Hæstiréttur íslands
Mál nr. 345/2008
Lykilorð
- Fasteign
- Eignarnám
|
|
Fimmtudaginn 8. október 2009. |
|
Nr. 345/2008. |
Ómar Antonsson(Karl Axelsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Reynir Karlsson hrl.) |
Fasteign. Eignarnám.
Á árinu 2004 hóf V framkvæmdir við endurbætur á þjóðvegi nr. 1 með gerð tvíbreiðra jarðganga undir A í sveitarfélaginu H. Jafnframt var lagður nýr vegur að báðum munnum ganganna og eldri vegur endurbættur á nokkrum kafla. Syðri hluti ganganna liggur í landi H, sem er í eigu Ó. Matsnefnd eignarnámsbóta fjallaði um ágreining aðila um bætur og kvað upp úrskurð 29. september 2004. Taldi nefndin að bætur til Ó næmu samtals 1.569.000 krónum. V greiddi fjárhæðina með fyrirvara og tók Ó jafnframt við henni með fyrirvara. Ó höfðaði mál og krafði V um bætur á grundvelli niðurstöðu matsgerðar dómkvaddra manna. Hafnað var kröfu Ó um bætur fyrir 13,11 hektara lands, þar sem fullar bætur hefðu þegar verið greiddar fyrir 11,5 hektara, sem teknir höfðu verið eignarnámi, í samræmi við niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta. Þá krafðist Ó einnig bóta vegna 37,4 hektara lands sem hann taldi að ónýttist að hluta utan svæðisins sem tekið hafði verið eignarnámi. Á vestari hluta framkvæmdasvæðisins lá hinn nýi vegur á nánast sama stað og eldri þjóðvegur nr. 1 hafði legið um áratugaskeið. Talið var að hvað þennan hluta vegarins varðaði hlytist ekki af vegagerðinni frekari verðrýrnun en orðin var á landi Ó utan þess sem tekið hafði verið eignarnámi. Hins vegar hefði land Ó með ströndinni utan þess sem eignarnámið var tekið á eystri hluta framkvæmdasvæðisins rýrnað nokkuð í verði, en þar var lagður nýr þjóðvegur um land þar sem áður var fáfarinn sveitavegur. Þóttu bætur til hans vegna þessa hluta hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Ó gerði jafnframt kröfu um bætur vegna töku jarðefna úr skeringum, sem gerðar höfðu verið í landi hans við gerð nýja vegarins. Var kröfu hans um efnistöku á talsverðum hluta svæðisins hafnað, þar sem skeringarnar hefðu verið innan þess lands sem V tók eignarnámi. Gögn málsins voru hins vegar talin bera með sér að á tveimur svæðum hefði verið tekið efni úr skeringum utan hins eignarnumda lands. V var látin bera hallann af vafa sem lék á um hversu mikið efnið hefði verið og voru Ó dæmdar 700.000 krónur í bætur fyrir þetta efni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2008. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér aðallega 22.951.040 krónur en til vara 7.191.040 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. október 2006 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 4. nóvember 2004 að fjárhæð 1.415.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Dómendur í málinu gengu á vettvang 4. júní 2009.
I
Á árinu 2004 hóf Vegagerðin framkvæmdir við endurbætur á þjóðvegi nr. 1 með gerð tvíbreiðra jarðganga undir Almannaskarð í sveitarfélaginu Hornafirði. Jafnframt var lagður nýr vegur að báðum munnum ganganna og eldri vegur endurbættur á nokkrum kafla. Nyrðri hluti ganganna liggur í landi Syðri-Fjarðar í Lóni, sbr. dóm Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006, en syðri hlutinn í landi jarðarinnar Horns sem er í eigu áfrýjanda. Á fyrri hluta ársins 2004 reyndu Vegagerðin og áfrýjandi að ná samkomulagi um bætur honum til handa vegna framkvæmdarinnar. Samningar tókust um bætur fyrir malarefni, aðstöðu og rask, en Vegagerðin vísaði ágreiningi um bætur að öðru leyti til Matsnefndar eignarnámsbóta. Í greinargerð Vegagerðarinnar til nefndarinnar kom fram að við gangamunna sunnan megin yrði byggður 72 m langur vegskáli. Lagður yrði eins km langur nýr vegur frá gangamunnanum að vegamótum hringvegar og vegar út á Stokksnes og gerð ný tenging þar, en frá þeim vegamótum yrði að mestu um að ræða endurbyggingu og breikkun vegsvæðis hringvegar. Skyldi eignanámið taka til landspildu undir vegsvæði hins nýja vegar í landi Horns og breikkunar þáverandi vegar auk vegskála, gangamunna og lands yfir jarðgöngunum allt þar til miðlína þeirra væri á 30 metra dýpi undir yfirborði. Að auki skyldi eignarnámið ná til lands undir nýja tengingu vegar að Stokksnesi við hringveginn og landræmu milli þessara vega. Vegsvæðið var talið samtals 12,41 hektarar, en frá því yrði dreginn 1,26 hektari lands, sem tilheyrt hafi eldri vegi og skilað yrði áfrýjanda að framkvæmdum loknum, þannig að eignarnámið tæki til 11,15 hektara.
Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð í málinu 29. september 2004. Fyrir nefndinni bar áfrýjandi meðal annars fyrir sig að hinn nýi vegur myndi ónýta fyrir honum 72,6 hektara lands utan vegsvæðisins, sem Vegagerðin tók eignarnámi. Því hafnaði nefndin með þeim rökum að vegur lægi þegar yfir landið þannig að lagning nýja vegarins spillti ekki ósnertu landi. Nefndin taldi bætur fyrir áðurnefnda 11,15 hektara lands hæfilega ákveðnar 1.115.000 krónur eða 100.000 krónur á hvern hektara. Þá taldi nefndin að áfrýjanda bæru 154.000 krónur í bætur fyrir 11.000 m3 malarefnis, sem til félli við gangagröftinn, og 300.000 krónur fyrir tímabundinn afnotamissi lands, en samkvæmt því námu bætur til áfrýjanda samtals 1.569.000 krónum. Vegagerðin greiddi þá fjárhæð með fyrirvara 4. nóvember 2004 og tók áfrýjandi jafnframt við henni með fyrirvara.
Að beiðni áfrýjanda voru dómkvaddir tveir menn 24. maí 2005 til að meta stærð þess landsvæðis á jörð hans, sem ónýttist í heild eða að hluta vegna veglagningarinnar, hvert markaðsverð þess lands væri miðað við annars vegar að um væri að ræða byggingarland en hins vegar landbúnaðarland og loks hvert væri verðmæti jarðefnis úr jarðgöngum annars vegar og svonefndum skeringum við veginn hins vegar. Í matsgerð hinna dómkvöddu manna var talið að land sem „ónýtist að fullu“ væri 13,11 hektarar að stærð, en í þeim efnum var tekið mið af veghelgunarsvæði, 30 m frá miðlínu hringvegarins og 15 m frá miðlínu Stokksnesvegar. Þá töldu matsmenn að 37,4 hektarar „ónýtist að hluta“ og miðuðu þar við land innan 120 m frá veghelgunarsvæðinu til hvorrar handar, þó þannig að land innan þeirra marka í skriðum í fjalli ofan við veginn var ekki metið en landræmur utan þeirrar markalínu að flæðarmáli neðan vegar voru teknar með. Þetta land utan veghelgunarsvæðis töldu matsmenn rýrna að verði um 35%. Fullt markaðsverð landsins var talið nema 415.759 krónum á hektara miðað við byggingarland en 200.000 krónum á hektara miðað við landbúnaðarland. Loks töldu matsmenn verð jarðefnis, jafnt úr göngum sem skeringum, vera 35 krónur á m3. Miðuðu þeir við að heildarmagn efnis úr skeringum væri 55.744 m3, en þar var stuðst við upplýsingar, sem Vegagerðin veitti lögmanni áfrýjanda 15. mars 2005 í tengslum við vinnu hans að matsbeiðni. Á grundvelli niðurstöðu matsgerðarinnar krafði áfrýjandi Vegagerðina 13. september 2006 um bætur að fjárhæð 23.336.040 krónur að frádreginni þeirri greiðslu sem hann hafði áður veitt viðtöku með fyrirvara. Vegagerðin hafnaði kröfu um frekari bætur með bréfi 31. október 2006 og höfðaði áfrýjandi mál þetta 31. janúar 2007.
Málið var upphaflega flutt munnlega í Hæstarétti 5. júní 2009. Þann 8. sama mánaðar var tekin ákvörðun um að stefnda yrði, áður en dómur yrði felldur á málið, gefinn kostur á að afla gagna um hversu mikið jarðefni hafi verið tekið til afnota úr svonefndum skeringum, sem gerðar voru utan við það land áfrýjanda sem tekið var eignarnámi vegna vegarins. Í því sambandi var vísað til þess að sjá mætti á loftljósmynd í málsgögnum að þetta hafi verið gert á tveimur nánar tilgreindum svæðum, öðru nærri munna jarðganganna en hinu um 900 m vestan þeirra. Af þessu tilefni hefur stefndi lagt fram bréf verkfræðistofunnar Mannvits 26. ágúst 2009, þar sem því var lýst að á fyrrnefnda svæðinu séu skeringar fyrst og fremst komnar til vegna landmótunar umhverfis gangamunnann, en efni úr skeringum á þessum stað utan þess svæðis, sem tekið var eignarnámi, hafi numið 2.150 m3. Þessar skeringar hafi verið ofan vegar, en neðan hans hafi aðallega verið um fyllingar að ræða. Á síðarnefnda svæðinu hafi verið nokkuð miklar skeringar þar sem vegurinn var lagður yfir klapparholt. Þetta hafi verið gert til að hæðarlega hans tryggði umferðaröryggi með sem mestum sjónlengdum, minnkuð yrði hætta á snjósöfnun og vegurinn félli sem best að landinu. Efni úr skeringum utan hins eignarnumda svæðis hafi hér verið um 400 m3. Áfrýjandi hefur lagt fram bréf frá Ans ráðgjöf ehf. 14. september 2009, þar sem ýmsar athugasemdir voru gerðar við framangreindar upplýsingar, auk þess sem gagnrýnt var að þeim hafi ekki fylgt nein gögn til skýringa eða stuðnings mælingum. Í bréfi þessu var meðal annars talið að efnismagn í skeringum við gangamunn hafi verið stórlega vanmetið og færð að því rök að efnistaka utan hins eignarnumda svæðis væri á þessum stað allt að 20.000 til 25.000 m3. Neðan vegar við gangamunn hafi verið raskað svæði utan þess, sem eignarnumið var, þótt þar hafi ekki verið tekið efni. Þá var talið að tekið hafi verið meira magn af efni úr skeringum á vestara svæðinu en áður er getið. Niðurstaðan í þessu bréfi var sú að nærri léti að heildarmagn efnis úr skeringum utan þess svæðis sem tekið var eignarnámi væri 20.000 til 30.000 m3. Þegar málið var flutt munnlega í Hæstarétti öðru sinni lagði stefndi fram bréf verkfræðistofunnar Mannvits 5. október 2009, þar sem forsendur í áðurgreindu bréfi Ans ráðgjafar ehf. voru gagnrýndar. Þess var einnig getið að mælingar að baki útreikningum í bréfinu frá 26. ágúst 2009 hafi verið gerðar af nafngreindum starfsmanni Vegagerðarinnar, sem hefði áratuga reynslu af slíku.
II
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá kröfu um bætur vegna malarefnis sem kom úr jarðgöngunum undir Almannaskarð.
Áfrýjandi gerir á grundvelli áðurgreindrar matsgerðar dómkvaddra manna kröfu um fullar bætur fyrir 13,11 hektara lands úr jörð sinni, en sem fyrr segir var þessi stærð landsins undir vegstæði fengin þar með því að reikna með 30 m til hvorrar handar frá miðlínu hringvegar og 15 m frá miðlínu Stokksnesvegar. Eins og að framan er rakið gerði Vegagerðin í málinu, sem rekið var fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, grein fyrir því hvaða land væri tekið eignarnámi og meðal gagna málsins er loftmynd, þar sem það hefur verið afmarkað. Samkvæmt henni tók eignarnámið í grófum dráttum til svæðis, sem á hringvegi nær 20 m til hvorrar handar frá miðlínu vegar á þeim hluta hans, þar sem eldri vegur var endurbyggður og breikkaður, og 30 m frá miðlínu, þar sem nýr vegur var lagður, en þó þannig að reiknað var með enn breiðari spildu á tilteknu bili þar sem Stokksnesvegur liggur meðfram hinum nýja vegi. Samkvæmt greinargerð Vegagerðarinnar til matsnefndarinnar taldist þetta svæði, að frádregnu eldra vegsvæði, samtals vera 11,15 hektarar og var úrskurður hennar á því byggður. Mæling á stærð þessa svæðis hefur ekki verið dregin í efa. Áfrýjandi hefur heldur engin haldbær rök fært fyrir því að miða eigi í stað þessa við veghelgunarsvæði á öllu framkvæmdasvæðinu eins og gert var í matsgerð hinna dómkvöddu manna, en úr hliðstæðu álitaefni var leyst í dómi Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um verðmæti hins eignarnumda lands verður fallist á niðurstöðu hans um að fullar bætur hafi þegar verið greiddar fyrir það í samræmi við niðurstöðu Matsnefndar eignarnámsbóta.
Áfrýjandi krefst einnig bóta á grundvelli matsgerðarinnar vegna 37,4 hektara lands sem hann telur að ónýtist að hluta utan svæðisins sem tekið var eignarnámi. Á vestari hluta framkvæmdasvæðisins liggur hinn nýi og endurbyggði vegur nánast á sama stað og eldri þjóðvegur nr. 1 hafði legið um áratugaskeið. Að því er varðar þennan hluta vegarins verður með vísan til forsendna héraðsdóms að fallast á með stefnda að ekki hljótist af vegagerðinni frekari verðrýrnun en orðin var á landi áfrýjanda utan þess sem tekið var eignarnámi. Á austari hluta framkvæmdasvæðisins háttar þannig til að þjóðvegur nr. 1 sveigði áður af láglendi með sjónum og upp eftir skriðum í fjalli að Almannaskarði. Hinn nýi vegur liggur á hinn bóginn áfram með ströndinni á 800 til 900 m kafla uns hann sveigir í átt að munna jarðganganna, en á þó nokkrum hluta þessa svæðis lá áður vegurinn út á Stokksnes. Á þessum kafla var því lagður breiður og fjölfarinn þjóðvegur eftir tiltölulega mjórri láglendisræmu við ströndina í stað þröngs og fáfarins sveitavegar. Fallast verður á með áfrýjanda að eins og hér háttar til hafi land hans með ströndinni utan hins eignarnumda svæðis rýrnað nokkuð í verði. Með hliðsjón af flatarmáli strandlengjunnar á þessum kafla og verðmati Matsnefndar eignarnámsbóta á því landi, sem eignarnámið tók til, eru bætur til áfrýjanda vegna þessa hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Þá krefst áfrýjandi bóta vegna töku jarðefna úr skeringum, sem gerðar voru í landi hans við gerð nýja vegarins. Hann reisir kröfu sína í þessum efnum á áðurgreindri niðurstöðu dómkvaddra manna, þar sem miðað var við að magn efnisins væri 55.744 m3 og verðmæti þess 35 krónur á rúmmetra. Af gögnum málsins, einkum loftmyndum af framkvæmdasvæðinu, verður ráðið að á talsverðum hluta þess hafi skeringarnar verið innan landsins, sem Vegagerðin tók eignarnámi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að hafna kröfu áfrýjanda um bætur vegna efnistöku úr skeringum á því svæði. Gögn málsins bera á hinn bóginn með sér að á tveimur svæðum hafi verið tekið efni úr skeringum utan hins eignarnumda lands og var stefnda sem fyrr segir gefinn kostur eftir fyrri flutning málsins fyrir Hæstarétti á að afla gagna um hversu mikið jarðefni hafi verið tekið á þessum svæðum. Að framan eru rakin þau gögn sem aðilarnir hafa lagt fram og að þessu lúta. Samkvæmt þeim telur stefndi að umrætt efnismagn sé samtals 2.550 m3. Áfrýjandi telur það verulega vanmetið, einkum að því er varðar svæðið við gangamunnann, og að nærri láti að heildarmagn efnis úr skeringum utan eignarnumins lands hafi numið 20.000 til 30.000 m3. Eins og að framan er rakið taldi Vegagerðin í bréfi 15. mars 2005 að heildarefnismagn úr skeringum hafi orðið 55.744 m3. Af útboðsgögnum varðandi gerð þessa vegar sést að áætlað hafi verið að efni úr skeringum við munna ganganna yrði um 27.000 m3, en ekki verður ráðið af gögnum málsins hversu mikið efni hefur fengist á þennan hátt á framkvæmdasvæðinu að öðru leyti. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn um forsendur fyrir áðurgreindum útreikningum á magni efnis úr skeringum utan hins eignarnumda lands. Þá hefur hann heldur ekki lagt fram önnur gögn, sem gætu verið til hliðsjónar um efnismagnið og honum ættu að vera tiltæk, svo sem uppgjör við verktaka. Stefnda var í lófa lagið að tryggja sér sönnur fyrir þessu og verður hann því að bera hallann af vafa um hversu mikið efni var tekið utan hins eignarnumda lands. Í fyrrnefndu bréfi Ans ráðgjafar ehf., sem áfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt, er magn þessa efnis talið að lágmarki 20.000 m3. Að því virtu og með tilliti til kröfugerðar áfrýjanda verða honum dæmdar 700.000 krónur í bætur fyrir þetta efni.
Stefndi verður samkvæmt framansögðu dæmdur til að greiða áfrýjanda 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Matsgerð dómkvaddra manna, sem áfrýjandi aflaði, hefur ekki nýst að neinu leyti til úrlausnar málsins. Með hliðsjón af því og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda samtals 900.000 krónur upp í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Ómari Antonssyni, 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. október 2006 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 900.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2008.
Mál þetta er höfðað 31. janúar 2007 og dómtekið 4. mars 2008. Stefnandi er Ómar Antonsson, Hagtúni 20, Hornafirði. Stefndi er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefnda verði gert að greiða honum 23.336.040 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 27. október 2006 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum 7.576.040 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2005 til greiðsludags. Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar. Til frádráttar komi innborgun stefnda 4. nóvember 2004 að fjárhæð 1.569.000 kr.
Stefndi gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
I.
Með matsbeiðni 5. mars 2004 óskaði stefndi eftir því að matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á landspildu undir vegsvæði og jarðgöng á hringvegi í landi jarðarinnar Horns I í Hornafirði, en stefnandi er eigandi jarðarinnar. Tilefni eignarnámsins var lagning hringvegar að og um ný göng undir Almannaskarð.
Nánar tiltekið fólst framkvæmdin í lagningu hringvegar í 1.146 m tvíbreiðum jarðgöngum undir Almannaskarð milli Skarðsdals og Skarðarfjarðar í Hornafirði. Gangamunni norðan skarðsins er í um 82 m hæð yfir sjávarmáli, en sunnan skarðsins, í landi stefnanda, í um 43 m hæð í klettabelti neðan við Almannaskarð. Við gangamunna beggja vegna voru byggðir vegskálar, 90 m langur norðan megin, en 72 m langur sunnan megin, þ.e. í landi stefnanda. Lagður var 1 km langur vegur að Stokksnesi og gerð ný tenging við hringveginn þar. Frá vegamótum var að mestu um að ræða endurbyggingu og breikkun vegsvæðis. Heildarlengd framkvæmdakaflans er 5,4 km, þar af eru jarðgöng um 1,3 km, nýr vegur um 1,4 km og endurbætur á núverandi vegi á um 2,7 km kafla.
Í landi stefnanda náði framkvæmdin til þess lands sem þörf var á vegna vegarins, gangamunna, vegskála og jarðganga auk þess sem gerð var krafa til eignarnáms á landi yfir göngunum allt þar til göngin eru komin á 30 m dýpi miðað við miðlínu þeirra. Heildarstærð þess lands sem krafist var mats á var 11,15 ha. Stefnandi taldi hins vegar að áhrifa hins nýja vegar gætti langt út fyrir það svæði sem tekið væri eignarnámi og rétt væri að leggja til grundvallar að 72,6 ha lands ónýttust vegna lagningar vegarins. Þá gerði stefnandi kröfu um sérstakar bætur fyrir 42.500 m³ af því malarefni sem kom úr göngunum. Í samræmi við þetta krafðist hann bóta að minnsta kosti að fjárhæð 17.000.000 kr.
Aðdragandinn að ákvörðun um eignarnám var með þeim hætti að stefndi og stefnandi höfðu árangurslaust reynt að ná samkomulagi um bætur af þessu tilefni. Upphaflega bauð stefndi 418.160 kr. í bætur með bréfi, dags. 9. febrúar 2004. Þar af nam bótatilboð fyrir land 92.160 kr. og var þá miðað við 9.600 kr. pr. ha. Bætur fyrir efnistöku námu 266.000 kr. og bætur vegna átroðnings og röskunar 80.000 kr. Í framhaldinu áttu sér stað nokkrar viðræður með aðilum um mögulega bótafjárhæð. Með bréfi 27. febrúar 2004 kynnti stefnandi síðan stefnda hugmyndir sínar um bætur og nam krafa hans samtals 14.500.000 kr. Í kjölfarið áttu sér stað bréfaskipti og samningaumleitanir sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að samkomulag náðist um greiðslu bóta að fjárhæð 1.000.000 kr., fyrir 20.000 m³ af efni sem tekið var úr námu við Sellæk í landi stefnanda, og 200.000 kr. vegna aðstöðu, gegn því að stefndi heimilaði að framkvæmdir vegna umræddrar vegalagningar um land hans hæfust samkvæmt áætlunum og að nánari ágreiningur um ákvörðun bóta yrði lagður fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Stefnandi áskildi sér allan rétt vegna niðurstöðu nefndarinnar í samræmi við 17. gr. laga nr. 11/1973.
Stefnandi kveður að Horn I sé fornt stórbýli og afar hlunnindarík jörð. Jörðin sé landmikil, en þó fjalllend og nýtanlegt undirlendi því af skornum skammti. Á Horni hafi ekki verið stundaður hefðbundinn búskapur um allnokkra hríð og sé jörðin fyrst og fremst nýtt með öðrum hætti. Ríkið, vegna Varnarliðsins, Vegagerðin, fjarskiptayfirvöld og fleiri aðilar hafi leigt hluta jarðarinnar í ýmsum tilgangi. Malar- og gabbrónámur séu í landi jarðarinnar, mikil hlunnindanýting, þ.e. dún- og eggjataka, veiði o.fl. Stefnandi kveðst hafa á undanförnum árum lagt fjármagn í skipulagningu frístundasvæða í landi jarðarinnar. Jörðin sé, með tilliti til nýtingar, vel í sveit sett í næsta nágrenni við helsta byggðakjarna á suðausturhluta landsins, Höfn í Hornafirði, og þjóðveg nr. 1. Í Hornafirði sé rómuð náttúrufegurð og svæðið eftirsótt af ferðamönnum en þangað séu auk annars daglegar flugsamgöngur. Til þess verði því að líta að fasteignaverð í næsta nágrenni við Höfn sé allt annað og miklu hærra en í fjarliggjandi byggðum.
Fyrir matsnefnd eignarnámsbóta krafðist stefnandi bóta að lágmarki að fjárhæð 17.000.000 kr. Sundurliðaðist sú krafa þannig að gerð var krafa um 13.095.000 kr. bætur vegna landskerðingar, 2.125.000 kr. vegna jarðganga og 1.700.000 bóta vegna efnistöku úr námu, óþæginda og óhagræðis. Stefndi mótmælti kröfum stefnanda um bætur fyrir hið eignarnumda land og fyrir það malarefni sem kom úr jarðgöngunum.Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð sinn 29. september 2004, í málinu nr. 3/2004. Niðurstaða nefndarinnar var sú að úrskurðaðar bætur námu 1.569.000 kr. til viðbótar þeim 1.200.000 kr. sem þegar höfðu verið greiddar, auk málskostnaður til stefnanda að fjárhæð 600.000 kr. Sundurliðuðust bæturnar þannig að bætur fyrir 11,5 ha lands námu 1.115.000 kr., bætur fyrir 11.000 m³ malarefnis 154.000 kr. og bætur fyrir tímabundinn afnotamissi lands 300.000 kr.
Með bréfi, dags. 29. október 2004, ákvað stefndi að greiða stefnanda úrskurðaðar bætur, en með fyrirvara um réttmæti og lögmæti úrskurðar matsnefndar. Stefndi áskildi sér hins vegar rétt til að fá úrskurðinum hnekkt fyrir dómstólum og af hálfu stefnanda var jafnframt tekið við bótunum með fyrirvara um að krafist yrði frekari bóta.
Stefnandi taldi að niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta fengi ekki staðist þar sem ákvarðaðar bætur væru í verulegum atriðum alltof lágar. Taldi hann í fyrsta lagi að meta bæri mun stærra land en 11,15 ha og í öðru lagi væri landverð pr. ha metið of lágt. Í þriðja lagi væri endurgjald of lágt fyrir þau jarðefni sem unnin voru úr jarðgöngunum. Að beiðni stefnanda 21. mars 2005 voru dómkvaddir tveir matsmenn, þeir Birgir Jónsson jarðverkfræðingur og Magnús Axelsson fasteignasali. Samkvæmt matsbeiðninni var lagt fyrir þá að meta í fyrsta lagi stærð lands sem ónýttist að öllu leyti eða hluta. Í öðru lagi áttu þeir að meta markaðsverð hvers hektara á svæðinu ef miðað væri annars vegar við að um byggingarland væri að ræða og hins vegar að um landbúnaðarland væri að ræða. Í þriðja lagi var þeim falið að meta verðmæti jarðefnis úr jarðgöngunum og svokölluðum skeringum.
Í matsgerð, dags. í apríl 2006, komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að landsvæði sem ónýttist að fullu við eignarnámið væri 13,11 ha og að landsvæði sem ónýttist að hluta væri 37,4 ha, samtals 50,51 ha. Þeir mátu markaðsverð hins eignarnumda lands á 415.759 kr. pr. ha miðað við að um byggingarland væri að ræða. Veghelgunarsvæði var metið á 200.000 kr. pr. ha og land sem ónýttist að hluta á 70.000 kr. pr. ha miðað við að um landbúnaðarland væri að ræða. Heildarverðmæti landsins, ef það hefði getað nýst sem byggingarland, og ekki lægi vegur eftir því endilöngu, var metið á 21.000.000 kr. Veghelgunarsvæðið var metið á 2.622.000 kr. og talið var að verðrýrnun á landi sem ónýttist að hluta væri 2.618.000 kr., miðað við að um landbúnaðarland væri að ræða. Að lokum komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að matsverð efnis, bæði úr jarðgöngum og úr skeringunum væri 35 kr. pr. m³. Miðað var við að 11.000 m³ af efni hefði komið úr göngunum, sem félli í hlut Horns I, samtals að verðmæti 385.000 kr. Þá var miðað við að efnið úr skeringunum hefði numið 55.744 m³, samtals að verðmæti 1.951.040 kr.
Á grundvelli þessarar niðurstöðu krafðist stefnandi bóta úr hendi stefnda samtals að fjárhæð 23.336.040 kr., sbr. bréf lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 13. september 2006. Krafan sundurliðaðist þannig að krafa um bætur fyrir 50,51 ha lands nam 21.000.000 kr. og krafa um bætur fyrir 66.744 m³ malarefnis nam 2.336.040 kr. Til frádráttar kröfunni kæmi síðan innborgun stefnda 4. nóvember 2004 að fjárhæð 1.569.000 kr. Með bréfi stefnda 31. október 2006 var kröfu um frekari bætur hafnað.
II.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda beri að greiða bætur fyrir 50,51 ha lands og 66.744 m³ malarefnis sem unnið hafi verið úr þeim hluta jarðganganna sem tilheyrir Horni I í Hornafirði og skeringum jarðarinnar.
Stefnandi krefst 21.000.000 kr. bóta fyrir þá 50,51 ha lands sem hafi ónýst sökum eignarnámsins. Í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta sé gert ráð fyrir veghelgunarsvæði sem nái 30 m í hvora átt frá miðlínu. Stefnandi telur slíkar forsendur ekki geta gilt um land hans þar sem nýtanlegt undirlendi jarðarinnar sé tiltölulega lítið. Í þessu tilviki hagi svo sérstaklega til vegna nálægðar sjávar og fjalls að allt undirlendi með fram umræddu vegasvæði ónýtist. Vísar stefnandi í því skyni til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973. Með vegagerðinni hátti svo til að allur vestasti hluti jarðarinnar, þ.e. undirlendi hennar, ónýtist í raun, á kaflanum frá merkjum við Dynjanda út fyrir gangamunna jarðganganna eða allt land milli stöðva 3000 og 5350 samkvæmt hönnunarkortum. Liggi nærri að um fjórðungur nýtanlegs undirlendis jarðarinnar sé í húfi. Þá feli veglagningin í sér þá grundvallarbreytingu að vegurinn liggi mun miðlægar á hinu litla undirlendi sem fyrir hendi sé og geri raunar allt land á umræddum kafla ónýtanlegt, milli fjalls og fjöru.
Fyrir liggi stefnumarkandi og skýrar niðurstöður matsnefndar eignarnámsbóta í þá veru að við veglagningu sem þessa sé óhjákvæmilegt að reikna með því að áhrifa veglagningar gæti langt út fyrir hið hefðbundna 60 m helgunarsvæði. Í þessu sambandi vísar stefnandi til úrskurðar nefndarinnar frá 7. janúar 2003 í máli nr. 2/2002 og að sýnu leyti til sjónarmiða reifaðra í úrskurði frá 9. október í máli nr. 2/2000. Að því er þetta varðar er enn fremur vísað til dóms Hæstaréttar frá 17. mars 2005 í máli nr. 349/2004.
Í matsbeiðni og greinargerð stefnda fyrir matsnefnd eignarnámsbóta sé út frá því gengið að hið eignarnumda land sé samtals 11,15 ha og sé þá miðað við 60 m breitt vegastæði með helgunarsvæði og auk þess dreginn frá 1,26 ha vegna þess vegasvæðis sem fyrir var á jörðinni. Í bréfi stefnda, dags. 31. október 2006, þar sem kröfum stefnanda um frekari bætur var hafnað, sé því haldið fram að dómkvöddum matsmönnum hafi láðst að taka tillit til þess í matinu að hringvegur hafi legið um land Horns um áratugaskeið og því ekki um breytingu að ræða að því leyti á aðstæðum í landi Horns við eignarnámið. Stefnandi mótmælir þessum staðhæfingum stefnda sem röngum og vísar til þess að um þetta segi í matsgerðinni að matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að land sem skilað sé til landeiganda skuli að öðru jöfnu koma til frádráttar landi sem eignarnumið sé í ljósi þess að vegur hafi legið á þessum slóðum um áratuga skeið.
Stefnandi vísar til þess að dómkvaddir matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það land sem ónýttist að fullu væri 13,11 ha og að það land sem ónýttist að hluta væri 37,4 ha. Byggir stefnandi á þessari niðurstöðu í málatilbúnaði sínum. Matsmenn gangi út frá því að vegsvæðið sé 13,11 ha og sé þá miðað við að mælt sé 30 m út frá miðlínu hringvegar og 15 m út frá veglínu Stokksnesvegar. Land sem ónýtist að hluta sé metið 120 m út frá veghelgunarsvæðinu. Sú lína nái alls staðar upp í fjallskriður ofan við veginn og sums staðar niður í flæðarmál. Land í skriðunum sjálfum sé ekki metið, en landræmur með fram flæðarmáli þar sem 120 línan nái ekki til sjávar séu teknar með, enda svo litlir skikar og óhentugir í laginu að þeir nýtist ekki sjálfstætt.
Að því er varðar verðmæti landsins leggur stefnandi áherslu á að samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, sé rétt að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir stefnanda að útvega sér sambærilega eign. Síðan eigi að beita því sjónarmiði sem komi hagstæðast út fyrir stefnanda. Í þessu sambandi telur stefnandi að við mat á bótum verði að líta til staðsetningar landsins í námunda við helsta þéttbýliskjarna landsfjórðungsins, þá möguleika sem í því felist og þau áhrif sem sú staðsetning hafi á markaðsverð jarðarinnar. Stefnandi telur að við verðmat á landinu verði að horfa til framtíðarmöguleika svæðisins, en allt frá árinu 2003 hefur staðið yfir skipulagsvinna í því skyni að reisa á því sumarbústaði eða eftir atvikum aðra byggð á heilsársgrundvelli, sbr. staðfestingu Ullu R. Pedersen landslagsarkitekts þess efnis, dags. 5. júlí 2004. Í þessu sambandi vísar stefnandi sérstaklega til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 2/2002 og dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 í dómasafni á bls. 906. Eignarnám stefnda hafi því skert tekjumöguleika stefnanda, ef ekki útilokað hana, vegna þessa. Stefnandi leggur áherslu á að á Horni hafi ekki verið stundaður hefðbundinn búskapur um allnokkra hríð og sé jörðin fyrst og fremst nýtt með öðrum hætti. Miðað við allar forsendur séu engar líkur á að því að búskapur verði, til framtíðar litið, stundaður á Horni. Land jarðarinnar, m.a. með tilliti til staðsetningar, sé miklu heppilegra til að reisa á því sumarbústaði eða eftir atvikum aðra byggð á heilsársgrundvelli.
Stefnandi telur ekki tækt að lækka bætur sem stefnda verði gert að greiða þó á landinu liggi nú raflína. Það geri spjöll þau sem stefndi gerði á landinu engu minni. Þá bendir stefnandi á að til framtíðar litið verði raflögn austur í Lón fyrir komið með öðrum hætti eða neðanjarðar.
Stefnandi vísar til gerðardóms frá 13. júní 2006 í máli stefnanda gegn utanríkisráðuneytinu, en gerðardómnum hafi verið falið að meta árlega greiðslu fyrir leigu utanríkisráðuneytisins á 131,7 ha landi jarðarinnar Horns annars vegar og bætur fyrir hlunnindamissi hins vegar, samkvæmt samningi frá 5. september 1953, með síðari viðaukum. Niðurstaða gerðardómsins hafi verið sú að árleg landleiga hafi verið ákvörðuð 2.500.000 kr. og endurgjald fyrir hlunnindamissi 505.000 kr. Stefnandi telur hátt mat gerðardómsins gefa góða vísbendingu um verðmæti landsins. Stefnandi vekur athygli á því að gerðardómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að raunveruleg verðmæti hins leigða lands, þ.m.t. hlunnindi, felist í dag í allt öðrum þáttum en fyrir meira en hálfri öld. Sé þá öðru fremur horft til þátta að því er varðar ferðamennsku og því aðdráttarafli sem land á Horni hafi vegna einstæðrar náttúrufegurðar.
Stefnandi vísar jafnframt til kaupsamninga jarðarinnar Hvalness í Lóni frá 3. febrúar 2004, en kaupverð þeirrar jarðar hafi numið tæpum 30 milljónum króna. Þá er vísað til kaupsamnings um spildu úr jörðinni Gautavík í Djúpavogshreppi, sbr. kaupsamning frá 9. september 2003 og afsals 28. febrúar 2004. Kaupverð landsins, sem hafi verið 14,64 ha, hafi verið 4.600.000 kr., eða u.þ.b. 314.000 kr. pr. ha. Þá er vísað til kaupsamnings og afsals um jörðina Þórisdal í Hornafirði, en hún hafi verið seld 2. september 2004 á 39.000.000 kr., kaupsamnings um Bæ I, Miðhús og Stefánspart í Hornafirði, en jörðin hafi verið seld 24. nóvember 2004 á 33.000.000 kr. og til kaupsamnings um jörðina Bæ IV, Hátún í Hornafirði, sem seld var 2. desember 2004 á 17.500.000 kr.
Að því er varðar aðalkröfu stefnanda er byggt á þeirri niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um verðmæti landsins, að heildarverðmæti þess, ef það hefði getað nýst sem byggingarland og ekki lægi vegur eftir því endilöngu, væri 21.000.000 kr. Í niðurstöðu matsmanna um verðmæti hins eignarnumda lands sé tekið fram að þeir álíti að landið hefði fyrst og fremst nýst til útivistar, ferðamennsku og þjónustu tengdri því og þar af leiðandi til frístundabyggðar að einhverju marki.
Að því er varðar bætur fyrir unnið malarefni úr jarðgöngunum vísar stefnandi til þess að í málatilbúnaði stefnda fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið miðað við það að eingöngu komi bætur fyrir land undir jarðgöng þar til komið sé á 30 m dýpi en eftir það komi ekki sérstakar bætur til. Stefnandi mótmælir harðlega þessari aðferðafræði, sem sé án nokkurrar lagaheimildar. Kenningum um takmarkanir eignarréttarins af þessum toga hafi síðast verið hreyft af alvöru á sjötta áratug síðustu aldar en löngu sé viðurkennt að eignarráðum niður á við verði ekki sett slík útmæld takmörk. Þvert á móti sé byggt á því að bæta beri stefnanda að fullu fyrir þann hluta jarðganganna sem sannarlega liggi undir landi fasteignar hans.
Við bótaákvörðun og grundvöll hennar beri að leggja til grundvallar þá meginreglu íslensks réttar að eignarráð fasteignareiganda nái jafnt til umráða og nota undir yfirborði jarðar sem yfir því. Hafi í eignarrétti verið viðurkennt að miða verði við þær kröfur sem eðlilegt sé að viðurkenna með tilliti til hagsmuna landeiganda. Vísast í þessu sambandi sérstaklega til 2. og 3. gr. auðlindalaga nr. 57/1998. Við mat á bótum til stefnanda vegna þess hluta framkvæmdarinnar sem felst í jarðgöngum undir landi hans sé eðlilegt að líta til þess efnis sem tekið hafi verið vegna gangagerðarinnar og verðmætis þess, en allt sé það nýtt af stefnda. Leggur stefnandi áherslu á að hér sé um lágmarksbótaviðmið að ræða. Landbætur vegna ganganna geti aldrei numið lægri fjárhæð, enda verði jafnframt að hafa í huga þær mögulegu framtíðarskorður sem tilvist ganganna setur stefnanda við nýtingu á þessum hluta jarðar sinnar. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi fallist á þessi grundvallar-sjónarmið í úrskurðum sínum, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í málum nr. 3/2004, 2/2005 og 6/2005. Í þessu sambandi vísar stefnandi jafnframt til tveggja dóma Héraðsdóms Reykjavíkur frá 22. september 2006 í málum nr. E-4994/2005 og E-4995/2005. Enn fremur sé á það bent að hinir dómkvöddu matsmenn hafi ekki fallist á það sjónarmið að miða skuli við 30 m jarðvegsdýpt í mati á bótum fyrir efni sem tekið var úr göngunum.
Stefnandi vísar til þess að niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið sú að eignarnámsbætur skyldu greiddar fyrir 11.000 m³ malarefnis úr göngunum og var miðað við 14 kr/m³, eða samtals 154.000 kr. Stefnandi telur það verð sem matsnefndin lagði til grundvallar of lágt í ljósi þess að aðilar höfðu áður komist að samkomulagi um greiðslu bóta fyrir 20.000 m³ af efni sem tekið var úr námu við Sellæk í landi stefnanda, samtals að fjárhæð 1.000.000 kr., eða 50 kr/m³. Þar að auki liggi fyrir samningar um grjótnám úr sama fjalli stefnanda þar sem kaupverð á efni hefur verið 70-140 kr/m³. Stefnandi telur það lítt ef nokkuð rökstutt af hverju jarðefnin úr göngunum séu verðlögð svo miklu lægra en jarðefni úr yfirborðsnámum en stefnandi telur verðgildi þeirra og notin fyrir þau í alla staði sambærileg.
Matsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að 11.000 m³ af efni hafi komið úr göngunum, sem falli í hlut Horns I, samtals að verðmæti 385.000 kr., og að efnið úr skeringunum hafi numið 55.744 m³, samtals að verðmæti 1.951.040 kr. Byggir stefnandi á þessari niðurstöðu í máli þessu. Að því er varðar magn þess efnis sem tekið var úr skeringunum liggi fyrir staðfesting stefnda þess efnis að það hafi numið 55.744 m³, sbr. tölvuskeyti stefnda til lögmanns stefnanda 15. mars 2005.
Stefnandi bendir á að kröfugerð hans taki ekki mið af sérstökum bótum fyrir það land jarðarinnar sem liggi ofan ganganna, þó svo ekki sé útilokað að tilvist þeirra takmarki til framtíðar litið nýtingu þess og/eða náttúruauðlinda þar yfir. Kröfugerð taki, m.a. til einföldunar, eingöngu mið af áætluðu verðmæti þeirra jarðefna sem unnin voru úr gangastæðinu. Af hálfu stefnanda er byggt á því að þær bætur sem þar eigi réttilega að koma fyrir bæti þá eignaskerðingu sem af tilvist ganganna leiðir. Verði engin frekari sönnunarbyrði lögð á stefnanda þar um og þá ekki heldur um meint fjárhagslegt tjón vegna efnistökunnar, sbr. skýrt fordæmi Hæstaréttar í dómi frá árinu 1983, bls. 1538 í dómasafni.
Stefnandi segir að þess grundvallar misskilnings gæti í málatilbúnaði stefnda að eignarhald auðlinda í jörðu fasteignar sé með einhverjum hætti háð handhöfn, ytri tengslum eða vinnanleika auðlindarinnar. Málatilbúnaður þessi tengist og vangaveltum í þá veru að ekki sé sýnt fram á fjárhagslegt tjón stefnanda. Stefnandi segir að taka megi dæmi af jörð þar sem jarðhiti eða grunnvatn sé í jörðu. Samkvæmt skilningi stefnda þá væri hverjum sem er heimilt að vinna slíkan jarðhita, eftir atvikum frá öðrum fasteignum, vegna þess eins að viðkomandi fasteignareigandi hefði ekki upp virk áform um slíka nýtingu sjálfur eða af því að slík nýting væri honum ekki hagkvæm eða arðbær að svo stöddu. Sama dæmi mætti taka af fjölmörgum öðrum jarðrænum auðlindum. Hér sé rangt með farið í grundvallaratriðum, sbr. og dómar Hæstaréttar um bótarétt eigenda jarðhitajarða þar sem nýting frá öðrum fasteignum hafi haft áhrif á þann hluta auðlindarinnar sem liggi undir þeirri fasteign.
Loks áréttar stefnandi að hvað sem líði staðhæfingum stefnda, um erfiðleika og kostnað við vinnslu efnisins, þá hafi efnið allt verið notað til vegagerðar stefnda sem með því spari sér sambærileg efniskaup. Nýting þess sé stefnda því fjárhagslega hagkvæm, sbr. Hrd. 1983:1538. Stefnandi bendir einnig á að í úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta hafi verið fallist á að malarefnið hefði fjárgildi þó ekki myndi borga sig að grafa eftir því sérstaklega. Matsnefndin taldi að líta yrði til þess að stefndi nýtti efnið til vegagerðarinnar sem fyllingarefni og losnaði í staðinn við að flytja efni til þeirra nota um lengri eða skemmri veg. Í þessu sambandi bendir stefnandi enn fremur á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna, en þeir telji að efnið sem kom úr göngunum hafi að mestu leyti nýst til vegagerðarinnar, enda sjáist ekki merki um, hvorugum megin ganganna, að efninu hafi verið komið fyrir utan þeirra. Þá telji matsmenn ekki líklegt að ekið hafi verið með efnið langan veg til að losna við það, enda séu engar vísbendingar um það í gögnum málsins.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda, sem byggir á því að landið hefði getað nýst sem byggingarland, er gerð sú varakrafa að miða eigi bætur við að um landbúnaðarland hafi verið að ræða. Varakrafa stefnanda byggir á niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, en þeir mátu veghelgunarsvæði á 2.622.000 kr. og land sem ónýtist að hluta á 2.618.000 kr., miðað við að um landbúnaðarland væri að ræða. Þá er gerð krafa um greiðslu bóta fyrir efnistöku, samtals að fjárhæð 2.336.040 kr. Að því er varðar þennan lið varakröfunnar vísar stefnandi til rökstuðnings hér að framan.
Um upphafstíma dráttarvaxta er vísað til bréfs lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 13. september 2006, þar sem krafist var bóta á grundvelli niðurstöðu dómkvaddra matsmanna og þess krafist að greiðsla yrði innt af hendi eigi síðar en 27. september 2006. Krafa um dráttarvexti er studd við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 11/1973, 9. kafla vegalaga nr. 45/1994 og meginreglna eignarréttar, sbr. einkum 72. gr. stjórnarskrár.
Krafa um málskostnað er studd við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum. Bent er á að stefnanda sé nauðsynlegt að fá dæmdan virðisaukaskatt ofan á málflutningsþóknun. Er um þetta vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III.
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að hann hafi þegar greitt bætur í samræmi við úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 3/2004.
Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að jarðefnin úr jarðgöngunum hafi ekki verið matsandlag enda hafi þau ekki verið meðal þess sem fram kom í matsbeiðni 5. mars 2004, sbr. greinargerð stefnda til matsnefndar eignarnámsbóta. Því hafi matsnefndin ekki haft heimild til þess ákvarða bætur fyrir efni úr jarðgöngunum að beiðni stefnanda (matsþola).
Stefndi telur að nefndin hafi ekki heimild nema í tveimur tilvikum til að meta bætur fyrir hagsmuni sem ekki séu tilgreindir sem matsandlag í matsbeiðni. Annars vegar þegar hafið sé yfir vafa að skert séu stjórnarskrárvarin eignarréttindi í eigu matsþola, sem ekki séu tilgreind í matsbeiðni, og að krafa komi frá matsþola um að eignarnámið nái til þeirra. Hins vegar að uppfyllt séu skilyrði 12. gr. laga nr. 11/1973 sem heimili matsnefnd eignarnámsbóta að gera eignarnema að taka eignarnámi þann hluta eignar, sem eftir sé, verði hann ekki nýttur sem sjálfstæð eign. Stefndi telur hvorugt eiga við um jarðefnin og því hafi matsnefnd verið óheimilt að meta stefnanda bætur vegna þeirra.
Stefndi vísar til þess að í 2. gr. laganna um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 komi fram að matsnefnd eignarnámsbóta „sker úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms“
Stefndi telur að hlutverk matsnefndar eignarnámsbóta sé fyrst og fremst að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald fyrir eignarnumin verðmæti. Matsnefndin hafi ekki það hlutverk og lögsaga nefndarinnar nái ekki til þess að skera úr ágreiningi um eignarrétt. Það sé hlutverk dómstóla. Í máli þessu liggi fyrir að ágreiningur sé með aðilum um það hvort réttur til nýtingar umræddra jarðefna hafi verið eign stefnanda en það viðurkenni stefndi ekki. Matsnefndin hafi farið út fyrir lögskipað hlutverk sitt og lögsögu með því að taka afstöðu til þessa álitaefnis. Þar sem úrlausn dómstóla hafi ekki legið fyrir um það álitaefni hvort nýting jarðefnisins væri stjórnarskrárvarin eign stefnanda hafi verið óheimilt að ákvarða bætur vegna þess.
Stefndi vísar til þess að í 4. gr. laganna um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973 komi fram að í eignarnámsbeiðni skuli m.a. tilgreina þær eignir, sem eignarnám lýtur að, og þar sé þeim eignarskerðingum lýst, sem eignarnámið hafi í för með sér.
Í 12. gr. laganna komi fram að „skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar sem eftir er, verði ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, geti matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar“.
Stefndi byggir á því að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta hafi ekki verið í samræmi við framangreind ákvæði laganna. Ekki hafi verið ástæða til þess að taka efni úr jarðgöngum með í matsbeiðni þar sem ekki hafi verið um að ræða eignaskerðingu á fasteign stefnanda sem kæmi í veg fyrir það að hún yrði nýtt á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign. Þvert á móti geti stefnandi nýtt eignina á allan venjulegan og eðlilegan hátt með sama hætti og áður. Á því hafi ekki orðið nein breyting. Í 12. gr. sé tæmandi talið við hvaða kringumstæður matsnefndin geti metið eign sem ekki sé andlag mats samkvæmt beiðni eða hafi ekki augljóslega láðst að geta um í matsbeiðni. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum komi fram að 12. gr. taki til þess þegar sá hluti eignarinnar, sem eftir standi, verði svo lítill eða að öðru leyti ólánlegur, að eigandi hans hafi litla sem enga hagsmuni af að halda honum eða hann geti jafnvel orðið honum til fjárhagslegrar byrði, þá sé ekki óeðlilegt að eignarnemi verði skyldaður til að taka við eigninni allri, ef krafa kemur fram um það af hálfu eiganda, enda yrði oftast um óverulega hækkun eignarnámbóta af þeim sökum að ræða. Þá komi fram í greinargerð með 12. gr. að þegar hluti eignar sé tekinn eignarnámi geti orðið tjón sem sé fólgið í verðmætisrýrnun á þeim hlutanum sem eftir standi. Byggir stefndi á því að gagnálykta megi frá 12. gr. laganna, að matsnefndin geti ekki við aðrar kringumstæður en greinin taki til, metið eign sem ekki sé matsandlag samkvæmt matsbeiðni, nema ótvírætt sé að stjórnarskrárvarin eignarréttindi séu tekin eignarnámi en þeirra ekki getið í matsbeiðni.
Stefndi telur að dómur Hæstaréttar í málinu nr. 18/1995 hafi enga þýðingu í þessu sambandi. Í því máli hafi eignarnemi (Landsvirkjun) haldið því fram að eignarnám í þágu hans á landi eignarnámsþola tæki aðeins til takmarkaðra eignarréttinda, þrátt fyrir að í matsbeiðni kæmi fram krafa á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973, um að eignarnemi fengi að taka í sín umráð það land sem eignarnámsheimildin tæki til. Auk þess hafi legið fyrir matsgerð dómkvaddra matsmanna um stærð þess lands sem eignarnemi þurfti undir mannvirki sín.
Ákvæði 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 styðji framangreinda niðurstöðu þar sem fram komi að bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það. Sönnunarbyrðin um það hvort stefnandi sé eigandi hagsmuna, sem skertir séu við eignarnám, hvíli á honum. Stefndi telur stefnanda ekki geta sýnt fram á eignarrétt að því efni sem tekið var úr göngunum. Tilkall stefnanda til nýtingar jarðefna sem stefndi ruddi úr göngunum verði ekki hafið yfir allan vafa nema með dómi að undangenginni umfjöllun um það álitaefni hver séu mörk eignarréttar í jörðu niður.
Stefndi telur að af framangreindu leiði að matsnefndin átti ekki að úrskurða bætur fyrir efni úr göngunum.
Þá byggir stefndi á því að 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms geri ráð fyrir því að eignarnám hafi í för með sér eignaskerðingar fyrir eignarnámsþola. Með sama hætti geri 1. mgr. 45. gr. þáverandi vegalaga nr. 45/1994 ráð fyrir að bætur séu því aðeins greiddar fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi ef álitið verði að landeigandi beri skaða við það.
Ekki geti verið um skerðingu á hagsmunum stefnanda að ræða þar sem um sé að ræða jarðefni sem hvorki séu aðgengileg né vinnanleg fyrir hann. Ekki sé ágreiningur um það í málinu að jarðefnin séu hvorki vinnanleg né aðgengileg fyrir stefnanda þar sem þau séu svo djúpt í jörðu. Í því sambandi vísar stefndi til greinargerðar Björns Harðarsonar jarðverkfræðings, dags. 19. maí 2006, sem lögð hefur verið fram í málinu, þar sem hann tekur saman kostnað við efnistöku úr annars vegar Fáskrúðsfjarðargöngum og hins vegar göngunum undir Almannaskarð. Komi þar m.a. fram að kostnaður við að fjarlægja efni úr göngunum hafi verið 7.625 kr. per /m³ en að kostnaður yrði 2.266 kr. per/m³ ef um efnistökugöng væri að ræða, þ.e. göng sem yrðu til í þeim eina tilgangi að efni væri tekið úr þeim. Þetta sýni svo ekki sé um villst að efnið hafi hvorki verið aðgengilegt né vinnanlegt fyrir stefnanda.
Til þess að um skerðingu sé að ræða í skilningi laga þá verði möguleikar stefnanda til að nýta hin meintu gæði, þ.e. jarðefnin, að vera raunverulegir. Þeir möguleikar hafi hins vegar aldrei verið fyrir hendi fyrir hann. Það að engin skerðing hafi orðið á hagsmunum stefnanda leiði til þess að hann hafi ekki orðið fyrir neinum skaða vegna aðgerða stefnda.
Byggir stefndi á því að orsakasamband þurfi að vera á milli eignarnáms og þeirrar skerðingar sem eignarnámsþoli verður fyrir. Stefnandi hljóti að bera sönnunarbyrðina fyrir því að orsakasamband sé þarna á milli. Hann hafi hvorki sýnt fram á þetta orsakasamband né það að hann hafi orðið fyrir tjóni og að það tjón sé fjárhagslegt. Enda hafi ekkert það gerst með jarðgangagerðinni sem skerði hagsmuni hans eða hafi áhrif á nýtingu hans á jörðinni. Það sé því rangt að halda því fram að stefndi hafi hagnast á kostnað stefnanda eins og stefnandi haldi fram í málatilbúnaði sínum.
Stefndi telur að þau sjónarmið sem einkum sé byggt á við ákvörðun eignarnámsbóta, þ.e. viðmiðun við söluverð, notagildi og enduröflunarverð, eigi ekki við í þessu máli, þar sem ekki sé um skerðingu á hagsmunum stefnanda að ræða. Viðmiðun við söluverð eigi augljóslega ekki við þar sem það svari engan veginn kostnaði að sækja efni að þessum gæðum djúpt í jörðu og efnið verði því aldrei söluvara. Sama eigi við um notagildi, en augljóst sé að jarðefni svo djúpt í jörðu, sem ekki borgi sig að vinna, gefi engan arð af sér. Notagildi þess sé því ekkert. Viðmiðun við enduröflunarverð eigi heldur ekki við þar sem skerðing sé engin og fyrir liggi að stefnandi hefði aldrei getað nýtt sér efnið þar sem of kostnaðarsamt sé að sækja það.
Þá byggir stefndi á því að ekki sé um hefðbundið nám á jarðefnum að ræða, heldur sé verið að ryðja jarðefnum úr vegi vegna samgöngubóta. Tilviljun ein ráði því að stefndi hafi getað nýtt hluta þess efnis sem orðið hafi til við borun jarðganganna. Þannig hefði það ekki breytt neinu um gerð gangnanna þótt stefndi hefði ekki getað nýtt sér jarðefni úr þeim. Jarðgöngin hefðu orðið til eftir sem áður enda markmið þeirra allt annað en að grafa eftir jarðefnum.
Stefndi heldur því fram að ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, breyti engu um þá niðurstöðu að stefnandi eigi ekki rétt á bótum við þessar aðstæður. 2. gr. laganna taki til þess „að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög setja á hverjum tíma“, eins og það sé orðað í ákvæðinu. Stefndi byggir á því að stefnandi fari ekki með venjuleg eignarráð svo djúpt í jörðu sem jarðgöngin eru. Hin venjulegu eignarráð hljóti að takmarkast við þá nýtingu sem er möguleg á hverjum tíma, þ.e. að honum sé mögulegt að nýta efnið sem sé alls ekki raunin. Stefndi telur að þessi afstaða sín fari vel saman við það sem talið hafi verið að gildi í íslenskum rétti, þ.e. að eignarráð landeiganda nái svo langt niður sem nauðsynlegt sé til þess að landeigandi geti haft þau not af landi sínu sem heyri til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteignum. Landeiganda beri eignarréttur svo langt í jörðu sem hafa megi not af eigninni. Miðist það þá við þau mörk sem vinnsla jarðefna er möguleg á hverjum tíma.
Þá byggir stefndi á því að efni sem engan veginn borgi sig að vinna geti varla talist auðlind í skilningi 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. laganna. Fyrri liggi að stefnandi hefði aldrei getað haft tekjur af því efni nema vegna aðgerða stefnda, þ.e. gerð jarðganganna, en þau hafi ekki í för með sér neina kvöð á landi, sbr. hins vegar dómur Hæstaréttar í máli nr. 89/1980 þar sem jarðefni hafi verið ofanjarðar og aðgengileg og vinnanleg. Þannig hafi efnistakan haft í för með sér „vissar eignakvaðir“, eins og það hafi verið orðað í héraðsdómi, sem var staðfestur í Hæstarétti að því er þetta atriði varðar. Þá hafi í því máli verið um að ræða ákveðið rask á svæðinu og umferð um það sem ekki eigi við í þessu máli.
Stefndi vísar til þess að í 2. gr. laga nr. 57/1998 komi fram að eignarráð stefnanda séu innan þeirra marka sem lög setji á hverjum tíma. Það hafi m.a. verið gert með lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og vegalögum nr. 45/1994. Í lögunum um framkvæmd eignarnáms sé gert ráð fyrir að bætur greiðist aðeins til eignarnámsþola þegar um skerðingu á hagsmunum hans sé að ræða en í 45. gr. vegalaga sé aðeins gert ráð fyrir greiðslu bóta fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi, hafi landeigandi beðið skaða við það. Stefndi byggir á því að þessi ákvæði séu í fullu samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar um að fullt verði komi fyrir eign. Þá beri að líta til þess að ekki sé um hefðbundið nám á efnum að ræða, eins og áður hefur verið vikið að, heldur sé verið að ryðja göngin vegna samgöngubóta.
Með vísan til þess sem að framan greinir, um jarðefnin í göngunum, telur stefndi að málið snúist í raun um það hvort það að stefndi gat nýtt sér eitthvað af því efni sem til varð við ruðning jarðganganna eigi að leiða til ávinnings fyrir stefnanda, jafnvel þótt hann hefði undir engum öðrum kringumstæðum getað nýtt sér efnið. Með öðrum orðum snúist það um það hvort ávinningur stefnda geti orðið bótaandlag til hagsbóta fyrir stefnanda. Stefndi heldur því fram að á því hafi hingað til ekki verið byggt í íslenskum rétti heldur þurfi að vera um einhvers konar skerðingu á hagsmunum að ræða, sbr. t.d. áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 89/1980. Í því máli hafi allt efnið verið aðgengilegt og vinnanlegt og vinnsla þess haft í för með sér „vissar eignakvaðir“, eins og áður hefur komið fram.
Stefndi telur, með hliðsjón af óaðgengileika og miklum kostnaði við vinnslu umræddra jarðefna, að umrædd efni hljóti að hafa talist verðlaus með öllu fyrir stefnanda. Gildi þá einu hvort fræðilega séð megi telja umrædd efni auðlind og að þau hafi verið háð eignarrétti stefnanda. Engar bætur eigi að ákvarða stefnanda fyrir þau þar sem þau hafi bersýnilega verið verðlaus þar sem vinnslukostnaður jarðefna af því dýpi sem hér um ræðir sé mun hærri en hæsta mögulega söluverð þeirra.
Telur stefndi að allt framangreint leiði til þess að stefnandi eigi ekki rétt á greiðslu fyrir þau jarðefni sem komu til við ruðning þeirra úr göngunum vegna samgöngubóta.
Kröfur um bætur fyrir efni úr svokölluðum skeringum, sem stefnandi geri í málinu, samtals 55.744 m3 samkvæmt matsgerð, telur stefndi engan veginn standast. Skeringarnar séu hluti af hinu eignarnumda landi og stefnda verði ekki gert að greiða bætur fyrir jarðefni úr því líka. Þannig væri hann að greiða bætur tvisvar fyrir sama landið, annars vegar fyrir land og hins vegar fyrir jarðefni úr sama landi. Byggir stefndi á því að þessi krafa sé ekki í samræmi við þau fordæmi sem gengið hafi í sambærilegum málum fyrir dómstólum, en þar hafi stefnda aðeins verið gert að greiða bætur fyrir eignarnumið land, en ekki það efni sem hann kunni síðan að hafa tekið úr því.
Að því er varðar stærð á því landi sem tekið var eignarnámi vísar stefndi til greinargerðar sinnar til matsnefndar eignarnámsbóta þar sem fram komi að eignarskerðing taki til 11,15 ha lands og matsnefnd eignarnámsbóta hafi staðfest það í úrskurði sínum. Um stærð og legu hins eignarnumda lands vísar stefndi til ljósmyndar sem lögð hefur verið fram og uppdráttar á henni. Telur stefndi að matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem stefnandi byggi kröfur sínar á, sé verulega ábótavant, svo ekki sé fastara að orði kveðið. Í niðurstöðum matsmanna sé gert ráð fyrir að land sem ónýtist að fullu sé 13,11 ha en land sem ónýtist að hluta sé 37,4 ha. Telur stefndi þetta fjarri lagi.
Stefndi byggir á því að þjóðvegurinn hafi legið um land stefnanda í marga áratugi og löngu fyrir þann tíma sem stefnandi hafi eignast jörðina. Hinir dómkvöddu matsmenn hafi ekki tekið tillit til þessa. Um sé að ræða eignarnám á landi vegna breikkunar á vegi sem hafi verið þarna um a.m.k. áratuga skeið. Það sé því aðeins breikkunin sjálf sem komi til skoðunar. Ekki verði til neitt nýtt helgunarsvæði þar sem gamla veginum hafi fylgt helgunarsvæði, sbr. 33. gr. vegalaga. Þrátt fyrir þetta dragi stefndi aðeins gamla veginn sjálfan frá hinu eignarnumda landi þar sem framkvæmdasvæðið við vegagerðina (breikkunina) hafi náð aðeins út á veghelgunarsvæðið. Stefnandi njóti þessa. Þannig sé hið eignarnumda svæði, sem stefndi hafi gert ráð fyrir í útreikningum sínum og matsnefnd eignarnámsbóta staðfesti, í raun stærra en það land sem strangt til tekið hefði verið eignarnumið ef stefndi hefði krafist þess að a.m.k. hluti veghelgunarsvæðis gamla vegarins hefði verið dregið frá ásamt veginum sjálfum. Byggir stefndi á því að í íslenskum rétti séu áratuga fordæmi um að draga eigi frá eignarnumdu landi flatarmál gamalla vega sem verði landeiganda til afnota á ný vegna nýrrar vegalagningar, sbr. dómur Hæstaréttar frá 1980, bls. 920 (Leirvogstungudómur), hrd. í málinu nr. 349/2004 og hrd. í málinu nr. 18/1995. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994 þar sem gert sé ráð fyrir því að eldri vegur sem leggst af við nýja vegalagningu og fellur til landeiganda skuli sérstaklega metinn og sú fjárhæð sem þannig fæst dregin frá þeirri fjárhæð sem landeiganda ber fyrir hinn nýja veg. Grunnrökin að baki þessu ákvæði eru þau að landeigandi eigi ekki að fá bætur vegna þeirra vega sem fyrir eru í landi hans. Þá byggir stefndi á því að land með fram veginum verði áfram nýtanlegt sem beitiland eða til annarra nota hér eftir sem hingað til.
Stefndi byggir á því að ekki liggi fyrir hvernig hið gamla vegastæði kom til eða hvaða samningar lágu því til grundvallar. Telur stefndi að a.m.k. fullnuð afnotahefð sé komin á þau not, sbr. 7. gr. hefðalaga nr. 46/1905, enda hafi gamli vegurinn legið um landið í marga áratugi, en afnotahefð telst fullnuð að liðnum 20 árum enda séu önnur skilyrði uppfyllt. Þá hljóti krafa stefnanda að vera niður fallin fyrir tómlæti, en hann hafi ekki svo vitað sé gert athugasemdir við gamla veginn. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 18/1995 þar sem ekkert hafi legið fyrir um það hvort landeigandi krafðist bóta þegar gamall vegur var lagður eða hvort hann hafði látið land undir hann án endurgjalds. Telur stefndi að þar sem gamli vegurinn, ásamt veghelgunarsvæði sem honum fylgdi, hafi legið í áratugi í landi stefnanda verði aðeins tekið tillit til þeirrar breikkunar sem varð á veginum og framkvæmdasvæði hans þegar mat sé lagt á stærð hins eignarnumda lands og greiðslu bóta vegna þess. Breikkunin á veginum geti ekki valdið stefnda tjóni eða eignarskerðingum umfram það, þegar litið sé til gamla vegarins og áhrifasvæðis hans. Ekki sé um það að ræða að hin nýja vegalagning nú hafi spillt óspilltu landi. Því sé fráleitt að fallast á það með hinum dómkvöddu matsmönnum að land sem ónýtist að hluta sé 37,4 ha en matsmenn geri ráð fyrir því í matsgerð sinni að það land sé metið 120 metra út frá veghelgunarsvæðinu. Telur stefndi að ekki þurfi að fara lengra en í Grímsnes- og Grafningshrepp, þar sem fjölmennasta sumarhúsabyggð landsins sé, til þess að sjá að þau sumarhús sem standi næst þjóðvegi, séu aðeins í nokkra tugi metra fjarlægð frá miðlínu hans. Ekki verði því séð að land í allt að 120 metra fjarlægð frá veghelgunarsvæðinu ónýtist að hluta.
Vísar stefndi í þessu sambandi einnig til 1. mgr. 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 þar sem gert sé ráð fyrir því að leyfi Vegagerðarinnar (stefnda) þurfi (aðeins) til ef staðsetja eigi mannvirki nær vegi en 30 metra frá miðlínu stofnvega og 15 metra frá miðlínu annarra þjóðvega. Stefndi telur þó að 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 feli ekki í sér slíka kvöð á landi að jafna megi til eignarnáms, frekar en t.d. ákvæði skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og ýmissa annarra laga er áskilji leyfi opinbers aðila til mannvirkjagerðar. Þannig sé óheimilt samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falli undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Um sé að ræða almenna kvöð sem hvíli á öllum sambærilegum eignum með sama hætti og lögð séu á vegna almannahagsmuna. Stefndi telur að ekki sé sjálfgefið að synjað yrði í öllum tilvikum um leyfi samkvæmt 33. gr. vegalaga. Þannig sé ekki heimilt fyrir fram að slá því föstu að land sem kvöðin hvíli á nýtist ekki til neins konar mannvirkjagerðar vegna þessa ákvæðis.
Að því er varðar verð á hinu eignarnumda landi vísar stefndi til umfjöllunar í greinargerð sinni til matsnefndar eignarnámsbóta og úrskurðar nefndarinnar í máli nr. nr. 3/2004, þar sem fram komi það mat nefndarinnar að hinn eignarnumdi hluti jarðarinnar sé „ekki sérlega hentugur til sumarhúsa eða frístundabyggðar“, eins og það sé orðað. Telji matsnefndin að eðlilegt markaðsverð fyrir hið eignanumda svæði sé 100.000 kr. á hvern hektara lands. Telur stefndi að það sé hámarksverð fyrir hið eignarnumda land. Hinir dómkvöddu matsmenn miði hins vegar í matsgerð í fyrsta lagi við að um sé að ræða 50,51 ha byggingarland sem stefnda beri að bæta, sem þeir meti á 415.759 kr. hvern ha, eða samtals 21.000.000 kr. Segir um þetta í matsgerðinni að „heildarverð landsins ef það hefði getað nýst sem byggingarland og ekki lægi vegur eftir því endilöngu, er metið á kr. 21.000.000,-“.
Hins vegar meti hinir dómkvöddu matsmenn veghelgunarsvæðið á 200.000 kr. pr. ha og land sem ónýtist að hluta á 70.000 kr. pr. ha miðað við að um landbúnaðarland sé að ræða. Segir um þetta í matsgerðinni að „veghelgunarsvæðið er metið á kr. 2.622.000,- og verðrýrnun á landi sem ónýtist að hluta er kr. 2.618.000,-“.
Komi síðan fram í matsgerðinni að landið „sé rýrt að gæðum þegar á heildina er litið og hæpið að það myndi borga sig að rækta það upp“. Síðan segi: „Matsmenn álíta að landið hefði fyrst og fremst nýst til útivistar, ferðamennsku og þjónustu tengdri því og þar af leiðandi til frístundabyggðar að einhverju marki.“ Þá komi fram að ef landið hefði getað nýst sem byggingarland hefði þurft að leggja í verulega fjárfestingu og kynningu á landinu.
Vísar stefndi í því sambandi til þess að ekkert liggi fyrir um að landið sé ætlað til annars en landbúnaðarafnota samkvæmt aðalskipulagi fyrir svæðið, sbr. fyrirliggjandi aðalskipulagskort og bréf sveitarfélagsins Hornafjarðar, dags. 7. júní 2004. Því séu engin efni til þess að miða bætur fyrir hið eignarnumda land við annað en hefðbundin landbúnaðarafnot, þ.e. beitarafnot og því sé fráleitt að miða kröfugerð við að um gott byggingarland sé að ræða eins og hinir dómkvöddu matsmenn geri og stefnandi taki upp í kröfugerð sinni. Þá mótmælir stefndi þeirri reikningsaðferð sem matsmenn viðhafi og sé „heimatilbúin“ af þeim. Að því er varðar verð á landbúnaðarlandi miði hinir dómkvöddu matsmenn við verðstuðulinn 60 á landi stefnanda miðað við að verð á Þjórsártúni sé 100. Þetta geri matsmenn þrátt fyrir að fyrir liggi að land á Höfn hafi ekki haldið í við verð á fasteignum í Árborg, heldur beinlínis lækkað verulega á milli áranna 2002/2003 til 2005/2006, (sbr. bls. 36 í matsgerð). Ekki sé saman að jafna landi stefnda og landi Þjórsártúns sem sé í einu gjöfulasta landbúnaðarhéraði landsins, tiltölulega stutt frá Reykjavík og öðrum fjölmennum þéttbýlisstöðum.
Að því er varðar verð á hektara á byggingarlandi telji hinir dómkvöddu matsmenn að það sé 415.759 kr. pr ha. Sé það m.a. fundið út frá meðalverði sumarhúsa á landinu öllu sem reyndist vera 12,7 milljónir kr. Telur stefndi að slíkur samanburður hafi enga þýðingu þar sem ekki liggi fyrir hvar þau 193 sumarhús voru sem könnunin náði til auk þess sem langstærsti hluti sumarhúsa sé í innan við einnar klukkustundar fjarlægð frá Reykjavík. Það séu langdýrustu húsin sem hljóti að hafa veruleg áhrif á útreikningana. Þá sé ólíklegt að sumarhús í landi stefnanda sé eftirsótt markaðsvara þar sem afar ólíklegt sé að íbúar af höfuðborgarsvæðinu byggi sér sumarhús þar enda sé landið í a.m.k. 5 klst. akstursfjarlægð frá Reykjavík. Gerir stefndi athugasemdir við hvernig lóðarverðið er fundið í landi stefnanda út frá framangreindum verðum á sumarhúsum.
Þá byggir stefndi á því að mat hinna dómkvöddu matsmanna taki mið af verðum frá 2006 þrátt fyrir að fyrir liggi að eignarnámsúrskurður hafi verið kveðinn upp í september 2004. Alkunna sé að fasteignir, þ.m.t. land, hafi hækkað mikið á þeim tíma. Matsmennirnir verði hins vegar að miða við verð eins og það var þegar eignarnámið hafi farið fram. Þetta geri matið ónothæft.
Varakröfu sína um lækkun stefnukrafna styður stefndi við sömu sjónarmið og um aðalkröfuna. Land sem stefnandi krefjist bóta fyrir sé allt of stórt og of dýrt. Þá sé svo dýrt að sækja jarðefnin niður í jarðgöngin, og þau svo misjöfn að gæðum, að aðeins sé eðlilegt að greiða fyrir þau lágmarksverð, þ.e. minna en 14 kr. pr. rúmmetra, eins og matsnefnd eignarnámbóta geri ráð fyrir, hvað þá minna en 35 kr., eins og hinir dómkvöddu matsmenn geri ráð fyrir. Þá áréttar stefndi að engan veginn sé eðlilegt að stefndi greiði fyrir skeringarnar í hinu eignarnumda landi. Allt leiði þetta til þess að lækka verði kröfur stefnanda.
Varðandi málsástæður og lagarök stefnda að öðru leyti vísar hann til greinargerðar sinnar fyrir matsnefnd eignarnámsbóta og til viðbótargreinargerðar til nefndarinnar. Þá er vísað til rökstuðnings matsnefndar eignarnámsbóta að hluta í úrskurði nefndarinnar. Enn fremur er vísað til vegalaga nr. 45/1994, einkum IX. kafla, og laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, 72. gr. stjórnarskrárinnar og til meginreglna eignarréttarins um eignarréttindi manna.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum.
IV.
Í máli þessu er deilt um það fyrir hversu breitt landsvæði skuli greiða eignarnámsbætur vegna vegaframkvæmda stefnda á þjóðvegi nr. 1 og hvert verðmæti landsins sé. Einnig er ágreiningur um bætur fyrir jarðefni, annars vegar úr jarðgöngum og hins vegar úr svokölluðum skeringum.
Með endurbótum á þjóðvegi nr. 1 voru gerð tvíbreið jarðgöng undir Almannaskarð í sveitarfélaginu Hornafirði. Jafnframt var lagður nýr vegur næst gangamunnanum og eldri vegur endurgerður og breikkaður á nokkrum kafla. Syðri hluti ganganna liggur í landi stefnanda, jarðarinnar Horns, en nyrðri hlutinn í landi jarðarinnar Syðri-Fjarðar í Lóni.
Í dómi Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í máli nr. 644/2006 var til úrlausnar ágreiningur um bætur fyrir umrædda vegaframkvæmd í landi jarðarinnar Syðri-Fjarðar. Sömu sjónarmið eiga við hér og í dómi Hæstaréttar hvað varðar jarðefni sem kom úr jarðgöngunum. Með sama hætti og í því máli var matsnefnd eignarnámsbóta rétt að meta það efni sem stefndi tók og fór nefndin því ekki út fyrir lögmælt hlutverk sitt með því að meta það til verðs. Þá liggur fyrir, líkt og í landi Syðri-Fjarðar, að verðgildi efnisins eftir nám þess úr göngunum er einungis lítið brot af kostnaði við að vinna það og getur nám þessa efnis aldrei gefið af sér arð. Þannig verður að leggja til grundvallar að verðmæti efnisins í jörðu hafi ekkert verið og getur það því ekki fallið undir hugtakið auðlind samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998. Það fellur því utan við það sem telst eign stefnanda undir yfirborði lands hans, hvort heldur sem litið er til viðurkenndra sjónarmiða í eignarrétti eða áðurnefndra laga. Stefnda var samkvæmt því heimilt að taka efnið og nýta það. Fól það ekki í sér tjón fyrir stefnanda og er stefnda því óskylt að greiða fyrir jarðefnið úr göngunum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 45. gr. þágildandi vegalaga nr. 45/1994.
Stefnandi krefst einnig bóta vegna efnis úr svokölluðum skeringum. Við aðalmeðferð málsins útskýrði lögmaður stefnda að efnið væri tilkomið við það að sneiða þurfi hæðir og hóla í landi sem tekið er undir vegastæði. Efnið væri svo notað í vegagerðina. Skeringarnar eru nánast að öllu leyti hluti af hinu eignarnumda landi. Ekki liggur fyrir hversu mikið magn var tekið utan við það, en af uppdrætti af svæðinu sést að það hefur verið óverulegt. Ef stefnda væri jafnframt gert að greiða bætur fyrir efni sem tekið er úr eignarnumdu landi væri hann að tvígreiða fyrir sama landið. Að öllu þessu virtu verður að hafna kröfum stefnanda um bætur fyrir jarðefni úr skeringunum.
Stefnandi telur að 50,51 ha ónýtist sökum eignarnámsins, 13,11 ha að fullu og 37,4 ha að hluta, en ekki 11,15 ha eins og matsnefnd eignarnámsbóta kvað á um í úrskurði sínum. Um stærð landsins og verðmæti þess vísar stefnandi til matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Matsmenn töldu að heildarverðmæti landsins væri 21.000.000 kr. „ef það hefði getað nýst sem byggingarland og ekki lægi vegur eftir því endilöngu“. Er þetta áréttað í matsgerðinni í umfjöllun um nýtingu svæðisins þar sem segir að landið gæti verið hentugt fyrir byggð „væri hringvegurinn ekki þarna eftir endilöngu landinu“. Í þessu sambandi er til þess að líta að þjóðvegurinn hefur legið í landi stefnanda í áratugi. Umræddar vegaframkvæmdir felast í því að þjóðvegurinn er breikkaður á kafla og svo er hann látinn halda áfram í nánast sömu veglínu og eldri vegur sem liggur til Stokknes og að jarðgöngunum. Er því ekki unnt að fallast á að meira land ónýtist sökum eignarnámsins en áður var. Hið eignarnumda land telst því 11,15 ha þegar tekið hefur verið tillit til frádráttar vegna eldra veghelgunarsvæðis.
Þá hefur að mati dómsins ekki verið sýnt fram á að verðmæti landsins sé það sem stefnandi heldur fram. Að virtum gögnum málsins og myndum af svæðinu tekur dómurinn undir með matsnefnd eignarnámsbóta að hinn eignarnumdi hluti jarðar stefnanda sé ekki sérlega hentugur til byggðar og að aðrir hlutar jarðarinnar nýtist betur til þeirra hluta. Til þess er að líta að matsmenn telja að ekki sé víst að íbúar á Höfn yrðu áhugasamir kaupendur. Jafnframt er landið í of mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu til að þessi hluti landsins geti almennt talist eftirsóknarverður. Enn fremur er til þess að líta að í matsgerð segir að til að landið gæti nýst sem byggingarland þyrfti að leggja í verulega fjárfestingu við að skipuleggja og kynna svæðið. Er því ekki fallist á að umrætt svæði hefði getað nýst sem byggingarland. Einnig verður að horfa til þess að matsmenn telja að það nýtist illa sem landbúnaðarland og í málatilbúnaði stefnanda sjálfs segir að engar líkur séu á því að búskapur verði stundaður þarna í framtíðinni.
Þegar allt framangreint er virt verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda, en hann hefur þegar greitt hæfilegar bætur samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu þegar litið er til þess að stefnandi höfðar málið eftir að hafa aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna.
Af hálfu stefnanda flutti málið Hulda Árnadóttir hdl. og af hálfu stefnda flutti málið Reynir Karlsson hrl.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vegagerðin, er sýkn af kröfum stefnanda, Ómars Antonssonar.
Málskostnaður fellur niður.