Hæstiréttur íslands

Mál nr. 732/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samlagsaðild
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Föstudaginn 27. nóvember 2015.

Nr. 732/2015.

Reykjafell hf. og

Alviðruhóll ehf.

(Sigríður Dís Guðjónsdóttir hdl.)

gegn

Deloitte ehf. og

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Arion banka hf.

(Andri Árnason hrl.)

Kærumál. Samlagsaðild. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli R hf. og A ehf. var vísað frá dómi. Byggðu félögin á því að D ehf. og A hf. hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti veitt sér ranga og ófullnægjandi ráðgjöf við svonefndan öfugan samruna tveggja félaga. Hefði hin saknæma háttsemi leitt til tjóns sem D ehf. og A hf. bæru ábyrgð á. Í málinu gerðu fyrrnefnd félög sameiginlega fjárkröfu á hendur þeim síðarnefndu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt R hf. og A ehf. væru tengd félög væri ekki um að ræða réttindi sem væru óskipt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þvert á móti væri um að ræða sjálfstæðar skaðabótakröfur hvors félags um sig. Var því lagt til grundvallar að R hf. og A ehf. hafi með málshöfðun sinni nýtt sér heimild 1. mgr. 19. gr. laganna til aðilasamlags. Bar þeim því hvorum fyrir sig að gera sjálfstæða fjárkröfu á hendur D ehf. og A hf. Þar sem svo var eigi gert var hinn kærði úrskurður staðfestur þegar af þeirri ástæðu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. október 2015, sem barst réttinum degi síðar, en kærumálsgögn bárust 9. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. október 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðuðu sóknaraðilar mál þetta 30. desember 2014 á hendur varnaraðilum. Krefjast sóknaraðilar þess aðallega að varnaraðilar greiði sér 199.059.935 krónur, en til vara 134.674.803 krónur, hvort tveggja með nánar tilgreindum vöxtum. Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisa sóknaraðilar málatilbúnað sinn á því að varnaraðilar hafi með saknæmum og ólögmætum hætti veitt sér ranga og ófullnægjandi ráðgjöf við svonefndan öfugan samruna tveggja félaga, sóknaraðilans Reykjafells hf. og Samtengis ehf., sem fram fór á árinu 2006. Hafi hin saknæma og ólögmæta ráðgjöf leitt til þess tjóns, sem nemi annað hvort þeirri fjárhæð, sem greinir í aðalkröfu eða þeirri sem varakrafa tekur til.

Tildrög málsóknarinnar er að rekja til þess að með úrskurði 14. desember 2011 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld sóknaraðilans Reykjafells hf. vegna gjaldáranna 2007, 2008 og 2009 og með úrskurði 24. febrúar 2012 endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld sóknaraðilans Alviðruhóls ehf. vegna gjaldáranna 2009 og 2010. Telja sóknaraðilar að varnaraðilar beri samkvæmt framansögðu bótaábyrgð á umræddum endurákvörðunum opinberra gjalda hinna fyrrnefndu.

       Í málinu gera sóknaraðilar sameiginlega fjárkröfu á hendur varnaraðilum og eru fjárhæðir í aðalkröfu og varakröfu samtölur þess tjóns sem sóknaraðilar telja sig hafa orðið fyrir vegna áðurnefndra endurákvarðana ríkisskattstjóra. Enda þótt sóknaraðilar séu tengd félög verður ekki talið að réttindi þau, sem mál þetta snýst um, séu óskipt í skilningi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þvert á móti er um að ræða sjálfstæðar skaðabótakröfur hvors sóknaraðila um sig, sem rót sína eiga að rekja til endurákvörðunar opinberra gjalda þeirra á grundvelli tveggja mismunandi úrskurða ríkisskattstjóra. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að sóknaraðilar hafi með málshöfðun sinni nýtt sér heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til aðilasamlags. Bar þeim því hvorum fyrir sig að gera sjálfstæða fjárkröfu á hendur varnaraðilum, sbr. dóma Hæstaréttar 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 og 21. október 2005 í máli nr. 439/2005. Þar sem svo var eigi gert verður hinn kærði úrskurður staðfestur þegar af þeirri ástæðu.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Reykjafell hf. og Alviðruhóll ehf., greiði óskipt varnaraðilum, Deloitte ehf. og Arion banka hf., hvorum um sig 400.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2015.

I.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 21. september 2015, er höfðað 30. desember 2014 af Reykjafelli hf. og Alviðruhóli ehf., Skipholti 35, Reykjavík á hendur Deloitte ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi og Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði gert að greiða stefnendum 199.059.935 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 64.439.420 krónum frá 17. janúar 2012 til 5. mars 2014 en frá þeim degi af 199.059.935 krónum til 22. janúar 2015, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

                Til vara krefjast stefnendur þess að stefndu verði gert að greiða stefnendum 134.674.803 krónur auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 17. janúar 2012 til 5. mars 2014 auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast stefnendur málskostnaðar.

                Stefndi, Arion banki hf., gerir þær dómkröfur, aðallega að öllum dómkröfum á hendur sér verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnenda. Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnenda verði stórlega lækkaðar. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefnenda óskipt, en til vara úr hendi hvors um sig.

                Stefndi Deloitte ehf. krefst þess aðallega að kröfum stefnenda á hendur stefnda verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Til þrautarvara krefst stefndi þess að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda óskipt (in solidum) auk álags, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.

II.

Atvik málsins eru þau að á árinu 2005 ákváðu fjórir fjárfestar, Hannes Þór Helgason, Ottó Eðvard Guðjónsson, Gunnar Viggósson og Þorvaldur Guðmundsson, að kaupa allt hlutafé í stefnanda Reykjafelli hf.

                Þann 15. júní 2005 gerðu greindir einstaklingar (verkaupar) og Sparisjóður Mýrasýslu (Ráðgjafi) með sér samning um ráðgjöf og fjármögnun vegna kaupa á Reykjafelli ehf.

                Í 1. gr. samningsins, sem er með yfirskriftinni markmið/verkefni, kemur fram „Að verkkaupi hyggst gera tilboð í allt hlutafé í Reykjafelli hf. [...] Til að aðstoða sig við ofangreint ferli, hefur verkkaupi falast eftir þjónustu ráðgjafa“

                Í 2. gr. samningsins um Þjónustu ráðgjafa segir að þjónusta ráðgjafa muni meðal annars felast í eftirfarandi: „a) Aðstoð við verðmat og greiningu á félaginu og tillögur um kaupverð. b) Ráðgjöf um aðferðir og leiðir við kaupin. c) Leiða samningaviðræður og samningsgerð milli verkaupa og seljanda. d) Skjalavinnsla vegna kauptilboðs og kaupsamnings. e) Milligöngu milli Sparisjóðs Mýrasýslu og verkkaupa um fjármögnun.“  Í 2. mgr. 2. gr. er talið upp hvað sé undanskilið þjónustu ráðgjafa, sbr. eftirfarandi: „a) Áreiðanleikakönnun á félaginu. b) Lögfræðiráðgjöf til handa verkkaupa vegna samninga og kaupa á félaginu. c) Fjármögnun.“

                Þann 17. ágúst 2005, var fyrirtækið Samtengi ehf. stofnað af fjárfestunum í tengslum við kaupin á Reykjafelli hf. og sátu þeir í stjórn þess. Enginn rekstur var í félaginu og var markmið þess að taka lán og kaupa allt hlutafé í stefnanda Reykjafelli hf. Við kaupin var farin sú leið, að Samtengi ehf. tók þrjú lán hjá Sparisjóði Mýrasýslu (síðar Arion banka hf.) samkvæmt þremur lánssamningum, sem allir eru dagsettir sama dag, þann 26. ágúst 2005.

                Í apríl 2006 var gerð áætlun um samruna Samtengis ehf. og Reykjafells hf. þar sem gert var ráð fyrir að stefnandi Reykjafell hf. yrði yfirtökufélag. Sameiningin miðaðist við 31. desember 2005 og tók stefnandi Reykjafell hf. við eignum og skuldum, réttindum og skyldum Samtengis ehf. frá þeim tíma.

                Stefndi Deloitte ehf. ritaði greinargerð matsmanna vegna samrunans, sbr. 122. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög og 97. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Kemur fram í greinargerðinni að samruninn sé í samræmi við XIV. kafla laga nr. 138/1994 og XIV. kafla laga nr. 2/1995. Þá segir að hlutafé í hinu sameinaða félagi verði lækkað um 20.500.000 kr. vegna jöfnunar á tapi. Hlutaféð í hinu sameinaða félagi verði því eftir samrunann 4.000.000 kr. „Yfirtekna félagið, Samtengi ehf., er eigandi að öllu útistandandi hlutafé í yfirtökufélaginu, Reykjafelli hf. Í samrunaáætluninni er gert ráð fyrir að hluthafar Samtengis ehf. fái hlutabréf í Reykjafelli hf. að nafnvirði kr. 4.000.000,- sem gagngjald fyrir hlutabréf sín í Samtengi ehf. Engin vandkvæði eru við mat á félögunum. Að okkar áliti mun samruninn ekki rýra möguleika lánadrottna á fullnustu á kröfum sínum frá því sem var í félögunum fyrir sameiningu.“

                Í desember 2008 var stefnanda Reykjafelli hf. skipt upp í tvö félög og tók stefnandi Alviðruhóll ehf. við hluta af eignum stefnanda Reykjafells hf. frá og með 30. júní 2008. Var skiptingin samþykkt af hluthöfum beggja félaganna 23. mars 2009. Í yfirlýsingu endurskoðanda Deloitte hf. vegna skiptingarinnar kemur fram að við skiptinguna renni eignir að bókfærðu verði 668.548.919 kr. yfir til Alviðruhóls ehf. og að bókfært eigið fé verði neikvætt um 10.021.137 kr. Segir enn fremur í yfirlýsingunni að eignir hvors félags um sig standi til nægjanlegrar tryggingar fyrir þeim skuldum sem í hvoru félagi um sig verða og að umrædd skipting Reykjafells hf. sé á engan hátt til þess fallin að rýra möguleika lánardrottna til fullnustu krafna sinna. Þá segir að við matið hafi einnig verið litið til sameiginlegrar ábyrgðar félaganna eftir skiptinguna, skv. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.

                Á árinu 2011 fengu stefnendur athugasemdir frá ríkisskattstjóra vegna framangreinds fyrirkomulags þar sem m.a. var deilt um heimildir stefnenda til að draga fjármagnskostnað frá skattskyldum tekjum. Lauk athugun ríkisskattstjóra með tveimur úrskurðum, dags. 14. desember 2011, vegna Reykjafells hf. og dags. 24. febrúar 2012 vegna Alviðruhóls ehf.

                Með úrskurði ríkisskattstjóra í máli stefnanda Reykjafells hf. endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld Reykjafells gjaldárin 2007, 2008 og 2009 og felldi niður gjaldfærðan vaxtakostnað og gengistap í skattskilum félagsins vegna yfirtekinna fjárskuldbindinga frá Samtengi. Hækkuðu opinber gjöld félagsins um 21.361.189 krónur gjaldárið 2007, um 8.8185.386 gjaldárið 2008 og um 30.224.040 krónur gjaldárið 2009. Heildarhækkun tekjuskatts stefnanda Reykjafells hf. nam samkvæmt þessu 59.770.606 krónum.

                Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra hækkuðu hreinar tekjur stefnanda gjaldárið 2007 um 115.071.943 krónur og urðu 94.938.577 krónur að teknu tilliti til yfirfæranlegs taps félagsins – 20.133.366 krónur. 

                Gjaldárið 2008 féll yfirfæranlegt tap að fjárhæð – 20.133.366 krónur niður. Hækkuðu hreinar tekjur félagsins um 40.406.165 krónur og urðu 70.931.807 krónur.

                Gjaldárið 2009 felldi ríkisskattstjóri niður gjaldfærð vaxtagjöld að fjárhæð 6.094.585 krónur og gengismun að fjárhæð 166.092.360 krónur vegna tímabilsins 1. janúar til 1. júlí 2008 í skattskilum félagsins. Hreinar tekjur/tap sem var – 10.992.063 krónur hækkaði um 172.186.945 krónur og urðu 161.194.882 krónur.

                Með úrskurði ríkisskattstjóra í máli Alviðruhóls ehf. endurákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld félagsins gjaldárin 2009 og 2010 og bakfærði gjaldfærðan vaxtakostnað og gengistap vegna yfirtekinna fjárskuldbindinga frá Reykjafelli hf. Tekjuskattur Alviðruhóls ehf. hækkaði um 10.349.231 krónu gjaldárið 2010. Þá var uppsafnað tap félagsins fært á móti hækkun á tekjuskattsstofni félaganna. Yfirfæranlegt tap Alviðruhóls ehf. lækkaði um 393.896.754 krónur og varð – 40.518.782 krónur gjaldárið 2009. Yfirfæranlegt tap gjaldárið 2010 varð því – 40.518.782 krónur. Stofn félagsins til tekjuskatts hækkaði um 109.676.593 krónur og varð, að frádregnu tapi ársins – 162.937 krónur, 68.994. 874 krónur.      

                Stefnendur greiddu endurákvarðaðan skatt í ríkissjóð þann 17. janúar 2012 vegna Reykjafells hf. og 6. mars 2012 vegna Alviðruhóls ehf.

                Með bréfi, dags. 20. janúar 2012, krafðist stefnandi Reykjafell hf. þess að stefndi Arion banki hf. lækkaði lán félagsins um 74.713.276 krónur samhliða gerð nýrra lánasamninga vegna fyrrgreindra atvika með vísan til þess að bankinn bæri að hluta ábyrgð á viðbótarskattlagningu sem hefði leitt af endurákvörðun ríkisskattstjóra. Var krafa stefnanda byggð á áðurgreindum samningi Sparisjóðs Mýrasýslu, frá 15. júní 2005 um ráðgjöf og fjármögnun.   

                Í svari Arion banka, dags. 24. febrúar 2012, var kröfum stefnanda hafnað. Tók stefndi fram að í umræddum samningi kæmi ekki fram að sparisjóðurinn tæki á sig ábyrgð á skattalegri ráðgjöf eða áhrifum fyrir kaupanda. Auk þess hefði komið skýrt fram að ekki væri um lögfræðiráðgjöf að ræða vegna samninga og kaupa á félaginu. Þá hefðu verkkaupar verið tilgreindir einstaklingar en ekki stefnandi Reykjafell hf.            

                Með tveimur bréfum, dags. 22. desember 2014, kröfðu stefnendur stefndu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 199.059.935 krónur sem rekja mætti til bótaskyldrar háttsemi stefndu. Kemur fram í bréfum stefnanda til stefndu að ráðgjöf þeirra hafi leitt til þess að Reykjafell hf. og Alviðruhóll ehf. hafi þurft að sæta endurákvörðun opinberra gjalda. Félögin hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar háttsemi stefnda Sparisjóðs Mýrasýslu. Ljóst væri að ráðgjöf stefndu hafi verið í andstöðu við 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sem stefndu bæru bótaábyrgð á. Segir í bréfunum sem eru efnislega samhljóða að nokkrir fjárfestar hafi leitað til stefndu og óskað eftir sérfræðiráðgjöf. Hafi markmið stefnenda með því að leita ráðgjafar hjá stefndu verið að skipuleggja kaup á hlutum í Reykjafelli hf. og í kjölfarið að halda áfram rekstri þess á sem hagkvæmastan hátt. Að ráðgjöf stefndu hafi verið stofnað nýtt félag, Samtengi ehf., og hafi samningar komist á við Reykjafell hf. og eigendur hlutafjár í félaginu um að selja Samtengi ehf. allt hlutafé í Reykjafelli hf. Hafi kaupin verið fjármögnuð með lántöku Samtengis ehf. og í kjölfarið hafi félögin verið sameinuð með öfugum samruna undir nafni Reykjafells hf. Þetta fyrirkomulag hafi verið viðhaft samkvæmt ráðgjöf stefndu í þeim tilgangi að nýta fjármagnskostnað af lánunum til að lækka tekjuskattsstofn hins sameinaða félags. Þessi ráðgjöf hafi á hinn bóginn reynst ólögmæt, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 555/2012.

                Í gögnum málsins liggja fyrir ráðningarbréf á milli Reykjafells hf. og stefnda Deloitte ehf. frá febrúar 2006 til nóvember 2010 um aðstoð við gerð ársreiknings og endurskoðun ársreikninga fyrir árin 2008 og 2009 vegna Alviðruhóls ehf. Þá liggja fyrir samandregnir ársreikningar fyrir Alviðruhól ehf. 2011 og 2013, undirritaðir af Deloitte ehf. 

III.

1. Helstu málsástæður stefnda Arion banka hf. um formhlið málsins

Kröfu sína um frávísun byggir stefndi á því að dómkröfur í málinu samrýmist ekki 1. mgr. 19. gr. laganna og því beri að vísa kröfum stefnenda á hendur stefnda frá dómi.

Að því er varðar 1. mgr. 18. gr. s.l. verði ekki ráðið að stefnendur, sem sjálfstæðir lögaðilar, eigi meintar skaðabætur óskiptar og sé það í öllu falli ekki reifað. Verði málshöfðun stefnenda og dómkröfur því ekki reistar á 1. mgr. 18. gr. laganna. Þá telur stefndi að ofangreind sjónarmið eigi einnig við um aðild stefndu varnar megin. Fjárkröfum sé hvorki beint að stefndu hvorum um sig, í samræmi við 1. mgr. 19. gr., né sé ljóst að greiðsluábyrgð stefndu sé óskipt og telst málið a.m.k. vanreifað að því leyti.

                Stefndi tekur fram að í stefnu sé tilgreint að ráðgjöf við kaup Samtengis hf. á hlutum í Reykjafelli hf. hafi verið veitt á grundvelli samnings við Sparisjóð Mýrasýslu. Í stefnu komi fram að á árinu 2005 hafi fjárfestar lagt á ráðin um að kaupa allt hlutafé í stefnanda Reykjafelli hf. Síðan segir að Sparisjóður Mýrasýslu (nú stefndi Arion banki hf.) hafi veitt ráðgjöf um kaupin og auk þess séð um fjármögnun þeirra. Í því sambandi sé m.a. vísað til þess að skv. 2. gr. samningsins, hafi í honum falist ráðgjöf við aðferðir og leiðir við kaupin. Samkvæmt umræddum samningi um „ráðgjöf og fjármögnun“ var ráðgjöfin veitt fjórum tilgreindum einstaklingum. Málatilbúnaður stefnenda verði ekki skilinn öðruvísi en svo að kröfur á hendur stefnda Arion banka hf. vegna Sparisjóðs Mýrasýslu séu reistar á umræddum ráðgjafarsamningi. Hins vegar verði ekki ráðið af stefnu á hvaða grundvelli stefnendur, Reykjafell hf. og Alviðruhóll ehf., byggi rétt á umræddum samningi eða hvaða þýðingu eða réttaráhrif samningurinn hafi að því er stefnendur varðar sérstaklega. Er málið að því leyti vanreifað.

                Í málinu er á því byggt af stefnendum að meint ráðgjöf, þ.m.t. Sparisjóðs Mýrasýslu, hafi ekki leitt til hagkvæmustu lögmætu niðurstöðu fyrir rekstur [stefnenda] heldur hafi hún leitt til aukins kostnaðar og óhagræðis. Sé fjárhæð stefnukrafna, að mati stefnenda, til samræmis við framangreint. Stefndi telur hins vegar skorta á að stefnendur geri með viðeigandi hætti grein fyrir aðild og hagsmunum sínum að þessu leyti. Þannig verði ekki ráðið hvernig stefnandinn, Reykjafell hf., hafi orðið fyrir fjártjóni vegna ráðgjafar sem veitt hafi verið í tengslum við kaup á hlutum í félaginu. Á sama hátt sé vanreifað á hvaða hátt stefnandinn Alviðruhóll ehf. teljist hafa orðið fyrir fjártjóni vegna ráðgjafarinnar.

                Stefndi tekur fram að í stefnu sé vikið að því að nokkru hvernig meintri rangri ráðgjöf hafi verið hagað að mati stefnenda. Á hinn bóginn skorti verulega á að gerð sé nægileg grein fyrir því hvort ætlað sé að stefndu beri sameiginlegar skyldur í þessu tilliti eða hvort ábyrðin teljist skipt. Þannig verður t.d. ekki ráðið af málatilbúnaði stefnenda, að því leyti sem talið er að tjón stefnenda megi rekja til skiptingar Reykjafells hf. í tvö félög á árinu 2008, hvernig talið sé að slíkt tjón megi rekja til ætlaðrar ráðgjafar Sparisjóðs Mýrasýslu, en í stefnu er til þess vísað sérstaklega að sú ráðgjöf stefnda Deloitte ehf. hafi „…[leitt] til aukins kostnaðar og óhagræðis“. Þá sé einnig óljóst af málatilbúnaði stefnenda, að því leyti sem skattskil voru talin ófullnægjandi og hafi leitt til meints tjóns, svo sem vegna álags á tekjuskattsstofna, hvernig þeir telji að sú framkvæmd hafi verið tengd Sparisjóði Mýrasýslu. Telur stefndi með vísan til þessa að verulega skorti á að nægilega sé gerð grein fyrir málsatvikum að þessu leyti í stefnu, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Telji stefnendur að stefndu beri sameiginlega ábyrgð í málinu, bar þeim að gera sérstaklega grein fyrir forsendum þess í stefnu. Rétt er að benda á að í málinu er hins vegar höfð uppi fjárkrafa á hendur stefndu sem, skv. orðalagi sínu, er ekki sögð vera óskipt og teljist því skipt ábyrgð (pro rata). Málatilbúnaður stefnenda endurspeglar hins vegar ekki nægilega, sbr. nánar hér að framan, hvernig ábyrgð með slíkum hætti er ráðgerð. 

                Stefndi telur einnig að reifun meints fjártjóns stefnenda fullnægi ekki kröfum laga um skýrleika málatilbúnaðar. Þannig geri stefnendur enga grein fyrir þeim leiðréttingum á vaxtagjöldum og gengisálagi sem þeir fengu við endurútreikninga á umræddum lánum frá stefnda Arion banka hf. á grundvelli þess að lánin hafi verið haldin ólögmætri gengisbindingu. Umrætt gengisálag er hins vegar, að meginhluta, stofn þess fjármagnskostnaðar sem stefnendur ætluðu að yrði frádráttarbær frá tekjum og sem myndar, að áliti stefnanda, stærstan hluta þess meinta tjóns sem bótakrafa í málinu er í grunninn miðuð við. Þannig sé ljóst að stefnendur töldu gagnvart stefnda Arion banka hf., umræddan kostnað endurheimtanlegan að verulegu leyti þannig að ekki hafi verið um gjöld að ræða í reynd. Er málatilbúnaður stefnenda að því leyti mótsagnarkenndur og jafnframt vanreifaður.

                Þá verði ekki séð að stefnendum sé fært að haga málatilbúnaði sínum með þeim hætti að leggja til grundvallar meintu tjóni sínu „skattgreiðslu“ af uppsöfnuðu tapi sem „nýtt hafi verið á móti hækkun á tekjuskattstofni félagsins“ að því marki sem umrætt meint tjón telst vera að rekja til synjunar skattyfirvalda á frádráttarbærni fjármagnskostnaðar vegna kaupanna, en stefnendur byggja einmitt á sama tíma á því gagnvart stefndu að sá hinn sami fjármagnskostnaður hafi ekki verið frádráttarbær að lögum. Telur stefndi að ekki verði séð að slíkt „tap“ geti skapað frádrátt sem geti verið grundvöllur réttmætrar bótakröfu í málinu. Er málatilbúnaður stefnenda að þessu leyti mótsagnarkenndur og óhæfur að ætla verður, meðal annars með tilliti til þess að slík krafa getur vart talist lögvernduð.

                Þá geri stefnendur ekki viðhlítandi grein fyrir því í stefnu hvernig almennt sé unnt að líta á réttilega greiddan tekjuskatt sem fjártjón í skilningi skaðabótaréttar, en greiðsla á réttilega álögðum opinberum gjöldum telst ljóslega til gjalda sem fylgja rekstri lögum samkvæmt. Er málatilbúnaður stefnenda vanreifaður að því er þetta varðar. 

2. Helstu málsástæður stefnda Deloitte ehf. um formhlið málsins

Stefndi telur ósannað að ákvörðun um málshöfðun stefnenda gegn stefnda Deloitte hafi verið tekin á hluthafafundum stefnenda, sbr. 135. gr. hfl. og að stefnendur geti af þeim sökum ekki haft kröfuna uppi.

                Þá telur stefndi kröfugerð stefnanda ódómtæka. Sameiginleg fjárkrafa þeirra sé ódómtæk og án lagagrundvallar og í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki sé um sameiginlega og óskipta kröfu stefnenda að ræða og þar með hvorki nauðsynlegt né heimilt að standa að kröfugerðinni með þeim hætti sem gert er.

                Stefndi telur aðild málsins verulega vanreifaða bæði til sóknar og varnar. Þannig sé óljóst hvort stefnendur byggi mál sitt á hendur báðum stefndu með vísan til 18. gr. laga nr. 91/1991 eða 19. gr. sömu laga. Ekki geti verið um eina sameiginlega kröfu stefnenda á hendur stefnda að ræða og því ekki skilyrði fyrir samaðild til sóknar. Til þess að skilyrði 19. gr. um samlagsaðild til sóknar séu fyrir hendi þurfa kröfur stefnenda að eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Í stefnu sé enga umfjöllun að finna til útskýringar á þessu. Þá sé enga útskýringu að finna í stefnu um aðild málsins til varnar eða hvers vegna krafa á hendur stefndu sé sameiginlega (in solidum).

                Stefndi telur rökstuðning um hina meintu saknæmu háttsemi hvors stefnda um sig vanreifaðan. Þannig sé óútskýrt hvaða meintu ráðgjöf hvor stefndi á að hafa veitt.

                Þá telur stefndi óljóst hvert sé sakarefni málsins. Stefnan uppfylli því ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ómögulegt sé að sjá af málsatvikalýsingu til hvaða meintu saknæmu ráðgjafar sé vísað, hvenær hún hafi verið innt af hendi og hvernig slík ráðgjöf styður eða tengist kröfum stefnanda. Þá sé í stefnu óskýr lýsing á meintu athafnaleysi stefnda. Þannig segi í stefnu að stefndu hafi borið að veita stefnendum bestu mögulegu ráðgjöf um kaup og áframhaldandi rekstur stefnenda og auk þess vara við öllum þeim aðgerðum og framkvæmdum sem kynnu að vera óhagstæðar eða ólögmætar.

                Stefndi telur samhengi málsástæðna stefnanda óljóst. Óljóst sé hvort stefnendur reisi meinta skaðabótaábyrgð stefnda á meintu athafnaleysi eða meintri ráðgjöf eða báðum atriðum. Þá séu málsástæður óljósar varðandi meintan galla á vinnu stefnda við skjalagerð vegna samruna Samtengis og Reykjafells. Þá sé óljóst á hvaða ábyrgðarreglu sé byggt í málinu. Ýmist sé vísað til hefðbundinnar skaðabótareglu, að málið byggi á sakarreglunni og þegar um sérfræðinga sé að ræða sé henni beitt með sérstaklega ströngum hætti.

      Stefndi telur málatilbúnað stefnanda vegna varakröfu vanreifaðan. Í stefnu sé ekki greint á milli meintrar aðkomu Deloitte ehf. annars vegar og Arion banka hf. hins vegar. Þannig sé á huldu hvort félögin hafi í sameiningu eða sitt í hvoru lagi veitt meinta ráðgjöf eða vinnu. Þá sé einnig óljóst hvort stefndu hafi í sameiningu hvorum í sínu lagi borið skylda til að „leggja til einhverja lögmæta niðurstöðu“. Aðildin sé svo vanreifuð að þessu leyti að stefndi eigi örðugt með að grípa til varna. Þá sé óljóst við hvaða meintu ráðgjöf stefnda Deloitte sé átt og hvað sé átt við í stefnu með staðhæfingum um að stefndu hafi báðum borið að vinna að því að ársreikningar stefnanda yrðu færðir með einhverjum tilteknum hætti. Þá sé óskiljanlegt hvað átt sé við með því að stefndu hafi átt að ráðleggja stefnendum að greiða gjöld sín með réttum hætti á réttum tíma. Þá telur stefndi ókleift að átta sig á því hvers vegna stefnendur telji hann bera skaðabótaábyrgð á því að uppsafnað tap að fjárhæð 128.940.098 krónur hafi verið nýtt á móti hækkun á tekjuskattsstofni þeirra. Með vísan til þessa telur stefndi að framsetning stefnenda á varakröfum sínum gangi í berhögg við lágmarksskilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og beri því að vísa henni frá dómi.

                Stefndi telur að hið meinta tjón stefnenda sé vanreifað sem eigi að leiða til frávísunar málsins. Ekkert liggi fyrir um hvort og að hvaða marki meint tjón stefnenda hafi verið. Engan rökstuðning sé að finna á því hvers vegna lögbundnar skattgreiðslur séu tjón stefnenda. Þá sé til þess að líta að erlendar skuldir Alviðruhóls voru lækkaðar og skilmálabreytt í íslenskar krónur á rekstrarárinu 2011. Tekjufærð fjárhæð samkvæmt ársreikningi nam 665.485.459 kr. vegna þessa. Frekari leiðréttingar voru gerðar á rekstrarárinu 2013 þegar lán Alviðruhóls voru aftur leiðrétt á grundvelli Hæstaréttardóma í svonefndum „gengislánamálum“. Í ársreikningi Alviðruhóls vegna þess rekstrarárs var þá tekjufært 77.643.729 kr. vegna þessa. Stefndi Deloitte byggir á því að í skattskilum Alviðruhóls hafi umræddar tekjur verið færðar sem óskattskyldar tekjur og því ekki greiddur tekjuskattur af nefndum fjárhæðum. Ef ekki hefði komið til samruna Reykjafells og Samtengis – og sé sú forsenda gefin að samsköttun félaganna Reykjafells og Samtengis hefði verið heimiluð og þar með heimilt að nýta umþrætt vaxtagjöld á móti skattskyldum tekjum – er bent á það að leiðréttingar umræddra lána á árunum 2011 og 2013 hefðu jafnframt orðið skattskyldar tekjur. Alviðruhóll hefði í því tilviki þannig greitt um 148,6 milljónir króna í skatta á árunum 2011 og 2013 umfram það sem gert var í raun og veru. Hvergi er að þessu vikið í stefnu eða upplýst um þessa auknu skattbyrði sem félögin hefðu þurft að bera í því tilviki hefði samsköttun fengist.

3. Helstu málsástæður stefnenda, um formhlið málsins

Stefnendur hafna frávísun málsins og krefjast þess að málið verði tekið til efnismeðferðar. Stefnendur telja aðild málsins skýra og í samræmi við meginreglur einkamálaréttarfars. Ekki sé hægt að komast að niðurstöðu í málinu án aðildar beggja stefnenda, enda geri ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, það að verkum að niðurstaðan hafi áhrif á rétt beggja. Skýrist það af því að stefnendur bera óskipta ábyrgð á skuldbindingum hvor annars og að þeir eru samskattaðir samkvæmt lögum nr. 90/2003. Þá séu tengsl sóknaraðila við málið skýr. Þá telja stefnendur ekki ástæðu til að draga umboð til málsóknar í efa, sbr. 21. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn. Þá hafi gagnaöflun í málinu ekki verið lýst lokið og sé lögð fram í hliðsjónargögnum staðfesting hluthafafundar um málsókn á hendur stefndu.

                Stefnendur telja sakarefni málsins nægjanlega afmarkað. Krafan sé sett fram með skýrum hætti á bls. 1 í stefnu. Krafan sé peningakrafa um skaðabætur. Málsgrundvöllur komi skýrt fram í stefnu. Skaðabótakrafan hafi verið tengd ákveðnum atburðum sem lýst sé með skýrum hætti í málsatvikakafla í stefnu. Skaðabótakrafan byggi ótvírætt á sérfræðiábyrgð stefndu. Stefndu hafi tekið til efnislegra varna og því verði ekki séð að meintur óskýrleiki í málatilbúnaði stefnenda hafi gert þeim erfiðara um vik að taka til efnisvarna.

IV.

Niðurstaða

Stefnendur í máli þessu, sem eru hlutafélag og einkahlutafélag og tengdir aðilar, hafa höfðað mál þetta að því er virðist sem skaðabótamál á hendur stefndu, sem eru tvö sjálfstæð og ótengd félög með ólíka starfsemi. Stefnendur gera í málinu eina kröfu á hendur stefndu. Virðist stefnukrafa þannig upp byggð að stefnandi Reykjafell hf. gerir kröfu sér til handa vegna tjóns sem hann telur að megi rekja til rangrar skattaráðgjafar stefndu. Er krafan þríþætt. Í fyrsta lagi hafi svokallaður öfugur samruni verið gerður milli fyrirtækjanna Reykjafells hf. og Samtengis ehf. samkvæmt ráðgjöfinni. Sá öfugi samruni hafi, gagnstætt því sem ráðgjafar ráðlögðu ekki leitt til þess að vaxtagjöld af lánum sem tekin voru í tengslum við samrunann hafi verið metin frádráttarbær frá skattskyldum tekjum stefnanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra. Í öðru lagi er um að ræða kröfu stefnanda Alviðruhóls ehf. sem að þessu leyti er byggð upp á svipuðum sjónarmiðum. Í þriðja lagi telja stefnendur að uppsafnað tap sem fært var á móti hækkuðum tekjuskattsstofnum samkvæmt úrskurðum ríkisskattstjóra hafi valdið þeim tjóni.

                Dómurinn telur málatilbúnað stefnenda áfátt í margvíslegum atriðum. Þannig er í stefnu ekki gerð viðhlítandi grein fyrir því hvers vegna stefnendur höfða mál þetta í sameiningu. Eins og málatilbúnaði er háttað verður að gera þá kröfu til stefnenda að gerð sé skýr grein fyrir því hvaða hluti stefnukröfunnar tilheyrir hvorum stefnanda fyrir sig og hvaða hlutar stefnukröfunnar séu sameiginlegir ef um það er að ræða.

                Þá er enga skýringu að finna á því í málsgögnum hvers vegna mál þetta er höfðað á hendur stefndu sameiginlega. Stefndu eru sjálfstæðir lögaðilar og samkvæmt málatilbúnaði stefnenda fengu stefnendur ráðgjöf frá stefndu við mismunandi aðstæður. Er varnaraðild málsins að þessu leyti vanreifuð.

                Þá bera málsatvik stefnenda með sér að fjórir tilgreindir einstaklingar hafi fengið ráðgjöf hjá Sparisjóði Mýrasýslu (nú Arion banki hf.) í tengslum við kaup á hlutafé í stefnanda Reykjafelli hf. Í gögnum málsins er hins vegar engin skýring á því á hvaða grundvelli stefnendur málsins, höfða mál þetta, í stað þeirra einstaklinga sem í hlut áttu. Skiptir í því sambandi engu máli þó að hinir fjórir tilgreindu einstaklingar kunni að hafa átt hlut í stefnanda Reykjafelli hf.

                Að því er varðar bótakröfuna sjálfa, þá er á því byggt að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni vegna ráðgjafar stefndu. Í stefnu er á hinn bóginn ófullnægjandi grein gerð fyrir því í hverju sú ráðgjöf var fólgin í hvoru tilviki um sig og hvenær ráðgjöfin var gefin og hver hafi veitt hana.

                Að lokum er enga skýringu að finna á því hvernig ónotað rekstrartap stefnenda, sem nýtt var á móti skattskyldum tekjum stefnenda, hafi valdið stefnendum tjóni. Er krafan vanreifuð að þessu leyti.

                Samkvæmt framansögðu og með vísan til d- og e-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, telur dómurinn að svo verulegir réttarfarságallar séu á málatilbúnaði stefnenda að vísa beri málinu frá dómi. 

                Eftir niðurstöðum málsins og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnendum Reykjafelli hf. og Alviðruhóli ehf. sameiginlega gert að greiða stefnda Deloitte ehf. 800.000 krónur í málskostnað og stefnda Arion banka hf. 800.000 krónur í málskostnað.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Málinu er vísað frá dómi.

                Stefnendum, Reykjafelli hf. og Alviðruhóli ehf. ber sameiginlega að greiða stefnda, Deloitte ehf., 800.000 krónur í málskostnað og stefnda, Arion banka hf., 800.000 krónur í málskostnað.