántakinn fari í greiðslumat, Ábyrgðarsamningur vegna veðflutnings og Upplýsingablað þar sem bent er á hvað felist í veðsetningunni og hvaða afleiðingar það hafi fyrir veðsala verði van­skil á láninu. Þessi þrjú skjöl eru dagsett 29. janúar 2010 og rituðu stefnendur undir þau.

                Stefnendur taka fram að stefndi hafi ekki óskað eftir því við þau að Eggert færi í greiðslu­mat vegna veðflutningsins. Þvert á móti óskaði stefndi aðeins eftir því að stefn­endur rituðu undir þá yfir­lýsingu að þau óskuðu ekki eftir því að lántakinn færi í greiðslu­mat án þess að útskýra fyrir þeim hvað í því fælist.

                Þegar stefndi hafði tekið við ofangreindum skjölum ritaði starfsmaður hans undir veð­bands­lausn sem móttekin var til þinglýsingar 1. febrúar 2010.

                Greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins var breytt 21. apríl 2010 þannig að van­skilum var bætt við höfuðstól. Stefnendur samþykktu skilmálabreytinguna athuga­semda­laust. Greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins var breytt enn á ný 23. októ­ber 2013 þannig að vanskilum var bætt við höfuðstól. Stefnendur samþykktu þessa skil­mála­breyt­ingu sem fyrr án athugasemda.

                Lögmaður stefnenda krafðist þess með bréfi dagsettu 12. maí 2014 að stefndi sam­þykkti kröfu stefnenda um að veðsetning á íbúðinni að Lundi 3 í Kópavogi væri fallin úr gildi og að stefndi myndi aflétta veðskuldabréfi nr. 50534 af eigninni. Því hafn­aði stefndi í bréfi til lögmanns stefnenda dagsettu 7. október 2014.

                Stefnandi Gottskálk bar að hann hefði lesið um það í blöðum snemma árs 2014 að lögmenn færu yfir það hvort lánastofnanir hefðu staðið rétt að við það að veita lán og fá veðsala til að veita lánsveð. Hann hafi leitað til lögmanns þar eð hann hafi viljað vita hvort rétt hefði verið staðið að verki þegar hann veitti veðið í september 2008.

Málsástæður og lagarök stefnenda

                Stefnendur byggja á því að sá samningur sem þau gerðu við stefnda um að veita honum veð í sameiginlegri íbúð þeirra 22. janúar 2010 sé ógildur. Hann sé í fyrsta lagi ógildur einn og sér og í öðru lagi á grund­velli þess að veðsetningin hafi tekið við af veð­setn­ingu ann­ars stefnenda og fasteignar hans en sú veð­setning hafi jafn­framt verið ógild. Síðari veðsetningunni hafi verið komið á vegna rangra og brost­inna for­sendna stefn­enda en þau hafi gengið út frá því að hin upp­haf­lega veðsetning væri gild og þess vegna veitt hið síðara veð.

Fyrri veðsetningin

                Stefnendur vísa fyrst til þess að stefnandi Gottskálk hafi ritað undir skilmála skjals­ins Ábend­ing sem stefndi hafði útbúið. Í 6. tölulið þess komi fram að það væri skil­yrði lántöku hjá sjóðnum, þegar setja á fasteign annars en lán­taka sjálfs, maka hans eða aðila sem hann er í óvígðri sambúð eða staðfestri sam­vist með að veði, að lán­taki leggi fram greiðslumat banka eða annarrar viður­kenndrar fjár­mála­stofn­unnar, er staðfestir greiðslugetu lántaka. Jafnframt segi í 2. mgr. 6. tölu­liðar ábend­ing­ar­innar að Með samþykki lántaka getur sá er hyggst lána fast­eign sína til veð­setn­ingar kynnt sér niðurstöðu greiðslumats. Ef niðurstaða greiðslu­mats bendir til að lán­taki geti ekki efnt skuldbindingar sínar en eigandi fast­eignar vill engu að síður veita lán­taka veð, skal hann staðfesta það skriflega.

                Þessi lántökuskilyrði lífeyrissjóðsins hafi einnig verið auglýst á heimasíðu hans á þessum tíma en þar sagði undir fyrirsögninni Skilyrði í umfjöllun um lán stefnda: Ef fast­eign sem sett skal til tryggingar láni er ekki í eigu lántaka, maka hans eða aðila sem hann er í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist með, skal lántaki leggja fram greiðslu­mat banka eða annarrar viðurkenndrar fjármálastofnunar sem staðfestir greiðslu­getu lántaka.

                Stefnendur telja að með þessu hafi sjóðurinn skuldbundið sig til að afla eða fá mat á greiðslu­getu og lýst því yfir að sjóð­ur­inn myndi ekki veita lánið nema greiðslu­matið stað­festi greiðslu­getu lán­tak­ans. Annars vegar hafi greiðslumatið þurft að stað­festa greiðslu­getuna og hins vegar hafi þurft að staðfesta greiðslugetu lántakans sjálfs. Hefði greiðslu­mat ekki stað­fest greiðslu­getu lántakans hefði honum samkvæmt fram­an­greindu ekki átt að vera kleift að fá lán hjá sjóðnum þar sem það var skilyrði lán­töku.

                Sjóðurinn fékk sent greiðslumat frá Byr Sparisjóði átta dögum áður en ritað var undir veðskuldabréfið og skilmála Ábendingarinnar. Í tölvupósti starfs­manns Byr sagði að sent væri greiðslumatið fyrir Eggert og Ernu. Í viðhengi var sjálft greiðslu­matið og þar eru tilgreindar Hreinar tekjur Eggerts og Ernu.

                Erna hafi hins vegar ekki tekið lán hjá lífeyrissjóðnum heldur hafi Eggert tekið það. Samkvæmt skilmálum lífeyrissjóðsins skyldi lántaki leggja fram greiðslu­mat sem stað­festi greiðslugetu hans en ekki greiðslugetu hans og annars ein­stakl­ings. Í því greiðslu­mati sem lífeyrissjóðurinn lagði til grundvallar hafi því verið gerð þau grund­vall­ar­mis­tök að taka með tekjur eiginkonu Eggerts vegna láns sem hann tók einn en hjón beri ekki ábyrgð á skuldum hvort annars.

                Greiðslu­matið sé einblöðungur og það taki ekki langa stund að átta sig á því að væru tekjur Ernu ekki reiknaðar með væri greiðslumatið verulega nei­kvætt. Hreinar tekjur hennar séu sagðar 350.000 kr. á mánuði en afgangur eftir að tekið hafi verið mið af greiðslubyrði Eggerts af lánum, föstum kostnaði og fram­færslu­kostnaði sé 122.896 kr. Væru tekjur Ernu ekki reiknaðar með væri greiðslumatið hins vegar nei­kvætt um 227.104 kr.

                Greiðslumatið sé þar að auki verulega rangt þar eð tekjur bæði Eggerts og Ernu séu rangar. Tekjur þeirra hafi ekki verið nærri svo háar sem tilgreint sé í greiðslu­mat­inu og liður­inn Arðgr. Pr. Mánuð að fjárhæð 150.000 kr. styðjist ekki við nein rök. Útreikn­ingur um greiðslubyrði lána sé einnig rangur þar sem afborgun af því láni sem Egg­ert tók hjá lífeyrissjóðnum að fjárhæð 25.000.000 kr. sé sögð 140.000 kr. í útreikn­ingi Byr en afborgunin var 170.000 kr. eins og sagði í sviga þar fyrir aftan.

                Áður en Eggert fékk lánið hjá lífeyrissjóðnum hafi heildarskuldir hans numið 115.000.000 kr. en með hinu nýja láni orðið 140.589.413 kr. sem séu gríð­ar­lega háar skuldir fyrir einstakling. Því séu enn sterkari rök fyrir því að lífeyris­sjóðnum hafi átt að vera ljóst að eitthvað var bogið við greiðslumatið.

                Annar stefnenda, Gottskálk, hafi upphaflega veitt veð í fasteign sinni og hafi treyst því að lántakinn hefði staðist greiðslumat, þ.e.a.s. að fyrir hendi væri staðfesting á greiðslugetu hans á því láni sem hann tók að fjárhæð 25.000.000 kr. Gottskálk hafi með réttu mátt gera ráð fyrir slíkum vinnubrögðum stefnda. Það hafi í fyrsta lagi verið aug­lýst á heimasíðu stefnda og í öðru lagi tekið fram í skjal­inu Ábendingu sem stefn­endur voru beðnir að rita undir. Stefn­andi Gott­skálk hafi treyst því að stefndi hefði vandað til verka og að lántakinn Eggert hefði fram­vísað greiðslu­mati sem hefði stað­fest greiðslugetu hans. Það hafi verið í samræmi við það að Gott­skálk hefði ekki verið beð­inn að staðfesta veðleyfið sérstaklega á þeim grund­velli að Egg­ert, lántakinn, hefði ekki staðist greiðslumatið.

                Þegar stefndi hafi sent stefnendum gögn vorið 2014 hafi komið í ljós að það greiðslu­mat sem stefndi lagði til grundvallar var verulegum annmörkum háð. Helsti ann­marki þess verði að teljast að greiðslumatið tók ekki aðeins til lántakans Egg­erts, heldur einnig til tekna eiginkonu hans. Að auki hafi tekjur þeirra beggja verið rangt til­greindar. Lán­tak­inn hefði aldrei staðist greiðslumat hefði einungis verið tekið mið af tekjum hans. Hefði stefnandi Gottskálk vitað að lántakinn hefði ekki staðist greiðslu­mat hefði hann aldrei veitt veð í fasteign sinni fyrir láninu. Hið sama eigi við um stefn­anda Guðrúnu. Hún hefði aldrei ritað undir sem maki þinglýsts eig­anda hefði lán­tak­inn ekki staðist greiðslu­mat.

                Stefnendur byggja á því að stefndi hafi brotið gegn eigin skilmálum, sem stefn­endur hafi meðal annars verið beðnir að rita undir og voru auglýstir á heima­síðu stefnda. Stefndi hafi þar með vanrækt verulega að fram­fylgja eigin skyldum. Það eigi að leiða til þess að sú veðsetning sem stefnendur rituðu undir sé fallin úr gildi með stoð í 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þær skyldur sem stefndi vanrækti hafi verið megin­skyldur hans gagnvart stefn­endum. Greiðslu­geta lán­taka hafi skipt þau mestu máli og hafi stefndi mátt vita að van­ræksla á skyldu hans til að kanna það hefði úrslita­áhrif á það hvort þau veittu veð í fasteigninni. Sér í lagi þegar það liggi fyrir að hefði rétt verið staðið að verki hefði lántakinn ekki staðist greiðslu­matið og með því hefði stefnda verið skylt að fá stefnanda Gott­skálk til þess að stað­festa það sér­stak­lega skrif­lega að hann hygð­ist þrátt fyrir það veita veð í fast­eign sinni til trygg­ingar lán­inu.

                Þessi vinnubrögð hafi verið stefnda óheimil með vísan til skilmála þeirra sem hann kynnti stefnendum og voru auglýstir á heimasíðu stefnda. Stefnda hafi verið óheim­ilt að brjóta gegn þeim skilmálum skv. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrir­tæki, 4. og 6. gr. þágildandi laga nr. 33/2003 um verð­bréfa­við­skipti, 5. gr. laga nr. 57/2005 og óskráðra meginreglna samninga- og kröfuréttar.

                Stefnendur byggja á því að sú veðsetning sem var veitt sé með vísan til fram­an­greinds ógild skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda lög­gern­inga. Það hafi verið ósanngjarnt af stefnda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig gagnvart stefnendum.

                Þar sem hin síðari veðsetning hafi verið gerð á þeirri röngu og brostnu forsendu að stefndi hefði gildan veðrétt í húsnæði stefnanda Gottskálks sé hin síðari veð­setning 22. janúar 2010 jafnframt ógild. Stefnendur hefðu aldrei veðsett þá fast­eign hefðu þeir vitað að fyrri veðsetningin væri ógild.

Samkomulag um ábyrgðir

                Stefnendur vísa næst til þess að á þessum tíma hafi lífeyrissjóðum meðal ann­ars borið að starfa í samræmi við lög nr. 57/2005 sem þá hétu lög um eftirlit með órétt­mætum við­skipta­háttum og gagnsæi markaðarins. Sam­kvæmt 5. gr. laganna hafi fyrir­tækjum verið óheimilt að hafast nokkuð það að sem bryti í bága við góða við­skipta­hætti í atvinnu­starfsemi eins og þeir væru tíðkaðir eða gera eitt­hvað sem væri óhæfi­legt gagn­vart hagsmunum neytenda. Þessa skyldu megi meðal annars leiða af þeirri reglu að líf­eyris­sjóðnum hafi verið skylt að kanna greiðslu­getu og/eða skulda­stöðu lántaka þegar þriðji maður hygðist veita veð í fast­eign sinni. Slík vinnu­brögð hafi verið í sam­ræmi við góða viðskiptahætti enda tíðkist hjá flestum lán­veit­endum að láta meta greiðslu­getu lántaka. Á þessum tíma hafi þegar mynd­ast venja á lána­mark­aði enda sjö ár frá því fyrra samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum ein­stakl­inga tók gildi (1998) og fjögur ár frá því hið síðara sam­komu­lag tók gildi (1. nóv­em­ber 2001). Með því að láta ekki meta greiðslugetu skuld­ar­ans eins heldur skuld­ar­ans og annars aðila hafi líf­eyris­sjóð­ur­inn brotið gegn ofan­greindu ákvæði.

                Sjóðurinn hafi samkvæmt eigin lánaskilmálum skuldbundið sig til að kanna skulda­stöðu og greiðslugetu lántakans, hann hafi svarað því út á við að það væri hans vinnu­lag, það hafi verið tíðkanleg venja og meginregla lánveitanda á þessum tíma að láta fara fram greiðslumat, og hann var skuldbundinn til að láta vinna það með vísan í ofan­greindar reglur. Fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 3/2003 mælti fyrir um að léti líf­eyr­is­sjóður hjá líða að kanna greiðslugetu skuldara væri það á hans eigin áhættu. Enn fremur komi fram í dómum Hæstaréttar, t.d. í máli nr. 630/2013, að skyldan til að meta greiðslu­getu lán­taka bygg­ist á óskráðum meginreglum.

                Stefnendur byggja á því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 57/2005 um eftir­lit með við­skipta­háttum og markaðssetningu, sér í lagi 5. og 6. gr. þeirra, með því að fara ekki að þeim skilmálum sem hann auglýsti á heima­síðu sinni 24. júlí 2008 og þeim skilmálum sem hann hafði tilkynnt stefnendum um í skjalinu Ábend­ingu, að leggja til grundvallar greiðslumat sem stað­festi greiðslugetu lán­tak­ans. Veð­setn­ingin sé því ógild á þeim grundvelli skv. 36. gr. samningalaga.

Veðflutningur yfir á fasteignina að Lundi, Kópavogi

                Stefnendur byggja að auki á því að veðflutningurinn sem fór fram í janúar árið 2010 hafi verið ólögmætur. Stefnendur rituðu undir yfirlýsingu um nýja veð­setn­ingu 22. janúar 2010 vegna flutnings á láni nr. 50534. Veðið hafi verið sett á fasteign að Lundi, Kópa­vogi, íbúð og stæði í bílageymslu.

                Þegar stefnendur hafi veitt stefnda nýtt veð vegna skuldar Eggerts hafi stefnda borið að fylgja lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sem tóku gildi 4. apríl 2009. Stefn­andi Gott­skálk hafi átt þá fasteign sem fyrst var sett að veði að Mávanesi. Þeirri veð­setn­ingu hafi verið létt af eigninni og nýtt veð veitt vegna skulda Eggerts í fasteign stefn­enda beggja.

                Samkvæmt 2. gr. laga nr. 32/2009 gildi lögin í þeim tilvikum þegar ábyrgðar­maður gangist í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka en tekið sé fram að lögin taki til líf­eyris­sjóða. Með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gangist í per­sónu­lega ábyrgð eða veð­setji tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka. Fast­eign stefn­enda að Lundi, Kópa­vogi, hafi því verið sett að veði til tryggingar efndum lántaka, Egg­erts, og lögin hafi því átt við um veðsetningu hennar. Sér í lagi úr því nýr ábyrgð­ar­maður hafi komið að hluta til þar sem fast­eignin að Lundi, Kópavogi, var einnig í eigu Guðrúnar, eigin­konu Gott­skálks.

                Samkvæmt 4. gr. laganna sé lánveitanda skylt að meta hæfi lán­taka til að standa í skilum með lán í þeim tilvikum þegar ábyrgðarmaður gangist í ábyrgð til trygg­ingar efndum lántaka. Greiðslumat skyldi byggt á viðurkenndum við­miðum. Í lög­unum segi að lán­veit­andi skuli skriflega ráða ábyrgðarmanni frá því að gang­ast í ábyrgð bendi greiðslu­mat til þess að lántaki geti ekki efnt skuld­bind­ingar sínar. Í athuga­semdum greinargerðar við 4. gr. laganna segi að forsenda þess að lán­veit­andi geti rækt skyldur sínar gagnvart ábyrgðarmanni sé að hann hafi lagt mat sitt á greiðslu­getu lántaka.

                Samkvæmt þessu hvíli sú skylda á lánveitanda að láta meta greiðslu­getu lán­taka þegar ábyrgð er veitt en ekki þegar lán sé veitt. Í yfir­lýs­ingu dags. 22. janúar 2010 um nýja veðsetningu vegna flutnings á láni nr. 50534 sé tekið fram að þetta sé „ný veð­setn­ing“ en fleiri hafi veitt það veð en þeir sem veittu fyrra veðið. Því verði að telja að skylda 4. gr. laga nr. 32/2009 hafi átt við um stefnda á þessum tíma.

                Í stað þess að láta meta greiðslugetu skuldarans eins og fortakslaus laga­skylda mælti fyrir um hafi stefndi beðið ábyrgðarmennina, stefnendur, að skrifa undir yfir­lýs­ingu þar sem þau óskuðu ekki eftir að greiðslugeta skuldarans yrði metin. Stefnendur byggja á því að sú yfirlýsing hafi ekkert gildi því á stefnda hafi hvílt bein laga­skylda til þess að láta meta greiðslugetu lántaka. Stefnda hafi þar með verið óheim­ilt að biðja ábyrgð­ar­menn að rita undir skjal þar sem þeir óskuðu ekki eftir því að greiðslugeta skuld­ara yrði metin. Þar að auki hafi stefndi ekki upplýst stefnendur um efni skjalsins sem þau rituðu undir. Stefn­endur hafi verið 74 og 76 ára þegar þetta var. Með því að láta þau skrifa undir blað sem átti að firra þau rétti án þess að upplýsa þau um hvað í því stóð hafi stefndi brotið gegn 5. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með við­skipta­háttum og mark­aðs­setningu. Stefnendur byggja einnig á því að undir­ritun þeirra á þessa yfir­lýs­ingu sé ógild skv. 30. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samn­ings­gerð umboð og ógilda löggerninga.

                Stefnendur benda á að í eldra samkomulagi um notkun sjálf­skuldar­ábyrgða hafi sagt í 8. gr. að miða bæri við að aldur ábyrgðarmanna væri ekki hærri en 70 ár. Stefn­endur hafi verið 74 ára og 76 ára þegar þau gengust í ábyrgð 22. janúar 2010. Sam­kvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 skyldi lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að gang­ast í ábyrgð gæfu aðstæður ábyrgðarmanns tilefni til. Stefnendur byggja á því að stefnda hafi borið að ganga úr skugga um að þau væru í stakk búin til þess að skilja þá skuld­bind­ingu sem þau gengust undir í samræmi við skyldu 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 í ljósi hás aldurs þeirra. Þess í stað hafi stefndi látið stefn­endur rita undir yfir­lýs­ingu þar sem þeir óskuðu ekki eftir því að lántakinn yrði greiðslumetinn og það án þess að stefnendur vissu hvað þau væru að skrifa undir. Þessi háttsemi stefnda sé veru­lega sak­næm.

                Stefnendur benda einnig á að yfirlýsingin sé dagsett 29. janúar 2010. Þá hafi sjö dagar verið liðnir frá því að stefnendur gengust í ábyrgð og veittu veð í fast­eign sinni, 22. janúar 2010. Þessi yfirlýsing hafi því ekkert gildi þar sem stefn­endur höfðu þá þegar tekið á sig ábyrgðina. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/2009 skuli lán­veit­andi meta greiðslugetu lántaka og ráða ábyrgð­ar­manni frá því gefi greiðslu­matið til kynna að lántakinn geti ekki efnt skyldur sínar. Með sama hætti skuli lánveitandi ráða ábyrgð­ar­manni frá því að gang­ast í ábyrgð gefi aðstæður ábyrgð­ar­manns tilefni til.

                Greiðslu­mat þurfi ávallt að gera áður en ábyrgðarmenn gangist í ábyrgð enda væri greiðslu­matið að öðru leyti til­gangs­laust fyrir ábyrgðar­menn. Þetta komi jafn­framt fram í samkomulaginu frá 1. nóv­em­ber 2001. Þar sé skýrt tekið fram að tryggt sé að ábyrgð­ar­maður gæti kynnt sér niður­stöðu greiðslumatsins áður en hann geng­ist í ábyrgð­ina. Úrskurðarnefnd um við­skipti við fjármálafyrirtæki hafi margoft lýst ábyrgðir ógildar á þeim grundvelli einum að greiðslumat hafi verið gert eftir að ábyrgð var veitt, hvort sem greiðslumatið er jákvætt eða nei­kvætt. Fyrir liggi að stefndi van­rækti skyldu sína, skv. 4. gr. laga nr. 32/2009, þegar með því að stefn­endur geng­ust í ábyrgð 22. janúar 2010. Stefndi geti ekki, svo gilt sé að lögum, bætt fyrir það lög­brot sitt með því að láta stefnendur rita undir þá yfir­lýs­ingu sjö dögum síðar að þeir óski ekki eftir því að stefndi vinni greiðslumat. Það sé þýð­ing­ar­laust í þessu sam­hengi þar eð stefndi hafi þá þegar brotið gegn fram­an­greindu ákvæði. Eins og segi í grein­ar­gerð með frumvarpi til 4. gr. laganna sé forsenda þess að lán­veit­andi ræki skyldu sína gagn­vart ábyrgð­ar­manni sú að hann hafi lagt mat sitt á greiðslu­getu lán­taka.

                Í 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sé mælt fyrir um skyldu lánveitanda til að upplýsa ábyrgðarmann skriflega um áhættuna sem sé samfara ábyrgð og sé til­tekið nánar hvað eigi að upplýsa um en í 6. gr. segir að ábyrgðarsamningur skuli vera skrif­legur. Þar segi að upplýsa eigi um almennar reglur sem um gildi ábyrgðir en engin slík tilvísun eða umfjöllun sé í þeim samningi sem stefnendur voru beðnir að skrifa undir.

                Jafnframt eigi að upplýsa um greiðslugetu lántaka skv. b-lið 5. gr. en í ábyrgð­ar­samn­ingnum sem stefnendur voru beðnir að skrifa undir sagði:

                Við gerð samnings þessa liggur fyrir greiðslumat um líklega getu lántaka til að standa skil á skilvísum greiðslum þess láns sem veðið á að tryggja. Greiðslumatið er byggt á forsendum sem ætlað er að gefa mynd af núverandi fjárhagsstöðu lántaka og mögu­leikum hans til að greiða lánið að teknu tilliti til annarra útgjalda og styðst við viður­kennd viðmið. Sjá meðfylgjandi yfirlýsingu frá veðsala.

                Undir liðnum Framkvæmd mats sagði: Sjá meðfylgjandi yfirlýsingu frá veð­sala og undir liðnum Niðurstaða mats var vísað til sama svars og við Framkvæmd mats.

                Samkvæmt þessu hafi verið verulegur annmarki á ábyrgðarsamningum. Stefndi stað­hæfi að fyrir liggi greiðslumat sem sýni getu lán­tak­ans til að standa skil á skil­vísum greiðslum. Staðreyndin sé sú að ekkert mat hafi verið lagt á greiðslu­getu lán­taka vegna veð­setn­ing­ar­innar. Stefndi vísi í kjölfarið til yfirlýsingar veðsala þar sem segi að veð­salar óski ekki eftir því að gert verði greiðslumat. Þetta sé veru­lega mót­sagna­kennd fram­setning stefnda sem samrýmist ekki 4. og 5. gr. laga um ábyrgð­ar­menn. Samkvæmt 4. gr. laganna hafi stefnda borið að meta greiðslu­getu lán­tak­ans, Egg­erts, og skv. b-lið 5. gr. laganna hafi stefnda borið að upp­lýsa ábyrgðar­menn­ina, stefn­endur, um greiðslu­getu lántakans. Stefndi virðist með ofan­greindu orða­lagi hafa blekkt veð­sal­ana, Gottskálk og Guðrúnu, og látið þau halda að greiðslu­geta skuldarans hefði verið metin vegna veðsetningarinnar.

                Hafi stefndi með orðalagi 4. gr. ábyrgðarsamningsins átt við það greiðslumat sem var gert árið 2008 verði að telja ólögmætt að notast við svo gamalt greiðslu­mat, enda sé það ekki í samræmi við að greiðslumat sé byggt á viður­kenndum við­miðum. Það séu ekki viðurkennd viðmið að notast við 1½ árs gamalt greiðslu­mat, sér í lagi þar eð í millitíðinni hafi skuldarinn óskað eftir frystingu afborg­ana í eitt ár en það hefði átt að vekja stefnda til umhugsunar um það hvort greiðslu­matið gæfi rétta mynd af getu lán­tak­ans til að standa í skilum með lánið.

                Greiðslumat frá árinu 2008 sé að auki ekki til þess fallið að meta hæfi lán­taka sbr. 4. gr. eða upplýsa ábyrgðarmann um greiðslugetu lántaka þar eð greiðslu­matið frá sept­ember 2008 hafi verið miðað við tekjur lántaka og annars aðila. Hafi það greiðslu­mat verið notað til viðmiðunar hefði stefndi átt að sjá að miðað við tekjur lán­tak­ans hefði hann ekki staðist greiðslumatið og þar með hefði stefnda borið að ráða ábyrgð­ar­mönn­unum, stefnendum, frá því skrif­lega að gang­ast í ábyrgð þar sem greiðslu­matið benti til að lántakinn gæti ekki efnt skuld­bind­ingar sínar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

                Samkvæmt 9. gr. ábyrgðarsamningsins hafi átt að fylgja með b. Greiðslumat um lík­lega greiðslu­getu lántaka en ekkert slíkt fylgdi með ábyrgðarsamningnum. Það sem virð­ist hafa fylgt með séu upplýsingar um skuldarann af vef Creditinfo. Slíkt full­nægi ekki skilyrðum 4. gr. laga nr. 32/2009 um að metið hafi verið hæfi lántakans til að standa í skilum með lán eða að í því felist greiðslumat sem byggt skuli á viður­kenndum við­miðum eins og ákvæði 4. gr. laga nr. 32/2009 mælir fyrir um.

                Stefnendur benda á að ábyrgðarsamningur sem stefndi bað þau að rita undir sé dag­settur 29. janúar 2010. Hið sama eigi við um skjalið Upp­lýs­ingar til eig­enda íbúð­ar­húsnæðis sem heimila veðsetningu til tryggingar láni frá Líf­eyris­sjóði verzl­un­ar­manna. Í 5. gr. laga nr. 32/2009 segi að fyrir gerð ábyrgð­ar­samn­ings skyldi lán­veit­andi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem væri samfara ábyrgð. Sam­kvæmt fram lögðu upplýsingaskjali hafi upplýsingarnar verið veittar stefn­endum á sama tíma og ábyrgð­ar­samningurinn var gerður og þar af leiðandi hafi stefndi brotið gegn ákvæði 5. gr. laga nr. 32/2009.

                Stefnendur benda einnig á að ábyrgðarsamningurinn hafi verið gerður 29. janúar 2010 en það sé sjö dögum eftir að stefnendur gengust í ábyrgð. Lán­veit­anda hafi borið að gera ábyrgð­ar­samning og upplýsa ábyrgðarmann um áhættu ábyrgðar áður en hann gengst í ábyrgðina. Þá skyldu megi leiða af ákvæði 5. og 6. gr. laga nr. 32/2009 sem og með hlið­sjón af markmiðsákvæði laganna skv. 1. gr. og 4. gr. lag­anna. Það sé þýðingar­laust að upplýsa ábyrgðarmann um áhættu þess að gangast í ábyrgð eftir að hann hafi gert það.

                Ábyrgð stefnenda, sem fólst í veðsetningu fasteignar þeirra að Lundi, Kópa­vogi, sé ógild með vísan til framangreindra brota stefnda við hina síðari veð­setn­ingu 22. janúar 2010.

 

Brot gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán

                Þessu til viðbótar byggja stefnendur á því að stefnda hafi borið að fara að þágild­andi lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Þau gögn sem stefnendur fengu frá stefnda sýni að ekki hafi verið fullnægt ákvæði 6. gr. laganna í ýmsum veigamiklum atriðum. Þannig vanti upplýsingar tilgreindar í 4. tölulið (heildar­lán­töku­kostnað í krónum), 5. tölulið (árlega hlut­falls­tala kostn­aðar), 6. tölulið (heildarupphæð sem greiða skal), 7. tölulið (fjöldi ein­stakra greiðslna, fjár­hæð þeirra og gjalddagar) og 8. tölulið (gildistími og skilyrði upp­sagnar) 6. gr. laga nr. 121/1994. Lántaki og ábyrgð­ar­maður hafi ekki fengið upplýsingar um þessi atriði. Það sé veiga­mikið brot gegn þeim reglum sem stefnda beri að starfa eftir og leiða eigi eitt og sér til þess að veð­setn­ing stefnanda sé ógild.

Niðurlag

                Stefnendur byggja á því að hver og ein málsástæða og brot stefnda, sem þau hafi vísað til, eigi að leiða til ógildingar veðsamningsins. Þau byggja einnig á því að þegar þau brot séu öll virt saman eigi þau að leiða til ógildingar veð­setn­ingar stefn­enda með stoð í 36. gr. samningalaga.

                Eins og áður var rakið byggja þau á því að fyrri veðsetningin sem veitt var 10. sept­ember 2008 sé ógild með stoð í 36. gr. samningalaga. Með því sé seinni veð­setn­ing einnig ógild þar eð hún var gerð í beinu framhaldi og í beinu samhengi við fyrri veð­setninguna. Síðari veðsetningin sé gerð á þeirri forsendu að hin fyrri sé gild. Þar eð sú forsenda hafi verið röng og brostin sé síðari veð­setn­ingin ógild með því sama.

                Jafnframt er á því byggt að síðari veðsetningin sé ógild ein og sér. Stefndi hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn sem leiða eigi til þess að veð­setn­ingin sé ógild með stoð í 36. gr. samningalaga.

Varakrafa um viðurkenningu á bótaskyldu

                Stefnendur byggja á því að framangreind háttsemi stefnda sé saknæm og ólög­mæt og þau eigi því rétt til bóta á grundvelli almennu sakarreglunnar. Hin sak­næma hátt­semi sé tvenns konar. Þegar stefnandi Gottskálk hafi veitt veð í fast­eign sinni 10. sept­em­ber 2008 hafi hin sak­næma og ólögmæta háttsemi falist í athafna­leysi stefnda við að kalla eftir greiðslu­mati á lántakanum. Þegar stefn­endur veittu veð í fast­eign sinni 22. janúar 2010 hafi sak­næma og ólög­mæta háttsemin falist í því að axla ekki laga­skyldu sína og láta vinna mat á greiðslugetu lántaka og upp­lýsa stefn­endur um stöðu sína áður en þeir gengust í ábyrgð.

                Það hafi einnig verið saknæmt og ólög­mætt af stefnda að láta stefnendur rita undir þá yfirlýsingu að ekki yrði gert greiðslumat á lántaka án þess að gera þeim grein fyrir efni hennar. Stefn­endur hafi þar af leiðandi ekki verið upplýstir um að þeir væru að rita undir slíkt.

                Réttarsamband aðila hafi byggt á því að stefndi veitti sérfræðiþjónustu. Gera megi ríkar kröfur til stefnda því á honum hvíli sérfræðiábyrgð. Hin sérstaka beit­ing sakar­reglunnar á sviði sérfræðiábyrgðar felist í fyrsta lagi í að gerðar eru ríkari kröfur til hins hlutlæga þáttar, þ.e. ríkari kröfur um tilteknar athafnir, eða meiri aðgæslu eða vand­virkni. Í öðru lagi séu gerðar meiri huglægar kröfur til tjónvalds, sé hann sér­fróður og vel menntaður eigi hann frekar að geta gert sér grein fyrir hætt­unum og líkum á tjóni og í þriðja lagi sé hægt að beita sönnunarreglum með sér­stökum hætti, þ.e. að hliðrað sé til um sönnun, tjónþola í vil, sem leiði til strangari ábyrgðar en samkvæmt almennum reglum.

                Stefndi hafi brugðist þeirri skyldu sinni að meta greiðslugetu, greiðsluhæfi eða kalla eftir skuldastöðu lántakans sem leiddi til þess að áhætta og ábyrgð stefnanda varð til muna meiri en ella. Stefnandi Gottskálk hefði ekki sett fasteign sína að veði upp­haf­lega hefði hann vitað að stefndi hefði lagt til grundvallar greiðslumat sem tók til tekna lán­tak­ans og annars aðila sem leiddi til þess að greiðslumatið var jákvætt þegar það hefði með réttu átt að vera neikvætt. Stefndi hafi farið út fyrir þær reglur sem hann aug­lýsti á heima­síðu sinni og tilkynnti stefnanda sérstaklega um í hinni svo­köll­uðu Ábendingu. Stefndi hafi einnig brotið í bága við almennar reglur, skráðar og óskráðar, eins og útskýrt er og rökstutt hér að framan.

                Með framangreindu verklagi hafi stefndi sýnt af sér ásetning eða í það minnsta stór­kost­legt gáleysi. Þar sem stefndi mat ekki greiðslugetu lántakans eða aflaði upp­lýs­inga um skuldastöðu hans eða greiðsluhæfi varð áhætta stefnanda til muna meiri. Stefnandi Gottskálk hefði aldrei veitt fasteign sína að veði til tryggingar skuld lán­tak­ans hefði hann vitað að stefndi hefði brotið gegn þeim reglum sem hann hafði kynnt stefnanda. Stefndi mátti vita að svo væri.

                Stefnendur byggja einnig á því sem sjálfstæðri málsástæðu að með veð­flutn­ingnum hafi stefndi gerst brotlegur við hina almennu sakarreglu skaðabótaréttar. Stefndi hafi með athafna­leysi sínu brugðist lögbundinni skyldu sinni til þess að kanna greiðslu­getu lán­tak­ans, Eggerts Gottskálkssonar. Stefndi hafi einnig með athöfnum sínum látið stefn­endur rita undir yfirlýsingu án þess að kynna þeim hvers efnis hún væri. Yfirlýsingin var til þess gerð að firra stefnda lögbundinni skyldu sinni en hann upp­lýsti stefnendur ekki um það en þeir voru 74 og 76 ára þegar þeir skrifuðu undir. Þetta sé sak­næm og ólögmæt háttsemi sam­kvæmt reglu 31. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936, skv. 19. gr. þágildandi laga nr. 161/2002 um fjár­mála­fyrir­tæki, skv. 5. gr. laga nr. 57/2005, 4. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðar­menn þar sem ekki var metið hæfi lántakans til að standa í skilum með lán.

                Tjón stefnenda felist í því veði sem nú hvílir á fasteign stefnenda. Fyrir liggi að lántakinn geti ekki haldið láninu í skilum og fyrr eða síðar þurfi stefn­endur að taka lánið yfir á sig til að koma í veg fyrir að fasteign þeirra verði seld til fullnustu láninu. Tjónið sé bein afleiðing af saknæmu verklagi stefnda. Því krefjist stefnendur viður­kenn­ingar á rétti sínum til bóta úr hendi stefnda.

                Stefnendur byggja kröfu sína á ákvæðum samkomulags frá 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1., 2., 3., og 4. gr., og ákvæðum sam­komu­lags um sjálfskuldarábyrgðir frá 27. janúar 1998, laga nr. 32/2009 um ábyrgð­ar­menn, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr., þágildandi laga nr. 33/2003 um verðbréfaviðskipti, einkum 4. gr. og 6. gr., laga nr. 7/1936 um samn­ings­gerð, umboð og ógilda löggerninga, einkum  33. gr., 36. gr. og 38. gr., laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, laga nr. 121/1994 um neytendalán og ólögfestu meginreglum samningaréttar. Einnig er byggt á fordæmum Hæstaréttar, sér í lagi í málum nr. 3/2003, 163/2005, 169/2012, 4/2013, 127/2013, 376/2013 og 569/2013.

                Um lagarök vegna viðurkenningarkröfu vísar stefnandi til meginreglna skaða­bóta­réttar um hina almennu sakarreglu, meginreglna skaðabótaréttar um bótaábyrgð og sök og meginreglna skaðabótaréttar um sérfræðiábyrgð. Vegna viður­kenn­ing­ar­kröfu í varakröfu vísa stefnendur til 2. mgr. 25. gr. laga um með­ferð einka­mála nr. 91/1991, auk d-liðar 80. gr. sömu laga.

                Kröfu um málskostnað byggja stefnendur á 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki er vísað til laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt á málskostnað. Heimild stefnenda til að höfða mál þetta saman styðst við 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísast til 33. gr. sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að til þeirrar veðsetningar sem krafist er ógild­ingar á hafi verið stofnað á löglegan og réttan hátt og að ekkert sé fram komið sem eigi að leiða til þess að ógilda beri hana og gera stefnda skylt að aflýsa veð­skulda­bréfi, upphaflega nr. 50534, af fasteigninni Lundi 3 í Kópa­vogi, með fasta­númer 229-2425.

                Vegna varakröfu stefnenda byggir stefndi aðallega á því að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um varakröfu sína því ekki séu uppfyllt skil­yrði fyrir beit­ingu 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þess efnis að sá sem höfði mál, leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar til­teknu til­efni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist. Því beri að vísa vara­kröfu stefn­enda frá dómi. Til vara byggir stefndi á því að sýkna beri hann af vara­kröfu stefn­enda og vísar því til stuðnings til röksemda fyrir sýknu af aðalkröfu stefn­enda.

Útgáfa veðskuldabréfs nr. 50534

                Stefndi vísar til þess sem áður greinir að sonur stefnenda, Eggert, hafi sótt um lán hjá stefnda 28. ágúst 2008 að fjár­hæð 25.000.000 kr. í þeim til­gangi að koma þeirri fast­eign sem hann og eiginkona hans, Erna S. Jóhannsdóttir, hafi keypt í desember 2007 að Gnita­kór í Kópavogi úr fok­heldu í íbúð­ar­hæft ástand.

                Áður en Eggert gaf út veðskuldabréfið 10. september 2008, sem upp­haf­lega var nr. 50534, vegna töku lánsins hjá stefnda hafi stefnendur, Gottskálk og Guð­rún, sam­þykkt að veðsetja fasteignina að Máva­nesi, Garðabæ, til trygg­ingar lán­inu. Þau hafi bæði ritað undir veð­skulda­bréfið til sam­þykkis veðsetningunni. Þau hafi einnig ritað undir yfirlýsinguna Ábend­ingu þar sem þeim var bent á hvað fælist í veð­setn­ing­unni og hvaða afleið­ingar það gæti haft kæmi til van­skila á lán­inu. Í samræmi við heiti þess sé í skjalinu ábend­ing þar sem brýnt sé fyrir þeim sem veiti öðrum veð í eign sinni að kynna sér vel hvað í því felist og ígrunda hvort treysta megi þeim sem fær veðið lánað. Stefnandi Gott­skálk hafi auk þess komið á fund starfs­manns stefnda, Brynju Hauksdóttur, dag­inn áður, 9. sept­em­ber 2008, þar sem Brynja fór yfir láns­um­sókn Eggerts og hvað í henni og veð­setn­ingu fast­eignar­innar að Máva­nesi 21 fæl­ist.

                Í lántökuskilyrðum stefnda frá þessum tíma og Ábendingunni sé tekið fram að lán­taka beri að leggja fram greiðslumat frá banka eða viður­kenndri fjármálastofnun eigi að setja að veði fasteign annars en lántaka sjálfs, maka eða sam­búðar­maka. Í sam­ræmi við þetta hafi lántaki lagt fram, 1. september 2008, greiðslu­mat unnið af BYR – spari­sjóði, sem var viðskiptabanki Eggerts og Ernu en í því sé greiðslugeta þeirra beggja metin saman.

                Stefndi byggir á því að eins og á stóð hafi verið fullkomlega eðlilegt að taka til­lit til tekna maka lántaka við mat á greiðslu­getu enda hafi Erna beinlínis haft hags­muni af lán­tök­unni sem varðaði sameig­in­legt heimili þeirra og fjölskyldunnar og þau voru sam­eiginlega að koma upp. Í því sam­bandi vísar stefndi einnig til þess að Erna hafi ásamt Eggerti borið ábyrgð á framfærslu fjölskyldu sinnar, sbr. ákvæði hjú­skapar­laga nr. 31/1993.

                Í framangreindum reglum stefnda um greiðslumat vegna lánveitingar felist ekki að ein­göngu sé heimilt að taka tillit til tekna lántaka, eins og stefnendur haldi fram, heldur komi ávallt til greina að meta tekjur maka einnig og það sé fullkomlega eðli­legt þegar lán varði sameiginlegt húsnæði hjóna. Almennt sé beinlínis gert ráð fyrir því, sbr. t.d. nú 5. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um láns­hæfis- og greiðslu­mat.

                Stefndi vísar í þessu sambandi einnig til þess að reglur hans um greiðslu­mat vegna lánveitinga hafi ekki grundvallast á lagaskyldu heldur hafi stefndi sett þær sjálfur og framfylgt þeim eins og hann taldi rétt og eðlilegt miðað við aðstæður hjá við­komandi lántaka, eins og gert hafi verið í þessu máli. Stefndi hafi þess vegna ekki með því brotið gegn neinum lagafyrirmælum eða reglum.

                Lántaki hafi lagt umrætt greiðslumat fram eins og reglur gerðu ráð fyrir, og taki til tekna hans og eiginkonu hans. Matið sé unnið af viðurkenndri fjár­mála­stofnun sem jafnframt sé viðskiptabanki lántaka og maka hans. Það hafi því verið ósk lántaka að þau yrðu greiðslumetin saman og viðskiptabanki þeirra talið eðli­legt að meta greiðslu­getu þeirra í þessu tilfelli sameiginlega.

                Stefnendur haldi því fram að þetta greiðslumat sé verulega rangt þar eð tekjur bæði Eggerts og Ernu séu rangar. Stefndi geti ekki borið ábyrgð á því, hafi lántaki og/eða maki hans lagt fram rangar upp­lýs­ingar um tekjur sínar sem hafi leitt til þess að niður­staða greiðslumatsins varð röng. Greiðslu­matið sé unnið af viður­kenndri fjár­mála­stofnun sem hafi einnig aflað allra gagna vegna þess. Í því sambandi vísar stefndi einnig til þess að stefnendur þekktu vel til aðstæðna lán­taka og maka hans, sbr. aftar.

                Stefndi áréttar að hann hafi hvorki átt aðild að hinu fyrra samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1998, né heldur því síðara frá 2001 og hafi ekki skuld­bundið sig til að hlíta þeim reglum. Stefnda hafi því ekki borið að leggja mat á greiðslugetu lán­taka samkvæmt þeim reglum og venjum sem honum bar að fylgja á þessum tíma og almennt giltu um lántökur af þessu tagi. Stefndi hafnar því jafn­framt að hægt sé að leiða þá skyldu af 5. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með órétt­mætum viðskiptaháttum, né öðrum lagaákvæðum sem stefnendur vísa til, að honum hafi verið skylt að kanna greiðslu­getu og/eða skuldastöðu lántaka þegar veita ætti veð í fasteign þriðja manns. Þrátt fyrir ofangreint hafi stefndi gert sér far um að vanda vel til verka í þessum efnum og fylgja slíkum megin­sjónar­miðum. Það hafi hann gert í því máli sem hér er til meðferðar, eins og rakið hefur verið.

                Stefndi vísar einnig til þess að í Ábendingunni, sem stefnendur undirrituðu, komi að auki fram að með samþykki lántaka geti sá er hyggist lána fasteign sína til veð­setn­ingar kynnt sér niðurstöðu greiðslumats. Stefnendum hafi því átt að vera ljóst að slíkt greiðslumat lægi fyrir og að þau gætu óskað eftir því að kynna sér efni þess. Stefn­endur verði að bera ábyrgð á því hafi þau ekki kynnt sér niðurstöðu greiðslu­mats­ins. Í umræddri Ábendingu séu veðsalar hvattir til að kynna sér vel hvað felist í því að lána veð í fasteign sinni. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til þess að lánið sé til 40 ára, eins og stefnendur vissu fyrir fram, og því þeim mun meira áríð­andi að þau treystu lántaka, enda miðist það greiðslumat sem gert var við stöðu og greiðslu­getu lántaka og maka á þeim tíma er matið er gert.

                Ofangreint sýni að stefndi hafi hvorki brotið gegn eigin skilmálum, gild­andi lögum eða reglum, né sýnt af sér verulega vanrækslu við að fram­fylgja eigin skyldum við útgáfu veðskuldabréfsins eins og stefnandi haldi fram.

                Á grundvelli framangreinds haldi stefndi því fram að veðsetning stefnenda á húsinu að Máva­nesi í Garðabæ hafi aldrei verið ógildanleg á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða annarra ákvæða þeirra laga og stefnendur vísa til, né heldur annarra réttarreglna.

                Þess beri að geta í tengslum við þetta að stefnendur séu foreldrar Egg­erts. Hann sé jafnframt framkvæmdarstjóri í fyrirtæki fjölskyldu sinnar þar sem stefn­andi, Gott­skálk, sé forstjóri og stefnandi, Guðrún, ein af stofnendum. Lík­legt verði því að telja að stefnendur hafi vitað eða mátt vita hvaða tekjur Egg­ert hefði sem og aðrar fjár­hags- og fjölskylduaðstæður.

Veðflutningur yfir fasteign að Lundi, Kópavogi

                Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnenda að flutningur veðs af fasteign að Máva­nesi í Garðabæ á fasteign þeirra að Lundi í Kópavogi hafi verið ólög­mætur. Við flutn­ing veðs fyrir láninu yfir á fasteignina að Lundi, í janúar 2010, hafi legið fyrir a) greiðslu­matið frá 1. september 2008, b) sú yfirlýsing stefn­enda að þau ósk­uðu eftir að ekki færi fram nýtt greiðslumat og c) ábyrgðar­samn­ingur undir­rit­aður af stefn­endum ásamt viðauka þar sem sérstaklega sé fjallað um þá áhættu sem sé sam­fara veð­setn­ingu. Skilyrðum laga nr. 32/2009 hafi því verið full­nægt við veð­flutn­inginn og hann geti því ekki verið ólögmætur.

                Stefndi hafnar því að ólögmætt hafi verið fyrir stefnda að styðjast við ofan­greint greiðslu­mat, enda hafi þetta ekki verið ný lántaka og þannig aukin skuld­bind­ing lán­taka eða stefnenda, heldur flutningur veðs til tryggingar láni sem veitt hafði verið tæpu einu og hálfu ári áður. Til þeirrar fjárskuldbindingar hafi þegar verið stofnað og veð­réttar til trygg­ingar henni sem stefnendur höfðu bæði samþykkt við upp­haf­lega lán­töku og engir annmarkar voru á.

                Stefndi mótmælir því sérstaklega að upphafleg veðsetning stefnenda Gott­skálks á eign sinni að Mávanesi í Garðabæ hafi verið ógild og því geti forsenda stefn­enda ekki hafa brostið þegar þau fluttu veðrétt stefnda á eign sína að Lundi í Kópa­vogi, sem var gert samkvæmt sérstakri ósk þeirra.

                Þótt annar stefnenda, Guðrún, hafi við veðflutninginn verið skráð 50% eig­andi íbúð­ar­innar að Lundi þýði ekki að rétt sé að líta á hana sem nýjan ábyrgðar­mann í skiln­ingi laga nr. 32/2009. Hún, sem maki stefn­anda Gott­skálks, hafi veitt sam­þykki sitt fyrir veðsetningu hússins í Mávanesi við upphaflega lántöku. Það hafi hún gert á grund­velli hjúskaparréttar síns, en þar hafi hún meðal annars haldið heimili. Líta verði til þess að hefði komið til fjárskipta milli stefn­enda hefði hún, sem maki Gott­skálks, átt til­kall til hluta andvirðis fast­eign­ar­innar að Mávanesi. Persónuleg og efna­hags­leg áhrif þess að samþykkja veð­setn­ing­una í upp­hafi á framangreinda fasteign hafi því verið sam­bæri­leg fyrir Guðrúnu og Gott­skálk. Staða stefnenda beggja hafi ekki versnað við það að veðið fluttist á eignina að Lundi og það jafn­vel þótt Guð­rún hafi þá verið skráð fyrir hluta fasteignarinnar. Í raun hafi staðan batnað því lánið lækk­aði um 3.000.000 kr. vegna þeirrar inn­borg­unar sem stefndi setti sem skil­yrði fyrir sam­þykki veð­flutn­ingsins. Í 1. mgr. 4. gr. reglu­gerðar nr. 920/2013 um láns­hæfis- og greiðslu­mat sé nú sú regla að hvorki sé skylt að vinna láns­hæfis- né greiðslu­mat sé skil­mála­breyt­ing láns­samn­ings, sem sé tryggður með ábyrgð eða veði í eign ábyrgðar­manns, ábyrgð­ar­manni ekki í óhag. Þessi regla sé leidd af 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 sem eigi við í þessu tilviki.

                Þrátt fyrir það sem að framan sé rakið hafi það verið ósk stefnda að lagt yrði mat á greiðslu­getu lántaka í tengslum við veðflutninginn. Stefnendur hafi hins vegar óskað eftir því að það yrði ekki gert og undirritað yfirlýsingu þess efnis og afhent stefnda til þess að afstaða þeirra lægi fyrir skriflega. Stefndi hafnar því alfarið að hafa ekki upp­lýst stefn­endur um „... hvað þau voru að skrifa undir“ eða að stefndi hafi  „... látið stefn­endur skrifa undir blað sem átti að firra þau rétti ...“ eins og stefnandi haldi fram. Stefndi hafnar því alfarið að hann hafi sýnt af sér „... verulega saknæma hátt­semi ...“ í tengslum við veð­flutn­inginn. Í samskiptum stefnda við stefnendur hafi ekk­ert komið fram sem gaf stefnda til­efni til að ætla að stefnendur væru ekki fær um að skilja þá skuld­bind­ingu sem þau geng­ust undir. Þvert á móti hafi stefn­andi Gott­skálk gefið til kynna í samskiptum sínum við starfsmann stefnda að hann gerði sér fyllilega grein fyrir þeirri ráðstöfun að veðsetja eign þeirra fyrir láni sonarins. Stefndi bendir í því sam­bandi einnig á að stefnandi hafi langa reynslu sem stjórnandi í við­skipta­lífinu.

                Stefndi telur fráleita þá mótbáru stefnenda að þau hafi ekki vitað hvað þau voru að skrifa undir með þeirri yfirlýsingu sinni að þau óskuðu eftir að ekki færi fram nýtt greiðslumat á lántakanum, Eggert syni þeirra. Stefndi bendir á að efni skjalsins sé ekki flókið og skýri sig í raun alveg sjálft.

                Fram­an­greind yfirlýsing, sem stefnendur undirrituðu, sé komin til vegna óskar þeirra sjálfra um að ekki færi fram greiðslumat í tengslum við veðflutninginn, en hann hafi komið til vegna beiðni þeirra þar sem þau höfðu fest kaup á nýrri íbúð sem þau ætl­uðu að flytja í og þá jafnframt flytja heimili sitt frá Mávanesi í Garðabæ. Hags­munir stefn­enda hafi því verið þeir að stefndi samþykkti ofangreindan veðflutning. Eins og fyrr segi hafi veðflutningurinn hvorki verið stefnendum óhagfelldur né hafi staða stefnda batnað við hann.

                Stefndi hafnar því, með vísan til þess sem að framan greinir, að ofangreind yfir­lýsing „... hafi ekkert gildi þar sem stefnda hafi borið bein lagaskylda til þess að láta greiðslumat fara fram“. Þá hafnar stefndi því að yfirlýsingin sé ógild þar sem hún sé dagsett sjö dögum síðar en yfirlýsing stefnenda um veðflutninginn. Í því sambandi vísar stefndi til þess að veðsetningarskjalið hafi verið dagsett fyrir fram, þ.e. 22. janúar 2010, en stefnendur hafi látið sækja skjalið síðar og því hafi það ekki getað verið undirritað af þeim þann dag. Í þessu sambandi vísar stefndi jafnframt til þess sem að framan greinir, að flutt hafi verið veð til tryggingar fjárskuldbindingu sem þegar hafði verið stofnað til og stefnendur höfðu bæði samþykkt við upp­haf­lega lán­töku. Stefndi útbjó skjöl vegna veðflutningsins sem stefnendur sóttu til hans til und­ir­rit­unar og komu að því loknu til stefnda sem afhenti þá yfirlýsingu um veð­bands­lausn sem var þing­lýst. Líta verði á veðflutninginn sem eitt ferli og undir­rit­anir á nauð­syn­leg skjöl í því samhengi. Ofangreind yfirlýsing sé gefin í tengslum við veð­flutn­inginn og áður en yfirlýsing stefnda um veðbandslausn, sem lýkur því ferli sem veð­flutn­ingurinn er, er móttekin til þinglýsingar. Stefndi hafi því ekki verið að bæta fyrir „... lögbrot ...“ með því að „... láta stefnendur skrifa undir yfirlýsingu sjö dögum síðar ...“ eins og haldið er fram í stefnu. Sú staðhæfing stefnenda sé fráleit.

                Stefndi hafnar því að ábyrgðarsamningur og viðauki við hann hafi verið ann­mörkum háðir eins og stefnandi haldi fram. Við veð­flutn­inginn hafi legið fyrir það greiðslu­mat sem gert var í upphafi og jafnframt ofangreind yfirlýsing stefn­enda þess efnis að þau óskuðu eftir því að lántaki yrði ekki greiðslumetinn sér­stak­lega í tengslum við veðflutninginn. Til þessara skjala sé vísað í ábyrgðar­samn­ingnum og því hafni stefndi því alfarið að sú framsetning hafi verið mót­sagn­ar­kennd. Hann hafnar því jafnframt að hafa „... blekkt ...“ stefnendur og „... látið þau halda að gert hafi verið greiðslu­mat ...“ vegna veðflutningsins eins og þau haldi fram. Þvert á móti hafi stefn­endur vitað að ekki yrði gert sérstakt greiðslumat vegna veð­flutn­ings­ins, sbr. fram­an­greinda yfirlýsingu þeirra þess efnis að slíkt greiðslumat yrði ekki fram­kvæmt. Líta verði til þess að veðflutningurinn hafi ekki komið til vegna breyttra aðstæðna hjá lán­taka heldur vegna fyrirhugaðs flutnings stefnenda frá Máva­nesi 21 í Garðabæ í eign að Lundi 3 í Kópavogi. Veðflutningurinn hafi verið að þeirra ósk og ein­ungis þjónað hags­munum þeirra. Stefndi hafnar því einnig að ólögmætt hafi verið að miða við greiðslu­matið frá 1. september 2008 þrátt fyrir að það hafi verið rúm­lega eins árs gamalt. Hvað varðar dagsetningu ábyrgðarsamningsins og viðaukans vísar hann til þess sem að framan greinir, að líta verði á veðflutninginn sem eitt ferli og jafn­framt að und­ir­ritanir stefn­enda á veðsetningarskjalið hafi verið síðar en dag­setn­ing skjals­ins gefur til kynna, eins og áður greinir.

                Stefndi mótmælir því alfarið að hann hafi beitt stefnendur óheið­ar­legum vinnu­brögðum í tengslum við framangreindar ráð­staf­anir, eins og stefnendur haldi fram. Hann mót­mæli því sérstaklega að hann hafi „látið“ stefn­endur rita undir þau skjöl sem til­heyrðu veðsetningunni og veð­flutn­ingnum eða beitt þau ein­hverjum blekk­ingum. Þau hafi ritað undir skjölin að eigin frumkvæði og af fúsum og frjálsum vilja og hafi stefndi ekki haft nein áhrif á ákvörðun þeirra um það.

Lög 121/1994 um neytendalán

                Stefnandi haldi því fram að stefnda hafi borið að fara að þágildandi lögum um neyt­enda­lán sem upphaflega voru nr. 30/1993 en voru endurútgefin sem lög nr. 121/1994, sbr. 15. gr. laga nr. 101/1994. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi að frumvarpið taki til lánssamninga sem séu gerðir við lántaka af hálfu versl­ana, fram­leið­enda og þjónustuaðila með vissum undantekningum. Jafnframt segir að til­gangur frum­varps­ins sé meðal annars að bæta möguleika lántaka á því að bera saman mis­mun­andi tilboð lánveitenda. Í c-lið 2. gr. laganna segi að þeir lánssamningar þar sem lán sé veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og standi almenningi ekki til boða séu undan­þegin lögunum.

                Stefndi sé ekki þjónustuaðili í þeim skilningi að hann veiti almenningi þjón­ustu. Starfsemi stefnda sé lögbundin og felist í því að taka við (og ávaxta) iðgjald til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka eða örorku eða andláts. Með iðgjalda­greiðslum til öflunar lífeyrisréttinda ávinni sjóðfélagi sér, maka sínum og börnum, eftir því sem við á, rétt til elli-, örorku-, maka- og barnalífeyris. Sjóðfélagar ávinni sér einnig með greiðslu iðgjalda rétt til lántöku á betri kjörum en almennt gerist. Undan­tekn­ing­ar­ákvæði c-liðar 2. gr. laganna eigi því við lánssamninga stefnda og séu þeir því und­an­þegnir lögunum.

                Stefndi byggir einnig á því að lánsskilmálar hafi legið fyrir í upp­hafi og auð­velt hafi verið fyrir lántaka og stefnendur að átta sig á þeim og því hvort mögu­leikar væru á hagstæðari lántöku annars staðar. Að auki hafi hvorki lántaki né stefn­endur gert athuga­semd við lánsskilmála, hvorki vexti né annan lántökukostnað. Með vísan til 14. og 15. gr. laganna byggi stefndi á því að brot gegn upplýsingaskyldu eða skortur á upp­lýs­ingum samkvæmt þessum lögum geti aldrei valdið ógildingu veð­setn­ingar stefn­enda.

                Stefndi heldur því fram og byggir á því að engir þeir annmarkar hafi verið á upp­lýsingagjöf hans í tengslum við þá lánveitingu sem hér er til umfjöllunar sem valdið geti því að veðréttur hans teljist ógildur og því beri að hafna aðalkröfu stefn­enda.

Tilkynningar til stefnenda

                Stefndi telur ranga þá fullyrðingu stefnenda að hann hafi aldrei sent þeim bréf fyrir utan upp­lýs­ingar um áramótastöðu í byrjun árs 2014. Stefndi hafi sent stefn­endum bréf 17. febrúar 2011, 20. janúar 2012, 4. febrúar 2013 og 25. mars 2014 þar sem meðal annars hafi verið tilgreindar uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins og bent á að hafa samband við stefnda með fyrirspurnir eða athugasemdir. Stefn­endur hafi einnig ávallt skrifað undir allar skilmálabreytingar, síðast 23. október 2013, og þannig fengið upp­lýsingar um stöðu lánsins. Framangreint sýni að stefndi hafi ekki van­rækt upp­lýs­inga­skyldu sína gagnvart stefnendum.

                Stefndi ítrekar það sem áður hefur komið fram að stefnendur séu foreldrar lán­tak­ans, Eggerts. Eggert sé jafnframt framkvæmdarstjóri í fyrirtæki fjölskyldu sinnar þar sem stefnandi, Gottskálk, sé forstjóri og stefnandi, Guðrún, einn stofnenda. Lík­legt verði því að telja að stefnendur hafi á hverjum tíma vitað eða mátt vita hverjar aðstæður Eggerts voru.

                Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til þess sem fyrir liggur og áður er nefnt að stefnendum hafi verið fullkunnugt um að lántakinn hafi nokkrum sinnum farið fram á skilmála­breyt­ingu á umræddu láni og þar með að greiðslur af láninu fóru ekki fram í sam­ræmi við upphaflega lánaskilmála. Í öll skiptin hafi stefnendur samþykkt breytta lána­skil­mála fyrir sitt leyti sem veðsalar án nokkurra athugasemda eða fyrirvara. Þessar skil­mála­breyt­ingar hafi verið gerðar bæði fyrir og eftir umræddan veð­flutn­ing.

                Með vísan til alls þess sem rakið hafi verið haldi stefndi því fram að ekkert í mál­inu eigi að leiða til þess að aðalkrafa stefnenda um ógildingu og aflýs­ingu veð­réttar stefnda verði tekin til greina. Slík niðurstaða verði hvorki byggð á ákvæðum samn­inga­laga nr. 7/1936 né öðrum lagareglum sem stefnendur vísi til og stefndi hafnar því alfarið að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri við­skipta­venju að hann byggi á gildri veðsetningu stefnenda á fasteign þeirra að Lundi 3 í Kópa­vogi. Þess vegna beri að sýkna stefnda.

Varakrafa stefnenda um viðurkenningu bótaskyldu

                Stefndi krefst þess aðallega að varakröfu stefnenda verði vísað frá dómi. Þá kröfu byggir hann á því að skil­yrði til beitingar heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um viður­kenningardóm séu ekki fyrir hendi. Í dóma­fram­kvæmd Hæstaréttar hafi verið lagt til grundvallar að beiting heimildar 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé háð því skil­yrði að sá, sem mál höfðar, leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni og geri grein fyrir því í hverju tjónið felist. Það hafi stefnendur ekki gert. Reyndar liggi fyrir að stefnendur hafi ekki orðið fyrir tjóni og ekki sé laga­grund­völlur til þess að fá viðurkenningardóm um skaða­bóta­skyldu vegna tjóns sem ekki hafi orðið. Því beri að vísa viður­kenn­ing­ar­kröfu stefn­enda frá dómi.

                Til stuðnings varakröfu sinni um sýknu af viðurkenningarkröfu stefnenda vísar stefndi til málsástæðna og raka fyrir kröfu sinni um sýknu af aðalkröfum stefn­enda sem fram koma hér að framan. Stefndi hafi ekki á nokkurn hátt brotið gegn stefn­endum sem gæti leitt til bótaskyldu hans gagnvart þeim.

                Stefndi vísar til meginreglna veð- og kröfuréttar, meðal annars um skuld­bind­ing­ar­gildi samn­inga. Stefndi vísar einnig til laga nr. 121/1994, einkum 14. og 15. gr. og laga nr. 32/2009, einkum 6. gr. Þá vísar hann til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála. Krafa hans um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað styðst við ákvæði laga nr. 50/1988.

Niðurstaða

                Sonur og tengdadóttir stefnenda tóku lán hjá stefnda, Lífeyrissjóði verzlunar­manna, 10. september 2008. Til tryggingar því láni veitti stefnandi Gottskálk veð í fast­eign sinni í Garðabæ og eiginkona hans ritaði undir veðskuldabréfið sem maki þing­lýsts eiganda. Veðsalarnir fluttu í eign í Kópavogi í nóvember 2009. Stefndi sam­þykkti þá að færa veðréttinn sem hann átti í húsinu að Mávanesi yfir á nýja eign stefn­enda að Lundi í Kópavogi.

                Stefnendur byggja kröfur sínar um ógildi veðsamningsins um íbúðina í Kópa­vogi í fyrsta lagi á því að veðsamningur sem gerður var 10. sept­em­ber 2008 sé ógildur. Það sé hann fyrir þá sök að greiðslugeta lántakans Eggerts og eigin­konu hans hafi verið metin saman en ekki einvörðungu greiðslugeta Eggerts.

                Samkvæmt lántökuskilyrðum stefnda bar lántaka, væri fasteign sem sett var að veði ekki í eigu hans, að afhenda lífeyrissjóðnum mat á greiðslu­getu sinni sem unnið var af banka eða annarri viðurkenndri lánastofnun og staðfesti greiðslugetu lán­tak­ans. Lán­tak­inn bar að hann hefði afhent Byr sparisjóði, viðskiptabanka sínum, launa­seðla og skatt­fram­töl og veitt sparisjóðnum umboð til þess að kanna frekar eigna- og skulda­stöðu hans. Að sögn lántakans afhenti Byr honum ekki greiðslumatið heldur stefnda, líf­eyr­is­sjóðnum, milliliðalaust.

                Að mati dómsins er nægjanlega leitt í ljós að greiðslumatið byggði á röngum forsendum. Ber þar fyrst að nefna að tekjur Ernu, eiginkonu lántakans, eru sagðar 350.000 kr. á mánuði en voru um 16.000 kr. Jafnframt verður ekki annað séð en að inn í yfirlit skulda vanti skuld við LÍN sem nam ríflega 4.500.000 kr. og skuld vegna bíla­láns tæplega 2.700.000 kr. Vegna þessara röngu forsendna var niðurstaða greiðslu­mats­ins röng. Eins og staðan var hafði lántakinn ekki nægar tekjur til þess að greiða af þessu láni til viðbótar öllum þeim sem þegar hvíldu á honum.

                Því verður ekki svarað hér hvernig stendur á þessari skekkju í greiðslumatinu. Lán­tak­inn ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem hann veitti Byr en sá sparisjóður hlýtur að bera ábyrgð á úrvinnslu sinni úr þeim upplýsingum. Að mati dómsins verður ábyrgðin á því að forsendur greiðslumatsins eru rangar því ekki lögð á stefnda hvað þá heldur röng niðurstaða þess.

                Þegar horft er til þess að Eggert og Erna áttu húsið að Gnitakór til jafns og lánið var tekið til þess að gera húsið íbúðarhæft fyrir fjölskylduna þykir fylli­lega eðli­legt að greiðslu­geta beggja væri metin saman þegar greiðslugeta lántaka var metin. Þar eð Erna hafði ekki greitt í lífeyrissjóð verslunarmanna var ekki hægt að skrá hana sem lántaka með Eggerti.

                Dóm­ur­inn fellst því ekki á að hafna hefði átt greiðslu­matinu fyrir þá sök að tekjur eigin­konu lántakans voru þar reikn­aðar með. Dómurinn fellst því ekki heldur á að stefndi hafi brotið gegn eigin reglum eða skilmálum með því að hafna ekki greiðslu­mat­inu.

                Stefnendur telja starfsmenn stefnda hafa með vinnubrögðum sínum beitt órétt­mætum viðskiptaháttum. Því til stuðnings vísa stefnendur til 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrir­tæki, 4. og 6. gr. þágild­andi laga nr. 33/2003 um verð­bréfa­við­skipti, 5. gr. laga nr. 57/2005 sem hétu á þessum tíma lög um eftirlit með óréttmætum við­skipta­háttum og gagnsæi markaðar­ins, svo og óskráðra meginreglna samninga- og kröfu­réttar.

                Þessi ákvæði varða öll bann við óréttmætum viðskiptaháttum. Þótt sum þeirra taki sérstaklega til fjármálafyrirtækja, sem stefndi er ekki, taka önnur vafalaust til hans. Engu að síður verður ekki talið að það hafi verið óréttmætir viðskiptahættir stefnda að taka við greiðslumati frá við­skipta­banka lán­taka, þar sem lántaki og eigin­kona hans voru samanlagt talin hafa næga greiðslu­getu til þess að bæta enn einu láni á lána­stafl­ann enda mátti stefndi gera ráð fyrir að viðskiptabanki lántakans hefði vandað sig við gerð greiðslumatsins og að lántakinn hefði afhent bankanum réttar og full­nægj­andi upp­lýs­ingar um fjárhagsmálefni sín og eiginkonu sinnar til að vinna úr.

                Veðskuldabréf vegna lánsins er dagsett 10. september 2008. Á þing­lýs­ingar­vott­orð vegna húseignar stefnenda að Mávanesi er skráð að veðgeigandi hafi komið í líf­eyris­sjóðinn og gefið samþykki sitt fyrir veðsetningu hússins 9. september 2008.

                Að mati dómsins hafa stefnendur ekki bent á neitt í verklagi starfsmanna stefnda við undirbúning og veitingu láns 10. september 2008 sem getur valdið ógildi veð­samnings sem stefnandi gerði við stefnda þegar hann setti húsið að Mávanesi 21 að veði með undirritun sinni undir veð­skulda­bréf með númerinu 50534.

 

                Stefnendur byggja næst á því að þegar veðið var flutt af húsinu í Mávanesi á íbúð­ina að Lundi hafi stefnendur veitt nýtt veð. Af þeim sökum hafi þurft að meta greiðslu­getu lántakans Eggerts að nýju í samræmi við lög nr. 32/2009 um ábyrgð­ar­menn sem tóku gildi 1. októ­ber 2009.

                Þrátt fyrir að í skjalinu þar sem veðréttur stefnda er fluttur af húsinu í Máva­nesi á íbúðina að Lundi standi að þetta sé ný veðsetning vegna flutnings á láni var það þó ekki reyndin. Veðréttur stefnda (trygging stefnda í eignum stefnenda) var ekki nýr þótt veð­and­lagið (sú eign stefnenda sem stóð stefnda til tryggingar) kunni að hafa verið nýtt. Þetta orðaval í veðflutningsskjalinu getur því ekki skákað réttinum eins og hann var í reynd.

                Sú trygging fyrir greiðslu láns sonar síns sem stefn­endur veittu stefnda með því að setja honum húsið í Máva­nesi að veði féll því ekki niður þegar tryggingin var færð yfir á íbúðina að Lundi, í janúar 2010. Stefnendur veittu stefnda þá ekki nýjan veð­rétt í þeirri íbúð.

                Stefnendur byggja á því að í öllu falli sé stefnandi Guðrún nýr ábyrgðar­maður að láninu þegar veðréttur bankans var fluttur yfir á nýja eign stefnenda að Lundi 3, Kópa­vogi.

                Guðrún sam­þykkti veðsetningu hússins að Mávanesi 21, Garðabæ, 10. sept­em­ber 2008 sem maki þing­lýsts eiganda. Þá átti hún í reynd helmingshluta í húsinu. Það varð því ekki nein efnis­leg breyting þegar ritað var á kaupsamning um íbúðina að Lundi 3 að hún ætti hana til helminga á móti eiginmanni sínum. Að mati dómsins er því ekki hægt að líta á hana sem nýjan ábyrgðarmann að láninu.

                Árétta má að við veðflutninginn var ekki tekið nýtt lán. Það var ekki heldur skipt um skuld­ara að láninu. Veðsalarnir voru þeir sömu og áður. Það eina sem breytt­ist var að þau fengu að bjóða fram aðra tryggingu/­veð­and­lag.

                Þótt veðsalarnir flytji getur það ekki virkjað til réttaráhrifa lög sem ekki hefðu haft nein réttaráhrif á réttarsamband lánveitanda og veðsala hefðu veðsalarnir ekki flutt. Veðið (réttur stefnda til tryggingar í eign stefnenda) var í upphafi veitt fyrir setn­ingu laga nr. 32/2009. Það þótt veðsalinn fái að bjóða fram nýtt veðandlag getur ekki kallað fram þau réttaráhrif sem stefnendur byggja á. Af þeim sökum verður ekki séð að stefnda hafi borið, á grund­velli laga nr. 32/2009 um ábyrgð­ar­menn, að meta greiðslu­getu lántakans að nýju. Því hefur engin réttaráhrif þótt stefnendur hafi ritað undir yfir­lýs­ingu þess efnis að þau óskuðu ekki eftir því að greiðslugeta lántakans væri metin og jafn­framt er þýð­ing­ar­laust af hvaða ástæðu þau rituðu undir skjalið. Sama gildir um skjalið „Upp­lýs­ingar til eigenda íbúðarhúsnæðis sem heimila veð­setn­ingu eignarinnar til tryggingar láni frá Lífeyrissjóði verslunarmanna“.

                Af sömu sökum hvíldi ekki lagaskylda á stefnda að gera við stefnendur „Ábyrgð­ar­samning vegna veðflutnings“ heldur nægði undirritun þeirra á skjalið „Yfir­lýs­ing um nýja veðsetningu vegna flutnings á láni nr. 50534“. Af sömu ástæðum hefur ekki heldur þýðingu hvenær viðkomandi skjöl voru undirrituð.

                Stefnendur byggja einnig á því að þegar þau veittu veðið hafi þau verið eldri en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt eldra samkomulagi um notkun sjálf­skuldar­ábyrgða sem miðaði við að ábyrgðarmenn væru ekki eldri en sjötugir. Gottskálk hafi hins vegar verið 74 þegar hann veitti veðið í september 2008 og Guðrún þá 72.

                Eins og fram er komið átti stefndi hvorki aðild að hinu fyrra samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1998, né heldur því síðara frá 2001 og var því ekki skuld­bundinn til að hlíta þeim reglum. Þar fyrir utan hafa stefnendur ekki leitt neinar líkur að því að vitsmunalegri getu þeirra og ályktunarhæfni hafi verið ábótavant þegar þau veittu veðið í upphafi. Því getur það ekki skipt máli þótt stefndi hafi ekki gætt að þessum atriðum áður en þau veittu veðið.

                Stefnendur byggja á því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 121/1994 um neyt­enda­lán. Að mati dómsins geta þau lög ekki haft nein réttaráhrif í þessu máli. Megin­tilgangur þeirra er að tryggja neytendum, sem taka lán í tengslum við kaup á vöru og þjónustu, ákveðin lágmarksréttindi og ákveðnar lágmarksupplýsingar áður en þeir taka ákvörðun um lántökuna. Lögin varða hins vegar ekki réttarsamband lán­veit­anda sem veitir lán til fasteignakaupa og veðsala sem veitir veð í eign sinni til trygg­ingar slíku láni.

                Dómurinn fær því ekki séð að stefnendur hafi fært fram nokkur rök til stuðn­ings því að mögulegt sé að ógilda flutning veðréttar stefnda af einni fasteign stefnenda á aðra sem fór fram í janúar 2010.

                Því verður að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnenda beggja sem og af þrauta­vara­kröf­unni sem stefnandi Guðrún gerir ein.

                Stefnendur krefjast þess til vara að viðurkennt verði að verklag bankans þegar stefn­endur veittu veð í eign sinni hafi verið saknæmt og ólögmætt þannig að það veiti stefn­endum rétt til bóta úr hendi stefnda á grundvelli sakarreglunnar.

                Fallist er á það með stefnda að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að þau hafi enn sem komið er orðið fyrir neinu tjóni vegna veðsamningsins við stefnda. Skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er því ekki fullnægt og því væri unnt að vísa kröfunni frá dómi.

                Hins vegar hafa stefnendur að mati dómsins hvorki sýnt fram á að verklag starfs­manna stefnda hafi verið saknæmt og ólögmætt þegar lánið var tekið í upphafi og stefnda veitt veð í húsinu að Mávanesi né þegar veðréttur stefnda var færður af því húsi á íbúðina að Lundi. Þess vegna verður stefndi sýknaður af viðurkenningarkröfu stefn­enda.

                Dómurinn hefur því hafnað öllum málsástæðum og öllum dómkröfum stefnenda.

                Með vísan til þessarar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um með­ferð einkamála, verður ekki hjá því komist að dæma stefnendur til að greiða stefnda máls­kostnað, óskipt (in solidum) sem þykir, að teknu til­liti til virð­is­aukaskatts á mál­flutn­ings­þóknun, hæfi­lega ákveðinn 500.000 krónur.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M s o r ð

                Stefndi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, er sýkn af kröfum stefnenda, Gott­skálks Egg­erts­sonar og Guðrúnar Einarsdóttur.

                Stefnendur greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað, óskipt (in solidum).