Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-40

Rafstöðvarvegur 1a ehf. (Kristinn Brynjólfsson framkvæmdastjóri)
gegn
Bætingu ehf. (Auður Björg Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Málskostnaðartrygging
  • Kærufrestur
  • Kæruheimild
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 15. janúar 2021 leitar Rafstöðvarvegur 1a ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 10. desember 2020 í málinu nr. 581/2020: Rafstöðvarvegur 1a ehf. gegn Bætingu ehf. Um kæruheimild er vísað til 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig er vísað til 2. mgr. 177. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. sömu laga. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á grundvelli 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um að Rafstöðvarvegi 1a ehf. verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í héraði í máli sem síðargreinda félagið hefur höfðað á hendur því fyrrgreinda. Héraðsdómur féllst á kröfuna og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu í úrskurði sínum.

Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp 10. desember 2020. Leyfisbeiðandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 24. sama mánaðar og óskaði samhliða eftir kæruleyfi réttarins. Kærumálsgögnum var ekki skilað innan frests 2. mgr. 171. gr. laga nr. 91/1991 og skaut leyfisbeiðandi málinu á ný til Hæstaréttar 15. janúar 2021.

Eftir 1. mgr. 168. gr. laga nr. 91/1991 er frestur til að kæra og, ef við á, leita leyfis til að kæra dómsathöfn Landsréttar tvær vikur og var hann liðinn þegar leyfisbeiðandi óskaði nýs kæruleyfis 15. janúar 2021. Ekki er gert ráð fyrir neinni undantekningu frá tveggja vikna tímamarkinu og verður heimild Hæstaréttar í 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 til að verða við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu fjórar vikur eftir lok frests samkvæmt 1. mgr. sama lagaákvæðis, enda sé dráttur á áfrýjun nægjanlega réttlættur, ekki beitt um kærumál. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað en jafnframt skal áréttað að úrskurður Landsréttar í kærumáli þar sem leyst er úr ágreiningi aðila um hvort skilyrðum 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt þannig að aðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í héraði, sætir hvorki kæru til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 né verður sótt um leyfi Hæstaréttar til kæru á úrskurði Landsréttar hvað þetta varðar, sbr. ákvörðun Hæstaréttar 17. apríl 2018 nr. 2018-81.