Hæstiréttur íslands
Mál nr. 415/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 31. ágúst 2009. |
|
Nr. 415/2009. |
Ólafur Þór Zoëga(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Sparisjóði Skagafjarðar (Hreinn Pálsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms, þar sem máli Ó á hendur S var vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2009, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði sótti lögmaður þing fyrir sóknaraðila við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. febrúar 2009. Lögmaðurinn sótti öll dómþing héraðsdóms í málinu eftir það. Við fyrirtöku 6. mars 2009 lagði lögmaðurinn fram greinargerð sem sóknaraðili hafði sjálfur skrifað og dagsett er sama dag. Í henni kveðst hann sjálfur gæta hagsmuna sinna. Talið verður að skylda héraðsdómara til að leiðbeina sóknaraðila um formhlið málsins samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr 90/1991, hafi fallið niður þegar lögmaður tók að sækja þing fyrir sóknaraðila. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ólafur Þór Zoëga, greiði varnaraðila, Sparisjóði Skagafjarðar, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2009.
Mál þetta var þingfest 6. febrúar 2009 og tekið til úrskurðar 19. maí sama ár. Málið var endurupptekið 2. júlí 2009 og tekið til úrskurðar á ný.
Sóknaraðili, Ólafur Þór Zoéga, kt. 070963-5589, Fífurima 50, Reykjavík, krefst þess að vanefndauppboð sem fram fór þann 14. nóvember 2008 á eign með fastanúmer 204-0445, að Fífurima 50, Reykjavík verði ógilt með dómi. Ennfremur er þess krafist að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað að mati dómsins.
Varnaraðili, Sparisjóður Skagafjarðar, kt. 610269-5679, Skagfirðingabraut 9a, Sauðárkróki krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og viðurkennt verði gildi áðurnefnds vanefndauppboðs. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað.
I
Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. júní 2006 og var þá skipaður skiptastjóri. Skiptum á búinu er ekki lokið. Helsta eign búsins var fasteign, með fastanúmerið 204-0445, að Fífurima 50, Reykjavík. Með beiðni um nauðungarsölu þann 27. júlí 2007 fór varnaraðili fram á það við sýslumanninn í Reykjavík að eignin að Fífurima 50 yrði seld á nauðungaruppboði á grundvelli veðskuldabréfs varnaraðila er hvílir á öðrum veðrétti eignarinnar. Beiðni varnaraðila var til meðferðar hjá sýslumannsembættinu ásamt uppboðsbeiðnum þriggja annarra uppboðsbeiðenda. Þann 29. maí 2008 fór fram framhald uppboðs. Hæstbjóðandi á því uppboði var Hafrafell ehf. og nam boð þess 31.700.000 krónum. Varnaraðili átti næsthæsta boð að fjárhæð 31.600.000 krónur. Uppboðsbeiðendur veittu hæstbjóðanda samþykkisfrest til 22. júlí 2008. Þann dag var sýslumanni tilkynnt að aðilar hefðu samþykkt framlengdan samþykkisfrest til 22. ágúst og veitti embættið lengri frest. Varnaraðili heldur því fram að honum hafi ekki verið kunnugt um þetta og hafi hann því ekki veitt samþykki sitt. Þegar fresturinn var liðinn stóð hæstbjóðandi, Hafrafell ehf., ekki við boð sitt. Sýslumaður tók ekki afstöðu til næsthæsta boðs en ákvað með vísan til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu að vanefndauppboð skyldi fara fram á eigninni og fór það fram 14. nóvember 2008 en þann 13. nóvember móttók sýslumaður mótmæli sóknaraðila við því að uppboðið færi fram. Á því uppboði var varnaraðili hæstbjóðandi með boð að fjárhæð 25.000.000 króna eða um sex og hálfri milljón króna lægra en næsthæsta boð hans hafði áður verið. Krafa sóknaraðila um úrlausn héraðsdómara var móttekin í héraðsdómi 28. nóvember 2008. Frumvarp til úthlutunar söluverðs var gefið út af sýslumanni 28. janúar 2009. Með bréfi dagsettu 11. febrúar 2009 óskaði sóknaraðili eftir því við skiptastjóra að honum yrði heimilað að reka mál sitt sjálfur fyrir dóminum. Með bréfi dagsettu 12. febrúar hafnaði skiptastjóri því að sóknaraðili fengi slíka heimild. Í greinargerð til héraðsdóms dags. 6. mars krafðist sóknaraðili þess, til viðbótar fyrri kröfum, að eiginkona hans tæki stöðu aðila til sóknar með honum.
II
Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram 6. mars 2009, kemur fram að Agnes Eyþórsdóttir eiginkona hans taki stöðu sóknaraðila í málinu með honum. Aðild Agnesar byggir sóknaraðili á því að hún sé þinglýstur eigandi eignarinnar og hafi eignarheimild hennar verið þinglýst 16. október 1995. Kaupsamningi við varnaraðila um eignina hafi síðan verið þinglýst 23. desember 2005. Þessi kaupsamningur hafi ekki verið efndur. Uppboðsaðgerðum hafi ekki verið beint að henni sem þinglýstum eiganda. Aðild hennar eigi sér stoð í 4. mgr. 2. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Auk þess hafi vanefndauppboðið ekki verið auglýst og þar með hafi því ekki verið beint að réttum aðila. Agnesi hafi því ekki gefist kostur á að grípa til varna.
Vegna kröfu sinnar um ógildingu vanefndauppboðsins byggir sóknaraðili á því að framhaldssala á uppboðinu hafi verið ólögmæt þar sem sýslumanni hafi borið að taka til greina næsthæsta boð sem gert var í eignina á uppboðinu 29. maí 2008. Varnaraðili, Sparisjóður Skagafjarðar, sem hafi átt næsthæsta boð hafi á þeim tíma verið líklegur til að standa við boð sitt. Á þeim tíma hafi því ekki verið fullnægt lagaskilyrðum til að biðja um vanefndauppboð og því beri að ógilda uppboðið með dómi.
Samkvæmt 39. gr. laga um nauðungarsölu beri sýslumanni að gæta hagsmuna við uppboð með því að krefja bjóðendur um fullar efndir. Varnaraðili hafi boðið í eignina á fyrra uppboði 6,5 milljónum króna hærri fjárhæð heldur en hann hafi boðið á seinna uppboðinu.
III
Varnaraðili telur málatilbúnað sóknaraðila þannig úr garði gerðan að vísa beri kröfu hans frá dómi ex officio. Málatilbúnaður sóknaraðila sé vanreifaður og ruglingslegur og stríði gegn meginreglu réttarfars um skýrleika málatilbúnaðar. Sóknaraðili hafi vísað málinu til héraðsdóms með kæru 25. nóvember sl. Í henni hafi hann krafist þess að vanefndauppboðið, sem fór fram 14. nóvember sl., yrði dæmt ógilt með vísan til þess að sýslumanni hafi borið skylda til að taka til álita önnur boð, sem gerð voru í eignina á uppboðinu 29. maí 2008, þegar fyrir lá að hæstbjóðandi, Hafrafell ehf., myndi ekki standa við boð sitt í eignina á því uppboði.
Í greinargerð sóknaraðila, dags. 6. mars 2009, sé kröfugerðin sú sama en framsetning kröfunnar, tilgreining málsatvika og málsástæðna það ruglingsleg og óljós að erfitt sé fyrir varnaraðila að grípa til varna í málinu. Sóknaraðili segi í greinargerðinni að hann gæti hagsmuna sinna sjálfur en jafnframt hagsmuna eiginkonu sinnar Agnesar Eyþórsdóttur. Agnes sé í greinargerð sögð þinglýstur eigandi fasteignarinnar og vísað sé til kaupsamnings hennar um eignina frá 16. október 1995, sem þinglýst hafi verið 23. desember 2005. Þessi samningur hafi ekki verið lagður fram og efni þinglýsingarvottorðs staðfesti ekki þessa staðhæfingu sóknaraðila um eignarhald Agnesar að íbúðinni.
Ennfremur segi í greinargerðinni að Agnes hafi gert þinglýstan kaupsamning við varnaraðila sem sé í vanefndum. Þessu mótmæli varnaraðili enda hafi hann ekki gert neinn samning um þá eign sem hér sé til umfjöllunar. Hinsvegar hafi sóknaraðili keypt eignina af Agnesi með kaupsamningi 2. desember 2005 og þeim samningi hafi verið þinglýst 23. desember 2005 og samkvæmt þeim samningi hafi sóknaraðili verið gerður 100% eigandi að eigninni.
Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins að sóknaraðili hafi vanefnt þennan samning við Agnesi og Agnes eigi af þeim sökum kröfu á hann eða þrotabú hans eins og ætla megi af greinargerð sóknaraðila. Agnes hafi hvorki við meðferð þrotamáls sóknaraðila né við meðferð nauðungarsölu á eigninni gert kröfur eða athugasemdir. Ekki verði hjá því litið að bú Agnesar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2007 og hafi skiptum á því þrotabúi lokið 4. mars 2008 og hafi búið verið eignalaust eins og framlögð auglýsing í Lögbirtingablaði beri með sér. Staðhæfingar sóknaraðila um eignarhald Agnesar að eigninni séu því rangar og einungis til þess fallnar að gera málatilbúnað sóknaraðila ruglingslegan.
Af málatilbúnaði sóknaraðila megi hinsvegar draga þá ályktun að hann telji sig ekki vera eiganda að fasteigninni að Fífurima 50 og í því ljósi sé erfitt að átta sig á því hvaða hagsmuni hann telji sig hafa af rekstri þessa máls. Eins og málið sé sett fram verði ekki séð að það hafi raunhæfa þýðingu fyrir hann að fá úrlausn dómstóla um málið. Verði fallist á kröfugerð sóknaraðila þurfi að hefja uppboðsaðgerðir á nýjan leik með fyrirsjáanlegu tjóni fyrir þrotabú sóknaraðila.
Um aðild Agnesar sérstaklega verði ekki hjá því litið að tilkynning hennar til héraðsdóms hafi komið í hendur héraðsdóms þegar liðnir hafi verið þrír mánuðir frá því að vanefndauppboðið fór fram. Því hafi verið liðinn sá frestur sem hún hafi haft til að bera málið undir dóm samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Ennfremur hafi tilkynningin ekki uppfyllt skilyrði 81. gr. laga um nauðungarsölu.
Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að sóknaraðila sé ekki heimil aðild að málinu. Bú sóknaraðila sé til gjaldþrotameðferðar. Kröfur sóknaraðila varði fjárhagslega hagsmuni sem falli undir þrotabúið og fari skiptastjóri einn með forræði þess og sé einn bær um að ráðstafa hagsmunum þess og svara fyrir skyldur, sbr. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skiptastjóri hafi gætt hagsmuna þrotabúsins við uppboðsmeðferðina og hafi hvorki gert athugasemdir við málsmeðferð sýslumanns né efni frumvarps til úthlutunar. Sóknaraðili hafi vísað málinu til héraðsdóms með tilkynningu í nóvember sl. Í endurriti sem með hafi fylgt hafi komið fram að gerðarþoli sé þrotabú og skiptastjóri hafi mætt við uppboðið. Því hafi borið að vísa málinu þegar frá dómi af þessum sökum enda hafi þá legið fyrir að sóknaraðila hafi ekki verið heimilt að standa sjálfur að þessu máli.
Fyrir dóminn hafi verið lagt bréf frá skiptastjóra í þrotabúi sóknaraðila þar sem fram komi að hann hafi hafnað ósk sóknaraðila um að hann færi með málið sjálfur. Sé þetta ekki nægilegt til þess að dómurinn vísi málinu frá ex officio telji varnaraðili þetta eigi að leiða til þess að dómurinn hafni kröfu sóknaraðila og þannig viðurkenni gildi nauðungarsölunnar. Þrotamaðurinn sé ekki lengur aðili að þeim réttindum sem um sé deilt heldur séu þau í höndum skiptastjóra og þau verði ekki flutt úr höndum hans nema með hans atbeina skv. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Sóknaraðili hafi ekki gert grein fyrir því að þessi málsókn sé til hagsbóta fyrir þrotabúið heldur megi þvert á móti halda því fram að hún sé til hagsbóta fyrir Agnesi Eyþórsdóttur, eiginkonu hans.
Reglur 130. gr. gjaldþrotalaga um heimild þrotamanns til að fara sjálfur með mál sitt séu settar með það að leiðarljósi að þær leiði til þess að þeir hagsmunir sem vinnist komi búinu til góða. Með þessari málshöfðun vinnist augljóslega engir hagsmunir verði niðurstaðan sú að fallist verði á aðalkröfu sóknaraðila.
Þá byggir varnaraðili á því að sýslumanni hafi verið heimilt að ákveða að uppboð vegna vanefnda skyldi fara fram þegar fyrir lá að Hafrafell ehf. hugðist ekki standa við boð sitt. Varnaraðili mótmælir staðhæfingu sóknaraðila um að vanefndauppboðið hafi verið ólöglegt þar sem sýslumanni hafi borið að taka önnur boð í eignina til greina. Í endurriti vegna nauðungarsölunnar komi fram að það sé mat sýslumanns að önnur boð komi ekki til greina þar sem bjóðendur við nauðungarsöluna hafi ekki lengur verið bundnir við boð sín þegar vanefnd Hafrafells ehf. hafi endanlega komið í ljós. Sýslumaður hafi því tekið önnur boð til álita eins og honum hafi borið skv. 4. mgr. 39. gr. laga um nauðungarsölu. Niðurstaða hans hafi verið sú að halda vanefndauppboð. Sú ákvörðun hafi verið á forræði sýslumanns eins og sömuleiðis að hans frumkvæði. Við þá ákvörðun sé ekkert að athuga enda nauðungarsölubeiðnir varnaraðila og annarra gerðarbeiðenda ekki niðurfallnar.
Í málatilbúnaði sóknaraðila sé látið að því liggja að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að sýslumaður hafi tekið lægra boði varnaraðila við vanefndauppboðið en upphaflega hafi verið boðið en því mótmælir varnaraðili. Svo sem áður greini hafi það verið skiptastjóri sem hafi gætt hagsmuna þrotabúsins við alla meðferð málsins og þá verði ekki hjá því litið, sé hliðsjón höfð af 57. gr. laga um nauðungarsölu, að sóknaraðili og þrotabú hans eigi kost á að gæta hagsmuna sinna og krefjast þess að krafa varnaraðila verði færð niður um þá fjárhæð sem nemi mismun á því verði sem eignin var seld fyrir og því sem sýnt þykir að hafi verið markaðsvirði eignarinnar. Hættan á því að sóknaraðili verði fyrir tjóni, verði ekki fallist á kröfu hans, sé afar fjarlæg. Það sé því mat varnaraðila að sú ákvörðun sýslumanns að halda vanefndauppboð hafi verið fyllilega lögmæt. Því sé mótmælt sem órökstuddu að lagaskilyrði fyrir þeirri ákvörðun hafi ekki verið fyrir hendi.
IV
Í greinargerð tilkynnti varnaraðili að eiginkona hans, Agnes Eyþórsdóttir, tæki stöðu sóknaraðila í málinu með honum. Hann ber því við að hið selda sé þinglesin eign konu hans frá því í október 1995. Sem þinglesinn kaupsamningshafi geti hún átt aðild skv. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Samkvæmt 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu verður sá sem vill leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar að hafa lögvarinna hagsmuna að gæta og jafnframt verður beiðnin að berast héraðsdómi innan fjögurra vikna frá því að nánar tilgreind þáttaskil hafa orðið við framkvæmd nauðungarsölunnar. Agnes hefur ekki sjálf óskað úrlausnar héraðsdóms um rétt sem hún kynni að hafa farið á mis við við meðferð málsins hjá sýslumanni heldur hefur maður hennar gert það fyrir hennar hönd tæpum 4 mánuðum eftir að vanefndauppboðinu lauk þann 14. nóvember sl. Þegar af þeirri ástæðu að Agnes hefur ekki sjálf, eða lögmaður fyrir hennar hönd, óskað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar kemur ekki til álita að hún geti átt aðild að málinu.
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðila sé ekki heimilt að höfða þetta mál þar sem skiptum á búi hans sé ekki lokið. Þessi málshöfðun sé því háð vilja skiptastjóra sem hafi lýst sig mótfallinn henni. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. getur þrotamaður haldið uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal sá sem vill gera slíkt tilkynna það skiptastjóra. Ekki fæst séð að heimild þrotamanns til þess að reyna að gæta hagsmuna þrotabúsins ráðist að einhverju leyti af vilja skiptastjóra. Málinu verður því ekki vísað frá sökum aðildarskorts sóknaraðila.
Í 80. gr. laga nr. 90/1991 er hverjum sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta veittur réttur til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar. Krafa þess efnis þarf að hafa borist héraðsdómi innan fjögurra vikna frá tilgreindum þáttaskilum við nauðungarsöluna. Ekki þarf að afla neins samþykkis fyrir slíkri málshöfðun nema krafan berist ekki innan fjögurra vikna frestsins. Eins og áður segir lauk vanefnda uppboðinu þann 14. nóvember sl. en beiðni sóknaraðila barst héraðsdómi 28. nóvember sl. Því þurfti sóknaraðili ekki heldur samþykki fyrir málshöfðun sinni af þeim sökum.
Ekki voru í þessu máli lögð fram þau gögn sem mælt er fyrir um að fylgi tilkynningu til héraðsdómara samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga um nauðungarsölu. Sóknaraðili höfðaði málið sjálfu og ekki er skráð í þingbók hvort efnislegt inntak ákvæðisins var brýnt fyrir honum við þingfestingu málsins.
Við þriðju fyrirtöku málsins fyrir dómi þann 27. febrúar hafði lögmaður tekið við rekstri málsins fyrir hönd sóknaraðila. Við fyrirtöku þann 20. mars sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram rafbréf sitt til fullnustudeildar sýslumannsins í Reykjavík, þar sem þess er óskað að sýslumaður afhendi lögmanninum öll gögn um uppboðsaðgerðir sýslumanns á eigninni. Þessi gögn hafa ekki verið lögð fram í málinu. Eftir aðkomu lögmannsins verður ekki talið að það að gögnin vanti megi rekja til þess að sóknaraðili hafi ekki fengið nægar leiðbeiningar um formskilyrði við meðferð nauðungarsölumála fyrir dómi.
Þar sem umrædd gögn frá sýslumanni liggja ekki frammi í málinu þykir ekki unnt að taka efnislega afstöðu til þess hvort sýslumanni hafi verið rétt að halda vanefndauppboð á eigninni. Verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.
Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Ólafur Þór Zoéga, greiði varnaraðila, Sparisjóði Skagafjarðar, 150.000 krónur í málskostnað.