Hæstiréttur íslands

Mál nr. 536/2012

A (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)
gegn
B (Ragnar Baldursson hrl.), C (Guðmundur B. Ólafsson lögmaður), D og Vátryggingafélagi Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Ábyrgðartrygging
  • Eigin sök


Líkamstjón. Skaðabætur. Ábyrgðartrygging. Eigin sök.

A varð fyrir alvarlegu líkamstjóni er hann féll út um dyr og ofan í grunn viðbyggingar sumarhúss. Í málinu krafðist A viðurkenningar á óskiptri bótaábyrgð B, byggingarstjóra framkvæmdanna og skráðum húsasmíðameistara, C, verktaka og smiðs við framkvæmdirnar, D eiganda fasteignarinnar og V hf. sem vátryggjanda B og D, vegna tjónsins. Byggði hann kröfur sínar í málinu á því að aðstæður á og við framkvæmdasvæði byggingarinnar hafi verið óforsvaranlegar vegna athafna og athafnaleysis D, B og C og þar með ólögmætar og þeim saknæmar. Framkvæmdir stóðu yfir við sumarhúsið er slysið varð. Til varnar því að gengið yrði út um dyr á austurhlið hússins hafði tveimur golfpokum með kylfum og einni golfkerru verið stillt upp fyrir framan hurðina, henni læst innan frá og aðrar útgöngudyr teknar í notkun tímabundið. Fallið frá neðri brún dyraopsins niður á gólf viðbyggingarinnar var 3,3 m og upp úr gólffletinum stóðu óvarin steypustyrktarjárn. Fyrir lá í málinu að A þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og að hann hafði neytt áfengis skömmu fyrir slysið. Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja yrði til grundvallar að þær varnaraðgerðir sem að framan var lýst hafi verið með öllu óviðunandi. Frumorsök slyssins væri að rekja til þess hvernig háttað var frágangi dyranna og steypustyrktarjárnanna. Var viðurkennt að B sem húsasmíðameistari, D sem fasteignareigandi og C sem smiður við framkvæmdirnar bæru sameiginlega ábyrgð að 2/3 hlutum gagnvart A á því tjóni er hann varð fyrir vegna afleiðinga slyssins en að A bæri að 1/3 hluta tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar. Þá var jafnframt viðurkenndur réttur A til greiðslu að 2/3 hlutum úr ábyrgðartryggingu D hjá V hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. ágúst 2012. Hann krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda stefndu B, C og D vegna tjóns sem áfrýjandi varð fyrir er hann féll ofan í grunn viðbyggingar við sumarhús að […] í […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Í öðru lagi að viðurkenndur verði réttur hans til bóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda B, byggingarstjóra fyrrgreindrar viðbyggingar, hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna tjónsins. Í þriðja lagi að viðurkenndur verði réttur hans til bóta úr ábyrgðartryggingu eiganda sumarhússins, stefnda D, hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., vegna tjónsins. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndu verði sameiginlega dæmdir til greiðslu málskostnaðar í héraði, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefjast stefndu D og Vátryggingafélag Íslands hf. þess að sök verði skipt og réttur áfrýjanda til bóta úr ábyrgðartryggingu fasteignareigandans hjá félaginu verði aðeins viðurkenndur að hluta. Þá krefst stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. þess að réttur áfrýjanda til bóta úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjórans verði aðeins viðurkenndur að hluta. Í þeim tilvikum er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

I

Áfrýjandi varð fyrir alvarlegu líkamstjóni aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember 2009 við sumarhús föður síns, stefnda D, að […] en þá stóðu yfir framkvæmdir þær við sumarhúsið sem nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Á eyðublaði byggingarfulltrúa uppsveita […] og […], sem undirritað var 30. október 2009 af stefnda B og stimplað um móttöku 13. nóvember sama ár af byggingarfulltrúanum, kom fram að stefndi tæki að sér sem byggingarstjóri „að vera framkvæmdastjóri við og bera ábyrgð á að framkvæmdir við […] verði í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, sem til greina kunna að koma, sbr. 51. grein skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997, með síðari breytingum.“ Á eyðublaðinu sagði að meðal meistara við húsið væri stefndi B sem húsasmíðameistari og ritaði hann eigin hendi á eyðublaðið. Á því kom einnig fram að hann hefði sem byggingarstjóri ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. og eru skilmálar hennar meðal gagna málsins.

Ágreiningslaust er að áfrýjandi féll umrætt sinn ofan á grunnplötu byggingar þeirrar sem tengja skyldi sumarhúsið við nýbyggingu sem þar var verið að reisa. Upp úr grunnplötu tengibyggingarinnar stóðu óvarin steypustyrktarjárn sem áfrýjandi féll á úr rúmlega þriggja metra hæð og stungust járnteinarnir víða í gegnum líkama hans. Alls gengu átta járn í gegnum áfrýjanda og þurfti að skera sjö þeirra í sundur með slípirokki, áður en unnt var að flytja áfrýjanda með þyrlu af slysstað og fjarlægja járnin úr líkama hans í skurðaðgerð við komu á sjúkrahús í Reykjavík. Áverkum þeim er áfrýjandi hlaut umrætt sinn og aðstæðum á vettvangi er lýst með greinargóðum hætti í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram er áfrýjandi lamaður fyrir neðan brjóst af völdum slyssins og hlaut hann að auki margvíslega aðra áverka.

Ekki er um það deilt í málinu að áfrýjandi varð fyrir hinu alvarlega líkamstjóni er hann féll ofan í grunn tengibyggingarinnar en aðila greinir á hinn bóginn á um hvernig slysið bar að höndum. Engin vitni voru að atburðinum og er áfrýjandi því einn til frásagnar um það sem gerðist. Hann kveðst hafa fallið út um dyr á austurhlið sumarhússins og þaðan niður í grunninn, en stefndu halda því á hinn bóginn fram að áfrýjandi hafi fallið af palli sem lá meðfram austurhlið hússins og þaðan niður í grunninn, en búið var að rjúfa skarð í pallinn vegna framkvæmdanna. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að fram sé komin í málinu fullnægjandi sönnun fyrir því að áfrýjandi hafi fallið niður í húsgrunninn út um dyr á austurhlið sumarhússins.

II

Áfrýjandi höfðar mál þetta til viðurkenningar á óskiptri bótaábyrgð stefndu vegna þess líkamstjóns er hann hlaut við fallið niður í grunn tengibyggingar sumarhússins. Reisir hann kröfur sínar í málinu á því að aðstæður á og við framkvæmdasvæði byggingarinnar hafi verið óforsvaranlegar vegna athafna og athafnaleysis stefndu D, B og C og þar með ólögmætar og hinum stefndu saknæmar. Á því beri þessir stefndu sameiginlega skaðabótaábyrgð, stefndi D sem eigandi fasteignarinnar, stefndi B sem byggingarstjóri framkvæmdanna og skráður húsasmíðameistari, og stefndi C sem verktaki og smiður við framkvæmdirnar. Kröfu sínar á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. reisir áfrýjandi annars vegar á því að honum beri réttur til bóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda B hjá tryggingafélaginu og hins vegar úr ábyrgðartryggingu húseigandans, stefnda D, hjá sama félagi.

Málsástæður og lagarök aðila eru ítarlega rakin í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram reisir stefndi C sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, en í öðru lagi að skilyrði skaðabóta hvað hann varðar séu ekki fyrir hendi. Sýknukrafa stefnda B er á því reist að hann hafi fullnægt öllum þeim öryggiskröfum og gripið til allra þeirra ráðstafana, sem honum hafi verið skylt sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari, og sé því ósannað að slysið verði rakið til sakar hans. Stefndi D reisir sýknukröfu sína á því að ósannað sé að slysið verði rakið til ólögmætrar og saknæmrar háttsemi hans sem fasteignareiganda. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. reisir sýknukröfu sína á því að starfsábyrgðartrygging stefnda B falli ekki undir skilmála byggingarstjóratryggingar hins síðarnefnda þar sem bótasvið hennar nái ekki til líkamstjóns. Þá er á því byggt af hálfu félagsins að umrætt slys verði hvorki rakið til saknæmrar háttsemi stefnda B sem byggingarstjóra né stefnda D sem húseiganda.

III

Eins og áður greinir er fram komin í málinu fullnægjandi sönnun fyrir því að áfrýjandi hafi fallið niður í grunn tengibyggingar sumarhússins að […] út um dyr á austurhlið þess. Dyrnar höfðu frá upphafi verið aðalinngangur sumarhússins og um þær gengt út á pall sem lá umhverfis húsið meðfram norður, austur og suðurhlið þess. Dyrnar opnuðust út á pallinn og til hægri. Vegna framkvæmdanna við sumarhúsið hafði fimm vikum fyrir slysið verið rofið skarð í pallinn, en sú framkvæmd mun hafa verið nauðsynlegur undanfari frekari framkvæmda við uppslátt og steypuvinnu. Langsum meðfram pallinum öllum var handrið og vegna framkvæmdanna hafði 96 cm hátt handrið verið sett þversum yfir pallinn til að varna umferð í gegnum skarðið. Um þá framkvæmd og uppslátt sá stefndi C að beiðni húseiganda. Frá neðri brún dyraopsins á austurhlið hússins og niður á grunn tengibyggingarinnar var um 3,30 m fall. Fram kemur í gögnum málsins að stærð grunnsins neðan hurðarinnar var 2,10 x 2,85 m og stóðu óvarin steypustyrktarjárn upp úr honum á þeirri hlið sem liggur að sumarhúsinu og hliðunum sem liggja að nýbyggingunni. Voru þau 10 mm í þvermál og á bilinu 50 til 70 cm löng.

Því til varnar að gengið yrði út um dyrnar á austurhlið hússins höfðu húsráðendur, samtímis því að skarð var rofið í pallinn, stillt upp fyrir framan hurðina tveimur golfpokum með kylfum og einni golfkerru og læst hurðinni innan frá en aðrar útgöngudyr voru teknar í notkun tímabundið. Frekari varnaraðgerðir munu ekki hafa verið viðhafðar, hvorki af hálfu húseigandans né annarra er að framkvæmdum komu. Þá höfðu steypustyrktarjárnin í grunni tengibyggingarinnar hvorki verið beygð né byrgð og voru þau því með öllu óvarin. Greinir málsaðila á um hvort þetta hafi verið forsvaranlegar ráðstafanir af hálfu þeirra er að framkvæmdum stóðu. Eru sjónarmið málsaðila um það rakin skilmerkilega í hinum áfrýjaða dómi.

Þegar metið er hvort gerðar hafi verið forsvaranlegar ráðstafanir til að varna mönnum útgöngu um dyrnar á austurhlið sumarhússins, eftir að skarð hafði verið rofið í pallinn að utanverðu framan við dyrnar, er fyrst til þess að líta að hurðin á austurhliðinni var læst innanfrá og einungis þurfti að snúa snerli til þess að opna hurðina. Í annan stað verður að hafa í huga að veigalítil fyrirstaða fólst í því einu að stilla golfpokunum og kerrunni upp framan við hurðina því auðvelt var að ýta þeim hlutum til hliðar, ganga yfir þá eða á milli þeirra. Í stað þessa hefði með lítilli fyrirhöfn og án nokkurs kostnaðar mátt skrúfa hurðarflekann fastan þannig að ekki væri gerlegt að opna hann eða negla plötu eða trébönd fyrir utan dyrnar. Var enn brýnna að grípa til slíkra öryggisráðstafana þegar litið er til þess að fallið frá neðri brún dyraopsins og niður í steyptan grunninn var 3,30 m og upp úr honum stóðu óvarin steypustyrktarjárn sem stórfelld slysahætta stafaði af. Verður því að leggja til grundvallar að varnaraðgerðir þær sem gripið var til og að framan er lýst hafi í ljósi aðstæðna verið með öllu óviðunandi. Húsið stendur í sumarhúsahverfi þar sem margir hittast fyrir og því mátti gera ráð fyrir að þangað kæmu einhverjir aðrir en fjölskylda áfrýjanda, þar á meðal börn, og var í ljósi þessa enn brýnna að öryggis væri gætt. Loks er til þess að líta að engar merkingar sem fólu í sér viðvörun um hættu höfðu verið settar upp.

IV

Eins og áður greinir reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur stefnda B í fyrsta lagi á því að hann hafi sem byggingarstjóri og þar með framkvæmdastjóri byggingarframkvæmdanna vanrækt þá skyldu að viðhafa nauðsynlegar öryggisráðstafanir. Þegar atvik málsins urðu voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 og byggingarreglugerð nr. 441/1998 sem sett var meðal annars með stoð í þeim lögum. Um byggingarstjóra voru ákvæði í 51. gr. laganna, en samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar var hann framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda. Hann réð iðnmeistara í upphafi verks eða samþykkti ráðningu þeirra og bar ábyrgð á að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Nánari ákvæði um verkefni og skyldur byggingarstjóra eru í byggingarreglugerðinni, einkum 31. gr. til 36. gr. hennar.

Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2013 í máli nr. 409/2012 verður sú ályktun dregin af dómum Hæstaréttar, sem fjallað hafa um skaðabótaábyrgð byggingarstjóra, til dæmis dómi 20. maí 2010 í máli nr. 459/2009, að ábyrgð hans sé ekki eingöngu bundin við að honum beri að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, heldur sé honum einnig skylt að hafa yfirumsjón og eftirlit með framkvæmdum sem hann stýrir. Undir það falli meðal annars að sjá til þess að iðnmeistarar sem að framkvæmdum koma fyrir hans atbeina sinni skyldum sínum og að framkvæmdin sé tæknilega og faglega fullnægjandi. Á hinn bóginn voru ekki í þágildandi skipulags- og byggingarlögum lagðar skyldur á byggingarstjóra er lutu að því að tryggja öryggi eða aðbúnað á byggingarstað, heldur sneru þau verkefni, sem honum voru þar falin, að því mannvirki sem verið var að reisa. Var skyldum byggingarstjóra ætlað að tryggja að framkvæmd við gerð mannvirkis fullnægði faglegum og tæknilegum kröfum. Þegar framangreint er haft í huga og litið er til tilgangs og gildissviðs þágildandi skipulags- og byggingarlaga verður ekki af ákvæðum þeirra leidd skylda byggingarstjóra til að tryggja öryggi á byggingarstað. Engu breytir þar um þótt almennt ákvæði er lýtur að öryggisráðstöfunum á byggingarstað sé að finna í gr. 56.6 í byggingarreglugerð, enda er í upphafi þeirrar greinar vísað um byggingarvinnustað til reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum. Þegar framangreint er virt verður ekki talið að bótaábyrgð stefnda B verði reist á því að hann hafi vanrækt skyldur þær sem á honum hvíldu sem byggingarstjóra á grundvelli þágildandi skipulags- og byggingarlaga.

Stefndi B var með lögboðna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., en um skyldu byggingarstjóra til að hafa slíka tryggingu voru ákvæði í 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og 33. gr. byggingarreglugerðar. Sú trygging var bundin við að bæta tjón sem leiddi af ábyrgð stefnda sem byggingarstjóra á grundvelli skipulags- og byggingarlaga, sbr. til hliðsjónar áðurgreindan dóm í máli nr. 409/2012. Samkvæmt framansögðu verður greiðsluskylda stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. gagnvart áfrýjanda því ekki reist á hinni lögboðnu starfsábyrgðartryggingu.

V

Áfrýjandi reisir í annan stað kröfu sína á hendur stefnda B á því að hann hafi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu sem húsasmíðameistara við framkvæmdirnar. Atvinnurekanda ber samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Af fyrrgreindu lagaákvæði og öðrum greinum laganna verður ekki ráðið hver er staða húsasmíðameistara að þessu leyti á byggingarvinnustað. Um verksvið og skyldur iðnmeistara, þar á meðal húsasmíðameistara, var kveðið á um í 52. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga. Þar sagði að iðnmeistari bæri ábyrgð gagnvart byggingarstjóra og eiganda byggingarframkvæmda á að þeir verkþættir sem hann tæki að sér að hafa umsjón með væru unnir í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Nánari ákvæði um skyldur húsasmíðameistara eru í byggingarreglugerð. Þar er í 38. gr. kveðið á um að húsasmíðameistari beri meðal annars ábyrgð á allri trésmíðavinnu við bygginguna, steypumótum svo og öllum stokkum og götum sem sett eru á steypumót. Þá segir í gr. 56.6 að byggingarstjóra og iðnmeisturum sé skylt að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum og að viðhafðar séu fyllstu öryggisráðstafanir, eftir því sem aðstæður leyfa. Við öryggisráðstafanir á vinnustað þurfi bæði að hafa í huga þá sem eru þar vegna vinnu sinnar og þá sem þar kunna að koma af öðrum ástæðum. Það er því á ábyrgð húsasmíðameistara að viðeigandi öryggisráðstafana sé gætt á starfssviði hans.

Eins og greinir í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2013 í máli nr. 409/2012 verður í ljósi tilgangs og gildissviðs þágildandi skipulags- og byggingarlaga að fara varlega í að draga af þeim ályktanir um ábyrgð á öryggi á byggingarstað. Af þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem áður eru rakin og fyrrgreindum dómi er þó ljóst, að á húsasmíðameistara eru ekki aðeins lagðar skyldur er lúta að endanlegum frágangi og eiginleikum þess mannvirkis sem verið er að reisa, heldur eru einnig á hann lagðar sérstakar skyldur til að tryggja að gripið sé til viðeigandi öryggisráðstafana á byggingartíma. Verður því að telja að stefnda B hafi sem húsasmíðameistara verið skylt að tryggja að gerðar væru ráðstafanir til þess að draga úr slysahættu sem augljóslega var fyrir hendi með því að loka með tryggum hætti umferðarleið og ganga frá steypustyrktarjárnum eins og nánar greinir í kafla III að framan. Þar sem það var ekki gert ber stefndi ábyrgð á því tjóni sem áfrýjandi varð fyrir. Getur það ekki leyst stefnda undan þeirri ábyrgð þótt hann hafi fengið eða samþykkt ráðningu verktaka til að sinna einstökum verkþáttum sem undir hann heyrðu.

VI

Stefndi D var eigandi sumarhússins að […] þegar atvik máls þessa urðu og stóð sem slíkur fyrir framkvæmdum þar. Í ljósi þess að um 3,30 m fall var frá neðri brún dyraopsins niður í grunn tengibyggingarinnar þar sem óvarin steypustyrktarjárn stóðu upp úr, mátti húseigandinn gera sér grein fyrir því að það var alls ófullnægjandi vörn fyrir þá sem þar dvöldu eða áttu þangað erindi að loka aðalinngangi hússins með því einu að læsa hurðinni innanfrá og stilla upp fyrir framan hana golfkerru og tveimur golfsettum. Ber stefndi D því sem eigandi fasteignarinnar ábyrgð á þessum frágangi þar á vettvangi og ábyrgð með húsasmíðameistaranum gagnvart áfrýjanda á því tjóni sem hann varð fyrir umrætt sinn.

Stefndi var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. þegar slysið varð, svokallaða sumarbústaðatryggingu. Vátryggingarskírteinið og endurnýjunarkvittanir hafa ekki verið lagðar fram í málinu, en skilmálar tryggingarinnar eru meðal gagna þess og er ekki um það deilt að tryggingin var í gildi þegar atvik málsins urðu. Í skilmálunum kemur fram í gr. 29.1 að vátryggingin bæti beint líkamstjón þriðja manns vegna skaðabótaábyrgðar vátryggðs er fellur á hann sem eiganda sumarbústaðar vegna skaðabótaábyrgðar samkvæmt íslenskum lögum og sé tjón bætt að því leyti sem tjónþoli eigi ekki að bera tjón sitt sjálfur vegna meðsakar eða meðábyrgðar. Samkvæmt þessu tekur ábyrgðartryggingin til tjóns áfrýjanda og er því fallist á greiðsluskyldu stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. vegna þess með þeim takmörkunum sem af skilmálum hennar leiðir.

VII

Stefndi C, sem er húsasmiður að mennt, var stofnandi, eigandi og stjórnarmaður í einkahlutafélaginu […] og skráður framkvæmdastjóri þess, en það var úrskurðað gjaldþrota 30. mars 2011. Hann er ekki húsasmíðameistari en kvaðst sem starfsmaður félagsins hafa átt aðkomu að smíði viðbyggingarinnar að […] en hvorki hafi verið gerður verksamningur milli félagsins og fasteignareigandans né ráðningarsamningur við sig. Lýsti stefndi aðkomu sinni að framkvæmdunum þannig að meðstefndu D og B hafi leitað eftir því við félagið að það kæmi að framkvæmdunum eftir þörfum hverju sinni, án þess þó að nokkuð væri ákveðið eða samið um umfang starfanna eða framhald þeirra. Stefndi kvaðst fyrir dómi hafa verið fenginn til þess að slá upp þar sem hann ætti steypumót og hefði hann séð um uppsláttinn ásamt fasteignareigandanum og öðrum manni. Hann hafi ekki litið á það sem sitt hlutverk að sinna öryggisþáttum, þar sem hann hafi í rauninni bara verið „fenginn í þennan verkþátt að slá þessu upp og ég hafði þekkingu á þessum mótum og svona og það þurfti mann með þeim, mótin sem ég var með.“ Telur stefndi samkvæmt þessu að einkahlutafélagið hafi enga ábyrgð borið á verkinu og öryggisþáttum þess og enn síður hann persónulega.

Samkvæmt gögnum málsins voru reikningar vegna vinnuframlags stefnda í þágu framkvæmdanna sendir út í nafni […] ehf. og þar krafið um endurgjald fyrir tímavinnu. Samkvæmt því og með hliðsjón af ákvæðum 2. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup verður að leggja til grundvallar að verksamningur hafi komist á milli […] ehf. og fasteignareigandans, stefnda D. Laut sá samningur að því að einkahlutafélagið sem verktaki sæi um tiltekna verkþætti við byggingarframkvæmdirnar og var skráður framkvæmdastjóri félagsins og fyrirsvarsmaður þess, stefndi C, starfsmaður þess við framkvæmdirnar. Aðalskylda félagsins fólst í því að slá upp fyrir sökkli, grunni, veggjum og gólfplötu viðbyggingarinnar, en nauðsynlegur undanfari hluta þeirra framkvæmda var eins og áður segir að rjúfa skarð í pallinn á austurhlið sumarhússins. Félaginu sem verktaka við umræddar framkvæmdir og fyrirsvarsmanni þess bar að sjá til þess að ekki stafaði hætta af framkvæmdunum, hvorki fyrir þá sem þar unnu né aðra sem gátu átt leið um framkvæmdasvæðið. Þeirri skyldu sinnti verktakinn ekki með þeim afleiðingum sem fyrr greinir og á því ber hann ábyrgð. Eins og áður greinir var […] ehf. úrskurðað gjaldþrota 30. mars 2011.

Mál þetta var höfðað 16. og 21. júní 2011 og beinir áfrýjandi kröfum sínum á hendur stefnda C persónulega og kemur þá til skoðunar hvort áfrýjandi geti sótt hann sem slíkan til ábyrgðar vegna þeirrar vanrækslu sem að ofan er lýst. Stefndi var sem fyrr segir stofnandi, aðaleigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins […]. Hann var sem slíkur atvinnurekandi í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 46/1980, en samkvæmt því ákvæði er atvinnurekandi í skilningi laganna hver sá sem rekur atvinnustarfsemi, sbr. 90. gr. þeirra. Í 1. mgr. síðarnefndu lagagreinarinnar segir að starfsemi merki í lögunum skipulagða aðgerð eða framkvæmd hvort sem um vinnustað samkvæmt 41. gr. laganna er að ræða eða ekki. Í 2. mgr. 90. gr. kemur fram að fyrirtæki merki í lögunum alla þá sem reka starfsemi, hvort sem um er að ræða stofnanir, félagasamtök, einstaklinga eða aðra, og um einstaklinga gildi einu hvort þeir vinna einir eða hafa aðra í þjónustu sinni. Sumarhúsið að […] var vinnustaður í skilningi 41. gr. laga nr. 46/1980 þegar áfrýjandi varð fyrir slysinu, en vinnustaður er þar skilgreindur sem umhverfi innanhúss eða utan þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna. Um skyldur atvinnurekanda ræðir í 13. gr. sömu laga, en þar segir að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað og er sérstaklega vísað til V. kafla laganna um framkvæmd vinnu og VI. kafla um vinnustaði. Um framkvæmd vinnu segir í 1. mgr. 37. gr. laganna að vinnu skuli haga og framkvæma þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, og í 1. mgr. 42. gr. kemur fram að vinnustaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Um frekari skyldur atvinnurekanda eru fyrirmæli í 8. gr. reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, en reglurnar eru settar með stoð í 38. gr. laga nr. 46/1980. Þar kemur fram að til að tryggja öryggi og heilsu starfsmanna á byggingarvinnustað skuli atvinnurekendur eða verktakar gera ráðstafanir sem samræmast kröfunum sem settar eru fram í IV. viðauka og hafa hliðsjón af leiðbeiningum samræmingaraðila. Í gr. 1.2 í A. hluta IV. viðauka við reglurnar segir að við ófullgerð hús eða önnur mannvirki skuli þannig frá gengið að sem minnst hætta geti stafað af fyrir óviðkomandi. Dyra- og gluggaopum á neðstu hæð og kjallara hálfbyggðra húsa skuli lokað svo fljótt sem verða megi. Um frágang bendijárna segir í gr. 8.1 að bendijárn sem kunni að standa út úr veggjum eða upp úr gólfum og valdið gætu slysum skuli þannig frá gengin að ekki stafi hætta af, hvorki fyrir starfsmenn eða óviðkomandi sem færu inn á byggingarsvæðið. Ef framkvæmdir eru stöðvaðar í einhvern tíma skal gengið úr skugga um að bendijárn skapi ekki hættu fyrir óviðkomandi. Þá segir í b. lið gr. 27.1 í B. hluta IV. viðauka að gera skuli sérstakar ráðstafanir við uppgröft, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu og gangagerð til að koma í veg fyrir að fólk, efni eða hlutir falli eða að flóð verði.

Stefndi er lærður húsasmiður og átti að baki um tuttugu ára starfsreynslu sem slíkur þegar atvik máls þessa urðu. Þótt hann hafi kosið að rækja iðn sína undir merkjum einkahlutafélags var hann eigi að síður atvinnurekandi í skilningi 1. mgr. 12. gr. laga nr. 46/1980 og bar sem slíkur þær skyldur á vinnustað og við framkvæmd vinnu sem áður hafa verið raktar, bæði gagnvart starfsmönnum og óviðkomandi. Getur aðildarskortur því ekki leitt til þess að hann verði sýknaður af kröfum áfrýjanda í málinu. Við mat á ábyrgð stefnda vegna tjóns áfrýjanda er til þess að líta að hvorki frágangur steypustyrktarjárnanna sem stóðu með öllu óvarin upp úr grunni tengibyggingarinnar, né þær ráðstafanir sem gerðar voru til að aftra mönnum för um aðalinngang sumarhússins eftir að skarð hafði verið rofið í pallinn meðfram því, voru í samræmi við framangreindar reglur um öryggi á vinnustað. Mátti stefnda á grundvelli tveggja áratuga starfsreynslu sinnar sem húsasmiður vera ljós sú mikla hætta sem af þessum frágangi stafaði og ekki hvað síst þegar til þess er litið að hann var nýlega búinn að opna umræddar dyr til hæðarmælinga, en þá blasti við honum fallhæðin, frágangur steypustyrktarjárnanna og sú geigvænlega hætta sem af gat hlotist ef einhver félli út um dyrnar og niður í grunninn. Samkvæmt þessu ber stefndi C persónulega ábyrgð ásamt fasteignareigandanum og húsasmíðameistaranum gagnvart áfrýjanda á því tjóni er hann varð fyrir.

VIII

Þess er áður getið að engir sjónarvottar voru að slysi áfrýjanda og er hann því einn til frásagnar um hvað gerðist umrætt sinn. Kann áfrýjandi þá skýringu eina á atburðum að hann hafi gengið í svefni um nóttina en til þess hafi hann átt vanda á yngri árum þegar hann var mjög þreyttur og eigi hið sama við um fleiri úr fjölskyldu hans, til dæmis bæði son hans og bróður. Móðir áfrýjanda staðfesti fyrir dómi að hann hefði átt það til að ganga í svefni á yngri árum þegar hann var þreyttur og hið sama hefði bróðir hans gert. Um áfrýjanda sagði hún að „sem barn gerði hann það, hann átti til með að vakna og ætla að fara á klósettið og þá opnaði hann skápinn kannski og pissaði þar óvart ... en ég var nú kannski ekki mikið vör við það þegar hann var unglingur“. Frekari gagna nýtur ekki við í málinu um svefngöngur áfrýjanda og er því útilokað að leggja á það mat hvort orsakir slyssins verði að einhverju leyti raktar til slíks háttalags.

Á hinn bóginn liggur fyrir eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi að áfrýjandi hafði neytt áfengis skömmu fyrir slysið. Er komið var með hann á sjúkrahús í Reykjavík um tveimur klukkustundum eftir slysið var honum tekið blóð og reyndist áfengismagn í því þá vera 28,8 mmól/l eða yfir 1,20‰. Áfrýjandi hefur skýrt svo frá að hann hafi neytt áfengis hóflega um kvöldið, en fallist er á með héraðsdómi að hvorki lýsing hans né annarra á þeirri neyslu fái samrýmst framangreindri niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni úr honum. Þykir eins og í héraðsdómi greinir í öllu falli mega slá því föstu að áfrýjandi hafi verið undir allnokkrum áfengisáhrifum þegar slysið varð og að orsakir þess verði að einhverjum hluta raktar til þeirra áhrifa. Þá verður heldur ekki fram hjá því litið að áfrýjandi þekkti til aðstæðna í sumarhúsinu og hafði aðstoðað við framkvæmdir nokkrum klukkustundum áður en slysið varð og mátti því í ljósi vitneskju sinnar um aðstæður vita hver hætta var á ferðum ef dyrnar á austurhlið sumarhússins væru opnaðar. Hvað sem þessu líður verður að leggja til grundvallar að frumorsök slyssins sé að rekja til þess hvernig háttað var frágangi dyranna og steypustyrktarjárnanna og hve auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir það. Þegar allt þetta er virt þykja stefndu D, B og C sameiginlega bera skaðabótaábyrgð að tveimur þriðju hlutum gagnvart áfrýjanda á tjóni því er hann varð fyrir en að áfrýjandi beri tjón sitt sjálfur að einum þriðja hluta vegna eigin sakar. Í samræmi við það er viðurkenndur réttur áfrýjanda til greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefnda D hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tjónsins.

Að þessari niðurstöðu fenginni ber að dæma stefndu sameiginlega til að greiða málskostnað áfrýjanda í héraði en hann naut gjafsóknar þar og rennur sá kostnaður í ríkissjóð.

Stefndu greiði sameiginlega málskostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir og rennur sá kostnaður í ríkissjóð. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að stefndu D, B og C beri sameiginlega að tveimur þriðju hlutum skaðabótaábyrgð gagnvart áfrýjanda, A, á tjóni því sem hann varð fyrir er hann féll ofan í grunn viðbyggingar að […] í […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Þá er og viðurkenndur réttur áfrýjanda til greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefnda D hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna tveggja þriðju hluta þess tjóns sem áfrýjandi varð fyrir.

Stefndu greiði sameiginlega 2.635.500 krónur í málskostnað í héraði, er renni í ríkissjóð.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal óraskað.

Stefndu greiði sameiginlega 2.492.028 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti er renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.216.644 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. júní 2012.

                Mál þetta, sem var dómtekið 14. f.m., var höfðað 16. og 21. júní 2011 af A, […], á hendur B og D, báðum til heimilis að […], C, […], og Vátryggingafélagi Íslands hf., Ármúla 3 í Reykjavík.

                Í málinu gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur:

Að viðurkennd verði með dómi óskipt skaðabótaskylda stefndu B, C og D vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir þegar hann féll ofan í grunn viðbyggingar að […] í […] aðfaranótt 22. nóvember 2009.

Að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda B, byggingarstjóra viðbyggingar að […], og úr ábyrgðartryggingu stefnda D, eiganda fasteignarinnar, hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna þess tjóns sem stefnandi varð fyrir í framangreindu slysi aðfaranótt 22. nóvember 2009.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsókn fyrir héraðsdómi með bréfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins 9. nóvember 2010.

                Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Af hálfu stefndu D og Vátryggingafélags Íslands hf. er höfð uppi sú varakrafa að aðeins verði viðurkennd að hluta skaðabótaskylda stefnda D og réttur stefnanda til bóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda B og ábyrgðartryggingu stefnda D hjá félaginu. Í varakröfu er þess krafist að málskostnaður falli niður.

I

Mál þetta hefur stefnandi höfðað vegna alvarlegs líkamstjóns sem hann varð fyrir aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember 2009 við sumarhús föður síns, stefnda D, að […]. Stóðu þar yfir framkvæmdir sem fólust í því að verið var að reisa viðbyggingu austan við sumarhúsið sem samanstóð af steyptum kjallara, sem m.a. skyldi nýttur sem vélageymsla, en ofan á kjallarann skyldi reisa íveruhús úr timbri sem tengt yrði við húsið sem fyrir var með sérstakri tengibyggingu. Var jafnframt gert ráð fyrir að tengibyggingin myndi þjóna hlutverki stigahúss niður í vélageymsluna. Á þessum tíma var búið að steypa upp kjallaraveggi viðbyggingarinnar. Hins vegar var ekki búið að reisa kjallaraveggi tengibyggingarinnar og voru því einungis steypt botnplata og undirstöður þar sem hún skyldi rísa. Á austurhlið sumarhússins, þar sem nefnd viðbygging skyldi tengd við sumarhúsið samkvæmt framansögðu, voru útidyr þaðan sem gengt var út á pall sem lá meðfram austurhlið hússins. Sökum þess að framkvæmdir voru hafnar hafði pallurinn framan við dyrnar verið fjarlægður að hluta þannig að þær opnuðust beint út í grunn tengibyggingarinnar, sem lá um 3,3 metrum þar fyrir neðan. Óumdeilt er að ekki var gengið frá dyrunum með þeim hætti að útilokað væri að ganga um þær, en til að varna því hafði golfsettum verið komið fyrir framan við þær að innanverðu. Þá stóðu steypustyrktarjárn óvarin upp úr undirstöðum tengibyggingarinnar. Stefndi B var byggingarstjóri framkvæmdanna, en stefndi C sinnti þar störfum sem húsasmiður. Var sá fyrrnefndi með lögbundna starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. og stefndi D með ábyrgðartryggingu fasteignareiganda hjá sama félagi.

Að kvöldi 21. nóvember 2009 var stefnandi, sem þá var 37 ára, staddur í sumarhúsinu, en hann hafði verið að hjálpa til við framkvæmdirnar fyrr um daginn. Auk stefnanda sjálfs voru móðir hans og sonur einnig stödd í sumarhúsinu, en faðir stefnanda og bróðir höfðu brugðið sér af bæ fyrr um kvöldið. Um eða eftir miðnætti umrætt kvöld lagðist stefnandi til svefns í sumarhúsinu. Atburðarásin þaðan í frá er nokkuð óljós, enda man hann ekkert eftir því sem þá gerðist. Það er þó óumdeilt að einhvern tímann eftir miðnætti aðfaranótt 22. nóvember 2009 féll hann ofan á grunnplötu áðurnefndrar tengibyggingar og á steypustyrktarjárn sem þar stóðu upp úr undirstöðunum. Faðir stefnanda og bróðir sneru aftur heim þegar nokkuð var liðið á nóttina. Urðu þeir þess þá áskynja að hann hafði fallið ofan í grunninn og hringdu þegar eftir hjálp. Reynt var eftir fremsta megni að hlúa að stefnanda þar sem hann lá, en ekki var gerlegt að færa hann til þar sem steypustyrktarjárnin höfðu stungist víða í gegnum líkama hans. Sökum alvarleika slyssins var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út til að flytja hann til Reykjavíkur á sjúkrahús og kom hún á vettvang kl. 03:07 um nóttina. Meðan komu þyrlunnar var beðið voru steypustyrktarjárnin, sem stefnandi hafði lent á, skorin í sundur svo hægt væri að flytja hann af slysstað. Fljótlega eftir komuna til Reykjavíkur var hann sendur í aðgerð þar sem hafist var handa við að fjarlægja steypustyrktarjárnin úr líkama hans og gera að sárum hans. Alls gengu átta steypustyrktarjárn í gegnum líkama hans og þurfti að skera sjö þeirra í sundur áður en unnt var að flytja hann af slysstað og fjarlægja þau í skurðaðgerð við komu á sjúkrahús. Gengu þrjú járn í gegnum kviðsvæði stefnanda, tvö í gegnum efri hluta brjóstkassa vinstra megin, eitt í gegnum vinstri upphandlegg og eitt í gegnum hægra læri. Urðu afleiðingar slyssins mjög alvarlegar. Stefnandi hryggbrotnaði og hlaut af varanlegan mænuskaða. Þá höfuðkúpubrotnaði hann og varð fyrir áverkum á heila. Þá hlaut hann áverka á maga, smáþörmum, ristli, framhandlegg og hægri fæti. Er hann lamaður fyrir neðan brjóst af völdum slyssins og stríðir þar að auki við skerta hreyfigetu í handleggjum.

Aðstæðum á vettvangi í umrætt sinn og því sem athugun lögreglu leiddi að öðru leyti í ljós er ágætlega lýst í framlagðri skýrslu E lögreglumanns. Í henni segir m.a. svo: „Pallur er meðfram húsinu norðan megin, austan megin og sunnan megin. Á austurhlið hússins er búið að taka úr pallinum vegna framkvæmda við nýbyggingu þeim megin við húsið. [Gerðar höfðu verið] ráðstafanir vegna þessa og var búið að bæta við handriði á pallinn þar sem tekið hafði verið úr honum en [handrið] er annars umhverfis pallinn á öðrum stöðum. Handriðið á þeim stað þar sem tekið hafði verið úr pallinum var 96 cm hátt.  … Útihurð er á sumarhúsinu að austanverðu. Hurðin opnast að kjallarabyggingunni og er um 3,30 m fall frá neðanverðu hurðaropinu og niður í kjallaragrunninn. Áður en framkvæmdir hófust opnaðist þessi hurð út á pallinn umhverfis húsið, en vegna framkvæmdanna var búið að fjarlægja trépallinn undir þessari hurð og grafið fyrir kjallarabyggingunni, og því einungis steinsteypt gólf 3,30 metrum neðar. Þegar undirritaður skoðaði aðstæður á vettvangi voru golfpokar upp við hurðina innandyra og hurðin læst, en hana var hægt að opna með venjulegu móti innan frá með því að snúa læsingunni og opna hurðina. Golfpokarnir voru að sögn … ætlaðar til þess að minna á að ekki ætti að nota hurðina. … Gólfflöturinn á steypupallinum fyrir neðan hurðina er 2,10 m x 2,85 m. Steypustyrktarjárn stóðu upp frá pallinum á þeirri hlið sem liggur að sumarhúsinu og hliðunum sem liggja að nýbyggingunni, en ekki er búið að setja upp veggi á þessum hluta nýbyggingarinnar. Steypustyrktarjárnin voru 10 mm að þvermáli og á bilinu 50-70 cm löng. … Þegar komið var á vettvang lá [A] á gólffleti nýbyggingarinnar á þeim stað þar sem til stendur að setja hringstigann. Hann lá við norðvesturhorn á þessum 2,10 m x 2,85 m gólffleti á grúfu ofan á steypustyrktarjárnum og snéri höfuð hans í norðurátt. Lögreglumenn, sjúkraflutningamenn og læknir voru að sinna [A] þegar undirritaður kom á vettvang. Miðað við legu [A] var erfitt að sjá hvort hann hafi gengið út um ofangreinda hurð (sic), eða hvort hann hafi fallið fram af pallinum við sumarhúsið. … Samkvæmt björgunaraðilum hafði [A] verið á nærbuxum einum fata þegar að var komið … Við skoðun á hurðinni mátti sjá að gardína fyrir rúðu á hurðinni var krumpuð, en golfpokar voru fyrir hurðinni þegar undirritaður skoðaði hurðina. Hurðin opnast út á við og í suður (út og til hægri). Norðanátt var á vettvangi og var sterkur vindstrengur meðfram húsinu að austanverðu og tók strax verulega í hurðina þegar hún var opnuð og ef henni var sleppt opnaðist hún alveg upp á gátt og hélst opin.“

Stefnandi telur að slysið verði rakið til óforsvaranlegra aðstæðna á og við framkvæmda­svæði viðbyggingarinnar að […] og að á því beri stefndu B, C og D sameiginlega ábyrgð og séu þar með bótaskyldir gagnvart honum. Þá beri honum réttur til bóta úr starfsábyrgðartryggingu sem stefndi B hafði á slysdegi hjá hinu stefnda tryggingafélagi og ábyrgðartryggingu stefnda D hjá sama félagi. Stefndu hafna kröfum hans alfarið.

Fyrir liggur að stefnandi neytti áfengis að kvöldi 21. nóvember. Við komu á sjúkrahús í Reykjavík um nóttina var tekið úr honum blóðsýni til rannsóknar á áfengismagni og reyndist það vera 28,8 mmól/l. Er sérstaklega á það bent af hálfu stefnda B að gera verði ráð fyrir því að áfengismagn í blóði stefnanda hafi verið umtalsvert meira þegar slysið átti sér stað, enda hafi sýnið verið tekið fjórum til fimm klukkustundum síðar og niðurbrot áfengis í blóði sé u.þ.b. 4 mmól/l (0,15 til 0,19 prómill) á klukkustund. Megi samkvæmt þessu ætla að áfengismagn í blóði stefnanda þegar slysið varð hafi verið 40-45 mmól/l eða u.þ.b. 2 prómill.  Slíkt áfengismagn í blóði leiðir til áberandi ölvunareinkenna og erfiðleika við að standa, ganga og tala.

Að því er málsatvik varðar er því haldið fram af hálfu stefnda B að hann hafi að beiðni vinafólks síns, foreldra stefnanda, tekið að sér að hafa með höndum byggingarstjórn við umrædda framkvæmd. Hafi verið staðið þannig að málum að fenginn var húsasmiður úr sveitinni, stefndi C, til að annast framkvæmdir en stefnandi, bróðir hans og faðir þeirra, stefndi D, hefðu unnið með honum enda verkvanir menn. Stefndi hafi ekki með neinu móti komið að framkvæmdunum, en komið á staðinn til að fylgjast með framgangi verksins. Í einni slíkri ferð hafi öryggismál verið til umræðu og hafi foreldrar stefnanda, stefnandi sjálfur og bróðir hans öll verið viðstödd þegar sú umræða fór fram. Hafi þá sérstaklega verið rætt um að gæta þyrfti að því að hurð á austurhlið hússins væri alltaf læst og að rétt væri að stilla upp nokkrum golfsettum til að varna því að unnt væri að komast að hurðinni. Allir viðstaddir, þar á meðal stefnandi, hafi verið sammála um að verja hurðina með þessum hætti. 

Í greinargerð stefnda C er því haldið fram að hann hafi átt aðkomu að smíði viðbyggingarinnar að […] sem starfsmaður einkahlutafélagsins […]. Ekki hafi verið gerður verksamningur á milli þess og stefnda D. Hefðu meðstefndu B og D leitað eftir því við félagið að það kæmi að framkvæmdum, en þó án þess að nokkuð væri ákveðið eða umsamið um umfang þeirra starfa. Stefndi hafi því starfað hjá félaginu við umræddar framkvæmdir í þeim mæli sem óskað var eftir af hálfu framangreindra meðstefndu og án þess að nokkuð væri samið um áframhaldandi störf stefnda. […] ehf. hafi því enga ábyrgð borið á verkinu og stefndi enn síður.

II

Í greinargerðum er krafa stefndu um sýknu meðal annars byggð á því að ekkert liggi fyrir um það í málinu með hvaða hætti slys stefnanda bar að höndum. Tekur það þá ekki hvað síst til þess hvar stefnandi var staddur þegar hann féll ofan í grunn tengibyggingarinnar. Stefnandi leitaði til F, prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands, og fól honum að leggja mat á það hvort stefnandi hafi fallið ofan í grunninn frá dyrum á austurhlið sumarhússins eða fram af handriði á pallinum sitt hvorum megin við þær. Í niðurstöðukafla álitsgerðar sem F tók saman af þessu tilefni og stefnandi lagði fram áður en stefndu skiluðu greinargerðum sínum segir svo: „Samkvæmt þeim líkönum sem stuðst er við þegar fallferill [A] er reiknaður út bendir lárétt fjarlægð massamiðju mannslíkamans til þess að hann hefur fallið út um útihurð sem staðsett er austan megin við sumarhúsið. Hann hefur fallið beint fram fyrir sig til norðurs í stefnu sem er um 60° frá hornréttri stefnu frá útihurðinni.“ Stefndu höfnuðu því að byggt yrði á álitsgerðinni við úrlausn málsins þar sem hennar hefði verið aflað einhliða af hálfu stefnanda og hún stafaði ekki frá dómkvöddum matsmanni. Í ljósi þessarar afstöðu stefndu setti stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns í þinghaldi 14. desember sl. Samkvæmt henni skyldi matsmanni meðal annars falið að leggja mat á það hvaðan og hvernig stefnandi féll niður í grunn tengibyggingarinnar. Í þessu sama þinghaldi var G, prófessor emeritus, dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat. Í niðurstöðukafla matsgerðar hans 1. febrúar 2012 segir svo: „Á grundvelli upplýsinga sem fyrir liggja í málinu er það niðurstaða matsmanns að líkindi þess að matsbeiðandi hafi fallið niður í grunn tengibyggingarinnar frá austurdyrum sumarbústaðarins að […] eru 100%. Líkurnar á því að hann hafi fallið frá einhverjum öðrum stað eru samanlagt 0%, miðað við sömu forsendur. Óvissa í þessum tölum er langt innan við 1%. Þessa niðurstöðu matsmanns má einnig orða svo: Það er algerlega hafið yfir skynsamlegan vafa  að maðurinn hefur fallið niður í grunninn frá austurdyrunum og ekki eftir neinni annarri leið.“ Stefndu byggja á því að þrátt fyrir matsgerðina sé ósannað hvaðan stefnandi féll ofan í grunn tengibyggingarinnar. 

III

Stefnandi byggir á því að stefndu B, C og D beri óskipta skaðabótaábyrgð á því líkamstjóni sem hann varð fyrir er hann féll niður í húsgrunn viðbyggingar­ að […] aðfaranótt 22. nóvember 2009. Telur stefnandi að þessir stefndu hafi með saknæmri og ólögmætri háttsemi orðið valdir að því tjóni sem hann varð fyrir og á því verði þeir að bera ábyrgð samkvæmt sakarreglu íslensks skaðabótaréttar.

Svo sem áður hefur verið rakið er ekki með öllu ljóst með hvaða hætti stefnandi féll niður í grunninn, enda man hann ekki sjálfur eftir slysinu og engin vitni voru að því. Eðli máls samkvæmt komi þó aðeins tvennt til greina í þeim efnum. Annaðhvort hafi stefnandi fallið út um dyrnar á austurhlið sumarhússins og þaðan niður í grunninn eða af palli sem lá meðfram austurhlið hússins og búið var að rjúfa vegna framkvæmdanna. Byggir stefnandi málatilbúnað sinn aðallega á því að slysið hafi orðið með hinum fyrrnefnda hætti, enda með ólíkindum að hann hafi farið út á pallinn um miðja nótt á nærklæðum einum fata og dottið þaðan yfir upphækkað grindverk á pallinum og niður í grunninn. Framlögð matsgerð renni óyggjandi stoðum undir þetta, en hvort heldur sem var beri stefndu óskipta ábyrgð á tjóni hans.

Stefnandi byggir á því að verulega hafi skort á að viðhafðar væru nauðsynlegar öryggis­ráðstafanir á og við framkvæmdasvæðið að […]. Hafi aðstæður þó verið með þeim hætti að ríkt tilefni hafi verið til að tryggja öryggi þeirra sem þar væru á ferð og draga úr slysahættu.

Í fyrsta lagi bendir stefnandi á að ekki hafi verið komið í veg fyrir að hægt væri að ganga út um dyr, sem opnuðust út í grunn tengibyggingarinnar á austurhlið sumarhússins, þrátt fyrir að ekkert biði þar fyrir utan annað en þriggja metra fall niður á grunnplötu tengibyggingarinnar. Hefði þó verið einfalt að búa svo um hnútana að ekki væri mögulegt að ganga út um dyrnar, t.d. með því að negla planka fyrir þær að utanverðu eða skrúfa hurðina fasta í falsinu, enda ljóst að dyrnar kæmu ekki til með að þjóna neinum tilgangi fyrr en framkvæmdirnar væru afstaðnar. Hafi þetta verið sérstaklega mikilvægt með tilliti til þess að rúmum þremur metrum fyrir neðan dyrnar stóðu óvarin steypu­styrktar­járn upp úr grunnplötu viðbyggingarinnar, en engar ráðstafanir hefðu verið gerðar til að draga úr þeirri augljósu hættu sem þetta hafði í för með sér. Þess í stað hafi verið látið nægja að læsa dyrunum, auk þess sem pokum með golfkylfum hafi verið komið fyrir framan við þær að innanverðu.

Í öðru lagi vísar stefnandi til þess að ekkert hafi verið gert til að hindra umferð um pallinn við austurhlið hússins, þrátt fyrir augljósa hættu vegna framkvæmdanna, og koma þannig í veg fyrir að börn og fullorðnir kynnu að detta af pallinum og ofan í grunninn. Hefði átt að loka með öllu fyrir aðgengi að pallinum meðfram austurhlið sumarhússins sem snéri að grunni og framkvæmdasvæði viðbyggingarinnar.

Í þriðja lagi áréttar stefnandi að upp úr grunnplötu viðbyggingarinnar stóðu lóðrétt steypustyrktarjárn og höfðu engar ráðstafanir verið gerðar til að koma í veg fyrir þá hættu sem af þeim stafaði. Slíkt hefði þó auðveldlega mátt gera, t.d. með því að beygja járnin eða leggja plötur yfir þau. Hafi borið að tryggja að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnunum sem líkamstjón stefnanda verði í meginatriðum rakið til.

Í fjórða lagi hafi með öllu verið látið hjá líða að koma fyrir nauðsynlegum öryggismerkingum og hættuviðvörunum.

Stefnandi telur að stefndu B, C og D beri ábyrgð á framangreindu og að þeir hafi ekki sinnt þeim skyldum sem á þeim hvíldu vegna framkvæmdanna að […]. Hafi vanræksla þeirra leitt til verulegs tjóns fyrir stefnanda sem þeir verði að bera sameiginlega ábyrgð á samkvæmt almennum reglum íslensks skaðabótaréttar. Gáleysi stefndu verði að teljast stórkostlegt, enda hefðu þeir látið hjá líða að sinna lögboðnum skyldum sínum þrátt fyrir augljósa og mikla hættu. Ætluð eigin sök stefnanda komi því ekki til álita svo sem hér háttar til að þessu leyti. 

Skaðabótaábyrgð stefnda B sér í lagi byggir stefnandi á eftirfarandi röksemdum. Hann hafi sem byggingarstjóri við framkvæmdirnar að […] borið ábyrgð á því að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir, sbr. 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 29. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. og 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá hafi stefndi jafnframt starfað sem húsasmíðameistari við framkvæmdirnar og því borið að gæta sérstaklega að sömu atriðum að því er varðaði þá verkþætti sem hann bar ábyrgð á sem slíkur, sbr. 1. mgr. 52. gr. þágildandi laga nr. 73/1997, sbr. nú 32. gr. laga nr. 160/2010, sbr. og 37., sbr. 38. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Byggir stefnandi á því að verulega hafi skort á að ákvæðum laga og reglna um öryggi við byggingarframkvæmdir hafi verið fylgt og á því beri stefndi sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari við framkvæmdirnar m.a. ábyrgð. Stefnandi bendir á að samkvæmt 37. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 skuli framkvæma og haga vinnu þannig að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Skuli í þeim efnum fylgja viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins að því er aðbúnað, hollustuhætti og öryggi varðar. Beri jafnframt að gæta sömu atriða þegar kemur að vinnustaðnum sjálfum, sbr. 42. gr. sömu laga. Hvíli það á herðum atvinnurekanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laga nr. 46/1980, en atvinnurekandi sé hver sá sem annast skipulega aðgerð eða framkvæmd, sbr. 12., sbr. og 90. gr. sömu laga. Þá bendir stefnandi jafnframt á að tekið sé fram í grein 56.6 byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að byggingarstjóra og iðnmeisturum sé skylt að sjá um að við framkvæmdir séu viðhafðar fyllstu öryggisráðstafanir eftir því sem aðstæður leyfa. Sé ekki nægjanlegt í þeim efnum að taka einungis tillit til þeirra sem á framkvæmdasvæði eru staddir vinnu sinnar vegna, heldur verði jafnframt að hafa þá í huga sem þangað kunna að koma af öðrum ástæðum. Af hinum almennu ákvæðum laga nr. 46/1980 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 megi sjá að ríkar skyldur hafi hvílt á herðum stefnda sem byggingarstjóra og iðnmeistara að sjá til þess að fyllsta öryggis væri gætt við framkvæmdirnar. Um nánari útfærslu þessara skyldna megi hins vegar vísa til hinna ýmsu reglna sem settar hafi verið með stoð í ákvæðum laga nr. 46/1980 og bendir stefnandi einkum á eftirfarandi í því sambandi: Í fyrsta lagi að samkvæmt 3. gr. reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995 beri að setja upp öryggis- eða heilbrigðismerki eða ganga úr skugga um að slík merki séu á stöðum þar sem hætta verður ekki umflúin, eða ekki hægt að draga úr henni með almennum varúðarráðstöfunum eða ráðstöfunum, aðferðum eða leiðum sem tengjast vinnufyrirkomulagi. Í grein 2.1.3. í I. viðauka reglnanna sé sérstaklega tekið fram að staði, þar sem hætta er á árekstrum við hindranir eða hrapi, skuli merkja varanlega með öryggislit og/eða skiltum. Engar slíkar merkingar hafi verið settar upp við framkvæmdasvæðið að […], hvorki við grunninn sjálfan né við dyrnar sem þó opnuðust beint út í grunninn og ekki voru tryggilega lokaðar. Í öðru lagi að samkvæmt grein 1.2. í A-hluta IV. viðauka reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tíma­bundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 skuli þannig gengið frá við ófullgerð hús eða önnur mannvirki að sem minnst hætta geti stafað af fyrir óviðkomandi. Þá komi fram í grein 1.4. og 1.5. í nefndum viðauka að merkja skuli hættusvæði með þartilgerðum skiltum og þar sem óvenjulegt hættuástand ríkir skuli sérstök gæsla viðhöfð þrátt fyrir aðrar tiltækar varnaðarráðstafanir. Þessum áskilnaði hafi ekki verið fullnægt í því tilviki sem hér um ræðir þrátt fyrir ótvíræða skyldu stefnda í þeim efnum. Stefnandi bendir í þriðja lagi á að samkvæmt 8. gr. ofangreinds viðauka reglna nr. 547/1996 skuli ganga þannig frá bendijárnum sem kunna að standa út úr veggjum eða upp úr gólfum og valdið geta slysum að ekki stafi af þeim hætta, hvorki fyrir starfsmenn eða óviðkomandi sem kunna að fara inn á byggingarsvæðið. Þá sé jafnframt tekið fram að ef framkvæmdir eru stöðvaðar í einhvern tíma skuli gengið úr skugga um að bendijárn skapi ekki hættu fyrir óviðkomandi. Er í þeim efnum tekið fram að ekki var fyrirhugað að slá upp steypumótum á sökkli tengibygg­ingarinnar fyrr en helgina eftir að slysið varð. Þá bendir stefnandi á það í fjórða lagi að samkvæmt b-lið 27. gr. IV. viðauka reglna nr. 547/1996 beri að gera viðeigandi varúðarráðstafanir við uppgröft, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu og gangagerð, m.a. til að koma í veg fyrir að fólk falli. Sömuleiðis sé gert ráð fyrir því í grein 31.1. að sérhvert gat sem hætta getur verið á að menn falli út um skuli umgirt fullnægjandi vörnum. Ekki hafi verið gripið til slíkra ráðstafana við grunn tengibyggingarinnar að […], enda ekkert sem komið hafi í veg fyrir fall stefnanda nema golfpokar innan við dyrnar sem snéru út í grunninn. Megi ljóst vera að slíkar fallvarnir séu með öllu ófullnægjandi. Sérstök áhersla er lögð á að engu geti breytt um ábyrgð stefnda þótt sannað þætti að stefnandi hafi fallið ofan af palli við austurhlið hússins en ekki út um áðurnefndar dyr á austurhlið þess. Hafi stefnda borið skylda til að loka með öllu fyrir aðgengi að pallinum, sem lá meðfram austurhlið hússins og snéri að grunni og framkvæmdasvæði viðbyggingarinnar. Hefði stefndi aðeins með slíkum ráðstöfunum ásamt viðeigandi merkingum og hættuviðvörunum getað talist hafa uppfyllt þær lagaskyldur sem hvíldu samkvæmt framansögðu á honum við framkvæmdirnar. Af ofangreindum ákvæðum laga og reglugerða verður að mati stefnanda ráðið að rík skylda hvíli á herðum byggingarstjóra og iðnmeistara að sjá til þess að fyllsta öryggis sé gætt við byggingar­framkvæmdir. Megi ljóst vera að stefndi hafi ekki farið að þeim lögum, reglum og reglugerðum sem gilda um öryggi á og við byggingarvinnustaði við framkvæmdirnar að […]. Afleiðing þeirrar vanrækslu hafi orði sú að stefnandi féll ofan í grunn tengibyggingarinnar og hlaut af því margháttað og verulegt líkamstjón. Á því tjóni verði stefndi, sem var byggingarstjóri og húsasmíðameistari við framkvæmdirnar, nú að bera ábyrgð.

Skaðabótaábyrgð stefnda C sér í lagi byggir stefnandi á eftirfarandi röksemdum. Stefndi hafi starfað sem smiður við viðbygginguna að […]. Hann hafi verið fenginn af stefnda B til að annast smíði viðbyggingarinnar að mestu. Hafi stefndi verið þar við störf daginn áður en stefnandi féll í grunninn og ætlunin hafi verið að slá upp steypumótum á sökkli tengibygg­ingarinnar helgina eftir að slysið varð. Stefnandi vísar til þess að á stefnda sem verktaka og þar með atvinnurekanda, sbr. 12., sbr. 90. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hafi hvílt sömu skyldur og á stefnda B að gæta að öryggi á framkvæmdasvæði bygg­ingar­innar, sbr. einkum ákvæði 13., 37. og 42. gr. laganna. Stefnda hafi því einnig borið skylda til þess að koma fyrir öryggismerkingum á vinnustaðnum, sbr. grein 2.1.3. í I. viðauka, sbr. og 3. gr. reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995. Þá hafi stefnda jafnframt borið að sjá til þess að sem minnst hætta stafaði af framkvæmdasvæðinu fyrir óviðkomandi, m.a. með því að koma fyrir þartilgerðum skiltum og eftir atvikum með sérstakri gæslu, sbr. grein 1.2., sbr. og grein 1.4. og 1.5. í A-hluta IV. viðauka reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996. Þá hafi stefnda enn fremur samkvæmt 8. gr. nefnds viðauka reglna nr. 547/1996 borið að tryggja að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnunum sem stóðu upp úr steyptri gólfplötu tengibyggingarinnar, sem og að sjá til þess að fullnægjandi fallvarnir væru til staðar, sbr. b-lið 27. gr., sbr. og grein 31.1. IV. viðauka reglna nr. 547/1996. Stefnandi vísar sérstaklega til þess að stefndi hafi verið við vinnu á vettvangi slyssins daginn áður en það átti sér stað. Honum hafi því verið ljós sú bersýnilega hætta sem stafað hafi af fyrrgreindum aðstæðum við sumarhúsið, enda hafi hann sjálfur skýrt svo frá að tveimur til þremur dögum fyrir slysið hafi hann átt leið inn í sumarhúsið og gengið þá úr skugga um að dyrnar sem snéru út í grunninn væru læstar. Stefndi átti hins vegar ekki að láta þar við sitja heldur hafi honum borið að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma með öllu í veg fyrir að hægt væri að ganga út um dyrnar. Þá hafi honum einnig verið skylt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana í því skyni að koma í veg fyrir þá hættu sem stafaði af steypustyrktarjárnunum sem stóðu upp úr grunnplötu tengibyggingarinnar, en slík aðgerð hefði án efa leitt til þess að tjón stefnanda hefði orðið mun minna en ella. Stefnandi bendir jafnframt á að líkt og með stefnda B breyti það engu um ábyrgð stefnda þótt talið yrði að stefnandi hafi fallið af palli sumarhússins ofan í grunninn en ekki út um dyrnar. Hafi stefnda enda einnig borið að sjá til þess að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnunum sem stóðu upp úr grunnplötu tengibyggingarinnar, svo og að sjá til þess að lokað væri fyrir aðgengi um pallinn meðfram austurhlið sumarhússins ásamt því að koma fyrir tilheyrandi merkingum. Saknæm háttsemi liggi því fyrir af hálfu stefnda og breyti þá engu hvaðan stefnandi kann að hafa fallið ofan í grunninn. Með því að stefndi greip ekki til þeirra öryggisráðstafana sem nauðsynlegar voru til þess að koma í veg fyrir slysahættu á og við framkvæmdasvæðið að […], svo sem honum var þó skylt samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum,  hafi hann sýnt af sér saknæma háttsemi sem aftur hafi leitt til þess að stefnandi varð fyrir verulegu tjóni. Á því verður stefndi að bera ábyrgð. Bendir stefnandi sérstaklega á að sú staðreynd að stefndi B var byggingarstjóri yfir framkvæmdunum geti ekki leyst stefnda undan ábyrgð í þessum efnum, sbr. 36. gr. laga nr. 46/1980.

Að því er varðar skaðabótaábyrgð stefnda D vísar stefnandi sérstaklega til þess að hann hafi verið eigandi sumarhússins að […] og þar með verkkaupi þegar stefnandi féll í grunn tengibyggingarinnar með fyrrgreindum afleiðingum. Á stefnda hefðu því hvílt ríkar skyldur samkvæmt lögum og almennum reglum að gæta að öryggi á svæðinu og þá ekki hvað síst með tilliti til þeirra sem í sumarhúsinu dvöldu. Bendir stefnandi á í þessu sambandi að samkvæmt 4. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggis­ráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 skuli verkkaupi á hönnunar- og undirbúningsstigi verks gera ráðstafanir sem tryggja að við framkvæmd verksins verði unnt að gæta fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Stefnda hafi því borið þegar í byrjun framkvæmda að huga að öryggismálum á svæðinu og þá ekki hvað síst í tengslum við dyrnar sem sneru út í grunninn, enda hafi honum frá upphafi verið ljós sú slysahætta sem tengdist þeim. Í stað þess að koma með öllu í veg fyrir útgöngu um dyrnar hafi hann látið nægja að læsa hurðinni, auk þess sem pokar með golfkylfum voru settir fyrir framan hana eins og áður greinir. Hafi stefnda mátt vera það fullljóst að slíkar ráðstafanir væru engan veginn nægjanlegar eins og á stóð. Stefnandi vísar einnig til þess að á stefnda hafi ekki aðeins hvílt skyldur sem verkkaupa heldur einnig sem eiganda fasteignarinnar. Sé það almennt viðurkennt í íslenskum rétti að á eigendum fasteigna hvíli víðtæk skylda til þess að koma í veg fyrir að þeir sem erindi eiga í fasteignina verði fyrir tjóni. Svo sem áður greinir hafi stefnda ekki getað dulist sú mikla hætta sem skapaðist af dyrunum sem sneru út í grunninn, enda rúmlega þriggja metra fall niður á steinsteypta plötu og lóðrétt steypustyrktarjárn væri út um þær gengið. Hafi honum því verið skylt sem eiganda fasteignarinnar að koma í veg fyrir að hægt væri að ganga út um dyrnar meðan á framkvæmdunum stóð. Með tilliti til öryggis þeirra sem í sumarhúsið komu og dvöldu þar hafi stefnda einnig borið með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að hægt væri að ganga út á pallinn meðfram austurhlið sumarhússins, sem og að tryggja að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnunum ofan í grunninum. Líkt og með stefndu B og C sé því fyrir hendi saknæm háttsemi af hálfu stefnda, hvort heldur sem talið verður að stefnandi hafi fallið út um dyrnar á sumarhúsinu eða fram af pallinum meðfram austurhlið þess. Á þeirri háttsemi sinni verði stefndi nú að bera ábyrgð samkvæmt almennum reglum þar um.

Eins og fyrr er rakið var stefndi B tryggður lögboðinni starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Félagið hefur hafnað bótaskyldu úr starfsábyrgðartryggingunni með þeim rökum að í grein 4.4. í skilmálum vátryggingarinnar sé ákvæði sem feli það í sér að líkamstjón fáist ekki bætt. Stefnandi byggir hins vegar á því að stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. hafi verið óheimilt að undanskilja líkamstjón í skilmálum starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Stefnandi bendir á að samkvæmt 3. mgr. 51. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga hafi byggingarstjóra verið skylt að hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er héldi gildi sínu í a.m.k. fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði. Nánar sé kveðið á um þessa skyldu í byggingar­reglugerð nr. 441/1998, en í 33. gr. hennar komi fram að byggingarstjóri skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt geti af gáleysi hans í starfi. Samkvæmt nefndu ákvæði reglugerðarinnar eigi ábyrgðartrygging byggingarstjóra því að ná til alls þess fjárhagstjóns sem leitt getur af störfum byggingarstjóra, þ. á m. líkamstjóns, enda sé líkamstjón fjárhagslegt tjón í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi bendir jafnframt á að um grundvöll ábyrgðar byggingarstjóra fari eftir almennum reglum skaðabótaréttarins, svo sem nú sé beinlínis tekið fram í ákvæði 7. mgr. 29. gr. laga um mannvirki. Þeir sem verði fyrir tjóni vegna saknæmrar háttsemi byggingarstjóra eigi því rétt á að fá allt tjón sitt bætt, þ. á m. líkamstjón, enda sé það meginregla í íslenskum skaðabótarétti að tjónþoli fái fullar bætur fyrir tjón sitt. Sé þess þá einnig að geta að í nefndri 7. mgr. 29. gr. laga um mannvirki sé nú áréttað að verði eigandi eða annar þriðji maður fyrir tjóni vegna gáleysis byggingarstjóra í starfi beri hann ábyrgð á því samkvæmt almennum reglum. Sé líkamstjón þar ekki undanskilið. Af ofangreindu leiðir að mati stefnanda að ábyrgðartrygging byggingarstjóra falli í flokk skaðatrygginga svo sem þær eru skilgreindar í 1. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Það gefi hins vegar ekki tilefni til að álykta á þá leið að ábyrgðartryggingar nái ekki til líkamstjóns, enda um tryggingar gegn skaðabótaábyrgð að ræða. Bendi stefnandi í því sambandi á að berlega sé tekið fram, í athugasemdum við 61. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2004, en ákvæðið afmarkar gildissvið þess hluta laganna sem fjallar um persónutryggingar, að ábyrgðartryggingar, sem ætlað er að veita vátryggðum vernd gegn skaðabótaskyldu, sem hann kann að baka sér eftir almennum reglum, bæti líkamstjón í þeim víðtæka skilningi sem lagður er í það hugtak samkvæmt skaðabótalögum, þ.e. bæði líf- og líkamstjón. Samkvæmt framansögðu leiði það því bæði af lögum og almennum reglum að ábyrgðar­trygging byggingarstjóra skuli tryggja allt fjárhagslegt tjón sem leitt getur af störfum bygging­arstjóra, þ. á m. líkamstjón. Með því að undanskilja líkamstjón í skilmálum sé ljóst að ábyrgðartrygging stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. fullnægði ekki kröfum 33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, enda einungis heimilt að undanskilja sjálfsáhættu tryggingartaka í tryggingarskilmálum slíkra trygginga, sbr. grein 33.3 nefndrar reglugerðar. Hafi stefnda því verið óheimilt að undanskilja líkamstjón í greindum skilmálum sínum. Hafi ákvæði þar um því verið ólögmætt og geti enga þýðingu haft gagnvart tjónþola sem sækir rétt sinn til bóta á grundvelli slíkrar lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra. Verði að hafa í huga í því sambandi að verulegar takmarkanir séu á því hvaða mótbárur vátrygginga­félög geta haft uppi gagnvart bæði vátryggingartaka og tjónþola þegar um lögboðna ábyrgðartryggingu er að ræða, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 30/2004. Fyrir liggi samkvæmt því sem áður er rakið að stefndi B gætti ekki að því í störfum sínum á og við framkvæmdasvæði viðbyggingarinnar að […] að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Vanræksla hans hafi orðið til þess að stefnandi varð fyrir verulegu tjóni. Sé því ljóst að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr starfsábyrgðar­tryggingu stefnda hjá hinu stefnda tryggingafélagi, enda hafi stefndi uppfyllt tryggingarskyldu sína með því að kaupa starfsábyrgðartryggingu hjá félaginu, sbr. grein 33.1. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Verði því að taka kröfu stefnanda til greina og viðurkenna rétt hans til skaðabóta úr starfsábyrgðar­tryggingu stefnda B hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.

Stefndi D var sem fyrr segir tryggður ábyrgðartryggingu húseiganda hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Eigi stefnandi samkvæmt því rétt til skaðabóta úr þeirri tryggingu, enda bæti tryggingin tjón sem vátryggður ber skaðabótaábyrgð á sem eigandi húseignar. Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. hafnaði hins vegar bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu stefnda á þeim grundvelli að ósannað sé að stefnandi hafi fallið út um dyrnar á austurhlið sumarhússins að […]. Sé því ósannað að slysið verði rakið til vanbúnaðar á framkvæmdasvæðinu. Stefnandi hafnar því hins vegar að stefndi Vátrygginga­félag Íslands hf. geti vikið sér undan bótaskyldu á framangreindum grundvelli. Tiltekur hann í þessu sambandi að af tvennu mögulegu sé sú atburðarás mun sennilegri að stefnandi hafi fallið út um dyrnar á austurhlið sumarhússins og þaðan niður í grunninn. Verði við það að miða að sú hafi verið raunin og þá ekki hvað síst í ljósi niðurstöðu fyrirliggjandi matsgerðar. Sé ekki tækt að stefnanda verði gert að færa fram frekari sönnun að þessu leyti, enda liggi fyrir að stefndu B, C og D hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við framkvæmdirnar og aðbúnað á fasteigninni. Telji stefndu, þ. á m. stefndi Vátryggingafélag Íslands hf., að slysið hafi borið að með öðrum hætti, standi upp á þá að færa sönnur fyrir þeim getgátum sínum. Stefnandi áréttar hins vegar að það breyti litlu um ábyrgð stefndu B, C og D þótt þeim lánist að sanna að stefnandi hafi fallið af palli sumarhússins, enda hafi þeim öllum borið skylda til að loka fyrir aðgengi að pallinum meðfram austurhlið sumarhússins, sem og að gæta að því að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnunum ofan í grunninum. Skaðabótaábyrgð stefnda D liggi því fyrir hvort heldur sem er. Þar sem stefndi D hafi sem eigandi fasteignarinnar að […] valdið skaðabótaskyldu tjóni með vanrækslu sinni og ófullnægjandi aðstæðum á slysstað sé ljóst að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Verði ekki lagt á herðar stefnanda að færa fram frekari sönnur fyrir því að slysið hafi borið að með þeim hætti sem hann heldur fram. Liggi ábyrgð stefnda enda fyrir hvort heldur sem er. Verði því að viðurkenna rétt stefnanda að þessu leyti.

IV

Stefndu D og Vátryggingafélag Íslands hf. hafa skilað sameiginlegri greinargerð í málinu.

Sýknukröfu sína að því er tekur til þeirrar kröfu stefnanda sem snýr að starfsábyrgðartryggingu stefnda B hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. byggir félagið á því að umrætt slys falli ekki undir skilmála byggingarstjóratryggingarinnar. Það geti því ekki komið til álita að stefnandi geti átt bótarétt á hendur félaginu úr nefndri tryggingu og breyti þá engu hvort stefndi B verði talinn bera skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda eða ekki. Ekki sé ágreiningur um að byggingarstjóratryggingin var til staðar og í gildi á þeim tíma sem slysið varð, enda lagaskylda að hafa slíka tryggingu. Bótasvið tryggingarinnar nái hins vegar ekki til líkamstjóns, sbr. gr. 4.4. í skilmálum hennar, en þar sé mælt fyrir um það að vátryggingin bæti ekki líkamstjón og skemmdir á munum. Þar af leiðandi eigi stefnandi ekki rétt á bótum  úr tryggingunni. Þá hafnar  stefndi því að ólögmætt sé að hafa slíkt ákvæði í skilmálum tryggingarinnar og er öllum rökum og málsástæðum stefnanda hvað það varðar alfarið mótmælt. Bótasvið tryggingarinnar sé skilgreint í 4. gr. skilmálanna. Samkvæmt gr. 4.1. sé tjón sem vátryggingin bætir afmarkað með eftirfarandi hætti: „Almennt fjártjón viðskiptamanna vátryggðs sem rakið verður til þess að ekki hefur verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir, enda hafi vátryggður með undirritun sinni staðfest ábyrgð sína á hlutaðeigandi mannvirki fyrir byggingarfulltrúa og tjónið fallið undir þá ábyrgð að lögum.“ Telur stefndi fyllilega heimilt að undanskilja líkamstjón í skilmálum fyrir starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra og byggir það á eftirfarandi rökum. Umrædd tryggingarskylda byggist á 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem voru í gildi á þeim tíma sem slysið varð. Í því sagði svo: „Byggingarstjóri ber ábyrgð á því að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Hann skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu er gildi a.m.k. í fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði. Að öðru leyti fer um umboð byggingarstjóra, verksvið hans og ábyrgð gagnvart eiganda byggingarframkvæmda eftir samningi þeirra á milli. Í byggingarreglugerð skulu vera nánari ákvæði um slíkan samning. Áður en byggingarframkvæmdir hefjast skal byggingarstjóri staðfesta ábyrgð sína fyrir byggingarfulltrúa.“ Inntak ábyrgðarinnar felist í því að þess skuli gætt að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Ekki sé kveðið á um tryggingarskyldu fyrir annarri ábyrgð í þessu ákvæði laganna né öðrum ákvæðum þeirra eða annarra laga. Ljóst megi vera samkvæmt þessu að sú ábyrgð byggingarstjóra, sem honum er samkvæmt þessu skylt að tryggja sig fyrir, snúi eingöngu að faglegri framkvæmd við verkið. Hans hlutverk sé að sjá til þess að framkvæmdir á byggingarstað séu lögmætar og í samræmi við samþykktar teikningar og að tilskilin leyfi liggi fyrir frá þar til bærum yfirvöldum. Ábyrgðarsvið hans sé þannig lögum samkvæmt bundið við þá framkvæmd sem hann hefur umsjón með. Orðalag 3. mgr. 51. gr. laganna verði ekki skilið með öðrum hætti en svo að inntak ábyrgðarinnar felist í þessu og engu öðru. Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 sé að finna ákvæði um byggingarstjóra og þá tryggingu sem hann skal hafa. Sé fjallað um trygginguna í 33. gr., þar sem tekið sé fram að byggingarstjóri skuli hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem getur leitt af gáleysi í starfi hans. Nánar sé síðan kveðið á um það hvernig hann geti uppfyllt tryggingarskyldu sína og þá m.a. með kaupum á starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Þá sé í greininni fjallað um fjárhæð tryggingarinnar og hver hún skuli að lágmarki vera og að krefjast megi frekari trygginga ef framkvæmdir eru umfangsmiklar. Loks segi svo í ákvæðinu að skilmálar vegna trygginga skuli kynntir umhverfisráðuneytinu áður en þeir eru boðnir viðkomandi aðilum og sé um vátryggingu að ræða skuli þeir jafnframt kynntir Vátryggingaeftirliti. Af tilvitnuðum reglugerðarákvæðum verði ekki annað ráðið en að tryggingin skuli bæta tjón sem verður vegna gáleysis byggingarstjóra við að stýra framkvæmdum og sjá til þess að byggt sé eftir samþykktum teikningum o.s.frv., sbr. í þeim efnum 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda verði að gera ráð fyrir að það ákvæði sé heimildarákvæði 33. gr. reglugerðarinnar. Byggingarstjóra beri því lögum samkvæmt að kaupa sér tryggingu vegna tjóns sem á hann kann að falla vegna þeirra verkefna sem honum ber að sjá um sem byggingarstjóri, eins og það verksvið er skilgreint í laga- og reglugerðarákvæðum samkvæmt framansögðu. Honum beri ekki skylda til að kaupa sér tryggingu vegna annars. Undir trygginguna falli því eingöngu tjón sem verður þegar hann hefur ekki staðið sig sem skyldi sem byggingarstjóri og ekki uppfyllt þær skyldur um umsjón og eftirlit sem 3. mgr. 51. gr. laganna leggur honum á herðar. Tilvísun í „fjárhagstjón“ í reglugerðarákvæðinu breyti þessu ekki og geti ekki leitt til þess að líkamstjón falli undir trygginguna, enda sé ekki kveðið á um það í lögunum, sem eru grundvöllur reglugerðarinnar, að tryggingin eigi að ná yfir slíkt tjón.  Hafi starfsábyrgðartryggingin einnig átt að taka til líkamstjóns hefði það þurft að koma skýrt fram í lögunum sjálfum. Reglugerðarákvæðið eitt og sér breyti ekki skýru ákvæði laganna, enda alls ekki hægt að skilja hið tilvitnaða orð með þeim hætti að þar undir falli líkamstjón. Slíkt reglugerðarákvæði hefði þá ekki lagastoð og væri þar með ólögmætt. Í raun sé ekki í lögunum kveðið á um að um nánari útfærslu tryggingarinnar skuli mælt í reglugerð nema með mjög almennum hætti, sbr. 37. gr. skipulags- og byggingarlaga. Þar sé reyndar ekkert minnst á starfsábyrgðartrygginguna, eingöngu að kveða skuli nánar á um réttindi og skyldur byggingarstjóra í reglugerðinni. Reglugerðarheimildin að því er varðar trygginguna sé því mjög takmörkuð og geti alls ekki sagt til um bótasvið hennar umfram það sem lögin sjálf kveða á um og alls ekki víkkað það út eins og stefnandi telur vera. Er þá bent á að í 3. mgr. 51. gr. laganna komi ekki fram að kveða skuli á um réttindi og skyldur byggingarstjóra með reglugerð eða að þar skuli nánar kveða á um þá starfsábyrgðartryggingu sem byggingarstjóra ber að hafa eða hvert skuli vera bótasvið hennar. Loks er um þennan þátt máls tekið fram að ef fallist yrði á túlkun stefnanda samkvæmt framansögðu leiði af því að undanskilið sé tjón sem verður á ófjárhagslegum hagsmunum, þ.e. þjáninga- og miskabætur. Styðji það enn frekar að skilningur stefnanda hvað þetta varðar fái ekki staðist.

Komi til þess að litið verður svo á að líkamstjón falli undir bótasvið byggingarstjóratryggingarinnar byggist sýknukrafa stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. á því að umrætt slys verði ekki rakið til saknæmrar háttsemi af hálfu stefnda B í störfum hans sem byggingarstjóri. Eins og þegar hefur verið gerð grein fyrir sé umrædd trygging starfsábyrgðartrygging sem taki yfir tjón sem rekja megi til vanrækslu byggingarstjóra á skyldum sem lagðar eru á hann samkvæmt 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga, þ.e. að hafa ákveðna umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Augljóst sé af ákvæðinu að með því sé löggjafinn ekki að kveða á um tryggingarskyldu byggingarstjóra vegna annars en þar er skýrt kveðið á um, sbr. umfjöllun hér að framan um inntak ábyrgðarinnar og faglegt ábyrgðarsvið byggingarstjóra. Til að tjón bætist úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra verði því að vera hægt að rekja það til þess að byggingarstjórinn hafi vanrækt skyldur sínar með einhverjum hætti, þ.e. hann hafi ekki gætt þess að byggt væri í samræmi við samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir, sbr. tilvitnað lagaákvæði. Starfsábyrgðartrygging byggingarstjórans taki þannig ekki til þess ef starfsmaður verður fyrir vinnuslysi á vinnustaðnum. Um það gildi önnur svið lögfræðinnar. Ábyrgð byggingarstjóra geti vissulega verið víðtækari en leiðir af ákvæðinu, en sú ábyrgð byggist þá á öðrum grundvelli og falli ekki undir starfsábyrgðartrygginguna. Hann geti til að mynda orðið ábyrgur samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni og þannig borið ábyrgð á líkamstjóni sem rekja má til þess að hann hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem lög nr. 46/1980 leggja á hann. Slíkt tjón verði hins vegar ekki rakið til brota á eftirlitsskyldum hans sem byggingarstjóri og bætist ekki úr lögbundinni starfsábyrgðartryggingu hans. Gildissvið starfsábyrgðartryggingar eins og það er afmarkað í skilmálum tryggingarfélaganna sé í samræmi við umfang ábyrgðar byggingarstjóra samkvæmt 3. mgr. 51. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í þeim lögum sé kveðið á um tryggingarskyldu og því eðlilegt að bótasvið tryggingarinnar afmarkist við það ákvæði sem miðar almennt að því að tryggja að tækni- og fagkröfur séu uppfylltar, meðan ákvæðum vinnuverndarlaga sé ætlað að tryggja öryggi þeirra sem starfa á verkstað. Brot á þessum reglum fari alls ekki saman.  Tjón það sem stefnandi varð fyrir hafi ekki komið til vegna þess að stefndi B hafi sem byggingarstjóri vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu í því starfi. Stefnandi hafi í það minnsta ekki sýnt fram á neitt slíkt. Ekki sé því fyrir að fara bótarétti til handa stefnanda úr byggingarstjóratryggingu stefnda hjá hinu stefnda félagi og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna félagið af kröfum stefnanda.

Verði ekki fallist á kröfu stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. um sýknu á grundvelli framangreindra röksemda að því er tekur til kröfu stefnanda um rétt hans til skaðabóta úr starfsábyrgðartryggingu stefnda B byggir félagið sýknukröfu sína í þeim þætti málsins á því að slys stefnanda verði ekki rakið til neinnar saknæmrar háttsemi af hálfu stefnda. Sýknukrafa hvað varðar stefnda D er einnig byggð á því að ósannað sé að slysið megi rekja til saknæmrar háttsemi hans. Af því leiði að stefnandi geti ekki átt rétt til bóta úr ábyrgðartryggingu hans hjá félaginu. Að því er framangreint varðar er vísað til eftirfarandi röksemda, sem almennt eiga við um saknæmi. Í upphafi er tekið fram að hér eigi við almennar sönnunarreglur. Í því felist að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að slysið megi rekja til einhverra atvika sem stefndu B og D geti borið ábyrgð á lögum samkvæmt. Einnig hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda varðandi það að hann hafi sjálfur enga ábyrgð borið á því að hann slasaðist. Stefnandi byggi á því að stefndu B og D, saman með stefnda C, beri óskipta ábyrgð gagnvart stefnanda á því að stefnandi féll í grunn viðbyggingarinnar. Grundvalli stefnandi málatilbúnað sinn á því að stefndu hafi allir sýnt af sér saknæma háttsemi og séu þannig allir ábyrgir samkvæmt sakarreglunni. Hin meinta saknæma háttsemi stefndu sé nánar tiltekið talin felast í því að aðstæður við sumarhúsið hafi verið óforsvaranlegar og hættulegar þar sem þess hafi ekki verið gætt að varna því að hægt væri að ganga út um dyr á austurhlið hússins, umferð um pallinn á þeirri hlið hafi ekki verið hindruð, steypustyrktarjárn hafi staðið upp úr grunninum og engar öryggismerkingar eða viðvaranir um hættu hafi verið settar upp. Stefndu mótmæla því alfarið að hafa sýnt af sér saknæma háttsemi með framangreindum hætti. Fyrir liggi að ósannað sé með öllu hvernig stefnandi féll í grunninn og hvar hann var staðsettur þegar það gerðist. Stefnandi haldi því fram í stefnu að eingöngu komi tveir staðir til álita, þ.e. að hann hafi annaðhvort fallið út um dyrnar á austurhlið hússins eða fallið af pallinum sem lá þar meðfram. Að mati stefndu verði engu slegið föstu um þetta. Þannig liggi það til að mynda fyrir samkvæmt vettvangsskýrslu lögreglu að dyr á austurhlið hússins hafi verið lokaðar þegar lögregla kom á staðinn skömmu eftir að slysið varð og að golfpokar sem komið hafði verið fyrir til að hindra aðgengi að þeim að innanverðu hefðu verið á sínum stað. Hurðin hafi að auki verið læst. Með þessum ráðstöfunum hafi þess verið nægilega gætt að ekki væri gengið um dyrnar á austurhlið hússins. Því sé einnig alfarið mótmælt að ekkert hafi verið gert til að koma í veg fyrir fall af pallinum ofan í grunninn eða að nauðsynlegt hafi verið að hindra það alveg að hægt væri að ganga um pallinn meðfram austurhlið hússins. Fyrir liggi að sett hafi verið upp girðing báðum megin við opið sem myndaðist þegar tekið var úr pallinum vegna framkvæmdanna og af myndum af vettvangi sé ekki annað að sjá en að hún hafi verið áþekk þeirri girðingu sem er umhverfis pallinn og jafnvel ívið hærri. Stefndu mótmæla því einnig að saknæmi þeirra geti falist í því að hafa ekki gert ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu af steypustyrktarjárnum og að hafa ekki komið fyrir öryggismerkingum og hættuviðvörunum. Fullkomlega eðlilega hafi verið staðið að framkvæmdum við umræddan grunn og engar reglur brotnar í því sambandi, en sönnunarbyrðin um hið gagnstæða hvíli í einu og öllu á stefnanda. Við mat á saknæmi sé ekki hægt að líta fram hjá því að stefnandi þekkti vel til á staðnum og til þeirra framkvæmda sem þar voru í gangi, enda sjálfur tekið þátt í þeim, m.a. daginn áður en slysið varð. Stefnandi hafi þannig haft fulla vitneskju um það að tekið hafði verið úr pallinum og hvernig frágangi við pallinn og hurðina var háttað og í hvaða tilgangi golfpokarnir höfðu verið settir fyrir hurðina að innanverðu. 

Svo sem fram er komið grundvallar stefnandi kröfu sína á hendur stefnda D annars vegar á því að hann hafi sem verkkaupi brotið gegn 4. gr. reglna nr. 547/1996 þar sem ráðstafanir til að tryggja að ekki væri gengið um dyrnar á austurhlið hússins hefðu ekki verið nægjanlegar. Hins vegar að honum hafi sem eiganda fasteignarinnar verið skylt að koma í veg fyrir að þeir sem áttu erindi að vinnusvæðinu yrðu fyrir tjóni. Þessu er alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Eins og þegar hafi verið ítarlega rakið sé ljóst af rannsókn lögreglu á vettvangi að þess hafi verið gætt með fullnægjandi hætti að ekki væri gengið um umræddar dyr og að aðstæður allar hafi þar verið með þeim hætti að telja verði ólíklegt að stefnandi hafi farið þar um. Þá hafi girðing verið sett upp báðum megin þar sem tekið hafði verið úr pallinum. Ekkert liggi fyrir í málinu um að þær girðingar hafi á einhvern hátt verið vanbúnar. Þá liggi ekki annað fyrir en að framkvæmdirnar sjálfar hafi verið með eðlilegum og forsvaranlegum hætti. Það sé því með öllu ósannað að umbúnaður við húsgrunninn vegna framkvæmdanna hafi á einhvern hátt verið óforsvaranlegur, svo sem stefnandi heldur fram, og hafi sem slíkur átt þátt í falli hans. Er þá jafnframt áréttað að stefnandi hafi verið þaulkunnugur aðstæðum, enda um sumarhús foreldra hans að ræða, og hann hafi verið þátttakandi í þeim framkvæmdum sem þar voru í gangi. Hann hafi því verið fyllilega upplýstur um allar aðstæður, bæði við hurðina, pallinn og grunninn sem og þær ráðstafanir sem gerðar höfðu verið til að koma í veg fyrir að dyrnar á austurhlið hússins væru notaðar.

Í málatilbúnaði stefnanda á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna ábyrgðartryggingar sem stefndi D var með hjá félaginu er vísað til sömu sjónarmiða og saknæmi stefnda D grundvallast á samkvæmt framansögðu, enda verði réttur til skaðabóta úr tryggingunni fyrst virkur ef sök vátryggingartaka er sönnuð.  Eins og þegar hefur verið rakið liggi sú sök ekki fyrir og breyti þá engu hvort stefnandi féll út um dyrnar á austurhlið hússins eða af pallinum. Ekkert liggi heldur fyrir um það hvort stefnandi féll út um dyrnar eða af pallinum. Sé í raun algjörlega ósannað með hvaða hætti stefnandi féll í grunninn. Þannig liggi ekki fyrir að einhver annar en stefnandi sjálfur geti borið ábyrgð á fallinu.

Eins og þegar hefur verið lýst byggir hið stefnda tryggingafélag sýknukröfu sína á því að meint saknæm háttsemi stefnda B falli ekki undir starfsábyrgðartryggingu hans sem byggingarstjóra og því geti stefnandi ekki átt bótarétt úr þeirri tryggingu hjá félaginu. Verði ekki á þetta fallist er öllum rökum og sjónarmiðum stefnanda um meinta saknæma háttsemi stefnda mótmælt. Þegar hafi verið gerð grein fyrir að ekki geti verið um að ræða brot á starfsskyldum byggingarstjóra og vísast til umfjöllunar um það. Vegna tilvísunar til ábyrgðar stefnda sem húsasmíðameistari, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga, falli það starf sem slíkt ekki undir byggingarstjóratrygginguna, enda taki hún eingöngu til þess þegar hann starfar sem byggingarstjóri. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi brotið gegn tilteknum ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerða nr. 441/1998 og nr. 547/1996.  Sé hér um að ræða ákvæði um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Um þetta sé fyrst til þess að líta að tilvitnuð ákvæði eiga fyrst og fremst við um vinnustaði og séu sett til verndar þeim sem þar vinna á meðan þeir eru við vinnu. Markmið þeirra sé að tryggja öryggi starfsmanna þegar vinna er í gangi en ekki að vinnustaður sé nægilega varinn fyrir utanaðkomandi. Þegar af þeirri ástæðu geti skaðabótaábyrgð stefnda ekki grundvallast á því að umrædd ákvæði vinnuverndarlöggjafarinnar hafi verið brotin. Ekkert liggi heldur fyrir um það að aðstæður á vinnustaðnum hafi verið óforsvaranlegar eða ekki gætt að aðbúnaði þar eða hollustuháttum í skilningi 37. gr., sbr. 42. gr., laga nr. 46/1980 eins og stefnandi heldur fram.  Geri stefnandi enda enga grein fyrir því í stefnu með hvaða hætti hafi verið brotið gegn þessum ákvæðum, en almenn tilvísun til þeirra dugi ekki til sakarábyrgðar. Þá megi draga í efa að stefndi hafi í umrætt sinn getað talist atvinnurekandi í skilningi laganna eða haft með höndum atvinnustarfsemi, sbr. 90. gr. laga nr. 46/1980, þar sem hér hafi verið um að ræða eina tiltekna framkvæmd og fjölskyldutengsl milli aðila og stefnandi þannig séð ekki í vinnu hjá stefnda.

Stefnandi vísar í stefnu til ákvæða reglugerða sem hann telur að stefndi hafi brotið gegn með saknæmum hætti. Þessu er alfarið mótmælt. Þannig er því í fyrsta lagi mótmælt að á stefnda hafi hvílt skylda til að setja upp einhver þau merki sem 3. gr. reglna nr. 707/1995 kveður á um, enda komi fram í ákvæðinu að þau skuli eingöngu setja upp ef ekki er hægt að draga úr hættu með almennum varúðarráðstöfunum, aðferðum eða leiðum sem tengjast vinnufyrirkomulagi. Fyrir liggi að það hafi einmitt verið gripið til sérstakra ráðstafana sem hentuðu því svæði sem unnið var á og með hliðsjón af fyrirkomulagi vinnunnar og aðstæðum öllum. Þá er því í öðru lagi mótmælt að greinar 1.2., 1.4. og 1.5 í A-hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996, sbr. 8. gr. reglnanna, eigi við í því tilviki sem um ræðir í málinu þannig að á stefnda hafi hvílt einhverjar skyldur að setja upp merkingar og skilti eins og kveðið er á um í gr. 1.4. eða að hafa sérstaka gæslu, sbr. gr. 1.5. Liggi ekkert fyrir um að umrætt svæði hafi verið sérstaklega hættulegt í skilningi ákvæðanna og að sérstakar ráðstafanir hafi verið nauðsynlegar. Er þá enn og aftur á það bent að um var að ræða framkvæmd við sumarhús foreldra stefnanda sem stefnandi sjálfur tók fullan þátt í og var hann því vel kunnugur öllum aðstæðum. Í þriðja lagi er því mótmælt að brotið hafi verið gegn 8. gr. IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um frágang bendijárna. Liggi ekkert fyrir um það í málinu að frágangur á svæðinu hafi verið með óvenjulegum eða óforsvaranlegum hætti. Beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið, en slík sönnun liggi ekki fyrir eða að hvaða leyti frágangur var í ólagi og hvernig hann þá skyldi vera. Í fjórða lagi er því mótmælt að b-liður 27. gr. IV. viðauka reglna nr. 547/1996 geti átt við í málinu, enda eigi það ákvæði við um uppgröft, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu, gangagerð og jarðvegsvinnu. Engin slík vinna hafi verið í gangi á svæðinu í umrætt sinn. Þá fjalli gr. 31.1. í sama viðauka um vinnu á þökum og eigi því ekki við hér.

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli þess sem að framan er rakið byggist sýknukrafan á því að stefnandi verði að bera allt tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar. Byggist það á áralangri dómvenju um brottfall bótaréttar vegna eigin sakar. Samkvæmt gögnum málsins gerðist slysið um nótt og liggi fyrir að stefnandi hafði drukkið áfengi áður en hann lagðist til svefns. Ósannað sé hvernig stefnandi féll í grunninn en fyrir liggur að hann hafi farið á fætur til þess að fara út þótt ekki sé vitað í hvaða tilgangi. Eins og þegar hafi verið rakið í umfjöllun um sakarábyrgð og bótarétt hafi stefnandi sjálfur verið gjörkunnugur öllum aðstæðum á staðnum. Stefnanda hafi því verið kunnugt um að ekki átti að ganga um dyrnar á austurhlið hússins og vitað af hverju golfsettin höfðu verið sett þar fyrir framan. Stefnanda hafi sömuleiðis verið kunnugt um að tekið hafði verið úr pallinum þar sem tengibyggingin skyldi koma og að opið var þar niður í grunninn og girðingar settar þar við beggja vegna. Hafi stefnandi fallið út um þessar dyr hafi hann sýnt af sér gáleysislega hegðun og fyrirgert með öllu bótarétti sínum, enda megi ætla að hann hefði þurft að hafa þó nokkuð fyrir því að komast þar út. Sama eigi við hafi hann fallið af pallinum, en í því tilviki hljóti hann að hafa þurft að klifra yfir girðinguna sem þar var. Að öðru leyti vísast að því er þessa sýknuástæðu varðar til framangreindrar umfjöllunar um saknæmi og bótarétt eftir því sem við á.

 Verði ekki fallist á sýknu byggja stefndu Vátryggingafélag Íslands hf. og D, og eftir atvikum stefndi B ef litið yrði svo á að bótaréttur væri fyrir hendi úr byggingarstjóratryggingu hans hjá félaginu, að skipta beri sök í málinu og leggja stærsta hluta ábyrgðar á slysinu á stefnanda sjálfan vegna eigin sakar hans. Bótaskylda stefnda D og bótaréttur stefnanda úr tryggingum hjá hinu stefnda félagi verði þá aðeins viðurkennd að hluta. Vísað er þessu til stuðnings til sömu sjónarmiða og rakin eru hér að framan vegna eigin sakar.

V

Stefndi B byggir kröfu sýna um sýknu á því að ekkert sé komið fram í málinu sem bendi til skaðabótaábyrgðar hans gagnvart stefnanda. Ekkert liggi fyrir í málinu um það hvernig slysið átti sér stað og sé því ósannað að það megi rekja til athafna eða athafnaleysis stefnda. Skilyrðum sakarreglunnar sé því hvergi nærri fullnægt til að leggja megi skaðabótaábyrgð á stefnda. Þar sem ekki liggi fyrir með hvaða hætti slysið bar að höndum sé ekki unnt að meta sök, orsakatengsl hinnar meintu saknæmu háttsemi við slysið eða hvort slysið hafi verið sennileg afleiðing háttseminnar. 

Eins og fram komi í stefnu byggi stefnandi málatilbúnað sinn á því að hann hafi fallið út um dyr á austurhlið hússins, en viðurkennir þó að ekki sé með öllu ljóst með hvaða hætti hann féll niður í húsgrunninn. Telur stefnandi að það fái með engu móti staðist að hann hafi farið út á pallinn um miðja nótt á nærklæðum einum fata og dottið þaðan yfir upphækkað grindverk á pallinum og niður í grunninn og því hljóti hann að hafa fallið út um dyrnar. Ábyrgð stefnda sé síðan grundvölluð á því að skort hafi á að farið hafi verið eftir ákvæðum laga og reglna um öryggi við byggingarframkvæmdir og því beri stefndi ábyrgð sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari.

Máli sínu til stuðnings bendir stefnandi í fyrsta lagi á að hann telji stefnda hafa átt að koma í veg fyrir að hægt væri að ganga út um dyr sem tengdust út í grunn tengibyggingarinnar á austurhlið sumarhússins. Stefndi heldur því fram að öryggisráðstafanir við umræddar dyr hafi miðað við aðstæður verið fullnægjandi. Þungum golfsettum hafi verið komið fyrir framan við dyrnar, þannig að útilokað var að komast að þeim án þess að færa eða fjarlægja golfsettin fyrst. Að auki hafi dyrnar verið læstar. Hafi umbúnaði verið þannig háttað að óviðkomandi ætti að vera ljóst að ekki væri unnt að ganga um dyrnar og þeim er gjörþekkti aðstæður eins og stefnanda verið ómögulegt annað en að vita hvernig í pottinn var búið. Til þess að falla út um dyrnar hefði hann þurft að fjarlægja golfpokana til að komast að dyrunum, aflæsa síðan hurðinni og opna dyrnar þrátt fyrir að vita hver staðan var fyrir utan þær. Útilokað sé að ætla byggingastjóra og húsasmíðameistara að ganga svo langt í slysavörnum að útiloka með öllu að maður sem er þaulkunnugur aðstæðum og aðsteðjandi hættu geti af ásetningi brotist í gegnum slysavarnir og valdið sjálfum sér tjóni með stórkostlega gáleysislegri háttsemi. Hafi stefnandi dottið út um dyraopið þá sé það alfarið hans eigin sök því honum hafi verið ljós sú hætta sem fylgdi því að fjarlægja þær hindranir er voru í veginum og opna dyrnar. Verði á hinn bóginn talið að öryggisbúnaði við dyr á austurhlið hafi í raun verið ábótavant þá hafi það engin áhrif við mat á sök stefnda því ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi fallið út um dyrnar. Því sé aðeins haldið fram að það sé „með ólíkindum að hann hafi farið út á pallinn um miðja nótt á nærklæðum einum fata“. Af þessu sé síðan dregin sú ályktun að hann hljóti að hafa dottið út um dyraopið. Hér gangi stefnandi út frá þeirri forsendu að hann hafi verið allsgáður og hugsað rökrétt. Engar forsendur séu til þess, svo sem sýnt hafi verið fram á með framlögðum gögnum. Það sé með öðrum orðum ósannað að stefnandi hafi fallið út um dyrnar og niður í grunninn. Ýmislegt í gögnum málsins bendi til hins gagnstæða. Skýrsla E lögreglumanns og ljósmyndir sem hann tók á vettvangi bendi eindregið til þess að stefnandi hafi ekki fallið út um dyraopið. E hafi komið á vettvang þegar enn var verið að hlynna að stefnanda í grunninum. Hann hafi m.a. tekið ljósmynd sem sýni að dyrnar voru lokaðar og golfsettum raðað haganlega fyrir þær. Verði að telja ólíklegt að meðan aðstandendur voru að sinna stefnanda í húsgrunninum hafi einhver þeirra brugðið sér frá til að loka dyrunum og raða golfsettunum upp aftur. Þá sé það mat E samkvæmt skýrslu hans að ólíklegt sé að stefnandi hafi opnað dyrnar og farið fram hjá golfpokunum sem raðað hafði verið fyrir hurðina og fallið þar út án þess að golfpokarnir færðust úr stað. Þá komi einnig fram í skýrslunni að hvorki H, bróðir stefnanda, né I, móðir hans, hafi vitað hvort dyrnar hafi verið opnar eða lokaðar þegar komið var að stefnanda. Hið sama sé haft eftir stefnda D í skýrslu hans hjá lögreglu, svo og að honum fyndist skrýtið að stefnandi hafi farið þar út þar sem nokkrum golfsettum hafi verið komið fyrir framan við dyrnar til að varna því að fólk notaði þær. Enn fremur komi fram í skýrslu E að aðstæður hafi verið með þeim hætti að hafi stefnandi fallið út um dyrnar hefðu þær átt að vera opnar þegar að var komið. Þá megi ljóst vera að nokkur hætta hefur falist í því að teygja sig í hurðarhúninn út um dyraopið til að loka dyrunum. Hafi þeim verið lokað eftir slysið ætti sá sem það gerði að muna eftir því, en hann hafi að auki þurft að koma golfsettunum fyrir að nýju. Verði að teljast ólíklegt að nokkur viðstaddra hafi ráðist í þessar aðgerðir frá því að foreldrum stefnanda og bróður hans varð það ljóst að hann hafði fallið í grunninn og þar til E kom á vettvang, enda allt snúist um að veita stefnanda aðhlynningu. Samkvæmt framangreindu sé ekki aðeins ósannað að stefnandi hafi fallið út um dyraopið á austurhlið hússins heldur sé það líka ólíklegt að slysið hafi borið að með þeim hætti. Það sé því með öllu ósannað að meintur skortur á öryggi við dyrnar á austurhlið hússins hafi átt þátt í því að slysið varð.

Stefnandi telur að stefndi hafi átt að hlutast til um að lokað yrði með öllu fyrir aðgengi að pallinum meðfram austurhlið hússins. Stefndi byggir á því að það sé í samræmi við öryggiskröfur við þær aðstæður sem þarna voru uppi að reisa handrið sem var u.þ.b. eins metra hátt og með hnélista í 50 cm hæð. Óþarft hafi verið að loka fyrir alla umferð um pallinn þegar svo veglegt handrið hafði verið reist. Megi í þessu sambandi m.a. vísa til B-kafla 21. gr. viðauka IV við reglur nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.

Stefnandi heldur því fram að gera hafi átt ráðstafanir til að draga úr hættu vegna steypustyrktarjárna, t.d. með því að beygja þau eða leggja plötur yfir þau. Ekki sé venja við byggingarframkvæmdir né krafa samkvæmt þeim reglum sem stefnandi vísar til að fara út í slíkar aðgerðir þegar samfella er í byggingarframkvæmdum. Það sé aðeins þegar framkvæmdir eru stöðvaðar að ætlast sé til þess að gripið sé til slíkra aðgerða. Það hafi ekki átt við í þessu tilviki þar sem vinna við bygginguna var í fullum gangi og fyrir lá að aðeins var dagaspursmál hvenær slegið yrði upp veggjum ofan á járnin sem stefnandi féll á.

Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi vanrækt að setja upp nauðsynlegar öryggismerkingar og hættuviðvaranir. Ekki sé rökstutt hvernig slíkar merkingar hefðu getað komið í veg fyrir slysið. Slíkar ráðstafanir séu almennt gerðar til að vara óviðkomandi við að hætta sé á tilteknum svæðum. Öryggismerkingum og hættuviðvörunum sé almennt ekki ætlað að auka öryggi þeirra sem þaulkunnugir eru staðháttum og er kunnugt um þá staði sem nauðsynlegt er að gæta varúðar á. Rétt sé þó að fjalla í þessu sambandi um  undantekningarákvæði sem stefnandi vísar til og er að finna í 3. gr. reglna um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum nr. 707/1995 þar sem ætlunin sé að merkingar nái til starfsmannanna sjálfra sem eiga þó að þekkja aðstæður á vinnustað. Ákvæðið eigi á hinn bóginn ekki við í þessu máli þar sem það taki aðeins til staða á vinnustað þar sem hætta verður ekki umflúin eða ekki er hægt að draga úr henni með almennum varúðarráðstöfunum eða ráðstöfunum, aðferðum eða leiðum sem tengjast vinnufyrirkomulagi. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar hafi verið gerðar aðrar ráðstafanir og öðrum aðferðum verið beitt og því engin þörf á merkingu eins og þeirri sem reglugerðarákvæðið mælir fyrir um. Tilvísun stefnanda til gr. 2.1.4. í I. viðauka reglnanna hafi hér enga þýðingu, enda hafi ákvæðið ekkert sjálfstætt gildi heldur taki það eingöngu til þeirra aðstæðna sem kveðið er á um í 3. gr. þeirra.

Stefndi hafnar því að við mat á meintri sök hans verði byggt á grein 1.2. í A-hluta viðauka IV í reglugerð nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Ákvæðið mæli fyrir um að ganga skuli svo frá ófullgerðu húsi eða mannvirki að sem minnst hætta stafi af því fyrir óviðkomandi. Þar sem stefnandi geti ekki talist óviðkomandi í skilningi ákvæðisins geti það ekki átt við í þessu máli auk þess sem frágangur hafi verið með þeim hætti að ekki stafaði hætta af fyrir óviðkomandi. Grein 1.4. í sama viðauka eigi einnig við um óviðkomandi umferð. Það ákvæði eigi því ekki heldur við í tilviki stefnanda. Það sama megi segja um grein 1.5. Þar sé jafnframt fjallað um sérstaka gæslu þegar óvenjulegt hættuástand ríkir á verkstað. Það verði að teljast fráleitt að gera kröfu um að stefndi komi upp sérstakri öryggisgæslu við þær aðstæður sem voru á þeim verkstað þar sem slysið varð til að varna því að óviðkomandi lentu í hættulegum aðstæðum.

Að því er varðar tilvísun stefnanda til b-liðar 27. gr. B-hluta viðauka IV í reglugerð nr. 547/1996, en þar er mælt fyrir um sérstakar lágmarkskröfur sem gilda um vinnustaði á byggingarsvæðum, sé það mat stefnda að ákvæðið geti ekki átt við í málinu þar sem það taki til uppgraftar, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu og gangagerð. Verði ekki á þetta fallist verði þær varúðarráðstafanir sem gripið var til allt að einu að teljast viðunandi eftir aðstæðum. Hið sama eigi við um ákvæði greinar 31.1 í sama viðauka, en það fjalli um vinnu á þökum og geti því alls ekki átt við í málinu.

Með vísan til ofangreindrar umfjöllunar fær stefndi ekki séð á hverju ábyrgð hans á tjóni stefnanda verði byggð. Hann hafi fullnægt öllum þeim kröfum og gripið til allra þeirra ráðstafana sem honum hafi verið skylt að grípa til sem byggingarstjóri og húsasmíðameistari til að gætt væri öryggis við byggingarframkvæmdirnar að […]. Breyti þá engu hvort litið sé til þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, byggingarreglugerðar nr. 441/1998, laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 eða þeirra reglna sem stefnandi hefur sérstaklega vísað til. Öryggis hafi verið gætt í hvívetna miðað við aðstæður á verkstaðnum. Þá skipti hér máli að verkið hafi verið unnið af húsasmið sem þeir feðgar, stefnandi, bróðir hans og stefndi D, réðu til að hafa það með höndum. Þá hefðu þeir allir unnið með smiðnum að framkvæmdum. Stefnandi hafi því gjörþekkt aðstæður á verkstaðnum auk þess sem hann hafði dvalið mikið í sumarbústaðnum í gegnum tíðina og því sannarlega verið þar á heimavelli. Hann hafi því best vitað það sjálfur hversu varhugavert var að opna dyr á austurhlið, klifra yfir öryggishandrið eða fara upp á þak yfir austurhluta sumarhússins eins og aðstæður voru meðan á framkvæmdunum stóð. Hættan hafi verið honum ljós, en hann hafi annaðhvort rutt hindrunum úr vegi, klifrað yfir öryggishandrið eða hreinlega upp á þak hússins og komið sjálfum sér í hættu. Ekki sé unnt að ætlast til að einhver annar sem kom að verkinu hafi átt að koma í veg fyrir slíka háttsemi.  Ekki sé vitað hvað í raun gerðist þetta kvöld en verulegar líkur séu á því að orsökina megi finna í verulegri þreytu stefnanda að viðbættu umtalsverðu ölvunarástandi hans sem saman hefðu leitt til sljóvgunar, jafnvægisskorts, minnkaðrar athyglisskerpu og skertrar hreyfigetu. Hann hafi í því ástandi komið sér í þær aðstæður sem leiddu til slyssins og á því geti enginn borið ábyrgð nema hann sjálfur.

Jafnvel þótt litið verði svo á að gera hefði mátt betur þegar kemur að öryggisbúnaði þá liggi ekkert fyrir um það með hvaða hætti slysið varð og því ómögulegt að sanna orsakatengsl á milli þess sem kann að hafa verið ábótavant og slyssins eða að slysið hafi verið sennileg afleiðing þess sem hugsanlega hefði mátt betur fara.

VI

Sýknukröfu sína byggir stefndi C í fyrsta lagi á aðildarskorti. Hann hafi á þeim tíma sem um ræðir í málinu verið launþegi hjá einkahlutafélaginu […] sem starfað hafi að umræddu verki eftir því sem óskað var eftir og án þess að nokkur verksamningur hafi verið gerður við félagið og því síður ráðningarsamningur við stefnda. Framangreindu til staðfestu sé sú staðreynd að reikningar vegna verksins hafi verið gefnir út í nafni félagsins en ekki stefnda. Stefndi hafi þegið greiðslur frá félaginu sem launamaður vegna ýmissa smíðastarfa, meðal annars þeirra er komu til vegna þess verks sem hér um ræðir. Þá sé með engu móti unnt að líta svo á að hann hafi stjórnað verkinu eða haft yfirumsjón með því. Stefnda sé því stefnt í máli þessu þrátt fyrir að ekkert beint réttarsamband sé á milli hans og byggingarstjóra eða eiganda hússins. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á að sýkna beri stefnda sökum aðildarskorts er sýknukrafa hans byggð á því að skilyrði skaðabótaskyldu að því er hann varðar séu hvergi nærri fyrir hendi.

Því sé haldið fram í stefnu að aðstæður á vinnusvæðinu hafi verið óforsvaranlegar. Krafa stefnanda um viðurkenningu á bótaskyldu allra þeirra þriggja einstaklinga sem hann hefur stefnt í málinu sé rökstudd á sama hátt og þannig ranglega talið, svo dæmi sé tekið, að unnt sé að leggja sömu skyldur á byggingarstjóra og launþega hjá félagi sem fengið hafi verið til að annast ýmis störf við framkvæmdirnar án nokkurs samnings við verkkaupa eða byggingarstjóra. Stefndi C hafi hvorki verið verktaki né atvinnurekandi í skilningi laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða á grundvelli annarra laga. Hið rétta sé að stefndi hafi verið launþegi hjá félagi sem fengið var til starfa við framkvæmdirnar án þess að um fast ráðningar- eða verktakasamband hafi verið að ræða. Verði þrátt fyrir þetta komist að þeirri niðurstöðu að stefndi geti á einhvern hátt talist ábyrgur fyrir aðstæðum á vinnustað byggir hann sýknukröfu á eftirfarandi málsástæðum.

Í fyrsta lagi er á því byggt í stefnu að ekki hafi verið komið í veg fyrir að unnt væri að ganga um dyrnar á austurhlið hússins. Hér verði að nefna að hurðin hafi verið með hefðbundinni læsingu auk þess sem golfsett höfðu verið sett fyrir hana til að hindra enn frekar að þessar útgöngudyr yrðu notaðar. Þá beri einnig að vekja sérstaka athygli á því að í áðurgreindri skýrslu E  lögreglumanns sé staðfest að golfsettin hafi verið á sínum stað þegar hann mætti á svæðið. Þá staðfesti skýrslan einnig að hurðin hafi verið læst þegar lögregla kom á vettvang. Að auki komi fram í skýrslunni  að hurðin hafi opnast út á við og í suður en hina umræddu nótt hafi verið norðanátt og sterkur vindstrengur með húsinu. Þegar lögreglumaðurinn opnaði dyrnar hafi strax tekið verulega í hurðina og þegar henni var sleppt hafi hún opnast alveg upp á gátt og haldist þannig opin. Með hliðsjón af öllu framangreindu verði að telja útilokað að stefnandi hafi gengið eða fallið út um umræddar dyr.

Í öðru lagi er á því byggt í stefnu að borið hafi að sjá til þess að ekki væri gengið um pallinn austanmegin við húsið. Stefnandi geri engan reka að því að rökstyðja þessa fullyrðingu nánar og sé hvergi í stefnu bent á skyldu stefnda til þess að grípa til slíkra ráðstafana. Hafi stefnandi átt við lagaskyldu samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum geti það ekki átt við um stefnda þar sem hann hafi verið launþegi en ekki atvinnurekandi í skilningi laganna. Hvað sem þessu annars líður hafi stefndi gert fullnægjandi ráðstafanir vegna þess að tekið hafði verið úr pallinum þar sem tengja átti hús við nýbyggingu og bætt við handriðið á þeim stað.

Í þriðja lagi er á því byggt í stefnu að beygja hefði átt járn sem stóðu upp úr grunnplötu viðbyggingar eða gera aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu sem af járnunum stafaði. Hér verði ekki hjá því komist að taka það fram að fyrir slysið hafi stefndi síðast verið á verkstað föstudaginn 20. nóvember 2009, en hann hafi þá unnið við uppslátt steypumóta og steypuvinnu við grunninn. Daginn eftir hefðu stefnandi, H bróðir hans og faðir þeirra, stefndi D, unnið að því að slá frá steypumótum og hífa þau upp úr grunninum sem stefnandi féll síðan ofan í. Því sé útilokað að stefndi C hafi skilið við vinnusvæðið með óforsvaranlegum hætti líkt og haldið er fram í stefnu, enda hafi hann ekki getað ráðið því hvernig þeir aðilar sem síðast störfuðu á svæðinu skildu við það.

Í fjórða lagi er á því byggt í stefnu að koma hefði átt fyrir nauðsynlegum öryggismerkingum og hættuviðvörunum. Í þessu sambandi beri fyrst að nefna að stefndi hafi ekki borið ábyrgð á því að koma slíkum merkingum fyrir, enda hafi hann ekki átt sjálfstæða aðkomu að umræddu verki. Óháð því verði með engu móti séð hvernig slíkar öryggismerkingar og hættuviðvaranir hefðu afstýrt óhappi því sem stefnandi varð fyrir, enda óumdeilt að stefnandi starfaði þarna sjálfur og vissi fullvel um allar þær hættur sem fyrir hendi voru á vinnusvæðinu.

Með vísan til framanritaðs beri stefndi enga ábyrgð á meintum óforsvaranlegum aðstæðum á vinnustaðnum.

Í stefnu er því haldið fram að stefndi hafi starfað sem smiður við viðbygginguna og hafi verið fenginn til starfans sem verktaki af hálfu meðstefnda B byggingarstjóra. Með vísan til þess sem áður er rakið er þessari fullyrðingu alfarið hafnað.

Þá er því haldið fram í stefnu að stefndi teljist verktaki og þar með atvinnurekandi með vísan til laga nr. 46/1980. Honum hafi því verið skylt að setja upp öryggismerkingar og sjá til þess að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnum. Með vísan til fyrri röksemda sé því hafnað að staða stefnda við framkvæmdirnar hafi verið sú sem stefnandi gengur samkvæmt þessu útfrá. Verði engu að síður talið að stefnda hafi borið skylda til að setja upp umræddar öryggismerkingar og ganga frá steypustyrktarjárnum með öðrum hætti en gert var byggir hann á eftirfarandi málsástæðum. Um fyrra atriðið og eftir atvikum skyldu stefnda til að viðhafa sérstaka gæslu á vinnusvæðinu beri annars vegar að nefna að engin athafnaskylda hafi hvílt á stefnda sem launþega. Hins vegar sé á því byggt að skortur á framangreindum öryggisráðstöfunum geti ekki talist hafa haft nokkur áhrif á það hvernig slysið atvikaðist. Í því sambandi er sérstök athygli vakin á eftirfarandi. Tilgangur þess að gert er ráð fyrir uppsetningu öryggismerkinga, sbr. lög nr. 46/1980, sbr. og reglugerð nr. 707/1995, sé sá að sem minnst hætta stafi af framkvæmdarsvæði fyrir óviðkomandi. Ekki sé unnt að líta á stefnanda sem  óviðkomandi í framangreindum skilningi eða að hann hafi verið ókunnugur þeim hættum sem fyrir hendi voru á vinnusvæðinu. Þvert á móti hafi stefnanda verið fullkunnugt um allar aðstæður þar, enda hafi hann komið að framkvæmdum daginn áður. Með hliðsjón af framangreindu sé í öllu falli ljóst að skortur á öryggismerkingum hafi engin áhrif haft með tilliti til mögulegrar skaðabótaskyldu stefnda, enda sé það fjarri lagi að fyrir liggi að orsakatengsl séu á milli skorts á umræddum merkingum og tjóns stefnanda. Varðandi þá fullyrðingu stefnanda að stefnda hafi verið skylt að sjá til þess að ekki stafaði hætta af steypustyrktarjárnum vísar stefndi til þess að hann hafi í ljósi stöðu sinnar enga slíka skyldu borið. Þar við bætist að hann hafi ekki skilið við vinnusvæðið í óforsvaranlegu ástandi. Áréttar hann í því sambandi að fyrir slysið hafi hann síðast verið á verkstað föstudaginn 20. nóvember 2009 en að stefnandi, bróðir hans og faðir þeirra hafi verið þar við störf daginn eftir. Stefndi hafi því ekki getað ráðið því hvernig skilið var við svæðið þegar menn voru síðast við vinnu þar fyrir slysið.

Í stefnu er því haldið fram að á stefnda hafi hvílt sú skylda að tryggja að ógerlegt væri að ganga um dyrnar á austurhlið sumarhússins. Þessu hafnar stefndi og áréttar í því sambandi að staða hans við framkvæmdirnar hafi það í för með sér að slík skylda verði með sama hætti og aðrar skyldur samkvæmt framansögðu ekki á hann lögð. Verði ekki á það fallist bendir stefndi á að hurðin hafi verið læst og golfsettum að auki komið fyrir framan við hana að innanverðu. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um ástæður þessa. Auk þessa verði að telja það útilokað að stefnandi hafi gengið út um umræddar dyr og dottið þaðan ofan í grunn viðbyggingarinnar. Vísar stefndi hvað það varðar til þess sem áður er rakið.

Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að hvað sem líður mögulegri skyldu stefnda til að tryggja að ekki væri unnt að ganga um umræddar dyr geti hún enga þýðingu haft við úrlausn um skaðabótaskyldu hans, enda sé ekki unnt að líta svo á að orsakatengsl séu á milli þess að skyldunnar var ekki gætt og tjóns stefnanda.

Sýknukröfu sína byggir stefndi loks á því að á grundvelli eigin sakar stefnanda verði hann að bera tjón sitt sjálfur. Stefnanda hafi verið fullkunnugt um allar aðstæður á og við slysstað, enda hafi hann starfað þar við smíði viðbyggingarinnar, síðast daginn áður en slysið varð. Hann hafi sýnt vítavert gáleysi í aðdraganda slyssins og beri þannig sjálfur sök á því líkamstjóni sem hann varð fyrir. Breyti þá engu hvar stefnandi var nákvæmlega staddur þegar hann datt. Hin gáleysislega hegðun stefnanda verði einna helst skýrð með því að hann hafi verið drukkinn þegar slysið varð. Hvað sem öllu öðru líður sé mögulegur bótaréttur hans því fallinn niður. Er og sérstaklega áréttað að í öllu falli sé það ósannað með hvaða hætti slysið bar að höndum. Stefnandi hafi í því sambandi ýjað að því að verið geti að hann hafi gengið í svefni í umrætt sinn. Það sé ekki unnt að útiloka frekar en margt annað. Hafi það verið reyndin sé bótaábyrgð stefndu og þar með bótaréttur stefnanda ekki fyrir hendi, enda séu óhappatilvik ekki skaðabótaskyld samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar.

VII

                Svo sem fram er komið hefur stefnandi höfðað mál þetta vegna alvarlegs líkamstjóns sem hann varð fyrir aðfaranótt sunnudagsins 22. nóvember 2009 þegar hann féll niður á grunnplötu viðbyggingar sem verið var að reisa við sumarhús föður hans, stefnda D, að […]. Hann var þá 37 ára og er […] að mennt. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefndu vegna afleiðinga slyssins.

Í málinu liggur fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns, G, prófessors emeritus, sem hann hefur staðfest fyrir dómi, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að það sé algerlega hafið yfir skynsamlegan vafa að stefnandi hafi fallið niður í grunninn frá dyrum á austurhlið sumarhússins og ekki eftir neinni annarri leið. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt með yfirmati og stefndu hafa ekki með öðru móti teflt fram haldbærum rökum gegn niðurstöðu hennar. Er þess þá sérstaklega að gæta að í skýrslugjöf foreldra stefnanda og bróður hans við aðalmeðferð málsins kom fram að dyrnar á austurhlið hússins hafi verið opnar þegar komið var að stefnanda og að golfsett, sem stillt hafði verið upp framan við hurðina að innanverðu í þeim tilgangi að varna því að gengið yrði út úr húsinu á þessum stað, hafi legið á hliðinni. Dyrunum hafi verið lokað og golfsettunum komið fyrir að nýju áður en lögregla kom á staðinn. Þótt frásögn í þessa veru hafi samkvæmt gögnum málsins fyrst komið fram á fundi með matsmanni 16. janúar 2012, en í fundargerð er haft eftir stefnda D að dyrnar fyrir ofan slysstaðinn hafi verið opnar þegar hann og H sonur hans komu heim um nóttina, þykja ekki vera efni til að virða að vettugi framangreinda lýsingu aðila og vitna á aðstæðum á vettvangi. Er með vísan til þessa komin fram fullnægjandi sönnun varðandi það hvaðan stefnandi féll niður í grunninn. Tildrög þess eru á hinn bóginn ókunn. Í fallinu lenti stefnandi á steypustyrktarjárnum sem stóðu óvarin upp úr undirstöðum viðbyggingarinnar. Hlaut hann margvíslega áverka og er lamaður fyrir neðan brjóst af völdum slyssins.  

Sú meginregla gildir í íslenskum rétti að sá sem krefst skaðabóta þarf að sanna að fjárhagstjón sem hann verður fyrir verði rakið til háttsemi sem sé skaðabótaskyld að lögum og að tjónið sé afleiðing af þeirri háttsemi. Stefnandi reisir kröfugerð sína á sakarreglunni, en samkvæmt henni ber maður skaðabótaábyrgð á tjóni sem hann veldur með saknæmum og ólögmætum hætti. Byggir stefnandi á því að slysið verði rakið til óforsvaranlegra aðstæðna á og við framkvæmdasvæðið að […] og að á því beri stefndu B, C og D sameiginlega ábyrgð og séu þar með bótaskyldir gagnvart honum. Þessu til stuðnings hefur stefnandi vísað til þess að stefndu hafi með háttsemi sinni, athöfn eða athafnaleysi, farið á svig við tilgreind ákvæði laga og almennra stjórnvaldsfyrirmæla, en þau eru tíunduð og grein gerð fyrir efni þeirra í III. kafla dómsins. Þá tekur kröfugerð stefnanda til þess að honum beri réttur til bóta úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra, sem stefndi B hafði á slysdegi hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf., og ábyrgðartryggingu húseigandans, stefnda D, hjá félaginu.

                Sýknukrafa stefnda C er meðal annars byggð á því að hann hafi ekki haft þá stöðu við umræddar framkvæmdir að hann geti talist ábyrgur fyrir aðstæðum á vinnusvæðinu eða í næsta nágrenni við það. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að stefndi eða einkahlutafélag í eigu hans hafi sem verktaki tekið að sér að reisa kjallara viðbyggingarinnar að […] eða að smíði hans geti með öðrum hætti talist hafa verið á forræði þeirra. Hvað sem þessu líður gat hvílt á stefnda skylda samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra til að gæta öryggis þeirra sem voru við störf við smíði viðbyggingarinnar. Í ljósi þess sem fyrir liggur í málinu um slysið og aðkomu stefnda að framkvæmdum, óháð málsástæðu hans um aðildarskort, hefur stefnandi á hinn bóginn ekki rennt viðhlítandi stoðum undir þann grundvöll kröfugerðar sinnar á hendur honum að aðstæður á svæðinu hafi umfram þetta verið á hans ábyrgð. Er með vísan til þessa fallist á framangreinda málsástæðu stefnda og hann þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum stefnanda.

Þegar tekin er afstaða til mögulegrar bótaskyldu stefndu D og B er til þess að líta að þau lög og almennu stjórnvaldsfyrirmæli, sem vísað hefur verið til af hálfu stefnanda til stuðnings dómkröfum hans, lúta einkum að því að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi, sbr. t.d. í þeim efnum 1. gr. laga nr. 46/1980. Þetta er síðan áréttað í 13. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um það að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Sú vernd sem þessum réttarreglum er ætlað að skapa er þó ekki bundin við þá sem sinna störfum á vinnustað þótt eðli máls samkvæmt sé það höfuðtilgangur þeirra. Þær taka þannig í ýmsum greinum til þeirra sem kunna að eiga leið um vinnustað eða vinnusvæði af öðrum ástæðum. Þessi aðgreining hefur þýðingu fyrir úrlausn málsins í ljósi þess að ekki var um vinnuslys að ræða. Við sakarmat reynir þannig með tilliti til réttarreglna einvörðungu á ákvæði laga og almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem átt geta við þegar slys á vinnusvæði eða í næsta nágrenni við það ber að höndum við aðrar kringumstæður.

Ganga verður út frá því að stefnandi hafi verið þaulkunnugur aðstæðum á slysstað. Um er að ræða sumarhús í eigu foreldra hans og hann hafði verið við störf í viðbyggingunni daginn áður en slysið varð. Var hann fyllilega upplýstur um allar þær aðstæður á framkvæmdasvæðinu sem hér skipta máli og þær ráðstafanir sem gerðar höfðu verið til að koma í veg fyrir að dyrnar á austurhlið hússins væru notaðar. Þeim ráðstöfunum er að hluta til áður lýst, en þess skal hér getið að samkvæmt ljósmyndum hafði golfkerru og tveimur golfpokum með kylfum í verið komið fyrir framan við hurðina að innanverðu í þessum tilgangi. Er ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að búið hafi verið að raska þessum aðstæðum þegar stefnandi átt leið þarna um. Verður þannig við það að miða að hann hafi fjarlægt þær hindranir sem búið var að koma fyrir eða rutt þeim úr vegi og opnað dyrnar eftir að hafa tekið hurðina úr lás.

Við sakarmat í málinu er þess að gæta að sakarreglan getur verið afstæð, þ.e. ekki er víst að allir tjónþolar verði meðhöndlaðir eins í skaðabótaréttarlegu tilliti. Staða tjónþola getur þannig haft áhrif á rétt hans til skaðabóta. Er þá ekki eingöngu átt við tilvik þar sem háttsemi tjónþola veldur því að hann verður talinn hafa valdið tjóni sínu sjálfur að einhverju leyti eða öllu og beri því ábyrgð í samræmi við reglur um meðábyrgð tjónþola. Tilvik sem hér eru til athugunar eru þau þegar tjónþoli er meðvitaður um tjónshættu og á auðveldlega að geta varast hana. Þegar þannig háttar til er sú aðstaða fyrir hendi að meiri kröfur þurfi að gera til þess að háttsemi tjónvalds teljist saknæm en ella hefðu verið gerðar. Hafa þau rök verið færð fyrir þessu að sakarreglan eigi að veita vernd gegn óvæntu og ófyrirséðu tjóni en ekki tjóni sem tjónþolinn gat vel séð fyrir og búið sig undir. Í ljósi þess að stefnandi gjörþekkti aðstæður og var vel meðvitaður um þá hættu sem var samfara því að opna dyrnar á austurhlið hússins og að virtum atvikum að öðru leyti er það mat dómsins að stefnandi geti ekki með réttu grundvallað kröfu sína um skaðabætur úr hendi stefndu B og D á því að þeim hafi verið skylt að ganga svo langt í slysavörnum sem málatilbúnaður hans á hendur þeim tekur mið af. Telst því að mati dómsins hafa verið gripið til ráðstafana sem teljast viðhlítandi og forsvaranlegar með tilliti til mögulegrar sakarábyrgðar gagnvart stefnanda. Er því með vísan til þessa hafnað að slys stefnanda verði rakið til sakar þessara stefndu. Án þess að annað þurfi til að koma leiðir af þessu að sýkna ber stefndu og stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. af kröfum stefnanda í málinu.

Fyrir liggur að þegar komið var með stefnanda á sjúkrahús í Reykjavík var áfengismagn í blóði hans 28,8 mmól/l, eða yfir 1,20‰. Af gögnum málsins verður ráðið að þá hafi að minnsta kosti verið liðnar tvær klukkustundir frá því að hann slasaðist. Stefnandi hefur skýrt svo frá að hann hafi neytt áfengis um kvöldið, en lýsing hans á þeirri neyslu fær ekki samrýmst framangreindri niðurstöðu á rannsókn á blóðsýni úr honum. Þykir í öllu falli mega slá því föstu að hann hafi verið undir áfengisáhrifum þegar slysið varð og að orsakir þess verði að hluta til raktar til þess. Af þessu og vitneskju stefnanda um aðstæður á vettvangi slyssins samkvæmt framansögðu leiðir að mati dómsins að það verði rakið til aðgæsluleysis hans sjálfs og að hann þyrfti hvað sem öðrum sýknuástæðum líður að bera tjón sitt sjálfur á grundvelli eigin sakar.

Samkvæmt öllu framansögðu eru stefndu sýknaðir af kröfum stefnanda.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda C málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. Að öðru leyti skal málskostnaður falla niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 2.635.500 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Viðari Guðmundssyni prófessor.

D ó m s o r ð

                Stefndu, D, B, C og Vátryggingafélag Íslands hf., eiga að vera sýkn af kröfum stefnanda, A.

                Stefnandi greiði stefnda, C, 400.000 krónur í málskostnað, en að öðru leyti fellur málskostnaður niður.

                Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 2.635.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.