Hæstiréttur íslands
Mál nr. 729/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2015. |
|
Nr. 729/2015.
|
Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi) gegn X (Snorri Sturluson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2015 þar sem varnaraðila var gert að afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...] september 2014, sem honum var veitt reynslulausn á til tveggja ára frá 17. febrúar 2015. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 23. október 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, verði með vísan til 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, gert að afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti kærða reynslulausn af þann 17. febrúar 2015.
Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 17. febrúar sl., þegar hann hafði afplánað helming af 15 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...] september 2014. Um hafi verið að ræða reynslulaun á eftirstöðvum 225 daga refsingar, sem bundin hafi verið almennu skilorði til tveggja ára.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að samkvæmt málaskrá lögreglu og sakavottorði hafi kærði oft komið við sögu lögreglu. Þá hafi hann oft hlotið dóma fyrir hegningarlaga- og sérrefsilagabrot. Hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi eru nú til rannsóknar tíu mál sem komið hafi upp einum sólarhring. Annars vegar er um að ræða innbrot í bifreiðar og nytjastuld á bifreið í Reykjavík og hins vegar innbrot og þjófnaði á sex stöðum í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Í öllum málum er kærði undir sterkum grun um að eiga aðild að brotunum í félagi við tvo aðra menn.
Í greinargerð lögreglustjóra er annars vegar gerð grein fyrir tíu málum sem öll eru til rannsóknar hjá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi. Hins vegar er gerð grein fyrir tuttugu og átta málum sem eru til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í þinghaldi fyrr í dag kom fram hjá fulltrúa lögreglustjóra að krafan væri eingöngu byggð á þeim tíu málum sem eru til rannsóknar hjá lögreglustjórnum á Suðurlandi. Gerð hafi verið grein fyrir hinum tuttugu og átta málum í greinargerð lögreglustjóra dómara til hliðsjónar.
Í úrskurði þessum verður eingöngu gerð grein fyrir og byggt á þeim tíu málum gegn kærða sem lögreglan á Suðurlandi rannsakar. Í greinargerð og gögnum málsins kemur fram að kærði og ætlaðir samverkamenn hans hafi allir neitað sök, en einn þeirra þó borið við minnisleysi.
Um er að ræða eftirtalin mál:
Mál nr. 007-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að nytjastuldi bifreiðarinnar [...], en bifreiðinni var stolið af bifreiðastæði í Reykjavík á tímabilinu frá miðnætti aðfaranætur 8. október sl., fram til kl. 7:30 sama dag. Kærði hafi verið handtekinn á Kirkjubæjarklaustri, þá farþegi í framangreindri bifreið, en í bifreiðinni hafi fundist mikið magn þýfis, sem hafi verið tengt við brotavettvang í málum nr. 318-2015-[...], [...], [...], [...], [...] og [...]. Lögregla telur að umrædd bifreið hafi verið notuð við innbrot og þjófnaði á Suðurlandi sem nú eru til rannsóknar. Í gögnum málsins kemur fram að kærði var handtekinn klukkan 13:24 þann 8. október sl.
Mál nr. 007-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að húsbroti í sumarhús að [...] í Skaftárhreppi. Þar hafi fundist mikið magn meints þýfis úr innbrotum í málum þeim sem nánar er gerð grein fyrir hér á eftir, meðal annars þýfi úr sömu málum og fundist hafi í bifreiðinni [...]. Í rannsóknargögnum kemur fram að tvö vitni hafi borið um að hafi að morgni 8. október sl., séð pallbifreið af gerðinni [...] fyrir utan umrætt sumarhús og tvo karlmenn á gangi umhverfis bifreiðina. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að um er að ræða bifreið sömu tegundar og bifreið sú sem ákærði var staddur í þegar hann var handtekinn. Þá hafi vitnin upplýst um að á palli bifreiðarinnar hafi verið mikið magn muna, sem hafi samræmst því hvernig aðkoma lögreglu hafi verið að bifreiðinni umrætt sinn.
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði á lyfjum úr verslun [...] að [...] í Rangárþingi ytra, aðfaranótt 8. október 2015. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og í sumarhúsinu að [...]. Myndbandsupptaka staðfesti að bifreið af sömu tegund og lit og [...] hafi verið stödd á bifreiðastæði við apótekið og ekið þaðan stuttu áður en tilkynning um innbrotið barst lögreglu. Í gögnum málsins kemur fram að við öryggisleit á kærða í kjölfar handtöku hafi fundist lyf, sambærileg við lyf sem stolið var úr framangreindu apóteki.
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði á tveimur tölvuturnum, Finlux sjónvarpi og sjúkrakassa, úr húsnæði [...] að [...] í Flóahreppi, aðfaranótt 8. október 2015. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og sumarhúsinu að [...]
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði á tóbaki og fatnaði úr söluskála að [...] í Rangárþingi ytra, að morgni 8. október 2015. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og í sumarhúsinu að [...]
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði á tölvu, áfengi og peningum, úr húsnæði [...] að [...] í Rangárþingi eystra, að morgni 8. október 2015. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og í sumarhúsinu að [...]. Þá hafi fundist dælulyklar á vettvangi sem tilheyri eiganda bifreiðarinnar [...]. Vitni hafi borið um að áðurnefnd bifreið hafi verið á ferð umrædda nótt nærri brotavettvangi.
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði í kaffihúsi að [...] og aðstöðu [...] fjalla- og jöklaleiðsögumanna, á tímabilinu frá því síðdegis þann 7. október 2015 til morguns þann 8. október 2015. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og í sumarhúsinu að [...]. Þá hafi fundist fótspor innandyra á vettvangi sem hafi reynst sambærilegt að gerð og lögun og skór þeir sem kærði hafi verið í þegar hann var handtekinn.
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði úr bifreið á bifreiðastæði við [...] á umræddu tímabili. Þýfi úr innbrotinu fannst síðar þennan sama dag í bifreiðinni [...] og í sumarhúsinu að [...].
Mál nr. 318-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti í tvær bifreiðar á bifreiðastæði í Reykjavík aðfaranótt 8. október sl., þ.e. í sömu götu og bifreiðinni [...] var lagt þegar henni var stolið. Í sumarhúsinu að [...] hafi fundist gögn sem hafi verið tengd við eiganda tveggja bifreiða sem brotist var inní umrædda nótt.
Mál nr. 0078-2015-[...]: Kærði er grunaður um aðild að innbroti og þjófnaði úr bifreiðinni [...] sem stóð á bifreiðastæði í áðurnefndri götu í Reykjavík umrædda nótt. Úr bifreiðinni var stolið verkfærakassa og peysu, og fannst samskonar peysa í sumarhúsinu að [...].
Það er mat lögreglustjóra að öll skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, séu uppfyllt, enda hafi kærði með ofangreindri háttsemi rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið ítrekuð afbrot sem hvert og eitt geta varðað 6 ára fangelsi.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga er þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða
Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [..]. september 2014 var kærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Kærða var veitt reynslulausn á eftirstöðvun fangelsisrefsingar, 225 dögum, með ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins, dagsettri 14. janúar 2015. Í ákvörðuninni, sem tók gildi þann 17. febrúar sama ár, eru tilgreind skilyrði reynslulausnar, en þau eru að kærði gerðist ekki „sekur um nýtt brot á reynslutímanum“ og, samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2004, að kærði væri „háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar ríkisins.“ Reynslutími var ákveðinn tvö ár. Kærða var kynnt framangreind ákvörðun 16. febrúar 2015.
Kærði er, í félagi við tvo aðra menn, meðal annars grunaður um að hafa framið fjölmörg þjófnaðarbrot á Suðurlandi í byrjun október sl., sem varði við 244. gr. laga nr. 19/1940. Í máli þessu liggur fyrir að þýfi, sem tengist innbrotum á fjölmarga staði á Suðurlandi, fannst í bifreiðinni [...] sem kærði var farþegi í þegar hann var handtekinn. Einnig fannst þýfi úr umræddum innbrotum í sumarhúsi við [...] í Skaftárhreppi sem sterkur grunur er um að kærði hafi dvalið í. Utan við sumarhúsið hafi verið ummerki sem bendi til þess að bifreiðin [...] hafi verið þar á ferð. Vitni hafa borið um að hafa séð bifreið við sumarhúsið skömmu áður en kærði og ökumaður bifreiðarinnar [...] voru handteknir. Samræmis lýsing vitna á bifreiðinni tegund, lit og útliti bifreiðarinnar [...]. Þá lýstu vitnin einnig útliti og klæðaburði tveggja karlmanna, sem þau sáu við bifreiðina og sumarhúsið. Benda gögn til að annar þeirra hafi verið kærði. Meðal rannsóknargagna eru upplýsingar sem tengja bifreiðina [...] við brotavettvang í nokkrum þeirra mála sem lögreglustjóri byggir kröfu sína á, meðal annars á bifreiðastæði við apótekið á [...]. Kærði hefur neitað sök í öllum þeim málum sem lögreglustjóri byggir kröfu sína á.
Með vísan til þess sem að framan er rakið, greinargerðar lögreglustjóra og framlagðra rannsóknargagna þeirra mála sem rakin hafa verið hér að framan, er það mat dómsins að fram sé kominn sterkur grunur um að kærði hafi, eftir að hann hlaut reynslulausn þann 17. febrúar sl., rofið skilorð reynslulausnarinnar með því að fremja brot gegn 1. mgr. 244. gr. laga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri lagagrein varða fangelsi allt að sex árum. Er það mat dómsins að kærði hafi með framangreindri háttsemi sinni rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005, til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, kt. [...], skal afplána 225 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. september 2014.